Hoppa yfir valmynd

Malaví

Almennt

Malaví er í suðausturhluta Afríku og á landamæri að Mósambík, Sambíu og Tansaníu.  Helsta einkenni þess er Malaví vatn sem nær yfir fimmtung landsins, en samtals er flatarmál Malaví  um 120 þúsund ferkílómetrar. Landið er eitt það þéttbýlasta í Afríku með um 18 milljónir íbúa og jafnframt meðal fátækustu landa í heimi. Fjölbreytt náttúra einkennir landið, með hásléttum og gróðursælu láglendi. Malaví er frjósamt og mikill meirihluti landsmanna lifir af landbúnaði.  Tóbaks,  te- og bómullarrækt til útflutnings, en maís, kassavarót og hrísgrjón eru helstu matvælategundirnar sem ræktaðar eru til neyslu innanlands. 

Efst á baugi 

Ísland og Malaví hafa starfað saman á sviði þróunarsamvinnu í 30 ár. Í tvíhliða þróunarsamvinnu starfar Ísland með Malaví á héraðsstigi en einnig með stofnunum Sameinuðu þjóðanna og félagasamtökum. Meginþungi starfsins felst í þróunarsamvinnuverkefnum með héraðsstjórninni í Mangochi-héraði þar sem íbúar eru um 1,2 milljónir. Áherslur snúa að grunnþjónustu, að draga úr mæðra- og ungbarnadauða, auka gæði grunnskólamenntunar, bæta aðgengi að drykkjarhæfu vatni og koma upp viðunandi salernisaðstöðu. Einnig er unnið að efnahagslegri valdeflingu kvenna og ungmenna og styrkingu héraðsstjórnarinnar.

Opnun nýrrar fæðingardeildar við héraðssjúkrahúsið í Mangochi-bænum markar tímamót í starfsemi héraðssjúkrahússins. Utanríkisráðherra opnaði fæðingardeildina formlega í ársbyrjun 2019 ásamt heilbrigðisráðherra Malaví. Á lóð fæðingardeildarinnar er einnig miðstöð ungbarna- og mæðraverndar. Af öðrum helstu viðburðum síðustu missera má nefna opnun sex fæðingardeilda og biðskýla fyrir barnshafandi konur í sveitum héraðsins. Á árinu voru afhentar fimm sjúkrabifreiðar til héraðsins sem meðal annars nýtast konum í barnsnauð. Árangur síðustu ára er góður, til dæmis hefur dauðsföllum af völdum barnsburðar fækkað um 40% frá 2012 til 2017. Á árinu voru byggðar 72 kennslustofur auk skrifstofuhúsnæðis við skólana 12 sem njóta stuðnings. Árangurinn telst góður. Frá upphafi samstarfsins hefur brottfall barna úr grunnskólunum dregist saman um 60% og nemendum fjölgar sem ná góðum árangri á lokaprófum. Alls eru 25 þúsund nemendur í skólunum 12, um tvöfalt fleiri en í öllum grunnskólum Reykjavíkur. Enn fremur er búið að koma tveimur leikskólum af stað, en miklar vonir eru bundnar við að stuðningur við leikskóla hjálpi börnum á ýmsan hátt til frambúðar.

Teknir voru í notkun 94 vatnspóstar á árinu. Um 16 þúsund manns hafa því bætt aðgengi að drykkjarhæfu vatni. Unnið var með mörgum samfélögum á árinu til að bæta vitund fólks um hreinlæti og mikilvægi salerna. Tvö samfélög hlutu vottun heilbrigðisyfirvalda um að öll heimili hefðu aðgang að salerni og aðstöðu til handþvotta. Bætt hreinlæti hefur dregið úr niðurgangspestum og engin tilfelli kóleru hafa komið upp frá 2016. Á árinu var unnið með Action Aid-samtökunum í herferðinni 50:50 til að auka stjórnmálaþátttöku kvenna í Mangochi-héraði fyrir næstu þing- og sveitarstjórnarkosningar sem haldnar verðar 19. maí 2019. Aðeins tvær konur eru á þingi frá héraðinu og engin kona situr í núverandi sveitarstjórn. Enn fremur var brotið blað í jafnréttisumræðunni í Malaví með tveimur svokölluðum rakarastofum (e. Barbershop) sem haldnar voru í nóvember í tilefni fullveldisafmælis Íslands.

Lögð er áhersla á að nýta sérþekkingu ýmissa alþjóðastofnana í Malaví, svo sem bólusetningarsjóðsins GAVI (Vaccine Alliance), Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna (World Food Programme, WFP), Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna (United Nation Population Fund, UNFPA) og UN Women (The United Nations Entity for Gender Equality and the Empowerment of Women), til að styðja enn frekar við framþróun í Mangochi-héraði. Íbúum Malaví hefur fjölgað á síðustu átta árum um 35% en í manntali frá síðastliðnu hausti kom í ljós að íbúafjöldinn stendur í rúmlega 17,5 milljónum. Hagstofan í Malaví ásamt UNFPA leiddi framkvæmd manntalsins. Ísland styður við verkefnið og sá stuðningur nýtist við úrvinnslu gagna og uppsetningu gagnamiðlunarkerfis. Núverandi samstarfsáætlun við Malaví rennur út í árslok 2019 og undirbúningur að nýrri áætlun er hafinn.

 

2015 Ný fæðingardeild í Mangochi

Í byrjun árs 2016 opnar ný og glæsileg mæðradeild í Mangochibænum í Malaví sem gerbreytir aðstöðu mæðra í héraðinu. Bygging deildarinnar er veigamesti þátturinn í lýðheilsuverkefni sem Íslendingar styðja í samstarfi við héraðsyfirvöld.

2013 - Aðgengi að vatni

Fylgst er með konum úr Mwatakat þorpinu en þær horfa til brjartari tíma því fari allt að vonum styttist fljótlega leiðin fyrir þær að heilnæmu vatni. Það er verið að bora í grennd við þorpið þeirra, stórvirkur bor er kominn niður á 37 metra og fer dýpra í leit að vatni en þessi framkvæmd er hluti af vatns- og hreinlætisverkefninu - að bæta aðgengi íbúa Mangochi héraðs að drykkjarvatni og jafnframt að bæta hreinlætisvenjur.

2013 - Vatn og lífskjör

Þróunarsamvinnustofnun Íslands vinnur með héraðsstjórninni í Mangochi í Malaví að því að bæta vatns- og hreinlætismál í héraðinu. Einn hreppur stendur höllum fæti í samanburði við aðra og þar verður lögð áhersla á að bora eftir drykkjarvatni. Í myndbrotinu er rætt við Levi Soko verkefnisfulltrúa ÞSSÍ sem segir árangursríkasta verkefni Íslendinga í Malaví einmitt vera á þessu sviði.

2012 - Mangochi í Malaví

Mangochi hérað er samstarfsvettangur Íslendinga í tvíhliða þróðunarsamvinnu í Malaví. Í þessu kvikmyndabroti er fjallað um Mangochi bæinn sem áður hét Fort Johnston og rifjuð upp tengslin við skoska landkönnuðinn og lækninn David Livingstone. Litið er inn á safninu um Malavívatn.

2012 - Verk að vinna

Menntaverkefni í Mangochi í samstarfi héraðsyfirvalda og Þróunarsamvinnustofnunar Íslands.

Frá verkefnum í Malaví

Stefán Jón Hafstein, umdæmisstjóri ÞSSÍ í Malaví hefur sett saman stutt myndband sem sýnir frá helstu verkefnum stofnunarinnar í Malaví. 

Tvíhliða þróunarsamvinna

Síðast uppfært: 24.11.2021
Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira