Hoppa yfir valmynd

Úganda

Almennt

Úganda er hálent land í miðri austur Afríku. Landið er 240 þús ferkílómetrar að stærð og landamærin liggja að Súdan, Lýðræðislega lýðveldinu Kongó (DRC), Rúanda, Tansaníu og Kenía.

Efst á baugi

Í Úganda er starfað með héraðsstjórnvöldum í tveimur héruðum landsins, Kalangala og Buikwe. Það fyrrnefnda er eyjasamfélag í Viktoríuvatni en það síðarnefnda um miðbik landsins við Viktoríuvatn. Í báðum héruðunum eru stundaðar fiskveiðar og er stuðningi Íslands einkum beint að þorpum þar sem fiskveiðar eru mikilvægur atvinnuvegur. Samstarfið felst í því að styðja héraðsstjórnvöld við að framkvæma áætlanir sínar um byggðaþróun í viðkomandi héraði. Samstarfið í Buikwe-héraði hvílir á áætlun fyrir tímabilið 2014-2019 og beinist að tveimur málaflokkum, grunnmenntun og vatns- og salernismálum.

Í menntaþættinum er unnið samkvæmt verkefnisskjali fyrir tímabilið 2016-2019 að auknu aðgengi og bættum gæðum grunnskólamenntunar í byggðakjörnum sem samtals hafa um 50.000 íbúa. Framkvæmdir við verkefnið gengu vel á síðasta ári, aðbúnaður nemenda og kennara hefur batnað og nemendum fjölgað. Lítil hliðarverkefni voru einnig undirbúin og framkvæmd, þar á meðal samstarf um orkusparandi skólaeldhús og að veita unglingsstúlkum stuðning vegna blæðinga til að draga úr fjarveru þeirra frá skóla. Í vatns- og salernisþættinum er unnið samkvæmt verkefnisskjali fyrir tímabilið 2015-2019. Mikill skortur er á aðgengi að heilnæmu vatni í héraðinu og eru fiskveiðiþorpin þar sérstaklega illa sett. Framkvæmdir gengu ágætlega á sl. ári, útfærslur á vatnsdreifikerfum voru samþykktar og sú nýjung tekin upp að setja upp vatnssjálfssala í þorpunum þar sem þorpsbúar geta sótt sér vatn gegn vægu gjaldi.

Í Kalangalahéraði er unnið með héraðsstjórnvöldum samkvæmt verkefnisskjali sem gildir til loka 2019. Stuðningur við héraðið beinist nú orðið eingöngu að uppbyggingu grunnskóla og miðskóla og hafa framkvæmdir gengið nokkuð vel. Samningur um átak í kennaramenntun var gerður á árinu og tilraunir í verkmenntakennslu útfærðar. Í Kalangala er fylgt áætlun um orkusparandi hlóðir í skólaeldhúsum en talið er að eldiviðarbrennsla geti minnkað um 50% í hverjum skóla.

Í Úganda eru um 1,3 milljónir flóttamanna sem flestir koma frá nágrannaríkinu Suður-Súdan. Mjög stór hluti þeirra eru konur og börn. Gert er ráð fyrir að alþjóðasamfélagið muni þurfa að veita mannúðaraðstoð í Úganda til langs tíma og eru uppi fyrirætlanir um að samþætta þar stuðning Íslands á sviði mannúðar og þróunarsamvinnu með því að beina aðstoð til viðtökubyggða flóttamanna.

Verkefni í Úganda

Myndbönd frá Úganda

2013 - Buikwe: Nýtt samstarfshérað í Úganda

Buikwe er nýtt samstarfshérað Íslendinga í Úganda. Í þessu kvikmyndabroti er litast um í héraðinu og rætt við Gísla Pálsson umdæmisstjóra ÞSSÍ í Úganda og Maurice Ssebisubi verkefnisfulltrúa.

2013 - Fiskimannaþorp í Buikwe

Heimsókn í tvö fiskimannaþorp í Buikwe héraði í Úganda en Þróunarsamvinnustofnun Íslands er að hefja samstarf við héraðsstjórnina með áherslu á stuðning við samfélög fiskimanna.

2013 - Kalangala

Heimsókn út í Ssese eyjar á Viktoríuvatni þar sem Íslendingar hafa stutt héraðsþróunaráætlun Kalangala héraðs. Rætt er við héraðsstjórann og skólastjóra grunnskólans á stærstu eyjunni.

Tvíhliða þróunarsamvinna

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira