Hoppa yfir valmynd

Reglur um starfshætti

Þann 22. ágúst 2018 tóku gildi nýjar reglur um starfshætti ríkisstjórnar. Þær eru einnig birtar á vef Stjórnartíðinda

Sjá einnig samþykkt ríkisstjórnarinnar um undirbúning og frágang stjórnarfrumvarpa og stjórnartillagna  frá 24. febrúar 2023.

1. gr. Ríkisstjórnarfundir.

Ríkisstjórnarfundir eru fundir allra ráðherra sem sæti eiga í ríkisstjórn Íslands. Ráðherrum er skylt að sækja ríkisstjórnarfundi nema réttmæt forföll hamli. Forsætisráðherra stýrir ríkisstjórnarfundum, sbr. 4. mgr. 6. gr. laga um Stjórnarráð Íslands. Ráðherrar skulu ávarpa hver annan með embættis­heiti á ríkisstjórnarfundum.

Áður en ráðherra fer úr landi ber honum að tryggja að annar ráðherra geti veitt ráðuneyti hans forstöðu meðan dvalið er ytra. Tilkynna skal ritara ríkisstjórnarinnar skriflega um brottfarar- og komudag ráðherra og um staðgengil hans. Ritari færir fjarveru ráðherra og staðgöngu fyrir hann á ríkisstjórnarfundum til bókar í fundargerð næsta fundar.

2. gr. Mál sem bera skal upp í ríkisstjórn.

Ríkisstjórnarfundi skal halda um eftirfarandi mál, sbr. 1. og 2. mgr. 6. gr. laga um Stjórnarráð Íslands:

  1. Nýmæli í lögum, þ.e. lagafrumvörp sem ráðherrar hyggjast leggja fram á Alþingi sem stjórnar­frumvörp, og önnur málefni sem bera á upp fyrir forseta Íslands til staðfestingar, þ.m.t. tillögur til þingsályktana.
  2. Mikilvæg stjórnarmálefni. Til mikilvægra stjórnarmálefna teljast t.d. reglugerðir og yfir­lýsingar sem taldar eru fela í sér mikilvæga stefnumörkun eða áherslubreytingar eða ef sýnt þykir að reglugerð eða yfirlýsing geti haft áhrif á útgjöld ríkissjóðs umfram fjárheimildir eða á efnahagsmál almennt. Til mikilvægra stjórnarmálefna teljast jafnframt m.a. upp­lýsingar um fundi sem ráðherrar eiga um mikilvæg málefni með aðilum úr stjórnkerfinu eða utan þess eða þegar þeim sem fulltrúum ríkisstjórnarinnar eru veittar mikilvægar upplýsingar eða kynnt mikilsverð málefni sem ástæða er til að ætla að eigi erindi við ríkis­stjórnina í heild sinni.
  3. Önnur mál sem ráðherrar óska eftir að bera upp í ríkisstjórn.

Þegar mál sem bera skal upp í ríkisstjórn varðar málefnasvið annars ráðuneytis skal það að jafnaði borið undir viðkomandi ráðuneyti á undirbúningsstigi áður en það kemur til umfjöllunar í ríkisstjórn.

3. gr. Boðun ríkisstjórnarfunda.

Reglulegir ríkisstjórnarfundir skulu að jafnaði haldnir tvisvar sinnum í viku á meðan Alþingi situr, á þriðjudögum og föstudögum, en annars að jafnaði einu sinni í viku. Reglulegir fundir hefjast stund­víslega kl. 9.30, nema annað sé ákveðið. Forsætisráðherra boðar ráðherra til fundar. Boða skal til reglulegs ríkisstjórnarfundar fyrir kl. 12, að jafnaði á mánudögum og fimmtudögum, ef um reglu­legan fundartíma er að ræða.

Forsætisráðherra getur boðað fundi á öðrum tímum eftir þörfum og aðrir ráðherrar geta jafnframt óskað eftir því við forsætisráðherra að boðað sé til fundar utan reglulegs fundartíma.

Ríkisstjórnarfundir skulu að jafnaði haldnir í Stjórnarráðshúsinu við Lækjartorg eða í Ráðherra­bústaðnum við Tjarnargötu. Forsætisráðherra getur boðað til funda á öðrum stöðum.

4. gr. Dagskrá ríkisstjórnarfunda.

Ráðherrar skulu senda forsætisráðherra tillögur um dagskrármál reglulegs ríkisstjórnarfundar, ásamt gögnum máls í gegnum fundarkerfi ríkisstjórnar, eigi síðar en kl. 15 á mánudögum og fimmtudögum, ef um reglulegan fundartíma er að ræða. Mál sem tilkynnt er um eftir þann tíma verða sett á dagskrá næsta reglulega ríkisstjórnarfundar þar á eftir nema forsætisráðherra ákveði annað.

Dagskrá reglulegs ríkisstjórnarfundar, ásamt gögnum mála, skal gerð aðgengileg ráðherrum og ráðuneytisstjórum í fundarkerfi ríkisstjórnar fyrir kl. 16 daginn fyrir ríkisstjórnarfund. Þegar sérstak­lega stendur á að mati ráðherra er honum þó heimilt að undanskilja gögn máls eða hluta þeirra frá birtingu í sameiginlegu fundarkerfi ríkisstjórnarinnar samkvæmt ákvæði þessu.

Fyrirhuguð dagskrá ríkisstjórnarfunda og tillögur um dagskrármál eru trúnaðarmál og er óheimilt að upplýsa um þau nema með samþykki þess ráðherra sem málið stafar frá.

5. gr. Samráð í ráðherranefndum o.fl.

Áður en mál eru tilkynnt á dagskrá ríkisstjórnar skal leggja mat á það hvort tilefni sé til að þau komi til umfjöllunar í ráðherranefndum sem starfandi eru samkvæmt lögum um Stjórnarráð Íslands og samþykktum ríkisstjórnar eða eftir atvikum á fundi ráðuneytisstjóra í Stjórnarráðinu.

6. gr. Opinber birting dagskrár ríkisstjórnar.

Dagskrá ríkisstjórnarfunda skal gerð opinber að fundi loknum, kynnt fjölmiðlum með tilkynningu og birt á vef Stjórnarráðs Íslands, sbr. 4. mgr. 7. gr. laga um Stjórnarráð Íslands. Sá ráðherra sem ber ábyrgð á dagskrármáli gerir nánari grein fyrir efnisatriðum þess samkvæmt nánari ákvörðun ríkis­stjórnarinnar, að eigin frumkvæði eða samkvæmt fyrirspurnum þar um. Heimilt er að undan­skilja dagskrármál birtingu ef þau varða málefni sem eru undanþegin upplýsingarétti almenn­ings samkvæmt upplýsingalögum, þegar umfjöllun ríkisstjórnar er ólokið, endanleg ákvörðun í máli liggur ekki fyrir eða þegar aðrar málefnalegar ástæður réttlæta að vikið sé frá megin­reglunni um birtingu að mati ríkisstjórnarinnar. Um aðgang að gögnum ríkisstjórnar fer samkvæmt ákvæðum upplýsingalaga.

7. gr. Gögn ríkisstjórnar.

Öllum málum sem ráðherrar bera upp í ríkisstjórn skal fylgja sérstakt minnisblað ráðherra til ríkisstjórnar þar sem meginatriði máls eru rakin og helstu sjónarmið sem að baki liggja, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga um Stjórnarráð Íslands. Ef ráðherra óskar eftir samþykki ríkisstjórnar skal setja fram í minnisblaði skýrt orðaða tillögu þar um. Forsætisráðuneytið veitir nánari leiðbeiningar um ritun minnisblaða sem leggja á fyrir ríkisstjórn. Þegar sérstaklega stendur á er heimilt með sam­þykki forsætisráðherra að víkja frá skyldu til að leggja mál fram skriflega.

Við upphaf ríkisstjórnarfundar skulu ráðherrar afhenda ritara ríkisstjórnar málsgögn, sem þeir hyggjast leggja fyrir ríkisstjórn, í nægilega mörgum eintökum handa ráðherrum, ritara ríkisstjórnar og ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytisins. Ráðherra skal vekja athygli á því ef minnisblaði eða öðrum gögnum sem dreift er á ríkisstjórnarfundi hefur verið breytt frá því að þau voru birt í sameiginlegu fundarkerfi ríkisstjórnarinnar eða ef ný gögn eru lögð fram. Komi í ljós misræmi á milli framlagðra gagna og gagna sem birt hafa verið í sameiginlegu fundarkerfi ríkisstjórnarinnar fyrir fund, gilda hin framlögðu gögn.

Trúnaðar- og þagnarskylda hvílir á ráðherrum og starfsmönnum ráðuneyta sem aðgang hafa að sameiginlegu fundarkerfi ríkisstjórnarinnar um öll gögn ríkisstjórnar nema ríkisstjórnin samþykki að aflétta trúnaði eða lög kveði á um annað.

8. gr. Fundargerðir ríkisstjórnarfunda.

Forsætisráðherra felur starfsmanni forsætisráðuneytisins að gegna störfum ritara ríkisstjórnar, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga um Stjórnarráð Íslands. Ritari ríkisstjórnar annast undirbúning ríkisstjórnarfunda í samvinnu við ritara forsætisráðherra og skráir fundargerðir.

Í fundargerðir ríkisstjórnar, sbr. 2. mgr. 7. gr. laga um Stjórnarráð Íslands, skulu færðar niður­stöður, skýrt frá frásögnum og tilkynningum ráðherra auk þess sem greint skal frá umræðu­efni, ef ekki er á því formleg niðurstaða, og bókuð afstaða samkvæmt sérstakri ósk ráðherra. Ef afgreiðsla máls byggist á öðrum sjónarmiðum en þeim sem lýst er í minnisblaði ráðherra, sbr. 1. mgr. 5. gr., eða í öðrum framlögðum gögnum skal gera grein fyrir þeim í funda­r­gerð.

Fundargerðir skulu staðfestar af forsætisráðherra og dreift til annarra ráðherra þegar staðfesting liggur fyrir, sbr. 3. mgr. 7. gr. laga um Stjórnarráð Íslands. Komi fram athugasemd við fundargerð frá ráðherra skal hún skráð í fundargerð næsta fundar.

Dagskrár, fundargerðir og öll gögn sem lögð eru fram á ríkisstjórnarfundum skulu varðveitt á pappír og rafrænu formi í málaskrá ríkisstjórnar.

Ritara ríkisstjórnar er heimilt að skýra ráðuneytisstjórum viðkomandi ráðuneyta frá ákvörðunum er varða þeirra ráðuneyti og senda þeim skriflega útdrætti úr fundargerðum samkvæmt eigin ákvörðun eða ósk viðkomandi ráðuneytisstjóra. Trúnaðar- og þagnarskylda hvílir á ráðuneytis­stjórum og öðrum starfsmönnum ráðuneyta með sama hætti og á ráðherra.

9. gr. Eftirfylgni með samþykktum ríkisstjórnar.

Ráðherra sem ber ábyrgð á máli, sbr. forsetaúrskurð um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, skal tryggja eftirfylgni með samþykkt ríkisstjórnar.

10. gr. Stjórnarfrumvörp og stjórnartillögur. Samþykki þingflokka.

Samþykki ríkisstjórnar fyrir framlagningu stjórnarfrumvarpa og stjórnartillagna, annarra en frum­varps til fjárlaga, fjáraukalaga og lokafjárlaga, er að jafnaði skilyrt samþykki þingflokka sem eiga aðild að ríkisstjórn, nema ríkisstjórnin ákveði annað. Þingflokkar stjórnarflokkanna tilkynna við­kom­andi ráðherra eða fulltrúa hans skriflega um afgreiðslu sína með afriti til ritara ríkis­stjórnar­innar. Ritari ríkisstjórnar heldur skrá yfir tillögur ráðherra um þingmál ríkisstjórnarinnar og afdrif þeirra í þingflokkum hennar. Að öðru leyti fer um undirbúning stjórnarfrumvarpa og stjórnar­tillagna samkvæmt sérstökum samþykktum ríkisstjórnarinnar.

11. gr. Gildistaka

Reglur þessar, sem settar eru með stoð í 5. mgr. 7. gr. laga um Stjórnarráð Íslands og samþykktar hafa verið í ríkisstjórn, öðlast þegar gildi. Við gildistöku reglnanna falla úr gildi reglur nr. 195/2017, um starfshætti ríkisstjórnar.

 

Forsætisráðuneytinu, 22. ágúst 2018.

 

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum