Hoppa yfir valmynd

Malaví

Almennt

Malaví er í suðausturhluta Afríku og á landamæri að Mósambík, Sambíu og Tansaníu.  Helsta einkenni þess er Malaví vatn sem nær yfir fimmtung landsins, en samtals er flatarmál Malaví  um 120 þúsund ferkílómetrar. Landið er eitt það þéttbýlasta í Afríku með um 18 milljónir íbúa og jafnframt meðal fátækustu landa í heimi. Fjölbreytt náttúra einkennir landið, með hásléttum og gróðursælu láglendi. Malaví er frjósamt og mikill meirihluti landsmanna lifir af landbúnaði.  Tóbaks,  te- og bómullarrækt til útflutnings, en maís, kassavarót og hrísgrjón eru helstu matvælategundirnar sem ræktaðar eru til neyslu innanlands. 

Efst á baugi 

Í Malaví var, eins og undanfarin ár, unnið með héraðsstjórnvöldum í Mangochi-héraði að því að bæta grunnþjónustu fyrir íbúa héraðsins. Undirritað hefur verið samkomulag um nýjan áfanga í verkefnastoðinni fyrir tímabilið 2017-2021. Markmiðið er að bæta lífsafkomu og aðstæður í dreifbýli í héraðinu. Helstu verkþættir eru uppbygging í heilbrigðismálum, með áherslu á mæðra- og ungbarnaheilsu og fjölskylduáætlanir; uppbygging í grunnskólum, með áherslu á yngsta aldursstigið; uppbygging í vatns- og hreinlætismálum og loks bætt tækifæri kvenna og ungmenna, með áherslu á þjálfun og efnahagslega valdeflingu sem er nýtt áherslusvið.

Í lýðheilsuþætti verkefnastoðarinnar gengu framkvæmdir vel á sl. ári. Ný fæðingardeild á héraðssjúkrahúsinu í Mangochi er nánast tilbúin og einnig fjórar smærri fæðingardeildir í dreifbýli. Góður árangur hefur náðst á undanförnum árum í mæðra- og ungbarnaheilsu, ekki síst benda tölfræðilegar upplýsingar til að verulega hafi dregið úr mæðradauða. Framgangur í vatns- og salernishlutanum var einnig góður á árinu. Sérstök áhersla var lögð á salernishlutann og fengu fyrstu þorpin í héraðinu svokallaða ODFvottun (e. Open Defecation Free) sem felur í sér staðfestingu á að allir í þorpinu hafi aðgang að viðunandi salernisaðstöðu. Almennt tókst að ljúka við þá verkþætti sem á áætlun voru fyrir árið og gengið var frá útboðum fyrir geirann fyrir næsta ár. Í menntahlutanum var lokið við skólabyggingar og kennarahús fyrir 12 skóla. Kennarar og skólastjórnendur fengu þjálfun og kennslugögn og búnaður var keyptur. Mæðrahópar voru virkir við skólana en tilgangur þeirra er að styðja við stúlkur, einkum unglingstúlkur, svo að þær hverfi síður úr skóla.

Í desember 2017 var undirritað samkomulag við Matvælaáætlun SÞ (e. World Food Programme, WFP) um stuðning við skólamáltíðir í Malaví fyrir tímabilið 2017-2021. Ísland og WFP hafa síðan 2012 haft með sér samstarf um heimaræktaðar skólamáltíðir í nokkrum grunnskólum í Mangochi-héraði. Nú bætast fleiri skólar í hópinn, og munu nemendur allra þeirra 12 grunnskóla, sem fá stuðning í gegnum héraðsverkefnið, fá mat í skólanum. Loks var veittur stuðningur til Mannfjöldastofnunar SÞ (e. UN Populations Fund, UNFPA) til að byggja upp aðstöðu á Mulanje-sjúkrahúsi fyrir konur sem þjást af fistúlu.

Verkefni í Malaví 

 

2015 Ný fæðingardeild í Mangochi

Í byrjun árs 2016 opnar ný og glæsileg mæðradeild í Mangochibænum í Malaví sem gerbreytir aðstöðu mæðra í héraðinu. Bygging deildarinnar er veigamesti þátturinn í lýðheilsuverkefni sem Íslendingar styðja í samstarfi við héraðsyfirvöld.

2013 - Aðgengi að vatni

Fylgst er með konum úr Mwatakat þorpinu en þær horfa til brjartari tíma því fari allt að vonum styttist fljótlega leiðin fyrir þær að heilnæmu vatni. Það er verið að bora í grennd við þorpið þeirra, stórvirkur bor er kominn niður á 37 metra og fer dýpra í leit að vatni en þessi framkvæmd er hluti af vatns- og hreinlætisverkefninu - að bæta aðgengi íbúa Mangochi héraðs að drykkjarvatni og jafnframt að bæta hreinlætisvenjur.

2013 - Vatn og lífskjör

Þróunarsamvinnustofnun Íslands vinnur með héraðsstjórninni í Mangochi í Malaví að því að bæta vatns- og hreinlætismál í héraðinu. Einn hreppur stendur höllum fæti í samanburði við aðra og þar verður lögð áhersla á að bora eftir drykkjarvatni. Í myndbrotinu er rætt við Levi Soko verkefnisfulltrúa ÞSSÍ sem segir árangursríkasta verkefni Íslendinga í Malaví einmitt vera á þessu sviði.

2012 - Mangochi í Malaví

Mangochi hérað er samstarfsvettangur Íslendinga í tvíhliða þróðunarsamvinnu í Malaví. Í þessu kvikmyndabroti er fjallað um Mangochi bæinn sem áður hét Fort Johnston og rifjuð upp tengslin við skoska landkönnuðinn og lækninn David Livingstone. Litið er inn á safninu um Malavívatn.

2012 - Verk að vinna

Menntaverkefni í Mangochi í samstarfi héraðsyfirvalda og Þróunarsamvinnustofnunar Íslands.

Frá verkefnum í Malaví

Stefán Jón Hafstein, umdæmisstjóri ÞSSÍ í Malaví hefur sett saman stutt myndband sem sýnir frá helstu verkefnum stofnunarinnar í Malaví. 

Tvíhliða þróunarsamvinna

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira