Hoppa yfir valmynd
08. október 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Áskoranir nútímans

Svandís Svavarsdóttir - myndVelferðarráðuneytið

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra skrifar:

Í lok september var ég viðstödd 73. leiðtogafund allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna í New York. Umfjöllunarefni fundarins voru langvinnir sjúkdómar (e. noncommunicable diseases). Langvinnir sjúkdómar eru hjarta- og æðasjúkdómar, öndunarfærasjúkdómar, krabbamein, sykursýki og geðsjúkdómar. Þessir sjúkdómaflokkar eru algengasta dánarmeinið á heimsvísu en þeir eru valdur að 70% allra dauðsfalla í heiminum.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur skilgreint langvinna sjúkdóma sem helstu ógn heimsbyggðarinnar við félagslega og efnahagslega framþróun á 21. öldinni. Sjúkdómarnir auka álag á heilbrigðiskerfi þjóða og hafa áhrif á velferð íbúa heims. Helstu áhættuþættir
langvinnra sjúkdóma eru lífsstílstengdir. Þeir eru óheilbrigt mataræði, tóbaksnotkun, loftÁskoranir loftmengun, óhófleg áfengisneysla og of lítil hreyfing. Stofnunin hefur í þessu samhengi lagt áherslu á að stefnur stjórnvalda á öllum sviðum þurfi að stuðla að heilsuvernd eins og kostur er.

Það er markmið Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar að fækka dauðsföllum af völdum langvinnra sjúkdóma eins og kostur er. Stjórnvöld geta gripið til ýmissa aðgerða í þessu skyni. Þar skipta mestu markvissar aðgerðir til þess að bæta aðgengi fólks að góðri heilbrigðisþjónustu og að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga. 

Stefnumörkun stjórnvalda skiptir einnig miklu máli. Stjórnvöld ættu að mati Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar að gera það sem í þeirra valdi stendur til að tryggja heilbrigða lífshætti, til dæmis með fræðslu og forvörnum um helstu áhættuþætti heilsu. Mögulegt sé að beita skattkerfinu til að ná ákveðnum markmiðum fram auk þess sem umhverfisþættir skipti miklu máli, svo sem að umhverfi okkar sé ekki
skaðlegt heilsunni. 

Ég hef lagt sérstaka áherslu á marga af þeim þáttum sem eru til þess fallnir að draga úr langvinnum sjúkdómum. Fyrst má nefna aðgerðir tengdar lækkun greiðsluþátttöku sjúklinga, sem er að mínu mati algert forgangsmál. Stefnt er að því að minnka greiðsluþátttökuna þannig að hlutdeild sjúklinga hérlendis verði sambærileg því sem gerist annars staðar á Norðurlöndunum. Samkvæmt fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2019-2023 er ráðgert að verja 8,5 milljörðum króna til þess að lækka greiðsluþátttöku sjúklinga á tímabilinu. Verkefnið heilsueflandi samfélög, sem heyrir undir embætti landlæknis, er einnig til þess fallið að skapa umhverfi sem styður við heilbrigði og vellíðan íbúa. Einnig er mögulegt að skoða að setja á sykurskatt til þess að ýta undir heilbrigðari lifnaðarhætti þjóðarinnar. 

Áhersla stjórnvalda á lýðheilsu og forvarnir er nauðsynleg til þess að við getum tekist á við þessar helstu áskoranir nútímans. Þannig getum við skapað heilbrigðara samfélag. 

Grein ráðherra birtist í Morgunblaðinu 8. október 2018

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum