Skuldbindingar Íslands kynntar á leiðtogafundi um orkumál
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, tók í dag þátt í leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna um orkumál, sem fram fór í tengslum við allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna. Fyrr á árinu tók Ísland að sér hlutverk heimserindreka orkumála en sem slíkur talar Ísland fyrir jöfnu aðgengi að endurnýjanlegri orku sem leið til að ná öllum heimsmarkmiðunum og orkuskiptum með jafnræði og réttlæti að leiðarljósi. Þá kynnti Guðlaugur Þór orkusáttmála Íslands sem inniheldur markmið Íslands í orkumálum.
„Það er einfaldlega óásættanlegt að um 760 milljónir íbúa heims séu enn án aðgangs að rafmagni og að þriðjungur mannkyns reiði sig á mengandi og heilsuspillandi orkugjafa við matargerð. Ákvörðunin um að gerast heimserindrekar orkumála var því ekki erfið. Íslendingar þekkja af eigin raun hvernig jafn aðgangur að endurnýjanlegri orku getur umbreytt samfélögum og efnahag ríkja,“ sagði Guðlaugur Þór meðal annars í ávarpi sínu á fundinum.
Utanríkisráðuneytið og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hafa haft samráð og samstarf um hlutverk Íslands sem heimserindreki orkumála og hefur utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra tekið þátt í fundum þessu tengdu á undanförnum mánuðum.
Heimserindrekahlutverkið hefur verið tækifæri til að vekja athygli á því fordæmi sem Ísland hefur sýnt varðandi sjálfbæra nýtingu orku, orkuskipti og aðrar áherslur í loftslags- og orkumálum. Einnig hefur skapast vettvangur til að koma á framfæri íslenskri sérþekkingu og grænum lausnum í samvinnu við alþjóðlega samstarfsaðila.
Meginafurð þessa ferlis eru svokallaðir orkusáttmálar (e. energy compacts) en markmið þeirra er að flýta framgöngu heimsmarkmiðs sjö um sjálfbæra orku og stuðla að kolefnishlutleysi fyrir árið 2050. Orkusáttmáli Íslands er í samræmi við orkustefnu Íslands þar sem fram koma markmið Íslands um að verða óháð jarðefnaeldsneyti fyrir 2050 og kolefnishlutlaust fyrir 2040. Jafnframt að hlutfall endurnýjanlegrar orku í samgöngum verði í það minnsta 40 prósent árið 2030 og stefnt sé að því að auka verulega orkunýtni og lágmarka orkusóun og mæta orkuþörf með öruggum hætti til lengri og skemmri tíma.
„Við höfum í orkustefnu sett okkur metnaðarfull markmið um að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti í síðasta lagi 2050 og að mínu mati eigum við að stefna að því að ná því markmiði fyrst allra landa. Það er ekki bara stórt umhverfis- og loftlagsmál heldur líka stórt efnahagsmál og á erindi á alþjóðavettvangi,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Alþjóðlega mun Ísland auka stuðning við loftslagstengd þróunarsamvinnuverkefni, með sérstaka áherslu á orkuskipti, styðja ríki við að auka hlut endurnýjanlegrar orku og við uppbyggingu hringrásarhagkerfisins þar sem bein og fjölþætt nýting jarðvarma spilar lykilhlutverk. Einnig mun Ísland vinna að því að kynjajafnrétti verði órjúfanlegur þáttur réttlátra orkuskipta í heiminum.
Ísland hefur einnig stutt alþjóðlegan orkusáttmála um kynjajafnrétti, 24/7 kolefnislausa orku og um aukna fjárfestingu í jarðvarma til hitunar og kælingar.