Hoppa yfir valmynd

Þingmálaskrá 150. löggjafarþings 2019–2020

Samkvæmt 1. mgr. 47. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, skal fylgja eftirriti stefnuræðu forsætisráðherra við upphaf þings yfirlit um þau mál sem ríkisstjórn hyggst leggja fram á þinginu ásamt áætlun um hvenær þeim verður útbýtt. Yfirlit fyrir 150. löggjafarþing fer hér á eftir. Fram kemur hvenær ætlunin er að leggja mál fram. Flutt kunna að verða fleiri mál en getið er og atvik geta hindrað flutning einstakra mála. Í samræmi við 2. mgr. 47. gr. laganna mun ríkisstjórnin jafnframt við upphaf vetrarþings, að loknu jólahléi, afhenda forseta Alþingis endurskoðaða áætlun um framlagningu stjórnarfrumvarpa á vetrar- og vorþingi ásamt áætluðum útbýtingardegi.

Þingmálaskrá 150. löggjafarþings 2019–2020 til útprentunar

FORSÆTISRÁÐHERRA

 1. Frumvarp til laga um vernd uppljóstrara.
  Frumvarpinu er ætlað að mæla fyrir um réttarreglur um vernd uppljóstrara, þ.e. þeirra sem skýra frá lögbrotum eða brotum á siðareglum sem þeir verða áskynja um í starfi. Lagt er til að gildissvið verndarinnar nái bæði yfir starfsmenn opinberra aðila og einkaaðila og að hún verði virk þegar starfsmaður miðlar upplýsingum um alvarleg brot í starfsemi vinnuveitanda síns í góðri trú til bærs aðila. Inntak verndarinnar felur fyrst og fremst í sér að óheimilt verður að láta slíka uppljóstrara sæta óréttlátri meðferð, svo sem uppsögn eða kjaraskerðingu. (September).
 2. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, nr. 19/1966, o.fl. (heimildir aðila utan EES-svæðisins). 
  Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar sem lúta að því að skýra og afmarka nánar heimildir aðila utan EES-svæðisins til að öðlast fasteignaréttindi hér á landi. Fjallað verður um þau skilyrði sem slíkir aðilar þurfa að uppfylla, m.a. varðandi tengsl við Ísland, og undantekningar frá meginreglum laganna þrengdar. Gert er ráð fyrir að ráðherrar ríkisstjórnar leggi fram fleiri frumvörp á þessu löggjafarþingi sem snerta eignarráð og nýtingu fasteigna. (Október).
 3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, nr. 58/1998 (leyfisveitingar, málsmeðferð o.fl.). 
  Leyfi fyrir nýtingu náma og annarra jarðefna verði felld undir leyfisveitingarhlutverk sveitarfélaga. Ákvæði laganna um mörkun tekjustofna verði felld úr lögunum. Því ártali sem miðað er við að óbyggðanefnd ljúki störfum verði breytt og loks að málsmeðferðarreglum óbyggðanefndar hvað varðar eyjar, hólma og sker verði breytt. (Október).
 4. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011 (varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds).
  Fyrirhugaðar eru breytingar á VI. kafla laga um Stjórnarráð Íslands til varnar hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds, m.a. í samræmi við tilmæli GRECO, samtaka ríkja innan Evrópuráðsins gegn spillingu, og starfshóps forsætisráðherra um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu. Um er að ræða reglusetningu um hagsmunaskráningu, aukastörf og starfsval eftir opinber störf hjá ráðherrum, aðstoðarmönnum ráðherra, ráðuneytisstjórum, skrifstofustjórum og sendiherrum. Þá verða lagðar til reglur sem gera hagsmunavörðum skylt að tilkynna sig til stjórnvalda. Loks verður tryggt virkt eftirlit með fyrirhuguðum reglum í samræmi við tilmæli alþjóðastofnana. (Nóvember).
 5. Frumvarp til laga um breytingu á upplýsingalögum, nr. 140/2012 (réttarstaða þriðja aðila).
  Áformað er að gera breytingar á upplýsingalögum í því skyni að bæta réttarstöðu þriðja aðila, þ.e. þess sem getur átt hagsmuna að gæta af afhendingu upplýsinga, og gera hana skýrari. Kveðið verður á um skyldu stjórnvalda til að leita afstöðu þriðja aðila til afhendingar upplýsinga sem varða hann áður en ákvörðun er tekin nema það sé bersýnilega óþarft. Þá verður úrskurðarnefnd um upplýsingamál gert skylt að birta þriðja aðila úrskurð þegar fallist er á rétt kæranda til aðgangs að upplýsingum sem varða hann. Loks verður þriðja aðila veittur réttur til þess að krefjast þess að réttaráhrifum slíks úrskurðar verði frestað á meðan málið er borið undir dómstóla. (Nóvember).
 6. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum sem falla undir lög nr. 26/2007, nr. 47/2010 (lokauppgjör).
  Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 47/2010 sem geri kleift að taka á málum fatlaðra barna sem vistuð voru á stofnunum sem ekki hafa þegar sætt könnun samkvæmt lögum nr. 26/2007. Þannig sé lokið samfélagslegu uppgjöri vegna vistunar barna á stofnunum á vegum hins opinbera á árum áður og er jafnframt lagt til að felld verði brott lög nr. 26/2007, um skipan nefndar til að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn. (Janúar).
 7. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum er varða nýtingu orkuauðlinda á opinberu forræði (nýtingarleyfi).
  Í frumvarpinu verða útfærðar reglur um úthlutun leyfa til nýtingar orkuauðlinda á opinberu forræði til að mæta ábendingum Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA). Lúta reglurnar meðal annars að þeim skilyrðum sem gilda eiga varðandi val á nýtingarleyfishafa eins og um orkuöryggi og sjálfbæra nýtingu, tímalengd nýtingarleyfa og viðmið um gjaldtöku. (Febrúar).
 8. Tillaga til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum fyrir tímabilið 2020– 2023, sbr. 11. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008.
  Framkvæmdaáætluninni er ætlað það hlutverk að skilgreina stefnu stjórnvalda á hverjum tíma og lýsa verkefnum sem ýmist er ætlað að varpa ljósi á stöðu kynjanna eða fela í sér beinar aðgerðir í þágu kynjajafnréttis. (September).
 9. Tillaga til þingsályktunar um arfleifð Jóns Sigurðssonar.
  Tillagan mun byggjast á skýrslu nefndar forsætisráðherra sem mun skila af sér haustið 2019. Lagt verður til að stofnaður verði formlegur samstarfsvettvangur aðila sem nú sinna þeirri opinberu menningarstarfsemi sem tileinkuð er ævi og minningu Jóns Sigurðssonar. Verkefnið verði að leiða uppbyggingu starfseminnar að Hrafnseyri við Arnarfjörð, þróa hana áfram og tengja öðrum verkefnum sem eiga rætur í sömu arfleifð. (Desember).
 10. Skýrsla forsætisráðherra um framkvæmd þingsályktana frá árinu 2018.
  Árleg skýrsla. (Október).
 11. Skýrsla forsætisráðherra um málefni þjóðlendna.
  Árleg skýrsla. (Maí).
 12. Skýrsla forsætisráðherra um framkvæmd upplýsingalaga.
  Árleg skýrsla. (Maí).

DÓMSMÁLARÁÐHERRA

 1. Frumvarp til laga um skaðabætur vegna ærumeiðinga.
  Með frumvarpinu er lagt til að sett verði sérstök lög um skaðabætur vegna ærumeiðinga og ákvæði er varða refsingu vegna ærumeiðinga felld úr almennum hegningarlögum. Endurflutt. (September).
 2. Frumvarp til laga um breytingar á lögum um útlendinga (alþjóðleg vernd og brottvísunartilskipunin).
  Með frumvarpinu eru lagðar til nauðsynlegar lagfæringar á III. og IV. kafla laganna auk þess sem frumvarpið er liður í innleiðingu tilskipunar 2008/115/EB um brottvísun útlendinga í ólögmætri dvöl. Endurflutt. (September).
 3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um íslenskan ríkisborgararétt, nr. 100/1952 (biðtími vegna refsinga o.fl.).
  Með frumvarpinu er lagt til að gerðar verði breytingar á ákvæðum laganna um biðtíma vegna refsinga með hliðsjón af reglugerðarbreytingu um hækkun sekta vegna brota á umferðarlögum. (September).
 4. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008 (haldlagning).
  Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði heimild til sölu á haldlögðum og kyrrsettum munum sem hætta er á að rýrni að verðmæti á meðan á haldlagningu þeirra eða kyrrsetningu stendur að fengnum dómsúrskurði og heimild til handa ráðherra til að setja reglugerð þar sem nánar er kveðið á um sölu slíkra muna, svo og meðhöndlun og vörslur þeirra að öðru leyti. Þá er enn fremur lagt til að unnt verði að kæra úrskurð dómara um að heimila sölu. (September).
 5. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um Landhelgisgæslu Íslands, nr. 52/2006, o.fl. (aðstaða fyrir alþjóðlegt leitar- og björgunarsamstarf) 
  Með frumvarpinu er kveðið á um lagalegar heimildir ráðherra til að staðsetja aðstöðu fyrir alþjóðlegt leitar- og björgunarsamstarf innan öryggissvæða en slík svæði eru í dag starfrækt af Landhelgisgæslu Íslands í umboði utanríkisráðherra. (Október).
 6. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um dómstóla, nr. 50/2016, lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991, og lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008 (endurupptaka dæmdra mála). 
  Í frumvarpinu er lagt til að endurupptökunefnd verði lögð niður og settur verði á fót sérdómstóll sem skeri úr um hvort heimila skuli endurupptöku mála sem dæmd hafa verið í héraði, Landsrétti eða Hæstarétti. Í frumvarpinu er lagt til að dómendur í þeim dómstól verði fimm; einn frá hverju dómstigi og auk þess einn lögmaður og einn háskólakennari með sérþekkingu á réttarfari. Jafnframt er lagt til að heimilt verði að endurupptaka mál oftar en einu sinni og skilyrði fyrir endurupptöku einkamála verði rýmkuð. Endurflutt. (Október).
 7. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði, nr. 50/2014 (skipting embættisverka milli sýslumanna).
  Með frumvarpinu er lagt til að ráðherra fái heimild til að skipa sama sýslumanninn yfir fleiri embætti til allt að fimm ára í senn og um leið fela sýslumanni að ákveða hvernig embættisverkefnum er skipt milli starfsmanna embættanna, að höfðu samráði við ráðherra. (Október).
 8. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um dómstóla, nr. 50/2006, (hagsmunaskráning dómara).
  Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á reglum um hagsmunaskráningu dómara þannig að aukið verði aðgengi að upplýsingum um aukastörf dómara og fjárhagslega hagsmuni. (Nóvember).
 9. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl., nr. 31/1990 (lögbann á tjáningu).
  Með frumvarpinu er lagt til að bætt verði ákvæði í lög um kyrrsetningu, lögbann o.fl., nr. 31/1990, þess efnis að ef gerðarþoli mótmælir framgangi lögbannsgerðar á þeim grunni að gerðin fari í bága við 73. gr. stjórnarskrárinnar og sýslumaður hafnar þeim mótmælum geti gerðarþoli borið þá ákvörðun undir héraðsdómara, þó svo að gerðarbeiðandi mótmæli því, svo fremi sem hann skuldbindur sig til að láta af athöfn á meðan mál er rekið fyrir dómi. Þá er lagt til að mælt verði fyrir um að málsmeðferð í framangreindum tilvikum skuli flýtt eins og kostur er. Jafnframt að virði gerðarþoli ekki þá skuldbindingu að láta af athöfn sinni skuli dómari fella málið þegar í stað niður ef gerðarbeiðandi krefst. (Nóvember).
 10. Frumvarp til breytinga á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, (atvinnurekstrarbann, fyrningartími krafna).
  Með frumvarpinu er lagt til að við gjaldþrotaskipti á félagi með takmarkaðri ábyrgð geti skiptastjóri krafist þess að lagt verði atvinnurekstrarbann á þann sem komið hefur að stjórnun félagsins á síðustu 18 mánuðum fyrir frestdag ef viðkomandi telst ekki hæfur til að stýra félaginu vegna verulega skaðlegra eða óverjandi viðskiptahátta við stjórnun félagsins á umræddu tímabili. Jafnframt eru lagðar til breytingar á ákvæðum laganna um fyrningartíma krafna sem ekki greiðast við gjaldþrotaskipti þannig að sá tími sé ekki tvö ár í öllum tilvikum heldur taki mið af fyrningatíma kröfu. Jafnframt verði unnt að rjúfa fyrningu krafna með almennum hætti. (Nóvember).
 11. Frumvarp til laga um breytingu á barnalögum, nr. 76/2003, og fleiri lögum (skipt búseta barna).
  Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði heimild foreldra til þess að semja um skipta búsetu barns. Af breytingunni leiða breytingar á fjölmörgum öðrum lögum. (Nóvember).
 12. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 80/2016 (skilyrði dvalarleyfa).
  Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á V. kafla laganna er varða grunnskilyrði fyrir dvalarleyfi, s.s. framfærslu og tilgang dvalar. Jafnframt eru með frumvarpinu innleiddar Schengen-gerðir og athugasemdir úttektarnefndar með Schengen-samningnum um dvöl umsækjenda um alþjóðlega vernd. (Janúar).
 13. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um útgáfu og notkun nafnskírteina, nr. 25/1965 (nafnskírteini).
  Með frumvarpinu er lagt til að Þjóðskrá Íslands verði heimilt að gefa út ný nafnskírteini fyrir einstaklinga sem jafnframt væru ferðaskilríki á Schengen svæðinu. (Janúar).
 14. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008 (bótafjárhæðir).
  Í frumvarpinu er lögð til einföldun á meðferð bótakrafna vegna brota á 9.–14. kafla laganna vegna ólögmætrar handtöku, þvingunarráðstafana og gæsluvarðhalds á þann hátt að settar verði reglur um viðmiðunarfjárhæðir bóta sem ríkislögmaður styðst við við uppgjör slíkra bóta. Samhliða er felld á brott skylda til að veita gjafsókn í slíkum bótamálum. Með þessum breytingum er unnt að flýta uppgjöri bóta og fækka dómsmálum vegna ágreinings um bætur. Í frumvarpinu felst hagræðing í meðferð málanna bæði fyrir þolendur sem og ríkið auk þess að gera má ráð fyrir lækkun útgjalda hjá ríkissjóði vegna málskostnaðar í þessum málum. (Febrúar).
 15. Frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940 (ábyrgð lögaðila).
  Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum laganna um refsiábyrgð lögaðila þannig að ekki þurfi að sanna sök á einstakling svo að refsiábyrgð lögaðila verði virk. Breytingin byggist á tillögum í skýrslu um alvarleg atvik í heilbrigðisþjónustu. (Febrúar).
 16. Frumvarp til laga um landamæri.
  Með frumvarpinu eru sett heildarlög um landamæri, en hingað til hafa þær meginreglur sem gilt hafa á þessu sviði verið í lögum um útlendingu og reglugerðum settum á grundvelli þeirra. Með þessu móti eru sett heildstæð lög um þær reglur og skuldbindingar sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir m.a. á grundvelli Schengen samstarfsins. (Febrúar).
 17. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi, nr. 16/2006 (ýmsar breytingar).
  Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögunum vegna breytinga sem gera þarf á Schengen upplýsingakerfinu vegna nýrra skuldbindinga á sviði Schengen samstarfsins. (Febrúar).
 18. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um mannanöfn, nr. 45/1996 (rýmkun skilyrða).
  Með frumvarpinu er lögð til rýmkun á gildandi reglum um val á nöfnum. (Mars).
 19. Frumvarp til laga um breytingu á áfengislögum, nr. 75/1998 (sala á framleiðslustað).
  Með breytingunni er lagt til að framleiðendum verði heimilt að selja eigin framleiðslu á framleiðslustað þannig að áfengisins sé neytt á staðnum auk þess sem kaup á áfengi í netverslun verði heimil. (Mars).
 20. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um happdrætti, nr. 38/2005 (netspilun).
  Með frumvarpinu er lagt til að heimilt verði að taka þátt í happdrætti á netinu. (Mars).

FERÐAMÁLA-, IÐNAÐAR- OG NÝSKÖPUNARRÁÐHERRA

 1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um neytendalán, nr. 33/2013, og lögum um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011 (innheimta gjalda og kostnaðar af neytendalánum).
  Með frumvarpinu verður lagt til að óheimilt verði að innheimta gjöld og kostnað af neytendalánum sem eru umfram lögbundið hámark hlutfallstölu kostnaðar. Frumvarpið felur í sér hluta tillagna starfshóps ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra sem skilaði skýrslu um starfsumhverfi smálánafyrirtækja á Íslandi og er ætlað að efla neytendavernd á fjármálamarkaði. (September).
 2. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, nr. 34/1991 (búsetuskilyrði EES-borgara).
  Með frumvarpinu verður lagt til að felld verði brott ákvæði um búsetuskilyrði EES-borgara og Færeyinga sem eru í lögunum. Er breytingin í samræmi við athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA. (September).
 3. Frumvarp til laga um félög til almannaheilla.
  Með frumvarpinu eru lögð til heildarlög sem gildi um félög sem skráð eru í almannaheillafélagaskrá og stofnað er til eða starfrækt eru í þeim tilgangi að efla afmörkuð málefni til almannaheilla samkvæmt samþykktum sínum. Endurflutt. (September).
 4. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um samvinnu stjórnvalda á Evrópska efnahagssvæðinu um neytendavernd, nr. 56/2007 (samvinna eftirlitsstjórnvalda).
  Frumvarpið hefur það að markmiði að efla samstarf eftirlitsstjórnvalda á sviði neytendaverndar, auka neytendavernd og samræma valdheimildir. Frumvarpið felur í sér innleiðingu reglugerðar (ESB) 2017/2394 um samvinnu eftirlitsstjórnvalda á EES-svæðinu á sviði neytendaverndar. Innleiðing. (Október).
 5. Frumvarp til laga um breytingu á samkeppnislögum, nr. 44/2005 (almenn endurskoðun og norrænn samstarfssamningur).
  Frumvarpið felur í sér endurskoðun á nokkrum þáttum samkeppnislaga sem ætlað er að auka skilvirkni í framkvæmd þeirra, stuðla að aukinni og sanngjarnri samkeppni á mörkuðum með hagsmuni neytenda og atvinnulífsins að leiðarljósi, auk breytingar vegna norræns samstarfssamnings. (Október).
 6. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum varðandi leyfisveitingar (einföldun regluverks).
  Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar á ýmsum lögum sem snúa að einföldun regluverks og leyfisveitinga, m.a. afnám iðnaðarleyfis og verslunarleyfis, brottfall úreltra laga o.fl. Um er að ræða fyrsta áfanga í aðgerðaráætlun um einföldun regluverks á málefnasviði ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. (Október).
 7. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um ívilnanir til nýfjárfestinga á Íslandi, nr. 41/2015 (breytingar í kjölfar ábendinga frá Ríkisendurskoðun).
  Með frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögunum, m.a. í kjölfar ábendinga í skýrslu Ríkisendurskoðunar sem og ábendinga frá Eftirlitsstofnun EFTA. (Október).
 8. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um hlutafélög, nr. 2/1995 (hluthafar, milliliðir).
  Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um hlutafélög sem varða skráð félög og lúta að deili á hluthöfum, hlutverki milliliða í sendingu upplýsinga frá félagi til hluthafa o.fl. Um er að ræða innleiðingu á tilskipun (ESB) 2017/828 um réttindi hluthafa í skráðum félögum. Innleiðing. (Nóvember).
 9. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um samvinnufélög, nr. 22/1991 (innlánsdeildir samvinnufélaga).
  Með frumvarpinu verður lögð til endurskoðun á ákvæðum 2. gr. a laga um samvinnufélög, um innlánsdeildir samvinnufélaga. Einnig verða lagðar til minniháttar breytingar á 62. gr. laganna og skoðað verður hvort gera eigi breytingu á ákvæðum laganna um hæfisskilyrði stjórnarmanna og framkvæmdastjóra til samræmis við hæfisskilyrði stjórnarmanna og framkvæmdastjóra hlutafélaga og einkahlutafélaga. (Nóvember).
 10. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um ársreikninga, nr. 3/2006, lögum um hlutafélög, nr. 2/1995, og lögum um einkahlutafélög, nr. 138/1994 (vanskil ársreikninga).
  Frumvarpið felur í sér endurskoðun á ákvæðum um viðurlög vegna seinna skila eða vanskila ársreiknings, í ljósi reynslu síðustu ára. Frumvarpið nær einnig til breytinga á ákvæðum laga um hlutafélög og laga um einkahlutafélög um heimild Ríkisskattstjóra til afskráningar og slita slíkra félaga. (Nóvember).
 11. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um ársreikninga, nr. 3/2006 (endurskoðunarnefndir, leigusamningar).
  Frumvarpið felur í sér innleiðingu á ákvæðum um endurskoðunarnefndir úr tilskipun (ESB) 2014/56 um breytingu á tilskipun um lögboðna endurskoðun ársreikninga og samstæðureikninga og reglugerð (ESB) 2015/537 um endurskoðun eininga sem tengjast almannahagsmunum. Aðrar breytingar snúa m.a. að upptöku nýs reikningsskilastaðals fyrir leigusamninga auk annarra minniháttar breytinga. Innleiðing. (Nóvember).
 12. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um sölu fasteigna og skipa, nr. 70/2015 (efling neytendaverndar).
  Frumvarpið felur í sér nokkrar breytingar á lögunum sem ætlað er að efla neytendavernd í fasteignaviðskiptum. Einnig felur frumvarpið í sér breytingar sem leiða af reynslu af framkvæmd þeirra frá því þau tóku gildi. Breytingar varða m.a. lokanir á starfsstöð aðila sem hefur milligöngu án löggildingar í kjölfar álits umboðsmanns Alþingis og tímalengd söluumboða auk annarra atriða. (Nóvember).
 13. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, nr. 43/1999 (skilyrði endurgreiðslu).
  Með frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögunum sem að hluta til má rekja til skýrslu starfshóps fjármála- og efnahagsráðuneytisins og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um endurgreiðslukerfi vegna kvikmyndagerðar. Meðal annars um til hvaða efnis endurgreiðslukerfið á að ná og kröfur til umsækjanda. (Nóvember).
 14. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um leigu skráningarskyldra ökutækja, nr. 65/2015 (breytingar á viðurlagaákvæðum).
  Með frumvarpinu verður, í ljósi reynslu undanfarinna ára, lagt til að það varði stjórnvaldssektum fyrir ökutækjaleigu ef kílómetrastöðu skráningarskylds ökutækis er breytt. Frumvarpið hefur þann tilgang að auka umferðaröryggi og neytendavernd við leigu skráningarskyldra ökutækja. (Nóvember).
 15. Frumvarp til laga breytingu á lögum um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku, nr. 98/2004 (jöfnun dreifikostnaðar raforku).
  Frumvarpið felur í sér aðgerðir til að jafna með skýrari hætti þann kostnaðarmun sem er á milli dreifingar raforku í þéttbýli og í dreifbýli. (Nóvember).
 16. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða, nr. 75/2011 (markmið laganna).
  Frumvarpið felur í sér breytingar á markmiðum laganna og hlutverki Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða. Lagt verður til að markmiðsákvæði laganna verði einfaldað án þess að gildissvið þeirra verði útvíkkað og horft verður til þess að efla vægi svæðisbundinnar þróunar. Þá verður lagt til að kveðið verði skýrar á um þau sjónarmið sem liggja til grundvallar markmiðum og hlutverki sjóðsins. (Nóvember).
 17. Frumvarp til laga um Orkusjóð.
  Með frumvarpinu er skýrar kveðið á um hlutverk Orkusjóðs, fyrirkomulag, fjármögnun og stjórnsýslu. Þetta er liður í eflingu Orkusjóðs í samræmi við aukin verkefni hans sem tengjast aðgerðaráætlun stjórnvalda í loftlagsmálum. (Janúar).
 18. Frumvarp til laga um sáttamiðlun og kvartanir vegna brota íslenskra fyrirtækja á réttindum aðila í alþjóðlegum viðskiptum.
  Á vettvangi OECD er Ísland skuldbundið til að vera með tengilið (National Contact Point) sem sér um að kynna leiðbeinandi reglur fyrir alþjóðleg fyrirtæki varðandi ábyrga viðskiptahætti og vera vettvangur sátta við að leysa mál sem kunna að koma upp vegna brota á þessum leiðbeinandi reglum. Frumvarpið snýr að innleiðingu á þeim skuldbindingum. (Febrúar).
 19. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um þjónustuviðskipti á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins, nr. 76/2011 (bann við mismunun).
  Frumvarpið felur í sér innleiðingu á reglugerð (ESB) 2018/302 sem felur í sér sértækar reglur um bann við því að seljendur vöru og þjónustu mismuni kaupendum eftir staðfestu, búsetu eða þjóðerni („geo blocking“). Gildir óháð söluaðferð en tilgangur gerðarinnar er að koma í veg fyrir að mismunun í netviðskiptum. Innleiðing. (Febrúar).
 20. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi, nr. 40/2013 (skýrsluskil o.fl.).
  Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi, nr. 40/2013, sem felur m.a. í sér ákvæði um aukin skýrsluskil eldsneytisbirgja, breytt lágmark minnkunar á losun gróðurhúsalofttegunda með notkun lífeldsneytis og ákvæði til að bregðast við óbeinum breytingum á landnýtingu vegna framleiðslu lífeldsneytis. Með frumvarpinu er innleidd tilskipun (ESB) 2015/1513. Innleiðing. (Febrúar).
 21. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi vörur sem tengjast orkunotkun, nr. 72/1994 (orkumerkingar).
  Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi vörur sem tengjast orkunotkun, nr. 72/1994, vegna innleiðingar reglugerðar (ESB) 2017/1369 um setningu regluverks um orkumerkingar sem fellir úr gildi tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2010/30/ESB. Innleiðing. (Febrúar).
 22. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um vörumerki, nr. 45/1997 (málsmeðferð o.fl.).
  Frumvarpið felur í sér breytingar á vörumerkjalögum, m.a. varðandi málsmeðferð, nýjar tegundir merkja o.fl. Það felur í sér innleiðingu tilskipunar (ESB) 2015/2436 um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vörumerki. Jafnframt að felld verði brott lög um félagamerki, nr. 155/2002, og að ákvæði um slík merki, sem og ábyrgðar- og gæðamerki, verði felld inn í vörumerkjalög. Innleiðing. (Febrúar).
 23. Frumvarp til laga um viðskiptaleyndarmál.
  Frumvarpið felur í sér ný heildarlög og jafnframt að fellt verði úr gildi ákvæði um atvinnuleyndarmál í 16. gr. c laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, nr. 57/2005. Um er að ræða innleiðingu tilskipunar (ESB) 2016/943 um viðskiptaleyndarmál. Innleiðing. (Mars).
 24. Frumvarp til laga um fjárfestingasjóð til fjárfestinga á sviði nýsköpunar.
  Með frumvarpinu er lagt til, í samræmi við áskilnað í fjármálaáætlun, að fjárfestingarsjóðir í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum geti, að uppfylltum tilteknum skilyrðum, óskað eftir mótframlagi frá stjórnvöldum þegar settir eru á stofn nýir framtakssjóðir. Fjárfesting ríkisins gæti numið allt að þriðjungi af stærð sjóðsins og væri háð þeim skilmálum að aðrir fjárfestar eigi kost á því síðar að kaupa hlut ríkisins út, eftir fyrirframgefnum skilmálum, þannig að fjármagn ríkisins geti nýst í að viðhalda hringrás fjármögnunar sambærilegra sjóða. (Mars).
 25. Skýrsla ráðherra um raforkumálefni.
  Samkvæmt 39. gr. raforkulaga, nr. 65/2003, leggur ráðherra fyrir Alþingi á tveggja ára fresti skýrslu um raforkumálefni. (Mars).

FÉLAGS- OG BARNAMÁLARÁÐHERRA

 1. Frumvarp til laga um Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
  Frumvarpið er liður í sameiningu Íbúðalánasjóðs og Mannvirkjastofnunar í nýja Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sem falið verður að annast framkvæmd húsnæðis- og byggingarmála hér á landi og framfylgja þeirri stefnu stjórnvalda að almenningur hafi aðgengi að viðunandi og öruggu húsnæði á viðráðanlegu verði í samræmi við þarfir hvers og eins, óháð efnahag og búsetu, sem er vistvænt, heilsusamlegt og uppfyllir nútímakröfur og hafi þannig raunverulegt val um búsetuform. Stofnuninni verður m.a. falið það hlutverk að tryggja fyrirsjáanleika, skilvirkni og gæði mannvirkjagerðar með eftirfylgni með húsnæðisáætlunum sveitarfélaga, einföldun regluverks og stjórnsýslu byggingaframkvæmda og stuðla þannig að auknu húsnæðisöryggi hér á landi. Lagt er til grundvallar að ný stofnun fari með lánveitingar og annan húsnæðisstuðning líkt og Íbúðalánasjóður gerir nú í samræmi við það hlutverk að veita þjónustu í almannaþágu á sviði húsnæðismála. (September).
 2. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um almennar íbúðir, nr. 52/2016 (hækkun tekju- og eignamarka leigjenda o.fl.).
  Frumvarpið er liður í stuðningi við lífskjarasamninga stjórnvalda og felur meðal annars í sér hækkun tekju- og eignamarka leigjenda almennra íbúða þannig að hærra hlutfall landsmanna eigi kost á almennum íbúðum, að liðkað verði fyrir fjölgun nýbygginga í almenna íbúðakerfinu og sveitarfélögum verði gert fært að sækja um stofnstyrki til byggingarverkefna sem þegar eru hafin. (Október).
 3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, nr. 88/2011 (endurskoðun stjórnvaldsákvarðana o.fl.).
  Með frumvarpinu verða lagðar til tilteknar breytingar með tilliti til framkvæmdar laganna, m.a. er varðar ákvarðanir nefndar um undanþágu frá banni við beitingu nauðungar er varða beiðnir um verulega og viðvarandi skerðingu á ferðafrelsi einstaklings og er hluti af endurskoðun á lagaumhverfi er snýr að öryggisgæslu og öryggisvistunum. (Október).
 4. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018 (heimildir og hlutverk sérfræðiteymis).
  Með frumvarpinu verða lagðar til tilteknar breytingar með tilliti til framkvæmdar laganna, m.a. er varðar heimildir sérfræðingateymis 20. gr. til að vinna með og miðla niðurstöðum sem eru jafnan viðkvæmar persónuupplýsingar. Gert er ráð fyrir að í frumvarpinu verði tillögur að ákvæðum um öryggisgæslu/vistanir þegar um er að ræða slík úrræði gagnvart fötluðum einstaklingum og verði hluti af endurskoðun á lagaumhverfi er snýr að öryggisgæslu og öryggisvistunum. (Október).
 5. Frumvarp til laga um breytingu á húsaleigulögum, nr. 36/1994 (bætt réttarstaða og húsnæðisöryggi leigjenda).
  Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á húsaleigulögum á grundvelli tillagna átakshóps um aukið framboð á íbúðum og aðrar aðgerðir til að bæta stöðu á húsnæðismarkaði. Frumvarpinu er ætlað að bæta réttarstöðu og auka húsnæðisöryggi leigjenda, meðal annars hvað varðar vernd leigjenda þegar kemur að hækkun leigufjárhæðar og réttarstöðu við lok leigusamnings. (Nóvember).
 6. Frumvarp til laga um félagslegan stuðning við aldraða.
  Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að sett verði sérstök löggjöf um félagslega aðstoð ríkisins þar sem heimilt verði að veita viðbótarstuðning til aldraðra einstaklinga sem ekki hafa búið nægjanlega lengi á Íslandi til að hafa öðlast full réttindi til ellilífeyris á Íslandi. Stuðningur þessi verði á vegum ríkisins og greiðist eingöngu þeim sem eru búsettir og dvelja á Íslandi, hafi heildartekjur undir ákveðnu tekjuviðmiði og eigi ekki eignir í peningum eða verðbréfum yfir tilgreindri fjárhæð. (Nóvember).
 7. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000 (lenging fæðingarorlofs).
  Í frumvarpinu verður lagt til að samanlagður réttur foreldra til fæðingarorlofs verði lengdur um þrjá mánuði, eða í tólf mánuði, og að lengingin komi til framkvæmda í tveimur áföngum í samræmi við tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2020–2024. Er þannig gert ráð fyrir að samanlagður réttur foreldra barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2020 eða síðar lengist um einn mánuð eða úr níu mánuðum í tíu mánuði. Síðan mun samanlagður réttur foreldra barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2021 eða síðar lengjast um tvo mánuði til viðbótar og fer þá úr tíu mánuðum í tólf mánuði. Er þetta lagt til í því skyni að tryggja börnum frekari samvistir við báða foreldra sína og gera bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. (Nóvember).
 8. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um málefni innflytjenda, nr. 116/2012 (heimildir og hlutverk Fjölmenningarseturs).
  Með frumvarpinu verður lögð til heimild fyrir Fjölmenningarsetur til að vinna með persónuupplýsingar og um nýtt starfssvið Fjölmenningarseturs á grundvelli kerfis um samræmda móttöku flóttafólks. (Nóvember).
 9. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999 (endurskoðun ákvæðis).
  Með frumvarpinu verður lögð til endurskoðun á ákvæði um öldungaráð til samræmis við ákvæði félagsþjónustulaga, nr. 40/1991. (Nóvember).
 10. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998 (upplýsingar um húsnæðismál).
  Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um húsnæðismál í því skyni að efla hlutverk Íbúðalánasjóðs við upplýsingaöflun og -miðlun um húsnæðismál með miðlægum gagnagrunni, svokölluðum húsnæðisgrunni Íbúðalánasjóðs. Þá er frumvarpinu ætlað að styðja við það hlutverk sjóðsins að gera rannsóknir og greiningar á sviði húsnæðismála. (Febrúar).
 11. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007 (hálfur lífeyrir).
  Í frumvarpinu er gert ráð fyrir breytingum á því skilyrði fyrir greiðslu hálfs lífeyris frá almannatryggingum að samanlagður áunninn réttur til ellilífeyris frá lífeyrissjóðum og frá almannatryggingum verði að lágmarki jafnhár fullum ellilífeyri almannatrygginga. Þá er í frumvarpinu lagt til að það skilyrði verði sett fyrir töku hálfs lífeyris að lífeyrisþegi stundi að hámarki hálft starf og jafnframt að greiðslur verði tekjutengdar. (Febrúar).
 12. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um mannvirki, nr. 160/2010 (endurskoðun byggingarmála).
  Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um mannvirki til samræmis við tillögur átakshóps um aukið framboð á íbúðum og aðrar aðgerðir til að bæta stöðu á húsnæðismarkaði. Frumvarpið er liður í endurskoðun skipulags- og byggingarmála á grundvelli tillagna átakshópsins. (Mars).
 13. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjöleignarhús, nr. 26/1994 (skammtímaleiga og rafbílar).
  Frumvarpið felur í sér endurskoðun á ákvæðum laganna í ljósi reynslunnar af framkvæmd þeirra til að bregðast við skammtímaleigu í fjöleignarhúsum, hvort heldur sem er með heimagistingu eða rekstrarleyfisskyldri gististarfsemi á grundvelli laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007. Einnig endurskoðun á einstaka ákvæðum til að bregðast við breyttri notkun bílastæða vegna fjölgunar rafbíla og hraða orkuskiptum í samræmi við stefnu stjórnvalda. (Mars).
 14. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998 (fyrstu kaup íbúðarhúsnæðis).
  Með frumvarpinu eru lögð til úrræði til að auðvelda ungu fólki og tekjulágum fyrstu kaup íbúðarhúsnæðis á grundvelli tillagna starfshóps félags- og barnamálaráðherra um lækkun þröskulds ungs fólks og tekjulágra inn á húsnæðismarkað. Lagt er til að stuðningur stjórnvalda við fyrstu kaup nái auk þeirra sem eru að festa kaup á íbúðarhúsnæði í fyrsta sinn til þeirra sem ekki hafa átt fasteign í fimm ár að nánari skilyrðum uppfylltum. (Mars).
 15. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum er gilda á vinnumarkaði (félagsleg undirboð og stuðningur stjórnvalda við lífskjarasamninga).
  Frumvarpinu er ætlað að fylgja eftir tillögum sem fram koma í skýrslu samstarfshóps félags- og barnamálaráðherra um félagsleg undirboð og brotastarfsemi á vinnumarkaði en hópurinn skilaði ráðherra tillögum sínum í janúar 2019. Jafnframt er frumvarpinu ætlað að hrinda í framkvæmd aðgerðum ríkisstjórnarinnar til stuðnings lífskjarasamningum er falla undir málefnasvið félagsmálaráðuneytisins og lúta að vinnumarkaði. (Mars).
 16. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, nr. 80/1938 (skipun dómara við Félagsdóm).
  Með frumvarpinu verður brugðist við athugasemdum GRECO, samtaka ríkja innan Evrópuráðsins gegn spillingu, í tengslum við skipan dómara við Félagsdóm. Jafnframt er gert ráð fyrir að í frumvarpinu verði lagðar til tilteknar breytingar á IV. kafla laganna er lúta að Félagsdómi en kaflanum hefur lítið verið breytt frá því að lögin voru sett árið 1938. (Mars).
 17. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991 (endurskoðun á þjónustu við börn og fjölskyldur).
  Frumvarpinu er ætlað að fylgja eftir tillögum þingmannanefndar um málefni barna til félags- og barnamálaráðherra um heildarendurskoðun á þjónustu við börn á Íslandi. Áhersla verður á lækkun þjónustuþröskuldar og breytt skipulag í félagsþjónustu, forvarnir og fyrirbyggjandi aðgerðir, aukinn stuðning við börn og fjölskyldur þeirra og snemmtæka íhlutun. (Mars).
 18. Frumvarp til nýrra laga um barnavernd.
  Frumvarpinu er ætlað að fylgja eftir tillögum þingmannanefndar um málefni barna til félags- og barnamálaráðherra um heildarendurskoðun á þjónustu við börn á Íslandi og mun fela í sér heildarendurskoðun lagaumhverfis og framkvæmdar með áherslu á snemmtæka íhlutun og aukna skilvirkni í barnavernd. (Mars).
 19. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins, nr. 83/2003 (endurskoðun á þjónustu við börn og fjölskyldur).
  Frumvarpinu er ætlað að tryggja tilteknar breytingar í samræmi við heildarendurskoðun lagaumhverfis og framkvæmdar í þjónustu við börn. (Mars).
 20. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu, nr. 160/2008 (endurskoðun á þjónustu við börn og fjölskyldur).
  Frumvarpinu er ætlað að tryggja tilteknar breytingar til samræmis við heildarendurskoðun lagaumhverfis og framkvæmdar í þjónustu við börn. (Mars).
 21. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (endurskoðun laganna).
  Frumvarpinu er ætlað að endurskoða lög um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010, í ljósi reynslu af framkvæmd laganna, með það að markmiði að treysta umgjörð þess og styðja frekar við fjölskyldur sem eiga við greiðsluvanda að stríða. (Mars).
 22. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007 (búsetutengd réttindi).
  Í frumvarpinu verður kveðið á um skilyrði fyrir því að geta öðlast rétt til greiðslna ú almannatryggingum og hvenær sá réttur fellur niður. Enn fremur er gert ráð fyrir að kveðið verði á um með hvaða hætti réttindi ávinnast í hlutfalli við löglega búsetu hér á landi og endurskoðun á gildandi ákvæðum um viðbót við áunnin réttindi vegna ætlaðrar búsetu til framtíðar hér á landi og hvernig komið verði til móts við einstaklinga með skerta starfsgetu sem búa hér á landi en hafa áunnið sér lítil réttindi í almannatryggingakerfinu. (Mars).
 23. Frumvarp til laga um starfsendurhæfingu og greiðslur vegna skertrar starfsgetu.
  Frumvarpið felur í sér nýtt kerfi starfsendurhæfingar þar sem áhersla er lögð á að meta þjónustuþörf einstaklingsins ásamt starfsgetu hans. Byggist matið á líkamlegum, sálfræðilegum og félagslegum áhrifaþáttum. Mikilvægt er að tryggja þverfaglega sýn og því lögð áhersla á aukið samstarf félagsþjónustu sveitarfélaga, heilsugæslu, Vinnumálastofnunar, VIRK – Starfsendurhæfingarsjóðs ses. og Tryggingastofnunar ríkisins. Frumvarpið felur einnig í sér breytingar á örorku- og endurhæfingarlífeyri almannatrygginga í samræmi við tillögur samráðshóps um breytt framfærslukerfi almannatrygginga þar sem áhersla er lögð á fækkun bótaflokka og einfaldara og skýrara regluverk í tengslum við útreikning bóta. Er kerfinu ætlað að tryggja hvata til atvinnuþátttöku þar sem aukin áhersla er lögð á snemmtæka íhlutun og starfsendurhæfingu með þverfaglega nálgun að leiðarljósi. (Apríl).

FJÁRMÁLA- OG EFNAHAGSRÁÐHERRA

 1. Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2020.
  (September).
 2. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2020 (tekjufrumvarp, safnlög).
  Frumvarpið felur í sér breytingar sem lagðar eru til grundvallar fjárlagafrumvarpi ársins 2020 sem lagt er fram á sama tíma. Frumvarpið verður samið að höfðu samráði við önnur ráðuneyti. (September).
 3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, og lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987 (tekjuskattur einstaklinga, barnabætur).
  Í frumvarpinu er að finna breytingar á skattþrepum vegna tekjuskatts einstaklinga auk hækkunar á skerðingarmörkum barnabóta sem er liður í stuðningi stjórnvalda við lífskjarasamninginn, þ.e. kjarasamninga á almennum vinnumarkaði 2019–2022. (September).
 4. Frumvarp til laga um þjóðarsjóð.
  Í samræmi við tillögur sérfræðinganefndar sem þáverandi forsætisráðherra skipaði í febrúar 2017 og samstarfssáttmála ríkisstjórnarinnar verður með frumvarpinu lagt til að komið verði á fót svonefndum Þjóðarsjóði. Sjóðnum verður ætlað að gegna því meginhlutverki að verða eins konar áfallavörn fyrir þjóðina þegar ríkissjóður verður fyrir fjárhagslegri ágjöf í tengslum við meiri háttar ófyrirséð áföll á þjóðarhag. Í þessu skyni verði sjóðnum falið að annast um uppsöfnun á nánar skilgreindum tekjum ríkissjóðs af nýtingu auðlinda, sem til að byrja með væru einkum arðgreiðslur frá Landsvirkjun. Varðandi umbúnað um úthlutanir úr sjóðnum er gert ráð fyrir að það verði ávallt með aðkomu Alþingis á þann hátt að þingið lýsi vilja sínum til samþykkis í þingsályktunartillögu en veiti síðan lagaheimild í næstu fjárlögum. Endurflutt. (September).
 5. Frumvarp til laga um staðfestingu ríkisreiknings.
  Samkvæmt 58. gr. laga um opinber fjármál skal árlega leggja fram frumvarp til staðfestingar ríkisreikningi. Í greinargerð með frumvarpinu verður fjallað um niðurstöðutölur reikningsins og gerð grein fyrir frávikum tekna, útgjalda og lánamála frá samþykktum heimildum Alþingis. (September).
 6. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna skattlagningar tekna erlendra lögaðila í lágskattaríkjum, samsköttunar félaga, takmörkunar á frádrætti vaxtagjalda og skattlagningar útsendra starfsmanna (samsköttun, CFC-félög o.fl.).
  Frumvarpið felur í sér ýmsar nauðsynlegar breytingar á lögum um tekjuskatt og lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, m.a. vegna skattlagningar eignarhalds á lágskattasvæðum auk athugasemda frá Eftirlitsstofnun EFTA vegna samsköttunar félaga og heimildar til frádráttar endanlegs taps frá tekjum af atvinnurekstri. Þá er í frumvarpinu að finna tillögu sem samræmist skuldbindingum Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið án þess þó að koma niður á eðlilegri fjármögnun samstæðna sem ekki beinist að því að takmarka skattgreiðslur vegna brottfalls b-liðar 3. mgr. 57. gr. b laga um tekjuskatt þann 1. janúar 2019, sbr. nefndarálit meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar á 148. löggjafarþing 2017–2018, þingskjal 110 – 3. mál. Þá eru lagðar til breytingar á skattskyldu í tengslum við útleigu á vinnuafli eða annars konar vinnuframlag starfsmanna erlendra aðila hér á landi en þörf er á að útvíkka og skilgreina enn frekar ábyrgð innlendra aðila á skattskilum starfsmanna erlendra aðila vegna vinnu hér á landi, sbr. nefndarálit efnahags- og viðskiptanefndar á 148. löggjafarþing 2017–2018, þskj. 1149, 561. mál. Endurflutt. (September.)
 7. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki, nr. 155/2010 (skatthlutfall).
  Með frumvarpinu verður skatthlutfall bankaskatts lækkað í fjórum áföngum, úr 0,376% í 0,145%, á árunum 2021–2024. Endurflutt. (September).
 8. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fasteignalán til neytenda, nr. 118/2016 (viðskipti lánamiðlara yfir landamæri).
  Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um fasteignalán til neytenda, nr. 118/2016, með það að markmiði að ljúka að fullu innleiðingu tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2014/17/ESB um lánssamninga fyrir neytendur í tengslum við íbúðarhúsnæði. Efnisákvæði gerðarinnar voru að mestu leyti tekin upp í íslenskan rétt með setningu fyrrgreindra laga árið 2016. Þau atriði sem út af standa varða heimildir lánamiðlara til að eiga viðskipti yfir landamæri, hvernig haga eigi eftirliti með lánamiðlurum og hvernig leysa beri úr ágreiningi á milli eftirlitsstjórnvalda sem sinna eftirliti með þeim. Tilskipunin var tekin upp í EES-samninginn 8. maí 2019, með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 125/2019. Innleiðing. (September).
 9. Frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2019.
  (Október).
 10. Frumvarp til laga um breytingu á tollalögum og fleiri lögum (fyrirkomulag tollafgreiðslu og tollgæslu).
  Með frumvarpinu eru lagaðar til breytingar á fyrirkomulagi tollafgreiðslu og tollgæslu með hliðsjón af tillögum nefndar um aukna skilvirkni í skattframkvæmd, álagningu og innheimtu opinberra gjalda. (Október.)
 11. Frumvarp til laga um um breytingu á ýmsum lögum um skattlagningu ökutækja (ívilnanir vegna vistvænna ökutækja o.fl.).
  Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar á ýmsum lögum um skattlagningu ökutækja. Hér er m.a. um að ræða breytingar á lögum um virðisaukaskatt er lúta að tímabundinni endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu við uppsetningu og kaupa á hleðslustöðvum í íbúðarhúsnæði. Auk þess er lagt til að bílaleigur og handhafar leyfa til að stunda eignaleigu og/eða fjármögnunarleigu verði heimiluð tímabundin endurgreiðsla eða eftir atvikum undanþága frá virðisaukaskatti af útleigu á ökutækjum sem fallið hafa undir ívilnun á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða XXIV í lögum um virðisaukaskatt. (Október).
 12. Frumvarp til laga um innheimtu opinberra skatta og gjalda.
  Með frumvarpinu er lögð til ný heildarlöggjöf í innheimtumálum. (Október).
 13. Frumvarp til laga um verðbréfamiðstöðvar, uppgjör og rafræna eignarskráningu fjármálagerninga.
  Frumvarpið felur í sér innleiðingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 909/2014 (Central Securities Depositories Regulation, CSDR) sem er ætlað að bæta verðbréfauppgjör á EES-svæðinu og samræma kröfur sem gerðar eru til starfsemi verðbréfamiðstöðva sem reka verðbréfauppgjörskerfi. Frumvarpið mun enn fremur fela í sér nauðsynlegar breytingar á lögum um rafræna eignarskráningu verðbréfa, nr. 131/1997. Reglugerðin var tekin upp í EES-samninginn 28. febrúar 2019 með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 18/2019. Innleiðing. (Október.)
 14. Frumvarp til laga um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja.
  Frumvarpið, sem felur í sér heildarlög, er innleiðing á síðari hluta tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2014/59/ESB (Bank Recovery and Resolution Directive, BRRD). Frumvarpið sem mælir fyrir um heildarumgjörð skilameðferðar hefur meðal annars að geyma ákvæði um fyrirbyggjandi aðgerðir, undirbúning, framkvæmd og lok skilameðferðar. Í frumvarpinu verður kveðið á um nýja stjórnsýslueiningu sem nefnist Skilavald og fer með opinbera stjórnsýslu við skilameðferð og sérstakan fjármögnunarfarveg sem nefndur er Skilasjóður og ætlað er að fjármagna skilameðferð. Tilskipunin var tekin upp í EES-samninginn 9. febrúar 2018 með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 21/2018. Innleiðing. (Október.)
 15. Frumvarp til laga um rekstraraðila sérhæfðra sjóða.
  Frumvarpið felur í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2011/61/ESB um rekstraraðila sérhæfðra sjóða (Alternative Investment Fund Managers Directive, AIFMD). Um er að ræða heildarlög um rekstraraðila sérhæfðra sjóða. Frumvarpið hefur meðal annars að geyma ákvæði um starfsleyfi rekstraraðila sérhæfðra sjóða, skipulags- og starfsleyfisskilyrði, gagnsæiskröfur, vörsluaðila og markaðssetningu. Tilskipunin var tekin upp í EES-samninginn 30. september 2016 með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 202/2016. Innleiðing. (Október).
 16. Frumvarp til laga um markaði fyrir fjármálagerninga.
  Með frumvarpinu, sem felur í sér innleiðingu í íslenskan rétt á tilskipun 2014/65/ESB og reglugerð (ESB) nr. 600/2014 um markaði fyrir fjármálagerninga (MiFID II/MiFIR), er lagt til að sett verði ný heildarlögum markaði fyrir fjármálagerninga. Um nokkuð umfangsmikla breytingu er að ræða á gildandi rétti sem kallar á breytingar á m.a. lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, lögum, um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, og lögum um kauphallir, nr. 110/2007. Gerðirnar voru teknar upp í EES-samninginn 29. mars 2019 með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 78/2019. Innleiðing. (Október.)
 17. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001 (takmarkanir á notkun verðtryggingar í lánssamningum til neytenda).
  Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 36/2001, sem byggjast á yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um markviss skref til afnáms verðtryggingar frá 3. apríl 2019 sem er liður í aðgerðum ríkistjórnarinnar til stuðnings svokallaðs lífskjarasamnings aðila vinnumarkaðarins. Í yfirlýsingunni koma fram sjö aðgerðir sem ríkisstjórnin mun beita sér fyrir til afnáms verðtryggingar. Frumvarp þetta fjallar um þrjár fyrstu aðgerðirnar, þ.e. takmarkanir á hámarks og lágmarkstíma verðtryggðra jafngreiðslulána og að vísitala neysluverðs án húsnæðis verði grundvöllur verðtryggingar. (Október).
 18. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997 (lífskjarasamningar og fleira).
  Með frumvarpinu verða einna helst lagðar til breytingar á lögunum sem byggjast á yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar vegna lífskjarasamninga aðila vinnumarkaðarins frá 3. apríl 2019. Í frumvarpinu verður lagt til að lögfest verði skylda til greiðslu a.m.k. 15,5% af iðgjaldsstofni til lífeyrissjóðs auk þess að lögfest verði ákvæði um svokallaða tilgreinda séreign. Í frumvarpinu mun verða kveðið á um heimild til handa einstaklingum til að ráðstafa í heild eða að hluta 3,5% af lágmarksiðgjaldinu í tilgreinda séreign. Að auki verður lagt til að lífeyrissjóðum verði heimilt að senda yfirlit og upplýsingar til sjóðfélaga með rafrænum hætti á vefnum Ísland.is. (Október).
 19. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð, nr. 111/2016 (tilgreind séreign og stuðningur til þeirra sem ekki hafa átt íbúðarhúsnæði í fimm ár).
  Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar sem auka heimildir einstaklinga til nýtingar á séreignarsparnaði til íbúðarkaupa. Í frumvarpinu verður lagt til að heimilt verði að nýta tilgreinda séreign til kaupa á fyrstu íbúð, nái rétthafi ekki 500 þúsund kr. fjárhæðarmarki laganna. Þá mun vera lagt til að einstaklingar, sem ekki hafa verið skráðir eigendur að íbúðarhúsnæði í fimm ár, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, verði veittar sambærilegar heimildir, til nýtingar á séreignarsparnaði og tilgreindri séreign, og einstaklingar sem eru að kaupa sitt fyrsta íbúðarhúsnæði. (Október).
 20. Frumvarp til laga um umbótamál ríkisins.
  Með frumvarpinu er ætlunin að formfesta hagkvæman ramma um umbótastarf ríkisins sem stuðlar með markvissari hætti að nýsköpun, faglegri mannauðsstjórnun, hagkvæmum innkaupum og eykur stuðning við stafræna þjónustu með víðtækari hætti en áður í starfsemi ríkisins. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að Ríkiskaup verði grunnur að nýrri stofnun á þessu sviði sem heilstæð nýsköpunar- og umbótastofnun á vegum ríkisins. Frumvarpið mun því fela í sér breytingar á X. kafla laga um opinber innkaup, nr. 120/2016, sem lýtur að starfsemi innkaupastofnunar. (Október).
 21. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um erfðafjárskatt, nr. 14/2004 (þrepaskipting).
  Í frumvarpinu er að finna breytingar sem leiða til þess að tekið verði tillit eigna dánarbúsins. Annars vegar er lagt til að erfðafjárskattur verði þrepaskiptur og hins vegar að fjárhæðarmörk skattþrepa taki árlegum breytingum miðað við þróun vísitölu neysluverðs. (Október).
 22. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um stimpilgjald, nr. 138/2013 (afnám stimpilgjaldsskyldu skipa).
  Í frumvarpinu er lagt til að stimpilgjald verði afnumið af skjölum er varða eignaryfirfærslu skipa yfir fimm brúttótonnum. (Október).
 23. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um vátryggingastarfsemi og lögum um fjármálafyrirtæki (búsetuskilyrði, tilgreining eignarhluta, endurskiplagningarráðstafanir og slitameðferð).
  Frumvarpið felur í sér breytingar sem eru til komnar vegna athugasemda Eftirlitsstofnunar EFTA. Annars vegar verður lagt til að almenn búsetuskilyrði laga um hlutafélög gildi um stjórnarmenn og framkvæmdastjóra fjármálafyrirtækja og vátryggingarfélaga. Hins vegar verður lagt til að nýjum málsliðum verði bætt við 18., 149. og 161. gr. laga um vátryggingarstarfsemi, nr. 56/2010, vegna tilgreiningu eignarhluta vegna umsóknar um starfsleyfi og réttinda og skyldna við endurskipulagningarráðstafanir og slitameðferð. (Nóvember).
 24. Frumvarp til laga um breytingu á tollalögum, nr. 88/2005 (rafræn skil og greiðslur, vöruvalsreglur, innflutningur matvæla o.fl.).
  Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum tollalaga sem snúa að rafrænum skilum á skýrslum og gögnum og rafrænum greiðslum. Að auki eru lagðar til breytingar í tengslum við vöruvalsreglur vegna áfengissölu á tollfrjálsum svæðum. Þá eru lagðar til breytingar á ákvæði laganna um þyngd matvæla sem ferðamenn geta haft með sér til landsins til hækkunar. (Nóvember).
 25. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (ýmsar breytingar).
  Með frumvarpinu eru lagðar til ýmsar nauðsynlegar leiðréttingar og breytingar á ýmsum lögum um skatta og gjöld. Hér er m.a. um að ræða breytingar á ákvæðum tekjuskattslaga um frádráttarheimild erlendra sérfræðinga, leiðréttingar á tilvísunum til annarra laga, álagningu lögaðila, kærufresti o.fl. (Nóvember).
 26. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, og lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, nr. 94/1996 (stofn fjármagnstekjuskatts).
  Með frumvarpinu er ráðgert að endurskoða stofn fjármagnstekjuskatts sem m.a. felur í sér möguleika á að færast nær því að skattleggja raunávöxtun. (Nóvember).
 27. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002 (varnarlína um fjárfestingarbankastarfsemi).
  Með frumvarpinu verður lagt til að fjárfestingar banka fyrir eigin reikning verðir takmarkaðar við tiltekið hlutfall af eiginfjárgrunni þeirra. (Nóvember).
 28. Frumvarp til laga um sérleyfissamninga vegna afnota af landi í eigu ríkisins.
  Með frumvarpinu er ætlunin að marka ramma utan um undirbúning, gerð og eftirfylgni með samningum um sérleyfi vegna nýtingar á landsvæðum í eigu ríkisins. (Nóvember.)
 29. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um ríkisábyrgðir, nr. 121/1997 (endurskoðun heildarlaga).
  Með frumvarpinu er stefnt að því endurskoða lagaákvæði um lánaumsýslu ríkissjóðs og ríkisábyrgðir. Undir lánaumsýslu fellur m.a. tekin lán ríkissjóðs, endurlán, ábyrgðir, afleiður, áhættustýring og sjóðsstýring. Meginmarkmið frumvarpsins er að samræma löggjöfina gildandi lögum um opinber fjármál og stefnu í lánamálum. (Janúar).
 30. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um stimpilgjald, nr. 138/2013 (gjaldstofn).
  Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar á gjaldstofni stimpilgjalds við álagningu í kjölfar íbúðarkaupa. (Janúar).
 31. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003 (milliverðlagning o.fl.).
  Með frumvarpinu verða m.a. lagðar til breytingar í þá veru að uppfylli skjölunarskyldur lögaðili ekki kröfur laganna varðandi skjölun á ákvörðun milliverðlagningar skuli hann sæta sekt. (Janúar).
 32. Frumvarp til laga um brottfall ýmissa laga (úrelt lög).
  Frumvarpið felur í sér brottfall hátt í 40 lagabálka á verksviði ráðuneytisins. Um er að ræða löggjöf sem ekki á lengur við sökum breyttra aðstæðna eða sökum þess að ráðstafanirnar sem lögin kváðu á um eru um garð liðnar. (Janúar).
 33. Frumvarp til laga um meðferð ríkisaðstoðarmála.
  Frumvarpið felur í sér innleiðingu breytinga á samningi EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstól er varða valdheimildir Eftirlitsstofnunar EFTA þegar kemur að eftirliti með ríkisaðstoð. Með frumvarpinu verða lagðar til heimildir um sektir og samstarf við innlenda dómstóla. Jafnframt mun frumvarpið hafa að geyma ákvæði sem nú er að finna í samkeppnislögum, um málsmeðferð ríkisaðstoðarmála. Innleiðing. (Janúar).
 34. Frumvarp til laga um opinberar framkvæmdir og fasteignaumsýslu ríkisins.
  Með frumvarpinu verður lögð til ný heildarlöggjöf um skipan opinberra framkvæmda og fasteignaumsýslu ríkisins. Frumvarpið mun hafa að geyma ákvæði um hagkvæmnismat, áhættugreiningu og gæðatryggingu auk ákvæða um um fjárfestingaráætlun og breytta skipan stofnana. Frumvarpið mun jafnframt fela í sér breytingu á lögum um skipan opinberra framkvæmda, nr. 84/2001, og lögum um Jarðasjóð, nr. 34/1992. (Janúar).
 35. Frumvarp til laga um breytingu á tollalögum, nr. 88/2005 (persónuupplýsingar, aðgerðir gegn peningaþvætti o.fl.).
  Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar á ákvæðum tollalaga með það fyrir augum að treysta heimildir tollstjóra til vinnslu og meðferðar persónuupplýsinga. Að auki eru lagðar til nauðsynlegar breytingar til þess að tryggja og styrkja megi heimildir tollstjóra til þess að hafa nauðsynlegt eftirlit með flutningi reiðufjár til og frá landinu o.fl. (Febrúar).
 36. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002 (CRD IV og CRR).
  Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, til að ljúka að mestu leyti við innleiðingu tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2013/36/ESB um stofnun og starfsemi fjármálafyrirtækja og varfærniseftirlit með þeim (CRD IV) og reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 575/2013 um varfærniskröfur vegna starfsemi lánastofnana og fjárfestingarfyrirtækja (CRR). Meðal annars verða lagðar til breytingar á lagareglum um eiginfjárauka, útibú og þjónustu þvert á landamæri, eftirlit og varfærniskröfur á samstæðugrunni og samstarf og upplýsingaskipti eftirlitsaðila. Innleiðing. (Febrúar).
 37. Frumvarp til laga um fjárhagslegar viðmiðanir.
  Með frumvarpinu verður lagt til að reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/1011 um fjárhagslegar viðmiðanir verði innleidd. Reglugerðin hefur að geyma reglur um gerð og notkun viðmiðunarvísitalna á borð við EURIBOR sem liggja til grundvallar ýmsum samningum á sviði fjármálamarkaðar. Meðal annars er mælt fyrir um starfsleyfi og starfshætti aðila sem taka saman viðmiðunarvísitölur, aðferðafræði við vinnslu þeirra og eftirlit. Unnið er að upptöku reglugerðarinnar í EES-samninginn. Innleiðing. (Febrúar).
 38. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988 (byggingastarfsemi, almenningssamgöngur o.fl.).
  Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar á ákvæðum laganna er varða byggingastarfsemi, almenningssamgöngur o.fl. (Mars).
 39. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um tryggingagjald, nr. 113/1990 (fyrirkomulag tryggingagjalds).
  Í frumvarpinu er að finna breytingar sem varða endurskoðun á fyrirkomulagi tryggingagjaldsins og hlutdeild vinnumarkaðssjóðanna og almannatrygginga í gjaldinu. (Mars).
 40. Tillaga til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2021–2025
  Samkvæmt 5. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, skal ráðherra leggja fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun til næstu fimm ára hið skemmsta. Fjármálaáætlunin skal byggð á fjármálastefnu skv. 4. gr. og skilyrðum hennar skv. 7. gr. laganna. (Mars).

HEILBRIGÐISRÁÐHERRA

 1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um ávana og fíkniefni, nr. 65/1994 (neyslurými).
  Með frumvarpinu verður lagt til að komið verði á fót neyslurými þar sem neytendum vímuefna verður útveguð aðstaða þar sem þeir geta notað efnin á öruggan hátt þar sem gætt er fyllsta hreinlætis, öryggis og sýkingavarna. Markmiðið með neyslurými er að koma í veg fyrir aukinn skaða, veikindi og jafnvel dauða vímuefnanotenda. Endurflutt. (Október).
 2. Frumvarp til lyfjalaga.
  Með nýjum lyfjalögum verða lagðar til breytingar á regluverki lyfjamála m.a. vegna breytinga sem orðið hafa á íslensku heilbrigðiskerfi síðan núgildandi lög tóku gildi sem og vegna aðildar Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Meðal þeirra breytinga sem lagðar verða til með frumvarpinu eru flutningur verkefna lyfjagreiðslunefndar til Lyfjastofnunar og Landspítala, dýralæknum verði gert að sækja um sértækt lyfsöluleyfi, aukið hlutverk lyfjanefndar Landspítala og að setja á stofn lyfjanefnd innan Þróunarmiðstöðvar heilsugæslunnar. (Október).
 3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999 (fyrirkomulag á innheimtu gjalds).
  Með frumvarpinu verður lagt til að innheimta gjalds frá heimilismanni sem dvelur á stofnun fyrir aldraða verði hjá stofnun á vegum hins opinbera. Samkvæmt núgildandi lögum er það hlutverk hjúkrunar- og dvalarheimila þar sem heimilismaður býr að innheimta gjaldið. (Nóvember).
 4. Frumvarp til breytingu á ýmsum lögum vegna laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018 (EES-reglur).
  Frumvarp þetta felur í sér efnislega endurskoðun á ákvæðum sérlaga sem falla undir málefnasvið heilbrigðisráðherra vegna nýrrar persónuverndarlöggjafar. (Nóvember).
 5. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007 (skilgreining þjónustu o.fl.).
  Á 149. löggjafarþingi var samþykkt þingsályktunartillaga heilbrigðisráðherra um heilbrigðisstefnu til ársins 2030. Með frumvarpinu verður lagt til að skilgreiningum laganna á heilbrigðisþjónustu verði skipt upp í þrjú stig til samræmis við heilbrigðisstefnu. Jafnframt eru lagðar til breytingar sem ætlað er að skýra hlutverk heilbrigðisstofnana og skilgreina betur ábyrgð og valdsvið forstjóra heilbrigðisstofnana. (Nóvember).
 6. Frumvarp til laga um lækningatæki
  Frumvarpið felur í sér innleiðingu á reglugerðum Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/745 og (ESB) 2017/746, um lækningatæki. Um er að ræða frumvarp til nýrra heildarlaga um lækningatæki. Með frumvarpinu er skerpt á þeim kröfum sem lækningatæki þurfa almennt að uppfylla. Gerðar eru auknar kröfur til framleiðanda lækningatækja, m.a. varðandi eftirfylgni með lækningatækjum á markaði. Auknar kröfur eru gerðar til klínískra rannsóknar, m.a. um gæði gagna og aðgang að gögnum. Þá verður með frumvarpinu sett upp auðkenniskerfi í þeim tilgangi að geta rakið lækningatækið, m.a. til að koma í veg fyrir fölsuð tæki. Innleiðing. (Janúar).
 7. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008 (stjórn og heilbrigðisstefna).
  Með frumvarpinu verður lagt til að fella brott ákvæði um stjórn sjúkratryggingastofnunarinnar og skerpa heimild stofnunarinnar til eftirlits. Markmið með breytingunum er að einfalda stjórnskipan stofnunarinnar og skýra heimildir til eftirlits. (Febrúar).
 8. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um slysatryggingar almannatrygginga, nr. 45/2015 (ýmsar breytingar).
  Frumvarpið felur í sér endurskoðun á slysahugtaki laganna og ákvæðum laganna er varða bótarétt vegna slysa við ferðir til og frá vinnu auk þess sem afmarka þarf hugtök og atvinnusjúkdóma. Jafnframt verður lagt til að kveðið verði með skýrari hætti á um það á hvers konar örorkumati varanleg örorka slysatrygginga almannatrygginga byggist. (Febrúar).
 9. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um lífsýnasöfn og söfn heilbrigðisupplýsinga, nr. 110/2000, og lögum um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði, nr. 44/2014 (aðgangur að heilbrigðisgögnum).
  Með frumvarpinu er lagt til að gagnagrunnar og lífsýnasöfn innan heilbrigðiskerfisins verði opin og aðgengileg vísindamönnum sem hafi tilskilin leyfi til vísindarannsókna. Er hér um að ræða eitt af stefnumiðum heilbrigðisstefnu til ársins 2030. (Mars).
 10. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um tóbaksvarnir, nr. 6/2002 (EES-reglur).
  Með frumvarpinu verður lagt til að gerð verði breyting á lögum um tóbaksvarnir, nr. 6/2002, til að innleiða að mestu tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/40/ESB frá 3. apríl 2014 um samræmingu ákvæða í lögum og stjórnvaldsfyrirmælum aðildarríkjanna varðandi framleiðslu, kynningu og sölu á tóbaki og tengdum vörum og um niðurfellingu á tilskipun 2001/37/EB. Með frumvarpinu er lagt til að sett verði bann við tóbaki með einkennandi bragði sem og tilteknum aukefnum í tóbaksvörum. Einnig er lagt til að settar verði reglur um jurtavörur til reykinga, sbr. 21. gr. fyrrgreindrar tilskipunar. Innleiðing. (Apríl).
 11. Tillaga til þingsályktunar um siðferðileg gildi og forgangsröðun í heilbrigðisþjónustunni.
  Í heilbrigðisstefnu til ársins 2030 er fjallað um menningu og gildi í heilbrigðisþjónustunni. Þar segir að almenn sátt skuli ríkja um þær siðferðilegu meginreglur sem liggi til grundvallar forgangsröðun og ákvörðunum í heilbrigðiskerfinu og viðvarandi umræða skuli eiga sér stað um siðferðileg leiðarljós í þessum efnum. Tillaga til þingsályktunar um siðferðileg gildi og forgangsröðun í heilbrigðisþjónustunni er liður í að ná þessum markmiðum heilbrigðisstefnunnar. (Mars).
 12. Skýrsla ráðherra til Alþingis – heilbrigðisstefna til ársins 2030; aðgerðaáætlun 2020–2025.
  Í samræmi við þingsályktunartillögu heilbrigðisráðherra um heilbrigðisstefnu til ársins 2030 er lögð fram aðgerðaáætlun heilbrigðisstefnu til næstu fimm ára til umræðu á Alþingi. Er það gert í þeim tilgangi að hrinda heilbrigðisstefnu í framkvæmd. (Mars).

MENNTA- OG MENNINGARMÁLARÁÐHERRA

 1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011 (stuðningur við rekstur einkarekinna fjölmiðla).
  Frumvarpið felur í sér ýmsar aðgerðir sem ætlað að styðja við rekstur einkarekinna fjölmiðla, enda hafi þeir hlutverki að gegna í samfélaginu við að efla samfélagslega umræðu, tjáningarfrelsi og lýðræðisþátttöku almennings með miðlun frétta, fréttatengds efnis og um samfélagsmál. Endurflutt. (September).
 2. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um viðurkenningu á menntun og hæfi til starfa hér á landi, nr. 26/2010 (evrópskt fagskírteini, vinnustaðanám o.fl.).
  Frumvarpið varðar innleiðingu tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2013/55/ESB um breytingu á tilskipun 2005/36/EB um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi, sem var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 94/2017 frá 5. maí 2017. Í frumvarpinu er mælt fyrir um upptöku evrópsks fagskírteinis til auðvelda frjálsa för starfsmanna og viðurkenningu faglegrar menntunar yfir landamæri, veitingu takmarkaðrar viðurkenningar, uppsetningu þjónustumiðju fyrir lögverndaðar starfsgreinar, samræmdar menntunarkröfur og lokapróf, viðurkenningu vinnustaðanáms yfir landamæri og rýni á þörfinni fyrir lögverndun. Innleiðing. (September).
 3. Frumvarp til sviðslistalaga.
  Frumvarpið felur í sér rammalöggjöf um sviðlistastarfsemi, þar með talið Þjóðleikhúsið og Íslenska dansflokkinn, auk ákvæða um sviðslistaráð og sviðslistasjóð. Endurflutt. September.
 4. Frumvarp til laga um Stuðningssjóð íslenskra námsmanna.
  Ný heildarlög í stað gildandi laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna. (Nóvember).
 5. Frumvarp til laga um breytingu á höfundalögum, nr. 73/1972 (aðgengi lestrarhamlaðra að útgefnu efni).
  Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/1564 frá 13. september 2017 um sérstök leyfileg afnot verka og annars efnis verndað af höfundarétti og skyldum réttindum í þágu einstaklinga sem eru blindir, sjónskertir eða geta ekki fært sér prentað mál í nyt, sem felur í sér innleiðingu á svonefndum Marakess-samningi um aðgengi sjónskertra að útgefnu efni frá 27. júní 2013 og breytir tilskipun 2001/29/EB um samræmingu á tilteknum þáttum höfundaréttar og skyldra réttinda í upplýsingasamfélaginu, felur í sér að gera þarf tilteknar breytingar á höfundalögum. Innleiðing. (Nóvember).
 6. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum á málefnasviði mennta- og menningarmálaráðuneytis vegna gildistöku laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018 (heimildir til vinnslu persónuupplýsinga).
  Breytingar á ýmsum lögum vegna heimilda til vinnslu persónuupplýsinga vegna gildistöku laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018. (Mars).
 7. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum á málefnasviði mennta- og menningarmálaráðuneytis vegna gildistöku laga um opinber fjármál, nr. 123/2015 (samningsgerð við einkarekna aðila).
  Ákvæði um samningsgerð við einkarekna aðila í kjölfar gildistöku laga um opinber fjármál, nr. 123/2015. (Mars).
 8. Tillaga til þingsályktunar um menntastefnu Íslands til ársins 2030.
  Framúrskarandi menntun er lykilforsenda þess að Íslandi mæti áskorunum framtíðarinnar og skapi úr þeim ný tækifæri til að efla samfélagið. Markmið menntastefnu til ársins 2030 er að menntakerfið verði framúrskarandi og að Ísland verði eftirsóknarverður áfangastaður til náms og vinnu. Á Íslandi eiga allir jafnan aðgang að framúrskarandi menntun, því allir geta lært og allir skipta máli. (Mars).
 9. Skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra um framkvæmd skólastarfs í framhaldsskólum skólaárin 2013–2014, 2014–2015 og 2015–2016.
  (Desember).

SAMGÖNGU- OG SVEITARSTJÓRNARRÁÐHERRA

 1. Frumvarp til laga um skráningu einstaklinga.
  Með frumvarpinu eru lögð til ný heildarlög um skráningu einstaklinga sem koma eiga í stað laga nr. 54/1962, um þjóðskrá og almannaskráningu. Núgildandi lög eru ekki í takt við núverandi samfélagsgerð og tæknibreytingar undanfarinna áratuga. Endurflutt. (September).
 2. Frumvarp til laga um ráðstafanir til hagkvæmrar uppbyggingar háhraða fjarskiptaneta (samlegðaráhrifatilskipunin).
  Frumvarpið varðar innleiðingu á tilskipun Evrópusambandsins 2014/61/ESB. Um er að ræða reglur um samnýtingu jarðvegsframkvæmda á sviði fjarskipta-, raforku- og veitukerfa. Meginmarkmið tilskipunarinnar snúa að því að draga úr kostnaði við uppbyggingu háhraða fjarskiptaneta. Endurflutt. Innleiðing. (September).
 3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa, nr. 30/2007 (mönnunarkröfur).
  Með frumvarpinu verður lögð til breyting vegna mönnunar skipa til að leiðrétta ósamræmi við lög um stjórn fiskveiða um smáskip sem fá krókaflamark. (September).
 4. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995 (Jöfnunarsjóður sveitarfélaga).
  Frumvarpið mun fela í sér breytingar á ákvæðum 3. kafla um tekjustofna sveitarfélaga er snúa að Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Tilefni þess er tvíþætt, annars vegar nýlegur dómur Hæstaréttar í máli Grímsnes- og Grafningshrepps gegn íslenska ríkinu vegna tiltekinna breytinga á ákvæðum laga um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Hins vegar þarf að yfirfara og styrkja núgildandi heimildir Jöfnunarsjóðs til að styðja við sameiningar sveitarfélaga. (Október).
 5. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna alþjóðasamþykktar um vinnu við fiskveiðar (alþjóðlegar skuldbindingar).
  Frumvarpinu er ætlað að gera breytingar á lögum vegna fyrirhugaðrar fullgildingar á samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 188 um vinnu við fiskveiðar frá 2007. (Október).
 6. Frumvarp til laga um leigubifreiðar.
  Frumvarpið felur í sér nýja heildarlöggjöf um leigubifreiðaakstur hér á landi. Markmið frumvarpsins er að auka frelsi á leigubifreiðamarkaðnum og tryggja örugga og góða þjónustu. (Nóvember).
 7. Frumvarp til laga um breytingu á vegalögum, nr. 80/2007 (gjaldtaka af umferð).
  Frumvarpinu er ætlað að styrkja þær heimildir sem fyrir eru í vegalögum til að fjármagna veghald tiltekinna vegkafla þjóðvega með gjaldtöku af umferð. (Nóvember).
 8. Frumvarp til laga um heimild til að fela einkaaðilum fjármögnun, framkvæmdir og veghald á tilteknum köflum þjóðvega.
  Frumvarpinu er ætlað að heimila ráðherra að setja tilteknar brýnar framkvæmdir í heild eða að hluta í hendur einkaaðila. Um er að ræða heimild til að semja við einkaaðila um fjármögnun framkvæmdanna, uppbyggingu þeirra og veghald. Þá er gert ráð fyrir að framkvæmdaraðila geti með samningi verið heimiluð gjaldtaka vegna viðkomandi framkvæmda. (Nóvember.
 9. Frumvarp til laga um landshöfuðlénið .is
  Með frumvarpinu er lagt til að settar verði skýrar lágmarksreglur um skráningu léna undir landshöfuðsléninu .is og skráningarstofu þess. Markmið frumvarpsins verður að setja skýrar reglur um skráningu léna undir landshöfuðléninu .is og mæla fyrir um almenna heimild til að starfrækja skráningarstofu í því augnamiði að bæta öryggi, gæta að jafnræði og auka traust. (Nóvember).
 10. Frumvarp til laga um fjarskipti (heildarendurskoðun).
  Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun gildandi regluverks á sviði fjarskipta með innleiðingu nýrra EES-gerða í landsrétt. Á sameiginlegum innri markaði Evrópu er rík áhersla lögð á einsleitni og samræmingu, af hálfu bæði stofnana ESB og EES og EFTA-ríkjanna sjálfra. Því er brýnt að uppfæra gildandi efnisreglur á sviði fjarskipta og tryggja viðeigandi framkvæmd þeirra hér á landi. (Febrúar).
 11. Frumvarp til laga um skip.
  Frumvarp til nýrra heildarlaga um skip sem mun taka við af a.m.k. þremur eldri lagabálkum. Með frumvarpinu er stefnt að því að einfalda regluverk og fella brott úrelt ákvæði. (Febrúar).
 12. Frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011 (stefnumótun í málefnum sveitarfélaga).
  Frumvarpið mun fela í sér þær breytingar á sveitarstjórnarlögum sem áherslur í stefnumótandi áætlun ríkisins um málefni sveitarfélaga koma til með að kalla á, sbr. 4. mgr. 2. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, sbr. 10. gr. laga nr. 53/2018. (Mars).
 13. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara, nr. 103/1994 (breytt fyrirkomulag jöfnunar).
  Frumvarpið mun fela í sér grundvallarendurskoðun á hlutverki og starfsemi flutningsjöfnunarsjóðs olíuvara, sem starfar á grundvelli laga um um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara, nr. 103/1994. (Mars).
 14. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 32/2004 (grundvöllur gjaldtöku).
  Í frumvarpinu verða útfærðar breytingar á 10. gr. laga um vatnsveitur sveitarfélaga sem ætlað er að skýra betur hvað felst í heimild vatnsveitna til að taka mið af fjármagnskostnaði við ákvörðun gjaldskrár. (Mars).
 15. Frumvarp til laga um breytingar á lögum um loftferðir, nr. 60/1998 o.fl. (EES-reglur).
  Um er að ræða breytingar á lögum um loftferðir o. fl. vegna innleiðingar á reglugerð (ESB) 2018/1139 um samræmdar reglur á sviði almenningsflugs og stofnun Flugöryggisstofnunar Evrópusambandsins o. fl. Gerðin er grunngerð á sínu sviði. Áformað er að endurskoða ákvæði laganna til að tryggja reglugerðinni og afleiddum gerðum fullnægjandi lagastoð. Innleiðing. (Mars).
 16. Tillaga til þingsályktunar um stefnumótandi áætlun ríkisins um málefni sveitarfélaga 2019 2033.
  Tillaga ráðherra að stefnumótandi áætlun ríkisins um málefni sveitarfélaga er lögð fram í samræmi við ákvæði 4. mgr. 2. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, sbr. 10. gr. laga nr. 53/2018. Tillagan er unnin í víðtæku samráði við ráðuneyti, sveitarfélög og almenning og tekur mið af stefnumörkun í byggðaáætlun og sóknaráætlunum. (Október).
 17. Tillaga til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2020–2024
  Tillaga að 5 ára aðgerðaráætlun fyrir stefnumótandi samgönguáætlun fyrir árin 2020–2034 undir forystu samgönguráðs á grundvelli laga um samgönguáætlun, nr. 33/2008. (Október).
 18. Tillaga til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2020–2034
  Tillaga að stefnumótandi samgönguáætlun fyrir árin 2020–2034 undir forystu samgönguráðs á grundvelli laga um samgönguáætlun, nr. 33/2008. (Október).

SJÁVARÚTVEGS- OG LANDBÚNAÐARRÁÐHERRA

 1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 79/1997, og lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006 (stjórn veiða á grásleppu).
  Tillaga um að úthlutað verði aflamarki til veiða á grásleppu sem nú lýtur sérstökum veiðistjórnarreglum. (September).
 2. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um lax og silungsveiði, nr. 61/2006 (minnihlutavernd, gerð arðskrár o.fl.).
  Í frumvarpinu er lagt til að styrkja minnihlutavernd í veiðifélagi með sérstökum reglum um atkvæðavægi á fundum. Að auki að dregið verði úr milligöngu hins opinbera við greiðslu kostnaðar af gerð arðskrár sem og að breyting verði á ákvæðum laganna um skipan matsnefndar um arðskrárgerð. (Október).
 3. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum um opinbert eftirlit (einföldun regluverks).
  Frumvarpið mun fela í sér breytingar á lögum í því skyni að einfalda regluverk sem gildir um matvælakeðjuna auk þess sem breytingunum er ætlað að stuðla að samræmdara og skilvirkara eftirlitskerfi fyrir matvælakeðjuna í heild sinni. Þá er með frumvarpinu einnig lagt til að Framleiðnisjóður landbúnaðarins og AVS-rannsóknarsjóður í sjávarútvegi verði sameinaðir og við taki nýr sjóður á breiðari grunni undir heitinu Matvælasjóður. (Október).
 4. Frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum, nr. 99/1993, og tollalögum, nr. 88/2005 (úthlutun tollkvóta).
  Frumvarpið mun fela í sér breytingar á ákvæðum búvörulaga og tollalaga er snúa að úthlutun tollkvóta sem ráðherra er fer með málefni landbúnaðar úthlutar. Í byrjun ársins 2019 skilaði starfshópur um endurskoðun við úthlutun tollkvóta skýrslu til ráðherra og verður frumvarpið unnið á grundvelli þeirra tillagna sem þar koma fram. (Október).
 5. Frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum, nr. 99/1993 (endurskoðun búvörusamninga).
  Árið 2019 verða samningar um starfsskilyrði nautgriparæktar, samningur um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða og samningur um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins teknir til endurskoðunar í samræmi við ákvæði samninganna þar um. Að samningaviðræðum loknum verður lagt fram frumvarp sem mun fela í sér viðeigandi breytingar á lögum í samræmi við niðurstöður viðræðnanna. (Nóvember).
 6. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um innflutning dýra, nr. 54/1990 (sóttkví og einangrunarstöðvar).
  Frumvarpið mun fela í sér breytingar á nokkrum ákvæðum í lögum um innflutning dýra varðandi sóttkví og einangrunarstöðvar. Meðal annars er lagt til að breyting verði gerð á því fyrirkomulagi sem gildir um sóttkví hjá verslunaraðilum. (Febrúar).
 7. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum á sviði sjávarútvegs og landbúnaðar (einföldun regluverks).
  Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að átak verði gert í einföldun regluverks í þágu atvinnulífs og almennings og áhersla lögð á skilvirka og réttláta stjórnsýslu. Frumvarpið mun fela í sér breytingar sem miða að því að einfalda regluverk og nema úr gildi lög á sviði sjávarútvegs- og landbúnaðar sem eru úrelt. (Febrúar).
 8. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum á sviði fiskveiðistjórnar (eftirlit Fiskistofu o.fl.).
  Í framhaldi af skýrslu Ríkisendurskoðunar um stjórnsýslueftirlit fiskveiða hefur verið skipuð verkefnastjórn og samráðshópur um bætt eftirlit með fiskveiðiauðlindinni. Þetta starf er hafið og er með þessu gert ráð fyrir að tillögur komi fram um lagabreytingar í framhaldi. (Mars).
 9. Frumvarp til laga um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006 (byggðaráðstafanir o.fl.).
  Lagt er til að gerðar verði breytingar á lögunum að því er varðar byggðakvóta, strandveiðar, bætur, línuívilnun o.fl. samkvæmt ábendingum nefndar sem skipuð hefur verið til að gera slíkar tillögur. (Mars).
 10. Tillaga til þingsályktunar um áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla skv. 5. mgr. 8. gr. laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006.
  Samkvæmt 3. mgr. 8. gr. laga um stjórn fiskveiða skal ráðstafa 5,3% af leyfilegum heildarafla til sérstakra atvinnu- og byggðaráðstafana. Er þetta til að mæta áföllum skv. 1. tölul. 1. mgr. 10. gr. laganna, til stuðnings byggðarlögum skv. 2. tölul. 1. mgr. 10. gr. laganna, til línuívilnunar skv. 8. mgr. 11. gr. laganna, til strandveiða skv. 6. gr. a laganna, til veiða skv. 6. gr. laganna og til annarra tímabundinna ráðstafana. Ráðherra skal eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti leggja fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um áætlun um meðferð og ráðstöfun þessa aflamagns til næstu sex ára og er því tímabært að leggja fram nýja ályktun (sjá gildandi ályktun nr. 38/145). (Mars).
 11. Skýrsla um aðgerðaáætlun um að efla matvælaöryggi, tryggja vernd búfjárstofna og bæta samkeppnisaðstöðu innlendrar matvælaframleiðslu.
  Í júní 2019 var samþykkt á Alþingi þingsályktunartillaga um aðgerðaráætlun um matvælaöryggi og vernd búfjárstofna. Með ályktuninni fól Alþingi ríkisstjórninni að hrinda í framkvæmd aðgerðaáætlun í 17 liðum í því skyni að efla matvælaöryggi, tryggja vernd búfjárstofna og bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu. Ráðherra mun flytja Alþingi skýrslu um framgang áætlunarinnar. (Nóvember).

UMHVERFIS- OG AUÐLINDARÁÐHERRA

 1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd, nr. 60/2013 (almannaréttur, framandi tegundir).
  Um er að ræða breytingar vegna tveggja ákvæða til bráðabirgða við lögin þar sem kveðið er á um endurskoðun þeirra kafla laganna er fjalla annars vegar um almannarétt og hins vegar um innflutning framandi lífvera. (Október).
 2. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998 (viðaukar).
  Í frumvarpinu verða gerðar breytingar á viðaukum við lögin en í þeim er talin upp sú starfsemi sem fellur undir gildissvið laganna. Markmið með endurskoðuninni er einkum að lagfæra misræmi milli viðauka en dæmi eru um að sama starfsemi komi fyrir í tveimur viðaukum. Jafnframt er þörf á að meta hvort tiltekna starfsemi vanti í framangreinda viðauka sem og hvort einhver starfsemi megi falla á brott. (Nóvember).
 3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um loftslagsmál, nr. 70/2012 (skuldbindingar í loftslagsmálum, viðskiptakerfi með losunarheimildir).
  Um er að ræða innleiðingu á tilskipun (ESB) 2018/410 sem breytir tilskipun 2003/87/EB um viðskiptakerfi með losunarheimildir. Í tilskipuninni er kveðið á um reglur varðandi viðskiptakerfið fyrir tímabilið 2021–2030, en hvað Ísland varðar ná þær einkum til fyrirtækja í stóriðju og flugi. Einnig verður í frumvarpinu lagastoð fyrir reglugerðir sem ætlað er að innleiða tvær gerðir Evrópusambandsins. Annars vegar er um að ræða reglugerð (ESB) 2018/842 um sameiginlega ábyrgð og hins vegar reglugerð (ESB) 2018/841 um landnotkun, breytta landnotkun og skógrækt. Innleiðing gerðanna er lykilatriði í samkomulagi Íslands, Noregs og Evrópusambandsins um sameiginlegt markmið á grundvelli Parísarsamningsins. Með samþykkt frumvarpsins myndi liggja fyrir skýrt regluverk um alþjóðlegar skuldbindingar Íslands varðandi losun gróðurhúsalofttegunda til 2030, skyldur fyrirtækja í viðskiptakerfinu, bókhald, skýrslugjöf og fleira. Innleiðing. (Desember).
 4. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðhöndlun úrgangs, nr. 53/2003 (EES-reglur, hringrásarhagkerfi o.fl.).
  Um er að ræða innleiðingu á annars vegar tilskipun (ESB) 2018/850, sem breytir tilskipun 1991/31/EB um urðun úrgangs, og hins vegar tilskipun (ESB) 2018/851, sem breytir tilskipun 2008/98/EB um úrgang. Breytingarnar fela í sér innleiðingu á hringrásarhagkerfinu og er sérstök áhersla lögð á að draga úr myndun úrgangs, samræmda flokkun og sérstaka söfnun, sem og bann við urðun tiltekins úrgangs. Innleiðing. (Febrúar).
 5. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um úrvinnslugjald, nr. 162/2002 (EES-reglur, framlengd framleiðendaábyrgð).
  Um er að ræða breytingu vegna innleiðingar á tilskipun (ESB) 2018/851. Með frumvarpinu verða gerðar breytingar á lögunum í samræmi við lágmarkskröfur sem gerðar eru í tilskipuninni til kerfa sem byggjast á framlengdri framleiðendaábyrgð. Innleiðing. (Febrúar).
 6. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, nr. 52/1989 (töluleg söfnunarmarkmið o.fl.).
  Í frumvarpinu verður lagt til að Endurvinnslunni hf. beri að ná á landsvísu tölulegum söfnunarmarkmiðum fyrir einnota drykkjarvöruumbúðir, í samræmi við ákvæði tilskipunar (ESB) 2019/904 um aðgerðir til þess að draga út notkun á einnota plastvörum. Að auki verður lagt til að ákvæði laganna um endurvinnslu umbúða verði breytt til samræmis við svokallaðan úrgangsþríhyrning. (Febrúar).
 7. Frumvarp til laga um villt dýr.
  Um er að ræða heildarendurskoðun gildandi laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur fram að endurskoða þurfi viðkomandi löggjöf en fyrir liggur skýrsla nefndar um lagalega stöðu villtra fugla og spendýra sem birt var 3. apríl 2013. Litið verður til þessarar skýrslu við gerð frumvarpsins. (Febrúar).
 8. Frumvarp til laga um Þjóðgarðastofnun og þjóðgarða.
  Í frumvarpinu er lagt til að komið verði á fót stofnun um verndarsvæði sem tæki við verkefnum Vatnajökulsþjóðgarðs, þjóðgarðsins á Þingvöllum og verkefnum á sviði náttúruverndar á vegum Umhverfisstofnunar. Stofnunin færi með umsjón með rekstri þjóðgarða, friðlýstra svæða og annarra náttúruverndarsvæða í landinu en í frumvarpinu er gert ráð fyrir að viðhalda sjálfstæði í rekstri þjóðgarða og miðað er að því að efla aðkomu heimamanna að stjórnun verndarsvæða. Jafnframt að efla og styrkja sameiginlega starfsemi og stoðþjónustu, faglega þætti og ná fram skilvirkari nýtingu fjármuna sem varið er til starfsemi á sviði náttúruverndar. Endurflutt. (Febrúar).
 9. Frumvarp til laga um miðhálendisþjóðgarð.
  Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur fram það markmið að stofnaður verði þjóðgarður á miðhálendinu í samráði þverpólitískrar þingmannanefndar, umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, sveitarfélaga, náttúruverndar- og útivistarsamtaka og annarra hagsmunaaðila. Þingmannanefndin var skipuð í janúar 2018 og hefur unnið að framgangi verkefnisins frá þeim tíma. Í skipunarbréfi nefndarinnar er m.a. gert ráð fyrir að unnið verði frumvarp um þjóðgarðinn. (Febrúar).
 10. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd, nr. 60/2013 (óbyggð víðerni).
  Um er að ræða breytingu á skilgreiningu á óbyggðum víðernum sem er að finna í 19. tölul. 5. gr. laganna. (Febrúar).
 11. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun, nr. 48/2011 (ýmsar breytingar).
  Lög um verndar- og orkunýtingaráætlun, nr. 48/2011, tóku að fullu gildi 14. janúar 2013 þegar Alþingi samþykkti fyrstu tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Við innleiðingu laganna hafa komið í ljós ýmsir vankantar sem nauðsynlegt er að lagfæra. (Mars).
 12. Frumvarp til laga um um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998 (EES-reglur, plastvörur).
  Með frumvarpinu verður innleidd tilskipun (ESB) 2019/904 um minnkun umhverfisáhrifa af tilteknum vörum úr plasti. Í frumvarpinu verður kveðið á um ráðstafanir sem er ætlað að draga úr notkun tiltekinna plastvara og að auka vitund neytenda um plastvörur. Jafnframt verður markaðssetning tiltekinna plastvara gerð óheimil, innleiddar verða kröfur til hönnunar eða samsetningar tiltekinna plastvara, kröfur um sérstakar merkingar á tilteknum plastvörum og framleiðendaábyrgð tekin upp fyrir tilteknar plastvörur. Þessum ráðstöfunum og aðgerðum verður fyrst og fremst beint að einnota plastvörum en einnig að veiðarfærum sem innihalda plast. Innleiðing. (Mars).
 13. Tillaga til þingsályktunar um verndar- og orkunýtingaráætlun.
  Tillaga lögð fram í samræmi við lög um verndar- og orkunýtingaráætlun, nr. 48/2011. (Febrúar).
 14. Tillaga til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár.
  Samkvæmt 34. gr. laga um náttúruvernd, nr. 60/2013 leggur ráðherra fram tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár til fimm ára. Um er að ræða tillögu um skrá yfir þær náttúruminjar sem Alþingi ákveður að setja í forgang um friðlýsingu eða friðun á næstu fimm árum og skal ráðherra byggja ákvarðanir um friðlýsingar á framkvæmdaáætluninni. (Febrúar).

UTANRÍKISRÁÐHERRA

 1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993 (útganga Bretlands úr Evrópusambandinu).
  Frumvarpinu verður ætlað að gera nauðsynlegar breytingar á lögum vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. (September).
 2. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um ráðstafanir í kjölfar samnings við Bandaríkin um skil á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli, nr. 176/2006 (niðurfelling ákvæða varðandi Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ehf. (Kadeco) o.fl.).
  Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ehf. (Kadeco) hefur lokið þeim verkefnum sem því voru falin með lögunum. Þá er öðrum tímabundnum ráðstöfunum samkvæmt lögunum einnig lokið. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögunum, sem og heiti þeirra, sem taka mið af framangreindri þróun. (September).
 3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands, nr. 121/2008 (fyrirkomulag og framkvæmd alþjóðlegrar þróunarsamvinnu).
  Stofnanaumgjörð alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands hefur tekið verulegum breytingum frá setningu gildandi laga. Með endurskoðun þarf m.a. að tryggja samræmi við lög um opinber fjármál, nr. 123/2015, uppfæra ákvæði um starfsmenn ríkisins og kveða á um skýrslur og upplýsingagjöf til Alþingis, sem og framkvæmd, eftirlit og úttektir. (Nóvember).
 4. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um utanríkisþjónustu Íslands, nr. 39/1971 (forstaða í sendiskrifstofum o.fl.).
  Með frumvarpinu eru gerðar breytingar er m.a. lúta að forstöðu í sendiskrifstofum Íslands erlendis. (Nóvember).
 5. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu samnings milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árunum 2019 og 2020.
  Samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar árin 2019 og 2020 innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu. (September).
 6. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu viðbótarsamnings við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Norður-Makedóníu.
  (Október).
 7. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 72/2019 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) og IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.
  Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/1369 frá 4. júlí 2017 um setningu ramma fyrir orkumerkingar og um niðurfellingu tilskipunar 2010/30/ESB. (Október).
 8. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 74/2019 um breytingu á um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) og IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.
  Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/1513 frá 9. september 2015 um breytingu á tilskipun 98/70/EB um gæði bensíns og dísileldsneytis og um breytingu á tilskipun 2009/28/EB um að auka notkun orku frá endurnýjanlegum orkugjöfum. (Október).
 9. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 78/2019 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.
  1) Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 600/2014 frá 15. maí 2014 um markaði fyrir fjármálagerninga og um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 648/2012.
  2) Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/1033 frá 23. júní 2016 um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 600/2014 um markaði fyrir fjármálagerninga, reglugerð (ESB) nr. 596/2014 um markaðssvik og reglugerð (ESB) nr. 909/2014 um bætt verðbréfauppgjör í Evrópusambandinu og verðbréfamiðstöðvar.
  3) Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/65/ESB frá 15. maí 2014 um markaði fyrir fjármálagerninga og um breytingu á tilskipun 2002/92/EB og tilskipun 2011/61/ESB.
  4) Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/1034 frá 23. júní 2016 um breytingu á tilskipun 2014/65/ESB um markaði fyrir fjármálagerninga. (Október).
 10. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 79/2019 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.
  1) Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 575/2013 frá 26. júní 2013 um varfærniskröfur að því er varðar lánastofnanir og verðbréfafyrirtæki og um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 648/2012.
  2) Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/2395 frá 12. desember 2017 um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 575/2013 að því er varðar umbreytingarfyrirkomulag til að draga úr áhrifum á eiginfjárgrunn vegna innleiðingar IFRS-staðals 9 og fyrir meðhöndlun tiltekinna áhættuskuldbindinga opinberra aðila gefnum upp í heimagjaldmiðli aðildarríkis sem stórra áhættuskuldbindinga.
  3) Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2013/36/ESB frá 26. júní 2013 um aðgang að starfsemi lánastofnana og varfærniseftirlit með lánastofnunum og fjárfestingarfyrirtækjum, um breytingu á tilskipun 2002/87/EB og um niðurfelling á tilskipunum 2006/48/EB og 2006/49/EB. (Október).
 11. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 91/2019 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.
  Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/943 frá 8. júní 2016 um verndun trúnaðarupplýsinga um sérþekkingu og viðskipti (viðskiptaleyndarmál) gegn ólögmætri öflun, notkun og birtingu þeirra. (Október).
 12. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 125/2019 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) og XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn.
  Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/17/ESB frá 4. febrúar 2014 um lánssamninga fyrir neytendur í tengslum við íbúðarhúsnæði og um breytingu á tilskipun 2008/48/EB og 2013/36/ESB og reglugerð (ESB) nr. 1093/2010. (Október).
 13. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 190/2019 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) og XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn.
  Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/1011 frá 8. júní 2016 um vísitölur sem notaðar eru sem viðmiðanir í fjármálagerningum og fjárhagslegum samningum eða til að mæla árangur fjárfestingarsjóða og um breytingu á tilskipunum 2008/48/EB og 2014/17/ESB og reglugerð (ESB) nr. 596/2014. (Október).
 14. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á I. viðauka (Heilbrigði dýra og plantna) við EES-samninginn.
  Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/625 frá 15. mars 2017 um opinbert eftirlit og aðra opinbera starfsemi sem miðar að því að tryggja að lögum um matvæli og fóður og reglum um heilbrigði og velferð dýra, plöntuheilbrigði og plöntuverndarvörur sé beitt og um breytingu á reglugerðum Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 999/2001, (EB) nr. 396/2005, (EB) nr. 1069/2009, (EB) nr. 1107/2009, (ESB) nr. 1151/2012, (ESB) nr. 652/2014, (ESB) 2016/429 og (ESB) 2016/2031, reglugerðum ráðsins (EB) nr. 1/2005 og (EB) nr. 1099/2009 og tilskipunum ráðsins 98/58/EB, 1999/74/EB, 2007/43/EB, 2008/119/EB og 2008/120/EB og um niðurfellingu á reglugerðum Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 854/2004 og (EB) nr. 882/2004, tilskipunum ráðsins 89/608/EBE, 89/662/EBE, 90/425/EBE, 91/496/EBE, 96/23/EB, 96/93/EB og 97/78/EB og ákvörðun ráðsins 92/438/EBE (reglugerð um opinbert eftirlit). (Október).
 15. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn.
  Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/1139 frá 4. júlí 2018 um sameiginlegar reglur um almenningsflug og um stofnun Flugöryggisstofnunar Evrópusambandsins og um breytingu á reglugerðum (EB) nr. 2111/2005, (EB) nr. 1008/2008, (ESB) nr. 996/2010, (ESB) nr. 376/2014 og tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins 2014/30/ESB og 2014/53/ESB og um niðurfellingu á reglugerðum Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 552/2004 og (EB) nr. 216/2008 og reglugerð ráðsins (EBE) nr. 3922/91. (Október).
 16. Tillaga til þingsályktunar um fullgildingu heildarsamnings um efnahagslega samvinnu EFTA-ríkjanna og Indónesíu.
  (Október).
 17. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á bókun 31 við EES-samninginn, um samvinnu á sérstökum sviðum utan marka fjórþætta frelsisins.
  Uppfylling skuldbindinga um losun gróðurhúsalofttegunda á tímabilinu 2021–2030 í samræmi við ákvæði eftirfarandi gerða:
  1) Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/841 frá 30. maí 2018 um að fella losun gróðurhúsalofttegunda og upptöku frá landnotkun, breyttri landnotkun og skógrækt inn í loftslags- og orkurammann fram til ársins 2030 og um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 525/2013 og ákvörðun nr. 529/2013/ESB.
  2) Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/841 frá 30. maí 2018 um bindandi árlega skerðingu á losun gróðurhúsalofttegunda aðildarríkjanna frá 2021–2030 sem stuðlar að loftslagsaðgerðum til að uppfylla skuldbindingar samkvæmt Parísarsamningnum og um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 525/2013.
  3) Hluti ákvæða reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/1999 frá 11. desember 2018 um stjórnun Orkusambandsins og aðgerða í loftslagsmálum, um breytingu á reglugerðum Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 663/2009 og (EB) nr. 715/2009, tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins 94/22/EB, 98/70/EB, 2009/31/EB, 2009/73/EB, 2010/31/ESB, 2012/27/ESB og 2013/30/ESB, tilskipunum ráðsins 2009/119/EB og (ESB) 2015/652 og um niðurfellingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 525/2013.
  4) Hluti ákvæða reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 525/2013 frá 21. maí 2013 um fyrirkomulag við vöktun og skýrslugjöf að því er varðar losun gróðurhúsalofttegunda og skýrslugjöf að því er varðar aðrar upplýsingar á landsvísu og á vettvangi Sambandsins sem varða loftslagsbreytingar og um niðurfellingu á ákvörðun nr. 280/2004/EB.
  5) Hluti ákvæða framkvæmdarreglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 749/2014 frá 30. júní 2014 um skipulag, snið, framlagningarferli og yfirferð á upplýsingum sem aðildarríkin láta í té samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 525/2013. (Nóvember).
 18. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 128/2019 um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn.
  Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/352 frá 15. febrúar 2017 um að setja ramma um veitingu hafnarþjónustu og um sameiginlegar reglur um gagnsæi í fjármálum fyrir hafnir. (Nóvember).
 19. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 165/2019 um breytingu á IX viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.
  Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/2366 frá 25. nóvember 2015 um greiðsluþjónustu á innri markaðnum. Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2017/2055 frá 23. júní 2017 um viðbætur við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/2366 að því er varðar tæknilega eftirlitsstaðla fyrir samstarf og upplýsingaskipti á milli lögbærra yfirvalda að því er varðar neytingu greiðslustofnana á staðfesturétti og frelsi til að veita þjónustu. (Nóvember).
 20. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn.
  Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/2394 frá 12. desember 2017 um samvinnu milli landsyfirvalda sem bera ábyrgð á að framfylgja lögum um neytendavernd og um niðurfellingu reglugerðar (EB) nr. 2006/2004. (Nóvember).
 21. Skýrsla utanríkisráðherra um EES-mál.
  Árleg skýrsla. (September).

Síðast uppfært: 11.09.2019
Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira