Hoppa yfir valmynd

Stjórnskipan og þjóðartákn

Með stjórnskipan er átt við þær grundvallarreglur sem gilda um stjórn og skipulag íslenska ríkisins. Um stjórnskipulagið er nánar kveðið á um í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

Samkvæmt 1. grein stjórnarskrárinnar er lýðveldisstjórnarformið eitt meginreinkenni íslenskrar stjórnskipunar. Með „lýðveldi“ er fyrst og fremst vísað til þess að æðsti maður ríkisins, þjóðhöfðinginn, skuli vera forseti, kjörinn af þegnunum með beinum eða óbeinum kosningum og kjörtími hans fyrirfram ákveðinn. Í því felst jafnframt að kjörið þjóðþing fer með löggjafarvald eða er að minnsta kosti aðalhandhafi þess.

Annað höfuðeinkenni íslenskrar stjórnskipunar er greining ríkisvaldsins í þrjá þætti, það er löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald. Um þrígreiningu ríkisvalds er kveðið á um í 2. grein stjórnarskrárinnar. Samkvæmt ákvæðinu fara Alþingi og forseti Íslands saman með löggjafarvaldið, forseti og önnur stjórnvöld með framkvæmdarvaldið og dómendur með dómsvaldið.

Þriðja höfuðeinkenni íslenskrar stjórnskipunar er þingræðisreglan og þingræðið í víðari skilningi þess orðs. Þingræðisreglan er ekki orðuð með beinum hætti í stjórnarskránni en er hins vegar viðurkennd sem stjórnskipunarvenja. Reglan felur í sér að þeir einir geti setið í ríkisstjórn sem meiri hluti Alþingis vill styðja eða a.m.k. þola í embætti. Samkvæmt henni er forsætisráðherra skylt að biðjast lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt ef tillögu um vantraust á ríkisstjórn er samþykkt á Alþingi. Í henni felst jafnframt að samþykki Alþingi tillögu um vantraust á einstakan ráðherra í ríkisstjórn er forsætisráðherra skylt að leggja fyrir forseta tillögu um að viðkomandi ráðherra verði leystur frá embætti. Með þingræðisreglunni er staða Alþingis sem valdamestu stofnunar landsins fest í sessi. Þingræðið birtist einnig í fjárstjórnarvaldi Alþingis, eftirlitsheimildum þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu, áhrifavaldi Alþingis á stjórnarstefnuna t.d. með samþykkt þingsályktanna og síðast en ekki síst í lögmætisreglunni sem felur í sér í sér að ákvarðanir stjórnvalda mega ekki brjóta í bága við lög og hins vegar að ákvarðanir stjórnvalda verða að styðjast við heimild í lögum.

Þjóðartákn endurspegla sjálfsmynd íslensku þjóðarinnar, sögu hennar og menningu. Lögformleg þjóðartákn Íslendinga eru þjóðsönginn, fáni Íslands, ríkisskjaldamerkið, hin íslenska fálkaorða, svo og önnur heiðursmerki.

 

Verkefni á sviði stjórnskipunar og þjóðartákna heyra meðal annars undir eftirfarandi málefnasvið í gildandi fjármálaáætlun:

Sjá einnig:

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira