Ráðherra heimsótti Samgöngustofu
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, heimsótti í gær Samgöngustofu í höfuðstöðvum hennar í Reykjavík. Starfsfólk og stjórnendur tóku vel á móti ráðherra og kynntu starfsemi stofnunarinnar en meginhlutverk hennar að tryggja öryggi í samgöngum í lofti, láði og legi. Þórólfur Árnason forstjóri kynnti stefnu, framtíðarsýn og helstu verkefni Samgöngustofu sem fer með stjórnsýslu samgöngumála og annast eftirlit í flugi, siglingum, umferð og öryggiseftirlit með samgöngumannvirkjum og leiðsögu.
Frá þeim tíma að Samgöngustofa var stofnuð árið 2012 og tók við verkefnum sem áður heyrðu undir Flugmálastjórn, Umferðarstofu, Siglingastofnun og Vegagerðina, hefur markvisst verið unnið að samþættingu verkefna, hagræðingu og aukinni rafvæðingu í þjónustu. Alls starfa um 150 manns hjá Samgöngustofu og hefur starfsánægja aukist jafnt og þétt frá því að stofnunin tók til starfa.
„Starf Samgöngustofu er afskaplega þýðingarmikið en leiðarljósið í öllu starfinu er að auka öryggi vegfarenda í samgöngum með markvissri fræðslu, skýru regluverki og eftirliti. Margir mælikvarðar staðfesta að okkur miðar vel. Til að mynda hefur slysum á sjó fækkað umtalsvert á síðustu árum og engin dauðaslys orðið tvö síðustu ár. Ekkert flugslys varð á síðasta ári og skýr markmið hafa verið sett um að bæta öryggi í umferðinni. Ljóst er að starfsfólk Samgöngustofu er metnaðarfullt og samstillt í að efla öryggi í samgöngum enn frekar,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra heimsækir á næstum vikum stofnanir sem heyra undir ráðuneytið. Fyrsta heimsóknin var í Þjóðskrá Íslands fyrir um viku síðan.