Hoppa yfir valmynd
25. október 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Framsöguræða með skýrslu um geðheilbrigðismál og framkvæmd geðheilbrigðisáætlunar

Framsöguræða heilbrigðisráðherra

um skýrslu heilbrigðisráðherra um geðheilbrigðismál og framkvæmd geðheilbrigðisáætlunar

Alþingi, 25. október 2018

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir að þetta mál er sett á dagskrá.

Hér er um að ræða skýrslu mína um geðheilbrigðismál og framkvæmd geðheilbrigðisáætlunar sem lögð var fyrir Alþingi á 148. löggjafarþingi 2017–2018.

Vitundarvakning er í samfélaginu varðandi geðheilbrigðismál sem endurspeglast meðal annars í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Stjórnvöld og almenningur vilja setja geðheilbrigðismál í forgang.

Markmið þessarar skýrslu er að veita yfirsýn um stöðu geðheilbrigðismála á Íslandi, svo að við sjáum hvar við erum stödd, helstu áskoranir sem við stöndum frammi fyrir og öðlumst þannig skýrari sýn á það hvert við eigum að stefna.

Í skýrslunni er litið til geðræktar og forvarna, skipulags þjónustu og aðgangs að gagnreyndri meðferð.  Áhersla er lögð á tækifæri til úrbóta og áform um næstu skref til að bæta geðheilsu landsmanna og geðheilbrigðisþjónustu á landinu.

Ég vil leggja áherslu á að geðheilbrigði er ein af grundvallarforsendum heilbrigðis. Einstaklingar sem hafa góða geðheilsu finna fyrir andlegri vellíðan sem gerir þeim kleift að nýta hæfileika sína, njóta sín í leik og starfi, ná persónulegum markmiðum sínum, taka virkan þátt í samfélaginu á gefandi hátt og takast á uppbyggilegan hátt við það álag sem óhjákvæmilega fylgir lífinu.

Geðheilbrigðisvandi er einn stærsti heilbrigðisvandi samtímans. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin telur að eftir tvö ár muni geðheilbrigðisvandamál vera 15% alls heilbrigðisvanda í heiminum. Einn af hverjum fjórum einstaklingum glímir við geðheilsuvanda um ævina. Geðræn vandamál koma snemma í ljós og um helmingur geðraskana er kominn fram á táningsárum og 75% geðraskana eru komnar fram á þrítugsaldri. Um er að ræða stóran þátt í efnahagslegri byrði þjóða og talið er að sú byrði muni fara vaxandi.

Við, sem þjóð, höfum ef til vill ekki verið nógu vel upplýst um eðli geðheilbrigðismála. Vil ég vekja athygli á því hversu mikil breidd einkennir þennan málaflokk. Flestir kannast við algengar raskanir eins og kvíða og þunglyndi, en undir geðheilsuvanda flokkast einnig eins ólíkar raskanir og þroskafrávik, Alzheimers sjúkdómurinn og aðrar heilabilanir, svefnraskanir og fíkn.  Geðheilsuvandi getur verið allt frá alvarlegum geðsjúkdómum sem vara ævilangt til vægra einkenna sem hamla ekki verulega í daglegu lífi en fólk gæti tímabundið þurft stuðning til þess að komast yfir.

Geðheilbrigðismál eru víðfeðmur málaflokkur með þá sérstöðu að hafa snertiflöt við flesta þætti mannlegs lífs. Geðheilbrigði hefur áhrif á lífsgæði einstaklinga og fjölskyldna þeirra sem og samfélagið í heild.

Gríðarlegar framfarir hafa átt sér stað í geðheilbrigðismálum á síðustu áratugum. Mannréttindi og valdefling notenda eru í brennidepli í nútíma geðheilbrigðisumræðu. Aukin áhersla er á notendamiðaða þjónustu í nærumhverfi og það að draga úr stofnanavæðingu. Þetta eru afdráttarlaus framfaraskref. Sömuleiðis er það mikilvægt framfaraskref að áhersla er aukin á rétt fólks til geðheilbrigðisþjónustu sem vísindalega hefur verið sýnt fram á að skilar árangri.

Ég vil leggja sérstaka áherslu á að einhver mikilvægasti skilningur sem náðst hefur í þessum málaflokki hin síðari ár er að geðheilbrigði þjóða sé ekki fyrst og fremst viðfangsefni heilbrigðisþjónustu heldur veltur það ekki hvað síst á öflugu menntakerfi, félagsþjónustu, dómsmálakerfi, atvinnulífi, samgöngum og skipulagsmálum. Við þurfum að vinna saman.

Virðulegi forseti.

Lengi býr að fyrstu gerð og mikilvægt er að hlúa að geðheilbrigði strax í æsku með geðrækt, forvörnum og veitingu gagnreyndrar meðferðar um leið og vanda verður vart. Mikilvægt er að hafa hugfast að góð geðheilsa og líðan byggist á ákveðinni færni og þekkingu, svo sem þekkingu á eigin tilfinningum og færni í því að takast á við þær, þekkingu á eigin styrkleikum og veikleikum og færni í því að nýta sér þá sem best. Ég vil taka það skýrt fram að slíka þekkingu og færni er hægt að kenna og ábyrgð samfélagsins liggur í því að koma börnum sem vaxa úr grasi á Íslandi til manns með þessa færni í farteskinu.

Mikilvægur þáttur í stefnumótun og aðgerðum á sviði geðræktar er að fylgjast með stöðu og þróun lykilmælikvarða varðandi líðan landsmanna. Embætti landlæknis sinnir umfangsmikilli gagnasöfnun um heilsu og líðan auk reglubundinnar vöktunar áhrifaþátta heilbrigðis og vellíðunar. Þessar upplýsingar eru meðal annars nýttar við birtingu lýðheilsuvísa sem liður í því að veita yfirsýn yfir líðan og heilsu íbúa í heilbrigðisumdæmum landsins. Þetta auðveldar sveitarfélögum að skilja þarfir íbúanna þannig að þau geti unnið markvissar að því að bæta heilsu og líðan. Embætti landlæknis og sveitarfélögin sinna auk þess geðræktarstarfi á landsvísu, meðal annars í gegnum heilsueflandi leik-, grunn- og framhaldsskóla og heilsueflandi samfélög. Sveitarfélög landsins eru í lykilaðstöðu til að skapa umhverfi sem stuðlar að bættri geðheilsu og vellíðan íbúa á öllum aldri.

Virðulegi forseti, vil ég nú víkja máli mínu stuttlega að nokkrum lykilstefnum og aðgerðaáætlunum sem lúta að geðheilbrigði.

Til er stefna í áfengis- og vímuvörnum til ársins 2020 og unnið er að aðgerðaáætlun til að hrinda stefnunni í framkvæmd. Markmið hennar er að íslenskt samfélag einkennist af heilbrigðu umhverfi þar sem einstaklingum stafar ekki hætta af notkun eða misnotkun áfengis eða annarra vímugjafa. Meðal aðgerða er að takmarka skuli aðgang að áfengi og öðrum vímugjöfum, vernda viðkvæma hópa fyrir skaðlegum áhrifum áfengis og annarra vímugjafa, efla forvarnir til að hamla því að ungmenni hefji notkun áfengis og vímuefna, aðgerðir til að fækka þeim sem þróa með sér skaðlegt neyslumynstur, tryggja aðgang fólks með fíknivanda að samfelldri og samþættri þjónustu og draga úr skaða og reyna að fækka dauðsföllum vegna fíknivanda.

Forvarnarstarf hefur skilað góðum árangri á Íslandi því að undanfarin ár hefur dregið verulega úr notkun ungmenna á áfengi og öðrum vímuefnum. En Íslendingar nota meira af ákveðnum lyfjum sem geta valdið ávana og fíkn en flestar aðrar þjóðir. Í maí síðastliðnum skilaði starfshópur skýrslu um leiðir til að sporna við mis- og ofnotkun ávana- og fíknilyfja og verið er að vinna úr þeim tillögum í ráðuneytinu.

Neyslurými fyrir vímuefnaneytendur hefur gefið góða raun um allan heim, með færri dauðsföllum og færri smitum á blóðsjúkdómum vegna margnota nálaskiptabúnaðar. Unnið er að því að koma upp neyslurými í Reykjavík fyrir fíkniefnaneytendur að erlendri fyrirmynd í samvinnu við borgina.

Í lýðheilsustefnu frá árinu 2016 er lögð sérstök áhersla á börn og ungmenni að 18 ára aldri. Meginmarkmið hennar er að Íslendingar verði ein heilbrigðasta þjóð heims árið 2030 og er áhersla lögð á forvarnir og heildræna nálgun, meðal annars með samstarfi við skóla og sveitarfélög. Lagt er upp með að öll sveitarfélög verði heilsueflandi samfélög, þ.m.t. leikskólar, grunnskólar, framhaldsskólar og vinnustaðir, og að markvissar forvarnir fari fram á sviði uppeldis- og menntunar, næringar, hreyfingar, geðræktar, tannverndar, ofbeldis- og slysavarna og áfengis-, vímu- og tóbaksvarna.

Stefna og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára var samþykkt á Alþingi árið 2016. Meginmarkmið geðheilbrigðisstefnunnar er að stuðla að aukinni vellíðan og betri geðheilsu allra landsmanna og að einstaklingar sem glíma við geðraskanir taki virkari þátt í samfélaginu.  Lögð er áhersla á að þjónusta við einstaklinga með geðraskanir sé fagleg, samþætt og samfelld. Margar góðar aðgerðir eru tilgreindar í geðheilbrigðisstefnunni og verið er að hrinda þeim í framkvæmd. Sem dæmi má nefna að sálfræðingum hefur verið fjölgað á heilsugæslustöðvum um land allt og geðheilsuteymi hafa verið sett á fót. Einnig eru þar aðgerðir sem miða að því að draga úr fordómum og mismunun á grundvelli geðheilsu.

Á Íslandi falla um 40 manns á hverju ári fyrir eigin hendi og eru það fleiri en látast af völdum umferðarslysa. Í aðgerðaáætlun til að fækka sjálfsvígum eru fjölmörg markmið sem miða að því að efla geðheilsu fólks og draga úr hættunni á sjálfsvígum. Þá er sjónum sérstaklega beint að þeim sem taldir eru til sérstakra áhættuhópa, þar á meðal hinsegin ungmennum og þeim sem áður hafa reynt sjálfsvíg. Fjárframlagi hefur verið veitt til að hrinda í framkvæmd verkefnum sem lögð eru til í aðgerðaáætlun til að fækka sjálfsvígum á Íslandi.

Virðulegi forseti.

Þrátt fyrir mörg jákvæð skref í átt að bæta geðheilbrigði Íslendinga þá stöndum við frammi fyrir mörgum áskorunum.

Skýrari línur vantar varðandi geðræktarstarf í skólum, skortur er á heildstæðum ramma utan um forvarnir og snemmtæka íhlutun í samræmi við þrepaskiptan stuðning í skólastarfi, í menntun kennara skortir kennslu á gagnreyndum aðgerðum til að efla atferlis-, félags- og tilfinningafærni barna og ungmenna, og skortur er á úrræðum fyrir börn með náms-, hegðunar- eða tilfinningavanda.

Framboð og aðgangur að úrræðum og þjónustu fyrir börn og fullorðna með geðheilsuvanda sem og fyrir fjölskyldur þeirra er misjafn eftir landsvæðum. Flest úrræði eru í boði á höfuðborgarsvæðinu þar sem mannfjöldinn er mestur. Geðheilbrigðisþjónusta er veitt í heilsugæslu á landinu öllu en skortur er á þjónustu sérhæfðra heilbrigðisstétta víða um land. Ég legg áherslu á notkun tækninnar í þessu sambandi þannig að tryggja megi þjónustu sérfræðinga sem víðast um landið.

Þá er mikilvægt að tryggja samfellu í þjónustu og að auka þverfaglega teymisvinnu. Skipulagi þjónustu og samvinnu þjónustuveitenda er ábótavant og mikil tækifæri felast í því að skipuleggja þjónustuna betur þannig að skýrt sé fyrir notendur hvaða valkostir eru í boði og hvert skuli leita. Við skipulag þjónustunnar er mikilvægt að leggja áherslu á að mæta þörfum einstaklinga og tryggja aðgang að árangursríkum meðferðarúrræðum á viðeigandi þjónustustigum sem og samfellu og eftirfylgni í meðferð. Hluti þess er að skýra nánar hvaða hlutverki hver þjónustuaðili gegnir og hvernig samstarfi og samvinnu skuli háttað milli þjónustustiga og þjónustuaðila. Við þurfum að efla samvinnu þjónustuveitenda og þjónustuþega og beita okkur fyrir því að sú samvinna verði gerð sýnilegri.

Virðulegi forseti.

Geðheilbrigði þjóðarinnar er á ábyrgð okkar allra. Við stöndum nú frammi fyrir einstökum tækifærum til framfara í geðheilbrigðismálum. Sókn á þeim vettvangi þarf að byggjast á þeirri grundvallarkröfu að mannréttindi, almennar siðareglur og siðareglur heilbrigðisstarfsfólks séu í forgrunni við veitingu geðheilbrigðisþjónustu sem og annarrar heilbrigðisþjónustu, á öllum stigum. Í því felst virðing fyrir fólki og rétti þess til upplýstrar þátttöku og valfrelsis hvað varðar eigin meðferð. Til þess að gera fólki kleift að taka upplýstar ákvarðanir varðandi eigin meðferð þarf það að hafa greiðan aðgang að upplýsingum um árangursríkar meðferðarleiðir sem byggjast á vísindalega raunprófuðum aðferðum.

Í framtíðinni verða menntakerfi, félagsþjónusta, dómskerfi, samgöngur, skipulagsmál, atvinnulíf og heilbrigðisþjónusta að vinna saman að því að stuðla að heilbrigðara samfélagi þar sem mannréttindi eru höfð að leiðarljósi. Skýrt verður að vera hver gerir hvað og með hvaða hætti við vinnum saman að okkar sameiginlegu markmiðum. Hvatar verða að vera fyrir lausnamiðaðri samvinnu. Við þurfum öll að taka höndum saman sem sterkt og manneskjulegt þjóðfélag og standa vörð um geðheilbrigði okkar og barnanna okkar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum