Flugsafnið afhjúpar stjórnklefa fyrstu þotu Íslendinga
Stjórnklefi Gullfaxa, fyrstu farþegaþotu í eigu Íslendinga, var afhjúpaður í Flugsafni Íslands á Akureyri í gær að viðstöddu fjölmenni. Flugfélag Íslands tók vélina í notkun glænýja sumarið 1967 og var hún í þjónustu þess og síðar Flugleiða í nærri tvo áratugi.
Hafþór Hafsteinsson var meðal þeirra sem stóðu fyrir því að unnt var að kaupa stjórnklefa Gullfaxa og flytja hann hingað heim. Rakti hann gang mála við athöfn í Flugsafninu í gær. Meðal fyrirtækja sem veittu fjárhagslegan stuðning eru Icelandair, Avion Aircraft Trading, Flugfélag Íslands og Eimskip. Þotan hefur síðustu árin þjónað fraktflugi á vegum UPS þar til um mitt sumar 2007 þegar fyrirtækið ákvað að hætta rekstri B 727 véla sem það hafði notað í áraraðir. Þegar ljóst var að selja ætti vélina til niðurrifs var leitað leiða til að fá stjórnklefann keyptan þar sem það reyndist of stór biti að kaupa vélina alla. Samningar tókust um kaup á stjórnklefanum og þakkaði Hafþór fjölmörgum aðilum sem stutt hafa við kaupin og flutninginn til Íslands og undirbúning sýningarinnar.
Stjórnklefinn verður framvegis til sýnis í flugsafninu og lét Hafþór þess getið að nú stæði meðal annars yfir athugun á því að kaupa svonefndan ,,Monsa“ fyrir safnið eða stjórnklefa, Canadair CL 44 vélar sem Loftleiðir notuðu í millilandaflugi á sjöunda áratugnum.
Flugsafninu bárust ýmsar kveðjur og gjafir í gær meðal annars frá samgönguráðherra, Félagi ísl. atvinnuflugmanna og Henning Bjarnason, fyrrverandi flugstjóri, afhenti safninu fyrir hönd Snorra Snorrasonar, fyrrverandi flugstjóra, málverk af Gullfaxa á flugi.
Nokkrir fyrrverandi flugstjórar og flugvélstjórar á Gullfaxa, fulltrúar stéttarfélaga, Icelandair og fleiri voru meðal gesta við athöfnina í Flugsafni Íslands í gær. |
Henning Bjarnason afhenti Arngrími Jóhannssyni málverk af Gullfaxa fyrir hönd Snorra Snorrasonar. |