Hoppa yfir valmynd
22. desember 2020 Heilbrigðisráðuneytið

Hjúkrunardeild fyrir heimilislaust fólk sett á fót á næsta ári

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að setja á fót 12 rýma sérhæfða hjúkrunardeild ætlaða heimilislausu fólki sem þarfnast hjúkrunar og umönnunar og glímir við langvarandi neysluvandamál, oft samhliða geðrænum vanda. Þörf fyrir sértækt úrræði sem þetta er brýn að mati verkefnahóps sem fjallað hefur um málið. Um sé að ræða viðkvæman hóp sem við núverandi aðstæður fær ekki fullnægjandi þjónustu. Heimilið verður samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga.

Að frumkvæði ráðherra var í mars síðastliðinn stofnaður verkefnahópur með fulltrúum heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytis og Reykjavíkurborgar. Verkefni hópsins var að kanna fýsileika þess að opna hjúkrunar- og búsetuúrræði fyrir aldraða með samþættan geð- og fíknivanda. Áður hafði umboðsmaður Alþingis gert frumkvæðisathugun þar sem bent var á nauðsyn þess að ráðuneytin tvö í samstarfi við sveitarfélögin tækju sérstaklega til athugunar þjónustu við utangarðsfólk.

Eins og fram kemur í meðfylgjandi minnisblaði verkefnahópsins hefur hluti hópsins sem um ræðir nýtt sér þjónustu gistiskýla um lengri eða skemmri tíma, önnur úrræði félagsþjónustu sveitarfélaga, heilbrigðisþjónustu eða hjúkrunarheimila. Einnig eru dæmi um einstaklinga sem fengið hafa rými á hjúkrunarheimili en falla illa að heimilisbrag og fá ekki þá þjónustu sem þeir þyrftu á að halda vegna geð- og fíknivanda síns. Niðurstaða hópsins er sú að hjúkrunarheimili sé hentugra úrræði en sambýli með aukinni heimahjúkrun kæmi einnig til greina.

Samvinnuverkefni ríkis og sveitarfélaga 

Gengið er út frá því að sérhæft hjúkrunarheimili fyrir umræddan hóp verði samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga sem deili kostnaðinum. Heilbrigðisráðherra mun að fela Sjúkratryggingum Íslands að gera þjónustusamning við Reykjavíkurborg um reksturinn til tveggja ára. Áætlaður árlegur kostnaður er 233 milljónir króna á ári. Af þeim hluta leggur heilbrigðisráðuneytið til 160 milljónir króna, eða sem nemur daggjöldum fyrir 12 hjúkrunarrými.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum