Þingmálaskrá 147. löggjafarþings 2017–2018

Samkvæmt 1. mgr. 47. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, skal fylgja eftirriti stefnuræðu forsætisráðherra við upphaf þings yfirlit um þau mál sem ríkisstjórn hyggst leggja fram á þinginu ásamt áætlun um hvenær þeim verður útbýtt. Yfirlit fyrir 147. löggjafarþing fer hér á eftir. Fram kemur hvenær ætlunin er að leggja mál fram. Flutt kunna að verða fleiri mál en getið er og atvik geta hindrað flutning einstakra mála. Í samræmi við 2. mgr. 47. gr. laganna mun ríkisstjórnin jafnframt við upphaf vetrarþings, að loknu jólahléi, afhenda forseta Alþingis endurskoðaða áætlun um framlagningu stjórnar­frumvarpa á vetrar- og vorþingi ásamt áætluðum útbýtingardegi.


Forsætisráðherra

 1. Frumvarp til laga um endurnot opinberra upplýsinga (innleiðing tilskipunar um endurnot upplýsinga).
  Frumvarpinu er ætlað að innleiða tilskipun 2013/37/EB um endurnot opinberra gagna. Helstu efnisatriði tilskipunarinnar eru að gengið er lengra við að gera stjórnvöldum skylt að heimila endurnot opinberra upplýsinga, gildissvið endurnotatilskipunar 2003/98/EB er víkkað út svo hún nái til safna, bókasafna o.þ.h., sbr. 3. mgr. 29. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, breytingar gerðar á gjaldtökuheimildum, og loks að til staðar sé úrskurðaraðili sem fari með ágreinings­mál um aðgang að opinberum upplýsingum. Gert er ráð fyrir að reglur um endurnot upplýsinga verði settar fram í sérstöku frumvarpi til nýrra stofnlaga og þar með teknar út úr upplýsingalögum þar sem þær eru nú. Innleiðing. (Nóvember)
 2. Frumvarp til laga um þjóðarsjóð.
  Frumvarpið lýtur að stofnun sérstaks þjóðarsjóðs. Þjóðarsjóði verður m.a. ætlað að byggja upp viðnám til að mæta fjárhagslegum áföllum án þess að það leiði til skuldasöfnunar eða ójafnvægis í hagkerfinu. Markmiðin lúta því einkum að varúðarsjónarmiðum og sjálfbærni opinberra fjármála. (Febrúar)
 3. Skýrsla forsætisráðherra um framkvæmd þingsályktana frá árinu 2016.
  Árleg skýrsla. (Október)
 4. Skýrsla forsætisráðherra um málefni þjóðlendna.
  Árleg skýrsla. (Apríl)
 5. Skýrsla forsætisráðherra um framkvæmd upplýsingalaga. 
  Regluleg skýrsla. (Apríl)


Dómsmálaráðherra

 1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 50/2016, um dómstóla (hagsmunaskráning dómara, setning hæstaréttardómara).
  Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á reglum um skráningu og birtingu upplýsinga um aukastörf dómara og eignarhaldi á hlutum í félögum og atvinnufyrirtækjum með það að markmiði að auka gegnsæi og aðgengi að upplýsingunum. Jafnframt er lögð til breyting á ákvæði til bráðabirgða um að heimilt verði að setja í embætti dómara við Hæstarétt Íslands þó svo dómarar séu fleiri en sjö og heimild til að setja varadómara í einstök mál vegna anna. (Október)
 2. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 32/1997, um helgidagafrið (starfsemi á helgi­dögum).
  Með frumvarpinu er stefnt að því að fella niður bann við ýmiss konar starfsemi á ákveðnum helgidögum þjóðkirkjunnar. (Febrúar)
 3. Frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, o.fl. (afnám reglna um uppreist æru).
  Með frumvarpinu er lagt til að heimild forseta Íslands til að veita manni sem fengið hefur refsidóm sem hefur í för með sér að hann missi borgaraleg réttindi sín uppreist æru verði felld úr almennum hegningarlögum. Í ýmsum lögum er kveðið á um að svo menn megi gegna tilteknum störfum verði þeir að hafa óflekkað mannorð. Við skýringu á því hugtaki hefur verið byggt á 5. gr. laga nr. 24/2000, um kosningar til Alþingis, þar sem kveðið er á um að dómur fyrir refsivert brot hafi ekki flekkun mannorðs í för með sér nema sakborningur hafi verið fullra 18 ára að aldri og refsing sé fjögurra mánaða fangelsi óskilorðsbundið hið minnsta eða öryggisgæsla dæmd og að enginn teljist hafa óflekkað mannorð sem framið hefur brot sem svívirðilegt er að almenningsáliti nema hann hafi fengið uppreist æru. Gera þarf því breytingar á ýmsum lögum sem gera kröfu um óflekkað mannorð til að gegna starfi eða stöðu ef veita á undanþágu frá því skilyrði eða gera aðrar kröfur í staðinn. (Nóvember)
 4. Frumvarp til laga um breytingu á lögræðislögum, nr. 71/1997 (samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks). 
  Með lögum nr. 84/2015 voru gerðar breytingar á lögræðislögum vegna undirbúnings fullgildingar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Bent hefur verið á að umræddar breytingar hafi ekki gengið nægilega langt til að tryggja þau réttindi sem samningurinn kveður á um. Með frumvarpinu er stefnt að frekari breytingum, m.a. á skilyrðum fyrir nauðungarvistun og lögræðissviptingu. (Janúar)
 5. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 100/1952, um íslenskan ríkisborgararétt (ríkisfangsleysi). 
  Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar svo unnt verði að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttarstöðu ríkisfangslausra einstaklinga. Auk þess eru lagðar til breytingar sem hafa í för með sér hagræðingu við afgreiðslu umsókna um íslenskan ríkisborgararétt. Endurflutt. (Október)
 6. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 38/2005, um happdrætti (netspilun). 
  Í frumvarpinu er lagt til að hinum lögbundnu happdrættum verði heimilt með ákveðnum skilyrðum að reka nethappdrætti. (Febrúar)
 7. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 39/1978, um þinglýsingar (rafrænar þinglýsingar).
  Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar svo unnt verði að þinglýsa skjölum með rafrænni færslu. Þannig verði heimilt að leggja að jöfnu þinglýsingu skjala og að ákveðin atriði verði skráð með rafrænum hætti í þinglýsingabók. Lagt er til að með reglugerð verði kveðið á um hvaða skjölum megi þinglýsa með rafrænni færslu og hverjir hafi heimildir til að skrá í hið rafræna þinglýsingakerfi. (Október)
 8. Frumvarp til laga um persónuvernd (innleiðing á reglugerð um persónuvernd).
  Um er að ræða ný lög um persónuvernd. Með frumvarpinu er innleidd í íslenskan rétt ný reglugerð um persónuvernd sem tekin verður upp í EES-samninginn. Með hinni nýju reglugerð eru grundvallarréttindi einstaklinga í stafrænum heimi styrkt og jafnframt greitt fyrir þróun á hinum innri stafræna markaði með því að einfalda reglur fyrir fyrirtæki. Reglugerðin felur í sér mjög umfangsmiklar breytingar á sviði persónuverndar. M.a. er um að ræða breytt og aukið hlutverk innlendra eftirlitsyfirvalda, aukin réttindi einstaklinga, nýjar öryggisráðstafanir og vottanir auk sektarheimilda. Innleiðing. (Janúar)
 9. Frumvarp til laga um breytingu á skaðabótalögum, nr. 50/1993.
  Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ýmsum ákvæðum laganna sem nauðsynlegt er að uppfæra, s.s. forsendur sem liggja til grundvallar svonefndum margfeldisstuðli, lágmarks- og hámarksárstekjur, vísitölutengingar fjárhæða og frádrátt vegna lífeyrissjóðsgreiðslna. (Janúar)
 10. Frumvarp til laga um refsingar fyrir hópmorð, glæpi gegn mannúð, stríðsglæpi og glæpi gegn friði.
  Með frumvarpinu eru lagðar til nauðsynlegar breytingar til að unnt sé að innleiða í íslenskan rétt sáttmála um ráðstafanir gegn og refsingar fyrir hópmorð frá 1948, Genfarsamninga frá 1949 og viðauka við þá frá 1977 og Rómarsamþykkt um Alþjóðlega sakamáladómstólinn frá 1998. (Nóvember)
 11. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 50/2016, um dómstóla, lögum nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og lögum nr. 88/2008, um meðferð sakamála (endurupptaka dæmdra mála).
  Í frumvarpinu er lagt til að endurupptökunefnd verði lögð niður og settur verður á fót sérdómstóll sem skera á úr um hvort heimila skuli endurupptöku dómsmála sem dæmd hafa verið í héraði, Landsrétti eða Hæstarétti. Í frumvarpinu er lagt til að dómendur í þeim dómstól verði fimm; einn frá hverju dómstigi og auk þess einn lögmaður tilnefndur af Lögmannafélagi Íslands og einn háskólakennari með sérþekkingu á réttarfari samkvæmt tilnefningu lagadeilda við íslenska háskóla. Jafnframt er lagt til að heimilt verði að óska eftir endurupptöku einkamáls oftar en einu sinni og skilyrði fyrir endurupptöku einkamála verði rýmkuð. (Janúar)
 12. Frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940 (mútubrot).
  Með frumvarpinu er lagt til að hækkaður verði refsirammi fyrir mútubrot skv. 109. gr. almennra hegningarlaga, þ.e. að bjóða opinberum starfsmanni mútur, sem og refsirammi fyrir brot gegn 264. gr. a, mútubrot í atvinnurekstri. Þá verði einnig endurskoðað hvernig hugtakið opinber starfsmaður er skilgreint. (Nóvember)
 13. Frumvarp til laga um Höfðaborgarsamninginn um alþjóðlega skráningu og réttarvernd fjárhagslegra réttinda yfir farartækjum og tengdum búnaði.
  Með frumvarpinu er lagt til að heimild verði veitt til að fullgilda samning um alþjóðlega skráningu og réttarvernd fjárhagslegra réttinda yfir farartækjum og tengdum búnaði ásamt bókun við samninginn um búnað loftfara. Í frumvarpinu er lagt til að sérstakar reglur gildi um fullnustu krafna sem falla undir samninginn og jafnhliða gerðar breytingar á öðrum lögum, s.s. lögum nr. 60/1998, um loftferðir, lögum nr. 21/1966, um skrásetningu réttinda í loftförum, og lögum nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. (Nóvember)
 14. Tillaga til þingsályktunar um löggæsluáætlun.
  Unnið hefur verið að gerð löggæsluáætlunar í samræmi við ályktun Alþingis frá árinu 2012 um grundvallarskilgreiningar löggæslu á Íslandi og gerð löggæsluáætlunar fyrir Ísland. Öryggis- og þjónustustig eru skilgreind út frá samsettum mælikvörðum sem mæla hvort lögregla hafi getu til að sinna hlutverki sínu á hverjum tíma. Við skilgreiningu á öryggis- og þjónustustigi er lögð áhersla á trausta löggæslu sem er eins sambærileg og hægt er hvar sem er á landinu. Lögreglan gæti almannaöryggis, haldi uppi lögum og reglu, vinni að uppljóstran brota, stöðvi ólögmæta háttsemi og fylgi málum eftir í samræmi við það sem mælt er fyrir um í lögum nr. 88/2008, um meðferð sakamála, eða öðrum lögum. (Nóvember) 


Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra

 1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 73/2005, um skipan ferðamála. 
  Með frumvarpinu verður ráðist í heildarendurskoðun á gildandi lögum um skipan ferðamála í ljósi þeirra breytinga sem orðið hafa á starfsumhverfi ferðaþjónustunnar á síðastliðnum árum og jafnframt með hliðsjón af innleiðingu tilskipunar ESB nr. 2015/2302 um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun. (Nóvember)
 2. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 80/1994, um alferðir. 
  Með frumvarpinu verður innleidd tilskipun ESB nr. 2015/2302 um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun. Megintilgangur tilskipunarinnar er að tryggja hag þeirra sem kaupa pakkaferðir eða ferðir sem settar eru saman fyrir tilstuðlan seljanda. Innleiðing. (Mars)
 3. Frumvarp til laga um Flugþróunarsjóð. 
  Með frumvarpinu verður lagt til að starfræktur verði Flugþróunarsjóður til að styðja við reglulegt millilandaflug til Akureyrar og Egilsstaða. Frumvarpið verður lagt fram eftir að niðurstaða Eftirlits­stofnunar EFTA um starfsemi sjóðsins liggur fyrir. (Mars)
 4. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. 
  Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar á skilyrðum þess að sækja skuli um tækifærisleyfi. (Nóvember)
 5. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 17/1991, um einkaleyfi. 
  Vegna innleiðingar á reglugerð ESB nr. 469/2009, um vottorð um viðbótarvernd fyrir lyf ætluð börnum, ásamt nokkrum öðrum breytingum sem snerta einkaleyfaferlið. Innleiðing. (Október)
 6. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 24/2006, um faggildingu. 
  Lögin uppfærð miðað við breytingar sem orðið hafa frá gildistöku þeirra. Gjaldskrárákvæði m.a. uppfært. (Febrúar)
 7. Frumvarp til laga um breytingu á innheimtulögum, nr. 95/2008. 
  Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar vegna álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 8302/2014, ásamt nokkrum öðrum breytingum sem komið hefur í ljós að gera þarf á lögunum. (Október)
 8. Frumvarp til laga um brottfall laga nr. 10/2001, um stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja. 
  Með frumvarpinu eru felld úr gildi sérlög frá 2001 um stofnun Hitaveitu Suðurnesja (lagahreinsun). Viðkomandi lög eru ekki virk. (September)
 9. Frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003. 
  Uppfærsla og lagfæringar á nokkrum ákvæðum laganna. Lagastoð fyrir netmála, samræming tilvísana, brottfall úreltra ákvæða o.fl. (September)
 10. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 98/2004, um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.
  Endurskoðun á jöfnunargjaldi raforku til að standa undir markmiði laganna um jöfnun dreifikostnaðar. (Febrúar)
 11. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 2/1995, um hlutafélög, og lögum nr. 138/1994, um einkahlutafélög (hæfisskilyrði, atvinnurekstrarbann).
  Endurskoðun á hæfisskilyrðum til að stofna einkahlutafélög og hlutafélög. Skorður verði settar við kennitöluflakki þannig að heimilt verði að setja einstaklinga í atvinnurekstarbann, sem teljast vanhæfir vegna sviksamlegra viðskiptahátta. (Mars)
 12. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 79/2008, um endurskoðendur (innleiðing tilskipunar og reglugerðar).
  Innleiðing á tilskipun ESB nr. 2014/56, um lögboðna endurskoðun ársreikninga og samstæðu­reikninga, og reglugerð ESB nr. 537/2014 um sérstakar kröfur í tengslum við lögboðna endurskoðun á einingum tengdum almannahagsmunum. Einnig er með frumvarpinu farið yfir núgildandi lög og lagðar til breytingar í ljósi reynslu síðustu ára. Innleiðing. (Mars)
 13. Frumvarp til laga um breytingu á samkeppnislögum, nr. 44/2005.
  Með frumvarpinu verða lagðar til nauðsynlegar breytingar á samkeppnislögum vegna norræns samstarfssamnings. (Febrúar)
 14. Frumvarp til laga um traustþjónustu.
  Innleiðing á reglugerð ESB nr. 910/2014 sem fjallar um rafrænar auðkenningar á milli landa, traustþjónustuveitendur og traustþjónustu, þ.e. auðkenningu, undirskriftir, innsigli, rafræn pósthólf og vefsíður. Fellir úr gildi lög nr. 28/2001, um rafrænar undirskriftir. Innleiðing. (Febrúar)
 15. Tillaga til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.
  Með lögum nr. 26/2015 var nýju ákvæði bætt við raforkulög þar sem kveðið er á um að ráðherra leggi á fjögurra ára fresti fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku. (Október)
 16. Skýrsla ráðherra um raforkumálefni. 
  Lögð fram á tveggja ára fresti í samræmi við ákvæði raforkulaga, nr. 65/2003. (Febrúar)

 

Félags- og jafnréttismálaráðherra

 1. Frumvarp til laga um þjónustu við fatlað fólk með miklar þjónustuþarfir (heildarlög).
  Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun á núgildandi lögum nr. 59/1992, um málefni fatlaðs fólks, m.a. með það að markmiði að innleiða ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og lögfesta notendastýrða persónulega aðstoð. Endurflutt. (September)
 2. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga (innleiðing samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, stjórnsýsla og húsnæðismál).
  Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögunum vegna innleiðingar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, ítarlegri ákvæði um stjórnsýslu og eftirlit og ákvæði um skyldur í húsnæðismálum. Endurflutt. (September)
 3. Frumvarp til laga um jafna meðferð óháð kynþætti eða þjóðernisuppruna (heildarlög).
  Frumvarpið kveður á um jafna meðferð einstaklinga óháð kynþætti eða þjóðernisuppruna á öllum sviðum samfélagsins nema á vinnumarkaði, svo sem félagslega vernd, menntun og aðgengi að vörum og þjónustu. Ákvæði frumvarpsins taka mið af þeim hluta tilskipunar 2000/43/EB sem varðar ekki vinnumarkaðinn. Innleiðing. Endurflutt. (Október)
 4. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 44/1998, um húsnæðismál (hlutverk Íbúðalánasjóðs, stefnumörkun og áætlanagerð).
  Í frumvarpinu er að finna breytingar á hlutverki sjóðsins í samræmi við ný lög um almennar íbúðir, nr. 52/2016. Lögð eru til nýmæli um stefnumótun í húsnæðismálum og skyldur sveitarfélaga í húsnæðismálum skýrðar. Þá eru lagðar til breytingar á útlánaheimildum sjóðsins. Endurflutt að hluta. (Október)
 5. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 100/2007, um almannatryggingar.
  Frumvarp þetta er liður í heildarendurskoðun laga um almannatryggingar og laga um félagslega aðstoð. Í frumvarpinu er lagt að lífeyris­tökualdur í almannatryggingum verði hækkaður í áföngum úr 67 árum í 70 ár yfir 24 ára tímabil. Þá er lagt til sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega í því skyni að draga úr áhrifum atvinnutekna á fjárhæð ellilífeyris. Einnig eru í frumvarpinu lagðar til breytingar sem lúta að kæruheimild til úrskurðarnefndar almannatrygginga og lögfestingu heimildar til greiðslu orlofs- og desemberuppbóta til lífeyrisþega. (Október)
 6. Frumvarp til laga um jafna meðferð á vinnumarkaði.
  Frumvarpinu er ætlað að tryggja að starfsfólk hljóti jafna meðferð innan sama vinnustaðar án tillits til kyns, fötlunar, skertrar starfsgetu, aldurs, kynþáttar, þjóðernisuppruna, trúar, lífsskoðunar, kynhneigðar, kynvitundar eða annarra þátta nema málefnaleg rök sem helgast af lögmætu markmiði standi til annars. Ákvæði frumvarpsins munu taka mið af efni tilskipunar ráðsins 2000/78/EB um almennar reglur um jafna meðferð á vinnumarkaði og í atvinnulífi sem og þeim hluta tilskipunar ráðsins 2000/43/EB um framkvæmd meginreglunnar um jafna meðferð manna án tillits til kynþáttar eða þjóðernisuppruna, sem varðar vinnumarkaðinn. Endurflutt. (Október)
 7. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 45/2007, um réttindi og skyldur erlendra fyrir­tækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra, og fleiri lögum.
  Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra og er breytingunum meðal annars ætlað að innleiða tilskipun 2014/67/ESB um framfylgd eldri tilskipunar um störf útsendra starfsmanna í tengslum við veitingu þjónustu. Enn fremur er gert ráð fyrir að samhliða verði í frumvarpinu lagðar til breytingar á ýmsum öðrum lögum sem gilda á innlendum vinnumarkaði, meðal annars í því skyni að bregðast við tilteknum aðstæðum sem upp hafa komið við framkvæmd viðkomandi laga, svo sem í tengslum við eftirlit á vinnumarkaði. Þá er gert ráð fyrir að í frumvarpinu verði lagt til að við lög nr. 105/2014, um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, verði bætt ákvæði þar sem fram komi að tilskipun 2014/54/ESB um ráðstafanir til að greiða fyrir því að launþegar geti nýtt sér þau réttindi sem þeir hafa í tengslum við frjálsa för launþega sé innleidd með ákvæðum laganna. Endurflutt. Innleiðing. (Október)
 8. Frumvarp til laga um starfsendurhæfingu og endurhæfingargreiðslur. 
  Frumvarpið er liður í breyttu fyrirkomulagi í almannatryggingum með áherslu á starfs­endur­hæfingu og starfsgetumat. Í frumvarpinu verður kveðið á um framkvæmd starfsendurhæfingar, endurhæfingarúrræði og endurhæfingaráætlanir sem og sérstakar greiðslur til þeirra sem taka þátt í starfsendurhæfingu, skilyrði fyrir þeim og reglur um útreikning greiðslna. Tiltekin ákvæði í gildandi lögum um almannatryggingar, t.d. um stjórnsýslu, um leiðbeiningar- og upplýsingaskyldu og eftirlitsheimildir sem og almenn ákvæði verða jafnframt hluti af frumvarpinu. (Febrúar)
 9. Frumvarp til laga um starfsgetumat og örorkulífeyri.
  Frumvarpið er liður í breyttu fyrirkomulagi í almannatryggingum með áherslu á starfsendur­hæfingu og starfsgetumat en í því verður meðal annars kveðið á um starfsgetumat þar sem metin verði starfsgeta fólks í kjölfar veikinda eða slysa í stað læknisfræðilegs örorkumats. Jafnframt verður kveðið á um skilyrði og reglur við útreikninga í tengslum við greiðslu lífeyris vegna skertrar starfsgetu þar sem gert er ráð fyrir einföldun bótakerfisins. Tiltekin ákvæði í gildandi lögum um almannatryggingar, t.d. um stjórnsýslu, um leiðbeiningar- og upplýsingaskyldu og eftirlitsheimildir sem og almenn ákvæði verða jafnframt hluti af frumvarpinu. (Febrúar)
 10. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 100/2007, um almannatryggingar, og lögum nr. 99/2007, um félagslega aðstoð. 
  Frumvarpið er liður í breyttu fyrirkomulagi í almannatryggingum. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um almannatryggingar þannig að lögin fjalli eingöngu um ellilífeyri og ráðstöfunarfé ellilífeyrisþega. Er þannig gert ráð fyrir að kveðið verði á um starfsendurhæfingu, starfsgetumat og greiðslur vegna starfsendurhæfingar og skertrar starfsgetu í sérstökum lögum. Samhliða breytingunum verða lagðar til breytingar á lögum um félagslega aðstoð. (Febrúar)
 11. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof.
  Frumvarp þetta er liður í að koma í framkvæmd þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar að hækka hámarksfjárhæðir fæðingarorlofs í skrefum á næstu fjórum árum. Þykir mikilvægt að það sé gert í einu lagi í lögum þannig að fyrirsjáanlegt verði hvernig þær hækkanir eru áætlaðar í áföngum. Jafnframt verður í frumvarpinu kveðið á um nauðsynlegar breytingar á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, meðal annars í ljósi álita frá umboðsmanni Alþingis sem og í því skyni að bregðast við tilteknum atriðum sem upp hafa komið við framkvæmd laganna. (Mars)
 12. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 97/2002, um atvinnuréttindum útlendinga.
  Með frumvarpinu er lagt til að tekið verði upp skilgreint fyrirkomulag við veitingu atvinnuleyfa til aðila utan EES. Skilyrði er að sótt sé um frá heimalandi. Atvinnuleyfum til sérfræðinga verði veitt í þennan farveg og mökum auðveldað að sækja um atvinnuleyfi. Þá verður mælt fyrir um umsjón Vinnumálastofnunar í gegnum vefgátt og samstarf við dómsmálaráðuneyti. (Mars)
 13. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2015/1794 um farmenn.
  Frumvarpið felur í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2015/1794 frá 6. október 2015, um farmenn. Með tilskipuninni er kveðið á um breytingar á ýmsum EES-gerðum sem hafa það að markmiði að farmenn geti nýtt sér að fullu rétt sinn til sanngjarnra og réttlátra vinnuskilyrða sem og rétt til upplýsingamiðlunar og samráðs. Felur frumvarpið í sér breytingu á lögum nr. 61/1999, um evrópsk samstarfsráð í fyrirtækjum, lögum nr. 151/2006, um upplýsingar og samráð í fyrirtækjum, lögum nr. 63/2000, um hópuppsagnir, og lögum nr. 72/2002, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum. Innleiðing. (Október)
 14. Tillaga til þingsályktunar um fjölskyldustefnu.
  Í tillögu til þingsályktunar um fjölskyldustefnu og aðgerðaáætlun til ársins 2020 er lögð áhersla á börn og barnafjölskyldur. Byggt er m.a. á alþjóðlegum skuldbindingum íslenska ríkisins á sviði fjölskyldu- og mannréttinda. Þessi tillaga var lögð fram á síðasta þingi en hlaut ekki afgreiðslu og er hér flutt nokkuð breytt. Endurflutt að hluta. (Október)
 15. Tillaga til þingsályktunar um aðgerðaáætlun gegn ofbeldi í íslensku samfélagi.
  Í tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun til fjögurra ára gegn ofbeldi í íslensku samfélagi er lögð áhersla á að auka fræðslu og forvarnarstarf um ofbeldi, bæta samvinnu og verklag við að draga úr ofbeldi og styrkja samstarf við rannsókn ofbeldismála. Byggt er á samstarfsyfirlýsingu fjögurra ráðherra um samvinnu gegn ofbeldi og niðurbrjótandi áhrifum þess. (Október)
 16. Tillaga til þingsályktunar um aðgerðir í málefnum hinsegin fólks.
  Í tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum hinsegin fólks verður lögð áhersla á fjórar stoðir; sjálfsákvörðunarrétt einstaklings í samræmi við kynvitund og kyneinkenni hans, hinsegin fjölskyldur, heilbrigðisþjónustu og að Ísland verði leiðandi á alþjóðavettvangi í málefnum hinsegin fólks. Meðal tillagna í þingsályktunartillögunni verður að efnissvið frumvarps til laga um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna verði útvíkkað svo að það nái einnig til hinsegin fólks. (Febrúar) 

 

Fjármála- og efnahagsráðherra

 1. Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2018.
  (September)
 2. Frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2017.
  (Október)
 3. Frumvarp til lokafjárlaga fyrir árið 2016.
  (Október)
 4. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2018 (safnlög).
  Frumvarpið felur í sér breytingar sem nauðsynlegar eru vegna samþykktar fjárlaga. Frumvarpið verður samið að höfðu samráði við önnur ráðuneyti. (September)
 5. Frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lagaákvæðum um markaðar tekjur (safnlög).
  Frumvarpið felur í sér breytingar sem nauðsynlegar eru vegna samþykktar fjárlaga. Frumvarpið verður samið að höfðu samráði við önnur ráðuneyti. (September)
 6. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt (skattþrep).
  Frumvarpið felur í sér að ferðaþjónustutengd starfsemi færist í almennt skattþrep virðisaukaskatts ásamt því að almenna þrepið lækkar 1. janúar 2019. (Október)
 7. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 129/2009, um umhverfis- og auðlindaskatta, lögum nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald, og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt (kolefnisgjald, olíugjald, virðisaukaskattur).
  Frumvarpið felur í sér hækkun á kolefnisgjaldi 1. janúar 2018, auk hækkunar á olíugjaldi til samræmis við vörugjöld af bensíni. Þá verður lagt til að tímabundin heimild til að fella niður virðisauka­skatt eða telja til undanþeginnar veltu fjárhæð að ákveðnu hámarki við innflutning og skattskylda sölu rafmagns-, vetnis- eða tengiltvinnbifreiða verði framlengd um þrjú ár. (September)
 8. Frumvarp til laga um brottfall laga nr. 12/1999, um Lífeyrissjóð bænda.
  Í frumvarpinu er lagt til að lög um Lífeyrissjóð bænda falli brott og frá þeim tímapunkti starfi sjóðurinn á grundvelli laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Endurflutt í annað sinn. (September)
 9. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki (gjaldhlutfall).
  Frumvarpið felur í sér hækkun áfengisgjalds á léttvín til samræmis við áfengisgjald á bjór, auk breytinga í samræmi við úrskurð yfirskattanefndar nr. 116/2015 þar sem deilt var um það hvort miða bæri álagningu áfengisgjalds við styrkleika vínanda sem tilgreindur væri á umbúðum eða hvort byggja bæri á upplýsingum í vottorði framleiðanda. (September)
 10. Frumvarp byggt á tillögum starfshóps um endurskoðun skattlagningar ökutækja og eldsneytis (ýmsar breytingar).
  Frumvarpið felur í sér ýmsar breytingar á skattlagningu ökutækja og eldsneytis í samræmi við tillögur starfshóps sem falið var að endurskoða hana með umhverfissjónarmið að leiðarljósi. (Október)
 11. Frumvarp til laga um afleiðuviðskipti, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár (heildarlög).
  Frumvarpið felur í sér innleiðingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 648/2012 um OTC-afleiður, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár (EMIR). Því er ætlað að auka gagnsæi viðskipta með afleiður og draga úr uppgjörsáhættu vegna samninga með þær auk þess að auka virkni afleiðumarkaða með skilvirkari ferlum. Frumvarpið hefur að geyma eftirfarandi fjögur meginatriði: tilkynna skal um afleiðusamninga til afleiðuviðskiptaskrár, stöðustofna skal OTC afleiðusamninga sem falla undir stöðustofnunarskylduna hjá miðlægum mótaðila, nýjar kröfur um áhættustýringu vegna allra tvíhliða OTC-afleiðna sem ekki eru stöðustofnaðir miðlægt og umgjörð um starfsemi miðlægra mótaðila og afleiðuviðskiptaskráningar. Tilskipunin var tekin upp í EES-samninginn haustið 2016. Innleiðing. (September)
 12. Frumvarp til laga um brottfall laga nr. 87/2002, um heimild til handa ráðherra f.h. ríkissjóðs, til að ábyrgjast skuldabréf vegna fjármögnunar nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar ehf.
  Með frumvarpinu er lagt til að lögin falli brott. (September)
 13. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, og lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
  Með frumvarpinu verða lagðar til nokkrar breytingar á lögunum vegna ákvörðunar um að laun forstöðumanna færist frá kjararáði til þeirra aðila sem tilgreindir eru í tilteknum málsliðum í 39. gr. og 39. gr. a laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, vegna samspils launaákvarðana og ákvörðunar eftirlauna til þeirra sem fá greidd eftirlaun frá B-deild LSR samkvæmt lögum nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. (Október)
 14. Frumvarp til laga um rekstraraðila sérhæfðra sjóða (heildarlög).
  Frumvarpið byggist á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2011/61/ESB um rekstraraðila sérhæfðra sjóða. Með lögunum verður í fyrsta sinn sett heildarumgjörð um rekstraraðila sérhæfðra sjóða og starfsemi þeirra og hefur að geyma m.a. ákvæði um starfsleyfi, skipulags- og gagnsæiskröfur, ítarlegar reglur um vörsluaðila og svo framvegis. Tilskipunin var tekin upp í EES-samninginn haustið 2016. Innleiðing. (Október)
 15. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki (skuldajöfnun, o.fl.).
  Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sem byggjast á tilskipun 2001/24/EB um endurskipulagningu fjárhags og slit lánastofnana. Frumvarpið er lagt fram vegna ábendinga frá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA). Í frumvarpinu er að finna ákvæði sem ætlað er að skýra atriði sem upp hafa komið vegna dóms EFTA-dómstólsins í máli E-28/13 og megintilgangur frumvarpsins er að skýra nánar ákvæði laganna um skuldajöfnun og greiðslu­jöfnunarsamninga við fjárhagslega endurskipulagningu og slit fjármálafyrirtækja sem og lagavalsreglur í kjölfar ógildingar og riftunar löggerninga. (Október)
 16. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 55/1992, um Viðlagatryggingu Íslands (eigin áhætta o.fl.).
  Með frumvarpinu verða lagðar til nokkrar breytingar á lögum um Viðlagatryggingu Íslands. Meðal annars verður lagt til að heiti stofnunarinnar verði breytt, að eigin áhætta tjónþola verði hækkuð og að ákvæði um skoðunarmenn ársreikninga verði felld úr gildi. (Nóvember)
 17. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða (skerðingar, lífeyristökualdur).
  Með frumvarpinu verður lögð til leiðrétting á ósamræmi í skerðingum á lífeyri almannatrygginga og kveðið á um hámarksaldur sem unnt er að miða töku lífeyris við. (Október)
 18. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum (greiðslukort).
  Frumvarpið felur í sér tillögu um breytingar á ýmsum lögum sem ætlað er að gera innheimtumanni ríkissjóðs og öðrum stofnunum ríkissjóðs fært að taka á móti greiðslukortum. (Október)
 19. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt (cfc-ákvæði, sam­sköttun, þunn eiginfjármögnun, skattívilnanir vegna hlutabréfakaupa, kaupréttur hluta­bréfa, fækkun gjalddaga o.fl.).
  Frumvarpið felur í sér ýmsar nauðsynlegar breytingar á lögum um tekjuskatt, m.a. vegna skattlagningar eignarhalds á lágskattasvæðum, athugasemda frá ESA, auk minniháttar breytinga á ákvæðum um hlutabréfaafslátt. Fækkun á gjalddögum opinberra gjalda hjá einstaklingum og mögulega fyrirtækjum verða einnig hluti af frumvarpinu og kærufrestur á úrskurðum ríkisskattstjóra vegna skattskyldu og heimilisfesti. (Nóvember)
 20. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt (gildis­dagsetningar, kaup og sala á vörum og þjónustu milli landa, byggingarstarfsemi o.fl.).
  Frumvarpið felur í sér breytingar á gildisdagsetningum virðisaukaskatts og breytingar á lögunum tengdar kaupum og sölu á vöru og þjónustu milli landa í samræmi við greinargerð og tillögur starfshópa þar um. Þá felur frumvarpið í sér breytingar vegna virðisaukaskatts á byggingar­starfsemi. (Nóvember)
 21. Frumvarp til laga um breytingu á tollalögum, nr. 88/2005 (upprunareglur, tímabundin notkun ökutækja).
  Frumvarpið felur í sér tillögur um tollfríðindi fátækra ríkja og ákvæði um niðurfellingu tolla vegna tímabundinnar notkunar ökutækja hér á landi. (Nóvember)
 22. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki (framlenging á neyðarlagaákvæði).
  Með frumvarpinu er lögð til framlenging á bráðabirgðaákvæði VI við lög um fjármálafyrirtæki. Samhljóða ákvæði hefur verið í lögum frá setningu laga nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. (neyðarlögin). Gildistími ákvæðisins var framlengdur með lögum nr. 34/2016 til 31. desember 2017. Frumvarp til nýrra heildarlaga um viðbúnað og skilameðferð fjármálafyrirtækja sem byggir á tilskipun 2014/59/ESB kemur til með að leysa ákvæðið af hólmi. Frumvarpið verður ekki komið fram þegar bráðabirgðaákvæði VI fellur úr gildi og því þykir nauðsynlegt að framlengja ákvæðið. Bráðabirgðaákvæði VI veitir Fjármála­eftirlitinu heimildir til að grípa til sérstakra ráðstafana til að takmarka tjón á fjármálamarkaði. (Nóvember)
 23. Frumvarp til laga um milligjöld.
  Frumvarpið felur í sér innleiðingu á reglugerð ESB nr. 751/2015 um milligjöld vegna kortatengdra greiðslna. Reglugerðin kveður á um hámark á milligjald vegna notkunar debet- og kreditkorta, og er henni ætlað að auka gagnsæi og samkeppni á kortamarkaði. Unnið er að upptöku reglugerðarinnar í EES-samninginn. Innleiðing. (Janúar)
 24. Frumvarp til laga um meðferð ríkisaðstoðarmála (heildarlög).
  Frumvarpið felur í sér innleiðingu breytinga á samningi EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlits­stofnunar og dómstól er varða valdheimildir ESA þegar kemur að eftirliti með ríkisaðstoð. Hliðstæðar breytingar, að því er varðar valdheimildir framkvæmdastjórnar ESB, tóku gildi innan ESB árið 2013. Með frumvarpinu verða lagðar til heimildir um sektir og samstarf við innlenda dómstóla. Jafnframt mun frumvarpið hafa að geyma ákvæði sem nú er að finna í samkeppnis­lögum, um málsmeðferð ríkisaðstoðarmála. Innleiðing. (Janúar)
 25. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt (skuldajöfnun).
  Frumvarpið felur í sér breytingar á skattalöggjöf í kjölfar dóms Hæstaréttar nr. 329/2016. Dómurinn fól í sér riftun skuldajöfnunarinneignar þrotabús í virðisaukaskatti upp í skuld opinberra gjalda þess. Með frumvarpinu er lagt til að skuldajöfnun skuli fara fram vegna inneigna á tímabilum fyrir uppkvaðningu úrskurðar um gjaldþrotaskipti þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 100. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti. (Janúar)
 26. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt (raunverulegur eigandi, almenn regla gegn misnotkun o.fl.).
  Frumvarpið felur í sér breytingar í samræmi við BEPS aðgerðaráætlun OECD. Tryggja þarf að gerð sé skýr krafa um að raunverulegur eigandi að eignum og fjárhagslegum ávinningi liggi fyrir svo að unnt verði að uppfylla kröfur samkvæmt upplýsingaskiptasamningum sem Ísland hefur gert við önnur ríki. Þá er nauðsynlegt að fyrir hendi sé almenn misneytingarregla en með henni munu skattyfirvöld hafa sterkari vopn í höndunum í baráttunni við skattundanskot. Árið 2020 mun Ísland sæta úttekt af hálfu OECD vegna kröfu um raunverulegan eiganda og munu þá árin þrjú á undan koma til skoðunar, þ.e. vegna reglu um raunverulegan eiganda og almennrar reglu gegn misnotkun. (Febrúar)
 27. Frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna frekari aðgerða gegn skattundan­skotum og skattsvikum (hert skatteftirlit og –rannsóknir, aukin upplýsingaöflun, samráð o.fl.).
  Frumvarpið felur í sér breytingar á ýmsum lögum sem eru byggðar á tillögum þriggja starfshópa sem skilað hafa skýrslum til fjármála- og efnahagsráðherra. Í fyrsta lagi er um að ræða skýrslu um umfang skattundanskota og tillögur til aðgerða, í öðru lagi skýrslu um milliverðlagningu og faktúrufölsun og í þriðja lagi skýrslu um skattskyldu af erlendri ferðaþjónustustarfsemi á Íslandi. (Febrúar)
 28. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, og lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda (útleiga vinnuafls).
  Frumvarpið felur í sér skerpingu á reglum um útleigu vinnuafls. (Febrúar)
 29. Frumvarp til laga um breytingu á tollalögum, nr. 88/2005 (gjafafríðindi, persónuupplýsingar o.fl.).
  Frumvarpið felur í sér breytingu á ákvæðum tollalaga um svokölluð gjafafríðindi, heimildir tollstjóra til öflunar og meðferðar persónuupplýsinga, ákvæði um aðstöðu tollyfirvalda til tolleftirlits hjá inn- og útflytjendum og um rafræn skil á skýrslum og gögnum auk breytinga á úrvinnslugjaldi. (Febrúar)
 30. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald (gjaldhlutfall).
  Frumvarpið felur í sér breytingar á gjaldhlutfalli tryggingagjalds til lækkunar. (Mars)
 31. Frumvarp til laga um innheimtu opinberra gjalda (heildarlög).
  Með frumvarpinu er lögð til ný heildarlöggjöf í innheimtumálum. (Mars)
 32. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 100/2016, um vátryggingarstarfssemi (Omnibus II).
  Frumvarpið felur í sér breytingar á lögum um vátryggingastarfsemi vegna ákvæða um Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðastofnunina í tilskipun 2014/51//ESB sem breytti tilskipun 2009/138/EB, um stofnun og rekstur fyrirtækja á sviði vátrygginga og endurtrygginga. Með frumvarpinu munu verða leidd í lög ákvæði um eftirlit Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóða­stofnunarinnar (EIOPA) eða eftir atvikum Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) svo stofnanirnar geti framfylgt lögbundnu hlutverki sínu. Stofnanirnar munu meðal annars leysa úr ágreiningi eftirlits­stofnana aðildarríkja og fá víðtækar heimildir til að krefjast upplýsinga frá aðildarríkjum. Einnig mun EIOPA fá heimild til þess að leggja fram drög að tæknilegum eftirlits- og framkvæmda­stöðlum fyrir framkvæmdstjórn Evrópusambandsins sem verða teknar upp í EES-samninginn og munu öðlast gildi hér á landi. Þá er stofnununum heimilt að grípa til bindandi aðgerða gagnvart eftirlitsstjórnvöldum og vátryggingafélögum hér á landi. Unnið er að upptöku tilskipunarinnar í EES-samninginn. Innleiðing. (Febrúar)
 33. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, o.fl. (Omnibus I).
  Frumvarpið er bandormur sem breytir lögum á sviði banka- og verðbréfamarkaða, einkum lögum um verðbréfaviðskipti, kauphallir og fjármálafyrirtæki til þess að breyta og samræma eftirlitsheimildir þar sem þörf er á í samræmi við hið nýja evrópska eftirlitskerfi á fjármála­markaði. Ákvæði sem lúta að eftirliti Eftirlitsstofnunar EFTA, og eftir atvikum Evrópsku verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunarinnar og Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar verða færð inn í lögin. Unnið er að upptöku tilskipunarinnar í EES-samninginn. Innleiðing. (Febrúar)
 34. Frumvarp til laga um verðbréfauppgjör og verðbréfamiðstöðvar (CSDR).
  Frumvarpið felur í sér innleiðingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 909/2014 (CSDR) sem er ætlað að bæta verðbréfauppgjör á EES-svæðinu og samræma kröfur sem gerðar eru til starfsemi verðbréfamiðstöðva sem reka verðbréfauppgjörskerfi. Frumvarpið mun enn fremur fela í sér nauðsynlegar breytingar á lögum nr. 131/1997, um rafræna eignarskráningu verðbréfa. Unnið er að upptöku reglugerðarinnar í EES-samninginn. Innleiðing. (Mars)
 35. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármála­starfsemi.
  Frumvarpið byggir á niðurstöðum vinnu við endurskoðun á lögbundinni starfsemi Fjármála­eftirlitsins. Endurskoðunin nær yfir athugasemdir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og einnig þær miklu breytingar sem hafa orðið á starfsemi stofnunarinnar undanfarin ár vegna fjölmargra lagabreytinga sem varða stofnunina og má þar í dæmaskyni nefna breytingar vegna tilkomu evrópskra eftirlits­stofnana á fjármálamarkaði, fjármálastöðugleikaráðs og kerfisáhættunefndar. (Febrúar)
 36. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki (samstæðu­eftirlit, útibú, viðbúnaðaráætlun, snemmbær inngrip o.fl.).
  Frumvarpið byggist á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2013/36/ESB (CRD IV) og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/59/ESB um viðbúnað og skilameðferð fjármálafyrirtækja (BRRD). Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar á ákvæðum um samstæðueftirlit fjármálafyrirtækja hér á landi og starfsemi útibúa og þjónustustarfsemi fjármálafyrirtækja á EES-svæðinu og einnig um stofnun og starfsemi útibúa fjármálafyrirtækja utan EES-svæðisins hér á landi. Tilskipun 2013/36/ESB hefur ekki verið tekin upp í EES samninginn en meginefni hennar hefur engu að síður verið innleitt í íslensk lög nú þegar. Með frumvarpinu er einnig lagt til að efnisþættir tilskipunar 2014//59/ESB sem varða annars vegar nýjar kröfur á fjármálafyrirtæki um gerð viðbúnaðaráætlana og hins vegar nýjar heimildir og úrræði Fjármálaeftirlitsins til inngripa í rekstur fjármálafyrirtækja verði lögfestar. Þessum nýju kröfum og heimildum er ætlað að mæta erfiðleikum sem kunna að koma upp í rekstri fjármálafyrirtækja með það að markmiði að endurreisa fjárhagslega stöðu fyrirtækjanna og tryggja fjármálastöðugleika. Unnið er að upptöku beggja tilskipananna í EES-samninginn. Innleiðing. (Mars)
 37. Tillaga til þingsályktunar um fjármálaáætlun.
  (Mars)

 

Heilbrigðisráðherra

 1. Frumvarp til laga um breytingar á lyfjalögum, nr. 93/1994 (EES reglur).
  Frumvarpið felur í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2011/62/ESB frá 8. júní 2011 um breytingu á tilskipun 2001/83/EB um Bandalagsreglur um lyf sem ætluð eru mönnum að því er varðar að koma í veg fyrir ólöglega innkomu falsaðra lyfja í löglega aðfangakeðju. Með tilskipuninni er m.a. kveðið á um nýjar reglur í tengslum við framleiðslu virkra efna sem ætlað er til framleiðslu lyfja, miðlun lyfja, öryggisþætti á lyfjaumbúðum og sameiginlegt kennimerki fyrir netapótek. Innleiðing. (Október)
 2. Frumvarp til lyfjalaga.
  Núgildandi lyfjalög tóku gildi 1. júlí 1994 og hefur þeim verið breytt alls 43 sinnum. Þau hafa hins vegar aldrei sætt heildarendurskoðun frá gildistöku þeirra. Frumvarpið felur í sér heildarendur­skoðun núgildandi laga með tilliti til stefnumörkunar og þeirra breytinga sem orðið hafa á Evrópulöggjöfinni í þeim tilgangi að tryggja landsmönnum nægilegt framboð af nauðsynlegum lyfjum með sem hagkvæmastri dreifingu þeirra á grundvelli eðlilegrar samkeppni og í samræmi við þær reglur sem gilda á hinu Evrópska efnahagssvæði. Frumvarpið var lagt fram á 145. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga. Frumvarpið verður lagt fram endurskoðað að teknu tilliti til athugasemda sem ráðuneytinu bárust frá velferðarnefnd á 145. löggjafarþingi og þeirrar stefnumörkunar sem felst í þingsályktun um lyfjastefnu til 2022 sem samþykkt var á Alþingi 31. maí sl. Endurflutt. (Nóvember)
 3. Frumvarp til laga um bann við tilteknum frammistöðubætandi efnum og lyfjum.
  Tilgangur laganna er að sporna við misnotkun á vefjaaukandi efnum og sterum. Engin lög eru í gildi sem taka á misnotkun vefjaaukandi efna og stera, en óskað hefur verið eftir af ýmsum aðilum að lögfestar verði reglur á þessu sviði. Höfð er hliðsjón af sambærilegri danskri löggjöf. Reglu­verkinu er m.a. ætlað að taka á ólöglegri starfsemi er varðar, framleiðslu, innflutning og dreifingu á þessum efnum en fjallar ekki um neytendur eða refsingu þeirra. Endurflutt. (September)
 4. Frumvarp til laga um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur (EES reglur o.fl.).
  Með frumvarpinu verður settur heildstæður rammi um sölu, neyslu og annað tengt rafrettum. Þá er frumvarpið að hluta til innleiðing á tilskipun Evrópusambandsins 2014/40/ESB um samræmingu ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna varðandi framleiðslu, kynningu og sölu á tóbaki og tengdum vörum og um niðurfellingu á tilskipun 2001/37/EB. Hluti af frumvarpinu var lagður fram á síðasta vorþingi með frumvarpi til laga um breytingar á lögum nr. 6/2002, um tóbaksvarnir. Endurflutt að hluta. Innleiðing. (Október)
 5. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 6/2002, um tóbaksvarnir (EES reglur o.fl.).
  Frumvarpið er innleiðing á tilskipun Evrópusambandsins 2014/40/ESB um samræmingu ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna varðandi framleiðslu, kynningu og sölu á tóbaki og tengdum vörum og um niðurfellingu á tilskipun 2001/37/EB. Þá er skerpt á reglum um tóbaks­notkun í skólum o.fl. Innleiðing. (Febrúar)
 6. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu.
  Með frumvarpinu er horft til þess að skapa grundvöll innan heilbrigðisþjónustunnar til að geta áfram unnið nauðsynlegt gæða- og umbótastarf vegna alvarlegra atvika og að upplýsingar sem aflað er í þeim tilgangi verði ekki aðgengilegar öðrum stjórnvöldum, í samræmi við tillögu skýrslu starfshóps um alvarleg atvik í heilbrigðisþjónustunni. Jafnframt er skýrt nánar í hvaða tilvikum tilkynna skal óvænt dauðsfall til lögreglu. Þá er skerpt á skyldu landlæknis til að leita eftir umsögnum hjá óháðum sérfræðingum í ákveðnum tilvikum, sbr. 5. mgr. 12. gr. laganna. (Febrúar)
 7. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 44/2014, um vísindarannsóknir á heilbrigðis­sviði (gjaldtaka).
  Með frumvarpinu er sett lagastoð fyrir gjaldtöku vegna afgreiðslu umsókna um leyfi til vísindarannsókna á heilbrigðissviði hjá Vísindasiðanefnd. Höfð verður hliðsjón af sambærilegri gjaldtöku á Norðurlöndunum. (Febrúar)
 8. Frumvarp til laga um kynheilbrigði og þungunarrof.
  Frumvarpið verður unnið á grundvelli tillagna nefndar sem falið var að gera heildarendurskoðun á lögum nr. 25/1975, um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir. Nefndin skilaði skýrslu í nóvember 2016. (Febrúar)
 9. Frumvarp til laga um ófrjósemisaðgerðir.
  Frumvarpið verður unnið á grundvelli tillagna nefndar sem falið var að gera heildarendurskoðun á lögum nr. 25/1975, um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir. Nefndin skilaði skýrslu í nóvember 2016. (Febrúar)
 10. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 111/2000, um sjúklingatryggingu (málsmeðferð o.fl.).
  Í frumvarpinu er lagt til að heimildir sjúkratryggingastofnunarinnar við gagnaöflun verði auknar og ákvæði um mat stofnunarinnar á umfangi líkamstjóns gert skýrara. Þá er einnig lagt til að sjúkratryggingastofnunin hafi lokið afgreiðslu bótamála áður en slík mál eru borin undir dómstóla. Endurflutt. (Október)
 11. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 112/2008, um sjúkratryggingar (eftirlit o.fl.).
  Í frumvarpinu er lagt til að skýrar verði kveðið á um eftirlit sjúkratryggingastofnunar. (Febrúar)
 12. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 40/2007, um heilbrigðisþjónustu (skýrari ákvæði um sjúkrahúsþjónustu, skipan framkvæmdastjórna og hjúkrunar- og dagdvalar­rými o.fl.).

Í frumvarpinu er lagt til að ákvæði um sjúkrahúsþjónustu verði skýrari og skýrar verði kveðið á um samsetningu framkvæmdastjórna heilbrigðisstofnana. Þá er lagt til að bætt verði ákvæðum í lögin er varða dagdvöl. (Mars)

 

Mennta- og menningarmálaráðherra

 1. Frumvarp til sviðslistalaga.
  Frumvarp til nýrra heildarlaga um sviðslistastarfsemi, þar með talið starfsemi Þjóðleikhússins og Íslenska dansflokksins, sviðslistaráð, sviðslistasjóð og reglubundna óperustarfsemi. Frumvarpið var áður til meðferðar á 140. og 141. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu. Endurflutt. (Nóvember)
 2. Frumvarp til laga um breytingu á kvikmyndalögum, nr. 137/2001 (viðeigandi ráðstafanir vegna EES reglna).
  Tilgangur lagabreytinga er að styrkja framleiðslu og dreifingu íslenskra kvikmynda, enn fremur að styrkja framleiðslu og dreifingu kvikmynda sem eru á íslensku eða hafa skírskotun til íslenskrar menningar og unnar eru og kostaðar af aðilum með skráð aðsetur í EES-ríki. (Nóvember)
 3. Frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 58/1990, um launasjóð stórmeistara í skák.
  Gert er ráð fyrir því að í stað launagreiðsla til stórmeistara komi greiðslur að fyrirmynd listamannalauna, sbr. lög nr. 57/2009, um listamannalaun. (Janúar)
 4. Frumvarp til laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna (ný heildarlög).
  Heildarendurskoðun laga nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna. (Febrúar)
 5. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum um vísindamál; breytingu á lögum nr. 2/2003, um Vísinda- og tækniráð, lögum nr. 3/2003, um opinberan stuðning við vísinda­rannsóknir, og lögum nr. 75/2007, um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.
  Í frumvarpinu eru m.a. lagðar til breytingar á skipun Vísinda- og tækniráðs vegna flutnings á ábyrgðarsviði laganna frá forsætisráðuneyti til mennta- og menningarmálaráðuneytis, fyrirkomulag til að fylgja eftir siðaviðmiðum í vísindum og rannsóknum, að sett verði lagastoð fyrir áhrifamati á Rannsóknasjóði og áhersla lögð á kynjasjónarmið við skipan í stjórnir samkeppnis­sjóða og nefnda er undir lögin heyra. (Október)
 6. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 57/2011, um skil á menningarverðmætum til annarra landa (innleiðing tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2014/60/ESB frá 15. maí 2014 um skil á menningarminjum sem hafa verið fluttar ólöglega frá yfirráðasvæði aðildarríkis og breytingu á reglugerð (ESB) nr. 1024/2012).
  Tilgangur frumvarpsins er að lögfesta breytingar á lögum um skil á menningarverðmætum til annarra landa sem leiðir af upptöku tilskipunar 2014/60/ESB. Innleiðing. (Nóvember)
 7. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 26/2010, um viðurkenningu á menntun og hæfi til starfa hér á landi (innleiðing tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2013/55/ESB frá 20. nóvember 2013 um breytingu á tilskipun 2005/36/EB um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi og á reglugerð (ESB) nr. 1024/2012 um samvinnu á sviði stjórnsýslu fyrir tilstilli upplýsingakerfisins fyrir innri markaðinn).
  Frumvarpinu er ætlað að lögfesta tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2013/55/ESB frá 20. nóvember 2013, sem breytir tilskipun 2005/36/EB um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi. Innleiðing. (Janúar/febrúar)
 8. Frumvarp til laga um sameiginlega umsýslu höfundaréttar og fleira (innleiðing tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2014/26/ESB frá 26. febrúar 2014 um sameiginlega umsýslu höfundarréttinda og skyldra réttinda og leyfisveitingar yfir landamæri vegna netnotkunar á tónverkum á innri markaðnum).
  Með frumvarpi til laga um sameiginlega umsýslu höfundaréttar og fleira er stefnt að innleiðingu tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2014/26/ESB um starfshætti rétthafasamtaka og fjölsvæða leyfi fyrir afnot af tónlist á netinu. Innleiðing. (Febrúar)
 9. Frumvarp til laga um vísindasamstarf og rannsóknarinnviði í Evrópu (innleiðing reglugerðar ráðsins (ESB) nr. 1261/2013 frá 2. desember 2013 um breytingu á reglugerð (EB) nr. 723/2009 um lagaramma Bandalagsins um samtök um evrópska rannsóknainnviði (ERIC)).
  Reglugerð EB nr. 723/2009 sem var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun nr. 72/2015 20. mars 2015 fjallar um lagaramma um ERIC. Vegna áforma um að Ísland gerist aðili að ERIC samtökum sem bera heitið EPOS er talin þörf á að lagt verði fram frumvarp til laga til að skapa almenna lagaumgjörð fyrir þátttöku Íslands í ERIC samtökum. (Febrúar)
 10. Skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra um framkvæmd skólastarfs skólaárin 2014–2015 til 2015–2016.
  (Október)

 

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra

 1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 6/2001, um skráningu og mat fasteigna.
  Frumvarpið lýtur að því að tryggja rétta framkvæmd við ákvörðun matsverðs fasteigna. Með frumvarpinu er bætt við ítarlegri skilgreiningu á heimildum Þjóðskrár Íslands til aðgangs að gögnum við ákvörðun matsverðs fasteigna. (September)
 2. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 81/2003, um fjarskipti (CE merkingar á fjarskiptabúnaði og nethlutleysi).
  Frumvarpið felur í sér innleiðingu á tilskipun 2014/53/EU um fjarskiptabúnað. Tilskipunin kveður á um CE-merkingar á fjarskiptabúnaði og leggur kvaðir á framleiðendur, innflytjendur og dreifingar­aðila fjarskiptabúnaðar. CE-merking tryggir að fjarskiptabúnaður, þ.m.t. símtæki, talstöðvar og jafnvel leikföng, uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til fjarskiptabúnaðar á EES-svæðinu, með það að meginmarkmiði að slíkur búnaður valdi ekki truflunum á fyrirliggjandi fjarskiptum.
  Frumvarpið felur einnig í sér innleiðingu á reglugerð (EU) 2015/2120. Um er að ræða nýmæli varðandi nethlutleysi. Nethlutleysi felst í því að netnotendur skuli geta nálgast og miðlað efni eða þjónustu á netinu, óháð hug- og tæknibúnaði, notkunareiginleikum, upprunavistfangi eða móttöku­vistfangi. Innleiðing. (September)
 3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 81/2003, um fjarskipti, lögum nr. 135/2005, um fjarskiptasjóð, og lögum nr. 69/2003, um Póst- og fjarskiptastofnun (gjaldtaka fyrir fram­lengingu tíðniheimilda). 
  Póst- og fjarskiptastofnun hefur samþykkt framlengingu gildistíma tveggja tíðniheimilda. Til þess að halda samræmi í gjaldtöku fyrir afnot tíðnanna þarf að skjóta lagastoð undir gjaldtökuna með ákvæði til bráðabirgða. Einnig mælir frumvarpið fyrir um að gildistími fjarskiptasjóðs verði framlengdur til 2022. (September)
 4. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 47/2003, um eftirlit með skipum.
  Frumvarpið mælir fyrir um sektarheimildir sem viðurlög en lögin heimila einungis íþyngjandi úrræði að undangengnum dómi sem leitt hefur til mikilla vandkvæða við framfylgd þeirra, bæði hjá Samgöngustofu og Landhelgisgæslu Íslands. (September)
 5. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 119/2012, um Samgöngustofu, stjórnsýslu­stofnun samgöngumála (innleiðing viðauka og bókana við alþjóðasamninga o.fl.).
  Samgöngustofu verði heimilað að birta á vef sínum alþjóðlega kóða og viðauka sem myndu koma í stað birtingar í Stjórnartíðindum sem er óframkvæmanleg birting vegna kostnaðar og þýðingar. Málið þykir brýnt í ljósi úttektar Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar sem er væntanleg árin 2018‒2019. Frekari breytingar á lögunum eru hugsanlegar í kjölfar tillagna nefndar um starfsemi Samgöngustofu sem ljúka mun störfum fyrir 10. janúar 2018. (September)
 6. Frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011 (fjölgun fulltrúa).
  Frumvarpið er endurflutt. Frumvarpið felur í sér að afnumin er sú lagaskylda sem hvílir á Reykjavíkurborg að fjölga borgarfulltrúum úr 15 í a.m.k. 23 við næstu sveitarstjórnarkosningar í maí 2018. Frekari breytingar á lögunum eru hugsanlegar í kjölfar vinnu starfshóps um stöðu og framtíð sveitarstjórnarstigsins. Endurflutt. (September)
 7. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga (fasteigna­sjóður vegna fatlaðs fólks).
  Frumvarpinu er ætlað að breyta ákvæðum tekjustofnalaga um fasteignasjóð Jöfnunarsjóðs vegna fasteigna í þágu fatlaðs fólks með það fyrir augum að fasteignasjóðnum verði falið varanlegt hlutverk til jöfnunar á aðstöðu sveitarfélaga við uppbyggingu fasteigna sem nýttar eru í þjónustu við fatlað fólk. (September)
 8. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 50/2004, um siglingavernd, og lögum nr. 60/1998, um loftferðir.
  Frumvarpið byggir á ábendingum siglingaverndarráðs og flugverndarráðs hvað varðar skort á viðurlögum vegna brota á ákvæðum er varða flug- og siglingavernd. Kveða þarf skýrt á um að einstaklingum sé óheimilt, að viðlagðri refsingu, að fara inn á haftasvæði flugverndar og viðkvæm hafnarsvæði sem hafa verið afmörkuð og merkt sem bannsvæði eða aflokuð svæði. Jafnframt sé einstaklingum óheimilt að fara um borð í skip eða loftfar án heimildar þar til bærs aðila. (Október)
 9. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 81/2003, um fjarskipti (alþjónusta).
  Uppfæra þarf ákvæði um alþjónustu í fjarskiptalögum, í fyrsta lagi með tilliti til tækniþróunar og í öðru lagi vegna Jöfnunarsjóðs alþjónustu, svo hægt sé að standa undir fjárhagslegum skuldbind­ingum um greiðslur úr sjóðnum til alþjónustuveitenda, þ.e. Neyðarlínunnar. (Október)
 10. Frumvarp til laga um póstþjónustu. 
  Með frumvarpinu er afnuminn einkaréttur ríkisins á póstþjónustu (bréf að 50 gr) í samræmi við tilskipun ESB 2008/6. Jafnframt þarf að tryggja aðgang aðila að lágmarks póstþjónustu, alþjónustu. Innleiðing. (Október)
 11. Frumvarp til laga um Þjóðskrá Íslands. 
  Með frumvarpinu er lagt til að sett verði ný lög um Þjóðskrá Íslands. Markmið með lagasetning­unni er að færa ákvæði er varða Þjóðskrá Íslands á einn stað þó að hlutverk stofnunarinnar sé nánar skilgreint í öðrum lögum. Þá er markmið með frumvarpinu að setja viðhlítandi stoðir undir ákveðin verkefni stofnunarinnar svo sem þróun og rekstur upplýsinga- og þjónustuveitunnar Ísland.is. (Október)
 12. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 28/2017, um farþegaflutninga og farmflutninga á landi. 
  Frumvarpinu er ætlað að skerpa á skyldu til að hafa farþegaflutningaleyfi við akstur farþega í minni bílum en 9 manna og styrkja þannig viðurlagaákvæði laganna um farþegaflutninga og farmflutninga á landi. (Október)
 13. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 97/2010, um stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir.
  Í frumvarpinu er lögð til endurskoðun laganna sem sett voru 2010 í samræmi við núverandi hugmyndir um skilgreiningu vegaframkvæmda, m.a. á þremur helstu stofnleiðum höfuðborgar­svæðisins, og fjármögnun þeirra. (Október)
 14. Frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011 (ýmsar breytingar).
  Frumvarpið byggir að mestu á niðurstöðum í stefnumótunarvinnu í málefnum sveitarfélaga og í því eru teknar saman þær breytingar sem gera þarf á sveitarstjórnarlögum. (Nóvember)
 15. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga (endurskoðun regluverks Jöfnunarsjóðs).
  Með frumvarpinu eru lagðar til nýjar reglur um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Markmiðið er að einfalda reglur sem gilda um starfsemi Jöfnunarsjóðs og endurskoða þær efnislega. (Desember)
 16. Frumvarp til umferðarlaga (heildarendurskoðun).
  Frumvarpi til umferðarlaga er ætlað að auka umferðaröryggi með því að færa ákvæði eldri laga í nútímalegra horf, búa til lagabálk sem er ítarlegri og skilvirkari en gildandi umferðarlög, skýra óskýr ákvæði laganna og hafa við þá vinnu öryggissjónarmið og bætta umferðarmenningu að leiðarljósi. (Desember)
 17. Frumvarp til laga um þjóðskrá og almannaskráningu.
  Frumvarp til nýrra laga um þjóðskrá og almannaskráningu, en frumvarpið felur í sér endurskoðun á gildandi lögum, nr. 54/1962. Í frumvarpinu er lagt til að lögfest verði ákvæði um að þjóðskrá skuli haldin á Íslandi og tiltekið sérstaklega hvaða einstaklingar séu skráðir í þjóðskrá. Með því eru stoðir skráningar í þjóðskrá styrktar og er lögð áhersla á það í frumvarpinu að lögfesta á einn eða annan hátt framkvæmd og hlutverk sem hefur verið tíðkað um árabil. (Janúar)
 18. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 31/1996, um köfun.
  Frumvarpið felur í sér uppfærslu á lögum um köfun. Áhersla lögð á öryggi, eftirlit og ábyrgð, ekki síst í ljósi aukinna slysa við frístundaköfun. Jafnframt er mikilvægt að skýra betur skilyrði fyrir réttindum til atvinnuköfunar. (Janúar)
 19. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna innleiðingar samþykktar Alþjóða­vinnumála­stofnunarinnar um vinnuskilyrði farmanna.
  Frumvarpið felur í sér innleiðingu á samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um vinnuskilyrði farmanna frá árinu 2006. Innleiðingin er forsenda þess að unnt sé að fullgilda samþykktina sem felur í sér uppfærðar viðmiðanir alþjóðasamþykkta og tilmæli um vinnuskilyrði farmanna auk grundvallarreglna sem er að finna í öðrum alþjóðavinnumálasamþykktum. (Janúar)
 20. Frumvarp til laga um lögheimili.
  Frumvarp til nýrra laga um lögheimili felur í sér endurskoðun laga nr. 21/1990, um lögheimili, og laga nr. 73/1952, um tilkynningu aðsetursskipta, meðal annars, í samræmi við ályktanir Alþingis um málið. Markmið frumvarpsins fela í sér lagalegar umbætur sem miða að því að reglur um lögheimili og tilkynningu aðsetursskipta séu skýrar, einfaldar og afdráttalausar en þó nógu sveigjanlegar til þess að gefa rými fyrir tækniframfarir og breytingar á samfélagsháttum. (Febrúar)
 21. Frumvarp til laga um net- og upplýsingaöryggi mikilvægra innviða.
  Frumvarpið felur í sér innleiðingu á tilskipun 2016/1148 um net og upplýsingaöryggi. Tilskipunin fjallar m.a. um starfsemi CERT-ÍS, netöryggissveitar Íslands og útfærir nánar fyrirliggjandi reglur um starfsemi CERT-ÍS auk þess sem lagðar eru kröfur á aðila sem sinna starfsemi sem telst til mikilvægra innviða og nauðsynlegrar þjónustu (t.d. á sviði fjármálastarfsemi, heilbrigðisstarfsemi, samgangna, orku- og veitustarfsemi og stafrænna innviða (þ.e. ISNIC)). Tilgangur frumvarpsins er að auka öryggi upplýsingakerfa, neta og gagna. Innleiðing. (Febrúar)
 22. Tillaga til þingsályktunar um samgönguáætlun 2018‒2021.
  Tillaga til þingsályktunar að nýrri fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2018‒2021 í samræmi við lög nr. 33/2008, um samgönguáætlun, og þingsályktun um fjármálaáætlun. (September)
 23. Tillaga til þingsályktunar um samgönguáætlun 2018‒2029. 
  Tillaga til þingsályktunar að nýrri tólf ára samgönguáætlun fyrir árin 2018‒2029 í samræmi við lög nr. 33/2008, um samgönguáætlun, og þingsályktun um fjármálaáætlun. (Janúar)
 24. Tillaga til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun til sjö ára, 2017‒2023. 
  Tillaga til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun til sjö ára í senn í samræmi við lög nr. 69/2015, um byggðaáætlun og sóknaráætlanir. Ályktunin lýsir stefnu ríkisins í byggðamálum hverju sinni og samhæfingu við aðra stefnumótun og áætlanagerð hins opinbera. (Febrúar)

  

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

 1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 79/2005, um uppboðsmarkaði sjávarafla.
  Heildarendurskoðun núgildandi laga. (Janúar)
 2. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, o.fl. (byggðakvóti).
  Fram er komin skýrsla starfshóps um endurskoðun á framtíðarskipan byggðakvóta. Gert er ráð fyrir að fyrirkomulagi byggðakvóta verði breytt í kjölfarið en til þess þarf lagabreytingar. Auk þess er gert ráð fyrir að ákvæði um tegundaskipti verði breytt þannig að ráðherra hafi heimild til að taka tegund úr tegundaskiptum sé á því þörf vegna fiskifræðilegra sjónarmiða. (Desember)
 3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 71/2008, um fiskeldi, o.fl.
  Að störfum hefur verið vinnuhópur sem ætlað er að taka ákveðna þætti starfsumhverfis fiskeldis til skoðunar og gera tillögur um breytingar. Í framhaldinu, eftir skoðun á tillögum vinnuhópsins, verður lagt fram frumvarp um breytingar á lögum um fiskeldi. (Desember)
 4. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 89/1966, um Framleiðnisjóð landbúnaðarins (endurskoðun).
  Heildarendurskoðun á lögum um sjóðinn. (Mars)
 5. Frumvarp til laga um Matvælastofnun.
  Ný lög um Matvælastofnun sem koma í stað laga nr. 80/2005. (Október)
 6. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 93/1995, um matvæli, og lögum nr. 66/1998, um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr.
  Frumvarp lagt fram samhliða frumvarpi til laga um Matvælastofnun. Lagt er til að í lög um Matvælastofnun verði sett ákvæði um upplýsingagjöf og eftirlit. Í lög um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr verði gerðar breytingar á ákvæðum er varða héraðsdýralækna og sérgreinadýralækna, til samræmis við frumvarp um Matvælastofnun. (Október)
 7. Frumvarp til laga um breytingu á tollalögum, nr. 88/2005.
  Innleiðing samnings Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur. Við breytinguna verður haft samráð við fjármála- og efnahagsráðuneytið. (Október)
 8. Frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum, nr. 99/1993, og búnaðarlögum, nr. 70/1998.
  Breytingar á ákvæðum um verðtilfærslu og undanþágu frá ákvæðum samkeppnislaga um heimildir afurðastöðva til að sameinast og gera samkomulag um verkaskiptingu. (Október)
 9. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 162/1994, um lífræna landbúnaðarframleiðslu.
  Breytingar á ákvæðum um eftirlitshlutverk Matvælastofnunar. (Mars)
 10. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 27/2011, um útflutning hrossa.
  Breyting á gjaldi í stofnverndarsjóð, o.fl. (Mars)
 11. Frumvarp til laga um fyrirkomulag gjaldtöku fiskveiðiheimilda.
  (Mars)

 

Umhverfis- og auðlindaráðherra

 1. Frumvarp til laga um skóga og skógrækt (heildarlög).
  Um er að ræða frumvarp til nýrra heildarlaga um skógrækt, en gildandi lög eru lög nr. 3/1955, um skóg­rækt, og lög nr. 95/2006, um skógrækt á lögbýlum. Frumvarpið byggist m.a. á greinargerð starfshóps sem skilað var 2012 og víðtækri endur­skoðun á málaflokknum. Endurflutt, að mestu óbreytt. (September)
 2. Frumvarp til laga um landgræðslu (heildarlög). 
  Um er að ræða frumvarp til nýrra heildarlaga um landgræðslu, en gildandi lög eru lög nr. 17/1965, um landgræðslu, og lög nr. 91/2002, um varnir gegn landbroti. Frumvarpið byggist m.a. á greinar­gerð starfshóps sem skilað var 2012 og víðtækri endurskoðun á málaflokknum. Endurflutt, að mestu óbreytt. (September)
 3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, lögum nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum, og lögum nr. 130/2011, um úrskurðar­nefnd umhverfis- og auðlindamála (sérstök kæruheimild vegna athafna og athafnaleysis).
  Með frumvarpinu er lagt til að heimilt verði fyrir þá sem eiga lögvarinna hagsmuna að gæta og umhverfisverndarsamtök að kæra athafnir og athafnaleysi jafnóðum í tengslum við þátttökurétt almennings samkvæmt lögum nr. 106/2000. Samfara því er einnig lagt til að gerð verði breyting á kæruheimild laga nr. 7/1998 til að samræma hana kæruheimildum annarra laga til úrskurðar­nefndar umhverfis- og auðlindamála. Frumvarpið er lagt fram til að bregðast við rökstuddu áliti ESA um að Ísland hafi ekki innleitt ákvæði 11. gr. tilskipunar 2011/92/ESB að fullu. Endurflutt, að mestu óbreytt. Innleiðing. (September)
 4. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 47/2004, um þjóðgarðinn á Þingvöllum, og lögum nr. 60/2007, um Vatnajökulsþjóðgarð (atvinnurekstur, gjaldtaka o.fl.).
  Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um þjóðgarðinn á Þingvöllum og lögum um Vatnajökulsþjóðgarð. Breytingarnar varða annars vegar að leyfisskylda allan atvinnurekstur innan þjóðgarðsins á Þingvöllum til samræmis við ákvæði laga um Vatnajökulsjóðgarð. Hins vegar varða breytingarnar ákvæði um gjaldtökuheimild þjóðgarðanna. Lagt er til að heimilt verði að taka uppbyggingarkostnað nauðsynlegra innviða inn í upphæð þjónustugjalda en í dag er eingöngu heimilt að taka þjónustugjöld fyrir eftirlit og rekstur með gestum þjóðgarðanna. Að auki er í frumvarpinu lagt til að atvinnurekstur innan þjóðgarðsins á Þingvöllum verði leyfisskyldur í samræmi við ákvæði laga um Vatnajökulsþjóðgarð. Endurflutt, óbreytt. (September)
 5. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 160/2010, um mannvirki (lækkun byggingar­kostnaðar).
  Markmið frumvarpsins er að lækka byggingarkostnað og einfalda stjórnsýslu á sviði byggingar­mála. M.a. er ætlunin að gera breytingar á faggildingu þeirra sem fara með byggingareftirlit, skerpa á ákvæðum er varða eftirlit Mannvirkjastofnunar og gera breytingar á ábyrgð byggingar­stjóra. (Október)
 6. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 49/1997, um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum (framlenging bráðabirgðaákvæðis). 
  Tímabundin heimild ofanflóðasjóðs til að taka þátt í greiðslu kostnaðar við hættumat vegna eldgosa, vatnsflóða og sjávarflóða rennur út 31. desember 2017. Í frumvarpinu er lagt til að heimild þessi verði framlengd til þriggja ára. (Október)
 7. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, og breytingu á lögum nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs (stjórnvaldssektir).
  Lagt er til að stjórnvöld hafi heimild til að leggja á stjórnvaldssektir vegna brota á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir og lögum um meðhöndlun úrgangs. Endurflutt að hluta. (Nóvember)
 8. Frumvarp til laga um skipulag hafs og stranda (heildarlög).
  Í frumvarpinu verður fjallað um stjórnun og skipulag á haf- og strandsvæðum, þar á meðal með hvaða hætti stjórnsýslu skuli háttað, landfræðilega afmörkun og helstu stjórntæki við skipulags­gerð o.fl. Endurflutt, að mestu óbreytt. (Nóvember)
 9. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum (EES-reglur, stjórnvaldssektir o.fl.).
  Um er að ræða innleiðingu á tilskipun 2014/52/ESB sem breytir tilskipun 2011/92/ESB um mat á umhverfisáhrifum. Þau nýmæli sem er að finna í tilskipuninni og kalla á breytingar á lögum um mat á umhverfisáhrifum eru m.a. eftirfarandi: eftirfylgni með ákvæðum í framkvæmdaleyfum um mótvægisaðgerðir og vöktun, umhverfismat framkvæmdar þarf að vera í fullu gildi við útgáfu fram­kvæmda­leyfis, ákvæði um upplýsingaskyldu til almennings, kröfur um sérfræðiþekkingu við gerð og yfirferð matsskýrslu, refsiákvæði og ákvæði er varða hagsmunaárekstra þegar sami aðili er leyfis­veitandi og framkvæmdaaðili. Innleiðing. (Febrúar)
 10. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 60/2013, um náttúruvernd (ákvæði til bráðabirgða o.fl.).
  Lög nr. 60/2013, um náttúruvernd, tóku gildi 15. nóvember 2015. Í ákvæðum til bráðabirgða nr. 5 og 7 er gert ráð fyrir endurskoðun tveggja kafla laganna, þ.e. IV. kafla um almannarétt, útivist og umgengni og XI. kafla um innflutning og dreifingu lifandi framandi lífvera. Í frumvarpinu er að finna breytingar á umræddum köflum auk annarra breytinga í ljósi þeirrar reynslu sem komin er á löggjöfina frá gildistöku hennar. (Febrúar)
 11. Frumvarp til laga um Þjóðgarðastofnun (heildarlög).
  Í frumvarpinu er lagt til að komið verði á fót Þjóðgarðastofnun sem tæki við verkefnum Vatna­jökuls­þjóðgarðs, þjóðgarðsins á Þingvöllum og tiltekinna verkefna á sviði náttúruverndar á vegum Umhverfisstofnunar. Þjóðgarðastofnun myndi því fara með umsjón með rekstri þjóðgarða, friðlýstra svæða og annarra náttúruverndarsvæða í landinu en í frumvarpinu er gert ráð fyrir að viðhalda sjálfstæði í rekstri þjóðgarðanna en jafnframt efla og styrkja sameiginlega starfsemi og stoðþjónustu, faglega getu og ná fram skilvirkari nýtingu fjármuna sem varið er til starfsemi á sviði náttúruverndar. (Febrúar)
 12. Frumvarp til laga nr. 70/2012, um loftslagsmál (gildissvið viðskiptakerfis ESB).
  Innleiðing á ákvörðun ESB varðandi gildissvið flugs innan viðskiptakerfisins til 2021. Hér er um að ræða tillögu að nýju ákvæði til bráðabirgða. Ákvörðun ESB verður væntanlega ekki samþykkt innan ESB fyrr en í byrjun árs 2018. Innleiðing. (Febrúar)
 13. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir (verkaskipting UST og HES)
  Frumvarpið fjallar um skiptingu verkefna milli Umhverfisstofnunar og heilbrigðisnefnda sveitar­félaga. Tekið er mið af stefnu ríkisstjórnar um að viðmót og aðgengi að stjórnsýslu verði bætt. Í frumvarpinu er litið til eftirtalinna sjónarmiða: að einungis verði gerði krafa um að tiltekin starfsemi hafi starfsleyfi þegar nauðsyn krefur, að rekstraraðilar tilkynni starfsemi á einum stað, að eftirlit með starfsemi verði skilvirkt og samræmt um allt land og leiðbeiningar og upplýsingar verða aðgengilegar á einum stað. (Mars)
 14. Frumvarp til laga um breytingu á skipulagslögum, nr. 123/2010 (lækkun byggingar­kostnaðar og einföldun stjórnsýslu).
  Markmið frumvarpsins er að lækka byggingarkostnað og einfalda stjórnsýslu á sviði skipulagsmála. Með frumvarpinu er lögð til einföldun á ferli er varðar kynningu skipulagstillögu á lokastigi fyrir almenning. Einnig er lögð til breyting sem einfaldar og samþættir kröfur er varða umhverfismat skipulagstillagna. (Mars)
 15. Tillaga til þingsályktunar um vernd og orkunýtingu landsvæða.
  Lögð fram í samræmi við lög nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun. Endurflutt tillaga frá 146. löggjafarþingi sem byggist á tillögum verkefnisstjórnar verndar- og orkunýtingaráætlunar sem skilað var til ráðherra í september 2016. Endurflutt. (September)
 16. Tillaga til þingsályktunar um tólf ára stefnumótandi landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum.
  Í 3. gr. laga nr. 20/2016, um landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum, er kveðið á um gerð tillögu að stefnumarkandi landsáætlun til tólf ára um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum. Áætlunin tekur til verndar­aðgerða, öryggismála, uppbyggingar, eftirlits, undirbúnings, viðhalds og reksturs ferða­manna­staða, ferðamannaleiða og ferðamannasvæða. (Nóvember)
 17. Tillaga til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár.
  Samkvæmt 34. gr. laga nr. 60/2013, um náttúruvernd, leggur ráðherra fram tillögu til þings­ályktunar um framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár til fimm ára. Um er að ræða tillögu um skrá yfir þær náttúruminjar sem Alþingi ákveður að setja í forgang um friðlýsingu eða friðun á næstu fimm árum og skal ráðherra byggja ákvarðanir um friðlýsingar á framkvæmdaáætluninni. (Mars)
 18. Skýrsla – Hvítbók um náttúruauðlindir.
  Um er að ræða samræmt yfirlit yfir náttúruauðlindir landsins, gerð þeirra og umfang. Áætlað er að skýrslan nýtist til að auka skilning á þeim náttúruauðlindum sem Ísland býr yfir og styrki forsendur fyrir ákvarðanatöku um stjórnun, vernd og sjálfbæra nýtingu þeirra. (Febrúar)


Utanríkisráðherra

 1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 38/2010, um Íslandsstofu.
  Endurskoðun á ákvæðum gildandi laga um Íslandsstofu varðandi hlutverk utanríkisþjónustunnar og Íslandsstofu í útflutningsaðstoð við íslenskt atvinnulíf á erlendum mörkuðum, ímynd og orðspor Íslands, kynningu á íslenskri menningu erlendis og markaðsstarf gagnvart erlendum ferðamönnum og fjárfestum með það að markmiði að marka grundvöll fyrir framtíðarfyrirkomulag útflutningsaðstoðar og markaðsstarfs. (September)
 2. Frumvarp til laga um stofnun Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.
  Frumvarpið felur í sér að sett verði á fót stofnun Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Undir stofnunina myndu falla fjórir skólar sem nú starfa á vegum Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, þ.e. jarðhita-, sjávarútvegs-, landgræðslu- og jafnréttisskólar Háskóla Sameinuðu þjóð­anna. Í frumvarpinu verður gert ráð fyrir að stofnunin verði hluti af Háskóla Sameinuðu þjóðanna með formlega stöðu alþjóðastofnunar í skilningi laga nr. 98/1992, um friðhelgi og forréttindi alþjóðastofnana. (Febrúar)
 3. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 92/2017 um breytingu á II. viðauka (tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn.
  Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1901/2006 frá 12. desember 2006 um lyf fyrir börn og um breytingu á reglugerð (EBE) nr. 1768/92, tilskipun 2001/20/EB, tilskipun 2001/83/EB og reglugerð (EB) nr. 726/2004.
  Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1902/2006 frá 20. desember 2006 um breytingu á reglugerð 1901/2006 um lyf fyrir börn.
  Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 469/2009 frá 6. maí 2009 um vottorð um viðbótarvernd fyrir lyf.
  Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 488/2012 frá 8. júní 2012 um breytingu á reglugerð (EB) nr. 658/2007 um fjárhagsleg viðurlög við brotum á tilteknum skyldum í tengslum við markaðsleyfi sem veitt eru samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 726/2004. (September)
 4. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 93/2017 um breytingu á IV. viðauka (orka) við EES-samninginn. 
  Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 713/2009 frá 13. júlí 2009 um að koma á fót samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði.
  Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 714/2009 frá 13. júlí 2009 um skilyrði fyrir aðgangi að neti fyrir raforkuviðskipti yfir landamæri og um niðurfellingu á reglugerð (EB) nr. 1228/2003.
  Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 715/2009 frá 13. júlí 2009 um skilyrði fyrir aðgangi að flutningskerfum fyrir jarðgas og um niðurfellingu á reglugerð (EB) nr. 1775/2005.
  Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 543/2013 frá 14. júní 2013 um afhendingu og birtingu gagna á raforkumörkuðum og um breytingu á I. viðauka við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 714/2009.
  Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/72/EB frá 13. júlí 2009 um sameiginlegar reglur um innri markaðinn fyrir raforku og um niðurfellingu tilskipunar 2003/54/EB.
  Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/73/EB frá 13. júlí 2009 um sameiginlegar reglur um innri markaðinn fyrir jarðgas og um niðurfellingu á tilskipun 2003/55/EB.
  Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar frá 10. nóvember 2010 um breytingu á 3. kafla I. viðauka við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 715/2009 um skilyrði fyrir aðgangi að flutningskerfum fyrir jarðgas.
  Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar frá 24. ágúst 2012 um breytingu á I. viðauka við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 715/2009 um skilyrði fyrir aðgangi að flutningskerfum fyrir jarðgas.
  Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar frá 16. maí 2011 um niðurfellingu ákvörðunar 2003/796/EB um að koma á fót evrópskum hópi eftirlitsaðila með rafmagni og gasi. (September)
 5. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 94/2017 um breytingu á VII. viðauka (gagnkvæm viðurkenning á starfsmenntun og hæfi) við EES-samninginn. 
  Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2013/55/ESB frá 20. nóvember 2013 um breytingu á tilskipun 2005/36/EB um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi og á reglugerð (ESB) nr. 1024/2012 um samvinnu á sviði stjórnsýslu fyrir tilstilli upplýsingakerfisins fyrir innri markaðinn („reglugerðin um IM-upplýsingakerfið“). (September)
 6. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 107/2017 um breytingu á XX. viðauka (umhverfismál) við EES-samninginn. 
  Framkvæmdarákvörðun framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2016/1032 frá 13. júní 2016 um að fastsetja niðurstöður um bestu, fáanlegu tækni (BAT), samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2010/75/ESB, vegna járnlauss málmiðnaðar. (September)
 7. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 129/2017 um breytingu á II. viðauka (tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn.
  Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 699/2014 frá 24. júní 2014 um hönnun á sameiginlega kennimerkinu til að sanngreina aðila sem bjóða almenningi lyf í fjarsölu og um tækni- og raftæknilegar kröfur og dulkóðunarkröfur varðandi sannprófun á ósvikni þess. (September)
 8. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XIX. viðauka (neytendavernd) við EES-samninginn. 
  Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/2302 frá 25. nóvember 2015 um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun og um breytingu á reglugerð (EB) nr. 2006/2004 og tilskipun Evrópu­þingsins og ráðsins 2011/83/ESB og niðurfellingu á tilskipun ráðsins 90/314/EBE. (Október)
 9. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XXII. viðauka (félagaréttur) við EES-samninginn.
  Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/56/ESB 56/2014 frá 16. apríl 2014 um breytingu á tilskipun 2006/43/EB um lögboðna endurskoðun ársreikninga og samstæðureikningsskila.
  Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 537/2014 frá 16. apríl 2014 um sérstakar kröfur í tengslum við lögboðna endurskoðun á einingum tengdum almannahagsmunum og niðurfellingu á ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2005/909/EB. (Janúar)
 10. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XI. viðauka (rafræn fjarskipti, hljóð- og myndmiðlun og upplýsingasamfélagið) við EES-samninginn (rafræn auðkenning). 
  Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 910/2014 frá 23. júlí 2014 um rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti á innri markaðinum og um niðurfellingu á tilskipun 1999/93/EB. (Janúar)
 11. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XI. viðauka (rafræn fjarskipti, hljóð- og myndmiðlun og upplýsingasamfélagið) við EES-samninginn (almenna persónuverndarreglugerðin). 
  Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/679 frá 27. apríl 2016 um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga og niðurfellingu tilskipunar 95/46/EB (almenna persónuverndarreglugerðin). (Janúar)
 12. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka (fjármálaþjónusta) við EES-samninginn (OTC-afleiður, miðlægir mótaðilar og afleiðuviðskiptaskrár). 
  Framkvæmdareglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1247/2012 frá 19. desember 2012 um tæknilega framkvæmdarstaðla að því er varðar framsetningu og tíðni skýrslna um viðskipti til afleiðuviðskiptaskráa samkvæmt reglugerð þingsins og ráðsins (ESB) nr. 648/2012 um OTC-afleiður, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár.
  Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1248/2012 frá 19. desember 2012 um tæknilega framkvæmdarstaðla að því er varðar snið umsókna um skráningu á afleiðuviðskiptaskrám samkvæmt reglugerð þingsins og ráðsins (ESB) nr. 648/2012 um OTC-afleiður, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár.
  Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1249/2012 frá 19. desember 2012 um tæknilega framkvæmdarstaðla að því er varðar framsetningu á skrám sem miðlægir mótaðilar skulu viðhalda samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 648/2012 um OTC-afleiður, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár.
  Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 148/2013 frá 19. desember 2012 um viðbætur við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 648/2012 um OTC-afleiður, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár að því er varðar tæknilega eftirlitsstaðla um lágmarksupplýsingar gagna sem tilkynna á um til afleiðuviðskiptaskráa.
  Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 149/2013 frá 19. desember 2012 um viðbætur við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 648/2012 að því er varðar tæknilega eftirlitsstaðla um óbeint stöðustofnunarfyrirkomulag, stöðustofnunarskyldu, opinbera skrá, aðgang að viðskiptavettvangi, ófjárhagslega mótaðila og aðferðir til að draga úr áhættu fyrir OTC-afleiðusamninga sem miðlægur mótaðili hefur ekki stöðustofnað.
  Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 150/2013 frá 19. desember 2012 um viðbætur við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 648/2012 um OTC-afleiður, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár að því er varðar tæknilega eftirlitsstaðla þar sem tilgreindar eru upplýsingar er varða umsókn um skráningu sem afleiðuviðskiptaskrá.
  Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 151/2013 frá 19. desember 2012 um viðbætur við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 648/2012 um OTC-afleiður, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár að því er varðar tæknilega eftirlitsstaðla þar sem tilgreind eru gögn sem afleiðuviðskiptaskrár eiga að birta og gera aðgengileg og rekstrarstaðlar til að safna, bera saman og hafa aðgang að gögnum.
  Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 152/2013 frá 19. desember 2012 um viðbætur við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 648/2012 að því er varðar tæknilega eftirlitsstaðla um eiginfjárkröfur fyrir miðlæga mótaðila.
  Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 153/2013 frá 19. desember 2012 um viðbætur við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 648/2012 um tæknilega eftirlitsstaðla um kröfur fyrir miðlæga mótaðila.
  Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 876/2013 frá 28. maí 2013 um viðbætur við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 648/2012 að því er varðar tæknilega eftirlitsstaðla um fagráð fyrir miðlæga mótaðila.
  Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1002/2013 frá 12. júlí 2013 um breytingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 648/2012 um OTC-afleiður, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár að því er varðar skrána yfir aðila sem njóta undanþágu.
  Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1003/2013 frá 12. júlí 2013 um viðbætur við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 648/2012 að því er varðar gjöld sem Evrópska eftirlitsstofnunin á verðbréfamarkaði innheimtir af afleiðuviðskiptaskrám.
  Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 285/2014 frá 13. febrúar 2014 um viðbætur við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 648/2012 að því er varðar tæknilega eftirlitsstaðla um bein, veruleg og fyrirsjáanleg áhrif á samninga innan Sambandsins og til að koma í veg fyrir að reglur og skuldbindingar séu sniðgengnar.
  Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 484/2014 frá 12. maí 2014 um tæknilega framkvæmdarstaðla að því er varðar áætlað fjármagn miðlægs mótaðila samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 648/2012.
  Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 667/2014 frá 13. mars 2014 um viðbætur við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 648/2012 að því er varðar málsmeðferðarreglur um viðurlög Evrópska verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunin leggur á afleiðuviðskiptaskrár, þ.m.t. reglur um rétt til varnar og tímabundin ákvæði. (Febrúar)
 13. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka (fjármálaþjónusta) við EES-samninginn (verðbréfasjóðir).
  Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2013/14/ESB frá 21. maí 2013 um breytingu á tilskipun 2003/41/EB um starfsemi og eftirlit með stofnunum sem sjá um starfstengdan lífeyri, tilskipun 2009/65/EB um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum um verðbréfasjóði (UCITS) og tilskipun 2011/61/ESB um rekstraraðila sérhæfðra sjóða að því er varðar oftraust á lánshæfismöt.
  Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/91/ESB frá 23. júlí 2014 um breytingu á tilskipun 2009/65/EB um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum um verðbréfasjóði (UCITS) að því er varðar störf vörsluaðila, starfskjarastefnu og viðurlög. (Febrúar)
 14. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka (fjármálaþjónusta) við EES-samninginn (áhættufjármagnssjóðir og félagslegir framtakssjóðir).
  Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 345/2013 frá 17. apríl 2013 um evrópska áhættufjármagnssjóði.
  Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 346/2013 frá 17. apríl 2013 um evrópska félagslega framtakssjóði.
  Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 593/2014 frá 3. júní 2014 um tæknilega framkvæmdarstaðla að því er varðar form tilkynninga samkvæmt 1. mgr. 16. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 345/2013 um evrópska áhættufjármagnssjóði.
  Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 594/2014 frá 3. júní 2014 um tæknilega framkvæmdarstaðla að því er varðar form tilkynninga samkvæmt 1. mgr. 17. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 346/2013 um evrópska félagslega framtakssjóði. (Febrúar)
 15. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka (fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.
  Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2010/78/ESB frá 24. nóvember 2010 um breytingu á tilskipunum 98/26/EB, 2002/87/EB, 2003/6/EB, 2003/41/EB, 2003/71/EB, 2004/39/EB, 2004/109/EB, 2005/60/EB, 2006/48/EB, 2006/49/EB og 2009/65/EB að því er varðar valdsvið Evrópsku eftirlitsstofnunarinnar (Evrópska bankaeftirlitsstofnunin), Evrópsku eftirlitsstofnunar­innar (Evrópska vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunin) og Evrópsku eftirlitsstofnunarinnar (Evrópska verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunin). (Febrúar)
 16. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka (fjármálaþjónusta) við EES-samninginn (markaðir fyrir fjármála­gerninga).
  Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/65/ESB frá 15. maí 2014 um markaði fyrir fjármálagerninga og um breytingu á tilskipun 2002/92/EB og tilskipun 2011/61/ESB.
  Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/1034 frá 23. júní 2016 um breytingu á tilskipun 2014/65/EB um markaði fyrir fjármálagerninga.
  Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 600/2014 frá 15. maí 2014 um markaði fyrir fjármálagerninga og um breytingu á reglugerð ráðsins (ESB) nr. 648/2012.
  Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/1033 frá 23. júní 2016 um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 600/2014 um markaði fyrir fjármálagerninga, reglugerð (ESB) nr. 596/2014 um markaðssvik og reglugerð (ESB) nr. 909/2014 um bætt verðbréfauppgjör í Evrópusambandinu og verðbréfamiðstöðvar. (Febrúar)
 17. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XI. viðauka (rafræn fjarskipti, hljóð- og myndmiðlun og upplýsingasamfélagið) við EES-samninginn.
  Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/136/EB frá 25. nóvember 2009 um breytingu á tilskipun 2002/22/EB um alþjónustu og réttindi notenda að því er varðar rafræn fjarskiptanet og -þjónustu (tilskipun um alþjónustu), tilskipun 2002/58/EB um vinnslu persónuupplýsinga og um verndun einkalífs á sviði rafrænna fjarskipta (tilskipun um friðhelgi einkalífsins og rafræn fjarskipti) og reglugerð (EB) nr. 2006/2004 um samvinnu milli innlendra yfirvalda sem bera ábyrgð á framkvæmd laga um neytendavernd.
  Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/140/EB frá 25. nóvember 2009 um breytingu á tilskipun 2002/21/EB um sameiginlegan regluramma um rafræn fjarskiptanet og -þjónustu, tilskipun 2002/19/EB um aðgang að rafrænum fjarskiptanetum og samtengingu þeirra og tilheyrandi aðstöðu og tilskipun 2002/20/EB um heimild fyrir rafrænum fjarskiptanetum og -þjónustu.
  Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1211/2009 frá 25. nóvember 2009 um að koma á fót evrópskum hópi eftirlitsaðila á sviði rafrænna fjarskipta (BEREC) og skrifstofu hans. (Mars)
 18. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka (fjármálaþjónusta) við EES-samninginn (endurreisn og skila­meðferð lánastofnana og fjárfestingarfyrirtækja).
  Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/59/ESB frá 15. maí 2014 sem kemur á ramma um endurreisn og skilameðferð lánastofnana og fjárfestingarfyrirtækja og um breytingu á tilskipun ráðsins 82/891/EBE og tilskipunum 2001/24/EB, 2002/47/EB, 2004/25/EB, 2005/56/EB, 2007/36/EB, 2011/35/ESB, 2012/30/ESB og 2013/36/ESB og reglugerðum Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1093/2010 og (ESB) nr. 648/2012. (Mars)
 19. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka (fjármálaþjónusta) við EES-samninginn (verðbréfamiðstöðvar og verðbréfauppgjör)
  Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 909/2014 frá 23. júlí 2014 um bætt verðbréfa­uppgjör í Evrópusambandinu og um verðbréfamiðstöðvar og um breytingu á tilskipunum 98/26/EB og 2014/65/ESB og reglugerð (ESB) nr. 236/2012. (Mars)
 20. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka (fjármálaþjónusta) við EES-samninginn (Omnibus II)
  Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/51/ESB frá 16. apríl 2014 um breytingu á tilskipunum 2003/71/EB og 2009/138/EB og reglugerðum (EB) nr. 1060/2009, (ESB) nr. 1094/2010 og (ESB) nr. 1095/2010 að því er varðar valdsvið Evrópsku eftirlitsstofnunarinnar (Evrópska vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunin) og Evrópsku eftirlitsstofnunarinnar (Evrópska verðbréfa­markaðs­eftirlitsstofnunin). (Febrúar)
 21. Tillaga til þingsályktunar um fullgildingu fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Filippseyja.
  Endurflutt. (Október)
 22. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu samnings milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 2017.
  Árlegur samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu. (Október)
 23. Tillaga til þingsályktunar um stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2018‒2022.
  Stefna ríkisstjórnarinnar um alþjóðlega þróunarsamvinnu árin 2018‒2022. Framhald af gildandi stefnumótun sem felst í þingsályktun um áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2013‒2016. (Október)
 24. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu samnings milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 2018.
  Árlegur samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu. (Febrúar)
 25. Skýrsla utanríkisráðherra til Alþingis um utanríkismál.
  (Apríl)

 

Eldri Þingmálaskrár ríkisstjórna er að finna á vef Alþingis

Síðast uppfært: 14.09.2017
Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn