Hoppa yfir valmynd

Viðmiðunarreglur flóttamannanefndar

Viðmiðunarreglur flóttamannanefndar um móttöku og aðstoð við hópa flóttafólks (2013)

I. KAFLI

Gildissvið.

1. gr.

Gildissvið og yfirstjórn.

Reglur þessar gilda um móttöku og aðstoð við hópa flóttafólks sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að veita landvist, sbr. 51. gr. laga um útlendinga, nr. 96/2002, með síðari breytingum.

Ákvæði um aðstoð og þjónustu í reglum þessum gilda í eitt ár frá komudegi flóttafólks til landsins ef annað er ekki tekið fram.

Velferðarráðherra fer með yfirstjórn móttöku og aðstoðar við flóttafólk samkvæmt reglum þessum.

2. gr.

Markmið.

Markmið reglnanna er að vera til leiðbeiningar og viðmiðunar fyrir þá sem eiga hlut að móttöku flóttamannahópa sem koma í boði stjórnvalda og til upplýsinga fyrir flóttafólkið sjálft.

3. gr.

Fjármögnun.

Utanríkisráðuneytið greiðir kostnað við móttöku flóttafólks í samræmi við þá tillögu sem utanríkisráðherra og velferðarráðherra kynna fyrir ríkisstjórn, sbr. 5. gr.

II. KAFLI

Fyrirkomulag málefna flóttafólks.

4. gr.

Skipun og hlutverk nefndar um flóttafólk.

Velferðarráðherra skipar flóttamannanefnd til fimm ára í senn. Innanríkisráðuneyti, utanríkisráðuneyti og Rauði krossinn á Íslandi tilnefna hvert sinn fulltrúa í nefndina, en formaður er skipaður af velferðarráðherra. Varamenn eru skipaðir með sama hætti.

Hlutverk flóttamannanefndar er meðal annars að leggja til við ríkisstjórn heildarstefnu og skipulag um móttöku flóttamannahópa, hafa yfirumsjón með framkvæmd á móttöku hópanna og veita stjórnvöldum umsögn um einstök tilvik eftir því sem óskað er. Nefndin skal árlega gera ríkisstjórninni grein fyrir störfum sínum og leggur velferðarráðuneyti nefndinni til starfsmann.

5. gr.

Tillaga um móttöku flóttafólks.

Að fenginni tillögu flóttamannanefndar og þegar kostnaðaráætlun hefur verið gerð leggja velferðarráðherra og utanríkisráðherra til við ríkisstjórn að tekið verði á móti tilteknum fjölda flóttafólks frá tilteknu landi eða löndum.

6. gr.

Samstarf við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna.

Flóttamannanefndin starfar í samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR). Tillaga flóttamannanefndar til utanríkisráðherra og velferðarráðherra um það hvaðan flóttafólkið kemur hverju sinni skal ævinlega tekin í samráði við Flóttamannastofnunina.

7. gr.

Samráð við Útlendingastofnun.

Áður en endanleg ákvörðun liggur fyrir um móttöku flóttamannahóps skal Útlendingastofnun fjalla formlega um hvert mál og staðfesta að ekki séu annmarkar á því að veita viðkomandi einstaklingum hæli á Íslandi, sbr. 2. mgr. 50. gr. og 1. mgr. 51. gr. laga nr. 96/2002, með síðari breytingum.

8. gr.

Sendinefnd vegna móttöku flóttafólks.

Sendinefnd á vegum íslenskra stjórnvalda fer hverju sinni til þess ríkis þar sem flóttafólkið hefur fengið hæli og leggur mat á hvaða fjölskyldum og einstaklingum skuli boðið að setjast að á Íslandi. Nefndin vinnur í nánu samráði við fulltrúa Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna í dvalarlandi fólksins. Að ferð lokinni leggur sendinefndin tillögur sínar fyrir flóttamannanefndina sem síðan kynnir þær velferðarráðherra og utanríkisráðherra.

Í sendinefndinni eiga sæti eftir atvikum fulltrúar þeirra ráðuneyta sem eiga aðild að flóttamannanefndinni, fulltrúi Rauða krossins á Íslandi og fulltrúi Útlendingastofnunar.

9. gr.

Samráð við mennta- og menningarmálaráðuneyti.

Þegar aldur og fjöldi flóttafólks sem tekið verðurá móti liggur fyrir skal flóttamannanefndin upplýsa mennta- og menningarmálaráðuneytið um aldur og fjölda ungmenna sem sækja mun framhaldsskóla á fyrsta dvalarári með það að markmiði að tryggja þeim námstilboð við hæfi.

10. gr.

Samstarf við Rauða krossinn á Íslandi vegna móttöku flóttamannahópa.

Í hvert sinn sem tekið er á móti hópi flóttafólks gera velferðarráðuneytið og Rauði krossinn á Íslandi með sér samning þar sem meðal annars skal kveðið á um útvegun innbús fyrir flóttafólk og umsjón með stuðningsfjölskyldum.

Í hvert sinn sem ákvörðun er tekin um móttöku flóttamannahóps gerir Rauði krossinn á Íslandi kostnaðaráætlun sem velferðarráðuneytið staðfestir vegna þeirra verkefna sem honum eru falin í samræmi við samninginn, sbr. 1. mgr.

11. gr.

Samningar við sveitarfélög um móttöku flóttafólks.

Velferðarráðuneytið semur við tiltekið sveitarfélag eða sveitarfélög um móttöku á tilteknum fjölda flóttafólks í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnarinnar hverju sinni.

Við val á sveitarfélagi, sbr. 1. mgr., skal taka mið af aðstæðum öllum, þar með talið félagsþjónustu, heilbrigðisþjónustu, atvinnuástandi, menntunarmöguleikum, möguleikum á húsnæði og öðru sem eftir atvikum skiptir máli hverju sinni.

Samningar við sveitarfélög skulu taka til þjónustu og náms sem ætla má að flóttafólkið þarfnist og eru á hendi sveitarfélaga, svo sem útvegun húsnæðis, leikskóla, grunnskóla, félagsráðgjafar, fjárhagsaðstoðar og aðstoðar við atvinnuleit. Enn fremur skal flóttafólki tryggð heilbrigðisþjónusta, sbr. 22. og 23. gr., íslenskukennsla og samfélagsfræðsla, sbr. 17. og 19. gr.

Sveitarfélag, sbr. 1. mgr., gerir kostnaðaráætlun vegna móttöku flóttafólks í samráði við velferðarráðuneytið og skal áætlunin vera hluti samnings þess við ráðuneytið.

12. gr.

Samráðshópur vegna móttöku flóttafólks.

Velferðarráðherra skipar samráðshóp vegna stuðnings og aðlögunar við flóttafólk í hvert sinn sem gerður er samningur við nýtt sveitarfélag, sbr. 11. gr. Samráðshópinn skipa tveir fulltrúar sveitarfélags, fulltrúi Rauða krossins á Íslandi, fulltrúi deildar Rauða krossins í viðkomandi sveitarfélagi og fulltrúi velferðarráðuneytis sem er formaður hópsins.

Verkefni samráðshópsins er að tryggja sem best samræmi og samhæfingu vegna móttöku og aðstoðar við flóttafólkið og greitt flæði upplýsinga til flóttamannanefndarinnar og ráðuneytisins.

13. gr.

Framkvæmdahópur um móttöku flóttafólks.

Samráðshópurinn, sbr. 12. gr., skipar framkvæmdahóp sem í eiga sæti fulltrúar Rauða krossins og sveitarfélagsins sem vinna að daglegum verkefnum vegna móttökunnar. Hlutverk hópsins er að samræma verkþætti innan sveitarfélagsins og tryggja að flóttafólkið fái fullnægjandi þjónustu og stuðning. Fundargerðir framkvæmdahóps skulu sendar samráðshópi.

III. KAFLI

Aðstoð við flóttafólk og réttur þess til þjónustu.

14. gr.

Markmið aðstoðar við flóttafólk.

Markmið aðstoðarinnar er að tryggja svo vel sem kostur er aðlögun flóttafólksins að íslenskum aðstæðum og samhliða stuðla að því að samfélagið komi til móts við þarfir þess. Leitast skal við að gefa flóttafólki kost á að verða virkir þátttakendur í íslensku samfélagi, en jafnframt virða rétt þeirra til að vernda og rækta eigin menningu.

15. gr.

Inntak aðstoðar við flóttafólk.

Flóttafólk á rétt á sérstakri aðstoð að lágmarki í eitt ár frá komu þess til landsins. Aðstoð sú sem flóttafólkið á rétt á, sbr. þó önnur ákvæði þessa kafla, er:

a. Fjárhagsaðstoð.

b. Félagsleg ráðgjöf.

c. Húsnæði, ásamt nauðsynlegu innbúi og síma.

d. Menntun, einkum íslenskukennsla, móðurmálskennsla og samfélagsfræðsla.

e. Leikskólakennsla.

f. Tómstundastarf.

g. Heilbrigðisþjónusta og tannlækningar.

h. Þjónusta túlka.

i. Aðstoð við atvinnuleit.

j. Önnur nauðsynleg aðstoð.


16. gr.

Fjárhagsaðstoð.

Flóttafólki skal tryggð fjárhagsaðstoð í að minnsta kosti eitt ár sem miðast við reglur viðkomandi sveitarfélags um fjárhagsaðstoð, sbr. einnig ákvæði VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, með síðari breytingum.

Fjárhagsaðstoðin á fyrsta ári skerðist um 1/3 þegar flóttamaður er kominn í að minnsta kosti hálft starf og um 2/3 þegar hann er kominn í fullt starf. Ef þörf er á fjárhagsaðstoð að loknu einu ári skal fara með málið í samræmi við ákvæði 28. gr. reglna þessara.

17. gr.

Íslenskukennsla og samfélagsfræðsla.

Allt flóttafólk, þar á meðal börn á leik-, grunn- og framhaldsskólaaldri, skal eiga kost á ókeypis kennslu í íslensku sem öðru tungumáli og samfélagsfræðslu sem skal hefjast sem fyrst eftir komu þess til landsins. Kennslan skal fara fram á fyrsta ári.

Miða skal við að kennsla fullorðinna fari að jafnaði fram á dagvinnutíma og skal hún vera að lágmarki 720 kennslustundir; að jafnaði 40 mínútur hver kennslustund. Ef flóttafólk hefur vinnu áður en íslenskukennslu er lokið skal kennslan eftir sem áður fara fram á dagvinnutíma fyrstu níu mánuðina.

Með íslenskukennslu samkvæmt þessari grein er átt við heildstætt nám í íslensku sem öðru tungumáli og stefnt skal að því að íslenskukennarinn tali móðurmál flóttafólksins. Ef því verður ekki við komið skal nota túlkaþjónustu við kennsluna. Enn fremur skal tryggt að flóttafólk fái aðstoð túlks við samfélagsfræðslu.

Fullorðna flóttafólkið skal fá námið metið í samræmi við námsmat sem lagt er til í námskrá fyrir nám í íslensku fyrir fullorðna útlendinga sem sækja um búseturétt á Íslandi.

18. gr.

Móðurmálskennsla.

Í leik-, grunn- og framhaldsskólum skulu börn flóttafólks fá kennslu í og á eigin móðurmáli þar sem því verður við komið. Með kennslunni skal stefnt að virku tvítyngi þessara nemenda. Nemendur skulu hvattir til að halda móðurmáli sínu við og rækta það. Meta skal kunnáttu í móðurmáli sem hluta af námi á þessum skólastigum.

19. gr.

Almenn kennsla barna og ungmenna.

Kennslu barna og unglinga á skólaskyldualdri skal miða við að börnin geti sem fyrst notið kennslu í almenna skólakerfinu. Tryggt skal að börn flóttafólks fái aðstoð túlks eða móðurmálskennara í skólum.

Á fyrsta skólaári er æskilegt að börnin stundi nám í sérstökum móttökubekkjum þar sem þeim er eftir atvikum skipt í aldurshópana 6–8 ára, 9–12 ára og 13–16 ára. Í móttökubekkjunum skal miðað við að þau fái 15–18 kennslustundir í íslensku. Þá fari þar fram kennsla á aðlöguðu máli í þeim námsgreinum sem jafnaldrar þeirra stunda. Einnig sæki börnin þær námsgreinar með jafnöldrum sínum sem talið er að þau geti haft gagn af.

Ungmenni, allt að 24 ára aldri, sem eru flóttafólk skulu fá námstilboð við hæfi í framhaldsskóla í að minnsta kosti eitt ár.

Áður en skólaganga barnanna hefst skal veita starfsfólki og nemendum grunnþekkingu um menningu flóttafólksins og aðstæður í heimalandi þess.

20. gr.

Menntun og starfsréttindi.

Hlutaðeigandi sveitarfélag skal veita flóttafólki, eftir því sem við á, aðstoð svo það fái notið starfsmenntunar sem það hefur aflað sér, þ. á m. við öflun starfsréttinda sem krefjast löggildingar eða annarrar opinberrar viðurkenningar.

21. gr.

Tómstundastarf.

Rauði krossinn á Íslandi, hlutaðeigandi sveitarfélag og stuðningsfjölskyldur skulu stuðla að því að flóttafólk kynnist íbúum og staðháttum eins fljótt og unnt er til að auðvelda aðlögun þess. Í því skyni skal fólkið fá notið tómstunda- og félagsstarfs í tengslum við þá félagsstarfsemi sem fyrir er í sveitarfélaginu.

22. gr.

Heilbrigðisþjónusta og almannatryggingar.

Flóttafólki skal veitt öll nauðsynleg heilbrigðisþjónusta sem völ er á. Fólkið skal teljast tryggt í íslenskum almannatryggingum frá komudegi ef lögð eru fram í Sjúkratryggingar Íslands gögn frá Útlendingastofnun eða Þjóðskrá Íslands, sbr. 18. gr. reglugerðar um framkvæmd almannatrygginga og skráningu í tryggingaskrá, nr. 463/1999, með síðari breytingum.

Flóttafólk skal fara í heilbrigðisskoðun og leggja fram heilbrigðisvottorð eins og aðrir sem flytjast til landsins, sbr. 2. mgr. 39. gr. reglugerðar um útlendinga, nr. 53/2003, með síðari breytingum. Greiða skal fyrir heilbrigðisskoðunina af kostnaðaráætlun sveitarfélags, sbr. 4. mgr. 12. gr.

Enn fremur skal greitt fyrir heilsugæsluþjónustu sem þörf er á fyrstu sex mánuði dvalar flóttafólksins. Þetta á einnig við um lyfseðilsskyld lyf og hjálpartæki, svo sem gleraugu og heyrnartæki. Að sex mánuðum liðnum skal flóttafólkið sjálft greiða hlut sjúklings í heilbrigðis- og lyfjakostnaði, enda sé búið að greina og meðhöndla eins og kostur er þá sjúkdóma og heilsubrest sem flóttafólkið kann að hafa haft við komuna til landsins. Komi til verulegs kostnaðar vegna heilbrigðisþjónustu, að sex mánuðum liðnum, skal taka tillit til hans við útreikning á fjárhagsaðstoð til þeirra.

Sveitarfélag skal halda til haga frumritum kvittana fyrir greiðslur vegna heilsugæslu, lyfja og hjálpartækja og innheimta ef við á frá Tryggingastofnun ríkisins allar endurgreiðslur í samræmi við gildandi lög og reglugerðir. Sækja skal eftir atvikum um afsláttarkort.

23. gr.

Tannlækningar.

Flóttafólk skal eiga kost á tannlækningum. Sú þjónusta sem flóttafólki skal látin í té að kostnaðarlausu miðast við að gera við skemmdar tennur og nauðsynlega tannsmíði ásamt fræðslu um tannhirðu. Tannlækni er heimilt að hefja strax nauðsynlega neyðarþjónustu.

Tannlæknir skal gera meðferðaráætlun fyrir hvern einstakling. Yfirtannlæknir velferðarráðuneytisins skal fara yfir áætlunina og samþykkja hana áður en meðferð hefst. Sé um verulega kostnaðarsamar aðgerðir að ræða skal leita samþykkis velferðarráðuneytis áður en meðferð hefst.

Almennt skal ekki greitt fyrir gullfyllingar eða krónu- og brúargerð nema sérstaklega sé gert ráð fyrir því í samþykktri meðferðaráætlun, sbr. 2. mgr.

Sveitarfélag skal eftir atvikum innheimta frá Tryggingastofnun ríkisins endurgreiðslur samkvæmt reglugerð um þátttöku Tryggingastofnunar ríkisins í kostnaði við tannlækningar, nr. 576/2005, með síðari breytingum.

IV. KAFLI

Reglur sem snerta stöðu og réttindi flóttafólks á fyrsta dvalarári.

24. gr.

Dvalarleyfi.

Flóttamaður skv. 5. gr. skal að jafnaði, samkvæmt umsókn þar um, fá dvalarleyfi til þriggja ára í senn sem ekki er háð takmörkunum, sbr. 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga, nr. 96/2002, með síðari breytingum.

25. gr.

Atvinnuleyfi.

Útlendingar sem hafa fengið dvalarleyfi sem flóttamenn samkvæmt lögum um útlendinga eru undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi hér á landi, sbr. 22. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002, með síðari breytingum.

V. KAFLI

Skyldur flóttafólks til þátttöku.

26. gr.

Nám og starf.

Flóttafólki er skylt að sækja námskeið í íslensku sem í boði eru því að kostnaðarlausu á fyrsta dvalarári, sbr. 17. gr., og taka virkan þátt í atvinnuleit með stuðningi ráðgjafa Vinnumálastofnunar eða félagsþjónustu sveitarfélags, sbr. 15. gr. Því er enn fremur skylt hefja störf eða stunda reglubundið nám innan árs frá komudegi til landsins. Sérstakar aðstæður geta þó komið í veg fyrir að ákvæðum þessarar greinar sé framfylgt.

27. gr.

Viðtöl hjá sálfræðingi.

Að tveimur árum liðnum frá komu til landsins er áhersla lögð á að flóttafólkið þiggi viðtöl hjá sálfræðingi á vegum sveitarfélags því að kostnaðarlausu, sbr. 2. mgr. 28. gr., enda búi fólkið áfram í móttökusveitarfélagi. Tilgangur viðtalanna er að gefa fólkinu tækifæri til að fara yfir reynsluna allt frá búsetu í upprunalandinu til aðlögunarinnar á Íslandi.

VI. KAFLI

Staða flóttafólks að loknu tímabili sérstakrar aðstoðar.

28. gr.

Félagsþjónusta að loknu tímabili sérstakrar aðstoðar.

Að ári liðnu frá komu flóttafólksins til landsins flyst kostnaður vegna félagsþjónustu til lögheimilissveitarfélags, sbr. IV. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, með síðari breytingum. Fjárhagsaðstoð við flóttafólk eftir að sveitarfélög taka yfir ábyrgð á henni greiðist í samræmi við lög um félagsþjónustu sveitarfélaga og reglur viðkomandi sveitarfélags. Á öðru dvalarári flóttafólks á Íslandi endurgreiðir ríkissjóður (velferðarráðuneytið) sveitarfélagi kostnað vegna fjárhagsaðstoðar í samræmi við b-lið 2. mgr. 15. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Flóttafólkið á rétt að allri félagsþjónustu sem í boði er hjá sveitarfélaginu, þar með talinni félagslegri ráðgjöf. Enn fremur skal bjóða fólkinu að tveimur árum liðnum frá komu til landsins viðtöl hjá sálfræðingi að allt að tíu skipti því að kostnaðarlausu, sbr. 27. gr.

29. gr.

Menntamál og leikskólavistun.

Að loknu tímabili sérstakrar aðstoðar hafa börn flóttafólks sömu réttindi og önnur börn með íslensku sem annað tungumál innan skólakerfisins.

Samkvæmt 5. gr. reglugerðar um jöfnunarframlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til reksturs grunnskóla, nr. 351/2002, skal Jöfnunarsjóður sveitarfélaga veita sveitarfélögum öðrum en Reykjavíkurborg framlag til sérstakrar íslenskukennslu á grunnskólastigi, enda fari slík kennsla fram.

Samkvæmt 13. gr. reglugerðar um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, nr. 113/2003, með síðari breytingum, eru veitt jöfnunarframlög til sveitarfélaga með tilliti til fjölda innflytjendabarna á aldrinum 0–5 ára. Renna greiðslur til sveitarfélaga með 22.000 íbúa eða færri. Leikskólar skulu setja móttökuáætlun fyrir börn af erlendum uppruna þar sem skipulögð er nauðsynleg þjónusta við börnin. Sérstaklega skal huga að málörvun, tengslum við upprunamál og menningu og samstarfi við foreldra.

Hlutaðeigandi sveitarfélög skulu tryggja leikskólavistun barna flóttafólks á aldrinum 2–6 ára.

30. gr.

Nám í framhaldsskóla.

Ungmenni 16–24 ára sem eru flóttafólk skulu fá námstilboð við hæfi í framhaldsskóla á fyrsta ári, sbr. 19. og 20. gr. Að því tímabili loknu skal veita þeim námsráðgjöf um frekara framhaldsnám og símenntun. Gert skal ráð fyrir að kennsla í framhaldsskólum sé í samræmi við aðalnámskrá.

Heimilt er að víkja frá kröfum um námsframvindu við ákvörðun framlaga til framhaldsskóla vegna þessara ungmenna.

31. gr.

Ríkisborgararéttur.

Eftirtalin búsetuskilyrði gilda gagnvart flóttafólki um veitingu íslensks ríkisborgararéttar: „Flóttamaður, sem fullnægir skilgreiningu í alþjóðasamningi um stöðu flóttamanna sem gerður var 28. júlí 1951, hafi verið hér búsettur sem slíkur í fimm ár. Sama gildir um mann sem fengið hefur dvalarleyfi hér á landi af mannúðarástæðum“, sbr. 6. málsl. 8. gr. laga um íslenskan ríkisborgararétt, nr. 100/1952, með síðari breytingum.

32. gr.

Aðstoð við heimflutning.

Breytist aðstæður í upprunalandi flóttamanns þannig að forsendur skapist fyrir hann að hverfa þangað að nýju til að setjast þar að er heimilt að veita honum einu sinni aðstoð við heimflutning. Heimilt er að sækja um aðstoðina þar til einstaklingur hefur hlotið íslenskan ríkisborgararétt. Þörfin fyrir aðstoð skal metin í hverju tilfelli. Ákvörðun um aðstoð skal tekin af flóttamannanefnd og greidd úr ríkissjóði.

33. gr.

Aðstoð vegna fjölskyldusameiningu.

Heimilt er að veita styrk til flóttamanns vegna fjölskyldusameiningar. Á þetta eingöngu við um einstaklinga sem tilheyra kjarnafjölskyldu flóttamannsins þegar fyrsta dvalarleyfi var veitt. Eingöngu er veittur styrkur ef Útlendingastofnun hefur samþykkt umsókn um dvalarleyfis á grundvelli fjölskyldusameiningar. Að hámarki er veittur styrkur sem nemur 75% af heildarkostnaði vegna flugfargjalds. Ákvörðun um aðstoð skal tekin af flóttamannanefnd og greidd úr ríkissjóði.

VII. KAFLI

Úrlausn ágreiningsefna o.fl.

34. gr.

Úrlausn ágreiningsefna.

Komi upp ágreiningur um túlkun eða framkvæmd reglna þessara eða annarra atriða er snerta móttöku og aðstoð við flóttafólk skal málið borið undir velferðarráðuneytið.

35. gr.

Gildistaka og endurskoðun.

Reglur þessar eru settar af flóttamannanefnd og öðlast þegar gildi. Þær skulu endurskoðaðar reglulega í samvinnu við sveitarfélög og Rauða krossinn á Íslandi.

Reglur flóttamannaráðs frá 22. september 2009 falla hér með úr gildi.

Reykjavík, 10. maí 2013

Flóttamannanefnd


Sjá einnig:

Síðast uppfært: 2.1.2019 0
Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira