Hoppa yfir valmynd
19. nóvember 2003 Innviðaráðuneytið

Vatnaleið á Snæfellsnesi hlýtur viðurkenningu Vegagerðarinnar

Viðurkenningu Vegagerðarinnar fyrir gerð og frágang mannvirkja sem lokið var við á árunum 1999-2001 hlýtur að þessu sinni Vatnaleið á Snæfellsnesi.

Hönnun vegar var í höndum áætlanadeildar Vegagerðarinnar í Borgarnesi, um eftirlit og umsjón framkvæmdar sá framkvæmdadeild Vegagerðarinnar í Borgarnesi og verktaki var Suðurverk hf.


Greinargerð dómnefndar

Árið 2002 gáfu vegamálastjóri og forstöðumaður umhverfisdeildar Vegagerðarinnar út reglur um viðurkenningu Vegagerðarinnar fyrir gerð og frágang mannvirkja. Snemma árs 2003 skipaði síðan vegamálastjóri dómnefnd til að annast veitingu fyrstu viðurkenningarinnar. Í nefndinni voru þau; Guðmundur Arason, Helgi Hallgrímsson og Ásrún Rúdólfsdóttir sem var formaður.
Samkvæmt áðurnefndum reglum skal umhverfisnefnd hvers umdæmis tilnefna tvö til fimm mannvirki, sem lokið var við á árunum 1999 - 2001. Verkefni dómnefndar er að velja þrjú bestu verkefnin, raða eftir gæðum og hlýtur besta verkefnið viðurkenningu.
Alls voru tilnefnd nítján verkefni úr öllum umdæmum. Dómnefndin skoðaði öll mannvirkin og mat þau. Við það mat var bæði horft til hönnunar og útfærslu. Litið var til upplifunar vegfarenda, aðlögunar að landi, frágangs o.fl. atriða. Þá var einnig tekið tillit til þess hve erfið verkefnin voru að mati nefndarinnar. Þessi atriði voru síðan vegin saman og heildarniðurstaðan réð vali dómnefndar.
Valið miðar að því að draga fram það, sem allra best er gert í vegamannvirkjum á umræddu tímabili. Valið var erfitt því að mörg þeirra verkefna, sem dómnefndin skoðaði voru prýðilega af hendi leyst. Valið byggist á mati dómnefndarmanna, tilfinningu þeirra og smekk, og verður það því alltaf umdeilanlegt.
Það er mat dómnefndar að hönnun þeirra mannvirkja sem skoðuð voru, hafi í flestu tekist vel, en frekar megi finna að útfærslu og frágangi þeirra. Þar má benda á nokkur atriði, sem koma víða fyrir.
Gróft burðarlagsefni nær út í yfirborð vegfláans og torveldar jöfnun og uppgræðslu. Flökt er á kantlínum vega vegna umframefnis úr klæðningu og öxlum. Ekki er gengið nægilega vel frá fláum við brýr. Línur í bríkum brúa eru flöktandi og gólf ekki alltaf nægilega slétt. Við efri mörk brattra skeringa í grónu landi grefur undan gróðurþekjunni þannig að rof myndast gjarnan með hjálp sauðkindarinnar. Sáning hefur ekki tekist sem skyldi á öllum stöðum, oft vegna slakra skilyrða í jarðvegi og virðist nokkuð vanta upp á að fylgst sé með hvernig til hefur tekist og bætt úr þar sem upp á vantar.
Dómnefndin vill vekja athygli vegagerðarfólks á þessum atriðum og hvetja það til að gefa þeim gaum.
Niðurstaða dómnefndar varð sú að velja fjögur verkefni, sem skáru sig nokkuð úr að hennar mati. Nefndin valdi síðan eitt af þessum mannvirkjum til viðurkenningar en taldi ekki efni til að raða hinum þremur. Þessi fjögur mannvirki eru:

Vatnaleið á Snæfellsnesi
Reykhólasveitarvegur, tveir kaflar
Tindastólsvegur
Norðausturvegur um vestanvert Tjörnes.

Hér á eftir verður gerð nánari grein fyrir mati dómnefndar á þessum mannvirkjum, sem hún taldi skara fram úr.

Vatnaleið á Snæfellsnesi:
Vegurinn liggur að mestu um opið land þar sem víða er fallegt útsýni.
Mjög vel hefur tekist að fella veginn að landinu þannig að náðst hefur tæknilega góð veglína sem dregur fram fegurð umhverfis og útsýnis án þess að röskun á landslagi sé tilfinnanleg. Frágangur er góður og hnökrar á útfærslu minni háttar.
Áningastaður er mjög vel heppnaður bæði hvað snertir staðsetningu, gerð og frágang.
Frágangi á námum er ekki að fullu lokið.

Reykhólasveitarvegur:
Vegurinn liggur um mishæðótt og erfitt land vaxið birkikjarri og öðrum viðkvæmum gróðri. Vegurinn er mjög vel felldur að landinu og röskun á gróðri er í lágmarki. Frágangur er góður og hnökrar á útfærslu óverulegir og tengjast einkum sáningu

Tindastólsvegur:
Vegurinn liggur um snjóþungt fjalllendi þar sem snjósöfnun og verndun nálægra fornleifa höfðu mikil áhrif á val vegsvæðis.
Vegurinn er mjög vel hannaður og fer vel í landinu. Frágangur er góður.

Norðausturvegur um vestanvert Tjörnes:
Vegsvæðið einkennist af þykkum jarðvegi og djúpum giljum sem krefjast mikillar landmótunar bæði í skeringum og fyllingum.
Hönnunin við þessar sérstöku og erfiðu aðstæður hefur tekist ágætlega.
Frágangur er góður, en hnökrar á úrfærslu tengjast einkum jöfnun og sáningu í efsta hluta vegfláa.

Viðurkenningu Vegagerðarinnar fyrir gerð og frágang að þessu sinni hlýtur
Vatnaleið á Sæfellsnesi.
Hönnun vegar var í hönudum áætlanadeildar Vegagerðarinnar í Borgarnesi, um eftirlit og umsjón framkvæmdar sá framkvæmdadeild Vegagerðarinnar í Borgarnesi og verktaki var Suðurverk hf.


Frá dómnefnd

Dómnefnd sú, sem skipuð var til að annast veitingu fyrstu viðurkenningu Vegagerðarinnar fyrir gerð og frágang mannvirkja, er nú að ljúka störfum. Dómnefndin hefur í störfum sínum tekið mið af orðsendingu nr. 3/2002 um reglur um slíka viðurkenningu.

Í tveim atriðum hefur nefndin farið á svig við reglurnar. Þar segir að velja skuli þrjú mannvirki og raða eftir gæðum. Dómnefndin valdi fjögur verkefni og raðaði þeim ekki. Ástæða þessa var sú að þessi fjögur verkefni skáru sig nokkuð úr að mati nefndarinnar en erfitt að gera upp á milli þeirra og því ekki efni til að raða þeim. Í ljósi þessarar reynslu leggur nefndin til að reglunum verði breytt þannig að velja skuli 3-5 verkefni, en þeim ekki raðað að öðru leyti en því að eitt þeirra sé valið til viðurkenningar.

Í störfum sínum hefur dómnefndin fundið að áhugi er fyrir þessu máli meðal starfsmanna Vegagerðarinnar. Því er vonast til að veiting viðurkenningarinnar hvetji Vegagerðarfólk til að leggja sig fram við hönnun, gerð og frágang mannvirkja. Með tilliti til þessa er það skoðun nefndarinnnar að halda beri áfram þessu starfi, a.m.k. fyrst um sinn. Leggur hún til að viðurkenning verði veitt annað eða þriðja hvert ár og fari veitingin fram í lok næsta árs eftir viðmiðunartímabilið.

Að lokum vill dómnefndin þakka yfirstjórn Vegagerðarinnar traust það sem henni var sýnt, svo og starfsmönnum fyrir ánægjulegt samstarf.

Reykjavík, í október 2003

Ásrún Rúdólfsdóttir
Helgi Hallgrímsson
Guðmundur Arason

Heimild: www.vegagerdin.is

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta