Hoppa yfir valmynd
16. október 2008 Innviðaráðuneytið

Vilja lækka hámarkshraða á hluta Suðurlandsvegar

Rannsóknarnefnd umferðarslysa leggur til að hámarkshraði á Hringveginum milli Hveragerðis og Selfoss verði lækkaður í 70 km/klst. samhliða öflugri löggæslu og að unnið verði að því að bæta tengingar inn á veginn með betri merkingum og auknu rými.

Þessar ábendingar RNU koma fram í svonefndri varnaðarskýrslu sem fjallar um alvarleg umferðarslys á Suðurlandsvegi árin 2002 til 2008, sjá rnu.is. ,,Ef framtíðarlausn á vandanum tekur mörg ár í framkvæmd þá er það mat Rannsóknarnefndar umferðarslysa að bregðast skuli við með skammtímaúrbótum s.s. lækkun hámarkshraða, fljótlegum staðbundnum lagfæringum og öflugu umferðarerftirliti,” segir meðal annars í inngangsorðum skýrslunnar.

Tillögur RNU er sett fram í ljósi þess að slysatíðni á Suðurlandsvegi hefur vaxið undanfarin ár. Nefndin var kölluð fjórum sinnum á vettvang vegna banalysa á Suðurlandsvegi. Á þessu ári hefur nefndin farið fimm sinnum á vettvang alvarlegs slyss og þar af tvisvar vegna banaslyss. Árekstur tveggja eða fleiri bíla sem mætast er áberandi algengasta tegund slysa sem nefndin hefur rannsakað á veginum milli Reykjavíkur og Selfoss. ,,Gáleysi, ökumaður sofnar við stýrið eða meðvitundarleysi vegna sjúkdóms eða lyfjanotkunar eru þættir sem nefndin hefur oftar en ekki greint sem aðalorsök,” segir í skýrslunni.


Ólíkar orsakir

Fram kemur að aðalorsakir banaslysa á Suðurlandsvegi séu talsvert frábrugðnar algengustu orsökum banaslysa á landsvísu. Dæmigert banaslys sé útafakstur þar sem ökumaður sé ölvaður, jafnvel um ofsaakstur að ræða og bílbelti ekki notað. Dæmigert banaslys á Suðurlandsvegi milli Reykjavíkur og Selfoss undanfarin ár sé að ökumaður missi bíl sinn yfir á rangan vegarhelming og aki framan á bíl sem kemur á móti. Sá sem kemur á móti hafi lítinn tíma til að bregðast við jafnvel þótt hann fylgi settum reglum.

Nefndin telur að lækkun hámarkshraða á 12 km vegarkafla milli Hveragerðis og Biskupstungnabrautar muni draga úr afleiðingum slysa og jafnvel koma í veg fyrir nokkur slys. Lægri hámarkshrað lengir ferðatímann á þessum kafla um tvær mínútur.

Í umsögn Vegagerðarinnar um þessa tillögu segir að hún telji að lægri hámarkshraði myndi auka öryggi en bendir á að fleiri kaflar á þjóðvegakerfinu hafi svipaða slysatíðni miðað við fjölda slysa á móti eknum kílómetrum. Telji Vegagerðin því óraunhæft að lækka hámarkshraða á þessum kafla eingöngu frekar en öðrum svipuðum og bendir á að lækkun hámarkshraða gæti haft í för með sér meiri framúrakstur og þar með aukna slysahættu. RNU tekur undir þetta en telur að draga megi úr þeirri hætti með aukinni löggæslu. Einnig að með lagfæringum á tengingum og betri merkingu þeirra megi forðast aftanákeyrslur og hliðarárekstra.

Í umsögn Ríkislögreglustjóra um skýrsluna segir að lögreglan hafi aukið eftirlit á veginum og með því hafi umferðarhraði náðst niður.


Alvarleg umferðarslys á Suðurlandsvegi 2002-2008. Varnaðarskýrsla.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta