Innanríkisráðherra heimsótti Útlendingastofnun
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra heimsótti í dag Útlendingastofnun og kynnti sér starfsemina þar.
Kristín Völundardóttir forstjóri tók á móti ráðherra og öðrum gestum, sýndi húsakynni, kynnti starfsfólk og fór yfir starfsemina með ráðherra. Stofnunin starfar samkvæmt lögum um útlendinga en útlendingalöggjöfin gildir um heimild útlendinga til að koma til landsins og dvelja hér á landi.
Umfangsmesti þátturinn í starfsemi Útlendingastofnunar er útgáfa dvalarleyfa. Stofnunin afgreiðir allar umsóknir um dvalarleyfi, hvort sem um er að ræða dvalarleyfi á grundvelli atvinnuþátttöku eða t.d. fjölskyldusameiningar, námsvistar eða vistráðningar, áritanir og umsóknir hælisleitenda.
Útlendingastofnun tók einnig nýverið við málefnum er snerta afgreiðslu ríkisborgararéttar af ráðuneytinu. Þar fyrir utan sinnir stofnunin margvíslegum verkefnum á sviði útlendingamála. Hjá Útlendingastofnun starfa nú 25 starfsmenn.
Frá heimsókn í Útlendingastofnun; f.v. Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri, Hermann Sæmundsson skrifstofustjóri, Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra og Þórey Vilhjálmsdóttir aðstoðarmaður ráðherra.