Hoppa yfir valmynd

Atvinnuréttindi erlends starfsfólk á Íslandi

Meginreglan er sú að útlendingar þurfa atvinnu- og dvalarleyfi í því skyni að starfa hér á landi. Ákveðnar undanþágur eru frá þeirri reglu sem flestar byggjast á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

Útlendingur kemur til landsins í fyrsta skipti

Þegar atvinnurekandi hefur hug á að ráða erlendan starfsmann til vinnu ber honum að sækja um atvinnuleyfi samkvæmt lögum um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002, og dvalarleyfi samkvæmt lögum um útlendinga, nr. 96/2002. Atvinnurekandi sækir um þessi leyfi með því að fylla út þar til gerð eyðublöð hjá Útlendingastofnun.

Þegar atvinnurekandi sækir um að ráða útlending til starfa sem er að koma í fyrsta skipti til landsins sækir hann um tímabundið atvinnuleyfi skv. 7. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga. Þar eru tilgreind ákveðin skilyrði sem þurfa að vera uppfyllt áður en heimilt er að gefa út atvinnuleyfi, sbr. einnig 9. gr. reglugerðar nr. 339/2005, um sama efni. Tímabundið atvinnuleyfi þarf síðan að liggja fyrir áður en útlendingurinn kemur til landsins og er leyfið venjulega gefið út til eins árs í senn en þó aldrei til lengri tíma en ráðningarsamningur gerir ráð fyrir.

Nýr atvinnurekandi

Heimilt er að uppfylltum skilyrðum laga um atvinnuréttindi útlendinga að veita atvinnurekanda leyfi til að ráða útlending sem komið hefur til landsins til starfa hjá öðrum atvinnurekanda. Sækja skal um tímabundið atvinnuleyfi skv. 7. gr. laganna áður en útlendingurinn hefur störf hjá hinum nýja atvinnurekanda og skal yfirlýsing frá fyrri atvinnurekanda um að ráðningarslit hafi átt sér stað og ástæður þeirra fylgja umsókninni. Vinnumálastofnun er heimilt þegar ríkar ástæður eru fyrir hendi að víkja frá skilyrðinu um að yfirlýsing frá fyrri atvinnurekanda skuli fylgja umsókn.

Endurnýjun atvinnuleyfis

Þegar tímabundið atvinnuleyfi er við það að renna út en atvinnurekandi hefur hug á að ráða útlendinginn til áframhaldandi starfa skal atvinnurekandinn sækja um framlengingu atvinnu- og dvalarleyfis til Útlendingastofnunar á þar til gerðum eyðublöðum. Skal það gert áður en fyrra leyfið rennur út. Er heimilt að framlengja atvinnuleyfi í allt að tvö ár í senn enda séu tiltekin skilyrði laganna uppfyllt.

Ótímabundið atvinnuleyfi

Útlendingar öðlast rétt til óbundins atvinnuleyfis þegar þeir hafa átt lögheimili og dvalið samfellt hér á landi í þrjú ár að lámarki. Enn fremur er gerð krafa um að útlendingar hafi búsetuleyfi samkvæmt lögum um útlendinga og tímabundið atvinnuleyfi hafi áður verið gefið út þeim til handa. Hins vegar er heimilt að víkja frá skilyrðum fyrir veitingu óbundins atvinnuleyfis ef um er að ræða maka útlendings sem er með óbundið atvinnuleyfi hér á landi eða uppkomin börn hans.

Óbundið atvinnuleyfi veitir útlendingi leyfi til að starfa á íslenskum vinnumarkaði án takmarkana. Eftir þann tíma getur útlendingur því ráðið sig til vinnu á íslenskum vinnumarkaði án þess að atvinnurekandi sæki um sérstakt leyfi.

Skattkort er ekki ígildi atvinnuleyfis

Útlendingum sem koma hingað til starfa ber að greiða skatta samkvæmt íslenskum lögum á sama hátt og aðrir launamenn. Til að menn geti nýtt sér persónuafslátt við ákvörðun á staðgreiðslu á tekjuárinu þurfa þeir að afhenda launagreiðanda skattkort sitt. Launagreiðandi sem ekki hefur undir höndum skattkort launamanns getur ekki tekið tillit til persónuafsláttar við ákvörðun á staðgreiðslu. Útlendingar sem flytja lögheimili sitt til landsins fá sent skattkort eftir að gengið hefur verið frá skráningu hjá Hagstofu Íslands hafi þeir ekki áður fengið útgefið skattkort. Þeir sem koma til landsins með það fyrir augum að dvelja í skemmri tíma en sex mánuði þurfa að snúa sér til ríkisskattstjóra til að sækja um skattkort.

Skattkortið sem slíkt er þó ekki ígildi atvinnuleyfis. Þegar útlendingur sem er á tímabundnu dvalar- og atvinnuleyfi skiptir um starf þarf nýi atvinnurekandinn að kanna hvort útlendingurinn hafi óbundið atvinnuleyfi eða falli undir undanþáguákvæði III. kafla laga um atvinnuréttindi útlendinga. Sé það ekki raunin þarf atvinnurekandinn að sækja um dvalar- og atvinnuleyfi til að mega ráða hann til starfa. Þar breytir engu þótt útlendingurinn framvísi skattkorti frá íslenskum skattyfirvöldum.

Frjáls för launafólks

Frjáls för launafólks samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

Almennt

Rétturinn um frjálsa för launafólks á við um rétt ríkisborgara innan Evrópska efnahagssvæðisins til að ráða sig til vinnu í öðrum aðildarríkjum en sínu eigin, sbr. 28. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Það er einungis launafólk sem á þessi réttindi en Evrópudómstóllinn hefur litið á orðið launafólk sem sérstakt hugtak innan Evrópuréttarins sem túlka beri rúmt. Er litið svo á að um sé að ræða fólk er vinnur verk fyrir annan aðila gegn launagreiðslu. Lengi vel var ekki ljóst hvort einungis væri átt við ríkisborgara innan Evrópusambandsins (Evrópska efnahagssvæðisins) en nú er skýrt kveðið á um þetta efni í reglugerð nr. 1612/68/EB, sbr. lög nr. 47/1993, um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins. Þar er tekið fram að átt sé við þá launamenn sem eru ríkisborgarar aðildarríkjanna. Þá túlkun má jafnframt sjá í niðurstöðum dómstólsins.

EES-dvalarleyfi

Ríkisborgari annars aðildarríkis innan Evrópska efnahagssvæðisins þarf ekki sérstakt atvinnuleyfi hér á landi og getur því ráðið sig til starfa hjá fyrirtæki sem hefur staðfestu á Íslandi. Gilda þá sömu reglur um ráðningu þess starfsmanns og gilda almennt um ráðningu starfsmanna á íslenskum vinnumarkaði.

Ætli framangreindur EES-útlendingur að dveljast og starfa hér á landi lengur en þrjá mánuði þarf hann að sækja um EES-dvalarleyfi til Útlendingastofnunar, sbr. lög um útlendinga.

Tilkynningarskylda atvinnurekanda

Þegar innlendur atvinnurekandi ræður til sín ríkisborgara annars aðildarríkis innan Evrópska efnahagssvæðisins ber honum að tilkynna um þá ráðningu til Útlendingastofnunar, sbr. 110. gr. reglugerðar um útlendinga, nr. 53/2003, áður en útlendingur hefur störf hér á landi.

Tilkynningarskyldan gildir þó ekki um útlendinga sem eru norrænir ríkisborgarar eða útlendinga sem fengið hafa búsetuleyfi hér á landi.

Ríkisborgarar „nýju ríkjanna“ innan Evrópska efnahagsvæðisins

Ákvæðin um frjálsa för launafólks gilda ekki um ríkisborgara Eistlands, Lettlands, Litháens, Póllands, Slóveníu, Slóvakíu, Tékklands og Ungverjalands, sbr. breytingalög nr. 19/2004. Þar af leiðandi þarf launafólk frá þessum ríkjum að sækja um atvinnuleyfi samkvæmt lögum um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002, og dvalarleyfi samkvæmt lögum um útlendinga, nr. 96/2002, á sama hátt og ríkisborgarar þriðju ríkja.

Þjónustuviðskipti

Þjónustuviðskipti samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

Almennt

Sjálfstætt starfandi einstaklingur eða fyrirtæki (lögaðili) sem hefur staðfestu í einu aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið hefur heimild til að veita þjónustu hér á landi skv. 36.–39. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Ákvæði samningsins um veitingu þjónustu nær einungis til sjálfstætt starfandi einstaklinga eða fyrirtækja. Skilyrði er að hlutaðeigandi lögaðili eigi þegar staðfestu í einu ríki innan aðildarríkis að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið áður en hann veitir þjónustu í öðru aðildarríki. Er því litið svo á að þjónustan sé veitt frá þeim stað þar sem sjálfstætt starfandi einstaklingurinn eða fyrirtækið er skráð með staðfestu.

Hvað er þjónusta?

Samkvæmt 37. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið er með „þjónustu“ átt við „þjónustu sem að jafnaði er veitt gegn þóknun að því leyti sem hún lýtur ekki ákvæðum um frjálsa vöruflutninga, frjálsa fjármagnsflutninga og frjálsa för launafólks“.

Undir þjónustu fellur einkum:

  1. starfsemi á sviði iðnaðar,
  2. starfsemi á sviði viðskipta,
  3. starfsemi handverksmanna,
  4. sérfræðistörf.

Þá er tekið fram að sá sem veitir þjónustu getur í því skyni stundað starfsemi sína tímabundið í því ríki þar sem þjónustan er veitt, með sömu skilyrðum og það ríki setur eigin ríkisborgurum.

Einkenni veitingu þjónustu í skilningi 36. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið er því hversu tímabundin hún er (e. on a temporary basis), sbr. til dæmis 26. mgr. Gebhard-málsins (C-55/94). Í því máli tekur Evrópudómstóllinn meðal annars fram að hið tímabundna eðli þjónustunnar verði ekki einungis ákveðið með tilliti til þess hversu langan tíma þjónustan varir heldur einnig hversu regluleg hún er eða hversu samfelld hún er (e. duration, regularity, periodicity or continuity).

Dvöl og störf þjónustuveitenda hér á landi

Sjálfstætt starfandi einstaklingur sem hefur staðfestu í einu aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og hefur í hyggju að veita þjónustu á Íslandi er heimilt að koma til landsins án sérstaks leyfis og dveljast og starfa hér á landi í allt að þrjá mánuði frá komu hans til landsins, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga, nr. 96/2002. Taki verkið lengri tíma en þrjá mánuði þarf útlendingurinn að sækja um EES-dvalarleyfi til Útlendingastofnunar.

Hafi sjálfstætt starfandi einstaklingur launafólk í vinnu hjá sér getur hann flutt starfsfólk sitt með sér hingað til lands til að veita þjónustuna/framkvæma verkið sem um er að ræða, sbr. til dæmis Rush Portuguesa v. Office National d'Immigration (C-113/89). Þegar starfsmennirnir eru ríkisborgarar innan Evrópska efnahagssvæðisins er þeim heimilt að dveljast og starfa hér á landi í allt að þrjá mánuði frá komu þeirra til landsins. Eftir þann tíma þurfa þeir að sækja um EES-dvalarleyfi til Útlendingastofnunar.

Evrópudómstóllinn hefur jafnframt slegið því föstu að sjálfstætt starfandi einstaklingur geti flutt með sér starfsfólk sem eru þriðju ríkis borgarar, sbr. til dæmis Vander Elst-málið (C-43/93). Útlendingi sem svo er ástatt fyrir er heimilt að koma hingað til lands án sérstaks leyfis til að veita þjónustu í allt að 90 starfsdaga á almanaksári hafi hann leyfi sem jafngildir óbundnu atvinnuleyfi í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, sbr. 2. mgr. 35. gr. laga um útlendinga, nr. 96/2002.

Fyrirtæki, þar á meðal starfsmannaleiga, sem hefur staðfestu í einu aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og hefur í hyggju að veita þjónustu hér á landi, er heimilt að senda hingað til lands starfsmenn sína á sama hátt og sjálfstætt starfandi einstaklingar.

Í framangreindum tilvikum er það skilyrði að þjónustuveitandi geti sýnt fram á þjónustuviðskiptin og að það sé ráðningarsamband milli hans og starfsmanna sinna, sbr. lög um réttarstöðu starfsmanna sem starfa tímabundið á Íslandi á vegum erlendra fyrirtækja, nr. 54/2001.

Lög um réttarstöðu starfsmanna

Lög um réttarstöðu starfsmanna sem starfa tímabundið á Íslandi á vegum erlendra fyrirtækja, nr. 54 2001.

Meginreglan er sú að löggjöf þess lands sem sjálfstætt starfandi einstaklingur eða fyrirtæki hefur staðfestu í gildir um ráðningarkjör starfsmanna þeirra. Undanþága frá meginreglunni gildir hins vegar þegar sjálfstætt starfandi einstaklingur eða fyrirtæki sendir starfsmenn sína hingað til lands í skilningi laga um réttarstöðu starfsmanna sem starfa tímabundið á Íslandi á vegum erlendra fyrirtækja, nr. 54/2001. Á þeim tíma þegar starfsmaður veitir þjónustu hér á landi gilda þau lög sem talin eru upp í 3. gr. laganna um starfskjör þeirra án tillits til þeirrar erlendu löggjafar sem að öðru leyti gildir um ráðningarsamband starfsmannsins og vinnuveitanda hans. Lögin eru eftirfarandi:

  1. Lög um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980, sbr. 1. gr., að því er varðar lágmarkslaun, yfirvinnugreiðslur, réttindi til orlofs, hámarksvinnutíma og lágmarksvinnutíma.
  2. Lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980.
  3. Lög um orlof, nr. 30/1987, sbr. þó 11. gr.
  4. Lög um eftirlit með skipum, nr. 35/1993, 4. gr.
  5. Lög um loftferðir, nr. 60/1998, VI. kafli.
  6. Lög um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, 11., 29. og 30. gr.
  7. Lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, auk annarra ákvæða um bann við mismunun.

Njóti starfsmaður betri starfskjara samkvæmt ráðningarsamningi við hlutaðeigandi vinnuveitanda eða samkvæmt kjarasamningi eða löggjöf í því ríki þar sem hann starfar að jafnaði samanborið við framangreind lög, skal hann halda þeim starfskjörum sínum.

Starfsmannaleigur

Á sama hátt og önnur fyrirtæki er starfsmannaleigum með staðfestu í öðrum aðildarríkjum að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið heimilt að veita þjónustu sína hér á landi. Starfsmannaleiga gerir þá þjónustusamning við fyrirtæki hér á landi (notendafyrirtæki) um leigu á tilteknum starfsmönnum.

Starfsmannaleigan hefur ráðningarsamning við starfsmanninn sem sendur er til starfa hér á landi þann tíma sem hún þjónustar hið íslenska notendafyrirtæki, sbr. lög um réttarstöðu starfsmanna sem starfa tímabundið á Íslandi á vegum erlendra fyrirtækja, nr. 54/2001.

Enginn samningur er milli notendafyrirtækisins og starfsmanns starfsmannaleigunnar.

Um starfsmann starfsmannaleigu með staðfestu innan Evrópska efnahagssvæðisins gilda lög um réttarstöðu starfsmanna sem starfa tímabundið á Íslandi á vegum erlendra fyrirtækja, nr. 54/2001, meðan hann starfar fyrir notendafyrirtækið hér á landi.

Tilkynningaskylda þjónustuveitanda áður en vinna hefst

Sjálfstætt starfandi einstaklingi sem hefur staðfestu í einu aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og hefur í hyggju að veita þjónustu á Íslandi er skylt að tilkynna til Útlendingastofnunar um að hann ætli að veita hér þjónustu og skal það gert áður en vinnan hefst. Hið sama gildir um fyrirtæki, þar á meðal starfsmannaleigur, sem eins er ástatt fyrir.

Í tilkynningunni skulu felast upplýsingar um hvaða útlendingar komi hingað til starfa á þeirra vegum, fæðingardag þeirra, heimilisfang og ríkisfang og þá þjónustu sem ætlunin er að veita hér á landi, sbr. 110. gr. reglugerðar um útlendinga, nr. 53/2002.

Tilkynningarskyldan gildir ekki um útlendinga sem eru norrænir ríkisborgarar eða útlendinga sem fengið hafa búsetuleyfi hér á landi.

Tilkynningin hefur í sjálfu sér engin réttaráhrif fyrir þjónustuveitandann og starfsmenn hans.

Tilkynningarskylda notendafyrirtækis áður en vinna hefst

Komi útlendingur til starfa hér á landi á vegum erlends fyrirtækis sem tekið hefur að sér verkefni fyrir fyrirtæki hér á landi skal hið innlenda fyrirtæki tilkynna Útlendingastofnun um það fyrir fram og tilgreina nafn hins erlenda vinnuveitanda.

Tilkynningarskyldan gildir ekki um útlendinga sem eru norrænir ríkisborgarar eða útlendinga sem fengið hafa búsetuleyfi hér á landi.

Tilkynningin hefur í sjálfu sér engin réttaráhrif fyrir notendafyrirtækið.

Munurinn á frjálsri för launafólks og veitingu þjónustu

Það einkenni á veitingu þjónustu að sjálfstætt starfandi einstaklingur eða fyrirtæki geti flutt með sér starfsfólk sitt yfir landamæri veldur því að ákveðin skörun verður á réttinum um frjálsa för launafólks skv. 28. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og réttinum til að veita þjónustu skv. 36. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Til aðgreiningar á þessum tveimur hópum hefur Evrópudómstóllinn kveðið á um að starfsmenn er starfa hjá fyrirtæki sem hefur staðfestu í einu aðildarríki og eru sendir tímabundið til annars aðildarríkis í því skyni að veita þar þjónustu eru ekki með því að óska eftir aðgengi að vinnumarkaðnum í síðara aðildarríkinu ef þeir snúa til baka til fæðingarlands eða búsetulands eftir að verkinu er lokið (e. workers employed by a business established in one Member State who are temporarily sent to another Member State to provide services do not, in any way, seek access to the labour market in that second State if they return to their country of origin or residence after completion of their work.), sbr. til dæmis Finalarte-málið (C-49/98).

Stundum er vandasamt að greina milli verksamninga og vinnusamninga. Verður að teljast erfiðleikum háð að ætla að skilgreina hvað eru verksamningar og vinnusamningar þar sem þeir geta verið mjög misjafnir að efni. Fjöldi mála hefur komið til kasta Hæstaréttar Íslands þar sem ágreiningur hefur verið hafður uppi um hvort samningar teljist vinnu- eða verksamningar. Hæstiréttur hefur komist að þeirri niðurstöðu að það eitt að samningur nefnist verksamningur og aðilar að honum verkkaupi og verktaki ráði ekki út af fyrir sig hvort samningur teljist verksamningur eða vinnusamningur. Fer það eftir heildarmati á efni samningsins hverju sinni, sbr. til dæmis Hæstaréttardóm í máli nr. 381/1994 og Hæstaréttardóm í máli nr. 250/1997.

Þegar litið er til íslenskra dómafordæma og fræðirita má nefna nokkur atriði sem unnt er að hafa til viðmiðunar við aðgreiningu á hvort samningur teljist verk- eða vinnusamningur. Nokkuð ljóst er að ekki er um tæmandi talningu að ræða. Enn fremur ber að hafa í huga að atriðin geta einungis verið höfð til viðmiðunar þar sem tegund samnings ræðst af heildarmati á efni hans.

  1. Hvert er sjálfstæði þess sem vinnur tiltekið verk gagnvart vinnuveitanda/verkkaupa?
  2. Er sá sem annast verkið skuldbundinn til að vinna verkið sjálfur eður ei?
  3. Afmörkun verks frá almennri starfsemi fyrirtækis?
  4. Hljóðar samningur um framkvæmd ákveðinna verkefna eða ákveðna tegund verkefna?
  5. Hvernig er endurgjald fyrir verkið ákveðið?
  6. Leggur sá sem verkið vinnur til húsnæði, vélar og verkfæri til framkvæmdar verksins?
  7. Hvernig er með ávinnslu launatengdra réttinda, svo sem orlofs, veikindaréttar o.s.frv.?
  8. Hver annast greiðslu launatengdra gjalda?

Staðfesturétturinn

Staðfesturétturinn samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

Staðfesturétturinn felur í sér rétt til að stofna til atvinnustarfsemi í öðru aðildarríki en því sem viðkomandi á ríkisfang í. Samkvæmt 2. mgr. 31. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið er um að ræða rétt til að hefja og stunda sjálfstæða starfsemi og til að stofna og reka fyrirtæki, einkum félög eða fyrirtæki í skilningi 2. mgr. 34. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, með þeim skilyrðum sem gilda að landslögum um ríkisborgara þess ríkis þar sem staðfestan er fengin, sbr. þó 4. kafla III. hluta samningsins.

Er bæði um að ræða frumstaðfesturétt og afleiddan staðfesturétt (e. secondary establishment). Hið fyrrnefnda á við um þegar fyrirtæki er stofnað eða keypt en hið síðara á við þegar fyrirtæki stofnar umboðsskrifstofur, útibú eða dótturfyrirtæki á yfirráðasvæði annars aðildarríkis. Slíkt er þó einungis heimilt þegar fyrirtæki hefur frumstaðfesturétt í öðru aðildarríki innan Evrópska efnahagssvæðisins. Er þá um að ræða fyrirtæki/útibú/dótturfyrirtæki sem sett eru á laggirnar samkvæmt reglum viðkomandi aðildarríkis sem ræður til sín starfsfólk eftir sömu reglum og önnur fyrirtæki með staðfestu innan landsins. Þessar reglur gilda einnig um starfsemi sjálfstætt starfandi einstaklinga (m.a. einyrkja).

Einn af lykilþáttum í skilgreiningu á staðfesturétti er að um sé að ræða starfsemi sem er á „stöðugum og samfelldum grunni“ (e. stable and continuous basis). Munurinn á staðfesturétti og þjónustuviðskiptum lýtur því aðallega að því hversu tímabundin umrædd þjónusta er. Hefur Evrópudómstóllinn enn fremur komist að þeirri niðurstöðu að líta bæri á veitingu þjónustu sem varanlega, þ.e. nýting á réttinum til staðfestu, í tilteknum tilvikum er sá sem veitir þjónustuna er að komast hjá reglum þess ríkis sem hann aðallega veitir þjónustuna innan með því að hafa staðfestu í öðru aðildarríki, sbr. til dæmis Van Binsbergen-málið (C-33/74, 13. mgr.).

Ákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið um staðfesturétt og afleiddar gerðir á grundvelli þeirra taka einungis til sjálfstætt starfandi einstaklinga og fyrirtækja en ekki launafólks, sbr. til dæmis tilskipun nr. 73/148, um afnám hafta á flutningum og búsetu innan bandalagsins gagnvart ríkisborgurum aðildarríkja að því er varðar þjónustustarfsemi og staðfesturétt. Í 1. gr. þeirrar tilskipunar kemur fram að aðildarríkjum beri að afnema höft á flutningum og búsetu „ríkisborgara aðildarríkis sem hafa eða vilja öðlast staðfestu í öðru aðildarríki sem sjálfstætt starfandi einstaklingar, eða sem vilja veita þjónustu í því ríki“. Sú tilskipun er hliðstæð tilskipun nr. 68/360, um afnám takmarkana á flutningum og búsetu innan bandalagsins gagnvart launþegum aðildarríkjanna og fjölskyldum þeirra, en eins og nafnið gefur til kynna gildir sú tilskipun um launafólk. Í þessu sambandi má einnig benda á skilgreiningu Evrópudómstólsins á staðfesturétti í svokölluðu Gebhard-máli (C-55/94, 23-25. mgr.).

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 9.3.2022 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum