Hoppa yfir valmynd

Þingmálaskrá 155. löggjafarþings 2024–2025

Samkvæmt 1. mgr. 47. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, skal fylgja eftirriti stefnuræðu forsætis­ráðherra við upphaf þings yfirlit um þau mál sem ríkisstjórn hyggst leggja fram á þinginu ásamt áætlun um hvenær þeim verður útbýtt. Yfirlit fyrir 155. löggjafarþing fer hér á eftir. Fram kemur hvenær ætlun­in er að leggja mál fram. Flutt kunna að verða fleiri mál en getið er og atvik geta hindrað flutning ein­stakra mála. Í samræmi við 2. mgr. 47. gr. laganna mun ríkisstjórnin jafnframt við upphaf vetrar­þings, að loknu jólahléi, afhenda forseta Alþingis endurskoðaða áætlun um framlagningu stjórnar­frum­varpa á vetrar- og vorþingi ásamt áætluðum útbýtingardegi.

Þingmálaskrá, 155. löggjafarþing

Samkvæmt samþykkt ríkisstjórnar um undirbúning og frágang stjórnarfrumvarpa og þingsályktunartillagna frá 24. febrúar 2023 eru áform ríkisstjórnar um lagasetningu og drög að lagafrumvörpum að meginreglu birt í samráðsgátt og kostur gefinn á umsögnum og ábendingum. Hægt er að gerast áskrifandi að málum og öllum er frjálst að senda inn umsögn eða ábendingu.

 

Forsætisráðherra

  1. Frumvarp til laga um breytingu á stjórnsýslulögum, nr. 37/1993 (ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins).
    Með frumvarpi þessu er lagt til að bætt verði við stjórnsýslulög, nr. 37/1993, ákvæði þess efnis að þær sjálfstæðu stjórnsýslunefndir sem fást við úrlausn stjórnsýslukæra geti leitað ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins, eins og lög nr. 21/1994 mæla fyrir um að dómstólar geti gert. Lagt er til að ákvæðið verði hluti af VII. kafla stjórnsýslulaga, sem inniheldur almennar reglur um stjórnsýslukærur og málsmeðferð í kærumálum. Endurflutt. September.

  2. Frumvarp til laga um rýni á beinum erlendum fjárfestingum vegna þjóðaröryggis og allsherjarreglu.
    Í frumvarpinu er mælt fyrir um heimildir stjórnvalda til að meta og taka afstöðu til fjárfestinga erlendra aðila í þýðingarmiklum samfélagsinnviðum og tengdri starfsemi með tilliti til sjónarmiða um þjóðaröryggi, sbr. ábendingar í skýrslu stýrihóps um heildstæða löggjöf og stjórnsýslu varðandi jarðir, land og aðrar fasteignir (maí 2021) og löggjöf um þetta efni annars staðar á Norðurlöndum og á Evrópska efnahagssvæðinu. Endurflutt. September.

  3. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum (fækkun stjórnsýslunefnda).
    Með frumvarpi þessu er mælt fyrir brottfall og eftir atvikum sameiningu stjórnsýslunefnda, stjórna og ráða. Janúar.

  4. Skýrsla forsætisráðherra um framkvæmd ályktana Alþingis frá árinu 2023.
    Árleg skýrsla. Október.

  5. Skýrsla forsætisráðherra um framkvæmd upplýsingalaga.
    Árleg skýrsla. Maí.

  6. Skýrsla forsætisráðherra um ráðstöfun lands og landsréttinda innan þjóðlendna og tekna af gjöldum fyrir slík réttindi.
    Árleg skýrsla. Maí.

Dómsmálaráðherra

  1. Frumvarp til laga um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á barnaheimilinu á Hjalteyri í Arnar­nes­hreppi.
    Með frumvarpinu er lagt til að greiddar verði sanngirnisbætur til þeirra sem urðu fyrir varanlegum skaða af illri meðferð eða ofbeldi á barnaheimilinu á Hjalteyri í Arnarneshreppi, meðan heimilið var starf­­rækt samkvæmt leyfi stjórnvalda á tímabilinu 1972–1979. September.

  2. Frumvarp til laga um breytingu á áfengislögum, nr. 75/1998 (vefverslun með áfengi).
    Heimild til rekstrar vefverslunar með áfengi í smásölu að uppfylltum skilyrðum. Október.

  3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um aðför, nr. 90/1989, og lögum um nauðungarsölu, nr. 90/1991 (miðlun og form gagna, notkun fjarfundabúnaðar, birtingar o.fl.).
    Frumvarpinu er ætlað að tryggja lagalegan grundvöll fyrir stafrænni málsmeðferð við innheimtu fjár­­krafna með aðför eða nauðungarsölu sem koma til meðferðar hjá sýslumannsembættum og dóm­stól­­um og fækka fyrirtökum í málunum. Endurflutt. Október.

  4. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um vegabréf, nr. 136/1998 (ýmsar breytingar).
    Með frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um vegabréf til að ná betra samræmi við lög um nafnskírteini, nr. 55/2023. Mikilvægt er að fullt samræmi sé á milli þeirra laga sem varða út­gáfu persónuskilríkja hér á landi, þ.e. vegabréfa og nafnskírteina. Þykir því tímabært að leggja til nokkrar breytingar á vegabréfalögum með það fyrir augum að slíkt samræmi náist. Október.

  5. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 80/2016 (sameiginleg vernd vegna fjölda­flótta).
    Með frumvarpinu er ætlunin að endurskoða 44. gr. laganna varðandi sameiginlega vernd vegna fjölda­­flótta, m.a. um hversu oft heimilt verði að endurnýja eða framlengja leyfið. Október.

  6. Frumvarp til laga um breytingu á lögreglulögum, nr. 90/1996, lögum um landamæri, nr. 136/2022, og tollalögum, nr. 88/2005 (farþegaupplýsingar).
    Nauðsynlegar lagabreytingar til að geta fullgilt fyrirhugaðan samning Íslands við Evrópusambandið um afhendingu og vinnslu upplýsinga um farþega og áhafnir í löggæslutilgangi. Október.

  7. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um dómstóla, nr. 50/2016 (leyfi dómara).
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum laganna er varða leyfi dómara til að sinna öðrum störfum í allt að sex ár. Október.

  8. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, nr. 13/1984 (einföldun málsmeðferðar).
    Lagt er til að sett verði í lög ákvæði um réttarbeiðnir sem sendar eru frá Íslandi og að umsýsla þess verk­efnis verði færð frá dómsmálaráðuneytinu til ríkissaksóknara í ákveðnum tilfellum. Reglu­gerð­ar­­heimild verður sett inn til að hægt sé að færa málsmeðferð á grundvelli alþjóðlegra samninga yfir til ríkissaksóknara með einföldum hætti. Þá er lögð til breyting á uppröðun á ákvæðum II. kafla laganna um meðferð framsalsmála til að lagaákvæðin séu í betra samræmi við framvindu framsals­mála. Ekki verður um efnislega breytingu að ræða á kaflanum. Að lokum þarf að lagfæra orðalag til sam­­ræmis við lög um meðferð sakamála og breyta lagatilvísunum. Október.

  9. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu, nr. 36/1993 (rekstur líkhúsa o.fl.).
    Með frumvarpinu er lagt til að skilgreina betur rekstrarumhverfi líkhúsa, þar á meðal um rekstrarleyfi og gjaldtöku. Er lagt til að sýslumaður gefi út leyfi til að reka líkhús og líkgeymslur og að þeim aðilum sem hafi slíkt leyfi sé heimilt að ákveða gjaldtöku til að standa straum af kostnaði. Er frumvarpinu ætlað að styrkja betur rekstrarumhverfi líkhúsa og líkgeymslna. Þá er lagt til að auka frelsi við dreifingu á ösku látinna einstaklinga. Nóvember.

  10. Frumvarp til laga um almannavarnir.
    Lagt er til að sett verði ný heildarlög um almannavarnir. Lögin miða að því að efla almanna­varna­kerfið, styrkja það sem vel gengur og bæta það sem betur má fara. Skyldur og ábyrgð allra sem vinna að almannavörnum, þ.m.t. ríkis, sveitarfélaga og viðbragðsaðila verði gerð skýrari hvort sem um er að ræða fyrirbyggjandi aðgerðir, aðgerðir sem gripið er til á hættustundu eða við endurreisn. Nóvember.

  11. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um dómstóla, nr. 50/2016 (sameining hér­aðs­dóm­stól­anna).
    Með frumvarpinu er lagt til að héraðsdómstólarnir átta verði sameinaðir í einn héraðsdómstól. Með sameiningu héraðs­dóm­stól­­anna aukast möguleikar á að jafna starfsálag milli héraðsdómstóla og færa verkefni til dómstóla á landsbyggðinni og efla starfsemina þar. Nóvember.

  12. Frumvarp til laga um breytingu á kosningalögum, nr. 112/2021, og lögum um starfsemi stjórnmálasamtaka, nr. 162/2006 (ýmsar breytingar).
    Lagðar eru til ýmsar breytingar á kosningalögum í því augnamiði að skýra nánar ýmis ákvæði m.a. reglu­­gerðarheimildir, hlutverk kjörstjórna, kosningu utan kjörfundar og auglýsingaskyldu. Þá er lagt til að úthlutun listabókstafa verði fært frá dómsmálaráðuneytinu til landskjörstjórnar með breyt­ingu á lögum um starfsemi stjórnmálasamtaka. Nóvember.

  13. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 80/2016 (alþjóðleg vernd).
    Með frumvarpinu er ætlunin að samræma löggjöf og framkvæmd þessara mála við umgjörð annarra Evrópu­ríkja, einkum Norðurlandanna, og tryggja hagræði við nýtingu fjármagns og auka skilvirkni innan stjórnsýslunnar. Nóvember.

  14. Frumvarp til laga um lokað brottfararúrræði.
    Með frumvarpinu er ætlunin að innleiða ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2008/115/EB um sameiginleg viðmið og skilyrði fyrir brottvísun ríkisborgara utan EES sem dveljast ólöglega á yfir­­ráða­svæði Schengen-ríkjanna, m.a. um lokað brottfararúrræði (brottvísunartilskipunin). Nóvember.

  15. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008, o.fl. (endurheimt ávinnings, netbrot o.fl. breytingar vegna alþjóðasamninga).
    Til úrlausnar er að breyta viðeigandi löggjöf vegna alþjóðlegra skuldbindinga sem Ísland hefur und­ir­gengist og varða endurheimt ávinnings afbrota og netglæpi o.fl. Um er að ræða breytingar á sviði sakamálaréttarfars að því er varðar rannsóknarheimildir lögreglu við öflun gagna og heimildir til haldlagningar og kyrrsetninga. Hins vegar á sviði refsilaga að því er varðar upptökuákvæði almennra hegningarlaga nr. 19/1940 auk breytinga á refsiákvæðum um netglæpi. Nóvember.

  16. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008 (aðgangur að gögnum, rannsóknarskýrslur af brotaþolum í viðkvæmri stöðu).
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á reglum um afhendingu gagna annarra en skjala til verjenda og réttargæslumanna, framlagningu greinargerðar og kærumálsgagna samhliða ósk um kæru­­­leyfi. Auk þess eru lagðar til breytingar á fyrirkomulagi rannsóknarskýrslna af brotaþolum í við­kvæmri stöðu þannig að ekki séu eingöngu gefnar skýrslur fyrir dómi. Janúar.

  17. Frumvarp til laga um Haag-samninginn frá 1996 um lögsögu, gildandi lög, viðurkenningu, fullnustu og samvinnu vegna ábyrgðar foreldra og aðgerða til verndar börnum.
    Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði ákvæði sem eru nauðsynleg til að Ísland geti fullgilt al­þjóð­legan samning um lögsögu, gildandi lög, viðurkenningu, fullnustu og samvinnu vegna ábyrgð­ar foreldra og aðgerða til verndar börnum sem gerður var í Haag 19. október 1996. Samn­ing­ur­inn snýr m.a. að því að ákveða lögsögu, ákveða lögum hvers ríkis skuli beita, viðurkenningu og fullnustu á ákvörðunum sem eru teknar í öðru samningsríki t.d. varðandi forsjá eða umgengni og kveður enn fremur á um samstarf og upplýsingagjöf í barnaverndarmálum. Febrúar.

  18. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um söfnunarkassa, nr. 73/1994, og lögum um Happ­drætti Háskóla Íslands, nr. 13/1973 (spilakassar).
    Frumvarpið miðar að því að endurskoða regluverk varðandi spilakassa, m.a. til þess að samræma það regluverk sem gildir um rekstur spilakassa og að bregðast við áhættumati Ríkislögreglustjóra um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, sem tengist aðild Íslands að FATF (Financial Action Task Force). Í áhættumatinu er bent á að áhætta geti tengst starfsemi söfnunarkassa og happ­drættis­véla og eru því m.a. lagðar til breytingar á lögunum vegna þess. Mars.

Félags- og vinnumarkaðsráðherra

  1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um félagslegan viðbótarstuðning fyrir aldraða, nr. 74/2020 (félagslegur viðbótarstuðningur við örorkulífeyrisþega).
    Í frumvarpinu verður kveðið á um útvíkkun á félagslegum viðbótarstuðningi við lífeyrisþega sem búa hér á landi en hafa ekki áunnið sér full réttindi í því endurskoðaða almannatryggingakerfi sem tekur gildi 1. september 2025. Viðbótarstuðningi er ætlað að bæta afkomuöryggi fyrir örorkulífeyrisþega sem hafa litla sem enga aðra möguleika til þess að afla tekna sér til framfærslu. Október.

  2. Frumvarp til laga um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
    Frumvarpið felur í sér að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði lögfestur í heild sinni. Samhliða lögfestingu verða gerðar aðrar nauðsynlegar lagabreytingar til að tryggja samræmi. Nóvember.

  3. Frumvarp til laga um málefni innflytjenda.
    Um er að ræða frumvarp til nýrra heildarlaga um málefni innflytjenda sem ætlað er að koma í stað gildandi laga um málefni innflytjenda, nr. 116/2012. Nóvember.

  4. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um sorgarleyfi, nr. 77/2022 (aukin réttindi foreldra).
    Í frumvarpinu verða lagðar til breytingar á lögum um sorgarleyfi þar sem stefnt er að því að auka réttindi foreldra enn frekar, meðal annars með því að tryggja þeim foreldrum sem missa maka rétt á sorgarleyfi. Nóvember.

  5. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um útsenda starfsmenn og skyldur erlendra þjónustuveitenda, nr. 45/2007 (EES reglur).
    Í frumvarpinu verða lagðar til breytingar til þess að bregðast við athugasemdum frá Eftirlitsstofnun EFTA í tengslum við innleiðingu á tilskipun 2014/67/ESB frá 15. maí 2014 um framfylgd tilskipunar 96/71/EB um störf útsendra starfsmanna í tengslum við veitingu þjónustu og um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 1024/2012 um samvinnu á sviði stjórnsýslu fyrir tilstilli upplýsingakerfisins fyrir innri markaðinn („reglugerðin um IM-upplýsingakerfið“) og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/957 frá 28. júní 2018 um breytingu á tilskipun 96/71/EB um störf útsendra starfsmanna í tengslum við veitingu þjónustu. Mars.

  6. Frumvarp til laga um um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 144/2020 (EES-reglur).
    Í frumvarpinu verða lagðar til breytingar á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 144/2020  til að bregðast við athugasemdum frá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) í tengslum við innleiðingu á reglugerð (EB) nr. 883/2004 um samræmingu almannatryggingarkerfa í kjölfar ráðgefandi álits EFTA dómstólsins frá 29. júlí 2022. Mars.

  7. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991 (aðgerðir gegn ofbeldi).
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar í þeim tilgangi að skýra ábyrgð og hlutverk opinberra aðila þegar kemur að stuðningi og vernd fyrir þolendur ofbeldis og meðferðarúrræðum fyrir gerendur. Markmið breytinganna er enn fremur að tryggja þverfaglegt samstarf allra aðila sem koma að þjónustu við þolendur og leggja grunn að miðlun upplýsinga með einstaklingsmiðaða þjónustu í huga. Tillögunum er ætlað að styðja við innleiðingu á Istanbúlsamningnum, samningi Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi sem fullgiltur var af íslenskum stjórnvöldum árið 2018. Mars.

  8. Tillaga til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í kynjajafnréttismálum 2024-2027.
    Gert er ráð fyrir að lögð verði fram á Alþingi tillaga til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í kynjajafnréttismálum til fjögurra ára sem leysir af hólmi gildandi áætlun, sbr. 26. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020. Framkvæmdaáætluninni er ætlað það hlutverk að skilgreina stefnu stjórnvalda á hverjum tíma og lýsa verkefnum sem ýmist er ætlað að varpa ljósi á stöðu kynjanna eða fela í sér beinar aðgerðir í þágu kynjajafnréttis. Skýrsla ráðherra um stöðu og þróun jafnréttismála 2020-2024 fylgir með tillögunni sbr. 2. mgr. 26. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. September.

  9. Tillaga til þingsályktunar um stefnu í málefnum innflytjenda 2024-2038 og framkvæmdaáætlun 2025-2028.
    Gert er ráð fyrir að lögð verði fram á Alþingi tillaga til þingsályktunar um stefnu í málefnum innflytjenda til fimmtán ára ásamt nýrri framkvæmdaáætlun til fjögurra ára sem leysir af hólmi gildandi áætlun. Nóvember.

Fjármála- og efnahagsráðherra

  1. Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2025. September.

  2. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2025.
    Frumvarpið felur í sér breytingar sem lagðar eru til grundvallar fjárlagafrumvarpi ársins 2025 sem lagt er fram á sama tíma. Það verður samið að höfðu samráði við önnur ráðuneyti. September.

  3. Frumvarp til laga um staðfestingu ríkisreiknings 2023. September.

  4. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003 (erlendar fjárfestingar í nýsköpun).
    Í frumvarpinu verður lögð til breyting á lögum um tekjuskatt með það að markmiði að einfalda regluverk þegar kemur að erlendri fjárfestingu í íslenskum félögum og þá einkum til að auðvelda fjármögnun í nýsköpun. Endurflutt. September.

  5. Frumvarp til laga um slit ógjaldfærra opinberra aðila.
    Frumvarpið felur í sér almennan lagaramma um hvernig tilteknir opinberir aðilar, hvers skuldbindingum ríkið eða sveitarfélag ber einfalda ábyrgð á, sæta slitameðferð vegna ógjaldfærni. Endurflutt. Október.

  6. Frumvarp til laga um stuðningslán til rekstraraðila í Grindavík.
    Með frumvarpinu verður mælt fyrir um fyrirkomulag stuðningslána með það að markmiði að viðhalda atvinnustarfsemi minni rekstraraðila með starfsstöð í Grindavíkurbæ sem hafa orðið fyrir tímabundnu tekjufalli vegna jarðhræringa á sunnanverðu Reykjanesi. Október.

  7. Frumvarp til laga um framkvæmdir og umsýslu fasteigna fyrir Landspítala og sérhæfða sjúkrahúsþjónustu (NLSH).
    Endurskoðun á núgildandi lagaramma um NLSH er varðar framkvæmdir við Hringbraut. NLSH fær aukin verkefni er varða undirbúning og framkvæmd bygginga fyrir Landspítala og aðra sérhæfða sjúkrahúsþjónustu í samræmi við ákvarðanir stjórnvalda. Þá er einnig gert ráð fyrir að heimilt verði að færa eignarhald og umsýslu fasteigna vegna sjúkrahúss til félagsins með sambærilegum hætti og gert var vegna umsýslu fasteigna Háskóla Íslands. Október.

  8. Frumvarp til laga um skipan upplýsingatækni í rekstri ríkisins.
    Með frumvarpinu er stefnt að því að styrkja stefnumótun og framkvæmd upplýsingatæknimála í rekstri ríkisins o.fl. Ábyrgð ráðherra á skipan upplýsingatæknimála ríkisins er formgerð og mótuð, m.a. með því að kveðið er á um heimild ráðherra til að setja reglur og viðmið um hvernig skipan þeirra mála skuli háttað. Ráðherra ber jafnframt að halda úti sameiginlegum stafrænum innviðum sem ríkisaðilum er ýmist heimilt eða skylt að nota. Markmiðið er að upplýsingatækniumhverfi ríkisins verði samræmdara, öruggara, skilvirkara og hagkvæmara. Október.

  9. Frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2024. Október.

  10. Frumvarp til laga um kílómetragjald vegna notkunar ökutækja (gjaldtaka ökutækja og eldsneytis, kolefnisgjald o.fl.).
    Með frumvarpinu er lagt til að tekin verði upp gjaldtaka í formi kílómetragjalds vegna notkunar ökutækja á vegakerfinu. Jafnframt er lagt til að almennt og sérstakt vörugjald af eldsneyti verði fellt niður og lög nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald og lög nr. 101/2023 um kílómetragjald vegna notkunar hreinorku- og tengiltvinnbifreiða verði felld brott. Þá er lögð til hækkun á kolefnisgjaldi í lögum nr. 129/2009, um umhverfis- og auðlindaskatta. Október.

  11. Frumvarp til laga um lágmarksskatt á fjölþjóðleg stórfyrirtæki.
    Í frumvarpinu er lagt til að innleiddar verði reglur sem eiga að tryggja 15% lágmarksskattlagningu fjölþjóðlegra fyrirtækja með veltu yfir 750 milljónir evra í árstekjur. Október.

  12. Frumvarp til laga um brottfall laga um Bankasýslu ríkisins.
    Með frumvarpinu er lagt til að Bankasýsla ríkisins verði lögð niður og eftirstandandi verkefni verði færð til ráðuneytis. Verkefnum stofnunarinnar hefur að mestu verið lokið og henni er ekki ætlað hlutverk við fyrirhugaða ráðstöfun eignarhlutar ríkisins í Íslandsbanka. Október.

  13. Frumvarp til laga um greiðslur yfir landamæri í evrum (CBPR).
    Frumvarpið felur í sér innleiðingu á reglugerð (ESB) 2021/1230, um greiðslur yfir landamæri í Sambandinu. Með frumvarpinu verður lagt til að felld verði úr gildi lög um greiðslur yfir landamæri í evrum, nr. 78/2014, sem sett voru til innleiðingar á reglugerð (EB) 924/2009, um greiðslur yfir landamæri í Bandalaginu, og ný lög sett í þeirra stað. Innleiðing. Október.

  14. Frumvarp til laga um heimild fyrir ríkisstjórnina til að samþykkja hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og til að staðfesta fyrir Íslands hönd breytingar á stofnskrá sjóðsins (kvótaaukning AGS).
    Frumvarpið er lagt fram í tilefni af endurskoðun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Október.

  15. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um opinber fjármál, nr. 123/2015 (fjármálaáætlun ekki lögð fram á kosningaári).
    Með frumvarpinu er lagt til að tillaga til þingsályktunar um fjármálaáætlun verði ekki lögð fram á kosningaári heldur gildi áfram sú áætlun sem lögð var fram á vorþingi árið áður. Nóvember.

  16. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (nýsköpun, virðisaukaskattur o.fl.).
    Með frumvarpinu eru lagðar til nauðsynlegar breytingar á ýmsum lögum um skatta og gjöld. Um er að ræða breytingar sem tengjast m.a. stuðningi við nýsköpunarfyrirtæki, gistináttaskatti, barnabótum og tryggingagjaldi. Enn fremur eru lagðar til breytingar á lögum um virðisaukaskatt m.a. að því er varðar sölu á vöru og þjónustu sem telst ekki til skattskyldrar veltu og kaup á þjónustu erlendis frá o.fl. Nóvember.

  17. Frumvarp til laga um verðbréfun (STS).
    Frumvarpið felur í sér innleiðingu á reglugerð (ESB) 2017/2402, um almennan ramma fyrir verðbréfun og gerð sértæks ramma fyrir einfalda, gagnsæja og staðlaða verðbréfun o.fl. Verðbréfun er tegund fjármögnunarviðskipta fjármálastofnana og álitin mikilvægur þáttur í vel starfhæfum fjármálamarkaði, enda sé hún byggð á traustu skipulagi. Með frumvarpinu verður komið á styrkri lagaumgjörð er miðar að því að draga úr áhættunni sem felst í verðbréfun og tryggja aðgreiningu einfaldra, gagnsærra og staðlaðra verðbréfunarafurða frá flóknum, ógagnsæjum og áhættusamari afurðum. Með frumvarpinu verða jafnframt lagðar til breytingar á ýmsum lögum til samræmis við breytingar á öðrum tilskipunum og reglugerðum með reglugerð (ESB) 2017/2402 og afleiddum eða tengdum gerðum, þar á meðal lögum um fjármálafyrirtæki, verðbréfasjóði, vátryggingastarfsemi, lánshæfismatsfyrirtæki, rekstraraðila sérhæfðra sjóða, peningamarkaðssjóði og afleiðuviðskipti, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár. Innleiðing. Nóvember.

  18. Frumvarp til laga um stafrænan viðnámsþrótt fjármálamarkaðar (DORA).
    Frumvarpið felur í sér innleiðingu á reglugerð (ESB) 2022/2554, um stafrænan rekstrarlegan viðnámsþrótt fyrir fjármálageirann og um breytingu á ýmsum gildandi reglugerðum, ásamt tilheyrandi tilskipun (ESB) 2022/2556 er breytir ýmsum gildandi tilskipunum. Með frumvarpinu verður lagt til að samræmdar kröfur verði gerðar til viðbúnaðar og umgjarðar áhættustýringar helstu aðila á fjármálamarkaði, að teknu tilliti til stærðar og áhættusniðs, eðlis og umfangs þjónustu/starfsemi, þar á meðal að því er varðar aðkeypta tækniþjónustu og skyldu til að tilkynna um alvarleg atvik sem tengjast upplýsinga- og fjarskiptatækniþjónustu. Aðilum á fjármálamarkaði verði eftir atvikum skylt að framkvæma einfaldar eða ógnamiðaðar innbrotsprófanir í því skyni að bæta áfallaþol. Þá verði frekari stoðum rennt undir heimildir til miðlunar upplýsinga um ógnir og áhættu, enda sé slíkt samstarf formgert og hlíti nánar tilgreindum skilyrðum. Með DORA-reglugerðinni er sameiginlegu eftirliti evrópska fjármálaeftirlitskerfisins komið á gagnvart stærstu tækniþjónustuveitendum, sem útnefndir verða sem mikilvægir á sameiginlegum innri markaði fjármálaþjónustu. Með frumvarpinu verða lagðar til ýmsar breytingar á gildandi lögum á fjármálamarkaði, sem þegar víkja að einhverju marki að stafrænum viðnámsþrótti. Áformað er að sambærilegar kröfur verði gerðar til lífeyrissjóða í frumvarpinu. Innleiðing. Nóvember.

  19. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði, nr. 24/2017, og fleiri lögum (ESAs Review).
    Frumvarpið felur í sér innleiðingu á reglugerðum (ESB) 2019/2175 og 2019/2176 og tilskipun (ESB) 2019/2177 sem fjalla um breytingar á regluverki Evrópusambandsins um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði. Með breytingunum eru tilteknar valdheimildir evrópsku eftirlitsstofnananna á fjármálamarkaði skýrðar og styrktar og lagðar til nýjar valdheimildir á tilteknum sviðum. Þá eru gerðar breytingar á reglugerð (ESB) 600/2014, um markaði með fjármálagerninga, og reglugerð (ESB) 2016/1011, um fjárhagslegar viðmiðanir, þar sem Evrópsku verðbréfamarkaðseftirlitsstofnuninni er falið að fara með beint eftirlit með gagnaþjónustuveitendum og starfsleyfisveitingar til þeirra og einnig beint eftirlit með tilteknum fjárhagslegum viðmiðunum og að veita stjórnendum fjárhagslegra viðmiðana frá þriðju ríkjum staðfestingu. Innleiðing. Nóvember.

  20. Frumvarp til laga um starfstengda eftirlaunasjóði (IORP II).
    Frumvarpið felur í sér innleiðingu á tilskipun (ESB) 2016/2341, um starfstengda eftirlaunasjóði. Með frumvarpinu verður lagt til að felld verði úr gildi lög um starfstengda eftirlaunasjóði, nr. 78/2007, sem sett voru til innleiðingar á tilskipun (ESB) 2003/41 um sama efni, og ný lög sett í þeirra stað. Um er að ræða endurútgáfu á eldri tilskipun um sama efni, það er tilskipun 2003/41/EB, um starfsemi og eftirlit með lögaðilum sem sjá um starfstengd eftirlaun. Innleiðing. Nóvember.

  21. Frumvarp til laga um markaði fyrir sýndareignir (MiCA).
    Frumvarpið felur í sér innleiðingu á reglugerð (ESB) 2023/1114, um markaði fyrir sýndareignir. Í reglugerðinni er kveðið á um samevrópskar reglur um útgáfu, almennt útboð og leyfi til viðskipta með sýndareignir ásamt reglum til að koma í veg fyrir markaðsmisnotkun og innherjaviðskipti með sýndareignir. Innleiðing. Nóvember.

  22. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002 (CRR III).
    Frumvarpið felur í sér innleiðingu á reglugerð (ESB) 2024/1623, sem breytir reglugerð (ESB) nr. 575/2013, um varfærniskröfur að því er varðar lánastofnanir. Breytingunum er að miklu leyti ætlað að gera eiginfjárkröfur til lánastofnana áhættunæmari til að endurspegla betur áhættu sem þær standa frammi fyrir án þess að auka verulega heildareiginfjárkröfur til þeirra. Innleiðing. Nóvember.

  23. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um ríkisábyrgðir, nr. 121/1997, og lögum um lánasýslu ríkisins, nr. 43/1990 (endurskoðun).
    Með frumvarpinu er stefnt að því endurskoða lagaákvæði um lánaumsýslu ríkissjóðs og ríkisábyrgðir. Undir lánaumsýslu falla m.a. tekin lán ríkissjóðs, endurlán, ábyrgðir, afleiður, áhættustýring og sjóðsstýring. Meginmarkmið frumvarpsins er að samræma löggjöfina gildandi lögum um opinber fjármál og stefnu í lánamálum. Janúar.

  24. Frumvarp til laga um fjárfestingar ríkisins.
    Heildarendurskoðun á núgildandi lögum um skipan opinberra framkvæmda, nr. 84/2001. Megintilgangur frumvarpsins er að ná fram aukinni gæðatryggingu í fjárfestingum ríkisins, ásamt því að tryggja samræmda málsmeðferð við ólíkar tegundir fjárfestinga. Janúar.

  25. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997 (fjárfestingarkostir viðbótarlífeyrissparnaðar).
    Með frumvarpinu verður lagt til að vörsluaðilum séreignarsparnaðar verði heimilað, að fenginni sérstakri heimild Fjármálaeftirlitsins, að verða við beiðni rétthafa um að iðgjöldum hans til séreignar verði varið til fjárfestingar í tilteknum sjóði eða sjóðum um sameiginlega fjárfestingu. Þá verður lagt til að heimildin taki einnig til ráðstöfunar iðgjalda í heild eða að hluta til innlána óski rétthafi eftir því. Tillögur frumvarpsins fela í sér aukið valfrelsi rétthafa séreignarsparnaðar um það hvernig fjárfestingu iðgjalda til séreignar er háttað. Frumvarp þessa efnis var lagt fram á 154. löggjafarþingi (916. mál). Endurflutt. Febrúar.

  26. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um verðbréfamiðstöðvar, uppgjör og rafræna eignarskráningu fjármálagerninga (CSDR).
    Frumvarpið felur í sér innleiðingu á reglugerð (ESB) 2023/2845, um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 909/2014, um bætt verðbréfauppgjör í Evrópusambandinu og um verðbréfamiðstöðvar o.fl., sem innleidd var hér á landi með lögum um verðbréfamiðstöðvar, uppgjör og rafræna eignarskráningu fjármálagerninga, nr. 7/2020. Breytingar varða meðal annars samstarf eftirlitsaðila í heima- og gistiríki. Innleiðing. Febrúar.

  27. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, tollalögum, nr. 88/2005 o.fl. (uppgjörstímabil og gjalddagar virðisaukaskatts, uppgjör virðisaukaskatts í tolli o.fl.).
    Með frumvarpinu eru m.a. lagðar til breytingar á ákvæðum laga um virðisaukaskatt að því er varðar uppgjörstímabil og gjalddaga virðisaukaskatts. Þá eru lagðar til breytingar á tollalögum, og eftir atvikum öðrum lögum, um fyrirkomulag á greiðslu virðisaukaskatts og annarra aðflutningsgjalda við innflutning. Mars.

  28. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um markaði fyrir fjármálagerninga (MiFIR/MiFID II).
    Frumvarpið felur í sér innleiðingu á reglugerð (ESB) 2024/791, um breytingu á svonefndri MiFIR-reglugerð (600/2014), um aukið gagnsæi á fjármagnsmörkuðum, miðlæga söfnun viðskiptaupplýsinga (e. consolidated tape) o.fl. Enn fremur verði innleidd ákvæði tilskipunar (ESB) 2024/790, um breytingar á MiFID II-tilskipuninni (2014/65), og nokkur óinnleidd ákvæði tilskipunar (ESB) 2021/338, um breytingar á sömu tilskipun (MiFID II), sem tengjast öðrum Evrópugerðum og fyrirhuguðum þingmálum á 155. löggjafarþingi (einkum ESAs Review og IFD/IFR). Innleiðing. Mars.

  29. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um afleiðuviðskipti, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár, nr. 15/2018 (miðlægir mótaðilar utan Evrópska efnahagssvæðisins).
    Með frumvarpinu verður lagt til að reglugerð (ESB) 2019/2099, um breytingar á reglugerð (ESB) nr. 648/2012, um afleiðuviðskipti, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár, verði veitt lagagildi hér á landi með breytingu á lögum nr. 15/2018 um sama efni. Frumvarpið felur í sér breytingar á eftirliti með miðlægum mótaðilum. Engir slíkir eru starfandi hérlendis. Innleiðing. Mars.

  30. Frumvarp til laga um hópfjármögnun fyrir fyrirtæki (ECSP).
    Frumvarpið felur í sér innleiðingu á reglugerð (ESB) 2020/1503, um evrópska veitendur hópfjármögnunarþjónustu fyrir fyrirtæki. Reglugerðin kveður á um starfsleyfi fyrir þjónustuveitendur sem hafa milligöngu um hópfjármögnun fyrir fyrirtæki í formi lána eða verðbréfakaupa og kröfur þar um. Enn fremur verða lagðar til minni háttar breytingar á lögum um markaði fyrir fjármálagerninga, nr. 115/2021. Innleiðing. Mars.

  31. Frumvarp til laga um verðbréfafyrirtæki (IFR og IFD).
    Frumvarpið felur í sér innleiðingu á reglugerð (ESB) 2019/2033 og tilskipun (ESB) 2019/2034 sem fjalla um verðbréfafyrirtæki. Með gerðunum er regluverk Evrópusambandsins um varfærniseftirlit með verðbréfafyrirtækjum í megindráttum skilið frá reglum um varfærniseftirlit með bönkum og öðrum lánastofnunum. Aðskilnaðinum er ætlað að gera regluverkinu kleift að taka betur mið af sérstöðu hvorrar tegundar fyrirtækja fyrir sig. Innleiðing. Mars.

  32. Frumvarp til laga um samevrópska séreignarafurð (PEPP).
    Frumvarpið felur í sér innleiðingu á reglugerð (ESB) 1238/2019, um samevrópska séreignarafurð, í íslenskan rétt. Samevrópska séreignarafurðin er ný valfrjáls tegund lífeyrissparnaðar sem neytendum innan EES-svæðisins mun standa til boða. Afurðin á að auka val neytenda við sparnað til starfsloka auk þess sem samevrópska séreignarafurðin verður flytjanleg milli EES-ríkjanna. Afurðinni er ætlað að styðja við núverandi innlend lífeyriskerfi en ekki að koma í stað þeirra sem fyrir eru. Innleiðing. Mars.

  33. Tillaga til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2025-2029.
    Samkvæmt 5. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, skal ráðherra leggja fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun til næstu fimm ára hið skemmsta. Fjármálaáætlunin skal byggð á fjármálastefnu skv. 4. gr. og skilyrðum hennar skv. 7. gr. laganna. Mars.

  34. Skýrsla um langtímahorfur í efnahagsmálum og opinberum fjármálum.
    Samkvæmt 5. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, skal ráðherra, eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti, leggja fyrir Alþingi skýrslu þar sem fram kemur mat á líklegri þróun samfélags-, atvinnu-, umhverfis- og byggðaþátta og lýðfræðilegra breytna næstu áratuga og áhrifum þeirra á afkomu, fjárhagsstöðu og skuldbindingar opinberra aðila. Október.

  35. Skýrsla um fjármálareglur.
    Tölulegum fjármálareglum laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, var vikið tímabundið til hliðar árin 2019 og 2020. Þær taka að óbreyttu gildi á ný árið 2026. Í skýrslunni er reynsla af beitingu fjármálareglna frá því að lögin voru innleidd reifuð og kostir og gallar mismunandi reglna kortlagðir. Tilgangur skýrslunnar er að draga fram hvernig fjármálareglur eru líklegastar til að styðja við markmið opinberra fjármála um sjálfbært skuldahlutfall og efnahagslegan stöðugleika. Október. 

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra

  1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi, nr. 26/2010 (meðalhófsprófun, EES-reglur).
    Með frumvarpinu er tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/958 um meðalhófsprófun lögverndaðra starfsgreina innleidd. Frumvarpið kveður á um að framkvæma skuli meðalhófsprófun áður en samþykkt er ný lögverndun starfsgreina og þegar skilyrði fyrir lögverndun eru endurskoðuð. InnleiðingSeptember.

  2. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um einkaleyfi, nr. 17/1991 (undanþága frá viðbótarvernd).
    Í frumvarpinu felst formleg innleiðing reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 469/2009 um vottorð um viðbótarvernd fyrir lyf en efnislegt inntak reglugerðarinnar hafði verið lögfest með lögum til breytinga á einkaleyfalögum, nr. 57/2021. Innleiðing. September.

  3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, nr. 3/2003, ásamt öðrum breytingum (sameining samkeppnissjóða).
    Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið hefur unnið að kortlagningu á umhverfi sjóða á vegum ráðuneytisins síðustu misseri. Hægt væri að auka árangur og skilvirkni opinberra samkeppnissjóða á Íslandi með því, til að mynda, að fækka og sameina samkeppnissjóði hins opinbera. Átta samkeppnissjóðir eru starfræktir á vegum ráðuneytisins og er stefnt að því að með frumvarpi þessu verði þeir sameinaðir í þrjá meginsjóði; rannsóknar- og innviðasjóð, nýsköpunarsjóð og áherslusjóð. Jafnframt er gert ráð fyrir möguleikanum á að sjóðir á vegum annarra ráðuneyta geti sameinast þessum þremur sjóðum. Þá er stefnt að því að skerpa á hlutverki Rannís sem víðtæk umsýslu- og þjónustustofnun opinberra samkeppnissjóða. Október.

  4. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um opinbera háskóla, nr. 85/2008 (heimild til innheimtu skólagjalda vegna nemenda utan EES-svæðisins).
    Aukinn fjöldi erlendra nemenda sækir íslenska háskóla og með rýmkandi reglum um dvalarleyfi útlendinga utan EES-svæðisins hér á landi verður að reikna með áframhaldandi fjölgun nemenda sem felur í sér aukinn kostnað fyrir háskólana í landinu. Háskólar sem ekki eru reknir af ríkinu geta mætt þessum kostnaði með því að innheimta skólagjöld af nemendum með ríkisfang utan EES-svæðisins, en með breytingum á lögum verður opinberum háskólum veitt lagaheimild til þess. Núverandi fyrirkomulag skekkir samkeppnisstöðu opinberu háskólanna gagnvart þeim einkareknu og sama má segja í samanburði við erlenda háskóla. Nóvember.

  5. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um Menntasjóð námsmanna, nr. 60/2020 (heildarendurskoðun).
    Ráðherra lagði fram á Alþingi skýrslu um mat á endurskoðun laga um Menntasjóð námsmanna í desember 2023. Í skýrslunni eru fyrirliggjandi gögn og tölulegar staðreyndir nýttar til að skýra framkvæmd laganna og meta hvernig til hefur tekist við breytingu á sjóðnum. Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra lagði síðan fram frumvarp á Alþingi sem var fyrsti liður í heildarendurskoðun laganna um sjóðinn og felldi brott ábyrgðarmenn á lánum ásamt því að gera breytingar á skilyrðum þess að fá styrk úr sjóðnum. Hér er um að ræða framhald þeirrar heildarendurskoðunar sem boðuð hefur verið. Janúar.

  6. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjarskipti, nr. 70/2022 (netsvik og helgunarsvæði fjarskiptastrengja).
    Í frumvarpinu er annars vegar lagt til að gera breytingar á fjarskiptalögum svo styrkja megi heimildir netöryggissveitarinnar CERT-IS til að bregðast við netógnum, til að mynda með því að innleiða sjálfvirkan niðurtökulista svikavefsíða, og hins vegar breytingar sem varða skilgreiningu á helgunarsvæði fjarskiptastrengja milli landa með tilliti til sjókvíaeldis. Þá er unnið að greiningu á fjarskiptalögum með tilliti til gullhúðunar, sem leiða kann til frekari breytinga á lögunum. Febrúar.

  7. Frumvarp til laga um stjórnskipulag gagna, sanngjarnan aðgang að gögnum og notkun þeirra (ný heildarlög).
    Með frumvarpinu eru reglugerðir (ESB) 2022/868 og (ESB) 2023/2854 innleiddar í íslenskan rétt. Í frumvarpinu eru sett samræmd skilyrði um notkun tiltekinna gagnasetta opinberra aðila, tilkynningar- og eftirlitsrammi fyrir veitingu gagnamiðlunarþjónustu, rammi um skráningu aðila sem miðla gögnum til almannaheilla og kveðið á um stofnun nefndar um evrópska gagnanýsköpun. Þá eru settar reglur um sanngjarnan aðgang að gögnum og notkun þeirra. Innleiðing. Mars.

  8. Frumvarp til laga um gervigreind (ný heildarlög).
    Með frumvarpinu er reglugerð (ESB) um samræmdar reglur um gervigreind innleidd í íslenskan rétt. Með lögunum verður í fyrsta sinn settur lagarammi um þróun og notkun gervigreindar á Íslandi. Markmið lagasetningarinnar er að stuðla að ábyrgri notkun gervigreindar, tryggja öryggi og vernd mannréttinda og stuðla þannig að aukinni samkeppnishæfni atvinnulífs og hins opinbera og styðja betur við nýsköpun. Innleiðing. Mars.

  9. Skýrsla háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um Tæknisetur og stöðu nýsköpunarstuðnings eftir niðurlagningu Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.Í ákvæði til bráðabirgða VI við lög um opinberan stuðning við nýsköpun, nr. 25/2021, kom fram að ráðherra skuli gefa Alþingi skýrslu um stöðu nýsköpunarstuðnings eftir niðurlagningu Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, þróun nýsköpunarmála á landsbyggðinni, árangur sem og ásókn í hvatastyrki til nýsköpunar sem ráðuneytið úthlutar og starfsemi Tækniseturs eigi síðar en tveimur árum eftir gildistöku laganna. Október.

  10. Skýrsla Vísinda- og nýsköpunarráðs um stöðu nýsköpunar hér á landi í alþjóðlegu tilliti, stefnumótun stjórnvalda og helstu samfélagslegu áskoranir.
    Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga um Vísinda – og nýsköpunarráð, nr. 137/2022, skal ráðið árlega skila skýrslu til ráðherra sem fer með málefni vísinda og nýsköpunar sem skal skv. ákvæðinu leggja skýrsluna fyrir Alþingi. Nóvember.

  11. Skýrsla háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um efnahagsleg tækifæri gervigreindar á Íslandi.
    Skýrsla um mikilvægi gervigreindar fyrir framtíðarþróun samfélagsins. Í ráðuneytinu er unnið að aðgerðaáætlun um gervigreind til þess meðal annars að efla atvinnulíf, auka framleiðni og bæta þjónustu. Í skýrslunni verða niðurstöður greiningar á tækifærum til að auka hagvöxt, bæta framleiðni í helstu atvinnugreinum og skapa ný störf með innleiðingu gervigreindartækni kynntar. Desember. 

Heilbrigðisráðherra

  1. Frumvarp til sóttvarnalaga (heildarlög).
    Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar á lögunum í kjölfar heildarendurskoðunar á lögunum sem ráðist var í veturinn 2021-2022 með hliðsjón af fenginni reynslu eftir heimsfaraldur SARS-CoV-2-veirunnar. Breytingar frá gildandi lögum varða einkum stjórnsýslu sóttvarna, feril ákvarðana um opinberar sóttvarnaráðstafanir og aukna aðkomu Alþingis að þeim. Endurflutt. September.

  2. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008 (ýmsar breytingar).
    Með frumvarpinu verða lagðar til ýmsar breytingar á lögum um sjúkratryggingar. Breytingunum er m.a. ætlað að lögfesta atriði er varða vinnslu persónuupplýsinga og breyta orðalagi sem á ekki lengur við gildandi framkvæmd, svo sem varðandi réttindagreiðslur. Þá verða lagðar til breytingar á ákvæðum kaflans sem varða aðgerðir Sjúkratrygginga vegna vanefnda. Endurflutt. September.

  3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, og lögum um sjúkraskrár, nr. 55/2009 (heilbrigðisskrár o.fl.).
    Meginmarkmið frumvarpsins er þríþætt. Í fyrsta lagi að setja ítarleg ákvæði um rekstur og notkun heilbrigðisskráa. Í öðru lagi er stefnt að því að tryggja lagastoð fyrir stofnun og rekstri gæðaskráa. Í þriðja lagi eru lagðar til breytingar er varða aðgang heilbrigðisyfirvalda að sjúkraskrám við meðferð kvörtunar- eða kærumála og við rannsóknir á atvikum í heilbrigðisþjónustu. Endurflutt. September.

  4. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007 (stjórn Sjúkrahússins á Akureyri).
    Markmið frumvarpsins er að setja á laggirnar stjórn Sjúkrahússins á Akureyri sem gegni því hlutverki að tryggja frekari faglegan rekstur þess. Horft hefur verið til reynslu af stjórn Landspítala. September.

  5. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007 (fækkun nefnda).
    Með frumvarpinu verður lögð til fækkun fastra hæfnisnefnda, þ.e. að leggja niður stöðunefnd lækna, stöðunefnd framkvæmdastjóra hjúkrunar og nefnd til að meta hæfni umsækjenda um störf forstjóra heilbrigðisstofnana. Markmiðið er að aðlaga umgjörð um hæfnisnefndir að því sem almennt gildir hjá ríkinu, sbr. heimild í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, fyrir ráðherra til að skipa sérstaka hæfnisnefnd til að meta hæfni umsækjenda um starf forstöðumanns. Október.

  6. Frumvarp til laga um breytingu á lyfjalögum og lögum um lækningatæki (EES-reglur).
    Með frumvarpinu er lagt til að innleiða reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2022/123 frá 25. janúar 2022 um að styrkja hlutverk Lyfjastofnunar Evrópu að því er varðar viðbúnað við krísu og krísustjórnun varðandi lyf og lækningatæki í samræmi við skuldbindingar Íslands skv. 7. gr. EES-samningsins. Innleiðing. Október.

  7. Frumvarp til laga um breytingu á lyfjalögum, nr. 100/2020 (viðbrögð við lyfjaskorti o.fl.).
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lyfjalögum, nr. 100/2020, sem teljast nauðsynlegar miðað við þá reynslu sem komin er síðan lögin tóku gildi. Einnig felur frumvarpið m.a. í sér ákvæði er varða viðbrögð við lyfjaskorti, undanþágulyf, lyfjafræðilega umsjá og viðurlagaákvæði. Nóvember.

  8. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um sjúkraskrár, nr. 55/2009 (ýmsar breytingar).
    Með frumvarpinu verða lagðar til ýmsar breytingar svo sem varðandi miðlun upplýsinga við framkvæmd samþættra verkefna félags- og heilbrigðisþjónustu, rafræn sjúkraskrárkerfi og aðgang að sjúkraskrám. Nóvember.

  9. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007 (aðkoma sveitarfélaga í uppbyggingu hjúkrunarheimila).
    Með frumvarpinu verður lagt til að fella brott skyldu sveitarfélaga til að greiða 15% stofnkostnað við uppbyggingu hjúkrunarheimila, sbr. 32. gr. laga um heilbrigðisþjónustu. Markmiðið er að lögin liðki fyrir uppbyggingu og tryggi fullnægjandi viðhald á þeim eignum sem nýttar eru undir þessa mikilvægu almannaþjónustu og endurspegli betur þau sjónarmið sem fram koma í skýrslu sem unnin var í samstarfi fjármála- og efnahagsráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis. Nóvember.

  10. Frumvarp til laga um geislavarnir (heildarlög). 
    Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar á lögum um geislavarnir, nr. 44/2002, og er um heildarendurskoðun laganna að ræða. Fjölmörg ákvæði laganna eru komin til ára sinna og þykir nauðsynlegt að færa mörg hver nær alþjóðlegum öryggiskröfum eftir því sem við á. Við endurskoðunina hefur verið höfð hliðsjón af framkvæmdinni á öðrum Norðurlöndum. Nóvember.

  11. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um slysatryggingar almannatrygginga, nr. 45/2015 (sjúkrahjálp o.fl.).
    Með frumvarpinu verður lagt til að ákvæði 10. gr. laga um slysatryggingar almannatrygginga um sjúkrahjálp verði fellt brott og réttindi skv. ákvæðinu verði færð í almenna greiðsluþátttökukerfið. Nóvember.

  12. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997 (takmörkun á beitingu nauðungar).
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um réttindi sjúklinga sem fela meðal annars í sér meginreglu um bann við beitingu nauðungar en einnig undanþágur frá meginreglunni þegar brýna nauðsyn ber til að uppfylltum skilyrðum sem skilgreind eru í frumvarpinu. Enn fremur eru með frumvarpinu lagðar til skýrari málsmeðferðarreglur en nú gilda sem fylgja þarf við og í kjölfar slíkra inngripa, þ.m.t. skráningarskyldu tilvika, kæruheimildir og rétt til að bera slík mál undir dómstóla. Nóvember.

  13. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974 (neyslurými).
    Með frumvarpinu verður lögð til breyting á lögum um ávana- og fíkniefni þess efnis að lagt er til að bætt verði við heimild til handa heilbrigðisstofnunum til að opna og reka neyslurými, en það takmarkist ekki eingöngu við sveitarfélög. Þannig væri bæði unnt að nýta það húsnæði sem heilbrigðisstofnanir eru í og tryggja notendum þá heilbrigðisþjónustu sem býðst á heilbrigðisstofnunum. Auk þess væri unnt að færa þessa þjónustu nær notendum. Janúar.

  14. Frumvarp til laga um tóbaksvarnir, rafrettur og nikótínvörur (heildarlög). 
    Með frumvarpinu er lagt til að sameinaðir verði tveir lagabálkar í einn, þ.e. lög um tóbaksvarnir, nr. 6/2002, og lög um nikótínvörur, rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur, nr. 87/2018. Jafnframt verði gerðar breytingar sem lúta m.a. að eftirliti og um leið lagt til að sambærilegt gjald verði lagt á tóbaksvörur og tóbakslíkar vörur eins og nikótínpúða. Febrúar.

  15. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999 (fækkun færni og heilsumatsnefnda o.fl.).
    Markmið frumvarpsins er að samræma lög um málefni aldraðra þeirri niðurstöðu vinnuhóps um mat á InterRai-mælitækjum og færni- og heilsumati, að betur færi á því að ein færni- og heilsumatsnefnd myndi fjalla um álitamál á landsvísu frekar en að slík nefnd sé starfrækt í hverju heilbrigðisumdæmi. Mars.

  16. Tillaga til þingsályktunar um aðgerðaáætlun gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmis fyrir árin 2025-2029.
    Tillagan felur í sér að fela heilbrigðisráðherra, í samvinnu við matvælaráðherra og umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, að vinna að framkvæmd aðgerðaáætlunar gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmis fyrir árin 2025-2029. Október.

  17. Tillaga til þingsályktunar um framkvæmd krabbameinsáætlunar til fimm ára.
    Með vísan til krabbameinsáætlunar til ársins 2030 verður lögð fram tillaga til þingsályktunar um aðgerðaáætlun til fimm ára til að hrinda í framkvæmd stefnu í krabbameinsmálum. Nóvember.

  18. Tillaga til þingsályktunar um landsáætlun um sjaldgæfa sjúkdóma.
    Með vísan til áherslna vinnuhóps sem lagðar voru fram í skýrslu um sjaldgæfa sjúkdóma verður lögð fram tillaga til þingsályktunar um landsáætlun um sjaldgæfa sjúkdóma. Áætluninni er ætlað að vera leiðbeinandi um þjónustu til þeirra sem falla undir skilmerki um sjaldgæfa sjúkdóma og aðstandendur þeirra. Janúar.

  19. Tillaga til þingsályktunar um aðgerðaáætlun varðandi offitu, holdafar, heilsu og líðan.
    Með vísan til markmiða sem lögð voru til í skýrslu starfshóps um offitu, heilsu og líðan verður lögð fram tillaga til þingsályktunar um aðgerðaáætlun varðandi offitu, holdafar, heilsu og líðan. Í tillögunni verði lögð áhersla á almennar lýðheilsuaðgerðir sem tryggja aðgengi og tækifæri einstaklinga til heilsusamlegra lifnaðarhátta, gagnaöflun og eftirlit og áherslur innan heilbrigðiskerfisins tengt ráðgjöf og meðferð. Mars.

  20. Skýrsla heilbrigðisráðherra um áætlun um framkvæmd heilbrigðisstefnu til fimm ára. Árleg skýrsla. Maí.

  21. Skýrsla heilbrigðisráðherra um áætlun um framkvæmd lýðheilsustefnu til fimm ára.
    Árleg skýrsla. Maí

Innviðaráðherra

  1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998, með síðari breytingum (Varasjóður húsnæðismála).
    Með frumvarpinu verður lagt til að ákvæði laganna sem snúa að Varasjóði húsnæðismála verði felld brott og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun verði falin þau verkefni sjóðsins í samræmi við viljayfirlýsingu frá 21. janúar 2020. Október.

  2. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um siglingavernd, nr. 50/2004 (áhættumat hafnaraðstöðu).
    Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar á ákvæðum laganna um framkvæmd áhættumats fyrir hafnaraðstöðu. Breytingarnar eru lagðar til vegna athugasemda Eftirlitsstofnunar EFTA um að lögin tilgreini ekki réttan aðila til að framkvæma slíkt mat. Október.

  3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun, nr. 160/2011 (lagfæringar, bráðabirgðaákvæði og breyting á gildistöku laganna).
    Lagðar verða til breytingar sem miða að því að gera almennar lagfæringar á lögunum. Þá eiga lögin að falla úr gildi árið 2025. Í bráðabirgðaákvæði laganna er gert ráð fyrir því að ráðherra skili Alþingi skýrslu um það hvernig styrkir til jöfnunar á flutningskostnaði olíuvara verði lækkaðir í þrepum og að lokum felldir niður á gildistíma laganna. Gert verður ráð fyrir því að hægt verði að setja inn reglur í frumvarpið ef þurfa þykir leiði skýrslan til þess. Loks verður lagt til að framlengja gildistíma laganna. Nóvember.

  4. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um skipulag haf- og strandsvæða, nr. 88/2018 (skipan svæðisráða o.fl.).
    Með frumvarpinu verða m.a. lagðar til breytingar varðandi skipunartíma, fyrirkomulagi á tilnefningum fulltrúa ráðuneyta og samsetningu svæðisráða. Nóvember.

  5. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995 o.fl. (skattlagning orkumannvirkja).
    Með frumvarpinu verða lagðar til viðeigandi breytingar á lögum í samræmi við tillögur starfshóps um skattlagningu orkuvinnslu sem skipaður var af fjármála- og efnahagsráðherra í júní 2023 í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Tillögur starfshópsins, sem kynntar voru í janúar 2024, hafa það markmið að tryggja nærsamfélagi sem fyrst sanngjarnari hlutdeild en nú er í ávinningi vegna raforkuframleiðslu. Nóvember.

  6. Frumvarp til laga um almenningssamgöngur.
    Frumvarpið felur í sér nýja heildarlöggjöf um almenningssamgöngur hér á landi. Með því er skapaður rammi um samþætt kerfi almenningssamgangna og tengingar ólíkra ferðamáta innan kerfisins. Markmið frumvarpsins er að stuðla að virkum, öruggum og hagkvæmum almenningssamgöngum og að auka hlutdeild almenningssamgangna í samgöngum almennt. Febrúar.

  7. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um vitamál, nr. 132/1999 (áhættumat siglinga o.fl.). Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar á lögunum m.a. um framkvæmd áhættumats siglinga og mótvægisaðgerða. Þá verði lagastoð styrkt vegna kröfu um áhættumat og hlutverk stofnana sem að slíku áhættumati koma skýrt. Samhliða verða önnur ákvæði laganna tekin til heildarendurskoðunar. Febrúar.

  8. Frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011 (endurskoðun).
    Í þingsályktun nr. 2/154 um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2024-2038 er lagt til í aðgerð tvö í aðgerðaáætlun fyrir árin 2024-2028, að ákveðnir kaflar sveitarstjórnarlaga verði endurskoðaðir til að fylgja eftir framþróun í starfsemi sveitarfélaga og til að tryggja að ákvæði laganna séu skýr og aðgengileg. Lagðar verða til breytingar á almennum reglum sem varða stjórnsýslu sveitarfélaga, íbúasamráð, samvinnu sveitarfélaga, fjármál og reikningskil sveitarfélaga, starfshætti kjörinna fulltrúa, eftirlit með stjórnsýslu sveitarfélaga, atvinnuþátttöku sveitarfélaga o.fl. Febrúar.

  9. Frumvarp til laga um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.
    Um heildarendurskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga er að ræða þar sem reglur um starfsemi sjóðsins verða fluttar úr lögum um tekjustofna sveitarfélaga í ný heildarlög. Einnig verður lögð til sú breyting að nokkur af helstu framlögum sjóðsins verða sameinuð í eitt framlag. Hlutverk sjóðsins verði áfram að jafna mismunandi útgjaldaþörf og skatttekjur sveitarfélaga með framlögum úr sjóðnum á grundvelli ákvæða laga, reglugerða og vinnureglna sem settar eru um starfsemi sjóðsins. Endurflutt. Mars.

  10. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um byggingarvörur, nr. 114/2014 (kröfur varðandi byggingarvörur).
    Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar til að tryggja að grunnkröfur um mannvirki séu uppfylltar, að reglur um markaðssetningu og notkun byggingarvara séu skýrar og að stuðlað verði að öruggri endurnotkun og endurnýtingu byggingarvara. Mars.

  11. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um almennar íbúðir, nr. 52/2016, með síðari breytingum (aðgerðir til að styðja við rammasamning ríkis og sveitarfélaga).
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um almennar íbúðir til þess að styðja við framgang rammasamnings ríkis og sveitarfélaga um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis. Meðal breytinga er einföldun úthlutunar stofnframlaga, breytt stofnframlag ríkisins vegna sérstakra aðstæðna sveitarfélaga, t.d. í tengslum við markaðsvirði lóða, viðbótarstuðning vegna vistvænnar mannvirkjagerðar og staðsetningar í nálægð við almenningssamgöngur. Mars.

  12. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998, með síðari breytingum (fyrirkomulag hlutdeildarlána).
    Endurskoða þarf fyrirkomulag hlutdeildarlána af fenginni reynslu með það að markmiði að einfalda ferla og auka skilvirkni við úthlutun hlutdeildarlána og auka hvata til uppbyggingar íbúða með viðráðanlegum húsnæðiskostnaði í samræmi við markmið rammasamnings ríkis og sveitarfélaga um uppbyggingu húsnæðis. Mars.

  13. Tillaga til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2025-2039 ásamt fimm ára aðgerðaráætlun fyrir árin 2025-2029.
    15 ára stefnumótandi samgönguáætlun ásamt aðgerðaáætlun til fimm ára. Byggir m.a. á niðurstöðu grænbókar og hvítbókar um samgöngumál ásamt mati á umhverfisáhrifum áætlunarinnar. Í áætluninni birtist forgangsröðun framvæmda, áherslur, aðgerðir, markmið og mælikvarðar fyrir allar greinar samgangna. Endurflutt. Október.

  14. Tillaga til þingsályktunar um borgarstefnu fyrir árin 2025-2040.
    Borgarstefna er mótuð á grundvelli stjórnarsáttmála og stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2022-2036. Borgarstefna hefur það að markmiði að stærstu þéttbýlissvæðin verði efld og samkeppnishæfni þeirra og hlutverk í byggðaþróun landsins styrkt. Með borgarstefnu er hlutverk Reykjavíkur sem höfuðborgar skilgreint og stuðlað að aukinni alþjóðlegri samkeppnishæfni höfuðborgarsvæðisins og landsins alls. Þá er skilgreint hlutverk Akureyrar og uppbygging hennar sem svæðisborgar sem geti boðið upp á aukna fjölbreytni í þjónustu, menningu og atvinnutækifærum. Október.

  15. Skýrsla innviðaráðherra um framvindu stefnumótandi byggðaáætlunar 2022-2036.
    Samkvæmt 13. gr. laga um Byggðastofnun, nr. 106/1999, skal ráðherra gefa Alþingi árlega skýrslu um framvindu byggðaáætlunar. Janúar

Matvælaráðherra

  1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um veiðigjald, nr. 145/2018.
    Með frumvarpinu er lagt til að veiðigjald á tilgreindar uppsjávartegundir verði hækkaðar. Hækkun veiðigjalds tekur mið af markmiðum fjármálaáætlunar 2025-2029. September.

  2. Frumvarp til laga um breytingu á jarðalögum, nr. 81/2004 (forkaupsréttur sameigenda o.fl.).
    Með lögum nr. 74/2022 um breytingu á ýmsum lögum er varða eignarráð og nýtingu fasteigna (óskipt sameign, landamerki o.fl.) var m.a. bætt við ákvæðum í jarðalög er snúa að jörðum í sameign, þ.e. 7. gr. a – 7. gr. d. núgildandi laga. Síðan lögin tóku gildi hafa komið upp nokkur vandkvæði í framkvæmd, einkum varðandi 7. gr. d um forkaupsrétt sameigenda. Fjallað er sérstaklega um forkaupsrétt í VI. kafla jarðalaga. Þar kemur fram í 1. tölul. 1. mgr. 31. gr. að ákvæði kaflans gildi ekki í tilteknum tilvikum, þ. á m. ef jörð gengur í erfðir til tilgreindra aðila.  Ákvæði 7. gr. d., eins og því var breytt í meðförum þingsins við setningu laga nr. 74/2022, fellur ekki undir undanþágureglu 1. tölul. 1. mgr. 31. gr. og vafi um túlkun þess hefur leitt til erfiðleika við uppgjör dánarbúa hjá sýslumönnum. Október.

  3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um velferð dýra, nr. 55/2013 (eftirlit).
    Í nóvember 2023 birti Ríkisendurskoðun skýrslu til Alþingis vegna stjórnsýsluúttektar stofnunarinnar á eftirliti Matvælastofnunar með velferð búfjár. Í skýrslunni er ítarleg umfjöllun um umfang og framkvæmd eftirlits og var tilgangur úttektarinnar að kanna hvort eftirlitið væri skilvirkt og árangursríkt og hvort það væri í samræmi við lög og reglugerðir um velferð dýra. Í skýrslunni koma fram ábendingar ríkisendurskoðanda í 13 liðum er snúa annars vegar að Matvælastofnun og hins vegar matvælaráðuneytinu. Þá hefur dýravelferð verið mikið til umræðu undanfarin misseri og ljóst að þörf er á endurskoðun ýmissa ákvæða laga um velferð dýra, nr. 55/2013. Fyrir liggur að nauðsynlegt er að bregðast við úttekt Ríkisendurskoðunar með lagabreytingum til að tryggja skilvirkni stjórnsýslu á málefnasviði dýravelferðar. Október.

  4. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006 (almennur og sértækur byggðakvóti).
    Með frumvarpinu er lagt til að almennur byggðakvóti verði felldur niður í núverandi mynd skv. tillögu Auðlindarinnar okkar og með vísan til skýrslu Ríkisendurskoðunar um úthlutun almenns byggðakvóta og mælt verði fyrir um breytingar á úthlutun á aflamarki Byggðastofnunar (sértæks byggðakvóta) skv. tillögum innviðahóps. Október.

  5. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006 (gagnsæi).
    Með frumvarpinu er lagt til að mælt verði fyrir um aukið gagnsæi og upplýsingaöflun vegna tengdra aðila skv. tillögu starfshópa Auðlindarinnar okkar. Október.

  6. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006 (VS-afli).
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á 11. gr. laganna er fjallar um VS-afla og þrengdar heimildir skipstjóra að nýta VS-heimild og boð í eigin fisk á uppboðsmarkaði. Október.

  7. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 79/1997 (verndarsvæði í hafi).
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á 9. gr. laganna og að lagastoð fyrir útgáfu reglugerða og útgáfu ferla vegna vinnu við að auka verndarsvæði í hafi verði styrkt með tilliti til tillagna stýrihóps um verndarsvæði í hafi og tillagna í Auðlindinni okkar. Október.

  8. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna, nr. 13/1998 (aðgangur að upplýsingum).
    Með frumvarpinu er lagt til að styrkja heimildir Verðlagsstofu skiptaverðs til aðgangs að fyrirliggjandi gögnum í gagnasöfnum Skattsins um fiskverð og afurðaverð, og stuðla einnig að styttri málsmeðferðartíma fyrir úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna. Endurflutt. Október.

  9. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, nr. 37/1992 (Verkefnasjóður sjávarútvegsins).
    Með frumvarpinu er lagt til að gerðar verði breytingar á ákvæðum laganna sem snúa að Verkefnasjóði sjávarútvegsins, skerpt verður á hlutverki sjóðsins og þeim verkefnum sem honum ber að styðja við sbr. tillögur Auðlindarinnar okkar. Nóvember.

  10. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim (breytt nálgun vegna útrýmingar á riðuveiki í sauðfé auk nauðsynlegra breytinga vegna annarra smitsjúkdóma í búfénaði). 
    Með frumvarpinu eru lagðar til ýmsar nauðsynlegar breytingar á lögunum til þess að ná fram þeim markmiðum sem fram koma í nýrri landsáætlun um riðuveikilaust Ísland auk nauðsynlegra breytinga sem gera þarf í tengslum við varnir gegn öðrum smitsjúkdómum. Nóvember.

  11. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006 (strandveiðar).
    Með frumvarpinu er lagt til að mælt verði fyrir um breytingar á ákvæðum laga um strandveiðar. Janúar.

  12. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um umgengni um nytjastofna sjávar, nr. 57/1996 (vigtun afla dagróðrabáta).
    Með frumvarpinu er lagt til að gerðar verði breytingar á 5. gr. laganna um vigtun sjávarafla og mælt verði fyrir um vigtun dagróðrarbáta að þeir landi á fastri ísprósentu. Janúar.

  13. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um lax- og silungsveiði, nr. 61/2006 (ýmis ákvæði).
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar er varða m.a. framkvæmd stjórnsýslu og eftirlit hjá Fiskistofu auk þess sem stefnt er að því að skýra hlutverk stofnunarinnar. Mars.

  14. Tillaga til þingsályktunar um sjávarútvegsstefnu.
    Stefnan er unnin samkvæmt tillögum úr Auðlindinni okkar. Stefnunni er ætlað að vera leiðbeinandi við ákvarðanatöku um sjávarútveg til að stuðla að hagkvæmri og sjálfbærri nýtingu sjávarauðlinda í sátt við umhverfi og samfélag. September.

  15. Tillaga til þingsályktunar um stefnumótun á sviði dýravelferðar.
    Margt hefur áunnist frá setningu núgildandi laga um velferð dýra, nr. 55/2013, en tímabært er að taka málaflokkinn til gagngerrar skoðunar í ljósi meðal annars aukinnar vitundar og þekkingar á velferð dýra og samfélagslegra breytinga. Slík stefnumótunarvinna er vel til þess fallin að setja fram með skýrum hætti hvaða breytingum frá núverandi ástandi er mikilvægt að ná fram og hvernig, og öðlast með því skýra sýn til framtíðar. Þá er einnig mikilvægt að unnið verði að aðgerðaáætlun í kjölfarið þar sem aðgerðir og verkefni til að ná settu markmiði stefnunnar eru útfærðar. Október.

  16. Tillaga til þingsályktunar um verndun hafsins.
    Árið 2004 gáfu íslensk stjórnvöld út stefnu í málefnum hafsins. Sú stefna tekur til eðlisþátta hafsins, mengunar og loftslagsbreytinga. Hún fjallar um lífríki og sjálfbæra nýtingu, hafsbotninn, siglingar og ferðaþjónustu. Loks koma þar fram stefnuáherslur Íslands hvað varðar þróunarsamvinnu. Þessi stefna hefur ekki verið uppfærð. Skýrsla nefndar fjögurra ráðuneyta kom út árið 2014, þar sem farið var yfir framgang stefnunnar frá 2004, nauðsyn á endurskoðun og helstu haftengd mál framundan á alþjóðavettvangi, þ. á m. verndarsvæði í hafi. Niðurstaða skýrslunnar var að stefnan frá 2004 stæðist tímans tönn hvað varðar grunnatriði í stefnu Íslands í málefnum hafsins, en að útfærsla hennar krefðist stöðugrar árvekni og góðs samstarfs milli ráðuneyta. Í kjölfar þess var aftur komið á fót reglulegu samráði þriggja ráðuneyta um málefni hafsins á alþjóðavettvangi. Vakin var athygli á að þátttaka íslenskra stjórnvalda í alþjóðlegu starfi í málefnum hafsins hefði dregist saman á sama tíma og alþjóðasamvinna á því sviði hefði aukist að umfangi og flækjustigi. Þetta á við enn í dag hvað varðar umræðu um verndarsvæði í hafi. Niðurstaða stýrihóps matvælaráðherra um verndun hafsins er að nauðsynlegt sé að fyrir liggi skýr stefna af hálfu íslenskra stjórnvalda varðandi verndarsvæði í hafi í skilningi alþjóðasamninga. Sett verður af stað vinna við mótun stefnu fyrir hafið haustið 2024. Febrúar.

  17. Tillaga til þingsályktunar um stefnumótun á sviði dýrasjúkdóma, dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr.
    Tímabært er orðið að taka viðkomandi lagabálka sem fjalla um heilbrigði dýra á einn eða annan hátt til heildarendurskoðunar. Margt hefur breyst frá setningu laganna bæði í landinu en einnig á alþjóðlegum vettvangi. Brýnt er að ná fram skýrri stefnu sem hefur beina tengingu við þá framtíðarsýn sem kemur fram í matvælastefnunni um að öll framleiðsla miði að heilbrigðu umhverfi, heilsu fólks og heilbrigði dýra, í anda Einnar heilsu. Febrúar.

  18. Tillaga til þingsályktunar um áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns skv. 5. mgr. 8. gr. laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006.
    Ráðherra skal eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti leggja fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla (byggðakvóti, strandveiðar, bætur vegna áfalla, línuívilnun, frístundaveiðar o. fl.) til næstu sex ára. Var síðast samþykkt á 145. löggjafarþingi og er því tímabært að leggja fram tillöguna. Ríkisendurskoðun hefur lagt áherslu á við ráðuneytið að leggja þurfi fram þessa ályktun. Mars.

Menningar- og viðskiptaráðherra

  1. Frumvarp til markaðssetningarlaga.
    Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun á ákvæðum laga um lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda, nr. 141/2001, laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, nr. 57/2005, laga um Neytendastofu, nr. 62/2005, og laga um samvinnu stjórnvalda á Evrópska efnahagssvæðinu um neytendavernd, nr. 20/2020. Markmið endurskoðunarinnar er að tryggja góða neytendavernd, tryggja bætt samræmi við EES-rétt, auka skýrleika og létta reglubyrði. Frumvarpið felur einnig í sér innleiðingu á hluta tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/2161 frá 27. nóvember 2019 um breytingu á tilskipun ráðsins 93/13/EBE og tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins 98/6/EB, 2005/29/EB og 2011/83/ESB að því er varðar betri framfylgd og nútímavæðingu reglna Sambandsins um neytendavernd (tilskipun um nútímavæðingu). Innleiðing. Endurflutt. September.

  2. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um sviðslistir, nr. 165/2019 (Þjóðarópera).
    Með frumvarpinu er ætlunin að kveða á um stofnun nýrrar Þjóðaróperu. Í því skyni verði í frumvarpinu m.a. kveðið á um rekstrarform Þjóðaróperu, hlutverk hennar og helstu verkefni, skipun forstöðumanns hennar, fjárhag og samstarf við aðrar sviðslistastofnanir. Endurflutt. September.

  3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011 (stuðningur við einkarekna fjölmiðla).
    Með frumvarpinu er ætlunin að mæla fyrir um stuðning til einkarekinna fjölmiðla samkvæmt sambærilegu fyrirkomulagi og verið hefur undanfarin ár. September.

  4. Frumvarp til laga um breytingu á samkeppnislögum, nr. 44/2005 (endurskoðun fjárhæða og málsmeðferð samrunamála.)
    Með frumvarpinu er ætlunin að endurskoða fjárhæðir, annars vegar veltumarka tilkynningarskyldra samruna og hins vegar samrunagjalda, í samkeppnislögum og málsmeðferðarreglur samrunamála að því er varðar tímafresti og áhrif vankanta í upplýsingagjöf á þá. Við endurskoðunina verður tekið tillit til verðlagsþróunar sl. fjögur ár, frá því fjárhæðirnar voru síðast endurskoðaðar, sem og til skýrslu Ríkisendurskoðunar um stjórnsýsluúttekt á Samkeppniseftirlitinu frá 2022. Október.

  5. Frumvarp til laga um menningarframlag streymisveitna til eflingar íslenskrar menningar og tungu.
    Með frumvarpinu er ætlunin að kveða á um fyrirkomulag um skyldubundið menningarframlag innlendra og erlendra streymisveitna sem miðla myndefni til neytenda hér á landi með því að gera kröfu um að tiltekið hlutfall af áskriftartekjum vegna slíkrar miðlunar renni til framleiðslu á innlendum kvikmyndum, sjónvarpsþáttum og heimildarmyndum sem hafa íslenska menningarlega og samfélagslega skírskotun og þar sem að lágmarki 75% efnis er á íslensku. Október.

  6. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um hlutafélög, nr. 2/1995.
    Með frumvarpinu er mælt fyrir um innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/828 frá 17. maí 2017 um breytingu á tilskipun 2007/36/EB að því er varðar hvatningu til þátttöku hluthafa til lengri tíma (SRD II). Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um hlutafélög sem varða að mestu félög þar sem hlutir hafa verið teknir til viðskipta á skipulegum markaði og lúta að deili á hluthöfum slíkra félaga, upplýsingagjöf o.fl. Innleiðing. Október.

  7. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls, nr. 61/2011, og fleiri lögum (íslensk málnefnd og íslensk málstefna).
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögunum með það að markmiði að styrkja stöðu Íslenskrar málnefndar og skerpa á hlutverki hennar og ábyrgðarsviði. Þá er lagt til að ákvæði sem nú standa í lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, nr. 57/2005, og varða notkun íslensku í auglýsingum o.fl. verði flutt í lög um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls og að Íslensk málnefnd taki við því hlutverki sem Neytendastofa hafði áður. Einnig eru ýmis ákvæði í lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls og fleiri lögum uppfærð með tilliti til breyttra aðstæðna og áherslna. Nóvember.

  8. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um ársreikninga, nr. 3/2006.
    Með frumvarpinu er ætlunin að innleiða í íslenskan rétt tilskipun (ESB) 2022/2464 um upplýsingagjöf um sjálfbærni (CSRD). Innleiðing. Janúar.

  9. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um neytendasamninga, nr. 16/2016.
    Frumvarpið felur í sér innleiðingu á hluta tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/2161 frá 27. nóvember 2019 um breytingu á tilskipun ráðsins 93/13/EBE og tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins 98/6/EB, 2005/29/EB og 2011/83/ESB að því er varðar betri framfylgd og nútímavæðingu reglna Sambandsins um neytendavernd. Innleiðing. Janúar.

  10. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög.
    Frumvarpið felur í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 2019/1151 frá 20. júní 2019 um breytingu á tilskipun (ESB) 2017/1132 að því er varðar notkun stafrænna tækja og ferla í félagarétti. Innleiðing. Janúar.

  11. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um sölu fasteigna og skipa, nr. 70/2015, og lögum um fasteignakaup, nr. 40/2002.
    Í kjölfar skýrslu starfshóps á vegum ráðuneytisins verða lögin tekin til endurskoðunar með áherslu á úrbætur sem stuðla að aukinni neytendavernd og réttaröryggi á sviði fasteignaviðskipta. Endurskoðunin nái m.a. til ákvæða um ástandsskýrslur fasteigna, hlutverk og ábyrgð fasteignasala og fleiri atriða. Janúar.

  12. Frumvarp til laga um rafrænar skuldaviðurkenningar.
    Frumvarpið felur í sér ný heildarlög um rafrænar skuldaviðurkenningar, nýtt lánaform sem ætlað er að veita sambærilegt réttarfarslegt hagræði og skuldabréf, en samræmast betur rafrænni lánaumsýslu og þinglýsingu auk þess að stuðla að skilvirkni og einföldun viðskipta. Febrúar.

  13. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða, nr. 75/2011 (endurskoðun).
    Í framhaldi af vinnu starfshóps um endurskoðun á Framkvæmdasjóði ferðamannastaða, sem og í samræmi við aðgerð í aðgerðaáætlun Ferðamálastefnu til 2030, verða ákveðnir þættir laganna teknir til endurskoðunar. Febrúar.

  14. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007 (eftirlit með heimagistingu).
    Frumvarpið er í samræmi við aðgerð í aðgerðaáætlun Ferðamálastefnu til 2030. Felst í því að færa eftirlit með heimagistingu frá Sýslumanni til Ferðamálastofu, endurskoða hámarksfjárhæð stjórnvaldssekta o.fl. Febrúar.

  15. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um Ferðamálastofu, nr. 96/2018 (hlutverk Ferðamálastofu).
    Frumvarpið er í samræmi við aðgerð í aðgerðaáætlun Ferðamálastefnu til 2030. Felst í því að endurskoða lögin m.a. út frá hlutverki Ferðamálastofu, í samræmi við nýtt skipurit stofnunarinnar, sem og að endurskoða fyrirkomulag og hlutverk Ferðamálaráðs samkvæmt lögunum. Febrúar.

  16. Frumvarp til laga um breytingu á höfundalögum, nr. 73/1972.
    Frumvarpið felur í sér innleiðingu á tveimur tilskipunum; annars vegar tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/790 frá 17. apríl 2019 um höfundarétt og skyld réttindi á stafræna innri markaðnum og um breytingu á tilskipunum 96/9/EB og 2001/29/EB og hins vegar tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/789 frá 17. apríl 2019 um reglur um nýtingu höfundaréttar og skyldra réttinda sem gilda um tilteknar netútsendingar útvarpsfyrirtækja og endurvarp hljóðvarps- og sjónvarpsefnis og um breytingu á tilskipun ráðsins 93/83/EBE. Innleiðing. Febrúar.

  17. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um vöruöryggi og opinbera markaðsgæslu.
    Frumvarpið felur í sér innleiðingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/1020 um markaðseftirlit og samræmi vara við kröfur og um breytingu á tilskipun 2004/42/EB og reglugerðum (EB) nr. 765/2008 og (ESB) nr. 305/2011. Innleiðing. Mars.

  18. Frumvarp til laga um afhendingu á stafrænu efni og stafrænni þjónustu.
    Frumvarpið felur í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/770 frá 20. maí 2019 um tiltekna þætti varðandi samninga um afhendingu á stafrænu efni og stafrænni þjónustu. Innleiðing. Mars.

  19. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um neytendakaup, nr. 48/2003.
    Frumvarpið felur í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/771 frá 20. maí 2019 um tiltekna þætti varðandi samninga um sölu á vörum, um breytingu á reglugerð (ESB) 2017/2394 og tilskipun 2009/22/EB og um niðurfellingu tilskipunar 1999/44/EB. Innleiðing. Mars.

  20. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um hlutafélög, nr. 2/1995, og lögum um einkahlutafélög, nr. 138/1994 (kynjahlutföll í stjórnum félaga).
    Frumvarpið felur í sér breytingar á ákvæðum laga varðandi kynjahlutföll í stjórnum félaga, með hliðsjón af fyrri lagabreytingum og lögum nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Mars.

  21. Tillaga til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda í neytendamálum.
    Ætlunin er að setja fram heildstæða stefnu í neytendamálum, samhliða nýrri heildarlöggjöf um markaðssetningu. Endurflutt. September.

  22. Tillaga til þingsályktunar um bókmenntastefnu.
    Með bókmenntastefnu er ætlunin að móta framtíðarsýn fyrir bókmenntir í víðum skilningi á Íslandi. Sérstök aðgerðaáætlun fyrir árin 2024-2030 fylgir stefnunni. Meginmarkmið með stefnunni eru að treysta stöðu íslenskrar tungu, stuðla að auknum lestri og tryggja stöðu bókarinnar í samfélaginu. Endurflutt. September.

  23. Tillaga til þingsályktunar um eflingu og uppbyggingu sögustaða.
    Gerð er tillaga um að Alþingi álykti að fela menningar- og viðskiptaráðherra að stuðla að eflingu og uppbyggingu sögustaða á Íslandi með það að markmiði að auka stuðning við uppbyggingu menningarferðaþjónustu á sögustöðum og veita slíkum áherslustöðum viðeigandi umgjörð. Endurflutt. September.

  24. Tillaga til þingsályktunar um fjölmiðlastefnu (stefnumótun og aðgerðaáætlun).
    Tillagan miðar að því að viðhalda og efla lýðræðislega umræðu og lýðræðisþátttöku með því að stuðla að bættu miðlalæsi og auka fjölbreytni, gagnsæi og fjölræði í fjölmiðlum. Þá miðar tillagan að því að búa fjölmiðlum starfsumhverfi sem stuðli að öflugri fjölmiðlun í almannaþágu með virkri þátttöku fjölbreyttra fjölmiðla, auka fjölmiðlalæsi almennings og vernda börn og ungmenni gegn skaðlegu efni í fjölmiðlum. Október.

  25. Tillaga til þingsályktunar um sviðslistastefnu.
    Með sviðslistastefnu er ætlunin er að móta heildstæða stefnu stjórnvalda í málefnum sviðslista á Íslandi. Sérstök aðgerðaráætlun fyrir árin 2025–2030 fylgir stefnunni. Megimarkmið með stefnunni eru að treysta undirstöður sviðslista, stuðla að auknu aðgengi og tryggja fjölbreytileika og fagmennsku. Október. 

Mennta- og barnamálaráðherra

  1. Frumvarp til laga um námsgögn.  
    Frumvarpið felur í sér ný heildarlög um námsgögn sem ætlunin er að komi í stað gildandi laga um námsgögn, nr. 71/2007. Markmið frumvarpsins er að tryggja gæði, framboð og fjölbreytileika námsgagna til að styðja við nám og kennslu í leik-, grunn-, framhalds- og tónlistarskólum. Þau fela meðal annars í sér að námsgögn í leik-, grunn- og framhaldsskólum verði í áföngum gerð gjaldfrjáls vegna náms barna að 18 ára aldri. September.

  2. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um grunnskóla, nr. 91/2008 (námsmat).
    Frumvarpið felur í sér breytingu á tilteknum ákvæðum laga um grunnskóla sem snúa að námsmati. Markmiðið er m.a. að efla ákvæði laganna sem fjalla um gagnaöflun um námsmat, lýsa verkefnum Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu þegar kemur að matstækjum fyrir grunnskóla og fjalla um skyldubundið samræmt námsmat. September.

  3. Frumvarp til laga um inngildandi menntun í skóla- og frístundastarfi.  
    Frumvarpið felur í sér ný heildarlög um inngildandi menntun og þjónustu við hana í leik-, grunn- og framhaldsskólum og í frístundastarfi. Með frumvarpinu, sem hefur verið undirbúið í víðtæku samráði frá árinu 2022, verður fjallað um skipulag starfshátta, stuðnings og þjónustu sem þarf til að tryggja börnum og ungmennum jöfn tækifæri til framúrskarandi menntunar. Frumvarpið fjallar um inntak innri og ytri skólaþjónustu þvert á skólastig. Þar verða jafnframt lagðar til breytingar á gildandi lögum um leik-, grunn- og framhaldsskóla. Október.

  4. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, nr. 80/2021 (nýting gagna).
    Frumvarpinu er ætlað að renna styrkari stoðum undir nýtingu gagna í þágu farsældar barna með það að markmiði að gögn, sem eru mikilvæg fyrir stefnumótun og ákvarðanatöku stjórnvalda, séu aðgengileg þeim. Markmið er að fá betri yfirsýn yfir stöðu barna á Íslandi með samkeyrslu gagnasetta sem liggja hjá opinberum stofnunum, sveitarfélögum, félagasamtökum og fyrirtækjum. Frumvarpinu er jafnframt ætlað að styðja möguleika stjórnvalda til að greina gögn. Október.

  5. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um framhaldsskóla, nr. 92/2008 (staðfestingar námsbrauta o.fl.).
    Með frumvarpinu verða ýmis ákvæði laga um framhaldsskóla, nr. 92/2008, tekin til endurskoðunar. Lagt er til að gera breytingar á reglum um staðfestingar námsbrauta, aðlaga ákvæði laganna að breytingum á fyrirkomulagi vinnustaðanáms o.fl. Nóvember.

  6. Frumvarp til laga um frístunda- og félagsstarf barna og ungmenna.
    Með frumvarpinu er lagt til að setja ný heildarlög um frístunda- og félagsstarf barna og ungmenna sem komi í stað æskulýðslaga, nr. 70/2007. Markmið frumvarpsins er að færa lagaumhverfi í nútímalegra horf, þar á meðal með því að styrkja lagalega umgjörð frístunda- og félagsstarfs barna og ungmenna, og tryggja samræmi við lög og alþjóðlegar skuldbindingar, þar á meðal samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, og laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, nr. 86/2021. Nóvember.

  7. Frumvarp til laga um barnavernd.  
    Frumvarpið felur í sér síðari hluta heildarendurskoðunar barnaverndarlaga en fyrri hluti endurskoðunarinnar tók gildi 2022. Gert er að ráð fyrir að frumvarpið hafi að geyma endurskoðuð ákvæði um meðferð barnaverndarmála, úrræði fyrir börn, þ.m.t. úrræði fyrir börn með fjölþættan vanda, og aðra aðlögun lagareglna að þróun þjónustu í þágu barna. Nóvember.

  8. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsmála (endurskoðun laganna).
    Samkvæmt ákvæði II til bráðabirgða við lög um samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsmála skulu lögin endurskoðuð eftir 1. janúar 2024. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem byggja á þessari endurskoðun. Mars.

  9. Frumvarp til laga um íþróttir.
    Með frumvarpinu er lagt til að setja ný heildarlög um íþróttir sem komi í stað íþróttalaga, nr. 64/1998. Markmið frumvarpsins er að færa lagaumhverfi íþrótta til nútímans þannig að það endurspegli lykilþætti og kröfur sem nútímasamfélag gerir. Má þar nefna umhverfi sem snýr að börnum og ungmennum menntun þeirra og iðkun íþrótta í skipulögðu starfi, áherslur er varða almenningsíþróttir og áhrif á lýðheilsu, menntun faglegra starfskrafta sem vinna í og kringum íþróttastarf ásamt uppbyggingu mannvirkja og afreksíþróttir. Mars.

  10. Tillaga til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun um afreksíþróttir.
    Um er að ræða tímasetta innleiðingaráætlun nýrrar afreksstefnu í íþróttum sem unnin verður af stýrihópi um afreksstarf á grundvelli tillagna starfshóps um stöðu og réttindi afreksíþróttafólks. Október.

  11. Tillaga til þingsályktunar um stefnu og framkvæmdaáætlun um farsæld barna.
    Samkvæmt 3. gr. laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar laga, nr. 86/2021, skal mennta- og barnamálaráðherra leggja fram, sem tillögu til þingsályktunar, stefnu um farsæld barna og framkvæmdaáætlun um verkefni ríkisins sem varða farsæld barna til fjögurra ára. Nóvember.

  12. Skýrsla mennta- og barnamálaráðherra um framkvæmd skólastarfs í grunnskólum.
    Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga um leikskóla, nr. 91/2008, skal mennta- og barnamálaráðherra gera Alþingi grein fyrir framkvæmd skólastarfs í grunnskólum landsins á þriggja ára fresti. September.

  13. Skýrsla mennta- og barnamálaráðherra um framkvæmd skólastarfs í leikskólum.
    Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga um leikskóla, nr. 90/2008, skal mennta- og barnamálaráðherra gera Alþingi grein fyrir framkvæmd skólastarfs í leikskólum landsins á þriggja ára fresti. Janúar.

  14. Skýrsla mennta- og barnamálaráðherra um framkvæmd skólastarfs í framhaldsskólum.
    Samkvæmt 56. gr. laga um framhaldsskóla, nr. 92/2008, skal mennta- og barnamálaráðherra gera Alþingi grein fyrir framkvæmd skólastarfs í framhaldsskólum landsins á þriggja ára fresti. Janúar.

Umhverfis,- orku- og loftslagsráðherra

  1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun, nr. 48/2011 (virkjunarkostir vindorku).
    Í frumvarpinu er að finna sérstök ákvæði sem snúa að hagnýtingu vindorku til raforkuframleiðslu í samræmi við skýrslu starfshóps um málið. Í lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun, nr. 48/2011, er kveðið á um að allir virkjunarkostir, 10 MW og stærri, skuli fá umfjöllun í rammaáætlun þar sem þeim er raðað í orkunýtingarflokk, biðflokk og verndarflokk. Endurflutt. September.

  2. Frumvarp til laga um loftslagsmál (heildarlög).
    Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun á gildandi lögum um loftslagsmál, nr. 70/2012, þ.m.t. stjórnsýslu loftslagsmála. September.

  3. Frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003 (viðskiptakerfi með raforku).
    Með frumvarpinu verða gerðar tillögur að breytingum á raforkulögum í tengslum við rekstur skipulegs viðskiptakerfis fyrir raforku. Í raforkulögum er gert ráð fyrir rekstri skipulegs  viðskiptakerfis fyrir raforku og að leyfi ráðherra þurfi til þess. Með frumvarpinu verða gerðar tillögur um reglur sem gilda skulu í viðskiptakerfi, svo sem um bann við markaðsmisnotkun sem og eftirlit með rekstri skipulegs viðskiptakerfis fyrir raforku. September.

  4. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998 (EES-reglur, áfastir tappar og lok).
    Um er að ræða innleiðingu á ákvæði 1. mgr. 6. gr. tilskipunar ESB 2019/904 sem kveður á um að einungis megi setja einnota drykkjarílát úr plasti (allt að þriggja lítra) á markað ef tappinn eða lokið er áfast ílátinu á meðan fyrirhuguð notkun þess stendur yfir. Innleiðing. September.

  5. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir, nr. 96/2023 (EES, ETS2-kerfi).
    Frumvarpið felur í sér innleiðingu nýs ETS-kerfis, sem er hliðstætt ETS-kerfinu. Kerfið mun ná utan um losun frá byggingum, vegasamgöngum og smærri iðnaði. Innleiðing. Október.

  6. Frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003 (raforkuöryggi).
    Með frumvarpinu er lagður grunnur að útfærslu tillagna starfshópa sem fjallað hafa um raforkuöryggi  þar sem mælt verði fyrir um söfnun og miðlun upplýsinga um stöðu á raforkumarkaði og um forgang almennra notenda og smærri fyrirtækja komi til skömmtunar raforku. Endurflutt. Október.

  7. Frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003 (raforkuöryggi).
    Með frumvarpinu verða tillögur starfshópa sem fjallað hafa um orkuöryggi útfærðar með frekari hætti. Gerðar verða tillögur um skyldur aðila á raforkumarkaði sem og almenn og sértæk úrræði í þágu raforkuöryggis almennings. Október.

  8. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana, nr. 111/2021 (gullhúðun).
    Í janúar 2024 var gefin út skýrsla með niðurstöðum greiningar á innleiðingum EES-gerða á málefnasviði umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins í landsrétt. Í greiningunni var þeirri spurningu svarað hvort svokölluð ,,gullhúðun“ hefði átt sér stað við innleiðinguna á tímabilinu 2010-2022. Í kjölfar skýrslunnar var sett í gang vinna við að endurskoða innleiðingu á EES-gerðum í löggjöf um mat á umhverfisáhrifum og er áformað að leggja fram frumvarp til að færa löggjöfina nær Evrópulöggjöfinni með það að markmiði að tryggja að löggjöfin sé ekki meira íþyngjandi en tilefni er til. Október.

  9. Frumvarp til laga um eldsneytisbirgðir. 
    Með frumvarpinu er lagt til að mælt sé fyrir um lágmarksbirgðahald jarðefnaeldsneytis í samræmi við orkustefnu Íslands, skýrslu þjóðaröryggisráðs frá 2021 og aðgerðir sem átakshópur um úrbætur á innviðum skilgreindi í kjölfar óveðursins 2019. Nóvember.

  10. Frumvarp til laga um endurnýjanlegt eldsneyti í flugsamgöngum (EES- reglur, orkuskipti).
    Með frumvarpinu verður innleidd reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2023/2405 frá 18. október 2023 um að tryggja jöfn samkeppnisskilyrði fyrir sjálfbæra flutninga í lofti. Innleiðing Nóvember.

  11. Frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003 (verkefni Raforkueftirlitsins, EES-reglur).
    Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar vegna ábendinga frá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) í tengslum við verkefni Raforkueftirlits Orkustofnunar. Um er að ræða ábendingar ESA vegna sérstakra verkefna Raforkueftirlitsins eins og mælt er fyrir um í tilskipun 2009/72/EB frá 13. júlí 2009 um sameiginlegar reglur um innri markaðinn fyrir raforku. Innleiðing. Nóvember.

  12. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna einföldunar leyfisferla, samræming málsmeðferðar o.fl. í umhverfis- og orkumálum.
    Með frumvarpinu verður mælt fyrir um lagabreytingar til að fylgja eftir átaksverkefni umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra um skilvirkari leyfisveitingaferla á sviði umhverfis- og orkumála með endurhönnun ferla, endurskoðun regluverks, stafrænum lausnum og breyttu verklagi. Frumvarpinu er einnig ætlað að kveða á um samræmingu málsmeðferðarreglna, valdheimilda og annarra reglna  vegna sameiningu stofnana ráðuneytisins í Umhverfis- og orkustofnun. Nóvember

  13. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum til að samræma reglur/málsmeðferð vegna frumvarps um Náttúruverndarstofnun (leyfisveitingar, gjaldtaka og fleira).
    Með frumvarpinu verður mælt fyrir um nauðsynlegar lagabreytingar til að fylgja eftir verkefni umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra um sameiningar stofnana á sviði náttúruverndar.Nóvember

  14. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um varnir gegn mengun hafs og stranda, nr. 33/2004 (EES-reglur, móttaka úrgangs í höfnum).
    Með frumvarpinu verður innleidd tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/883 frá 17. apríl 2019 um móttöku úrgangs frá skipum, sem breytir tilskipun (ESB) 2010/65 og fellir úr gildi tilskipun (ESB) 2000/59. Tilskipunin kemur í stað eldri tilskipunar um sama efni sem hefur verið innleidd hér á landi. Gera þarf nokkrar breytingar á lögunum vegna innleiðingar á tilskipuninni. Innleiðing. Nóvember.

  15. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun, nr. 48/2011.
    Markmið frumvarpsins er að fylgja eftir tillögum starfshóps sem nú vinnur að endurskoðun laga 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun. Hópurinn á við vinnu sína að leggja sérstaka áherslu á að auka skilvirkni í kerfinu í heild og einföldun regluverks. Nóvember.

  16. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998 o.fl. (eftirlit með hollustuháttum, mengunarvörnum og matvælum).
    Markmið frumvarpsins er að fylgja eftir tillögum starfshóps sem skilaði niðurstöðum í september 2023. Hlutverk starfshópsins var að koma með tillögur að nýju fyrirkomulagi á eftirliti á grundvelli laga um hollustuhætti og mengunarvarnir og laga um matvæli. Starfshópurinn setti fram tillögur sínar að úrbótum sem þrjár mismunandi sviðsmyndir. Febrúar.

  17. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, nr.  49/1997 (atvinnuhúsnæði í byggð o.fl.).
    Markmið frumvarpsins er m.a. að fylgja eftir skýrslu Veðurstofu Íslands frá því í október 2023 um mat á þörf fyrir varnarvirki og viðbúnað vegna ofanflóðahættu á atvinnusvæðum í þéttbýli. Með frumvarpinu verður mælt fyrir um breytingar á lögunum m.a. með setningu markmiðsákvæðis þar sem skýrt verði að gildissvið laganna nái einnig til atvinnusvæða. Gerðar verði aðrar nauðsynlegar breytingar á lögunum með hliðsjón af reynslu af framkvæmd þeirra. Febrúar.

  18. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi, nr. 40/2013 (loftslagsmál, orkuskipti, aðgerðaáætlun í loftslagsmálum).
    Með frumvarpinu verður mælt fyrir um breytingar á lögum um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi og gildissvið víkkað þannig að lögin nái til hafsækinnar starfsemi. Markmiðið er að tryggja innleiðingu tiltekinnar aðgerðar í aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Innleiðing. Febrúar.

  19. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um úrvinnslugjald, nr. 162/2002 (fyrirkomulag framlengdrar framleiðendaábyrgðar, viðaukar o.fl.).
    Í frumvarpinu verður fylgt eftir tillögum í skýrslu starfshóps um breytingu á fyrirkomulagi framlengdrar framleiðendaábyrgðar á Íslandi, sem kom út í nóvember 2022. Markmið  frumvarpsins er einnig að gera nauðsynlegar uppfærslur á viðaukum við lögin. Febrúar.

  20. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna innleiðingar tilskipunar ESB 2018/2001 um að auka notkun orku frá endurnýjanlegum orkugjöfum (EES-reglur, orkuskipti).
    Með frumvarpinu verður mælt fyrir um lagabreytingar til innleiðingar á tilskipun um aukna notkun orku frá endurnýjanlegum orkugjöfum (RED II). Markmiðið er að stuðla að aukinni notkun á endurnýjanlegri orku. Með tilskipuninni eru sett bindandi markmið um að hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í heildarnotkun verði a.m.k. 32% árið 2030, 14% fyrir samgöngur á landi og þar af 3,5% háþróað eldsneyti (e. advanced fuels). Tilskipunin setur reglur um fjárstuðning vegna raforku frá endurnýjanlegum orkugjöfum, eigin notkun slíkrar raforku og notkun orku frá endurnýjanlegum orkugjöfum í hitunar- og kælingargeiranum og í flutningageiranum. Innleiðing. Mars.

  21. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn vatnamála, nr. 36/2011 (skilvirkari stjórnsýsla, málsmeðferðarreglur).
    Með frumvarpinu verður mælt fyrir um breytingar á lögum um stjórn vatnamála til að skýra ákvæði laganna m.a. með málsmeðferðarreglum um heimild til breytinga á vatnshloti, m.a. með það að markmiði að auka skilvirkni stjórnsýslu vatnamála. Mars.

  22. Tillaga til þingsályktunar um verndar- og orkunýtingaráætlun.
    Tillagan er lögð fram í samræmi við 3. gr. laga um verndar- og orkunýtingaráætlun, nr. 48/2011. Um er að ræða virkjunarkosti sem fóru í almennt samráð í desember 2023. September.

  23. Tillaga til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu vindorku á Íslandi.
    Þingsályktunartillagan byggir á tillögu skipaðs starfshóps og þeirri áherslu í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar að breið sátt ríki um uppbyggingu vindorkuvera. Tillagan lítur að stefnumörkun um hagnýtingu vindorku út frá ýmsum mikilvægum þáttum, eins og t.d. náttúru, þ.m.t. friðlýstum svæðum, óbyggðum víðernum, miðhálendi Íslands, ferðamennsku og útivist, nálægð við byggð o.fl. Stefnan skiptist í meginforsendur uppbyggingar vindorku, aðrar mikilvægar forsendur, meginsjónarmið um staðsetningu vindorkuvera og málsmeðferðar vindorkuvera. Endurflutt. September.

  24. Tillaga til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.
    Í 39. gr. a raforkulaga, nr. 65/2003, segir að ráðherra skuli á fjögurra ára fresti leggja fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Með þessum hætti getur Alþingi lagt fram ákveðnar meginreglur og viðmið sem taka ber mið af við gerð kerfisáætlunar á hverjum tíma skv. raforkulögum. Kerfisáætlunin er annars vegar langtímaáætlun til tíu ára og hins vegar framkvæmdaáætlun til þriggja ára. Í tillögu að uppfærðri þingsályktun verður tekið mið af stöðu verkefna sem tilgreind eru í núgildandi þingsályktun sem og orkustefnu. Nóvember.

  25. Tillaga til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár.
    Umhverfis-, orku, og loftslagsráðherra skal samkvæmt lögum um náttúruvernd, nr. 60/2013, gefa út náttúruminjaskrá á fimm ára fresti og birta með auglýsingu í Stjórnartíðindum. Áður en að náttúruminjaskrá er gefin út skal ráðherra leggja fram þingsályktun um framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár. Á framkvæmdaáætlun eru skráðar þær náttúruminjar sem Alþingi ákveður að setja í forgang um friðlýsingu eða friðun næstu fimm árin. Nóvember.

  26. Tillaga til þingsályktunar um verndar- og orkunýtingaráætlun.
    Tillagan er lögð fram í samræmi við 3. gr. laga um verndar- og orkunýtingaráætlun, nr. 48/2011. Um er að ræða virkjunarkosti sem fóru í almennt samráð í júní 2024. Nóvember.

  27. Tillaga til þingsályktunar um verndar- og orkunýtingaráætlun.
    Tillagan er lögð fram í samræmi við 3. gr. laga um verndar- og orkunýtingaráætlun, nr. 48/2011. Um er að ræða virkjunarkosti sem gert er ráð fyrir að fari í almennt samráð haustið 2024. Mars.

  28. Skýrsla umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra um raforku.
    Um er að ræða skýrslu umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra um raforku sem ráðherra skal leggja fyrir Alþingi á tveggja ára fresti skv. 39. gr. raforkulaga, nr. 65/2003. September

Utanríkisráðherra

  1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, með síðari breytingum (bókun 35).
    Með frumvarpinu er ætlunin að gera nauðsynlegar breytingar til þess að bæta innleiðingu bókunar 35 við EES samninginn og tryggja fulla virkni hans hér á landi í þágu einstaklinga og lögaðila. Endurflutt. September.

  2. Tillaga til þingsályktunar um fullgildingu fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Lýðveldisins Indlands.
    Fullgilding þjóðréttarsamnings. Október.

  3. Tillaga til þingsályktunar um fullgildingu á uppfærðum fríverslunarsamningi milli EFTA-ríkjanna og Lýðveldisins Chiles.
    Fullgilding þjóðréttarsamnings. Október.

  4. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 317/2023 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun), nr. 145/2024 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) og nr. 170/2024 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) og XII. viðauka (Frjálsir fjármagnsflutningar) við EES-samninginn.
    Ákvörðun nr. 317/2023: Reglugerð 2019/1020 um markaðseftirlit og samræmi vara við kröfur o.s.frv.
    Ákvörðun nr. 145/2024: Reglugerð 2017/2402 um almennan ramma fyrir verðbréfun og gerð sértæks ramma fyrir einfalda, gagnsæja og staðlaða verðbréfun (STS-reglugerðin) o.fl.
    Ákvörðun nr. 170/2024: Reglugerð 2021/1230 um kerfisbindingu reglugerða (ESB) um greiðslur á milli landamæra í evrum (CBPR).
    Aflétting stjórnskipulegs fyrirvara. Október.

  5. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingar á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn (MiCA og DORA). 
    Reglugerð 2023/1114 um markaði fyrir sýndareignir.
    Reglugerð 2022/2554 um stafrænan rekstrarlegan viðnámsþrótt fyrir fjármálageirann o.s.frv.
    Aflétting stjórnskipulegs fyrirvara. Október.

  6. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn (ESAs Review).
    Reglugerð 2019/2175 og  tilskipun 2019/2177 um breytingar á reglugerðum um evrópsku eftirlitsstofnanirnar á fjármálamarkaði o.s.frv.
    Aflétting stjórnskipulegs fyrirvara. Október.

  7. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn (CRR III).
    Reglugerð 2024/1623 um varfærniskröfur til fjármálafyrirtækja, þar á meðal eiginfjárkröfur.
    Aflétting stjórnskipulegs fyrirvara. Október.

  8. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 167/2024 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) og nr. 181/2024 um breytingu á bókun 31 um samvinnu á sérstökum sviðum utan marka fjórþætta frelsisins við EES-samninginn.
    Ákvörðun nr. 167/2024: Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2022/123 frá 25. janúar 2022 um að styrkja hlutverk Lyfjastofnunar Evrópu að því er varðar viðbúnað við krísu og krísustjórnun varðandi lyf og lækningatæki.
    Ákvörðun nr. 181/2024: Reglugerð (ESB) 2022/2371 um alvarlegar heilsufarsógnir sem ná yfir landamæri.
    Aflétting stjórnskipulegs fyrirvara. Október.

  9. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 332/2023 og nr. 333/2023 um breytingu á XVII. viðauka (Hugverkaréttindi) við EES-samninginn.
    Ákvörðun nr. 332/2023: Tilskipun 2019/789 um reglur um beitingu höfundarréttar og skyldra réttinda sem gilda um tilteknar útsendingar útvarpsfyrirtækja á Netinu og endurútsendingar útvarps- og sjónvarpsefnis o.s.frv.
    Ákvörðun nr. 333/2023: Tilskipun 2019/790 um höfundarrétt og skyld réttindi á stafræna innri markaðnum o.s.frv.
    Aflétting stjórnskipulegs fyrirvara. Febrúar.

  10. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 71/2024 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn (PEPP).
    Reglugerð nr. 2019/1238 um samevrópska séreignarafurð (PEPP).
    Aflétting stjórnskipulegs fyrirvara. Febrúar.

  11. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 30/2024 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.
    Reglugerð 2020/1503 um evrópska þjónustuveitendur hópfjármögnunar fyrir fyrirtæki.
    Aflétting stjórnskipulegs fyrirvara. Febrúar.

  12. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn (EMIR).
    Reglugerð 2019/2099 um aukið eftirlit með miðlægum mótaðilum o.s.frv.
    Aflétting stjórnskipulegs fyrirvara. Febrúar.

  13. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn (MIFIR/MIFID II).
    Reglugerð 2024/791 um aukið gagnsæi á fjármagnsmörkuðum, miðlæga söfnun viðskiptaupplýsinga o.fl.
    Aflétting stjórnskipulegs fyrirvara. Febrúar.

  14. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn (IFR og IFD).
    Reglugerð 2019/2033 og tilskipun 2019/2034 um varfærniseftirlit með verðbréfafyrirtækjum.
    Aflétting stjórnskipulegs fyrirvara. Febrúar.

  15. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn (CSDR).
    Reglugerð 2023/2845 um bætt verðbréfauppgjör o.fl.
    Aflétting stjórnskipulegs fyrirvara. Febrúar.

  16. Skýrsla utanríkisráðherra um framkvæmd EES-samningsins.
    Árleg skýrsla til Alþingis skv. 9. gr. reglna Alþingis um þinglega meðferð EES-mála. Nóvember.

  17. Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál.
    Árleg skýrsla til Alþingis. Mars.
 

 

Síðast uppfært: 12.9.2024
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum