Hoppa yfir valmynd

TiSA samningaviðræðurnar

Markmið viðræðna um aukið frelsi í þjónustuviðskiptum (Trade in Services Agreement, TiSA) er að auðvelda milliríkjaviðskipti með þjónustu og auka gegnsæi í slíkum viðskiptum. Ísland, ásamt fimmtíu öðrum ríkjum, tekur þátt í samningaviðræðunum en þar á meðal eru aðildarríki ESB, Bandaríkin, Kanada, Noregur, Sviss, Japan o.fl.. Samningurinn mun byggja á gildandi samningum (GATS reglum) og fjalla m.a. um fjármálaþjónustu, fjarskipta- og upplýsingatækni, för þjónustuveitenda og rafræn viðskipti. Viðræðurnar eru formlega utan WTO en vonast er til að fleiri aðildarríki WTO gerist aðilar að TiSA-samningnum þegar fram í sækir. 

Þjónustuviðskipti og TiSA

Þjónustuviðskipti er ört vaxandi geiri í alþjóðaviðskiptum og utanríkisviðskiptum Íslands. Síðustu ár hefur þróun útflutnings á þjónustu hér á landi verið mjög hagstæð og eru þjónustuviðskipti í dag í kringum 36 prósent af heildarviðskiptum Íslands við umheiminn.

Samkvæmt bráðabirgðatölum frá Hagstofu var útflutningur á þjónustu 416,6 milljarðar á árinu 2013 en innflutningur á þjónustu 354,2 milljarðar. Þjónustujöfnuður við útlönd á árinu 2013 var því jákvæður um 62,4 milljarða en var jákvæður um 26,3 milljarða á árinu 2012 á gengi hvors árs. Aukninguna í þjónustuútflutningi má m.a. rekja til vaxtar i í ferðaþjónustu að undanförnu eins og birst hefur t.d. í tölum um fjölda erlendra ferðamanna hér á landi og gistinátta. Einnig hefur útflutningur á þjónustu á sviði sjóflutninga, arkitekta-, verkfræði-, vísinda- og annarri tækniþjónustu aukist á síðustu árum, sem og á lögfræði- og enduskoðunarþjónustu, viðskipta- og stjórnunarráðgjöf og almennatengsl. Innflutningur þjónustuviðskipta hefur aftur á móti dregist lítillega saman á síðustu misserum. Árið 2012 störfuðu 76% vinnandi fólks á sviði þjónustustarfsemi.

Hinn almenni samningur um þjónustuviðskipti (General Agreement on Trade in Services, GATS) gekk í gildi árið 1995 og er hann fyrsti og eini alþjóðlegi samningurinn um þjónustuviðskipti. Frá árinu 2001 hafa staðið yfir viðræður meðal aðildarríkja Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (Doha) til að auka enn frekar frelsi í heimsviðskiptum, m.a. þónustuviðskiptum. Í tengslum við Doha viðræðurnar lagði Ísland fram endurskoðað GATS tilboð árið 2005. Þær samningaviðræður hafa legið niðri um nokkurt skeið og því ekki reynt á endurskoðað tilboð Íslands.

Í dag eru yfirstandandi samningaviðræður um nýjan marghliða samning um aukið frelsi í þjónustuviðskiptum(Trade in Services Agreement, TiSA). Ísland tekur þátt í þessum viðræðum ásamt á fimmtíu öðrum ríkjum. Í þessum hópu eru m.a. hin EFTA-ríkin, aðildarríki Evrópusambandsins, Bandaríkin, Kanada og Japan, svo nokkur helstu markaðssvæði íslenskra fyrirtækja séu nefnd. Öll þau aðildarríki Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar sem deila því markmiði að vilja draga úr takmörkunum á viðskiptum með þjónustu sín á milli geta tekið þátt í viðræðunum og standa vonir til þess að fleiri ríki muni gerast aðilar að samningnum þegar viðræðunum lýkur.

Ísland hefur einnig átt í viðræðum á þessu sviði í tvíhliða fríverslunarviðræðumsem og á vettvangi EFTA. Frá aldamótum hefur vægi þjónustuviðskipta verið ört vaxandi þáttur í fríverslunarviðræðum EFTA og innihalda flestir af nýlegri samningum EFTA ríkjanna ákvæði um þjónustuviðskipti. EFTA-ríkin vinna nú að því að uppfæra ýmsa af eldri fríverslunarsamningum sínum, m.a. við Tyrkland og Kanada, með það að markmiði að þeir taki einnig til þjónustuviðskipta.

Ávallt er unnið innan gildandi lagaramma hér á landi í samningaviðræðum um þjónustuviðskipti.

Sjá einnig:

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira