Hoppa yfir valmynd

Ráðherranefndir

Fimm ráðherranefndir eru starfandi. Um starfshætti ráðherranefnda gilda reglur nr. 166/2013.

Ráðherranefnd um ríkisfjármál

Hlutverk ráðherranefndar um ríkisfjármál er að skipuleggja vinnubrögð á sviði ríkisfjármála á vettvangi ríkisstjórnarinnar og vinnubrögð gagnvart ráðuneytum og Alþingi, svo sem um stefnumótun í opinberum fjármálum, undirbúningi fjárlagagerðar, eftirlit með framkvæmd fjárlaga og langtímaáætlun í ríkisfjármálum.

Forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og félags- og vinnumarkaðsráðherra eiga fast sæti í nefndinni. Aðrir ráðherrar sitja fundi nefndarinnar eftir þörfum, samkvæmt ákvörðun forsætisráðherra sem stýrir nefndinni.

Ráðherranefnd um efnahagsmál 

Hlutverk ráðherranefndar um efnahagsmál er að samræma stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum og hafa eftirlit með framkvæmd efnahagsstefnunnar á einstökum sviðum. Meðal þeirra verkefna sem nefndin fjallar um er framtíðarskipulag peningamála og samræming í fjármálum hins opinbera til skemmri og lengri tíma. Nefndin er auk þess stefnumótandi og í forystu varðandi samskipti við aðila vinnumarkaðarins, uppbyggingu fjármálakerfisins og stöðu Íslands á alþjóðavettvangi með tilliti til efnahagsmála.

Forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og félags- og vinnumarkaðsráðherra eiga fast sæti í nefndinni. Aðrir ráðherrar sitja fundi nefndarinnar eftir þörfum, samkvæmt ákvörðun forsætisráðherra sem stýrir nefndinni.

Ráðherranefnd um vísindi og nýsköpun

Hlutverk ráðherranefndar um vísindi og nýsköpun er að samræma stefnu stjórnvalda á sviði tækniþróunar, vísinda og nýsköpunar. Ráðherranefndin heldur að jafnaði tvo fundi árlega með Vísinda- og nýsköpunarráði, sem starfar sjálfstætt og fjallar um stöðu vísinda, tækniþróunar og nýsköpunar á Íslandi með tilvísun til alþjóðlegrar þróunar í stefnumótun á málefnasviðinu, auk þess að veita ráðherranefnd um vísindi og nýsköpun og ráðherra sem fer með málefni vísinda og nýsköpunar ráðgjöf.

Forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og mennta- og barnamálaráðherra eiga fast sæti í ráðherranefndinni en þar sem málefni vísinda og nýsköpunar snerta fleiri ráðuneyti sitja félags- og vinnumarkaðsráðherra, menningar- og viðskiptaráðherra, heilbrigðisráðherra, matvælaráðherra og umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra samkvæmt ákvörðun forsætisráðherra einnig í nefndinni.

Ráðherranefnd um samræmingu mála er varða fleiri en eitt ráðuneyti

Hlutverk ráðherranefndar um samræmingu mála er að samhæfa stefnu og aðgerðir í málum þar sem málefnasvið og ábyrgð ráðherra skarast og tryggja vandaðan undirbúning mála og upplýsingaflæði á milli ráðherra. Nefndinni er auk þess ætlað að fylgja eftir innleiðingu verkefna í stjórnarsáttmála með markvissum hætti.

Forsætisráðherra á fast sæti í nefndinni. Aðrir ráðherrar sitja fundi nefndarinnar eftir þörfum, samkvæmt ákvörðun forsætisráðherra sem stýrir nefndinni.

Ráðherranefnd um loftslagsmál

Hlutverk ráðherranefndar um loftslagsmál er að efla samráð og samhæfingu meðal þeirra ráðuneyta sem vinna að framgangi loftslagsmála innan Stjórnarráðsins. Nefndinni er einnig ætlað að vera vettvangur fyrir pólitíska stefnumótun og umræður um aðgerðir á sviði loftslagsmála. Nefndinni er jafnframt ætlað að koma að uppfærslu og framkvæmd aðgerðaáætlunar stjórnvalda í loftslagsmálum, fjalla um umræður á alþjóðavettvangi um nýjar skuldbindingar og stefnu Íslands varðandi kolefnishlutleysi.

Forsætisráðherra, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, háskóla-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, innviðaráðherra, matvælaráðherra og utanríkisráðherra eiga fast sæti í nefndinni.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum