Hoppa yfir valmynd

Þingmálaskrá 151. löggjafarþings 2020–2021

Samkvæmt 1. mgr. 47. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, skal fylgja eftirriti stefnuræðu forsætisráðherra við upphaf þings yfirlit um þau mál sem ríkisstjórn hyggst leggja fram á þinginu ásamt áætlun um hvenær þeim verður útbýtt. Yfirlit fyrir 151. löggjafarþing fer hér á eftir. Fram kemur hvenær ætlunin er að leggja mál fram. Flutt kunna að verða fleiri mál en getið er og atvik geta hindrað flutning einstakra mála. Í samræmi við 2. mgr. 47. gr. laganna mun ríkisstjórnin jafnframt við upphaf vetrarþings, að loknu jólahléi, afhenda forseta Alþingis endurskoðaða áætlun um framlagningu stjórnarfrumvarpa á vetrar- og vorþingi ásamt áætluðum útbýtingardegi.

Forsætisráðherra

 1. Frumvarp til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. 
  Með frumvarpinu eru lögð til ný heildarlög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna sem komi í stað laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008. Markmiðið er að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli kyns og koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Frumvarpið er lagt fram samhliða frumvarpi til laga um stjórnsýslu jafnréttis­mála. Október.
 2. Frumvarp til laga um stjórnsýslu jafnréttismála.
  Með frumvarpinu er lagt til að sett verði lög sem gilda um stjórnsýslu á sviði jafnréttismála, þ.e. á því sviði sem frumvarp til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, lög um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018, og lög um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018, taka til. Fjallað er meðal annars um störf Jafnréttisstofu og kærunefndar jafnréttismála. Með jafnréttismálum í frumvarpinu er átt við mál sem varða jafna meðferð óháð kyni, kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, aldri, fötlun, skertri starfsgetu, kynhneigð, kynvitund, kynein­kenn­­­um og kyntjáningu. Frumvarpið er lagt fram samhliða frumvarpi til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Október.
 3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019 (breytt aldurs­við­mið). 
  Með frumvarpinu er lögð til breyting á 4. og 5. gr. laga um kynrænt sjálfræði þess efnis að aldur vegna réttar til að breyta opinberri skráningu kyns, og samhliða breyta nafni, miðist við 15 ára aldur í stað 18 ára aldurs. Lagt er til að sérhver einstaklingur sem náð hefur 15 ára aldri hafi rétt til að breyta skráningu á kyni sínu í þjóðskrá. Að því er varðar börn yngri en 15 ára geti þau með fulltingi forsjár­aðila sinna breytt opinberri skráningu kyns síns. Með frumvarpinu er einnig lagt til að takmarkanir þær, sem skv. 7. gr. laga um kynrænt sjálfræði gilda um breytingu á skráningu kyns og sam­­hliða nafnbreytingu, gildi ekki um einstaklinga yngri en 18 ára. Þá er lögð til breyting á manna­nafnalögum til að samræma ákvæði þeirra um nafnbreytingu ákvæðum frumvarpsins. Október.
 4. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019 (ódæmigerð kyn­einkenni). 
  Með frumvarpinu er lagt til að bæta við lögin ákvæði sem fjallar um breytingar á kyneinkennum barna með ódæmigerð kyneinkenni sbr. ákvæði til bráðabirgða I í lögum um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019. Lagt er til að varanlegar breytingar á ódæmigerðum kyneinkennum barna undir 16 ára án samþykkis verði einungis heimilar af heilsufarslegum ástæðum og einungis að undangenginni vandaðri málsmeðferð og ítarlegu mati á nauðsyn breytinganna og afleiðingum þeirra. Útlitslegar, félags­legar og sálfélagslegar ástæður teljast ekki til heilsufarslegra ástæðna. Málsmeðferð sam­kvæmt ákvæðinu mun meðal annars fela í sér aðkomu nýs þver­fag­legs teymis. Til varanlegra breytinga teljast meðal annars skurðaðgerðir, lyfjameð­ferð­ir og önnur óafturkræf læknisfræðileg inn­­grip. Lagt er til að sérregla gildi um tiltekna skurðaðgerð og lyfjameðferð. Október.
 5. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna laga um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019 (breytt kynskráning).
  Frumvarpið er bandormur þar sem lagt er til að breyta ýmsum lögum en um er að ræða nauðsynlegar breytingar vegna samþykktar laga um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019. Breytingunum er ætlað að tryggja réttindi einstaklinga þar sem hlutlaus skráning kyns er nú heimil. Heimildin gerir það að verk­um að í lagaákvæðum sem fela í sér kyngreiningu (karl, kona) verður jafnframt að gera ráð fyrir þeim hópi fólks sem kýs að hafa hlutlausa skráningu kyns. Október.
 6. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum sem falla undir lög nr. 26/2007, nr. 47/2010 (lokauppgjör). 
  Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 47/2010 sem geri kleift að taka á málum fatlaðra barna sem vistuð voru á stofnunum sem ekki hafa þegar sætt könnun samkvæmt lögum nr. 26/2007. Þannig sé lokið samfélagslegu uppgjöri vegna vistunar barna á stofnunum á vegum hins opin­bera á árum áður og er jafnframt lagt til að felld verði brott lög nr. 26/2007, um skipan nefndar til að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn. Október.
 7. Frumvarp til laga um breytingu á stjórnsýslulögum nr. 37/1993 og öðrum lögum (endur­skoðun VI. kafla o.fl.).
  Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar á VII. og VIII. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, um stjórnsýslukærur og starfsemi stjórnsýslunefnda. Breytingarnar verða lagðar til einkum í því skyni að samræma og skýra betur starfsemi sjálfstæðra úrskurðarnefnda og annarra kærustjórnvalda og þá málsmeðferð sem viðhafa ber í tilefni af stjórnsýslukæru. Með frumvarpinu verður m.a. lagt til að lögfest verði ítarlegri ákvæði um málsmeðferð kærustjórnvalda, t.d. um form og efni úrskurða og frestun réttaráhrifa úrskurða. Einnig fela tillögurnar í sér nánari reglur um starfsemi sjálfstæðra úr­skurð­­ar­nefnda, t.d. um skyldu til að halda úti vefsetri. Þá verður lögð til sú breyting á lögum um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 21/1994, að kveðið verði á um heimild sjálfstæðra stjórnsýslunefnda til að leita ráðgefandi álits EFTA-dóm­stóls­ins. Janúar.
 8. Frumvarp til laga um Vísinda- og nýsköpunarráð.
  Með frumvarpinu eru lög um Vísinda- og tækniráð, nr. 2/2003, endurskoðuð og er þetta fyrsta heildræna endurskoðun lagaramma ráðsins frá því að hann tók gildi árið 2003. Frumvarpið byggist á skýrslu verkefnishóps forsætisráðherra sem skilað var í ágúst 2020. Meginmarkmið breytinganna er að efla stefnu á sviði vísinda og nýsköpunar með því að skýra hlutverk Vísinda- og tækniráðs, auka stuðning við stefnumótun og sjálfstæða ráðgjöf til ráðherra, efla samræmda stefnu þvert á ráðu­neyti, skerpa framtíðarsýn og styrkja umræðu um vísindi og nýsköpun í samfélaginu. Lagt er til að nafni ráðsins verði breytt í Vísinda- og nýsköpunarráð. Janúar.
 9. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um landamerki, nr. 41/1919, o.fl. (lagasamræming).
  Með frumvarpinu eru lagðar til nauðsynlegar lagfæringar á ákvæðum laga um landamerki í þeim tilgangi að uppfæra og samræma tilhögun við skráningu merkja, sbr. m.a. ákvæði um landeignaskrá Þjóðskrár Íslands í lögum um skráningu og mat fasteigna, nr. 6/2001, sbr. lög nr. 85/2020 um breytingu á þeim. Frumvarpið er liður í verkefni sem nær til málefnasviða nokkurra ráðuneyta og unnið er að í stýrihópi um heildstæða löggjöf og stjórnsýslu varðandi jarðir, land og aðrar fasteignir, sbr. mál nr. 10. Gert er ráð fyrir fleiri frumvörpum um þau efni á þessu löggjafarþingi. Febrúar.
 10. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum er varða fjárfestingar erlendra aðila í fast­eign­um, auðlindum og grunnvirkjum (heimildir stjórnvalda).
  Frumvarpinu er ætlað að mæla fyrir um heimildir stjórnvalda til að meta og taka afstöðu til fjárfestinga erlendra aðila í landi, auðlindum og grunnvirkjum með tilliti til sjónarmiða um þjóðar­öryggi, sbr. m.a. lög um erlenda fjárfestingu í atvinnurekstri, nr. 34/1991, og lög um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, nr. 19/1966. Frumvarpið er liður í verkefni sem nær til málefnasviða nokkurra ráðuneyta og unnið er að í stýrihópi um heildstæða löggjöf og stjórnsýslu varðandi jarðir, land og aðrar fasteignir, sbr. mál nr. 9. Gert er ráð fyrir fleiri frumvörpum um þau efni á þessu löggjafarþingi. Mars.
 11. Skýrsla forsætisráðherra um framkvæmd þingsályktana frá árinu 2019. 
  Árleg skýrsla. Október.
 12. Skýrsla forsætisráðherra um ábendingar sem varða stjórnsýsluna í rannsóknarskýrslum Alþingis um orsakir falls íslensku bankanna 2008, orsakir erfiðleika og falls sparisjóðanna og Íbúðalánasjóðs og viðbrögð við þeim. 
  Í skýrslunni verða viðbrögð stjórnvalda og Alþingis við ábendingum sem settar voru fram í framan­greind­­um rannsóknarskýrslum rakin. Nóvember.
 13. Skýrsla forsætisráðherra um málefni þjóðlendna.
  Árleg skýrsla. Maí.
 14. Skýrsla forsætisráðherra um framkvæmd upplýsingalaga.

Árleg skýrsla. Maí.

Dómsmálaráðherra

 1. Frumvarp til laga um breytingu á barnalögum, nr. 76/2003 (skipt búseta barns).
  Lagt er til að lögfesta ákvæði um heimild foreldra, sem ekki búa saman en fara sameiginlega með forsjá barns, til að semja um skipta búsetu barns við tilteknar aðstæður. Einnig er lagt til að lögin beri með sér að forsenda þess að foreldrar semji um sameiginlega forsjá verði sú að foreldrar geti unnið saman á fullnægjandi hátt og haft samráð um málefni barns. Þá er lagt til það nýmæli að barn geti haft frumkvæði að því að sýslumaður boði foreldra til samtals til að ræða fyrirkomulag forsjár, lög­heimilis, búsetu og umgengni. Að auki er gert ráð fyrir breytingu á ákvæðum um framfærslu og meðlag með áherslu á aukið samningsfrelsi foreldra. Endurflutt. Október.
 2. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl., nr. 31/1990 (lögbann á tjáningu). 
  Með frumvarpinu er lagt til að bætt verði við ákvæði í lög um kyrrsetningu, lögbann o.fl., nr. 31/1990, þess efnis að ef gerðarþoli mótmælir framgangi lögbannsgerðar á þeim grunni að gerðin fari í bága við 73. gr. stjórnarskrárinnar og sýslumaður hafnar þeim mótmælum geti gerðarþoli borið þá ákvörðun undir héraðsdómara, þó svo að gerðarbeiðandi mótmæli því, svo fremi sem hann skuld­bindur sig til að láta af athöfn á meðan mál er rekið fyrir dómi. Þá er lagt til að mælt verði fyrir um að málsmeðferð í framangreindum tilvikum skuli flýtt eins og kostur er. Jafnframt að virði gerðar­þoli ekki þá skuldbindingu að láta af athöfn sinni skuli dómari fella málið þegar í stað niður ef gerð­ar­­beiðandi krefst. Endurflutt. Október.
 3. Frumvarp til laga um skaðabætur vegna ærumeiðinga. 
  Með frumvarpinu er lagt til að sett verði sérstök lög um skaðabætur vegna ærumeiðinga og ákvæði er varða refsingu vegna ærumeiðinga felld úr almennum hegningarlögum. Endurflutt.Október.
 4. Frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940 (kynferðisleg frið­helgi). 
  Með frumvarpinu er gert ráð fyrir að sett verði ný ákvæði í almenn hegningarlög sem kveða á um refsingu við brot á kynferðislegri friðhelgi. Er þar átt við heimildarlausa töku og birtingu á kynferðis­legu eða nærgöngulu efni hvort sem er stafrænt eða á annan hátt. Er frumvarpið unnið á grundvelli skýrslu um kynferðislega friðhelgi, umfjöllun um réttarvernd og ábendingar til úrbóta. Október. 
 5. Frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940 (umsáturseinelti). 
  Um er að ræða nýtt ákvæði sem kveður á um refsingu fyrir umsáturseinelti til að mæta ákvæðum Istanbúlsamningsins. Október.
 6. Frumvarp til laga um Schengen-upplýsingakerfið. 
  Frumvarpið felur í sér innleiðingu þriggja Schengen-gerða. Um er að ræða ný heildarlög þar sem með mun ítarlegri hætti en í núgildandi lögum verður kveðið á um einstaka þætti upplýsinga­kerfis­ins, notkun þess og vinnslu upplýsinga. Við bætast nýjar upplýsingar sem heimilt er að skrá í kerfið, öryggi kerfisins er almennt aukið og reglur um persónuvernd eru styrktar. Innleiðing. Október.
 7. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, nr. 13/1984 (réttar­aðstoð).
  Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum laganna um feril réttarbeiðna frá erlendum yfirvöldum. Markmið breytinganna er að gera feril réttarbeiðna skilvirkari og þar af leiðandi flýta með­ferð þeirra, sem er í samræmi við meginreglu sakamálaréttarfars um að hraða beri rannsókn mála eins og kostur er og viðhalda góðu samstarfi við erlend ríki með gagnkvæmni að leiðarljósi. Jafnframt er fyrirhugað að flytja hluta þeirra verkefna sem samkvæmt núgildandi lögum eru í höndum dómsmálaráðuneytisins til ríkissaksóknara í samræmi við þá þróun sem hefur átt sér stað síð­ast­liðin ár og áratugi, þ.e. að auka sjálfstæði í rannsóknum sakamála, einnig þegar um alþjóðlega saka­­mála­­samvinnu er að ræða. Október.
 8. Frumvarp til laga um breytingu á áfengislögum, nr. 75/1998 (netverslun og sala úr brugg­hús­u­m).
  Ráðgert er að í frumvarpinu verði heimilað að starfrækja innlenda vefverslun með áfengi í smásölu til neytenda með vissum takmörkunum t.d. hvað varðar afhendingartíma og aldur viðtakanda. Einnig er í frumvarpinu gert ráð fyrir að mæta kröfum minni áfengisframleiðanda, sérstaklega á lands­byggð­inni, um að heimilt verði, í tilteknum tilvikum, að selja áfengi í smásölu til neytenda. Felur það í sér að áfengisframleiðanda verði heimilt að selja á framleiðslustaðnum eigin framleiðslu í neyt­endaumbúðum, til neyslu annars staðar. Október.
 9. Frumvarp til laga um mannanöfn. 
  Frumvarpið felur í sér endurskoðun laga um mannanöfn í þeim tilgangi að koma til móts við ríkjandi viðhorf í samfélaginu og veita rýmri heimildir til skráningar nafna og kenninafna en núgildandi löggjöf um mannanöfn gerir ráð fyrir. Með víðtækari heimildum til skráningar nafna er ekki talin þörf á að hafa mannanafnanefnd og er því ráðgert að leggja hana niður. Október.
 10. Frumvarp til laga um breytingu á barnalögum, nr. 76/2003 (kynrænt sjálfræði). 
  Um er að ræða ýmsar breytingar á barnalögum vegna laga um kynrænt sjálfræði. Október.
 11. Frumvarp um breytingu á ýmsum lögum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru (meðferð mála og framlenging bráðabirgðaheimilda).
  Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um meðferð einkamála, lögum um meðferð sakamála, lögum um skipti á dánarbúum og erfðalögum þar sem heimilt verði að bjóða upp á rafræna meðferð mála. Október.
 12. Frumvarp til laga um breytingu á þinglýsingalögum, nr. 39/1978 (skilmálabreytingar).
  Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæði til bráðabirgða III og framlengd heimild til að þinglýsa innan tiltekins tíma skilmálabreytingum sem gerðar eru vegna heimsfaraldurs COVID-19. Október.
 13. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 80/2016 (alþjóðleg vernd, dvalar­leyfi).
  Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem eiga að auka skilvirkni í afgreiðslu mála svo stytta megi málsmeðferðartíma umsækjenda um alþjóðlega vernd til hagsbóta. Auk þess eru lagðar til breytingar á ákvæðum laganna um dvalarleyfi og atvinnuréttindi útlendinga. Október
 14. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991 (kennitölu­flakk). 
  Með frumvarpinu er lagt til að við gjaldþrotaskipti á félagi með takmarkaðri ábyrgð geti skiptastjóri krafist þess að lagt verði atvinnurekstrarbann á þann sem komið hefur að stjórnun félagsins á síðustu 18 mánuðum fyrir frestdag ef viðkomandi telst ekki hæfur til að stýra félaginu vegna verulega skað­legra eða óverjandi viðskiptahátta við stjórnun félagsins á umræddu tímabili. Endurflutt. Nóvember.
 15. Frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940 (ábyrgð lögaðila). 
  Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum laganna um refsiábyrgð lögaðila þannig að ekki þurfi að sanna sök á einstakling svo að refsiábyrgð lögaðila verði virk. Breytingin byggist á tillög­­um í skýrslu um alvarleg atvik í heilbrigðisþjónustu. Nóvember.
 16. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008 (bótafjárhæðir). 
  Í frumvarpinu er lögð til einföldun á meðferð bótakrafna vegna brota á 9.–14. kafla laganna vegna ólögmætrar handtöku, þvingunarráðstafana og gæsluvarðhalds á þann hátt að settar verði reglur um við­miðunarfjárhæðir bóta sem ríkislögmaður styðst við uppgjör slíkra bóta. Samhliða er felld á brott skylda til að veita gjafsókn í slíkum bótamálum. Með þessum breytingum er unnt að flýta uppgjöri bóta og fækka dómsmálum vegna ágreinings um bætur. Í frumvarpinu felst hagræðing í meðferð málanna bæði fyrir þolendur sem og ríkið auk þess að gera má ráð fyrir lækkun útgjalda hjá ríkissjóði vegna málskostnaðar í þessum málum. Nóvember.
 17. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um peningaþvætti, nr. 140/2018 (sýndareignir o.fl.).
  Með frumvarpinu er gert ráð fyrir að tilteknum ákvæðum laganna verði breytt til samræmis við til­mæli FATF um sýndareignir. Meðal annars er gert ráð fyrir að skilgreiningu á þjónustuveitendum sýndarfjár verði breytt, að skilgreint verði með nákvæmari hætti til hvaða aðila skráningarskylda hjá fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands tekur og að sett verði skilyrði varðandi upplýsingar sem þarf að afla þegar viðskipti með sýndarfé fara umfram ákveðin fjárhæðarmörk. Þá hafa komið fram ýmsar athugasemdir og ábendingar sem byggðar eru á þeirri reynslu sem orðin er af framkvæmd laganna, einkum frá þeim stjórnvöldum sem sinna eftirliti samkvæmt lögunum. Samhliða framangreindum breytingum er fyrirhugað að fara yfir þær ábendingar og kanna hvort tilefni sé til þess að gera frekari breytingar á lögunum heldur en aðeins þær sem varða sýndareignir. Nóvember.
 18. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008 (staða brotaþola). 
  Um er að ræða breytingu sem styrkir stöðu brotaþola í sakamálum og eykur aðgang hans að göngum og upplýsingum. Breytingarnar byggjast á tillögum í greinargerð um leiðir til að styrkja réttarstöðu brota­þola. Nóvember.
 19. Frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940 (refsiþynging vegna kynþátta­fordóma o.fl.). 
  Um er að ræða breytingu á 70. gr. laganna um refsiþyngingu vegna kynþáttafordóma vegna athuga­semda CERD eftirlitsnefndar Sameinuðu þjóðanna með samningi um afnám alls kynþátta­mis­réttis. Nóvember.
 20. Frumvarp til laga um breytingu á lögreglulögum, nr. 90/1996 (eftirlit með lögreglu, lögreglu­ráð). 
  Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum laganna er lúta að nefnd um eftirlit með störfum lögreglu í því skyni að gera starf hennar skilvirkara og jafnframt sjálfstæðara. Er það einn liður í því að efla almennt eftirlit og aðhald með starfi lögreglu. Þá er kveðið á um ýmsar aðrar breytingar er snúa m.a. að valdbeitingu, samvinnu við erlend lögregluyfirvöld og lögfestingu hins nýstofnaða lög­­reglu­­ráðs. Nóvember.
 21. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum (rafræn birting ákvaða).
  Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum á málefnasviði dómsmálaráðuneytis sem varða meðferð stjórnsýslumála, svo mögulegt sé að birta skjöl stafrænt í gegnum ísland.is svo að bind­andi sé fyrir viðtakanda. Nóvember.
 22. Frumvarp til laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar. 
  Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar en með því er stefnt að því að setja ný þjóðkirkjulög. Frumvarpið er liður í að uppfylla viðbótarsamning milli íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar frá 6. september 2019 en þar var m.a. stefnt að einföldun reglu­­verks um þjóðkirkjuna. Desember.
 23. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fullnustu refs­inga og almennum hegningarlögum (ýmsar breytingar).
  Frumvarpið felur í sér breytingar sem hafa að markmiði að stytta boðunarlista til afplánunar refsinga. Í því felast breytingar á skilyrðum til að afplána refsingu með samfélagsþjónustu og reglum um reynslu­lausn sem og heimild til að skilorðsbinda ákærufrestun verði ekki bundin við tiltekinn aldurs­hóp. Janúar.
 24. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um lögmenn, lögum um dómstóla, lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála (endurmenntun lögmanna, setningar dómara og réttar­farsbreytingar). 
  Um er að ræða ýmsar breytingar á réttarfarslöggjöf svo sem víðtækari heimild til að sækja um kæru­leyfi til Hæstaréttar, heimildum til setninga dómara við héraðsdóm, námsleyfi dómara, heimild­ir til notkun­ar á fjarfundabúnaði, endurmenntun lögmanna o.fl. Febrúar.
 25. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannavarnir, nr. 82/2008 (ýmsar breyting­ar).
  Um er að ræða frumvarp til breytinga á lögum um almannavarnir þar sem lagðar verða til breytingar sem metnar eru nauðsynlegar í ljósi þeirrar reynslu sem komin er á lögin. Meðal þeirra breytinga sem frumvarpið mun leggja til verður endurskoðun á fyrirkomulagi á rýni í kjölfar almanna­varna­ástands að teknu tilliti til reynslu af rannsókn rannsóknarnefndar almannavarna vegna óveðurs í des­ember 2019, skýra hugtök og valdheimildir eftir því sem þörf þykir, m.a. hvað varðar almanna­varnar­stig. Febrúar.
 26. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um útgáfu og notkun nafnskírteina, nr. 25/1965 (ný nafn­­­skírteini). 
  Með frumvarpinu er lagt til að Þjóðskrá Íslands verði heimilt að gefa út ný nafnskírteini fyrir ein­staklinga sem jafnframt væru ferðaskilríki á Schengen svæðinu. Febrúar.
 27. Frumvarp til laga um breytingu á hjúskaparlögum, nr. 31/1993 (ýmsar breytingar). 
  Um er að ræða ýmsar breytingar á hjúskaparlögum, m.a. varðandi veitingu lögskilnaðar í þeim tilvik­um þegar annað hjóna hefur sætt ofbeldi í hjúskap. Febrúar.
 28. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um framkvæmd eignarnáms, nr. 11/1973 (heild­ar­end­ur­skoðun).
  Með frumvarpinu verða ákvæði laganna tekin til heildarendurskoðunar. Febrúar.
 29. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 80/2016 (landamæri). 
  Með frumvarpinu er gert ráð fyrir að settur verði nýr kafli í útlendingalög um landamæri sem mun kveða á um ýmsar reglur sem er að finna í reglugerð um för yfir landamæri nr. 866/2017 og innleiða breytingar sem hafa verið gerðar á Schengen Borders Code. Með frumvarpinu er einnig ætlað að innleiða viss ákvæði Schengen-gerða um ný upplýsingakerfi á vettvangi Schengen-samstarfsins sem og styrkja lagagrunn fyrir komandi gerðir á grundvelli Schengen-samstarfsins. Mars.
 30. Frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, 19/1940 (mansal). 
  Um er að ræða endurskoðun á gildandi ákvæði 227. gr. a um mansal í samræmi við áherslur stjórn­valda í aðgerðum gegn mansali og annars konar hagnýtingu sem samþykkt var í mars 2019.
  Mars.
 31. Frumvarp til breytinga á lögum um samningsbundna gerðardóma nr. 53/1989 (heildar­endur­skoð­­un).

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögunum til samræmis við breytingar sem hafa orðið á alþjóða­vettvangi á reglum um gerðardóma, m.a. UNICITRAL lögum um alþjóðlega gerðardóma á sviði viðskipta. Mars.

Ferðamála- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra

 1. Frumvarp til laga um opinberan stuðning við nýsköpun. 
  Með frumvarpinu er Nýsköpunarmiðstöð Íslands lögð niður í núverandi mynd í samræmi við mark­mið nýsköpunar­stefnu um forgangsröðun verkefna í þágu nýsköpunarumhverfis á Íslandi og verk­efni stofnunarinnar endurskipulögð og flutt annað eftir því sem við á. Október.
 2. Frumvarp til laga um Tækniþróunarsjóð. 
  Samhliða frumvarpi til laga um opinberan stuðning við nýsköpun er lagt fram frumvarp til sérlaga um Tækniþróunarsjóð og eflingu byggingarannsókna. Október.
 3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um skráningu raunverulegra eigenda, nr. 82/2019 (skipti eða slit tiltekinna skráningarskyldra aðila).
  Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði tvö ný bráðabirgðaákvæði við lög um skráningu raun­veru­­legra eigenda, nr. 82/2019. Varðar slit skráningarskyldra aðila sem sinna ekki skráningar­skyldu sinni samkvæmt lögunum. Liður í að ljúka aðgerðum á sviði varna gegn peningaþvætti og fjár­mögn­un hryðjuverka (FATF). Endurflutt. Október.
 4. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist, nr. 110/2016 (lækkuð lágmarkslengd spilunartíma).
  Með frumvarpinu er lagt til að áskilnaði laganna um lágmarkslengd spilunartíma verði breytt, tón­list­ar­­mönnum og útgefendum til hagsbóta. Október.
 5. Frumvarp til laga um viðskiptaleyndarmál.
  Frumvarpið felur í sér ný heildarlög og jafnframt að fellt verði úr gildi ákvæði um atvinnu­leyndar­mál í 16. gr. c laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetn­ingu, nr. 57/2005. Í frumvarpinu eru lögð til ný úrræði til verndar viðskiptaleyndarmálum og lagt til að refsimörk verði hækkuð. Þá er lagt til að eftirlit Neytendastofu verði afnumið. Um er að ræða innleiðingu til­skip­un­ar (ESB) 2016/943 um viðskiptaleyndarmál. Innleiðing.Október.
 6. Frumvarp til laga um ráðstafanir gegn óréttmætri takmörkun á netumferð o.fl.
  Frumvarpið felur í sér innleiðingu á reglugerð (ESB) 2018/302 sem felur í sér sértækar reglur um bann við því að seljendur vöru og þjónustu mismuni kaupendum eftir staðfestu, búsetu eða þjóðerni („geo blocking“). Gildir óháð söluaðferð en tilgangur gerðarinnar er að koma í veg fyrir mismun­un í netviðskiptum. Innleiðing. Október.
 7. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi vörur sem tengjast orkunotkun, nr. 72/1994 (orkumerkingar). 
  Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi vörur sem tengjast orkunotkun, nr. 72/1994, vegna innleiðingar reglugerðar (ESB) 2017/1369 um setningu regluverks um orkumerkingar, sem fellir úr gildi tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2010/30/ESB. Innleiðing.Október.
 8. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, nr. 61/1997 (end­ur­skoðun laga).
  Almenn endurskoðun laga um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins. Nóvember.
 9. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um Neytendastofu, nr. 62/2005, o.fl. (endur­skoð­un stjórn­sýslu neytendamála).
  Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á stjórnsýslu neytendamála. Nóvember.
 10. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum á málefnasviði ferðamála-, iðnaðar- og nýsköp­unar­ráðherra (einföldun regluverks).
  Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar á ýmsum lögum sem snúa að einföldun regluverks og leyfisveitingum. Meðal annars lögum um rétt manna til að kalla sig viðskiptafræðinga eða hagfræð­inga, nr. 27/1981, viðurkenning bókara á grundvelli 43. gr. laga um bókhald, nr. 145/1994, niður­lagn­­ing tryggingardeildar útflutningslána sbr. II. kafli laga nr. 61/1997, breyting á lögum um versl­un­ar­­atvinnu, nr. 28/1998, um frjáls uppboð og ákvæðum um fylgiréttargjald, breyting á lögum um þjóð­fána með því að fella brott leyfisveitingu Neytendastofu fyrir notkun þjóðfánans í vöru­merki sem er skráð hjá Hugverkastofunni, ásamt breytingu á lögum um sölu fasteigna og skipa, nr. 70/2015. Nóvember.
 11. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum er varða úrskurðaraðila á sviði neytenda­mála (ein­föld­un úrskurðarnefnda). 
  Með frumvarpinu er lagt að breyta ýmsum lögum til að afnema skylduaðild fjármálafyrirtækja að úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki og úrskurðarnefnd í vátryggingarmálum. Einnig er lagt til að breyta hlutverki eftirlitsnefndar fasteignasala samkvæmt lögum um sölu fasteigna og skipa, nr. 70/2015, þannig að hún taki ekki lengur til meðferðar einkaréttarlegan ágreining kaupanda eða seljanda fasteignar. Þá er lagt til að gera breytingar á lögum um úrskurðaraðila á sviði neytenda­mála, nr. 81/2019, til að skýra nánar lögsögu lögbundinna og viðurkenndra úrskurðaraðila. Með frum­­­varp­inu er stefnt að því að frjálsar viðurkenndar nefndir geti tekið við hlutverki lögbundinna nefnda. Nóvember.
 12. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um ársreikninga, lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög og lögum um fyrirtækjaskrá (slit, skipti og dag­sekt­ar­ákvæði).
  Frumvarpið felur í sér endurskoðun á ákvæðum um skipti félaga (afskráning) vegna brota á tiltekn­um ákvæðum laga um hlutafélög og laga um einkahlutafélög, sem og sektarákvæðum laga um fyrir­tækjaskrá og laga um ársreikninga, í átt til einföldunar. Unnið í samvinnu við fyrirtækjaskrá og árs­­reikningaskrá. Nóvember.
 13. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 98/2004, um jöfnun kostnaðar við dreifingu raf­orku (verðlagshækkun á jöfnunargjaldi raforku).
  Með frumvarpinu er lagt til að jöfnunargjald raforku verði uppfært til samræmis við verðlagsþróun frá því það var tekið upp árið 2015. Felur í sér 13% hækkun á jöfnunargjaldinu, sem jafngildir 130 millj. kr. aukningu í framlög til jöfnunar dreifikostnaðar raforku í dreifbýli. Nóvember.
 14. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmynda­gerðar á Íslandi, nr. 43/1999 (skilyrði endurgreiðslu o.fl.).
  Með frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögunum sem má rekja til skýrslu Ríkisendur­skoð­unar um endurgreiðslukerfi vegna kvikmyndagerðar. Nóvember.
 15. Frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003 (tekjumörk, ákvörðun rekstrar­kostn­aðar, tilfærsla of- eða vantekinna gjalda o.fl.).
  Ýmsar breytingar sem snúa m.a. að setningu tekjumarka, ákvörðun rekstrarkostnaðar, kerfisáætlun, gjald­skrár­málum, eftirliti með vara­afli o.fl. Nóvember.
 16. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun, nr. 95/2018. 
  Með frumvarpinu verður komið á fót tryggingasjóði sem standi undir tryggingum ferðaskrifstofa vegna endurgreiðslu pakkaferða og heimflutnings ferðamanna við gjaldþrot eða rekstrarstöðvun ferða­­­skipuleggjanda eða ferðasmásala. Nóvember.
 17. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um hlutafélög, nr. 2/1995 (hluthafar og milliliðir). 
  Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um hlutafélög sem varða skráð félög og lúta að deili á hluthöfum, hlutverki milliliða í sendingu upplýsinga frá félagi til hluthafa o.fl. en um er að ræða innleiðingu á tilskipun (ESB) 2017/828 um réttindi hluthafa í skráðum félögum. Innleiðing. Nóvember.
 18. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum á sviði ferðamála (einföldun regluverks og sam­keppnis­mat). 
  Frumvarpinu er ætlað að bregðast við ábendingum Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) í kjölfar samkeppnismats í ferðaþjónustu, m.a. til að einfalda leyfisveitingar í ferðaþjónustu. Mars.
 19. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um einkaleyfi, nr. 17/1991 (EES-reglur). 
  Með frumvarpinu er lagt til að innleiða í íslenskan rétt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/933 sem breytir reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 469/2009 um vottorð um viðbót­ar­­vernd fyrir lyf. Með reglugerðinni er veitt undanþága til að byrja útflutning á samheita­lyfjum út fyrir Evrópska efnahagssvæðið á meðan viðbótarvottorð er í gildi en það mun lengja virkan verndar­tíma einkaleyfis. Innleiðing. Mars.
 20. Frumvarp til laga um breytingu á iðnaðarlögum, nr. 42/1978 (löggiltar iðngreinar).

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem snúa að löggiltum iðngreinum. Frumvarpinu er ætlað að bregðast við ábendingum Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) í kjölfar samkeppnis­mats. Mars.

Félags- og barnamálaráðherra

 1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um mannvirki, nr. 160/2010 (endurskoðun bygg­ing­ar­mála).
  Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um mannvirki til samræmis við tillögur átakshóps um aukið framboð á íbúðum og aðrar aðgerðir til að bæta stöðu á húsnæðismarkaði. Frumvarpið er lið­ur í endurskoðun skipulags- og byggingarmála á grund­velli tillagna átakshópsins. Endurflutt. Október.
 2. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, nr. 80/1938 (Félags­dóm­ur).
  Með frumvarpinu eru lagðar til tilteknar breytingar á IV. kafla laganna er lúta að Félagsdómi en kaflanum hefur lítið verið breytt frá því að lögin voru sett árið 1938. Eru breytingarnar meðal annars lagðar til í ljósi athugasemda GRECO (e. Group of States Against Corruption) í tengslum við skipan dómara við Félagsdóm. Október.
 3. Frumvarp til laga um skrá yfir störf hjá sveitarfélögum sem heimild til verkfalls nær ekki til vegna nauðsynlegustu heilbrigðis- og öryggisþjónustu við íbúa.
  Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði heimild til handa sveitarfélögum til að birta skrá um störf við nauðsynlega heilbrigðis- og öryggisþjónustu við íbúa sveitarfélaganna sem falla undir und­an­þágu frá vinnustöðvun. Tilgangurinn er að tryggja að lífi og heilsu íbúa sveitarfélaga verði ekki ógnað þrátt fyrir verkföll þeirra stéttarfélaga sem gera kjarasamninga skv. lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, nr. 80/1938. Október.    
 4. Frumvarp til laga um fæðingar- og foreldraorlof. 
  Um er að ræða ný heildarlög um fæðingar- og foreldraorlof í kjölfar heildarendurskoðunar á gildandi lögum um sama efni. Meðal annars verður kveðið á um samanlagðan rétt foreldra til 12 mánaða fæðingar­orlofs sem gert er ráð fyrir að taki gildi vegna barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2021 eða síðar, sbr. lög nr. 149/2019, og skiptingu þess réttar á milli for­eldra. Jafnframt verður kveðið á um lengingu á rétti foreldra til fæðingarstyrks. Október.
 5. Frumvarp til starfskjaralaga.
  Frumvarpinu er ætlað að fylgja eftir tillögum sem fram koma í skýrslu samstarfshóps félags- og barnamálaráðherra um félagsleg undirboð og brotastarfsemi á vinnumarkaði en hópurinn skilaði ráð­herra tillögum sínum í janúar 2019. Jafnframt er frumvarpinu ætlað að hrinda í framkvæmd aðgerðum ríkisstjórnarinnar til stuðnings lífskjarasamningum er falla undir málefnasvið félags­mála­ráðu­­neytisins og lúta að vinnumarkaði. Október.       
 6. Frumvarp til laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. 
  Með frumvarpinu er lagt til að sett verði heildarlög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Frumvarpinu er ætlað að kveða á um samvinnu þeirra aðila sem veita þjónustu sem skiptir máli fyrir farsæld barns og marka henni skýran farveg í lögum. Lögð verða til ýmis nýmæli sem eiga að stuðla að betri samfellu og samþættingu í veitingu þjónustu í þágu barna, þ.m.t. félagsþjónustu, menntun, heil­brigðisþjónustu og löggæslu. Meginmarkmiðið er að öll börn og foreldrar sem á þurfa að halda hafi aðgang að samþættri þjónustu við hæfi án hindrana. Október.
 7. Frumvarp til laga um Barna- og fjölskyldustofu. 
  Með frumvarpinu er lagt til að sett verði á laggirnar ný stofnun sem mun sinna verkefnum sem tengjast samþættingu þjónustu og almennri velferðarþjónustu í þágu barna. Lagt er til að stofnunin sjái um uppbyggingu úrræða og yfirstjórn heimila og stofnana fyrir börn sem nú er í höndum Barnaverndarstofu. Þá er lagt til að stofnunin sinni stuðningi við sveitarfélög og aðra þjónustuaðila vegna þjónustu í þágu barna. Október.
 8. Frumvarp til laga um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála.
  Með frumvarpinu er lagt til að sett verði sérstök lög um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála. Lagt er til að styrkja eftirlit með gæðum velferðarþjónustu sem hingað til hefur verið sinnt af ráðuneytis­stofnuninni Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar. Stofnunin mun m.a. fara með eftirlit með gæðum samþættingar þjónustu í þágu barna og eftirlit með barnaverndar­þjón­ustu sem nú er sinnt af Barnaverndarstofu. Október.
 9. Frumvarp til laga um barnavernd. 
  Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun gildandi barnaverndarlaga. Markmið breytinganna er m.a. að samræma ákvæði laga um barnavernd við frumvarp til laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna og styrkja snemmtækan stuðning í þágu barna. Þá verða lagðar til ákveðnar breytingar á stjórnsýslu barnaverndar, einkum hvað varðar skipan barnaverndarnefnda, umdæmi barna­­verndarþjónustu o.fl. Október.
 10. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, nr. 83/2003 (hlut­verk stofnunarinnar og samþætting þjónustu). 
  Með frumvarpinu er ætlunin að leggja til breytingar á gildandi löggjöf um Greiningar- og ráðgjafar­stöð ríkisins. Markmið breytinganna er m.a. að samræma ákvæði laganna við frumvarp til laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Þá verður hlutverk stofnunarinnar aðlagað að þeirri þróun sem orðið hefur innan málaflokksins frá því að lögin tóku gildi. Október.
 11. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum er varða þjónustu í þágu barna (samþætting þjónustu og snemmtækur stuðningur). 
  Með frumvarpinu er ætlunin að gera nauðsynlegar breytingar á ýmsum lögum í því skyni að samræma löggjöf við frumvarp til laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna og styrkja snemmtækan stuðning í þágu barna. Október.
 12. Frumvarp til laga um breytingu á húsaleigulögum, nr. 36/1994 (bætt réttarstaða og húsnæðis­öryggi leigjenda). 
  Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á húsaleigulögum á grundvelli tillagna átakshóps um aukið framboð á íbúðum og aðrar aðgerðir til að bæta stöðu á húsnæðismarkaði. Frumvarpinu er ætlað að bæta réttarstöðu og auka húsnæðisöryggi leigjenda, meðal annars hvað varðar vernd leigjenda þegar kemur að hækkun leigufjárhæðar og réttarstöðu við lok leigusamnings. Október.
 13. Frumvarp til laga um öryggisgæslu og öryggisvistun. 
  Um er að ræða ný lög um öryggisgæslu og öryggisvistun. Markmið laganna er að tryggja þeim sem þurfa á öryggisgæslu og öryggisvistun að halda vegna öryggis síns og/eða annarra, viðeigandi stuðn­ing og tryggja að fyllsta réttaröryggis sé gætt þegar brýna nauðsyn ber til að grípa inn í líf þeirra. Nauðsynlegt þykir að setja ítarlega löggjöf um öryggisgæslu og öryggisvistun en slík löggjöf er ekki fyrir hendi eins og staðan er í dag. Í 14. kafla skýrslu umboðsmanns Alþingis um heimsókn umboðs­manns á Landspítala sem var hluti af OPCAT-eftirliti hans með stöðum þar sem frelsissviptir dvelja vekur umboðsmaður sérstaklega athygli á nauðsyn þess að sett verði nánari lagaákvæði um réttar­stöðu þeirra sem dæmdir eru til ótímabundinnar vistunar á viðeigandi hæli samkvæmt 62. gr. almennra hegningarlaga, og þá í ljósi þeirra hertu krafna sem komið hafa til í stjórnarskrá og með lög­festingu og fullgildingu mannréttindaskuldbindinga hér á landi á síðari árum um vernd persónu­frels­is manna og friðhelgi einkalífs sem kalla á að löggjafinn taki með beinum hætti afstöðu til þess ef skerða á þessi réttindi að því marki sem slíkt er heimilt. Nóvember.
 14. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998 (endurskoðun lána­heim­­ilda).
  Á undanförnum árum hafa verið gerðar veigamiklar breytingar á tilhögun húsnæðismála. Nauð­synlegt er að endurskoða lög um húsnæðismál með hliðsjón af breyttu hlutverki HMS þannig að heim­ild­ir til lánveitinga séu í samræmi við hlutverk stofnunarinnar sem þjónustuveitandi í almanna­þágu. Nóvember.
 15. Frumvarp til laga um umönnunargreiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna. 

Breytingar á tilhögun stuðnings við foreldra og forráðamenn fatlaðra og langveikra barna forráðamenn í samræmi við niðurstöður starfshóps sem var skipaður var til þess að meta reynslu af fram­kvæmd laganna og þörf á breytingum. Einföldun kerfis með sameiningu foreldragreiðslna og umönn­unargreiðslna auk þess sem greiðslur til foreldra taki mið af umönnunarþörf og kostnaði sem er tilkominn vegna fötlunar og veikinda barnsins. Frumvarpinu er ætlað að koma í stað í stað laga nr. 22/2006, og 4. gr. laga um félags­lega aðstoð, nr. 99/2007. Mars.

Fjármála- og efnahagsráðherra

 1. Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2021. Október.
 2. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2021.
  Frumvarpið felur í sér breytingar sem lagðar eru til grundvallar fjárlagafrumvarpi ársins 2021 sem lagt er fram á sama tíma. Frumvarpið verður samið að höfðu samráði við önnur ráðuneyti. Október.
 3. Frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2020.
  Að öllu öðru óbreyttu verður lagt fram í haust fimmta frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2020 en þegar hafa fjögur frumvörp verið lögð fyrir Alþingi til að afla fjárheimilda fyrir sértækum aðgerðum í tengslum við COVID-19. Frumvarpið er lagt fram á grundvelli 26. gr. laga um opinber fjármál þar sem kveðið er á um að fjármála- og efnahagsráðherra sé heimilt, ef þess gerist þörf, að leita aukinna fjárheimilda í frumvarpi til fjáraukalaga til að bregðast við tímabundnum, ófyrirséðum og óhjá­kvæmi­legum útgjöldum innan fjárlagaársins, enda hafi ekki verið unnt að bregðast við þeim með úrræð­­um sem tilgreind eru í lögum um opinber fjármál. Október.
 4. Frumvarp til laga um staðfestingu ríkisreiknings 2019.
  Samkvæmt 58. gr. laga um opinber fjármál skal árlega leggja fram frumvarp til staðfestingar ríkis­reikningi. Í greinargerð með frumvarpinu verður fjallað um niðurstöðutölur reikningsins og gerð grein fyrir frávikum tekna, útgjalda og lánamála frá samþykktum heimildum Alþingis. Október.
 5. Frumvarp til laga um fjárhagslegar viðmiðanir.
  Lagt verður til að reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/1011 um fjárhagslegar viðmið­an­ir verði lögfest. Reglugerðin hefur að geyma reglur um gerð og notkun viðmiðunarvísitalna á borð við EURIBOR sem liggja til grundvallar ýmsum samningum á sviði fjármálamarkaðar. Meðal annars er mælt fyrir um starfsleyfi og starfshætti aðila sem taka saman viðmiðunarvísitölur, aðferða­fræði við vinnslu þeirra og eftirlit. Innleiðing. Október.
 6. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002 (varnarlína um fjár­festingar­bankastarfsemi).
  Lagt verður til að fjárfestingar banka fyrir eigin reikning verðir takmarkaðar við tiltekið hlutfall af eiginfjárgrunni þeirra. Október.
 7. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna hækkunar lágmarksiðgjalds til lífeyr­is­sjóðs og ákvæða um tilgreinda séreign (hækkun lágmarksiðgjalds, tilgreind séreign o.fl.). 
  Með frumvarpinu verða einna helst lagðar til breytingar á lögum sem byggjast á yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar vegna lífskjarasamninga aðila vinnumarkaðarins frá árinu 2019. Lagt verður til að lögfest verði skylda til greiðslu a.m.k. 15,5% af iðgjaldsstofni til lífeyrissjóðs auk þess að lögfest verði ákvæði um svokallaða tilgreinda séreign. Lagt verður til að einstaklingar fái heimild til að ráð­stafa í heild eða að hluta 3,5% af lágmarksiðgjaldi til lífeyrissjóðs í tilgreinda séreign og að einstaklingar fái heimild til að nýta þá séreign, samhliða viðbótarlífeyrissparnaði, til kaupa á fyrstu íbúð, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Einnig verður lagt til að lífeyrissjóðum verði heimilt að senda yfirlit og upplýsingar til sjóðfélaga með rafrænum hætti á vefnum Ísland.is. Október.
 8. Frumvarp til laga um reglubundna og viðvarandi upplýsingaskyldu útgefenda verðbréfa.
  Með frumvarpinu eru lögð til ný heildarlög um gagnsæi í tengslum við upplýsingar um útgefendur verðbréfa sem eru skráð á skipulegan markað með brottfalli viðeigandi ákvæða laga um verðbréfa­við­skipti, nr. 108/2007. Frumvarpið felur einnig í sér innleiðingu á tilskipun 2013/50/ESB sem kveður á um breytingar á tilskipun 2004/109/EB (gagnsæistilskipuninni), með síðari breyting­um. Innleiðing. Október.
 9. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna samsköttunar félaga, takmörkunar á frádrætti vaxtagjalda og skattlagningar útsendra starfsmanna (samsköttun og erlent vinnu­afl).
  Frumvarpið felur í sér ýmsar nauðsynlegar breytingar á lögum um tekjuskatt og lögum um stað­greiðslu opinberra gjalda, m.a. vegna athugasemda frá Eftirlitsstofnun EFTA vegna samskött­un­ar félaga og heimildar til frádráttar endanlegs taps frá tekjum af atvinnurekstri. Þá er í frumvarpinu að finna tillögu sem samræmist skuldbindingum Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahags­svæðið án þess þó að koma niður á eðlilegri fjármögnun samstæðna sem ekki beinist að því að takmarka skattgreiðslur vegna brottfalls b-liðar 3. mgr. 57. gr. b laga um tekjuskatt þann 1. janúar 2019, sbr. nefndarálit meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar á 148. löggjafarþing 2017–2018, þingskjal 110 – 3. mál. Þá eru lagðar til breytingar á skattskyldu í tengslum við útleigu á vinnuafli eða annars konar vinnuframlag starfsmanna erlendra aðila hér á landi en þörf er á að útvíkka og skil­­greina enn frekar ábyrgð innlendra aðila á skattskilum starfsmanna erlendra aðila vegna vinnu hér á landi, sbr. nefndarálit efnahags- og viðskiptanefndar á 148. löggjafarþing 2017–2018, þskj. 1149, 561. mál. Endurflutt. Október.
 10. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003 (milliverðlagning).
  Með frumvarpinu verða m.a. lagðar til breytingar í þá veru að uppfylli skjölunarskyldur lögaðili ekki kröfur laganna varðandi skjölun á ákvörðun milliverðlagningar skuli hann sæta sekt. Endurflutt. Október.
 11. Frumvarp til laga um stafrænt pósthólf.
  Með frumvarpinu er stefnt að því að útbúa almennan lagagrundvöll fyrir stafrænu pósthólfi á Ísland.is í samræmi við stefnu um að byggja upp samræmda þjónustugátt þar sem landsmenn geti á einum stað nálgast þjónustu hins opinbera og sinnt þeim erindum sem beinast að stjórnvöldum. Með frum­varpinu verður jafnframt staðfest að stafræn þjónusta skuli vera meginleið samskipta milli hins opin­bera, almennings og fyrirtækja. Október.
 12. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001 (takmarkanir á notkun verðtryggingar í lánssamningum til neytenda).
  Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 36/2001, sem byggjast á yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um markviss skref til afnáms verðtryggingar frá 3. apríl 2019 sem er liður í aðgerðum ríkistjórnarinnar til stuðnings svokallaðs lífskjarasamnings aðila vinnu­mark­að­arins. Í yfirlýsingunni koma fram sjö aðgerðir sem ríkisstjórnin mun beita sér fyrir til afnáms verðtryggingar. Frumvarp þetta fjallar um þrjár fyrstu aðgerðirnar, þ.e. takmarkanir á hámarks- og lágmarkstíma verðtryggðra jafngreiðslulána og að vísitala neysluverðs án húsnæðis verði grundvöllur verðtryggingar. Október.
 13. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heims­farald­­urs kórónuveiru, nr. 38/2020 (lokunarstyrkir). 
  Með frumvarpinu verður lagt til að þeir atvinnurekendur sem hafa þurft að loka, eða láta af starfsemi eða þjónustu, vegna fyrirmæla heilbrigðisráðherra um takmarkanir á samkomum vegna farsóttar, frá og með 17. september 2020, geti sótt um lokunarstyrk. Október.
 14. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um opinber fjármál, nr. 123/2015 (skilyrði um heild­ar­­jöfnuð og skuldahlutfall). 
  Með frumvarpinu verður lagt til að ráðherra verði tímabundið heimilt að víkja frá skilyrðum um heildarjöfnuð og skuldahlutfall hins opinbera árin 2023–2025. Október.
 15. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum á vátryggingamarkaði o.fl. (stjórnar­menn og fram­kvæmdastjóri, kröfur um hæfi, búsetuskilyrði o.fl.).
  Frumvarpið felur í sér breytingar á ýmsum lögum á vátryggingamarkaði. Meðal annars eru lagðar til breytingar á lögum um vátryggingastarfsemi, nr. 100/2016, lögum um dreifingu vátrygginga, nr. 62/2019, lögum um vátryggingasamninga, nr. 30/2004 og lögum um viðbótareftirlit með fjár­mála­­sam­steypum, nr. 61/2017. Breytingum frumvarpsins er ætlað að auka skýrleika, endur­spegla betur texta viðkomandi Evrópugerða sem lagabálkarnir byggjast á og samræma skilyrði og kröfur, þ.m.t. um hæfi og hæfni stjórnarmanna og framkvæmdastjóra, við aðra lagabálka á fjármála­markaði. Frum­varpinu er einnig ætlað að komna til móts við athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA, meðal annars um búsetuskilyrði, afmörkun a virkum eignarhlut og lagaskilum við endurskipulagningu og slit. Nóvember.
 16. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfa­fyrir­tækja, nr. 70/2020 (forgangsröð krafna við skila- og slitameðferð).
  Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar og viðbætur við lög um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, nr. 70/2020, og afleidd breyting á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Breytingunum er ætlað að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/2399 um rétt­hæð ótryggðra skuldagerninga í réttindaröð við ógjaldfærnimeðferð. Frumvarpið útfærir nánar ákvæði 3. mgr. 102. gr. laga um fjármálafyrirtæki um rétthæð krafna við slitameðferð og kveður á um nýja forgangsröð tiltekinna krafna sem skal gilda við skila- og slitameðferð og verður til fyllingar þeim almennu reglum um rétthæð krafna sem kveðið er á um í XVII. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991. Innleiðing. Nóvember.
 17. Frumvarp til laga um markaði fyrir fjármálagerninga.
  Með frumvarpinu, sem felur í sér innleiðingu í íslenskan rétt á tilskipun 2014/65/ESB og reglugerð (ESB) nr. 600/2014 um markaði fyrir fjármálagerninga (MiFID II/MiFIR), er lagt til að sett verði ný heildarlögum markaði fyrir fjármálagerninga. Um nokkuð umfangsmikla breytingu er að ræða á gildandi rétti sem felur m.a. í sér að lög um kauphallir, nr. 110/2007, verða felld brott og töluverðar breytingar verða gerðar á lögum um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, og lögum um fjármála­fyrir­tæki, nr. 161/2002. Gerðirnar voru teknar upp í EES-samninginn 29. mars 2019 með ákvörðun sam­eig­in­­­legu EES-nefndarinnar nr. 78/2019. Innleiðing. Nóvember.
 18. Frumvarp til laga um markaðssvik.
  Með frumvarpinu er lagt til að sett verði ný heildarlög um markaðssvik og að XII.–XIII. kafli laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, um sama efni verði felldir brott. Frumvarpið felur í sér að reglu­­gerð (ESB) nr. 596/2014 um markaðssvik, sem ætlað er að koma í stað eldri tilskipana ESB á sama sviði sem teknar voru upp í íslenskan rétt með lögum um verðbréfaviðskipti, verði veitt laga­gildi hér á landi. Innleiðing. Nóvember.
 19. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (skattalegt heimilis­festi, tollafgreiðsla, bifreiðagjald, aukatekjur ríkissjóðs o.fl.).
  Með frumvarpinu eru lagðar til nauðsynlegar leiðréttingar og breytingar á ýmsum lögum um skatta og gjöld. Hér er m.a. um að ræða nauðsynlegar leiðréttingar og samræmingu vegna breytinga sem átt hafa sér stað í öðrum lögum, skattalegt heimilisfesti, tollafgreiðslu, gjald fyrir löggildingu nokk­urra starfsstétta, meðhöndlun brota á sviði tollamála og smávægilegar breytingar á lögum um bif­reiða­gjald o.fl. Nóvember.
 20. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og lögum um staðgreiðslu skatts á fjár­magnstekjur (stofn fjármagnstekjuskatts).
  Með frumvarpinu er ráðgert að endurskoða stofn fjármagnstekjuskatts sem m.a. felur í sér möguleika á að færast nær því að skattleggja raunávöxtun. Nóvember.
 21. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988 (fjármálaþjón­usta o.fl.).
  Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar er varða undanþágu fjármálastarfsemi frá virðisauka­skatti og eftir atvikum mun samhliða fara fram skoðun á þeim ákvæðum laganna er varða kaup og sölu á fjármálaþjónustu milli landa. Nóvember.
 22. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um tryggingagjald, nr. 113/1990 (fyrirkomulag trygg­­­­inga­­­gjalds).
  Í frumvarpinu er að finna breytingar sem varða endurskoðun á fyrirkomulagi tryggingagjaldsins og hlut­deild vinnumarkaðssjóðanna og almannatrygginga í gjaldinu. Nóvember.
 23. Frumvarp til laga um breytingu á lögum er varða rannsókn og saksókn í skattalagabrotum (tvö­­föld refsing).
  Með frumvarpinu, sem byggist á tillögum vinnuhóps, verða lagðar til þær breytingar á efnisreglum, stofn­anauppbyggingu og samstarfi sem dugi til þess að tvöföldum refsingum verði ekki beitt í mála­flokki skattamála. Nóvember.
 24. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (þriðji geirinn).
  Í samræmi við tillögur starfshóps er með frumvarpinu lögð til útvíkkun á skattalegum hvötum og lögfesting nýrra til að styrkja starfsemi þriðja geirans sem m.a. snýr að íþróttafélögum, björgunar­sveit­­um, góðgerðarfélögum og mannúðarsamtökum. Nóvember.
 25. Frumvarp til laga um sérleyfissamninga vegna afnota af landi í eigu ríkisins.
  Með frumvarpinu er ætlunin að marka ramma utan um undirbúning, gerð og eftirfylgni með samning­um um sérleyfi vegna nýtingar á landsvæðum í eigu ríkisins. Nóvember.
 26. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um afleiðuviðskipti, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár, nr. 15/2018 (EMIR Refit).
  Með frumvarpinu er lagt til að reglugerð (ESB) 2019/834 (EMIR Refit) verði veitt lagagildi hér á landi. Reglugerðin breytir reglugerð (ESB) nr. 648/2012 um OTC-afleiður, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár (EMIR) sem veitt var lagagildi hér á landi með lögum um sama efni, nr. 15/2018. Frumvarpið felur í sér að dregið er úr ýmsum kröfum sem gerðar eru til ófjárhagslegra mótaðila og minni fjárhagslegra mótaðila sem stunda afleiðuviðskipti. Auk þess eru rekstraraðilar sérhæfðra sjóða samkvæmt lögum um rekstraraðila sérhæfðra sjóða felldir undir skilgreiningu lag­anna á fjár­hags­legum mótaðila. Innleiðing. Desember.
 27. Frumvarp til laga um lykilupplýsingaskjöl fyrir pakkaðar og vátryggingatengdar fjárfest­ing­ar­­afurðir fyrir almenna fjárfesta.
  Frumvarpið felur í sér innleiðingu í íslenskan rétt á reglugerð (ESB) nr. 1286/2014 um lykil­upplýs­inga­skjöl fyrir pakkaðar og vátryggingatengdar fjárfestingarafurðir fyrir almenna fjár­festa. Með reglu­gerðinni er í fyrsta sinn settur samræmdur rammi um lykilupplýsingaskjöl fyrir pakk­­­aðar og vátryggingatengdar fjárfestingarvörur fyrir almenna fjárfesta. Innleiðing. Desember.
 28. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um ríkisábyrgðir og lögum um lánasýslu ríkisins (end­­ur­­skoðun).
  Með frumvarpinu er stefnt að því endurskoða lagaákvæði um lánaumsýslu ríkissjóðs og ríkis­ábyrgð­ir. Undir lánaumsýslu falla m.a. tekin lán ríkissjóðs, endurlán, ábyrgðir, afleiður, áhættu­stýr­ing og sjóðsstýring. Meginmarkmið frumvarpsins er að samræma löggjöfina gildandi lögum um opin­ber fjármál og stefnu í lánamálum. Janúar.
 29. Frumvarp til laga um verðbréfasjóði.
  Frumvarpið felur í sér innleiðingu í íslenskan rétt á tilskipun 2014/91/ESB um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum að því er varðar verðbréfasjóði (UCITS V) og tilskipun 2010/78/ESB (Omnibus I) að því er varðar verðbréfasjóði og starfstengda lífeyrissjóði. Um er að ræða heildar­end­ur­skoðun á núgildandi lögum um verðbréfasjóði, fyrst og fremst til innleiðingar á framan­greindum tilskipunum þar sem eru nýmæli varðandi vörsluaðila verðbréfasjóða, starfs­kjara­stefnu rekstrar­fél­aga, auk samræmingar á lágmarksvaldheimildum eftirlitsaðila. Innleiðing. Janúar.
 30. Frumvarp til laga um gjaldeyrismál.
  Frumvarpið er afrakstur vinnu starfshóps sem fjármála- og efnahagsráðherra skipaði haustið 2019. Starfshópnum var falið að ráðast í heildarendurskoðun á lögum um gjaldeyrismál, nr. 87/1992 og lög um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum, nr. 37/2016. Í frumvarpinu er lagt til að lögfest verði ný heildarlög um gjaldeyrismál, sem þó byggjast í meginatriðum á sömu sjónarmiðum og gildandi lög. Lagt er til að gjaldeyrisviðskipti, fjármagnshreyfingar og greiðslur milli landa skuli vera frjáls og án takmarkana nema það valdi óstöðugleika í gengis- og peninga­mál­um. Í frumvarpinu er að finna tillögur að takmörkunum á gjaldeyrisviðskiptum sem eru af tvennum toga: annars vegar takmarkanir í þágu þjóðhagsvarúðar og hins vegar verndunar­ráðstafanir/höft við sér­stakar aðstæður. Janúar.
 31. Frumvarp til laga um greiðsluþjónustu. 
  Frumvarpið felur í sér innleiðingu í íslenskan rétt á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/2366 um greiðsluþjónustu á innri markaðnum. Megintilgangur fyrirhugaðs frumvarps er að auka samkeppni á sviði greiðsluþjónustu, efla eftirlit með nýjum aðilum á greiðsluþjónustumarkaði og efla upplýsingaöryggi og neytendavernd. Innleiðing. Janúar.
 32. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um yfirskattanefnd, nr. 30/1992 (nefndarmenn).
  Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar á þeim fjölda nefndarmanna sem skipaðir eru til að sitja í yfirskattanefnd og taka þátt í að úrskurða í einstökum málum. Janúar.
 33. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um ökutækjatryggingar, nr. 30/2019 (viðurlög o.fl.)
  Lög um ökutækjatryggingar, nr. 30/2019, tóku gildi 1. janúar 2020 samhliða gildistöku umferðar­laga, nr. 77/2019. Nokkur reynsla er komin á framkvæmd laganna og hafa ráðuneytinu borist ábend­ing­ar frá hagsmunaaðilum um atriði sem nauðsynlegt væri að taka til endurskoðunar. Frum­varp­inu er ætlað að bregðast við þeim ábendingum og athugasemdum sem borist hafa þannig að tryggja megi skilvirka réttarframkvæmd. Febrúar.
 34. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002 (CRD og CRR).
  Lagðar verða til breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, til að ljúka innleiðingu tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2013/36/ESB um stofnun og starfsemi fjármálafyrirtækja og varfærniseftirlit með þeim (CRD IV) og reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 575/2013 um varfærniskröfur vegna starfsemi lánastofnana og fjárfestingarfyrirtækja (CRR), með síðari breyting­um. Innleiðing. Febrúar.
 35. Frumvarp til laga um breytingu á tollalögum, nr. 88/2005 (persónuupplýsingar, aðgerðir gegn peninga­þvætti o.fl.).
  Í frumvarpinu verða lagðar til breytingar á tollalögum er snúa að meðferð persónuupplýsinga og aðgerðum gegn peningaþvætti. Febrúar.
 36. Frumvarp til laga um opinberar framkvæmdir og fasteignaumsýslu ríkisins.
  Með frumvarpinu verður lögð til ný heildarlöggjöf um skipan opinberra framkvæmda og fasteigna­um­sýslu ríkisins. Frumvarpið mun hafa að geyma ákvæði um hagkvæmnismat, áhættu­grein­ingu og gæða­tryggingu auk ákvæða um fjárfestingaráætlun og breytta skipan stofnana. Frum­­varpið mun jafn­framt fela í sér breytingu á lögum um skipan opinberra framkvæmda, nr. 84/2001, og lögum um Jarða­sjóð, nr. 34/1992. Febrúar.
 37. Frumvarp til laga um breytingu á tollalögum, nr. 88/2005 (aðstaða til tolleftirlits).
  Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar á tollalögum sem varða aðstöðu til tolleftirlits. Mars.
 38. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003 (skattlagning tekna erlendra lögaðila í lágskattaríkjum).
  Frumvarpið felur í sér nauðsynlegar breytingar á lögum um tekjuskatt vegna skattlagningar tekna erlendra lögaðila í lágskattaríkjum. Mars.
 39. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988 (byggingastarfsemi, almenningssamgöngur o.fl.).
  Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar á ákvæðum laganna er varða byggingastarfsemi, almenn­­ings­samgöngur o.fl. Mars.
 40. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003 (nýsköpun).
  Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar sem byggja m.a. á aðgerðartillögum verkefnahóps um mótun nýsköpunarstefnu. Mars.
 41. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda (takmörkuð skattskylda).
  Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar sem fela í sér endurskoðun á skattlagningu aðila með tak­markaða skattskyldu. Mars.
 42. Tillaga til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2021–2025. 
  Samkvæmt 5. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, skal ráðherra leggja fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun til næstu fimm ára hið skemmsta. Fjármálaáætlunin skal byggð á fjármálastefnu skv. 4. gr. og skilyrðum hennar skv. 7. gr. laganna. Alþingi samþykkti í júní 2020 að þrátt fyrir ákvæði 5. gr. laganna skuli tillaga til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2021– 2025 lögð fram eigi síðar en á samkomudegi reglulegs Alþingis haustið 2020. Október.
 43. Tillaga til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2022–2026. 

Samkvæmt 5. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, skal ráðherra leggja fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun til næstu fimm ára hið skemmsta. Fjármálaáætlunin skal byggð á fjármálastefnu skv. 4. gr. og skilyrðum hennar skv. 7. gr. laganna. Mars.

Heilbrigðisráðherra

 1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um lífsýnasöfn og söfn heilbrigðisupplýsinga og lögum um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði (aðgangur að heil­brigð­is­­gögnum).
  Eitt af stefnumiðum heilbrigðisstefnunnar er að gagnagrunnar og lífsýnasöfn innan heilbrigðis­kerfis­ins séu opin og aðgengileg vísindamönnum sem öðlast hafa tilskilin leyfi til vísindarannsókna. Með núverandi lögum er aðgengi vísindamanna að gagnagrunnum og lífsýna­söfn­um innan heil­brigð­is­kerfisins ekki nægilega vel tryggt til þess að stuðla að framangreindu stefnu­miði heilbrigðis­stefn­unnar. Með frumvarpinu er stefnt að því að ná því markmiði að gagna­grunn­ar og líf­sýnasöfn inn­­an heilbrigðiskerfisins verði opin og aðgengileg vísindamönnum sem hafa til­skil­in leyfi. Október.
 2. Frumvarp til laga um lækningatæki. 
  Frumvarpið felur í sér innleiðingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/745, (ESB) 2017/746 og (ESB) 2020/561, um lækningatæki. Um er að ræða frumvarp til nýrra heildarlaga um lækningatæki. Með frumvarpinu er skerpt á þeim kröfum sem lækningatæki þurfa almennt að uppfylla. Gerðar eru auknar kröfur til framleiðanda lækningatækja, m.a. varðandi eftirfylgni með lækningatækjum á markaði. Auknar kröfur eru gerðar til klínískra rannsóknar, m.a. um gæði gagna og aðgang að gögn­um. Þá verður með frumvarpinu sett upp auðkenniskerfi í þeim tilgangi að geta rakið lækninga­tækið, m.a. til að koma í veg fyrir fölsuð tæki. Innleiðing. Endurflutt. Október.
 3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um slysatryggingar almannatrygginga, nr. 45/2015 (ýmsar breytingar). 
  Frumvarpið felur í sér endurskoðun á slysahugtaki laganna og ákvæðum laganna er varða bótarétt vegna slysa við ferðir til og frá vinnu auk þess sem afmarka þarf hugtök og atvinnusjúkdóma. Jafn­framt verður lagt til að kveðið verði með skýrari hætti á um það á hvers konar örorkumati varanleg örorka slysatrygginga almannatrygginga byggist. Nóvember.
 4. Frumvarp til laga um breytingu á sóttvarnalögum, nr. 19/1997 (opinberar sóttvarna­ráð­staf­an­­ir). 
  Endurskoðun á IV. kafla laganna um opinberar sóttvarnaráðstafanir á grundvelli fenginnar reynslu. Lagt er til að skýra betur þau úrræði sem sóttvarnalæknir og ráðherra geta gripið til vegna hættu á far­sóttum til eða frá Íslandi, innan lands og hættu á útbreiðslu smits frá einstaklingum. Janúar.
 5. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999 (hlutverk og fjöldi færni- og heilsumatsnefnda).
  Með frumvarpinu verður lagt til að fækka færni- og heilsumatsnefndum úr sjö í eina. Febrúar.
 6. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974 (varsla). 
  Frumvarpið felur í sér breytingu á ákvæði laganna um vörslu og meðferð á þann hátt að heimila vörslu ávana- og fíkniefna sem teljast til eigin nota. Febrúar.
 7. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um sjúklingatryggingu, nr. 111/2000 (tryggingar í lyfja­­rannsóknum).
  Frumvarpið felur í sér útvíkkun á tryggingarvernd laga um sjúklingatryggingu, nr. 111/2000, þannig að verndin nái yfir þátttakendur í klínískum lyfjarannsóknum á heilbrigð­is­stofnunum þar sem rann­sak­endur eru ekki með bakhjarl. Febrúar.
 8. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007 (kvörtun til land­læknis). 
  Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar á ákvæðum laganna sem snúa að kvörtunum vegna heilbrigðis­þjónustu. Lagt er til að skýra nánar tilgang ákvæðanna og málsmeðferð í kvörtunar­mál­um. Febrúar.
 9. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997 (þvinguð meðferð, inn­grip og önnur valdbeiting). 
  Frumvarpið felur í sér nánari skýringu á hugtakinu meðferð og hvað telst til þvingana. Bætt verður við ákvæðum um málsmeðferð vegna ákvarðana um þvingaða meðferð. Mars.
 10. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur, nr. 87/2018 (nikótín­vörur, eftirlit o.fl.). 
  Með frumvarpinu verða annars vegar lagðar til breytingar varðandi rafrettur í þeim tilgangi að skýra frekar eftirlit með auglýsingabanni því sem kveðið er á um í lögunum. Jafnframt verður sá hluti laganna endurskoðaður er lýtur að almennum eftirlits- og valdheimildum. Hins vegar verða lögð til ný­mæli til að koma á sambærilegri umgjörð um innflutning, sölu og eftirlit með nikótínvörum, m.a. nikótín­púðum, á Íslandi með hliðsjón af þeim reglum er gilda í Evrópu, sér í lagi á Norðurlöndunum. Mars.
 11. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974 (iðnaðarhampur). 
  Frumvarpið felur í sér breytingu á ákvæði um ræktun og framleiðslu iðnaðarhamps. Mars.
 12. Tillaga til þingsályktunar um stofnun landsráðs um mönnun og menntun í heilbrigðiskerfinu.
  Landsráði um mönnun og menntun í heilbrigðiskerfinu er ætlað að vera ráðgefandi vettvangur um mönnun heilbrigðisþjónustunnar og menntun heilbrigðisstétta, þannig að nægur fjöldi hæfs starfs­fólk í heilbrigðiskerfinu sé tryggður til framtíðar og menntun fullnægi þörfum heilbrigðis­þjón­ust­­unnar hverju sinni. Svo mögulegt sé að tryggja að viðeigandi færni sé til staðar í heilbrigðis­kerf­inu þurfa háskólar, heilbrigðisstofnanir og tengdar stofnanir að hafa með sér skipulagt samráð. Mars.
 13. Tillaga til þingsályktunar um lýðheilsustefnu.

Með vísan til þingsályktunar um heilbrigðisstefnu til ársins 2030 verður lögð fram tillaga til þingsályktunar um lýðheilsustefnu í því skyni að halda áfram með þá vegferð sem lögð var fram í lýðheilsustefnu frá 2016, en með henni var mótaður fyrsti hluti stefnu og aðgerða sem stuðla að heilsueflandi samfélagi og bættri lýðheilsu á öllum aldursskeiðum. Í nýrri lýðheilsustefnu verður lögð megináhersla á heilsueflingu og forvarnir sem skulu verða hluti af allri þjónustu, sérstaklega hjá heilsugæslunni. Mars.

Mennta- og menningarmálaráðherra

 1. Frumvarp til laga um breytingu á höfundalögum, nr. 73/1972, (tak­mark­­anir á einkarétti höf­unda til hagsbóta fyrir einstaklinga með sjón- eða lestrar­höml­un). 
  Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/1564 frá 13. september 2017 um sérstök leyfileg afnot verka og annars efnis verndað af höfundarétti og skyldum réttindum í þágu einstaklinga sem eru blindir, sjónskertir eða geta ekki fært sér prentað mál í nyt, sem felur í sér innleiðingu á svo­nefnd­­­um Marakess-samningi um aðgengi sjónskertra að útgefnu efni frá 27. júní 2013 og breytir til­skipun 2001/29/EB um samræmingu á tilteknum þáttum höfundaréttar og skyldra réttinda í upp­lýs­­inga­­samfélaginu, felur í sér að gera þarf tilteknar breytingar á höfundalögum. Innleiðing. Október.
 2. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011 (stuðningur við rekstur einka­­rekinna fjölmiðla). 
  Frumvarpið felur í sér ýmsar aðgerðir sem ætlað að styðja við rekstur einkarekinna fjölmiðla, þ.m.t. tímarita, enda hafi þeir hlutverki að gegna í samfélaginu við að efla samfélagslega umræðu, tján­ing­ar­frelsi og lýðræðisþátttöku almennings með miðlun frétta, fréttatengds efnis og um sam­fél­ags­mál. Endurflutt. Október.
 3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um listamannalaun, nr. 57/2009 (tímabundin fjölgun starfslauna). 
  Frumvarpið felur í sér ákvæði til bráðabirgða þess efnis að samanlögðum starfslaunum árið 2021 verði fjölgað tímabundið úr 1.600 mánaðarlaunum í 2.150 mánaðarlaun. Október.
 4. Frumvarp til laga um stuðning vegna rekstrartaps menningartengdra fyrirtækja og sjálfstætt starfandi listamanna vegna heimsfaraldurs kórónuveiru (tímabundinn stuðningur). 
  Frumvarpið felur í sér stuðning við hóp þeirra sjálfstætt starfandi listamanna og menningartengdra fyrirtækja, sem uppfylla ákveðin skilyrði og verða enn fyrir miklum tekjusamdrætti vegna heimsfaraldurs og fyrri aðgerðir stjórnvalda hafa ekki nægilega náð til. Október.
 5. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum á málefnasviði mennta- og menningar­mála (heimildir til vinnslu persónuupplýsinga). 
  Breytingar á ýmsum lögum vegna heimilda til vinnslu persónuupplýsinga vegna gildistöku laga um persónu­vernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018. Nóvember.
 6. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, nr. 23/2013 (upplýsingaréttur almennings). 
  Frumvarpið felur í sér breytingar á upplýsingaákvæði 2. mgr. 18. gr. laga um Ríkisútvarpið. Tilefnið er álit Umboðsmanns Alþingis nr. 10319/2019 vegna túlkunar úrskurðarnefndar upplýsingamála um Ríkis­útvarpið, fjölmiðil í almannaþágu. Nóvember.
 7. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um háskóla og lögum um opinbera háskóla (aðgangs­skilyrði að námi í háskóla).
  Með frumvarpinu er ætlað jafna stöðu nemenda sem hafa lokið list,- tækni- og starfsnámi af þriðja hæfni­þrepi og þeirra, sem lokið hafa stúdentsprófi, til inngöngu í háskóla. Lagt er til að ekki verði lengur gert ráð fyrir þeirri kröfu að horft verði til stúdentsprófs sem aðalinntökuskilyrðis, en innihald stúdentsprófs hefur breyst í kjölfar innleiðingar aðalnámskrár framhaldsskóla árið 2011. Með frum­varp­inu eru háskólar einnig hvattir til að móta skýr aðgangsviðmið fyrir nám í einstökum deild­um. Nóvember.
 8. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011 (hljóð- og mynd­miðl­unar­þjón­­usta). 
  Frumvarpið felur í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins frá 14. nóvember 2018 nr. (ESB) 2018/1808 um breytingu á tilskipun 2010/13/ESB um samræmingu tiltekinna ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum í aðildarríkjunum um hljóð- og myndmiðlunarþjónustu. Innleiðing. Febrúar.
 9. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum á málefnasviði mennta- og menn­ingar­mála (samnings­gerð við einka­rekna aðila). 
  Breytingar á ýmsum lögum vegna laga um opinber fjármál, nr. 123/2015. Febrúar.
 10. Tillaga til þingsályktunar um menntastefnu Íslands til ársins 2030
  Menntun er lykilforsenda þess að Íslandi mæti áskorunum framtíðarinnar og skapi úr þeim ný tækifæri til að efla samfélagið. Markmið menntastefnu til ársins 2030 er að menntakerfið verði fram­úr­­skarandi og að Ísland verði eftirsóknarverður áfangastaður til náms og vinnu. Október.
 11. Tillaga til þingsályktunar um menningarstefnu Íslands til ársins 2030

Tillögu að nýrri menningarstefnu er ætlað að nýtast stjórnvöldum og Alþingi við frekari umræðu um menn­ingarmál, til stefnumótunar á afmörkuðum sviðum og ákvarðanatöku. Vonast er til að sam­þykkt menningarstefna verði hvatning þeim fjölmörgu sem vinna á sviði íslenskrar menningar til að vanda til verka og horfa til framtíðar við ákvarðanir og áætlanagerð. Febrúar.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra

 1. Frumvarp til laga um leigubifreiðaakstur.
  Frumvarpið felur í sér nýja heildarlöggjöf um leigubifreiðaakstur hér á landi. Markmið frumvarpsins er að auka frelsi á leigubifreiðamarkaðnum og tryggja örugga og góða þjónustu. Endurflutt. Október.
 2. Frumvarp til laga um íslensk landshöfuðlén.
  Markmið frumvarpsins er að stuðla að öruggum, hagkvæmum og skilvirkum aðgangi að íslenskum lands­höfuðlénum og styrkja tengsl þeirra við Ísland, með því að kveða á um örugga, gegnsæja og skilvirka umsýslu þeirra. Lagt er til að settar verði skýrar lágmarksreglur um skráningu léna undir lands­höfuðléninu .is og skráningarstofu þess. Endurflutt. Október.
 3. Frumvarp til laga um fjarskipti.
  Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun gildandi regluverks á sviði fjarskipta með innleiðingu nýrra EES-gerða í landsrétt. Á sameiginlegum innri markaði Evrópu er rík áhersla lögð á einsleitni og samræmingu, af hálfu bæði stofnana ESB og EES- og EFTA-ríkjanna sjálfra. Því er brýnt að upp­­færa gildandi efnisreglur á sviði fjarskipta og tryggja viðeigandi framkvæmd þeirra hér á landi. Innleiðing. Endurflutt. Október.
 4. Frumvarp til skipalaga.
  Frumvarp til nýrra heildarlaga um skip sem mun taka við af a.m.k. þremur eldri lagabálkum. Með frum­varpinu er stefnt að því að einfalda regluverk og fella brott úrelt ákvæði. Október.
 5. Frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum og lögum um tekjustofna sveitar­félaga (lágmarksíbúafjöldi sveitarfélags).
  Frumvarpinu, sem felur í sér ákvæði um lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga og aðrar breytingar á sveit­ar­stjórnarlögum sem tengjast sameiningum sveitarfélaga, er ætlað að auka sjálfbærni sveitarfélaga og tryggja getu þeirra til að annast lögbundin verkefni. Markmiðið er að ná fram fyrsta lið aðgerðaráætlunar sem fram kemur í þingsályktun nr. 21/150, um stefnumótandi áætlun í málefn­um sveitarfélaga fyrir árin 2019–2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019–2023. Október.
 6. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um Innheimtustofnun sveitarfélaga, nr. 54/1971, o.fl. (tilfærsla verkefna).
  Tilgangur frumvarpsins er að mæla fyrir um nauðsynlegar lagabreytingar vegna tilfærslu verkefna Innheimtustofnunar sveitarfélaga yfir til Tryggingarstofnunar ríkisins. Ávinningur slíkrar breyt­ingar felst m.a. í einföldun á verkskiptingu ríkis og sveitarfélaga, skýrari stjórnsýslulegri ábyrgð, tækifæri til einföldunar á framkvæmd innheimtu meðlaga auk þess sem verulegur fjárhags­leg­ur ávinn­ingur mun verða af tilfærslunni, samkvæmt niðurstöðu greiningar sem unnin var af KPMG um verk­efna­flutn­­inginn. Október.
 7. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um skráningu einstaklinga, nr. 140/2019 (andvana fædd börn og heildarafhending þjóðskrár). 
  Markmið frumvarpsins er að gera tvær breytingar á lögunum. Annars vegar að fresta gildistöku ákvæðis um bann við heildarafhendingu Þjóðskrár frá 1. janúar 2021 til 1. júní 2022. Hins vegar að tryggja lagastoð undir framkvæmd við að gefa andvana fæddum börnum, sem fæðast eftir 22. viku með­göngu, kerfiskennitölu.      Október.
 8. Frumvarp til laga um samhæfingu áætlana á sviði samgöngu-, fjarskipta-, sveitarstjórnar- og byggðamála. 
  Markmið frumvarpsins er að taka næsta skref í samhæfingu áætlana á málefnasviði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins en fyrsta skrefið var tekið með lögum nr. 53/2018. Í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti eru þrjú meginsvið sem leggja grunn að innviðum og þjónustu í samfélag­inu: sveitarstjórnar- og byggðamál, samgöngur, og fjarskipti. Þessi svið mynda eina heild þar sem starfsemi eins hefur mikil áhrif á hin. Með því að samræma og samhæfa stefnur og áætlanir á þessum sviðum gefst kostur á að hámarka árangur og jákvæð áhrif stefnumörkunarinnar, enda verði tekið mið af tengdum málefnum og horft lengra en til sérstakra verkefna einstakra málaflokka. Október.
 9. Frumvarp til laga um breytingu á hafnalögum, nr. 61/2003 (EES-reglur, gjaldtaka o.fl.). 
  Frumvarpið er liður í að innleiða reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/352 um að setja ramma um veitingu hafnarþjónustu og reglur um gagnsæi í fjármál­um fyrir hafnir. Reglugerðin var tekin upp í EES-samninginn 8. maí 2019. Jafnframt verður skoðað ákvæði hafnalaga er lýtur að gjöldum vegna fiskeldis. Innleiðing. Nóvember.
 10. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um farþegaflutninga og farmflutninga á landi, nr. 28/2017 (sektarákvæði o.fl.). 
  Lagt verður til að rekstraraðila reglubundinna farþegaflutninga verði heimilt að leggja févíti á þá farþega sem virða ekki reglur um greiðslu fargjalds, aðgangstakmarkanir, notkun aðgangskorta, um­gengni eða aðra þætti í þjónustunni. Einnig verður lögð til slökun á skilyrðum fjárhagsstöðu til að öðl­ast ferðaþjónustuleyfi. Nóvember.
 11. Frumvarp til laga um breytingu á umferðarlögum, nr. 77/2019 (skráning eftirvagna, há­marks­hraði í vistgötum o.fl.).
  Lagt verður til að ráðherra verði veitt heimild til að undanskilja ökutækjaflokka skráningarskyldu með reglugerð ef sérstakar ástæður mæla ekki gegn því. Þannig megi sem dæmi létta á stjórn­sýslu­byrði og kostnaði sem leggst að öðrum kosti á eigendur léttra eftirvagna en með skráningar- og skoð­unar­skyldu slíkra tækja þykir hafa verið gengið of langt. Lagt verður til að há­marks­hraði í vistgötum verði hækkaður úr 10 km á klst. í 15 km á klst. en akstur á meira en tvöföld­um hámarks­hraða getur varðað sviptingu ökuréttinda. Þá verða lagðar til frekari minniháttar breyt­ing­ar og lag­fær­ingar á lögunum. Nóvember.           
 12. Frumvarp til laga um loftferðir.
  Frumvarpið felur í sér ný heildarlög um loftferðir. Markmið laganna er að tryggja öruggar, greiðar og hagkvæmar flugsamgöngur að teknu tilliti til neytendaverndar, umhverfissjónarmiða og skuld­bind­inga á sviði þjóðréttar. Um leið treysta samkeppnishæfni íslensks flugrekstrar og starfsemi í alþjóð­­legu viðskiptaumhverfi. Janúar.
 13. Frumvarp til laga um flugvelli. 
  Markmiðið með frumvarpinu er að heildstæð lög um uppbyggingu og rekstur flugvalla á Íslandi og rekstur flugumferðarþjónustu leysi af hólmi gildandi lagaumhverfi um starfsemi Isavia ohf., sem nú starfar á grundvelli þrennra laga. Ákvæði þeirra eru dreifð, takmörkuð og að einhverju leyti úrelt. Þá vantar skýr ákvæði um hlutverk flugvallanna í heildarsamgöngukerfi landsins og um hvernig stefnu­­mörk­un samgönguyfirvalda skuli framfylgt. Þessi ákvæði þarf að greina frá ákvæðum um innra skipu­lag Isavia ohf. Febrúar.
 14. Frumvarp til laga um alþjóðlega skipaskrá. 
  Í gildi eru lög um íslenska alþjóðlega skipaskrá en rekstrarumhverfi sem gildir um skip sem á hana er skráð er óhagstætt miðað við sambærilegar skrár í nágrannaríkjum. Engin skip eru á íslenskri skrá og er tilgangur frumvarpsins að bæta úr því. Markmiðið er að lögleiða samkeppnishæft rekstrar­umhverfi fyrir skip á íslenskri alþjóðlegri skipaskrá, sambærilegt við rekstrarumhverfi skipa á sam­bæri­leg­um skrám í nágrannaríkjum. Febrúar.
 15. Frumvarp til laga um Póst- og fjarskiptastofnun. 
  Markmið frumvarpsins er að semja lög og reglur um stofnun sem hefur umsjón með framkvæmd fjarskipta og mætir væntingum samfélagsins og þörfum í heimi fjarskipta- og upp­lýsinga­tækni. Tengt þessu máli verður lagt fram frumvarp sem miðar að því að færa eftirlit með póstmálum frá Póst- og fjarskiptastofnun til Byggðastofnunar. Febrúar.
 16. Frumvarp til laga um brottfall ýmissa laga á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála (úrelt lög). 
  Með fyrirhuguðu frumvarpi er stefnt að því að fella brott lagabálka ámálefnasviðum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins sem hafa ekki þýðingu lengur. Viðkomandi lagabálkar eiga ekki lengur við, ýmist sökum þess að heildarendurskoðun regluverks á málefnasviði ráðuneytisins hefur leyst af hólmi sérsniðin lagaákvæði sem ekki hafa verið felld brott, eða vegna þess að hlutverk þeirra var afmark­að í tíma. Febrúar.
 17. Frumvarp til laga um áhafnir skipa. 
  Frumvarp til nýrra heildarlaga um áhafnir skipa sem mun taka við af fjórum eldri lagabálkum og ætlað er að einfalda löggjöf og regluverk er varða áhafnir skipa og tryggja öryggi sjófarenda. Febrúar.
 18. Tillaga til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2020–2035.

Samkvæmt lögum um byggðaáætlun og sóknaráætlanir, nr. 69/2015, skal ráðherra leggja á að minnsta kosti þriggja ára fresti fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggða­áætl­un til fimmtán ára í senn og aðgerðaáætlun til fimm ára. Mars.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

 1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða og lögum um veiðar í fiskveiði­land­helgi Íslands (stjórn veiða á grásleppu).
  Lagt er til að úthlutað verði aflamarki til veiða á grásleppu sem nú lýtur sérstökum veiðistjórnar­reglum. Endurflutt. Október.
 2. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um lax og silungsveiði, nr. 61/2006 (minnihlutavernd, gerð arðskrá o.fl.). 
  Í frumvarpinu er lagt til að styrkja minnihlutavernd í veiðifélagi með sérstökum reglum um atkvæða­vægi á fundum. Að auki að dregið verði úr milligöngu hins opinbera við greiðslu kostnaðar af gerð arð­skrár sem og að breyting verði á ákvæðum laganna um skipan matsnefndar um arðskrárgerð. Endurflutt. Október.
 3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006 (byggða­ráð­staf­anir o.fl.).
  Lagt er til að gerð verði breyting á lögunum hvað snertir byggðakvóta, strandveiðar, bætur, línu­íviln­­un o.fl. samkvæmt ábendingum nefndar sem skilaði af sér tillögum í febrúar 2020. Október.
 4. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fiskeldi, nr. 71/2008 (útboð lífmassa).
  Lagt er til að heimilað verði einnig að bjóða út lífmassa við fiskeldi í sjókvíum í stað þess að heimilt sé aðeins að bjóða út eldissvæði. Október.
 5. Frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum, nr. 99/1993 (endurskoðun búvörusamninga).
  Lagt er til að gerðar verði breytingar á lögum sem byggist á endurskoðun samnings um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða og um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins, sem eru til reglulegrar endur­­skoðunar. Október.
 6. Frumvarp til laga um breytingu á jarðalögum, nr. 81/2004 (einföldun stjórnsýslu jarðamála). 
  Lagt er til að ákvæði jarðalaga um aðkomu ráðherra að ákvörðunum um landnotkun á landbúnaðar­svæðum o.fl. verði endurskoðuð til samræmis við áherslur í sáttmála ríkisstjórnarinnar um einföldun reglu­verks. Nóvember.
 7. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum á sviði fiskveiðistjórnar (eftirlit Fiskistofu o.fl.).
  Lagt er til að gerðar verði breytingar á lögum sem byggist á vinnu verkefnisstjórnar um bætt eftirlit í sjávarútvegi sem settur var á fót í framhaldi af skýrslu Ríkisendurskoðunar um eftirlit Fiskistofu. Desember.
 8. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum á sviði landbúnaðar, matvæla og sjávar­útvegs (einföldun regluverks).

Lagt er til að einfalda reglur um leyfis- og tilkynningarskyldu til stjórnvalda til samræmis við áhersl­ur ríkisstjórnarinnar um einföldun regluverks. Janúar.

Umhverfis- og auðlindaráðherra

 1. Frumvarp til laga um breytingu á skipulagslögum, nr. 123/2010 (uppbygging innviða og íbúð­ar­­­­húsnæðis)
  Með frumvarpinu er kveðið á um heimild til að unnið sé sérstakt innviðaskipulag sem tekur til svæðis þvert á sveitarfélagsmörk til að auðvelda og flýta fyrir uppbyggingu flutningskerfis raforku. Gerð slíks skipulags verður í höndum nefndar sem skipuð verður fulltrúum ríkis og sveitarfélaga. Þá verður lagt til að kveðið verði á um styttan umsagnarfrest við auglýstar deiliskipulagstillögur vegna uppbyggingar íbúðarhúsnæðis með það að markmiði að auka skilvirkni í stjórnsýslu. Um er að ræða úrvinnslu hluta tillagna átakshóps í húsnæðismálum í tengslum við gerð lífskjarasamninga. Október.
 2. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, nr. 49/1997 (markmiðsákvæði, endurskoðun hættumats, sektir o.fl.)
  Með frumvarpinu eru sett fram ákvæði um markmið með lögunum, aukið á skýrleika tiltekinna ákvæða, lagðar til breytingar á ákvæðum um endurskoðun hættumats, eftirlit, um nýtingu húseigna og innheimtu gjalda og lögð til sektarákvæði. Október.
 3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, nr. 52/1989 (bætt umhverfi endurvinnslu og skilagjalds á drykkjarvöruumbúðir)
  Með frumvarpinu eru sett fram ákvæði um markmið með lögunum, hækkun skilagjalds og umsýslu­þókn­unar, söfnunarmarkmið, skilagjald af tollfrjálsri verslun, fræðslu og nánari útfærslu á hófleg­um arði. Tilefni frumvarpsins er eftirfylgni með tillögum starfshóps umhverfis- og auðlinda­ráð­herra frá árinu 2018 um aðgerðir til að bæta umhverfi endurvinnslu og skilagjalds á umbúðir fyrir drykkjarvörur og beiðni Endurvinnslunnar hf. um breytingar á gjaldi. Október.
 4. Frumvarp til laga um Þjóðgarðastofnun og þjóðgarða. 
  Í frumvarpinu er lagt til að komið verði á fót stofnun um verndarsvæði sem tæki við verkefnum Vatnajökulsþjóðgarðs, þjóðgarðsins á Þingvöllum og verkefna á sviði náttúruverndar á vegum Um­hverfisstofnunar. Stofnunin færi með umsjón með rekstri þjóðgarða, friðlýstra svæða og annarra nátt­­úru­­verndarsvæða í landinu en í frumvarpinu er gert ráð fyrir að viðhalda sjálfstæði í rekstri þjóðgarða og miðað er að því að efla aðkomu heimamanna að stjórnun verndarsvæða. Jafnframt að efla og styrkja sameiginlega starfsemi og stoðþjónustu, faglega þætti og ná fram skilvirkari nýtingu fjár­­muna sem varið er til starfsemi á sviði náttúruverndar. Endurflutt. Október.
 5. Frumvarp til laga um Hálendisþjóðgarð.
  Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur fram það markmið að stofnaður verði þjóðgarður á miðhálendinu í samráði þverpólitískrar þingmannanefndar, umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, sveitarfélaga, náttúruverndar- og útivistarsamtaka og annarra hagsmunaaðila. Þingmannanefndin var skipuð í janúar 2018 og skilaði skýrslu 3. desember 2019. Í frumvarpinu er lagt til að ráðherra verði heimilt að friðlýsa tiltekið landsvæði á miðhálendinu sem þjóðgarð og ákveðin skipan og hlut­­verk stjórnar og umdæmisráða sem fara með stjórnun þjóðgarðsins og stefnumótun í málefnum hans. Október.
 6. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd, nr. 60/2013 (málsmeðferð o.fl.)
  Með frumvarpinu er ætlað að stytta tímafresti sem eru ætlaðir til kynninga á áformum um tilteknar friðlýsingar og til kynningar á friðlýsingarskilmálum, færa undanþáguheimild frá ákvæðum frið­lýs­­­inga frá ráðherra til Umhverfisstofnunar. Þá verður bætt við skyldu til að kortleggja óbyggð víðerni. Október.
 7. Frumvarp til laga um vernd, velferð og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. 
  Um er að ræða heildarendurskoðun gildandi laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur fram að endurskoða þurfi viðkom­andi löggjöf en fyrir liggur skýrsla nefndar um lagalega stöðu villtra fugla og spendýra sem birt var 3. apríl 2013. Litið var til þessarar skýrslu við gerð frumvarpsins. Október.
 8. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir og lögum um loftslagsmál (niðurdæling koltvísýrings). 
  Frumvarpinu er ætlað að innleiða tilskipun 2009/31/EB um geymslu koltvísýrings í jörðu með það að markmiði að tryggja að niðurdæling koltvísýrings í jarðlög með þeirri aðferð sem beitt er í Carbfix-verkefni OR komi til frádráttar losun fyrirtækja í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir. Innleiðing. Október.
 9. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000 (undan­tekn­ingar á kröfum um umhverfismat, starfsleyfi til bráðabirgða).
  Í frumvarpinu eru lagðar til ákveðnar undantekningar á kröfum um umhverfismat vegna framkvæmda með skilyrðum þegar brýnt er að starfsemi hefjist og fyrir liggur að bæta þarf úr ann­mörk­­um á áður gerðu umhverfismati. Samhliða verður lagt til samkvæmt lögum um hollustu­hætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, að útgáfa starfsleyfis til bráðabirgða verði heimil í undan­tekn­ingar­til­vikum ef ríkar ástæður mæla með. Frumvarpið er sett fram til að bregðast við athugasemdum frá Eftir­litsstofnun EFTA. Nóvember.
 10. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998 (menntun og þjálfun sundkennara, eftirlit með starfsemi og athöfnum o.fl.).
  Í frumvarpinu er m.a. lagt til að skerpa á ákvæðum um námskeið og hæfnispróf m.a. varðandi endurmenntun sundkennara og laugavarða. Þá er lagt til að í lögin verði sett ákvæði til að kveða skýrar á um eftirlitsskyldu og umfang þess eftirlits með starfsemi og athöfnum sem valdið geta mengun eða ógnað hollustuháttum, kveða skýrar á um hvaða stjórnvald gefi út tiltekin starfsleyfi og setja inn gjaldtökuheimild til handa Umhverfisstofnun fyrir skráningu á skráningarskyldri starf­semi. Nóvember.
 11. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun, nr. 48/2011 (vind­orka). 
  Lög um verndar- og orkunýtingaráætlun, nr. 48/2011, tóku að fullu gildi 14. janúar 2013 þegar Alþingi samþykkti fyrstu tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Með frumvarpinu er ætlunin að aðlaga lögin betur að sérstöðu vindorkunnar sem tiltölulega nýjum orku­kosti hérlendis. Nóvember.
 12. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðhöndlun úrgangs og lög­um um úrvinnslugjald (EES-reglur, hringrásarhagkerfi, framleiðenda­ábyrgð). 
  Með frumvarpinu er ætlunin að innleiða annars vegar tilskipun (ESB) 2018/850, sem breytir tilskipun 1991/31/EB um urðun úrgangs, og hins vegar tilskipun (ESB) 2018/851, sem breytir til­skip­­un 2008/98/EB um úrgang. Breytingarnar fela í sér innleiðingu á hringrásarhagkerfinu og er sérstök áhersla lögð á að draga úr myndun úrgangs, samræmda flokkun og sérstaka söfnun, sem og bann við urðun tiltekins úrgangs. Með frumvarpinu verða gerðar breytingar varðandi fram­leið­endaábyrgð á ákveðnum úrgangsflokkum í samræmi við lágmarkskröfur sem gerðar eru í tilskip­un­inni til kerfa sem byggja á framlengdri framleiðendaábyrgð. Þá verður kveðið á um framleið­enda­­ábyrgð á plastvörum og drifrafhlöðum. Innleiðing. Janúar.
 13. Frumvarp til laga um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda og áætlana.
  Með frumvarpinu er lagt til að sett verði ný heildarlög um mat á umhverfisáhrifum. Meginmarkmið­in með lagasetningunni eru að auka skilvirkni í ákvarðanatöku við mat á umhverfisáhrifum og að tryggja sem best aðkomu almennings og annarra hagsmunaaðila að ferlinu. Janúar.
 14. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um loftslagsmál, nr. 70/2012 (kolefnishlutleysi). 
  Í frumvarpinu verða sett fram markmið um kolefnishlutleysi. Janúar.
 15. Tillaga til þingsályktunar um verndar- og orkunýtingaráætlun.
  Tillaga lögð fram í samræmi við lög um verndar- og orkunýtingaráætlun, nr. 48/2011. Október.
 16. Tillaga til þingsályktunar um viðauka við landsskipulagsstefnu 2015–2026.
  Um er að ræða tillögu til þingsályktunar um viðauka við landsskipulagsstefnu vegna endurskoðunar gildandi landsskipulagsstefnu 20152026. Gert er ráð fyrir að lands­skipu­lags­stefna 20152026 gildi áfram en að mótuð verði nánari stefna í viðaukanum um loftslagsmál, landslag og lýðheilsu í tengslum við framkvæmd skipulagsmála, sem taki eftir atvikum til allra viðfangs­efna gildandi lands­­skipulagsstefnu. Desember
 17. Tillaga til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár.

Samkvæmt 34. gr. laga um náttúruvernd, nr. 60/2013, leggur ráðherra fram tillögu til þingsálykt­unar um framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár til fimm ára. Um er að ræða tillögu um skrá yfir þær náttúruminjar sem Alþingi ákveður að setja í forgang um friðlýsingu eða friðun á næstu fimm árum og skal ráðherra byggja ákvarðanir um friðlýsingar á framkvæmdaáætluninni. Mars

Utanríkisráðherra

 1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um utanríkisþjónustu Íslands, nr. 39/1971 (forstaða í sendiskrifstofum o.fl.).
  Með frumvarpinu eru gerðar breytingar er m.a. lúta að forstöðu í sendiskrifstofum Íslands erlendis. Endurflutt. Október.
 2. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um ráðstafanir í kjölfar samnings við Bandaríkin um skil á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli, nr. 176/2006, (niðurfelling ákvæða varðandi Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ehf. o.fl.). 
  Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ehf. (Kadeco) hefur lokið þeim verkefnum sem því voru falin með lögunum. Þá er öðrum tímabundnum ráðstöfunum samkvæmt lögunum einnig lokið. Með frum­varp­inu eru lagðar til breytingar á lögunum, sem og heiti þeirra, sem taka mið af framangreindri þróun. Október.
 3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum, um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands, nr. 121/2008 (fyrirkomulag og framkvæmd alþjóðlegrar þróunar­sam­vinnu). 
  Með frumvarpinu er einkum stefnt að endurskoðun þeirra ákvæða laganna sem lúta að fram­kvæmd­ar­­atrið­um á sviði þróunarsamvinnu, svo og ákvæðum sem kveða á um skýrslur og upplýsingagjöf til Alþingis. Október.
 4. Frumvarp til laga um breytingu á varnarmálalögum, nr. 34/2008 (öryggissvæði o.fl.). 
  Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á mörkum öryggissvæðisins við Gunnólfsvíkurfjall. Með breytingunum er komið til móts við endurskoðaðar skipulagsáherslur ríkisins sem varða hag­nýting­ar­möguleika svæðisins til framtíðar litið. Október.
 5. Tillaga til þingsályktunar um fullgildingu fríverslunarsamnings milli Íslands, Konungs­ríkis­ins Noregs, furstadæmisins Liechtenstein og Sameinaða konungsríkisins Stóra-Bretlands og Norður-Írlands.
  Tillaga um fullgildingu. Október.
 6. Tillaga til þingsályktunar um heimild til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn. 
  Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/631 frá 17. apríl 2019 um að setja staðla um kol­tví­sýringslosun nýrra fólksbifreiða og nýrra léttra atvinnuökutækja og um niðurfellingu reglu­gerða (EB) nr. 443/2009 og (ESB) nr. 510/2011. Október.
 7. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 16/2020 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.
  Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins 2019/630 frá 17. apríl 2019 um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 575/2013 að því er varðar lágmarkstryggingarvernd fyrir tapi vegna vanefndra áhættu­skuld­bind­inga. Október.
 8. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 25/2020 um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn. 
  Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2018/1042 frá 23. júlí 2018 um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 965/2012 að því er varðar tæknilegar kröfur og stjórnsýslumeðferðir er varða stuðnings­áætl­­anir, sálrænt mat á flugáhöfn, sem og kerfisbundna og handahófskennda skimun fyrir geðvirkum efnum til að tryggja heilbrigði flugliða og öryggis- og þjónustuliða og að því er varðar uppsetningu á landslagsgreiningarkerfi í nýlega framleiddar flugvélar, knúnar hverfihreyflum með 5.700 kg skráð­­­­an hámarksflugtaksmassa eða minna og sem samþykktar hafa verið til að bera sex til níu far­þega. Október.
 9. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 63/2020 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn. 
  Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/843 frá 30. maí 2018 um breytingu á tilskipun (ESB) 2015/849 um ráðstafanir gegn því að fjármálakerfið sé notað til peningaþvættis eða til fjár­mögn­unar hryðjuverkastarfsemi og um breytingu á tilskipunum 2009/138/EB og 2013/36/ESB. Október.
 10. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 67/2020 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn. 
  1) Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1286/2014 frá 26. nóvember 2014 um lykilupp­lýs­inga­skjöl fyrir pakkaðar og vátryggingatengdar fjárfestingarafurðir fyrir almenna fjárfesta (PRIIP).
  2) Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2016/1904 frá 14. júlí 2016 um viðbætur við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1286/2014 að því er varðar vöruinngrip.
  3) Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 2016/2340 frá 14. desember 2016 um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 1286/2014 um lykilupplýsingaskjöl fyrir pakkaðar og vátryggingatengdar fjárfestingarvörur fyrir almenna fjárfesta að því er varðar gildistökudag hennar.
  4) Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2017/653 frá 8. mars 2017 um viðbætur við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1286/2014 um lykilupplýsingaskjöl fyrir pakkaðar og vátryggingatengdar fjárfestingarvörur fyrir almenna fjárfesta (PRIIP) með því að mæla fyrir um tæknilega eftirlitsstaðla að því er varðar framsetningu, inntak, yfirferð og endurskoðun lykil­upplýs­inga­skjala og skilyrðin fyrir því að uppfylla kröfur um að láta slík skjöl í té.
  5) Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2018/977 frá 4. apríl 2018 um leiðréttingu á búlgörsku tungumálaútgáfunni á framseldri reglugerð (ESB) 2017/653 um viðbætur við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1286/2014 um lykilupplýsingaskjöl fyrir pakkaðar og vátrygg­inga­tengdar fjárfestingarvörur fyrir almenna fjárfesta (PRIIP) með því að mæla fyrir um tæknilega eftirlitsstaðla að því er varðar framsetningu, inntak, yfirferð og endurskoðun lykilupplýs­inga­skjala og skilyrðin fyrir því að uppfylla kröfur um að láta slík skjöl í té.
  6) Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2019/1866 frá 3. júlí 2019 um breytingu á framseldri reglugerð (ESB) 2017/653 til að laga umbreytingarfyrirkomulag framleiðenda pakkaðra og vátryggingatengdra fjárfestingarvara fyrir almenna fjárfesta (PRIIP), sem bjóða hlutdeildar­skírteini í sjóðum eins og um getur í 32. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1286/2014, sem undirliggjandi fjárfestingarmöguleika, að framlengdu undanþágutímabilinu sem um getur í þeirri grein. Október.
 11. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 81/2020 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.
  Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2013/50/ESB frá 22. október 2013 um breytingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/109/EB um samhæfingu krafna um gagnsæi í tengslum við upplýs­ingar um útgefendur verðbréfa sem eru skráð á skipulegan markað, tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/71/EB um útboðs- og skráningarlýsingu sem birta skal við almennt útboð verðbréfa eða þegar þau eru tekin til skráningar og tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2007/14/EB um ná­kvæm­ar reglur til framkvæmdar tilteknum ákvæðum tilskipunar 2004/109/EB. Október.
 12. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 83/2020 um breytingu á XI. viðauka (Rafræn fjarskipti, hljóð- og myndmiðlun og upp­lýs­inga­­samfélagið) og bókun 37 við EES-samninginn. 
  Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/517 frá 19. mars 2019 um að taka í notkun höfuð­lén­ið .eu og hlutverk þess og um breytingu og niðurfellingu á reglugerð (EB) nr. 733/2002 sem og niður­fellingu á reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 874/2004. Október.
 13. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 19/2020 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.
  1) Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/760 frá 29. apríl 2015 um evrópska langtíma­fjár­fest­ingarsjóði.
  2) Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2018/480 frá 4. desember 2017 um viðbæt­ur við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/760 að því er varðar tæknilega eftirlitsstaðla um fjármálaafleiðugerninga sem hafa þann eina tilgang að verja gegn áhættu, nægilegan líftíma evrópsku langtímafjárfestingasjóðanna, viðmiðanir fyrir mat á markaðnum fyrir hugsanlega kaup­end­ur og virði eignanna sem á að losna við og tegundir og einkenni aðstöðunnar sem stendur al­menn­­­­um fjárfestum til boða. Febrúar.
 14. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 22/2020 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn. 
  1) Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/1131 frá 14. júní 2017 um peninga­markaðs­sjóði.
  2) Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2018/708 frá 17. apríl 2018 um tækni­lega framkvæmdarstaðla að því er varðar sniðmát sem stjórnendum peningamarkaðssjóða ber að nota við skýrslugjöf til lögbærra yfirvalda eins og mælt er fyrir um í 37. gr. reglugerðar Evrópu­þings­­­ins og ráðsins (ESB) 2017/1131.
  3) Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2018/990 frá 10. apríl 2018 um breytingu á og viðbætur við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/1131 að því er varðar einfalda, gagn­sæja og staðlaða verðbréfun (STS-verðbréfun) og eignavarin viðskiptabréf, kröfurnar vegna eigna sem tekið er við sem hluta af endurhverfri verðbréfasölu og aðferðafræði við mat á lánshæfis­gæð­­­um. Febrúar.
 15. Skýrsla ráðherra um EES-mál.
  Árleg skýrsla. Nóvember.
 16. Skýrsla ráðherra um utanríkismál. 

Árleg skýrsla. Apríl.

Síðast uppfært: 01.10.2020
Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira