Hoppa yfir valmynd
Komið vel á veg

Framvinda verkefnisins

Innan heilbrigðisráðuneytis og í samvinnu við félagsmálaráðuneyti hafa meðferðarúrræði barna og ungmenna sérstaklega verið skoðuð. Afeitrunardeild ólögráða ungmenna var opnuð á Landspítala 2. júní 2020. Starfshópur sem rýndi í það lagaumhverfi sem snýr að meðferð ólögráða ungmenna skilaði skýrslu til heilbrigðisráðherra haustið 2020. Starfshópur um heildarskipulag heilbrigðisþjónustu fyrir börn og ungmenni með neyslu- og fíknivanda skilaði heilbrigðisráðherra skýrslu með tillögum sínum í júní 2021 og hefur hún verið birt til umsagnar í samráðsgátt. Ráðist hefur verið í heildarúttekt á þjónustu við einstaklinga með vímuefnasjúkdóma. Jafnframt verða skoðaðir möguleikar á frekari samhæfingu heilbrigðisþjónustu og félagslegrar þjónustu, einkum með tilliti til endurhæfingar, búsetuúrræða og stuðningsmeðferðar fyrir einstaklinga í bataferli. Stefnt er að því að heildarúttektinni verði lokið í nóvember 2021. 

Í kjölfar samvinnu heilbrigðisráðuneytis og dómsmálaráðuneytis varðandi úrbætur í málefnum fanga var geðheilsuteymi fangelsanna sett á fót í desember 2019. Geðheilsuteymið veitir föngum í öllum fangelsum landsins almenna og sérhæfða geðheilbrigðisþjónustu, þar á meðal meðferð við neyslu- og fíknivanda. Fulltrúi heilbrigðisráðuneytis á sæti í stýrihópi   dómsmálaráðuneytis er fylgir eftir umbótum í heilbrigðismálum fanga, þar á meðal meðferð við neyslu- og fíknivanda,  í kjölfar úttektar evrópsku pyndingarnefndarinnar (CPT) 2019. Fulltrúi heilbrigðisráðuneytis á einnig sæti í stýrihópi félagsráðuneytis og dómsmálaráðuneytis sem var falið að móta heildstæða meðferðar- og endurhæfingarstefnu í fangelsismálakerfinu, leggja til nauðsynlegar breytingar á lögum og greina fjárþörf til þess að tryggja öllum föngum einstaklingsbundna meðferðaráætlun, bættan aðgang að menntun og heilbrigðisþjónustu og aukinn stuðning að afplánun lokinni.

Fólk sem ekki á fast heimili hefur lengi verið jaðarsett og glímt við fjölþættan vanda, s.s. notkun vímuefna, geðræn einkenni, áföll og þroskafrávik. Á Íslandi og hjá nágrannasamfélögum hafa þróast sérstök þjónustukerfi fyrir hvern þessara þátta en skortur hefur verið á heildstæðum lausnum. Að frumkvæði heilbrigðisráðherra var í mars 2020 stofnaður verkefnahópur til að kanna fýsileika þess að opna hjúkrunar- og búsetuúrræði fyrir aldraða með samþættan geð- og fíknivanda. Áður hafði umboðsmaður Alþingis gert frumkvæðisathugun þar sem bent var á nauðsyn þess að ráðuneytin tvö í samstarfi við sveitarfélögin tækju sérstaklega til athugunar þjónustu við utangarðsfólk. Í kjölfar þessarar vinnu ákvað heilbrigðisráðherra í desember 2020 að setja á fót 12 rýma sérhæfða hjúkrunardeild ætlaða heimilislausu fólki sem þarfnast hjúkrunar og umönnunar og glímir við langvarandi neysluvandamál, oft samhliða geðrænum vanda. Þörf fyrir sértækt úrræði sem þetta er brýn að mati verkefnahóps sem fjallað hefur um málið. Um sé að ræða viðkvæman hóp sem við núverandi aðstæður fær ekki fullnægjandi þjónustu. Heimilið verður samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga.


Ábyrgð

Heilbrigðisráðuneytið

Samstarfsráðuneyti

Dómsmálaráðuneytið

Kafli

Sterkt samfélag

Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum