Tilkynningar um heimilisofbeldi til lögreglu - breyting á lögum um heilbrigðisstarfsmenn
Samþykkt hefur verið á Alþingi frumvarp Willum Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra til breytingar á lögum um heilbrigðisstarfsmenn. Með lagabreytingunni eru skýrðar heimildir heilbrigðisstarfsfólks til að tilkynna lögreglu um heimilisofbeldi í samráði við þolanda sem leitar á heilbrigðisstofnun. Tilgreint er hvaða upplýsingum er heimilt að miðla til lögreglu þannig að henni sé kleift að gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja þolanda nauðsynlega vernd og stuðning.
Heilbrigðisstofnanir eru oft helsti viðkomustaður þolenda heimilisofbeldis og heilbrigðisstarfsfólk eru jafnan fyrstu og einu fagaðilarnir sem fá vitneskju um slíkt ofbeldi. Aftur á móti er meginþorri þeirra mála sem kemur á borð lögreglu vegna útkalls á heimili en aðeins um 2% útkalla eru á heilbrigðisstofnun, líkt og fram kemur í greinargerð með lagafrumvarpinu. Samkvæmt doktorsrannsókn frá árinu 2021 kemur ein kona annan hvern dag á bráðamóttöku Landspítala í Fossvogi með líkamlega áverka af völdum heimilisofbeldis. Af þeim konum sem lagðar voru inn á Landspítalann í kjölfar líkamlegra áverka af völdum heimilisofbeldis á tímabilinu 2005–2019 var í 12% tilvika skráð tenging við aðkomu lögreglu samkvæmt skrám spítalans.
Aukið upplýsingaflæði frá heilbrigðiskerfinu til lögreglu
Markmið lagasetningarinnar er að auka upplýsingaflæði frá heilbrigðiskerfinu til lögreglu til að vernda og styðja þolendur og draga úr líkum á ítrekuðu ofbeldi. Lagabreytingin mætir einnig tillögum eftirlitsnefndar Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi en nefndin lagði nýlega til við íslensk stjórnvöld að tryggja að til væri skýr farvegur fyrir m.a. heilbrigðisstarfsfólk til að tilkynna lögreglu um heimilisofbeldi.
Öryggi og traust
Í áliti velferðarnefndar um frumvarpið er tekið undir að auka þurfi samvinnu heilbrigðisstofnana og lögreglu í vinnu gegn heimilisofbeldi. Lagabreytingin sé mikilvægur liður í þeirri vinnu og leggja þurfi áherslu á að ,,taka niður veggi hvað varðar upplýsingamiðlun milli kerfa til að tryggja megi öryggi þolenda og bæta traust þeirra á þeim úrræðum sem standa þeim til boða.“
Samræmt verklag um móttöku þolenda heimilisofbeldis
Unnið er að innleiðingu samræmds verklags í heilbrigðisþjónustu um móttöku þolenda heimilisofbeldis. Verklagið verður tekið upp næsta haust og innleitt á öllum heilbrigðisstofnunum hér á landi. Markmiðið er að tryggja þolendum viðeigandi heilbrigðisþjónustu og að auk aðkomu læknis og hjúkrunarfræðings sé einnig gert ráð fyrir tengingu við félagsráðgjafa og þjónustu áfallateymis. Jafnframt á verklagið að tryggja að öll heimilisofbeldismál verði skráð og unnin á sambærilegan hátt og tryggja að þolendur, óháð búsetu og efnahag, fái sambærilega þjónustu. Innleiðing verklagsins er óháð umræddri breytingu á lögum um heilbrigðisstarfsfólk en hvoru tveggja hefur að markmiði að bæta málsmeðferð heimilisofbeldismála, styðja við störf heilbrigðisstarfsfólks í slíkum málum og bæta þjónustu við þolendur.