Hoppa yfir valmynd

Úganda

Almennt

Úganda er hálent land í miðri austur Afríku. Landið er 240 þús ferkílómetrar að stærð og landamærin liggja að Súdan, Lýðræðislega lýðveldinu Kongó (DRC), Rúanda, Tansaníu og Kenía.

Efst á baugi

Í Úganda er starfað með héraðsyfirvöldum í tveimur héruðum landsins, Kalangala og Buikwe. Það fyrrnefnda er eyjasamfélag í Viktoríuvatni en það síðarnefnda liggur að norðurströnd vatnsins. Í báðum héruðunum eru stundaðar fiskveiðar og beinist stuðningur Íslands einkum að þorpum þar sem fiskveiðar eru mikilvægur atvinnuvegur. Samstarfið felst í því að styðja héraðsyfirvöld við að framkvæma áætlanir sínar um byggðaþróun í viðkomandi héraði.

Í Kalangala hófst stuðningur Íslands skömmu eftir síðustu aldamót. Nú er nær eingöngu unnið að menntamálum, fyrst og fremst að uppbyggingu grunnskóla og framhaldsskóla, en áætlað er að samstarfinu við Kalangala ljúki á næsta ári.

Í Buikwe beinist starfið að tveimur málaflokkum, annars vegar menntun og hins vegar vatns- og salernismálum. Byggingar á skólastofum og aðrir verkþættir í menntaverkefninu gengu samkvæmt áætlun og sömu sögu má segja af vatnsveitum. Í samstarfi við yfirvöld er verið að þróa rekstrarkerfi fyrir vatnsveiturnar í héraðinu. Kerfið verður rafrænt sem gerir reksturinn hagkvæmari en þegar greitt er með reiðufé líkt og áður var gert. Í Buikwe hafa orðið miklar framfarir í menntamálum á síðustu árum eftir að Íslendingar hófu stuðning við héraðsstjórnina í þessum málaflokki. Árið 2017 luku 75,5% nemenda lokaprófi úr grunnskóla samanborið við 40% árið 2011. Brottfall úr skóla hefur einnig minnkað umtalsvert eftir að stuðningur hófst. Náms-umhverfi hefur verið bætt í fjölmörgum skólum og nemendur þurfa ekki lengur að sitja utandyra, undir trjám, eins og áður tíðkaðist. Nemendum hefur fjölgað í mörgum skólum og foreldrar hafa sýnt aukinn áhuga á samstarfi við skóla barna sinna. Til dæmis hafa foreldrar tekið að sér skólamötuneyti og fylgjast nú spenntir með skólastarfinu. Auk nýrra skólastofa og kennaraíbúða felast kaup á kennslubókum og íþróttavörum einnig í stuðningnum. Skólastjórnendur og kennarar tala um verulegar framfarir nemenda bæði í bóklegu námi og íþróttum og þakka íslenskum stuðningi árangurinn.

Í norðurhluta Úganda eru um 1,3 milljónir flóttamanna, flestir frá nágrannaríkinu Suður-Súdan. Þorri þeirra eru konur og börn. Í desember síðastliðnum var skrifað undir samning við UNICEF um uppsetningu sólardrifinna vatnsveitna fyrir heilsugæslustöðvar og skóla á einu svæði flóttamanna. Um er að ræða nýmæli því að verkefnið samþættir aðstoð við flóttafólk og heimafólk. Þótt alþjóðasamfélagið leggi áherslu á samþættingu þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoðar eru þess háttar verkefni fátíð. Eftir eitt ár verður metið hvernig til hefur tekist og hvort halda eigi stuðningi áfram.

Samstarfsáætlun við Úganda lýkur í árslok 2019. Þarlend stjórnvöld hafa óskað eftir áframhaldandi samstarfi og undirbúningur er hafinn af Íslands hálfu.

Myndbönd frá Úganda

2013 - Buikwe: Nýtt samstarfshérað í Úganda

Buikwe er nýtt samstarfshérað Íslendinga í Úganda. Í þessu kvikmyndabroti er litast um í héraðinu og rætt við Gísla Pálsson umdæmisstjóra ÞSSÍ í Úganda og Maurice Ssebisubi verkefnisfulltrúa.

2013 - Fiskimannaþorp í Buikwe

Heimsókn í tvö fiskimannaþorp í Buikwe héraði í Úganda en Þróunarsamvinnustofnun Íslands er að hefja samstarf við héraðsstjórnina með áherslu á stuðning við samfélög fiskimanna.

2013 - Kalangala

Heimsókn út í Ssese eyjar á Viktoríuvatni þar sem Íslendingar hafa stutt héraðsþróunaráætlun Kalangala héraðs. Rætt er við héraðsstjórann og skólastjóra grunnskólans á stærstu eyjunni.

Tvíhliða þróunarsamvinna

Síðast uppfært: 24.11.2021
Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira