Hoppa yfir valmynd

Spurt og svarað um TiSA

Markmið viðræðna um aukið frelsi í þjónustuviðskiptu

GATS-samningur WTO um þjónustuviðskipti tók gildi á árinu 1995 og eru því 20 ár liðin frá gildistöku hans. Ljóst er að miklar breytingar hafa orðið á umhverfi þjónustuviðskipta frá þeim tíma sem kalla á það að efni samningsins verði uppfært. Þannig hefur löggjöf margra ríkja WTO hvað varðar umhverfi þjónustuviðskipta færst í frjálslyndari átt og dregið úr hömlum við þjónustuviðskiptum yfir landamæri. Jafnframt hafa fjölmörg aðildarríki WTO gert fríverslunarsamninga sín á milli á þessu tímabili þar sem dregið er úr takmörkunum í vegi milliríkjaviðskipta með þjónustustarfsemi umfram það sem GATS-samningurinn mælir fyrir um. Því er svigrúm fyrir aðildarríki WTO til að skuldbinda sig gagnvart öðrum aðildarríkjum til að opna markaði sína gagnvart erlendum þjónustuveitendum umfram það sem gert var í GATS-samningnum. Þá kalla tæknilegar framfarir, m.a. í rafrænum viðskiptum, og breyttir viðskiptahættir, m.a. á sviði fjarskiptaþjónustu, á endurskoðun samningstexta GATS-samningsins.

Lítið hefur hins vegar þokast í samningaviðræðum á vettvangi WTO á undanförnum árum um endurskoðun GATS-samningsins og ljóst að mörg ríkja WTO voru ekki reiðubúin til að hefja slíka endurskoðun og kom andstaða þeirra í veg fyrir að hægt yrði að hefja endurskoðun samningsins á vettvangi WTO.

Af þeim sökum ákvað hluti aðildarríkja WTO, þ.e. þau ríki sem voru áfram um að frelsi í þjónustuviðskiptum yrði aukið, að hefja viðræður um samning sín á milli, utan vettvangs WTO, um aukið frelsi á sviði þjónustuviðskipta.

Í TiSA-viðræðunum er byggt á texta GATS-samningsins sem grundvelli fyrir texta hins nýja samnings. Vonast er til þess að þeir aðilar WTO sem ekki eru þátttakendur í TiSA-viðræðunum gerist aðilar að samningnum á síðari stigum og að samningurinn verði hluti að samningstextum WTO.

Nei, það er ekki vissa fyrir því.

Í TiSA-viðræðunum er byggt á texta GATS-samningsins sem grundvelli fyrir texta hins nýja samnings. Þannig verða mörg af lykilákvæðum GATS-samningsins tekin upp í TiSA-samninginn. Þetta fyrirkomulag mun auðvelda ríkjum WTO, sem ekki taka þátt í TiSA-viðræðunum, að gerast aðili að samningnum á síðari stigum með því að uppfæra skuldbindingaskrár sínar með sambærilegum hætti og TiSA-ríkin gera. Jafnframt auðveldar þetta að gera TiSA-samninginn síðar meir hluta af reglum WTO. En til þess að svo verði þurfa öll aðildarríki WTO að samþykkja slíka breytingu og á þessari stundu er alls óvíst hvort til þess muni koma.

Nei. Þótt viðræður um gerð viðskiptasamninga fari ekki fram fyrir opnum tjöldum, hvílir heldur ekki yfir þeim sérstök leynd.

Hvað varðar birtingu tillagna einstakra ríkja að samningstextum þá fylgja íslensk stjórnvöld þeirri stefnu að birta ekki opinberlega tillögur annarra samningsaðila. Þær tillögur sem Ísland leggur fram eru hins vegar aðgengilegar.

Sérfræðingar utanríkisráðuneytisins sem taka þátt í TiSA-viðræðunum fyrir Íslands upplýsa og hafa náið samráð við önnur ráðuneyti varðandi hvert það mál sem undir viðkomandi ráðuneyti heyrir.

Einnig er utanríkismálanefnd Alþingis upplýst um framgang viðræðnanna. Þá eru hagsmunasamtök upplýst um framgang mála og upplýsingafundir haldnir eftir því sem tilefni þykir til.

Því hefur verið haldið fram að í tillögu að viðauka um orkutengda þjónustu, sem Ísland ásamt Noregi hefur lagt fram í viðræðunum, felist að öll form orku séu gerð jöfn og að kjörnir fulltrúar geti ekki valið endurnýjanlega orku fram yfir óendurnýjanlega orku.

Í því sambandi er rétt að taka fram að umræddri tillögu er ekki ætlað að hafa áhrif á það hvaða orkugjafa einstök ríki kjósa að vinna og nýta. Í tillögunni, nánar tiltekið 5. gr. hennar, er tekið skýrt fram að aðilar viðurkenni fullt forræði einstakra ríkja yfir orkuauðlindum. Jafnframt að hver aðili fyrir sig hafi fullan rétt til að ákvarða hvaða landsvæði verði nýtt fyrir rannsóknir, þróun og nýtingu orkuauðlinda.

Í stuttu máli má segja að tillögunni er ekki ætlað að takmarka með neinum hætti hvaða reglur einstök ríki setja varðandi það hvort eða hvaða orkuauðlindir skuli nýttar. Hafi viðkomandi ríki hins vegar tekið ákvörðun um að nýta tiltekna orkuauðlind gerir tillagan ráð fyrir því að veittar verði opnanir á það að þjónustuveitendur frá hinum TiSA-ríkjunum fái möguleika, með sama hætti og innlendir aðilar, á að bjóða fram þjónustu sína á þeim tilgreindu sviðum þjónustu sem talin eru upp í tillögunni.

Markmið viðaukans er að aðgreina orkutengda þjónustu frá aðgangi að orkuauðlindum í texta og skuldbindingaskrám samningsins og gera þar með einstökum TiSA-ríkjum kleift að takast á hendur ríkari skuldbindingar en ella um markaðsaðgang fyrir orkutengda þjónustu. Slíkt kann að skipta verulegu máli fyrir rekstrarumhverfi íslenskra fyrirtækja í orkugeiranum á erlendri grund.

Enda þótt ekki sé enn farið að ræða ákvæði um afleiðingar vanefnda og lausn ágreiningsmála í TiSA-viðræðunum er ekki ástæða til að ætla annað en að ákvæði samningsins að þessu leyti verði sambærileg og í GATS og í fríverslunarsamningum almennt.  Því má gera ráð fyrir því að verði ríki talið hafa brotið gegn skuldbindingum sínum samkvæmt samningnum, verði það einungis krafið um efndir á skuldbindingum samkvæmt samningnum og, verði það ekki við því, geti það þurft að sæta því að ríki, sem borið hefur fram kvörtun, dragi hluta af sinni skuldbindingu til baka gagnvart viðkomandi ríki. Hins vegar yrði ekki um að ræða skaðabótaskyldu á neinu formi vegna vanefnda.

Orkutengd þjónusta er skilgreind í tillögu Íslands og Noregs sem sérhæfð þjónusta við fyrirtæki sem starfa m.a. á sviði orkuframleiðslu og dreifingu orku. Hér er því átt við þau fyrirtæki, verktaka og undirverktaka, sem veita orkufyrirtækjunum, t.d. virkjunum og dreifingaraðilum, þjónustu en sjá ekki sjálf um slíka grunnþætti í orkuframleiðslu. Því er skýrt tekið fram í viðaukanum að eignarhald á auðlindum og stjórn orkuauðlinda er fyrir utan gildissviðs tillögunnar. Á allra síðustu árum hefur verkefnum íslenskra fyrirtækja á sviði endurnýjanlegra orkugjafa fjölgað mikið og vaxandi hluti tekna þeirra koma frá erlendum verkefnum víðsvegar að úr heiminum. Hér má nefna sem dæmi íslenskar verkfræði- og arkítektastofur sem sjá m.a. um að kanna möguleika á nýtingu jarðhita, hönnun virkjana og fleira.

Ekki er til nein almenn skilgreining á því hvað fellur undir hugtakið þjónustuviðskipti, heldur er stuðst við 160 skilgreinda þjónustuflokka ( W/120 listi WTO). Gerður er greinarmunur á því með hvaða hætti þjónustan er veitt og er þar að jafnaði notast við aðgreiningu GATS-samningins (samningur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) um þjónustuviðskipti), sem greinir þjónustuviðskipti í eftirtalda „hætti“ :

Háttur 1: „Cross-border supply“ – Þjónusta sem veitt er yfir landamæri. Í þessu felst að þjónusta er veitt án þess að sá sem innir þjónustuna að hendi (þjónustveitandi) eða sá sem þiggur þjónustuna (þjónustuneytandi) fari á milli landa. Hér má nefna sem dæmi ráðgjöf sem veitt er í gegnum síma.

Háttur 2: „Consumption abroad“ – Þjónustuneytandi fer til annars lands þar sem þjónustan er veitt. Gott dæmi um þjónustu undir hætti 2 er ferðaþjónustan, t.d. ferðamaður sem dvelur á hóteli annars staðar en í heimalandi sínu.

Háttur 3: „Commercial presence“ – Þjónustuveitandi kemur á fót viðskiptanærveru (starfsstöð/útibú) í landi þar sem þjónustan er veitt, þ.e. ekki í heimalandi þjónustuveitandans. Sem dæmi má t.d. nefna bankaútibú erlends aðila eða erlendar fjárfestingar í fyrirtækjum á Íslandi sem veita tengda þjónustu.

Háttur 4:„Presence of natural persons“ – Þjónusta starfsmanns þjónustuveitanda frá öðru landi (sem t.d. hefur opnað útibú sbr. hátt 3) eða sjálfstætt starfandi þjónustuveitendur sem sinna tímabundið sérhæfðri þjónustu í öðru landi. Sem dæmi má nefna stjórnendur og lykilstarfsmenn erlends fyrirtækis sem flytjast tímabundið til annars lands þar sem útibú fyrirtækisins er, svo og sérhæfða starfsmenn sem sinna tímabundinni uppsetningu á tækjum eða viðhaldi utan heimalands síns.

 Hvað varðar skuldbindingar um innlenda meðferð (e. „National Treatment“), þá ber samningsaðilum að  byggja þær á núgildandi löggjöf sinni, þ.e. þeir mega ekki áskilja sér rétt til mismununar milli innlendra og erlendra þjónustuveitenda umfram það sem núverandi löggjöf þeirra kveður á um. Þetta fyrirkomulag hefur verið nefnt „standstill“.

Í þeim tilvikum sem innlend löggjöf, er byggt hefur verið á við setningu fyrirvara um mismunun í skuldbindingaskrá, verður afnumin, fellur fyrirvarinn í skuldbindingaskránni sjálfkrafa úr gildi. Eftir það verður viðkomandi ríki því óheimilt að beita mismunun innlendum þjónustuveitendum í hag. Þetta hefur verið nefnt „ratchet“.

Samningsaðilar geta undanskilið einstök svið eða „hætti“ þjónustuviðskipta (sjá svar við spurningu um hugtakið þjónustuviðskipti), sem eru viðkvæm eða ríki af öðrum ástæðum vilja ekki skuldbinda, frá skuldbindingum um „standstill“ og „ratchet“.

Í TiSA-viðræðunum leggur Ísland megináherslu á að ná sem bestum kjörum á erlendum mörkuðum fyrir íslensk fyrirtæki á sviði hátækni- og orkumála, upplýsinga- og tækniþjónustu, fagþjónustu (verkfræðingar, lögfræðingar, arkítektar, o.fl.), ferðaþjónustu og á sviði alþjóðlegra sjóflutninga. Á sviði orkumála hafa Ísland og Noregur lagt sameiginlega fram tillögu um viðauka um orkutengda þjónustu.

Hvað varðar tillögu Íslands að skuldbindingaskrá (eða tilboð) þá byggir það að mestu leyti á því tilboði sem lagt var fram í Doha-lotunni í WTO árið 2005. Þar er gert ráð fyrir því að sá markaðsaðgangur sem Ísland skuldbindi sig til að veita sé í samræmi við núverandi framkvæmd og kalli ekki á neinar lagabreytingar hér á landi.  Hvað varðar heimildir til handa erlendum starfsmönnum þjónustuveitanda til að sinna starfi tímabundið hér á landi (sjá nánar um „hátt“ 4 í svari við spurningu um hugtakið þjónustuviðskipti), þá felast í tilboði Íslands mjög óverulegar skuldbindingar, sem rúmast vel innan núverandi ákvæða laga um heimildir fyrir erlenda aðila til að starfa hér á landi. Í tilboði Íslands er ekki gert ráð fyrir neinum skuldbindingum á sviði heilbrigðisþjónustu og menntamála.

Í viðræðunum hefur Ísland lagt áherslu á að samningstextinn standi sem næst GATS, til að gera þeim ríkjum WTO sem ekki taka þátt í viðræðunum auðveldara að gerast aðili að samningnum á síðari stigum.

Utanríkisráðuneytið deilir ekki þessu mati sem hér er vísað til. Hins vegar sýna þessi sjónarmið mikilvægi þess að eiga það breiða samráð sem ráðuneytið hefur átt um framgang málsins og mun áfram eiga.

Í TiSA-viðræðunum hefur hópur ríkja tekið sig saman um að reyna á að liðka fyrir viðskiptum sín á milli á sviði þjónustu og draga úr hindrunum í slíkum viðskiptum. Hvert og eitt ríki ákveður hvaða markaðsaðgang það veitir byggt á gildandi innlendri löggjöf.

Skv. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 39/1971, um utanríkisþjónustu Íslands, annast utanríkisþjónustan í umboði forseta gerð samninga við önnur ríki. Í samræmi við það sækja sérfræðingar ráðuneytisins samningafundi TiSA og annast samningsgerðina af Íslands hálfu.

Eins og venja er um samningaviðræður af þessu tagi er þetta samstarfsverkefni utanríkisráðuneytis, fagráðuneyta og undirstofnanna þeirra auk fastanefndar Íslands í Genf. Þannig eru margar hendur sem koma að þessu verkefni, samhliða öðrum. Fundina hafa yfirleitt setið fulltrúi frá utanríkisráðuneytinu ásamt starfsmanni fastanefndarinnar í Genf. Gert er ráð fyrir þátttöku sérfræðinga úr fagráðuneytum í samningalotum þegar það á við.

Við mótun samningsafstöðu á einstökum sviðum þjónustuviðskipta leitar utanríkisráðuneytið til viðkomandi fagráðuneyta. Slíkt samstarf milli ráðuneytanna er afar mikilvægur þáttur í því að greina bæði íslenskt lagaumhverfi og hagsmuni Íslands á viðkomandi sviði.

Fulltrúar utanríkisráðuneytisins leitast við að upplýsa og gæta samráðs við utanríkismálanefnd Alþingis um framgang viðræðnanna. Jafnframt er leitast við að upplýsa hagsmunasamtök um viðræðurnar.

Gera má ráð fyrir því að gildissvið TiSA-samningsins verði hið sama og er skv. GATS-samningnum. Samningurinn mun því taka til allra sviða þjónustuviðskipta að undanskildum annars vegar flutningi á farþegum og farmi í flugi milli landa og hins vegar þjónustu sem einungis stjórnvöld veita s.s. löggæsla og framkvæmd dómsvalds.

Einstök ríki sem þátt taka í TiSA-viðræðunum munu jafnframt geta undanskilið sig skuldbindingum á tilteknum sviðum eða „háttum“ þjónustuviðskipta (sjá svar við spurningu um hugtakið þjónustuviðskipti), sem eru viðkvæm eða ríki af öðrum ástæðum vilja ekki skuldbinda. Í því tilboði, sem lagt hefur verið fram af Íslands hálfu í TiSA-viðræðunum, er þannig tekið fram að Ísland undirgangist engar skuldbindingar varðandi þjónustu sem annað hvort hið opinbera veitir eða sem telst til grunnþjónustu við almenning hér á landi. Sérstaklega er áréttað að Ísland takist ekki á hendur neinar skuldbindingar á sviðum heilbrigðistengdrar þjónustu,  félagslegrar þjónustu eða menntamála. 

Markmiðið með fyrirhuguðum er að greiða fyrir þjónustuviðskiptum milli þeirra ríkja sem taka þátt í viðræðunum með því að draga úr hindrunum á því að þjónustuveitandi í einu TiSA-ríkjanna geti veitt þjónustuna í hinum ríkjunum.

Samningurinn mun ná til sömu sviða þjónustuviðskipta og GATS-samningur WTO, þ.e. almennt til allra sviða þjónustuviðskipta að undanskildum annars vegar flutningi á farþegum og farmi í flugi milli landa og hins vegar þjónustu sem einungis stjórnvöld veita s.s. löggæsla og framkvæmd dómsvalds.

Í stórum dráttum má segja að efni TiSA-viðræðnanna sé tvíþætt: Annars vegar gangast einstök ríki í viðræðunum undir skuldbindingar um að veita erlendum þjónustuveitendum aðgang að markaði sínum og jafnframt um að tryggja jafnræði milli innlendra og erlendra þjónustuveitenda. Þessar skuldbindingar koma fram í svokölluðum skuldbindingaskrám sem hver samningsaðili fyrir sig leggur fram. Hins vegar er í viðræðunum fjallað um þau ákvæði sem verða í meginmáli og viðaukum samningsins. Þær reglur munu gilda með sama hætti fyrir alla aðila.

Eftirfarandi ríki eru þátttakendur í TiSA- viðræðunum: Ástralía, Bandaríkin, Chile, Costa Rica, ESB (28 ríki), Hong Kong, Ísland, Ísrael, Japan, Kanada, Colombia, Liechtenstein, Máritíus, Mexíkó, Noregur, Nýja-Sjáland, Pakistan, Panama, Perú, Suður-Kórea, Sviss, Taiwan og Tyrkland.

Í því tilboði, sem lagt hefur verið fram af Íslands hálfu í TiSA-viðræðunum, er gert ráð fyrir afar takmörkuðum skuldbindingum hvað varðar dvöl erlendra þjónustuveitenda hér á landi, sem rúmast vel innan núverandi lagareglna. Í því felast annars vegar tímabundnar heimildir fyrir tiltekna lykilstarfsmenn erlendra fyrirtækja  (stjórnendur og sérfræðinga) til að starfa hér á landi, og hins vegar heimildir fyrir fulltrúa erlendra þjónustuveitenda til skammtíma dvalar í tengslum við samningaviðræður um sölu á þjónustu sem ekki beinist að almenningi. Fyrrgreindar skuldbindingar eru bundnar skilyrðum um að íslenskum lagareglum um t.d. starfsleyfi, dvalarleyfi og tryggingarmál sé fylgt.

Ekki hefur verið sérstaklega rætt um það atriði í TiSA-viðræðunum. Hins vegar má gera ráð fyrir því að samningurinn verði birtur opinberlega í heild sinni í tengslum við undirritun hans.

Framsetning TiSA-samningsins á skuldbindingaskrá einstakra ríkja verður önnur en er í GATS-samningnum. Í stað þess að byggt verði á svokölluðum jákvæðum listum líkt og í GATS-samningnum er byggt á samblandi jákvæðs og neikvæðs lista (svokallað „hybrid approach“).

Skuldbindingar varðandi markaðsaðgang erlendra þjónustuveitenda verða settar fram með svokölluðum jákvæðum lista, með sama hætti og gert er í GATS-samningnum og almennt í fríverslunarsamningum EFTA. Í því felst að aðilar tilgreina sérstaklega á listanum þau svið þjónustuviðskipta þar sem skuldbindingar eru gefnar um opnun fyrir erlendri samkeppni.

Skuldbindingar varðandi innlenda meðferð (e. „National Treatment“), sem fela í sér skuldbindingu til að mismuna ekki á milli innlendra og erlendra þjónustuveitenda, verða hins vegar settar fram með öðrum hætti en í GATS-samningnum. Í TiSA-samningnum verða skuldbindingar um innlenda meðferð settar fram í formi neikvæðs lista. Í því felst að aðilar skuldbinda sig til að mismuna ekki milli innlendra og erlendra þjónustuveitenda, nema sérstakur fyrirvari sé gerður þar að lútandi á listanum.

Í framangreindri breytingu felst nánar tiltekið eftirfarandi: Í GATS-samningnum áskilja samningsaðilar sér rétt til þess að beita mismunun innlendum þjónustuveitendum í hag á þeim sviðum sem markaðsaðgangur fyrir erlenda þjónustuveitendur er yfir höfuð veittur, nema sérstök skuldbinding um innlenda meðferð hafi verið gefin. Í TiSA-samningnum verða samningsaðilarnir hins vegar skuldbundnir til að beita engri mismunun milli innlendra og erlendra aðila á þeim sviðum þar sem markaðsaðgangur er veittur fyrir erlenda þjónustuveitendur, nema fyrirvari um annað sé sérstaklega gerður í skuldbindingaskrá.

Utanríkisráðherra mun undirrita samninginn þegar hann er fullkláraður eða sá sem hann veitir umboð til þess.

Megintexti TiSA-samningsins mun byggja að miklu leyti á efni og orðalagi GATS-samningsins og má segja að texti hans myndi grunninn að þeim textatillögum sem liggja fyrir í TiSA-samningaviðræðunum. 

Þó er gert ráð fyrir því að ýmis frávik verði í endanlegum texta TiSA-samningsins frá því sem er í GATS-samningnum. Þannig hafa verið lagðar fram tillögur að nýjum viðaukum sem ekki er að finna í GATS-samningnum, s.s. varðandi, innlendar reglur og gegnsæi, sjóflutninga, rafræn viðskipti, orkutengda þjónustu og umhverfistengda þjónustu.

Samningsaðilar munu einnig uppfæra þær skuldbindingar sem þeir tókust á hendur með GATS-samningnum, í ljósi þeirrar þróunar sem orðið hefur frá því er sá samningur var gerður. Þar er annars vegar um að ræða skuldbindingar til að veita erlendum þjónustuveitendum aðgang að eigin markaði og hins vegar skuldbindingar hvað það varðar að gæta jafnræðis milli innlendra og erlendra þjónustuveitenda í þeim tilvikum er markaðsaðgangur fyrir erlenda þjónustuveitendur er á annað borð veittur.

Þá verður framsetning TiSA-samningsins á skuldbindingaskrá einstakra ríkja vegna innlendrar meðferðar  önnur en er í GATS-samningnum, þar sem um verður að ræða svokallaðan neikvæðan lista, í stað jákvæðs lista, sjá sérstaka spurningu þar að lútandi. Einnig gilda ákvæði um svokallað „standstill“ og „ratchet“ um skuldbindingar samningsaðila varðandi innlenda meðferð, hafi ekki verið gerður áskilnaður um annað (sjá spurningu um „standstill“ og „ratchet“).

Í alþjóðlegum viðskiptasamningum (GATS-samningurinn, fríverslunarsamningar) er almennt kveðið á um lausn deilumála sem koma upp á grundvelli viðkomandi samnings. Samningarnir kveða að jafnaði á um að samningsaðilar skuli leitast við að ná samkomulagi um túlkun og beitingu viðkomandi samnings og gera sitt ítrasta til þess að finna lausn með samvinnu og samráði sem allir aðilar geti sætt sig við. Finnist hins vegar ekki lausn á deilunni innan ákveðins tímafrests sé hlutaðeigandi aðilum heimilt að vísa málinu til gerðardóms.

Ákvæði um lausn deilumála hafa enn sem komið er ekki komið til umræðu í TiSA-viðræðunum. Hins vegar er líklegt að ákvæðin verði á þeim nótum sem að framan greinir.

Eins og ávallt eru viðræður af þessu tagi samstarfsverkefni utanríkisráðuneytis og fagráðuneyta. Utanríkisráðuneytið leiðir þessar samningaviðræður af Íslands hálfu, rétt eins og allar aðrar alþjóðlegar viðskiptaviðræður en á náið samstarf við önnur ráðuneyti um þau svið sem heyra undir verkefnasvið einstakra fagráðuneyta. Fundina sitja fulltrúar utanríkisráðuneytisins og fagráðuneyta eftir atvikum. Allar ákvarðanir um framhald viðræðanna eru því teknar af utanríkisráðuneytinu og eftir atvikum viðkomandi fagráðuneytum í samræmi við starfsvenjur íslenskrar stjórnsýslu.

Upplýsingum er miðlað til ráðherra eftir því sem tilefni er til og vissum áföngum náð í samningaviðræðum. Í kjölfar hverrar samningalotu er sendur upplýsingapóstur um þróun viðræðanna á fagráðuneytin vegna hvers kafla ásamt uppfærðum drögum til athugasemda.

Utanríkismálanefnd Alþingi er upplýst um framgang viðræðnanna. Eftir að samningsaðilar hafa samþykkt texta TiSA-samningsins verður efni samningsins borið undir Alþingi í formi þingsályktunartillögu.

Engin formleg tengsl eru milli þessara viðræðna, þrátt fyrir að mörg af þeim löndum sem þátt taka í þeim séu jafnframt aðilar í hinum tilvikunum.

Efni TiSA-viðræðnanna er mun afmarkaðra en bæði TPP-samningsins og TTIP-viðræðnanna. Efni TiSA-viðræðnanna eru aukið frelsi í þjónustuviðskiptum með því að draga úr hindrunum á því að þjónustuveitandi í einu TiSA-ríkjanna geti veitt þjónustuna í hinum ríkjunum. TPP-samningurinn og TTIP-viðræðurnar snúast hins vegar um gerð víðtækra fríverslunarsamninga sem nær til margra sviða viðskipta s.s. vöruviðskipta, þjónustuviðskipta, fjárfestingar, vernd hugverkaréttinda og opinber innkaup. 

Ákvörðun um að Ísland tæki þátt í viðræðunum var tekin í desember 2012 af þáverandi utanríkisráðherra og staðfest af núverandi ríkisstjórn í júní árið 2013.

Ísland er eitt þeirra ríkja WTO sem ákvað að hefja viðræður um gerð nýs samnings sín á milli, eftir að viðræður í WTO um endurskoðun GATS-samningsins sigldu í strand.

Við ákvörðun um að taka þátt í viðræðunum var litið til þess að þjónustuviðskipti eru ört vaxandi geiri í alþjóðaviðskiptum og utanríkisviðskiptum Íslands. Síðustu ár hefur þróun útflutnings á þjónustu hér á landi verið mjög hagstæð og eru þjónustuviðskipti í dag í kringum 36 prósent af heildarviðskiptum Íslands við umheiminn.

Markmiðið með þátttöku Íslands í viðræðunum er að tryggja samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja og að þau sitji við sama borð og samkeppnisaðilar þeirra frá öllum nágrannaríkjum Íslands, tryggja betri aðgang þeirra að erlendum mörkuðum og draga úr viðskiptahindrunum. Uppfærður samningur á sviði þjónustuviðskipta eykur gegnsæi gildandi regluverks og stuðlar að auknum fyrirsjáanleika í starfsemi íslenskra fyrirtækja erlendis þar sem miðað er að því að draga úr möguleikum á mismunun í viðskiptum, geðþóttaákvörðunum og spillingu.

Í þessu sambandi var einnig litið til þess að samstarfsríki Íslands innan EFTA, Liechtenstein, Noregur og Sviss, taka þátt í viðræðunum svo og ESB og Bandaríkin þar sem Ísland á sína helstu viðskiptahagsmuni.

Já. Eftir að samningsaðilar hafa samþykkt texta TiSA-samningsins verður efni samningsins borið undir Alþingi í formi þingsályktunartillögu.

Við mótun samningsafstöðu er af Íslands hálfu gengið út frá því að TiSA-samningurinn muni ekki kalla á lagabreytingar hér á landi og því verði ekki þörf á að leggja fram sérstök lagafrumvörp samhliða þingsályktunartillögunni.

Nei. Gera má ráð fyrir því að fyrirkomulagið í TiSA verði mjög svipað því sem verður í GATS. Samningurinn mun þannig innihalda öryggisákvæði sem tryggja rétt samningsaðila til að grípa til sérstakra varfærnisráðstafana sem og ráðstafana til að tryggja greiðslujöfnuð. Jafnframt munu samningsaðilar sjálfir ákvarða, eins og öðrum sviðum þjónustu, að hvaða marki þeir takast á hendur skuldbindingar á þessu sviði.

Nei, skýr ákvæði munu verða í TiSA-samningnum, með sama hætti og í GATS, um vernd persónuupplýsinga.

Nei, samningurinn mun ekki hafa nein áhrif á dreifingu vatns hér á landi þar sem Ísland undarskilur dreifingu vatns í sínum skuldbindingarlista.

Nei, þar sem Ísland undanskilur hvers kyns heilbrigðisþjónustu í sínum skuldbindingarlista mun samningurinn ekki hafa nein áhrif á slíka þjónustu hér á landi.

Nei, þar sem Ísland undanskilur hvers kyns menntunarþjónustu í sínum skuldbindingarlista mun samningurinn ekki hafa nein áhrif á slíka þjónustu hér á landi.

Því hefur verið haldið fram í gagnrýni á TiSA-viðræðurnar að samningurinn snúist um einkavæðingu á almannaþjónustu og muni leiða til óafturkræfrar einkavæðingar.

Í þessu sambandi er rétt að nefna að fyrirhugað er að í TiSA-samningnum verði, með sama hætti og í GATS-samningnum, undanskilin frá gildissviði samningsins þjónusta sem opinber yfirvöld veita, nánar tiltekið þjónusta sem hvorki er veitt á viðskiptalegum grundvelli né í samkeppni við einn eða fleiri þjónustuveitendur. Jafnframt er rétt að rifja upp að það eru einstök ríki sem setja sjálf fram skuldbindingar um aðgang erlendra þjónustuveitenda að eigin markaði. Þau geta því, eins og gert er í tilboði Íslands, til frekara öryggis, undanskilið  frá skuldbindingum þá þjónustu sem er í höndum opinberra aðila.

Markmið TiSA og annarra viðræðna um frelsi í þjónustuviðskiptum er enda fyrst og fremst að tryggja bættan aðgang þjónustuveitenda að þeirri starfsemi sem þegar er í höndum einkaaðila, ekki er gerð nein krafa um einkavæðingu starfsemi sem er í höndum opinberra aðila.

Ísland undanskilur frá hvers kyns skuldbindingum þá starfsemi sem hið opinbera hefur með höndum. Þannig undanskilur Ísland sig frá skuldbindingum hvað varðar heilsutengda þjónustu, félagslega þjónustu, menntamál, hvers kyns útvarps- og sjónvarpsþjónustu, póstþjónustu og dreifingu á vatni og orku. Skuldbindingar um markaðsaðgang eru einungis teknar á sviðum sem eru þegar í höndum einkaaðila og sem eru jafnframt þegar opin fyrir samkeppni frá útlöndum og er hér að langmestu leyti um að ræða sömu skuldbindingar og þegar hafa verið gefnar samkvæmt GATS-samningnum.

TiSA-viðræðurnar (TiSA = Trade in Services Agreement) eru samningaviðræður 50 ríkja Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) um aukið frelsi í viðskiptum með þjónustu milli ríkja samningsaðila.

 Í fríverslunarsamningum og GATS-samningi WTO skuldbinda ríki sig til þess að veita þjónustuveitendum frá ríkjum annarra samningsaðila nánar tilgreindan aðgang að mörkuðum sínum. Þessi aðgangur er skilgreindur í svonefndum skuldbindingaskrám sem hvert ríki fyrir sig leggur fram og sem skiptist eftir þjónustuflokkum og „háttum“ þjónustu. Skuldbindingaskrár tilgreina því nánar á hvaða sviðum er veittur aðgangur fyrir erlenda þjónustuaðila og hvaða skilmálar og takmarkanir gilda.

Aðilarnir að TiSA-viðræðunum vonast til að ná samkomulagi um aukið frelsi í viðskiptum sín á milli. Vonast er til að þau ríki WTO sem ekki taka þátt í viðræðunum komi inn í þær á síðari stigum eða gerist aðilar að samningnum eftir að samningsgerð er lokið.

Svokallað ISDS-ákvæði varðar vernd á fjárfestingum erlendra fjárfesta, og rétt fjárfestis til að vísa deilum við viðtökuríki fjárfestingarinnar til óháðs gerðardóms. TiSA-samningurinn varðar frelsi í þjónustuviðskiptum en ekki vernd fjárfestinga. Þar af leiðandi verður ekkert ákvæði um ISDS í samningnum.

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira