Hoppa yfir valmynd

Þingmálaskrá 152. löggjafarþings 2021–2022

Samkvæmt 1. mgr. 47. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, skal fylgja eftirriti stefnuræðu forsætis­ráðherra við upphaf þings yfirlit um þau mál sem ríkisstjórn hyggst leggja fram á þinginu ásamt áætlun um hvenær þeim verður útbýtt. Yfirlit fyrir 152. löggjafarþing fer hér á eftir. Fram kemur hvenær ætlun­in er að leggja mál fram. Flutt kunna að verða fleiri mál en getið er og atvik geta hindrað flutning ein­stakra mála. Í samræmi við 2. mgr. 47. gr. laganna mun ríkisstjórnin jafnframt við upphaf vetrar­þings, að loknu jólahléi, afhenda forseta Alþingis endurskoðaða áætlun um framlagningu stjórnar­frum­varpa á vetrar- og vorþingi ásamt áætluðum útbýtingardegi.

Þingmálaskrá 152. löggjafarþings 2021–2022 til útprentunar

 

Forsætisráðherra

 1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernis­upp­runa, nr. 85/2018 (fjölgun mismununarþátta). 
  Með frumvarpinu er lagt til að bæta við lögin tilteknum mismununarþáttum, sbr. ákvæði til bráða­birgða í lögum nr. 85/2018, um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna. Lagt er til að lögin kveði á um meginregluna um jafna meðferð einstaklinga á öllum sviðum samfélagsins, utan vinnu­markaðar – ekki eingöngu óháð kynþætti og þjóðernisuppruna líkt og gildandi lög heldur jafn­framt óháð trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu. Meðal annars er átt við bann við mismunun á grundvelli framangreindra mismununarþátta í tengsl­um við félagslega vernd, vörukaup og þjónustu og í skólum og öðrum menntastofnunum nema slíkt sé unnt að réttlæta á málefnalegan hátt með lögmætu markmiði og aðferðirnar til að ná þessu mark­miði séu viðeigandi og nauðsynlegar. Lagt er til ákvæði um frávik vegna aldurs í tilteknum til­fell­um. Desember.
 2. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum er varða eignarráð og nýtingu fasteigna (óskipt sameign, landamerki o.fl.).
  Frumvarpið byggist á vinnu stýrihóps um heildstæða löggjöf og stjórnsýslu varðandi jarðir, land og aðrar fasteignir. Í lögum um náttúruvernd, nr. 60/2013, og lögum um menningarminjar, nr. 80/2012, verði mælt fyrir um útvíkkun á forkaupsrétti ríkissjóðs. Nánar tiltekið nái hann einnig til lands sem ligg­ur að friðlýstum náttúruverndarsvæðum og lands þar sem friðlýstar menningarminjar er að finna. Í jarðalögum, nr. 81/2004, verði sett ítarlegri ákvæði um sameign á landi sem fellur undir gild­is­svið laganna, varðandi fyrirsvar, ákvörðunartöku og forkaupsrétt sameigenda. Í lögum um skrán­­ingu og mat fasteigna, nr. 6/2001, verði kveðið heildstætt á um afmörkun fasteigna innan eða utan þéttbýlis, þ.e. merki landsvæða og lóða af öllum stærðum og gerðum. Fjallað er um merkja­lýs­­ingar eigenda, skyldu til að leita aðstoðar fagaðila við gagnaöflun og mælingar og hlut­verk sýslu­manns við úrlausn ágreinings. Í lögum um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, nr. 19/1966, verði slakað á skilyrði laganna um sterk tengsl við Ísland þegar í hlut eiga erlendir ríkis­borgarar frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) sem hafa áhuga á að eignast hér fasteign og vilja efla slík tengsl. Jafnframt verði kveðið á um að þegar í hlut eiga lögaðilar sem hyggjast kaupa fast­eign hér á landi verði þeir ekki einungis að hafa staðfestu í ríki sem lögin tilgreina, heldur verði þeir einnig að vera undir yfirráðum einstaklinga eða lögaðila frá viðkomandi ríkjum. Með þessu er ætlun­in að koma í veg fyrir að aðilar frá öðrum ríkjum, þ.e. utan EES o.fl., geti sniðgengið skilyrði laganna. Febrúar.
 3. Frumvarp til laga um Vísinda- og nýsköpunarráð.
  Með frumvarpinu eru lög um Vísinda- og tækniráð, nr. 2/2003, endurskoðuð og er þetta fyrsta heildræna endurskoðun lagaramma ráðsins frá því að hann tók gildi árið 2003. Frumvarpið byggist á skýrslu verkefnishóps forsætisráðherra sem skilað var í ágúst 2020. Meginmarkmið breytinganna er að efla stefnu á sviði vísinda og nýsköpunar með því að skýra hlutverk Vísinda- og tækniráðs, auka stuðning við stefnumótun og sjálfstæða ráðgjöf til ráðherra, efla samræmda stefnu þvert á ráðu­­­neyti, skerpa framtíðarsýn og styrkja umræðu um vísindi og nýsköpun í samfélaginu. Lagt er til að nafni ráðsins verði breytt í Vísinda- og nýsköpunarráð. Febrúar.
 4. Frumvarp til laga um rýni fjárfestinga erlendra aðila í þýðingarmiklum samfélagsinnviðum og tengdri starfsemi vegna þjóðaröryggis.
  Í frumvarpinu er mælt fyrir um heimildir stjórnvalda til að meta og taka afstöðu til fjárfest­inga erlendra aðila í þýð­ingar­miklum samfélagsinnviðum og tengdri starfsemi með tilliti til sjónarmiða um þjóðar­öryggi, sbr. ábendingar í skýrslu stýrihóps um heildstæða löggjöf og stjórnsýslu varðandi jarðir, land og aðrar fasteignir (maí 2021) og löggjöf um þetta efni annars staðar á Norðurlöndum og innan ESB. Mars.
 5. Tillaga til þingsályktunar um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.
  Í tillögunni verður nýskipan Stjórnarráðs Íslands samkvæmt ákvörðunum og áherslum nýrrar ríkisstjórnar kynnt Alþingi. Desember.
 6. Skýrsla forsætisráðherra um framkvæmd þingsályktana Alþingis frá árinu 2020.
  Árleg skýrsla. Nóvember.
 7. Skýrsla forsætisráðherra um ráðstöfun lands og landsréttinda innan þjóðlendna og tekna af gjöldum fyrir slík réttindi.
  Árleg skýrsla. Maí.
 8. Skýrsla um framkvæmd upplýsingalaga.
  Árleg skýrsla. Maí.

Ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra

 1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um skráningu raunverulegra eigenda, nr. 82/2019 (skipti eða slit tiltekinna skráningarskyldra aðila). 
  Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði tvö ný ákvæði til bráðabirgða við lög um skráningu raunverulegra eigenda, nr. 82/2019, er varða slit skráningarskyldra aðila sem sinna ekki skráningar­skyldu samkvæmt lögunum. Frumvarpið er liður í að ljúka aðgerðum á sviði varna gegn peninga­þvætti á fjármögnun hryðjuverka. Janúar.
 2. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um hlutafélög, nr. 2/1995 (hluthafar og milliliðir). 
  Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um hlutafélög sem varða skráð félög og lúta að deili á hluthöfum, hlutverki milliliða í sendingu upplýsinga frá félagi til hluthafa o.fl. Innleiðing á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/828 um breytingu á tilskipun 2007/36/EB að því er varðar hvatningu til þátttöku hluthafa til lengri tíma. Innleiðing. Janúar.
 3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um ársreikninga, lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög og lögum um fyrirtækjaskrá (slit, skipti og dagsektir). 
  Frumvarpið felur í sér endurskoðun á ákvæðum um skipti félaga (afskráning) vegna brota á tiltekn­um ákvæðum laga um hlutafélög og laga um einkahlutafélög, sem og sektarákvæðum laga um fyrir­tækja­skrá og laga um ársreikninga. Markmið frumvarpsins er að einfalda framkvæmd framan­greindra þátta. Janúar.
 4. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011 (hljóð- og myndmiðlunar­þjón­usta).
  Frumvarpið felur í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins frá 14. nóvember 2018 (ESB) 2018/1808 um breytingu á tilskipun 2010/13/ESB um samræmingu tiltekinna ákvæða í lög­um og stjórnsýslufyrirmælum í aðildarríkjunum um hljóð- og myndmiðlunarþjónustu. Innleiðing. Endurflutt. Janúar.
 5. Frumvarp til laga um breytingu á kvikmyndalögum, nr. 137/2001 (styrkir til kvikmynda­gerð­ar með skilyrði um endurgreiðslu). 
  Frumvarpið byggist að meginhluta á kvikmyndastefnu til ársins 2030 sem var kynnt 6. október 2020 á vef Stjórnarráðsins. Þar er kallað eftir breyttu fyrirkomulagi í sjóðakerfi kvikmyndagerðar til að koma til móts við nýja tíma sem einkennast af hröðu þróunar- og fjár­mögn­unar­ferli verkefna. Með frum­varpinu er einnig skerpt á fáum atriðum er varða Kvikmyndasafn Íslands og Kvikmynda­mið­stöð Íslands. Meginefni frumvarpsins er að kveða skýrt á um heimild Kvik­myndasjóðs til að veita styrki í anda Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðsins. Febrúar.

Félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra

 1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um Barna- og fjölskyldustofu og lögum um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála (flutningur starfsmanna).
  Frumvarpið bætir nýjum ákvæðum til bráðabirgða við lög um Barna- og fjölskyldustofu, nr. 87/2021, og lög um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, nr. 88/2021, sem taka gildi 1. janúar 2022 og skýra réttarstöðu ríkisstarfsmanna sem flytjast til stofnananna. Desember.
 2. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um málefni innflytjenda, nr. 116/2012 (móttaka ein­stakl­inga með alþjóðlega vernd, innflytjendaráð). 
  Með frumvarpinu er Fjölmenningarsetri falið víðtækara hlutverk vegna móttöku einstaklinga með alþjóðlega vernd. Endurflutt. Desember.
 3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980 (vinnutími starfsmanna sem veita notendastýrða persónulega aðstoð). 
  Frumvarpið verður unnið í samræmi við tillögur nefndar sem hefur verið falið það hlutverk að koma með tillögur til framtíðar litið um hugsanlegar breytingar á lögum og/eða reglugerðum, gerist þess þörf að mati nefndarinnar, að því er varðar réttindi og starfsumhverfi þeirra starfsmanna sem veita not­enda­stýrða persónulega aðstoð. Febrúar.
 4. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum í þágu barna (samþætting þjónustu, snemm­tækur stuðningur). 
  Frumvarpið felur í sér breytingar á ýmsum lögum í því skyni að samræma löggjöf við lög um samþætt­ingu þjónustu í þágu farsældar barna og styrkja umgjörð um þjónustu og snemm­tækan stuðning í þágu barna. Febrúar.
 5. Frumvarp til starfskjaralaga. 
  Frumvarpinu er ætlað að fylgja eftir tillögum sem fram koma í skýrslu samstarfshóps félags- og barnamálaráðherra um félagsleg undirboð og brotastarfsemi á vinnumarkaði, sem hópurinn skilaði ráðherra í janúar 2019. Jafnframt er frumvarpinu ætlað að hrinda í framkvæmd aðgerðum ríkis­stjórnarinnar til stuðnings lífskjarasamningum er falla undir málefnasvið ráðuneytisins og lúta að vinnumarkaði. Mars.
 6. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof og lögum um nálgun­arbann og brottvísun af heimili (nálgunarbann eða brottvísun af heimili). 
  Frumvarpið er samið af félagsmálaráðuneytinu og dómsmálaráðuneytinu og er lagt fram til sam­ræmis við ákvæði til bráðabirgða II með lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 144/2020. Í frumvarp­inu er kveðið á um tilfærslu á sjálfstæðum rétti foreldris til fæðingarorlofs eða fæðingar­styrks til hins foreldrisins í þeim tilvikum þegar annað foreldrið sætir nálgunarbanni gagnvart barni sínu, gagnvart hinu foreldrinu og/eða brottvísun af heimili eða þegar foreldri afplánar refsivist vegna brota gegn framangreindum aðilum á því tímabili sem foreldrar geta nýtt rétt sinn til fæð­ing­ar­orlofs eða fæðingarstyrks. Mars.
 7. Frumvarp til laga um sorgarleyfi.
  Frumvarpinu er ætlað að tryggja foreldrum á innlendum vinnumarkaði, sem verða fyrir barnsmissi, sorgarleyfi í allt að sex mánuði sem og greiðslur til að koma til móts við tekjutap á umræddu tímabili við fjarveru frá vinnumarkaði í kjölfar barnsmissis. Meginefni frumvarpsins er jafnframt að tryggja for­eldrum utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfshlutfalli, þar á meðal náms­mönnum, sorg­ar­styrk verði þeir fyrir barnsmissi. Mars.
 8. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, nr. 80/1938 (Félags­dómur). 
  Með frumvarpinu eru lagðar til tilteknar breytingar á IV. kafla laganna um Félagsdóm en kaflanum hefur lítið verið breytt frá því að lögin voru sett árið 1938. Eru breytingarnar meðal annars lagðar til í ljósi athugasemda GRECO (e. Group of States Against Corruption) í tengslum við skipan dóm­ara við Félagsdóm. Frumvarpið var áður lagt fram á 151. löggjafarþingi en gert er ráð fyrir að komið geti til einhverra breytinga á efni frumvarpsins áður en það verður lagt fram að nýju. Endurflutt. Mars.
 9. Frumvarp til laga um greiðslur vegna umönnunar langveikra barna og fatlaðra barna. 
  Í frumvarpinu felast breytingar á tilhögun stuðnings við foreldra og forráðamenn fatlaðra og lang­veikra barna í samræmi við niðurstöður starfshóps sem var skipaður var til þess að meta reynslu af framkvæmd laganna og þörf á breytingum. Einföldun kerfis með sameiningu foreldragreiðslna og umönnunargreiðslna auk þess sem greiðslur til foreldra taki mið af um­önn­un­ar­þörf og kostnaði sem er tilkominn vegna fötlunar og veikinda barnsins. Frumvarpinu er ætlað að koma í stað laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, nr. 22/2006, og 4. gr. laga um félags­lega aðstoð, nr. 99/2007. Mars.
 10. Frumvarp til laga framkvæmd öryggisráðstafana og öryggisþjónustu.
  Um er að ræða ný heildarlög um framkvæmd öryggisráðstafana og öryggisþjónustu. Frumvarpinu er meðal annars ætlað að setja nánari lagaákvæði um réttarstöðu einstaklinga sem öryggisráðstafanir og öryggisþjónusta ná til með tilliti til reglna um vernd persónufrelsis manna og friðhelgi. Mars.
 11. Fumvarp til laga um stuðning við hreyfihamlaða einstaklinga vegna bifreiða. 
  Nauðsynlegt þykir að endurskoða gildandi reglur um stuðning við hreyfihamlaða einstaklinga vegna bifreiða, sem koma fram í lögum um félagslega aðstoð og reglugerð um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða. Einnig er þörf á að greina betur á milli greiðslna félagslegrar aðstoðar annars vegar og greiðslna sjúkratrygginga hins vegar, í samræmi við skýrslu starfshóps um stuðningskerfi til að auðvelda för hreyfihamlaðs fólks. Hröð þróun á sér stað í þessum málaflokki og ástæða er talin til að færa ákvæði laganna og reglugerðarinnar í sérlög. Mars.
 12. Tillaga til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda fyrir árin 2021–2024.
  Í framkvæmdaáætlun um málefni innflytjenda, sem er lögð fram skv. 7. gr. laga um málefni inn­flytjenda, nr. 116/2012, er kveðið á um verkefni sem hafa það að markmiði að stuðla að samfélagi þar sem allir geta verið virkir þátttakendur óháð þjóðerni og uppruna. Desember.

Fjármála- og efnahagsráðherra

 1. Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2022. Nóvember.
 2. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2022. 
  Frumvarpið felur í sér breytingar sem lagðar eru til grundvallar fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2022 sem lagt er fram á sama tíma. Frumvarpið verður samið að höfðu samráði við önnur ráðuneyti. Nóvember.
 3. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (gjalddagar, refsinæmi o.fl.).
  Með frumvarpinu eru lagðar til nauðsynlegar breytingar á ýmsum lögum um skatta og gjöld. Um er að ræða breytingar sem snúa m.a. að gjalddagaskiptingu þing- og sveitarsjóðsgjalda einstaklinga og útvarpsgjalds, refsinæmi vegna vanframtalinna fjármagnstekna hjóna, viðmiði skattverðs virðis­auka­skatts vegna veitingu þjónustu þegar um er að ræða afhendingu án endurgjalds, viðmiði skatt­verðs vegna móttöku á notuðu lausafé frá einstaklingi utan rekstrar til umsýslu- eða umboðssölu, heimild ráðherra í lögum um virðisaukaskatt til að setja nánari reglur um afmörkun leiðréttingar­tíma­bils vegna breyttra nota o.fl. Nóvember.
 4. Frumvarp til laga um staðfestingu ríkisreiknings 2020. Desember.
 5. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003 (samsköttun, vaxta­frá­dráttur). 
  Frumvarpið felur í sér ýmsar nauðsynlegar breytingar á lögum um tekjuskatt vegna athugasemda frá Eftirlitsstofnun EFTA varðandi samsköttun félaga og takmörkun á frádrætti vaxtagjalda. Endur­flutt. Desember.
 6. Frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2021 II. Desember.
 7. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (bifreiðagjald, olíu- og kílómetragjald, vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.).
  Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar á lögum um bifreiðagjald, lögum um olíu- og kíló­metragjald og lögum um vörugjöld af ökutækjum, eldsneyti o.fl. Breytingarnar varða aðkomu skoð­un­arstöðva og Samgöngustofu að inn­heimtu gjalda o.fl. Desember.
 8. Frumvarp til laga um evrópska áhættufjármagnssjóði og evrópska félagslega framtakssjóði (EuVECA og EuSEF).
  Frumvarpið felur í sér innleiðingu á reglugerðum Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 345/2013 um evrópska áhættufjármagnssjóði og nr. 346/2013 um evrópska félagslega framtakssjóði, auk reglugerðar (ESB) 2017/1991 um breytingar á þessum reglugerðum. Innleiðing. Janúar.
 9. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002 (innleiðing EES-gerða o.fl.).
  Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki til að ljúka við innleið­ingu tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2013/36/ESB (CRD IV) og reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 575/201 (CRR) sem fjalla um stofnun og starfsemi fjármálafyrirtækja og eftirlit með þeim. Meðal annars verða lagðar til breytingar á lagareglum um eiginfjárauka, útibú og þjón­ustu þvert á landamæri, eftirlit og varfærniskröfur á samstæðugrunni og samstarf og upp­lýsinga­skipti eftirlitsaðila. Einnig verða lagðar til nokkrar breytingar til að einfalda lögin eða framkvæmd þeirra og lagfæra annmarka. Innleiðing. Janúar.
 10. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um ríkisábyrgðir og lögum um lánasýslu ríkisins (end­urskoðun).
  Með frumvarpinu er stefnt að því endurskoða lagaákvæði um lánaumsýslu ríkissjóðs og ríkis­ábyrgð­ir. Undir lánaumsýslu falla m.a. tekin lán ríkissjóðs, endurlán, ábyrgðir, afleiður, áhættustýr­ing og sjóðsstýring. Meginmarkmið frumvarpsins er að samræma löggjöfina lögum um opinber fjár­mál og stefnu í lánamálum. Janúar.
 11. Frumvarp til laga um upplýsingar tengdar sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu.
  Frumvarpið felur í sér innleiðingu á reglugerðum (ESB) 2019/2088 um sama efni (e. Sustainable Finance Disclosure Regulation) og 2020/852 um ramma til að greiða fyrir sjálfbærri fjárfestingu (e. Sustainable Finance Taxonomy Regulation). Innleiðing. Febrúar.
 12. Frumvarp til laga um greiðslureikninga (PAD).
  Frumvarpið felur í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/92/ESB um sam­bærileika gjalda vegna greiðslureikninga, skipti á greiðslureikningum og aðgengi að greiðslureikn­ingum. Innleiðing. Febrúar.
 13. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjárhagslegar viðmiðanir, nr. 7/2021 (breyting á móð­­ur­gerð).
  Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar á lögum um fjárhagslegar viðmiðanir til að ljá breyt­ing­um á reglugerð (ESB) 2016/1011 um fjárhagslegar viðmiðanir með reglugerð (ESB) 2021/168 gildi hér á landi. Innleiðing. Febrúar.
 14. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfa­fyrir­tækja, nr. 70/2020 (fjármögnun skilasjóðs).
  Í lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja var sérstöku fjármögn­un­ar­fyrirkomu­lagi, skilasjóði, komið á fót. Í ákvæði til bráðabirgða við lögin var kveðið á um að fjármögnun skilasjóðs skyldi eiga sér stað með tilfærslu á fjármunum úr innstæðudeild Tryggingarsjóðs inn­stæðueigenda og fjárfesta í tvö ár. Í frumvarpi þessu verða lagðar til viðbætur við XV. kafla laganna sem fjallar um skilasjóð. Viðbótunum er ætlað að innleiða eftir­standandi ákvæði í tilskipun 2014/59/ESB sem varða fjármögnun skilasjóðs og heimild hans til lánamála. Sam­hliða breytingum sem varða fyrirkomulag á fjármögnun skilasjóðs verður gjaldtaka í inn­stæðu­deild Tryggingarsjóðs inn­stæðueigenda og fjárfesta samkvæmt lögum nr. 98/1999 tekin til skoðun­ar. Innleiðing. Febrúar.
 15. Frumvarp til laga um gagnsæi í fjármögnunarviðskiptum með verðbréf og endurnotkun (SFTs).
  Með frumvarpinu verður reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/2365 um gagnsæi í fjár­mögn­unarviðskiptum með verðbréf og um endurnotkun og breytingu á reglugerð (ESB) nr. 648/2012 innleidd. Innleiðing. Mars.
 16. Frumvarp til laga um fjárfestingar og fasteignaumsýslu ríkisins.
  Með frumvarpinu verður lögð til ný heildarlöggjöf um fjárfestingar og fasteignaumsýslu ríkisins sem einnig felur í sér heildarendurskoðun á lögum um skipan opinberra framkvæmda. Mars.
 17. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um afleiðuviðskipti, miðlæga mótaðila og afleiðu­viðskiptaskrár, nr. 15/2018 (breyting á eftirliti).
  Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar á lögum um afleiðuviðskipti, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár sem miða aðallega að því að koma á auknu samstarfi á milli eftirlitsaðila er kemur að framkvæmd eftirlits með miðlægum mótaðilum. Jafnframt kemur til sögunnar ný skipting á miðlægum mótaðilum í kerfislega mikilvæga og ekki kerfislega mikilvæga og taka þær kröfur sem gerðar eru til miðlægra mótaðila mið af þessari nýju flokkun. Frumvarpinu er ætlað að innleiða reglugerð 2019/2099/ESB um breytingar á tilskipun 648/2012/ESB hvað varðar ferla og lögbær yfirvöld er koma að starfsleyfisveitingu miðlægra mótaðila og þær kröfur sem gerðar eru til viður­kenningar á miðlægum mótaðilum í þriðju ríkjum. Innleiðing. Mars.
 18. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt (netverslun o.fl.).
  Frumvarpið felur í sér breytingar á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, sem m.a. snúa að net­verslun o.fl. Mars.
 19. Frumvarp til laga um evrópska langtímafjárfestingarsjóði (ELTIF).
  Frumvarpið felur í sér innleiðingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/760 um evrópska langtímafjárfestingarsjóði. Innleiðing. Mars.
 20. Frumvarp til laga um peningamarkaðssjóði.
  Frumvarpið felur í sér innleiðingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/1131 um pen­ingamarkaðssjóði. Innleiðing. Mars.
 21. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um markaði fyrir fjármálagerninga, nr. 115/2021 (ýmsar breytingar).
  Með frumvarpinu er lagt til að tekin verði upp í íslenskan rétt ákvæði tveggja ólíkra Evrópugerða sem báðar breyta tilskipun 2014/65/ESB um markaði fyrir fjármálagerninga (MiFID2). Um er að ræða tilskipun (ESB) 2019/2115 um vaxtarmarkaði fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki og tilskipun (ESB) 2021/338 um breytingar á MiFID2 til að létta á ýmsum kröfum til að styðja við efnahagsbata vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Innleiðing. Mars.
 22. Tillaga til þingsályktunar um fjármálastefnu fyrir árin 2022–2026. Nóvember.
 23. Tillaga til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2023–2027. Mars. 

Heilbrigðisráðherra

 1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997 (beiting nauð­ung­ar). 
  Með frumvarpinu er lagt til að setja lagaramma um það verklag sem viðhaft er á heilbrigðis­stofnun­um hér á landi, sem felur í sér þvinganir, valdbeitingu eða annars konar inngrip í sjálfs­ákvörðunar­rétt, frelsi og friðhelgi einkalífs sjúklinga. Með frumvarpinu eru því lagðar til breyt­ingar á lögum um réttindi sjúklinga sem fela meðal annars í sér ný ákvæði um skilgreiningu nauð­ungar og fjar­vökt­unar, skilyrði fyrir beitingu nauðungar og fjarvöktunar auk málsmeðferðar­reglna sem fylgja þarf við og í kjölfar slíkra inngripa, þ.m.t. skráningarskyldu tilvika, kæru­heim­ildir og rétt til að bera mál undir dómstóla. Endurflutt með breytingum. Desember.
 2. Frumvarp til laga um dýralyf.
  Með frumvarpinu verður lagt til að innleiddar verði reglugerðir (EB) 2019/5 um breytingu á reglu­gerð (EB) nr. 726/2004 um málsmeðferð bandalagsins við veitingu leyfa fyrir manna- og dýra­lyfjum og eftirlit með þeim lyfjum og um stofnun Lyfjastofnunar Evrópu og um breytingu á reglu­gerð (EB) nr. 1901/2006 um lyf fyrir börn og á tilskipun 2001/83/EB um Bandalagsreglur um lyf sem ætluð eru mönnum og reglugerð (EB) 2019/6 um dýralyf og um niðurfellingu á tilskipun 2001/82/EB. Reglugerðirnar innihalda nýja heildarlöggjöf á sviði dýralyfja sem þörf er á að innleiða með fullnægjandi hætti í íslenskan rétt. Einnig verða ákvæði lyfjalaga, nr. 100/2020, sem fjalla sér­­staklega um dýralyf færð yfir í nýju lögin. Innleiðing. Desember.
 3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007 (skimunar­skrá).
  Með frumvarpinu verður lögð til breyting á 8. gr. laganna í þeim tilgangi að gera skimunarskrá krabba­meinsskimana eina af heilbrigðisskrám sem landlæknir skipuleggur og er heimilt að færa upplýsingar um nöfn sjúklinga, kennitölur og önnur tiltekin persónuauðkenni án samþykkis sjúkl­ings. Janúar.
 4. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um lífsýnasöfn og söfn heilbrigðisupplýsinga og lögum um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði (aðgangur að heilbrigðisgögnum). 
  Eitt af stefnumiðum heilbrigðisstefnunnar er að gagnagrunnur og lífsýnasöfn innan heilbrigðis­kerfisins séu opin og aðgengileg vísindamönnum sem öðlast hafa tilskilin leyfi til vísindarannsókna. Aðgengi vísindamanna að gagnagrunnum og lífsýna­söfn­um innan heilbrigðiskerfisins er ekki nægilega vel tryggt í gildandi lögum til þess að stuðla að framangreindu stefnu­miði heilbrigðis­stefn­­unnar. Frumvarpi þessu er ætlað að breyta því. Endurflutt með breytingum. Febrúar.
 5. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974 (afglæpavæð­ing neyslu­­­skammta). 
  Frumvarpið felur í sér breytingu á ákvæði laganna um vörslu og meðferð á þann hátt að heimila vörslu ávana- og fíkniefna sem teljast til eigin nota. Endurflutt með breytingum. Febrúar.
 6. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur, nr. 87/2018 (nikótínvörur, eftirlit o.fl.). 
  Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar varðandi rafrettur í þeim tilgangi að skýra frekar eftirlit með auglýsingabanni því sem kveðið er á um í lögunum. Jafnframt verður sá hluti laganna endurskoðaður er lýtur að almennum eftirlits- og valdheimildum. Auk þess verða lögð til nýmæli til að koma á sambærilegri umgjörð um innflutning, sölu og eftirlit með nikótínvörum, m.a. nikótín­púðum, á Íslandi með hliðsjón af þeim reglum er gilda í Evrópu, sér í lagi annars staðar á Norður­lönd­unum. Endurflutt með breytingum. Febrúar.
 7. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999 (hlutverk og fjöldi færni- og heilsumatsnefnda). 
  Með frumvarpinu verður lagt til að fækka færni- og heilsumatsnefndum úr sjö í eina. Febrúar.
 8. Frumvarp til laga um breytingu á á sóttvarnalögum, nr. 19/1997 (heildarendurskoðun).
  Með frumvarpinu verða lagðar fram breytingar á lögunum í kjölfar heildarendurskoðunar sem nauð­synlegt var að ráðast í með hliðsjón af fenginni reynslu eftir heimsfaraldur SARS-CoV-2-veirunnar. Mars.
 9. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um tóbaksvarnir, nr. 6/2002 (bann við tóbaki með einkennandi bragði).
  Með frumvarpinu verður lagt til að gerð verði breyting á lögunum til að innleiða að mestu tilskipun 2014/40/ESB um samræmingu ákvæða í lögum og stjórnvaldsfyrirmælum aðildarríkjanna varðandi fram­leiðslu, kynningu og sölu á tóbaki og tengdum vörum og um niðurfellingu á tilskipun 2001/37/EB. Með frumvarpinu er lagt til að sett verði bann við tóbaki með einkennandi bragði sem og tilteknum aukaefnum í tóbaksvörum. Einnig er lagt til að settar verði reglur um jurtavörur til reyk­­inga, sbr. 21. gr. fyrrgreindrar tilskipunar. Innleiðing. Mars.
 10. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum (samþætting þjónustu í þágu farsældar barna).
  Með frumvarpinu verða lagðar til minni háttar breytingar á ýmsum lögum, svo sem lögum um réttindi sjúklinga, lögum um sjúkraskrár og öðrum sem geta snert heilbrigðisþjónustu við börn með það að markmiði að tryggja að ekki sé ósamræmi milli laga í heilbrigðismálum og laga um sam­þætt­ingu þjónustu í þágu farsældar barna, nr. 86/2021. Mars.
 11. Tillaga til þingsályktunar um framtíðarsýn um heilbrigðisþjónustu við aldraða.
  Með vísan til þingsályktunar um heilbrigðisstefnu til ársins 2030 verður lögð fram tillaga til þings­ályktunar um framtíðarsýn um heilbrigðisþjónustu við aldraða. Mikilvægt er að þjónusta sé ávallt veitt á viðeigandi þjónustustigi eftir þörfum einstaklinga. Horfa þarf til heildarskipulags þjónustu við aldraða, samþættingar milli heilbrigðisþjónustu og félagslegrar þjónustu og þverfaglegs sam­starfs milli þessara þjónustustiga. Febrúar.
 12. Tillaga til þingsályktunar um framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum til ársins 2030.
  Tillaga til þingsályktunar um framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum til ársins 2030 endurspeglar upp­bygg­ingu heilbrigðisstefnu og lýðheilsustefnu þar sem áhersla er lögð á forystu til árangurs, rétta þjónustu á réttum stað, fólkið í forgrunni, virka notendur, skilvirk þjónustukaup, gæði í fyrirrúmi og framtíðarsýn. Febrúar.
 13. Skýrsla heilbrigðisráðherra um áætlun um framkvæmd heilbrigðisstefnu til fimm ára. 
  Til að hrinda heilbrigðisstefnu til ársins 2030 í framkvæmd skal gera áætlanir um aðgerðir til fimm ára í senn. Slíkar áætlanir verði uppfærðar árlega meðan heilbrigðisstefnan er í gildi. Heilbrigðis­ráðherra skal leggja árlega fram aðgerðaáætlanir heilbrigðisstefnu til umræðu á Alþingi. Mars.
 14. Skýrsla heilbrigðisráðherra um áætlun um framkvæmd lýð­heilsu­stefnu til fimm ára.
 15. Til að hrinda lýðheilsustefnu til ársins 2030 í framkvæmd skal gera áætlanir um aðgerðir til fimm ára í senn í samráði við helstu aðila, svo sem sveitarfélög. Slíkar áætlanir verði uppfærðar árlega meðan lýðheilsustefnan er í gildi. Heilbrigðisráðherra skal leggja árlega fram aðgerðaáætlanir lýð­heilsu­stefnunnar til umræðu á Alþingi. Mars.

Innanríkisráðherra

 1. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum (framlenging bráðabirgðaheimilda).
  Með frumvarpinu er lagt til að tímabundnar heimildir til rafrænnar málsmeðferðar verði framlengd­ar sem og heimild fyrir óbreyttri staðsetningu Landsréttar en heimildirnar renna út 1. janúar 2022. Jafnframt er lagt til að heimildir til rafrænnar málsmeðferðar mála hjá sýslumönnum verði fram­lengd­ar. Desember.
 2. Frumvarp til laga um breytingu á áfengislögum, nr. 75/1998 (sala á framleiðslustað). 
  Með frumvarpinu er gert ráð fyrir að mæta kröfum minni áfengisframleiðanda, sérstaklega á lands­byggð­inni, um að heimilt verði, í tilteknum tilvikum, að selja áfengi í smásölu til neytenda. Felur það í sér að áfengisframleiðanda verði heimilt að selja á framleiðslustaðnum eigin framleiðslu í neyt­­enda­umbúð­um, til neyslu annars staðar. Endurflutt. Janúar.
 3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008 (réttarstaða brota­þola, fatl­aðra og aðstandenda). 
  Um er að ræða breytingu sem styrkir stöðu brotaþola í sakamálum og eykur aðgang hans að gögnum og upplýsingum. Breytingarnar byggjast á tillögum í greinargerð um leiðir til að styrkja réttarstöðu brotaþola. Endurflutt. Janúar.
 4. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannavarnir, nr. 82/2008 (almannavarnastig o.fl.). 
  Um er að ræða frumvarp þar sem lagðar verða til breytingar sem metnar eru nauðsynlegar í ljósi þeirrar reynslu sem komin er á lög um almannavarnir. Meðal þeirra breytinga sem lagðar verða til í frumvarpinu verður endurskoðun á fyrirkomulagi á rýni í kjölfar almanna­varnaástands að teknu tilliti til reynslu af rann­sókn rannsóknarnefndar almannavarna vegna óveðurs í desember 2019, skýra á hugtök og vald­heimild­ir eftir því sem þörf þykir, m.a. hvað varðar almannavarnastig. Endurflutt. Janúar.
 5. Frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940 (barnaníðsefni, hatursorðræða, mis­mun­un o.fl.).
  Um er að ræða breytingu á 70. gr. laganna um refsiþyngingu sem og ákvæðum laganna um barnaníð. Endur­flutt. Janúar.
 6. Frumvarp til laga um breytingu á hjúskaparlögum, nr. 31/1993 (aldur hjónaefna, könnunar­menn o.fl.). 
  Lagðar eru til breytingar sem varða undanþáguheimild vegna lágmarksaldurs til þess að stofna til hjúskapar, könnun hjónavígsluskilyrða, lögsögu í hjónaskilnaðarmálum auk þess sem lagt er til að færa verkefni frá ráðuneytinu til sýslumanna. Endurflutt. Janúar.
 7. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga og atvinnuréttindi útlendinga (innleiðing, Schengen, Brexit, dvalar- og atvinnuleyfi). 
  Með frumvarpinu eru lagðar til nauðsynlegar breytingar til að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar (Schengen og Brexit) auk nauðsynlegra ívilnandi breytinga á ákvæðum er varða dvalar- og atvinnu­leyfi. Innleiðing. Janúar.
 8. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 80/2016 (alþjóðleg vernd).
  Hér eru lagðar til breytingar á málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd til að auka skilvirkni og stytta málsmeðferðartíma, án þess þó að skerða réttindi umsækjenda. Janúar.
 9. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð sakamála og lögum um meðferð einka­mála o.fl. (ýmsar breytingar).
  Með frumvarpinu eru lagðar til ýmsar breytingar til að einfalda málsmeðferð. Janúar.
 10. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008 (ýmsar breyting­ar vegna skipulagðrar brotastarfsemi).
  Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar til að takast á við rannsókn mála er varða skipulagða brota­starf­semi svo sem lengd gæsluvarðhalds og aðgang að gögnum. Janúar.
 11. Frumvarp til laga um breytingu á lögreglulögum, nr. 90/1996 (aðgerðir til að koma í veg fyrir brot).
  Með frumvarpinu eru lagðar til áframhaldandi breytingar til að bæta starfsumhverfi lögreglunnar. Markmiðið með breytingunum er að skýra heimildir lögreglu til að grípa til ráðstafana í þágu af­brota­varna að gættum stjórnarskrárvörðum grundvallarréttindum borgaranna. Heimildirnar varða sérstaklega afbrot eða athafnir sem raskað geta öryggi borgaranna og ríkisins, svo og afbrot sem felast í skipulagðri brotastarfsemi, dreifingu á stafrænu kynferðisofbeldi gegn börnum, netbrotum og/eða árásum, þar á meðal gegn æðstu stjórn ríkisins og hryðjuverkum. Janúar.
 12. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, nr. 13/1984 (einföldun málsmeðferðar).
  Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ferli réttarbeiðna frá erlendum yfirvöldum, bæði til að ein­falda ferlið og lagfæra orðalag. Janúar.
 13. Frumvarp til laga um samningsbundna gerðardóma. 
  Um er að ræða heildarendurskoðun samnefndra laga nr. 53/1989. Janúar.
 14. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu, nr. 36/1993 (reikningshald Kirkjugarðasjóðs).
  Með frumvarpinu er lögð til breyting á 5. mgr. 40. gr. laganna þess efnis að reikningshald Kirkju­garðasjóðs verði fært frá skrifstofu biskups til kirkjugarðaráðs, sem bera muni ábyrgð á reiknings­haldi sjóðsins og því hvernig haldið er utan um fé hans, eftir atvikum með því að semja við einhvern um að annast fjárreiður sjóðsins með fullnægjandi hætti. Janúar.
 15. Frumvarp til breytinga á lögum um útgáfu og notkun nafnskírteina, nr. 25/1965 (ný nafn­skír­teini).
  Með frumvarpinu er lagt til að Þjóðskrá Íslands verði heimilt að gefa út ný nafnskírteini fyrir ein­staklinga sem jafnframt væru ferðaskilríki á Schengen-svæðinu. Janúar.
 16. Frumvarp til laga um landamæri. 
  Með frumvarpinu er lagt til að sett verði lög um landamæri sem mæli fyrir um grunnreglur sem gilda um för einstaklinga yfir landamæri. Frumvarpinu er einnig ætlað að innleiða reglugerðir Evrópu­þingsins og ráðsins um þróun og starfsemi komu- og brottfararkerfis fyrir Schengen-svæðið (reglugerð (ESB) 2017/2225 og reglugerð (ESB) 2017/2226) og um evrópskt kerfi um ferðaheimild (reglugerð (ESB) 2018/1240 og reglugerð (ESB) 2018/1241). Innleiðing. Febrúar.
 17. Frumvarp til laga um breytingu á vopnalögum, nr. 16/1998 (öflun og varsla skotvopna). 
  Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á vopnalögum, m.a. til að styrkja lagastoð reglugerðar nr. 510/2018 um sprengiefni og forefni til sprengigerðar og til að innleiða reglugerð (ESB) 2017/853 um öflun og vörslu skotvopna þar sem mælt er fyrir um skýrar reglur til að auka rekjan­leika skotvopna, reglur um tiltekinn varðveislutíma upplýsinga í skotvopnaskrá og áskilnað um sér­stakar ráðstafanir þegar skotvopn eru gerð óvirk. Innleiðing. Febrúar.
 18. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991 (kennitölu­flakk).
  Með frumvarpinu er lagt til að við gjaldþrotaskipti á félagi með takmarkaða ábyrgð geti skiptastjóri kraf­ist þess að lagt verði atvinnurekstrarbann á þann sem komið hefur að stjórnun félagsins á síðustu 18 mánuðum fyrir frestdag ef viðkomandi telst ekki hæfur til að stýra félaginu vegna verulega skað­legra eða óverjandi viðskiptahátta við stjórnun félagsins á umræddu tímabili. Endurflutt. Febrúar.
 19. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008 (bótafjár­hæðir.
  Í frumvarpinu er lögð til einföldun á meðferð bótakrafna vegna brota á IX.–XIV. kafla laganna vegna ólögmætrar handtöku, þvingunarráðstafana og gæsluvarðhalds á þann hátt að settar verði reglur um viðmiðunarfjárhæðir bóta sem ríkislögmaður styðst við við uppgjör slíkra bóta. Samhliða er felld á brott skylda til að veita gjafsókn í slíkum bótamálum. Með þessum breytingum er unnt að flýta uppgjöri bóta og fækka dómsmálum vegna ágreinings um bætur. Í frumvarpinu felst hagræð­ing í meðferð málanna bæði fyrir þolendur og ríkið auk þess sem gera má ráð fyrir lækkun útgjalda hjá ríkissjóði vegna málskostnaðar í þessum málum. Mars.

Innviðaráðherra

 1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um loftferðir, nr. 60/1998 (skyldur flugrekenda vegna COVID-19).
  Með frumvarpinu er bráðabirgðaákvæði sem kveður á um skyldur flugrekenda vegna heims­farald­urs COVID-19 framlengt til 1. júní 2022. Ákvæðið var sett með lögum nr. 41/2021, en gildis­tími þess rennur út um áramótin. Desember.
 2. Frumvarp til laga um áhafnir skipa. 
  Frumvarp til nýrra heildarlaga um áhafnir skipa sem mun taka við af fjórum eldri lagabálkum og ætlað er að einfalda löggjöf og regluverk er varða áhafnir skipa og tryggja öryggi sjófarenda. Endur­flutt. Janúar.
 3. Frumvarp til laga um leigubifreiðaakstur.
  Frumvarpið felur í sér nýja heildarlöggjöf um leigubifreiðaakstur hér á landi. Markmið frumvarps­ins er að auka frelsi á leigubifreiðamarkaðnum og tryggja örugga og góða þjónustu. Endurflutt. Janúar.
 4. Frumvarp til laga um loftferðir.
  Frumvarpið felur í sér ný heildarlög um loftferðir. Markmið laganna er að tryggja öruggar, greiðar og hagkvæmar flugsamgöngur að teknu tilliti til neytendaverndar, umhverfissjónarmiða og skuld­bindinga á sviði þjóðréttar. Um leið treysta samkeppnishæfni íslensks flugrekstrar og starfsemi í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi. Endurflutt. Janúar.
 5. Frumvarp til laga um stefnumarkandi áætlanir á sviði samgangna, fjarskipta og byggða­mála.
  Markmið frumvarpsins er að taka næsta skref í samhæfingu áætlana á málefnasviði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins en fyrsta skrefið var tekið með lögum nr. 53/2018. Í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti eru þrjú meginsvið sem leggja grunn að innviðum og þjónustu í samfélag­inu: sveitarstjórnar- og byggðamál, samgöngur, og fjarskipti. Þessi svið mynda eina heild þar sem starfsemi eins hefur mikil áhrif á hin. Með því að samræma og samhæfa stefnur og áætlanir á þess­um sviðum gefst kostur á að hámarka árangur og jákvæð áhrif stefnumörkunarinnar, enda verði tek­­ið mið af tengdum málefnum og horft lengra en til sérstakra verkefna einstakra málaflokka. Endurflutt. Janúar.
 6. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um Slysavarnaskóla sjómanna, nr. 33/1991 (skipan og hlutverk skólanefndar, aðskildar fjárreiður).
  Frumvarpið felur í sér uppfærslu ákvæða gildandi laga um Slysavarnaskóla sjómanna. Frumvarpið heimilar einnig Slysavarnafélaginu Landsbjörg, sem tók við rekstri skólans af Slysavarnafélagi Íslands 1999, að reka skólann í sérstöku félagi. Frumvarpið hefur hins vegar hvorki áhrif á ábyrgð og skuldbindingar Slysavarnafélagsins Landsbjargar gagnvart ríkinu hvað skólann varðar né rekstur skól­ans að öðru leyti. Janúar.
 7. Frumvarp til laga um breytingu á umferðarlögum, nr. 77/2019 (EES-reglur, ökutæki o.fl.).
  Frumvarpinu er ætlað að tryggja lagastoð til innleiðingar tiltekinna EES-gerða er varða markaðs­eftirlit og öryggi ökutækja og jafnframt greiða fyrir fullgildingu Íslands á tveimur alþjóðlegum samn­ingum um gerð og búnað ökutækja, gagnkvæma viðurkenningu o.fl. Innleiðing. Janúar.
 8. Frumvarp til laga um uppbyggingu og rekstur flugvalla og þjónustu við flugumferð.
  Markmiðið með frumvarpinu er að heildstæð lög um uppbyggingu og rekstur flugvalla á Íslandi og rekstur flugumferðarþjónustu leysi af hólmi gildandi lagaumhverfi um starfsemi Isavia ohf. sem nú starfar á grundvelli þrennra laga. Ákvæði þeirra eru dreifð, takmörkuð og að einhverju leyti úrelt. Í frumvarpinu eru ákvæði um hlutverk flugvallanna í heildarsamgöngukerfi landsins og hvernig stefnu­mörkun samgönguyfirvalda skuli framfylgt. Loks er í frumvarpinu skotið styrkum stoðum undir töku varaflugvallargjalds. Frumvarpið er að stærstum hluta efnislega samhljóða frumvarpi sem ráðherra mælti fyrir á síðasta þingi en náði ekki fram að ganga. Janúar.
 9. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um Innheimtustofnun sveitarfélaga, nr. 54/1971 (tilfærsla á innheimtu meðlaga o.fl.). 
  Með frumvarpinu verður mælt fyrir um nauðsynlegar lagabreytingar vegna tilfærslu á innheimtu meðlagskrafna frá sveitarfélögum til ríkisins ásamt öðrum réttarbótum sem er ætlað að fela í sér skýrari verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, einföldun á framkvæmd innheimtu meðlaga, aukið rétt­ar­öryggi fyrir skuldara meðlaga o.fl. Febrúar.
 10. Frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011 (íbúakosningar o.fl.). 
  Með frumvarpinu verða lagðar til ýmsar breytingar á sveitarstjórnarlögum er snúa að íbúa­kosn­ing­um á vegum sveitarfélaga. Mars.
 11. Frumvarp til laga um breytingu á hafnalögum, nr. 61/2003 (EES-reglur, gjaldtaka, raf­ræn vöktun o.fl.).
  Frumvarpið er liður í að innleiða reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/352 um að setja ramma um veitingu hafnarþjónustu og reglur um gagnsæi í fjármálum fyrir hafnir. Einnig felur frumvarpið í sér breytingar á ákvæðum er lúta að gjaldtöku vegna fiskeldis, skilgreiningu hafnar­svæða, kærum á gjaldskrárákvæðum hafna og hlutverki Samgöngustofu og Vegagerðarinnar á þessu sviði. Frumvarpið er að hluta til efnislega samhljóða frumvarpi sem ráðherra mælti fyrir á síð­asta þingi en náði ekki fram að ganga. Innleiðing að hluta. Mars.
 12. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um vaktstöð siglinga, nr. 41/2003 (gjaldtaka o.fl.). 
  Tilgangur frumvarpsins er að skýra stöðu vaktstöðvar siglinga gagnvart þeim stofnunum sem að rekstri hennar koma og jafnframt styrkja grunn þeirrar gjaldtöku sem fram fer á grundvelli laganna. Mars.
 13. Frumvarp til laga um breytingar á lögum um póstþjónustu, nr. 98/2019 (úrbætur á póst­mark­aði).
  Með ákvæði til bráðabirgða við lög um póstþjónustu sem samþykkt var í júní 2021, var ráðherra falið að skipa þverfaglegan starfshóp til að meta hvernig best megi ná markmiðum laganna, m.a. með hliðsjón af tækninýjungum, byggða- og samkeppnissjónarmiðum og alþjóðlegum skuldbind­ingum Íslands. Er starfshópnum jafnframt ætlað að útfæra tillögur sem tryggja að allir landsmenn fái notið póstþjónustu á viðunandi verði og er frumvarpinu ætlað að fylgja eftir tillögum starfs­hópsins. Mars.
 14. Frumvarp til laga um breytingu á lögum skráningu og mat fasteigna, nr. 6/2001 (uppbygging nýrrar mannvirkjaskrár).
  Unnið er að uppbyggingu nýrrar mannvirkjaskrár í samstarfi samgöngu- og sveitarstjórn­ar­ráðu­neyt­isins, félagsmálaráðuneytisins, Þjóðskrár Íslands, Húsnæðis og mannvirkjastofnunar og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Í mannvirkjaskrá verða nákvæm og áreiðanleg gögn um mann­virki á Íslandi og byggingarstig þeirra. Frumvarpið miðar að því að innleiða breytingar sem styðja við þessa upp­byggingu. Mars.
 15. Tillaga til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022–2036.
  Samkvæmt lögum um byggðaáætlun og sóknaráætlanir, nr. 69/2015, skal ráðherra leggja á að minnsta kosti þriggja ára fresti fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggða­áætlun til fimmtán ára í senn og aðgerðaáætlun til fimm ára. Endurflutt. Janúar.

Mennta- og barnamálaráðherra

 1. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum á málefnasviði menntamála (samþætting þjón­ustu í þágu farsældar barna). 
  Alþingi samþykkti nýverið lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna ásamt fleiri lögum sem tengjast þeim efnislega. Með lögunum er stefnt að því að búa til löggjöf um heildstæða þjónustu við börn, m.a. með því að kveða á um stigskipt þjónustukerfi og samspil milli þjónustukerfa á mál­efnasviði einstakra ráðherra. Lögin kalla á breytingar á löggjöf sem fellur undir ráðherra. Mars.
 2. Frumvarp til laga um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra.
  Endurskoða þarf lög um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, nr. 129/1990. Stefnt er að því að lagt verði fram frumvarp til nýrra heildarlaga. Markmið þeirrar vinnu er aukinn fyrir­sjáanleiki, bætt þjónusta og að starfsemi stofnunarinnar verði lýst eins og hún hefur þróast frá setn­ingu laganna. Í frumvarpinu er mælt fyrir um inntak táknmálstúlkaþjónustu og þau skilyrði sem þarf að uppfylla til að njóta hennar. Mars.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

 1. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum á sviði fiskveiðistjórnar (eftirlit Fiskistofu o.fl.).
  Með frumvarpinu er lagt til að gerðar verði breytingar á lögum í því skyni að styrkja eftirlit með fisk­veið­um í samræmi við ábendingar verkefnisstjórnar um bætt eftirlit í sjávarútvegi sem sett var á fót í framhaldi af skýrslu Ríkisendurskoðunar um eftirlit Fiskistofu. Endurflutt. Janúar.
 2. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum á sviði fiskveiða og erlendrar fjárfestingar (veiðar á bláuggatúnfiski). 
  Með frumvarpinu er lagt til að sett verði tímabundin lagaákvæði sem ætlað er að ýta undir nýtingu heimilda Íslands til veiða á túnfiski og með því viðhalda veiðireynslu um leið og tryggð verði upp­bygging á færni við veiðarnar sem nýst geti til framtíðar. Janúar.
 3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, nr. 25/1993 (bætur vegna varna gegn dýrasjúkdómum). 
  Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á bótaákvæðum laga um dýrasjúkdóma vegna varna gegn búfjársjúkdómum, þ.m.t. riðuveiki í sauðfé og geitfé. Janúar.
 4. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um matvæli og lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru (lífræn framleiðsla). 
  Með frumvarpinu er lagt til að gerðar verði nauðsynlegar breytingar á lögum um mat­væli, nr. 93/1995, og lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, nr. 22/1994, til innleiðingar á nýrri löggjöf ESB um lífræna framleiðslu og merkingu lífrænna vara og að um leið verði lög um líf­ræna landbúnaðarframleiðslu, nr. 162/1994, felld úr gildi. Með frumvarpinu er lagt til að innleidd verði reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/848 um lífræna framleiðslu og merkingu lífrænna vara sem fellir niður reglugerð ráðsins (EB) nr. 834/2007. Innleiðing. Janúar.

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra

 1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998 (menntun og þjálfun sundkennara, eftirlit með starfsemi og athöfnum o.fl.).
  Í frumvarpinu er m.a. lagt til að skerpa á ákvæðum um námskeið og hæfnispróf m.a. varðandi end­ur­menntun sundkennara og laugavarða. Þá er lagt til að í lögin verði sett ákvæði til að kveða skýrar á um eftirlitsskyldu og umfang þess eftirlits með starfsemi og athöfnum sem valdið geta mengun eða ógnað hollustuháttum, kveða skýrar á um hvaða stjórnvald gefi út tiltekin starfsleyfi og setja inn gjaldtökuheimild til handa Umhverfisstofnun fyrir skráningu á skráningarskyldri starf­semi. Frumvarpið var lagt fram á 151. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga. Frum­varp­ið verð­ur lagt fram að nýju. Endurflutt. Desember.
 2. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, nr. 49/1997 (markmiðsákvæði, endurskoðun hættumats, sektir o.fl.).
  Með frumvarpinu eru sett fram ákvæði um markmið með lögunum, aukið á skýrleika tiltekinna ákvæða, lagðar til breytingar á ákvæðum um endurskoðun hættumats, eftirlit, um nýtingu húseigna og innheimtu gjalda og lögð til sektarákvæði. Frumvarpið var lagt fram á 151. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga. Frumvarpið verður lagt fram að nýju. Endurflutt. Janúar.
 3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um menningarminjar, nr. 80/2012 (verndarsvæði í byggð). 
  Í frumvarpinu verða endurskoðuð viss ákvæði laganna, helst þeir hlutar 3. og 29. gr. sem varða 100 ára reglu, þ.e. friðun fornminja, húsa og mannvirkja sem eru 100 ára og eldri. Friðun verður líklega frekar bundin við tiltekið fast ártal í staðinn. Einnig verður litið til annarra ákvæða í ljósi reynslu síðastliðinna níu ára af framkvæmd laganna. Hins vegar verða lög um verndarsvæði í byggð felld inn í minjalögin og hlutverk Minjastofnunar Íslands hvað varðar verndarsvæði skilgreint nánar. Febrúar.
 4. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998 (EES-innleiðing, undanþága frá starfsleyfi). 
  Með frumvarpinu er lagt til að skilyrði fyrir veitingu undanþágu frá starfsleyfi á grundvelli laganna verði útfærð nánar með hliðsjón af athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA vegna innleiðingar á til­skipun 2011/92/ESB um mat á áhrifum sem tilteknar framkvæmdir á vegum hins opinbera eða einka­aðila kunna að hafa á umhverfið. Innleiðing. Mars.
 5. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn vatnamála, nr. 36/2011 (stjórnsýsla). 
  Með frumvarpinu er lagt til að gera nokkrar breytingar á lögunum með hliðsjón af reynslu af fram­kvæmd laganna í því skyni að auka skilvirkni stjórnsýslu. Mars.
 6. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um loftslagsmál, nr. 70/2012 (opinber innkaup á vistvænum ökutækjum o.fl.). 
  Frumvarpinu er ætlað að breyta efnisákvæðum IX. kafla B sem fjallar um opinber innkaup á vistvænum ökutækjum vegna tilskipunar (ESB) 2019/1161 sem breytir áður innleiddri tilskipun Evrópu­þingsins og ráðsins 2009/33/EB um að stuðla að notkun á hreinum og orkunýtnum öku­tækjum til flutninga á vegum. Að auki verður lögð til orðalagsbreyting í 6. gr. b og að II. viðauki við lögin verði felldur á brott. Mars.
 7. Tillaga til þingsályktunar um um verndar- og orkunýtingaráætlun (3. áfangi).
  Tillaga lögð fram í samræmi við lög um verndar- og orkunýtingaráætlun, nr. 48/2011. Endurflutt. Mars.
 8. Tillaga til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár.
  Samkvæmt 34. gr. laga um náttúruvernd, nr. 60/2013, leggur ráðherra fram tillögu til þingsálykt­un­ar um framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár til fimm ára. Um er að ræða tillögu um skrá yfir þær náttúruminjar sem Alþingi ákveður að setja í forgang um friðlýsingu eða friðun á næstu fimm árum og skal ráðherra byggja ákvarðanir um friðlýsingar á framkvæmdaáætluninni. Mars.

Utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra

 1. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fríverslunarsamnings við Bretland, annarra samninga við Bretland o.fl. (atvinnuréttindi, kjötinnflutningur og vinnudvöl ungs fólks).
  Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar á þremur mismunandi lagabálkum sem leiddar eru af samningsskuldbindingum Íslands í samningum við Bretland. Í fyrsta lagi eru lagðar til breytingar á lögum um atvinnuréttindi útlendinga sem kveða á um að nánustu aðstandendum þjónustuveitenda sem starfa tímabundið á Íslandi verði gert kleift að sækja um dvalar- og atvinnuleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar. Í öðru lagi verður lögð til breyting á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim til að heimila aftur innflutning á fersku kjöti og sambærilegum vörum frá Bretlandi. Í þriðja lagi verða lagðar til lagabreytingar vegna samnings um gagnkvæm dvalar- og atvinnuleyfi ungs fólks. Þær tillögur fela í sér breytingu á lögum um útlendinga sem myndi heimila gerð slíkra samn­inga fyrir fólk á aldrinum 18–31 árs í stað 18–26 ára samkvæmt gildandi lagaákvæðum og heimila endurnýjun slíkra dvalarleyfa um eitt ár ef samningur við tiltekið ríki gerir ráð fyrir dvöl í allt að tvö ár á þessum grundvelli. Gert er ráð fyrir að framangreindar lagabreytingar verði lagðar fram, samhliða þingsályktunartillögu um heimild til handa ríkisstjórn um að fullgilda fríverslunar­samn­ing við Bretland. Desember.
 2. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða, nr. 93/2008 (frysting fjármuna, skráning á lista yfir þvingunaraðgerðir o.fl.).
  Með frumvarpinu verða gerðar breytingar á lögum nr. 93/2008 til að samræma framkvæmd þeirra ákvæðum nýrra laga um frystingu fjármuna og skráningu aðila á lista yfir þvingunaraðgerðir í tengslum við fjármögnun hryðjuverka og útbreiðslu gereyðingarvopna, nr. 64/2019. Samhliða verða ákvæði laga nr. 93/2008 endurskoðuð í ljósi þeirra reynslu sem komin er á þau, m.a. hvað varðar gildissvið þeirra m.t.t. breytinga á lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðju­verka, nr. 140/2018. Febrúar.
 3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um eftirlit með þjónustu og hlutum sem geta haft hernaðarlega þýðingu, nr. 58/2010 (sérfræðimat, gjaldtaka, reglugerðarheimild o.fl.). 
  Með frumvarpinu er lagt til að við lögin verði bætt ákvæðum þannig að lögbæru stjórnvaldi verði í ákveðnum tilfellum heimilt að leita eftir sérfræðimati á þjónustu eða hlutum sem geta haft hernaðar­lega þýðingu þegar sótt er um útflutningsleyfi og gjaldtökuheimild vegna slíks mats. Jafnframt er lagt til að bætt verði inn reglugerðarheimild þannig að unnt verði að setja reglugerð um framkvæmd laganna með hliðsjón af framkvæmd þeirra undanfarin ár. Samhliða verða lögin endurskoðuð með hliðsjón af nýrri reglugerð Evrópusambandsins sem kemur á fót stjórnkerfi Evrópusambandsins um eftir­lit með útflutningi, miðlun, tæknilegri aðstoð og flutningi hluta sem hafa tvíþætt notagildi. Febrúar.
 4. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu samnings milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu árið 2022. 
  Samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar árið 2022 innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu. Desember.
 5. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu fríverslunarsamnings milli Íslands, Konungs­rík­isins Noregs, furstadæmisins Liechtensteins og Sameinaða konungsríkisins Stóra-Bret­lands og Norður-Írlands. 
  Tillaga um þingsályktunar um staðfestingu fríverslunarsamningsins milli EFTA-ríkjanna þriggja innan EES; Íslands, Noregs og Liechtensteins, og Bretlands, eftir útgöngu Bretlands úr Evrópu­sambandinu, sem samkomulag náðist um í byrjun júní 2021 og undirritaður var í byrjun júlí 2021. Desember.
 6. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 214/2020 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn. 
  Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/1991 frá 25. október 2017 um breytingu á reglu­gerð (ESB) nr. 345/2013 um evrópska áhættufjármagnssjóði og reglugerð (ESB) nr. 346/2013 um evrópska félagslega framtakssjóði. Desember.
 7. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 50/2021 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn. 
  Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/834 frá 20. maí 2019 um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 648/2012 að því er varðar stöðustofnunarskyldu, frestun á stöðustofnunarskyldu, kröfur um skýrslugjöf, aðferðir til mildunar áhættu fyrir OTC-afleiðusamninga sem miðlægur mótaðili stöðu­­stofnar ekki, skráningu og eftirlit með afleiðuviðskiptaskrám og kröfurnar fyrir afleiðu­við­skiptaskrár. Desember.
 8. Tillaga til þingsályktunar staðfestingu á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndar­inn­ar um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) og bókun 37 við EES-samninginn. 
  1) Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/5 frá 11. desember 2018 um breytingu á reglu­gerð (EB) nr. 726/2004 um málsmeðferð Bandalagsins við veitingu leyfa fyrir manna- og dýra­lyfjum og eftirlit með þeim lyfjum og um stofnun Lyfjastofnunar Evrópu, um breytingu á reglu­gerð (EB) nr. 1901/2006 um lyf fyrir börn og á tilskipun 2001/83/EB um Bandalagsreglur um lyf sem ætluð eru mönnum.
  2) Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/6 frá 11. desember 2018 um dýralyf og um nið­urfellingu á tilskipun 2001/82/EB. Desember.
 9. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 274/2021 og 275/2021 um breytingu á XI. viðauka (Rafræn fjarskipti, hljóð- og myndmiðlun og upplýsingasamfélagið) við EES-samninginn. 
  1) Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/1971 frá 11. desember 2018 um að koma á fót evrópskum hópi eftirlitsaðila á sviði rafrænna fjarskipta (BEREC) og stofnun til að styðja við BEREC-hópinn (BEREC-skrifstofu), um breytingu á reglugerð (ESB) 2015/2120 og um niður­fell­ingu reglugerðar (EB) nr. 1211/2009.
  2) Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/1972 frá 11. desember 2018 um setningu evrópskra reglna um rafræn fjarskipti (endurútgefin). Desember.
 10. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samn­­ing­inn. 
  Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/848 frá 30. maí 2018 um lífræna framleiðslu og merk­­ingu lífrænt ræktaðra vara og um niðurfellingu á reglugerð ráðsins (EB) nr. 834/2007. Desember.
 11. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á IV. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn. 
  Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2021/337 frá 16. febrúar 2021 um breytingu á reglu­gerð (ESB) 2017/1129 að því er varðar endurbótalýsingu ESB og markvissar aðlaganir fyrir fjár­mála­milliliði og tilskipun 2004/109/EB að því er varðar notkun á sameiginlega rafræna skýrslu­snið­inu fyrir árleg reikningsskil, til að stuðla að endurbótum í kjölfar COVID-19 hættu­ástands­ins. Desember.
 12. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á IV. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn. 
  1) Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2021/168 frá 10. febrúar 2021 um breytingu á reglugerð (ESB) 2016/1011 að því er varðar undanþágu tiltekinna stundargengisviðmiðana þriðju landa og tilgreiningu á endurnýjun tiltekinna viðmiðana sem látið hefur verið af, og um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 648/2012 
  2) Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2021/1847 frá 14. október 2021 um tilgreiningu á lögboðnum staðgengli fyrir tilteknar útgáfur CHF LIBOR-vaxta.
  3) Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2021/1848 frá 21. október 2021 um til­grein­ingu á staðgengli fyrir viðmiðun á millibankadagvöxtum í evrum. Desember.
 13. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á IV. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn. 
  Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/878 frá 20. maí 2019 um breytingu á tilskipun 2013/36/ESB að því er varðar aðila sem njóta undanþágu, eignarhaldsfélög á fjármálasviði, blönduð eignarhaldsfélög í fjármálastarfsemi, starfskjör, eftirlitsráðstafanir og -heimildir og ráðstafanir til að varðveita eigið fé. Janúar.
 14. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á IV. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn. 
  1) Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/2365 frá 25. nóvember 2015 um gagnsæi í fjár­­mögn­unarviðskiptum með verðbréf og um endurnotkun og breytingu á reglugerð (ESB) nr. 648/2012.
  2) Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2019/463 frá 30. janúar 2019 um breytingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/2365 að því er varðar skrána yfir aðila sem njóta undanþágu. Janúar.
 15. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 22/2020 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn. 
  Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/1131 frá 14. júní 2017 um peningamarkaðssjóði, ásamt tveimur öðrum ESB-gerðum. Janúar.
 16. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 59/2021 um breytingu á XI. viðauka (Rafræn fjarskipti, hljóð- og myndmiðlun og upplýs­inga­samfélagið) við EES-samninginn. 
  Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/2102 frá 26. október 2016 um aðgengileika vef­setra opinberra aðila og smáforrita þeirra fyrir snjalltæki. Janúar.
 17. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 53/2021 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn. 
  1) Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/1156 frá 20. júní 2019 um að greiða fyrir flutningi sjóða um sameiginlega fjárfestingu yfir landamæri og um breytingu á reglugerðum (ESB) nr. 345/2013, (ESB) nr. 346/2013 og (ESB) nr. 1286/2014.
  2) Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/1160 frá 20. júní 2019 um breytingu á tilskip­unum 2009/65/EB og 2011/61/ESB með tilliti til flutnings sjóða um sameiginlega fjárfestingu yfir landa­mæri. Febrúar.
 18. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 54/2021 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn. 
  Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/2341 frá 14. desember 2016 um starfsemi og eftirlit með stofnunum sem sjá um starfstengdan lífeyri (endurútgefin). Febrúar.
 19. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 69/2021 um breytingu á XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn. 
  Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/2161 frá 27. nóvember 2019 um breytingu á til­skip­un ráðsins 93/13/EBE og tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins 98/6/EB, 2005/29/EB og 2011/83/ESB að því er varðar betri framfylgd og nútímavæðingu reglna Sambandsins um neytenda­vernd. Febrúar.
 20. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 70/2021 um breytingu á XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn.
  1) Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/770 frá 20. maí 2019 um tiltekna þætti varðandi samn­inga um afhendingu á stafrænu efni og stafrænni þjónustu.
  2) Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/771 frá 20. maí 2019 um tiltekna þætti varðandi samn­inga um sölu á vörum, um breytingu á reglugerð (ESB) 2017/2394 og tilskipun 2009/22/EB og um niðurfellingu tilskipunar 1999/44/EB. Febrúar.
 21. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 171/2021 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn. 
  1) Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/92/ESB frá 23. júlí 2014 um samanburð gjalda er varða greiðslureikninga, skipti á greiðslureikningum og aðgengi að almennum greiðslureikningum.
  2) Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2018/32 frá 28. september 2017 um við­bæt­­ur við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/92/ESB að því er varðar tæknilega eftirlits­staðla um staðlaða hugtakanotkun Sambandsins yfir dæmigerðustu tegundir þjónustu sem tengjast greiðslureikningum.
  3) Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2018/33 frá 28. september 2017 um tæknilega framkvæmdarstaðla að því er varðar staðlað framsetningarform fyrir gjaldayfirlitið og sam­eiginlegt tákn þess samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/92.
  4) Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2018/34 frá 28. september 2017 um tæknilega framkvæmdarstaðla að því er varðar staðlað framsetningarsnið fyrir gjaldskrána og sam­eigin­legt tákn þess samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/92/ESB. Febrúar.
 22. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu samninga um skiptingu landgrunns á Ægis­djúpi.
  Samningar milli Íslands, Danmerkur, Færeyja og Noregs um skiptingu landgrunns á Ægisdjúpi norðaustur af Íslandi, sem undirritaðir voru í október 2019. Um er að ræða suðurhluta þess svæðis sem liggur á milli efnahagslögsögu landanna og er í daglegu tali nefnt Síldarsmugan (e. Banana Hole). Samningarnir eru í samræmi við greinargerðir ríkjanna til landgrunnsnefndar Sameinuðu þjóð­­anna sem samþykkti kröfur ríkjanna, síðast Íslands árið 2016. Samningarnir tryggja yfirráð ríkjanna yfir þeim auðlindum sem kunna að finnast á landgrunninu en varða ekki veiðiréttindi eða haf­ið að öðru leyti. Febrúar.
 23. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 215/2021 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.
  Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/2115 frá 27. nóvember 2019 um breytingu á tilskipun 2014/65/ESB og reglugerðum (ESB) nr. 596/2014 og (ESB) 2017/1129 að því er varðar að stuðla að notkun vaxtamarkaða lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Febrúar.
 24. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn.
  1) Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/956 frá 28. júní 2018 um vöktun og skýrslu­gjöf vegna koltvísýringslosunar og eldsneytisnotkunar nýrra þungra ökutækja. 
  2) Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2019/888 frá 13. mars 2019 um breytingu á I. viðauka við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/956 að því er varðar gögn um ný þung ökutæki sem aðildarríki og framleiðendur eiga að vakta og gefa skýrslu um. Febrúar.
 25. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn. 
  Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/1242 frá 20. júní 2019 um að setja staðla um frammistöðu vegna losunar koltvísýrings fyrir ný, þung ökutæki og um breytingu á reglugerð (EB) nr. 595/2009 og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/956 og tilskipun ráðsins 96/53/EB. Febrúar.
 26. Skýrsla utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra um framkvæmd EES-samningsins. 
  Árleg skýrsla til Alþingis, skv. 9. gr. reglna Alþingis um þinglega meðferð EES-mála. Febrúar.
 27. Skýrsla utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra um utanríkis- og alþjóðamál. 
  Árleg skýrsla til Alþingis. Apríl.

Vísinda, iðnaðar og nýsköpunarráðherra

 1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjarskipti, lögum um Fjarskiptastofu og lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri (áfallaþol fjarskiptaþjónustu og fjarskipta­neta).
  Með frumvarpinu er lagt til að gerðar verði breytingar á gildandi lögum er miða að því að tryggja áfalla­­þol fjarskiptaþjónustu og fjarskiptaneta. Desember.
 2. Frumvarp til laga um fjarskipti.
  Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun gildandi regluverks á sviði fjarskipta með innleiðingu tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/1972 í landsrétt, sem tekin var upp í EES- samninginn haustið 2021. Brýnt er að upp­færa gildandi efnisreglur á sviði fjarskipta og tryggja við­eigandi framkvæmd þeirra hér á landi. Inn­leiðing. Endurflutt. Janúar.
 3. Frumvarp til laga um breytingar á lögum um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, nr. 61/1997 (end­urskoðun laganna). 
  Með frumvarpinu er lagðar til breytingar á lögum um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins sem leiða af end­urskoðun á hlutverki sjóðsins í stuðningsumhverfi nýsköpunar. Febrúar.
 4. Frumvarp til laga um Menntarannsóknarsjóð.
  Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2021 kemur fram að settur verði á laggirnar Menntarannsóknasjóð­ur með áherslu á hagnýtar rannsóknir á skóla- og frístundastarfi. Heildarframlag til sjóðsins nemur 80 millj. kr. Ráðgert er að úthluta a.m.k. 60 millj. kr. árlega úr sjóðnum og að kostnaður vegna um­­sýslu verði tekinn af heildarfjárveitingu sjóðsins. Með frumvarpi þessu stendur til að lögfesta þennan sjóð. Mars.
 5. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um öryggi net- og upplýsingakerfa mikil­vægra innviða og lögum um Fjarskiptastofu (eftirlit með vatnsveitum og staf­rænni þjónustu, upplýs­inga­skylda o.fl.). 
  Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar er varða eftirlitsstjórnvöld, vatnsveitur, veitendur staf­rænnar þjónustu og samræmt netöryggisvottunarkerfi fyrir upplýsinga- og samskiptatæki. Innleið­ing. Mars.
 6. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjarskiptasjóð, nr. 132/2005 (framlenging á sólar­lagsákvæði).
  Lög um fjarskiptasjóð renna úr gildi í árslok 2022. Lagt er til að gildistími verði framlengdur um 5 ár. Mars.
 7. Tillaga til þingsályktunar um málstefnu íslensks táknmáls. 
  Þingsályktun um málstefnu íslensks táknmáls og aðgerðaáætlun er eðlilegt framhald af lagasetningu um íslenskt táknmál frá 2011, sbr. lög nr. 61/2011. Íslenskt táknmál er eina hefðbundna minnihluta­málið á Íslandi enda það eina sem á sér lagalega stöðu utan íslenskrar tungu. Eins og önnur táknmál (og önnur minnihlutamál) hefur það átt undir högg að sækja með ýmsum afleiðingum fyrir málið og málsamfélagið. Brýnt er að aðgerðir þær sem lagðar eru til í þingsályktunartillögunni komi til framkvæmda á gildistímanum þannig að markmið stefnunnar náist og lögum nr. 61/2011 sé fram­fylgt. Febrúar.
Síðast uppfært: 2.12.2021
Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira