Hoppa yfir valmynd
Táknmál

Opinber þjónusta er byggð upp með lýðræði, skilvirkni og þarfir almennings og atvinnulífs að leiðarljósi. Góð þekking á upplýsingatækni og aðgangur að opinberum gögnum stuðlar að nýsköpun og vexti atvinnulífsins. Stefnt er að því að almenningur og atvinnulíf geti í vaxandi mæli haft áhrif á ákvarðanir opinberra aðila með því að taka þátt í undirbúningi þeirra í opnu og gegnsæju samráði á netinu.

Unnið er samkvæmt stefnu ríkis og sveitarfélaga um upplýsingasamfélagið, Vöxtur í krafti netsins - byggjum, tengjum og tökum þátt. Í henni er horft til tækifæra sem fylgja ýmsum tækninýjungum svo sem notkunar netsins til að auka lýðræðislega þátttöku almennings og tilkomu nýrra samfélagsmiðla. Einnig er lögð áhersla á aukin tækifæri varðandi skilvirkni, rafræna þjónustu og samvirkni og öryggi kerfa.

Ríkið rekur eitt stærsta tækniumhverfi landsins og gegnir upplýsingatækni fjölþættu hlutverki í rekstri ríkisins. Upplýsingatækni er einn helsti drifkrafturinn í endurmótun á opinberri starfsemi þar sem stefnt er að því að auka þjónustu, stuðla að nýsköpun og bæta samhæfingu til hagsbóta fyrir notendur. Með framþróun í upplýsingatækni og tilkomu svokallaðra tölvuskýja gefast tækifæri til frekari samreksturs og bættrar nýtingar þeirra fjármuna sem varið er í rekstur upplýsingatæknikerfa.

Verkefni á sviði upplýsingasamfélagsins heyra meðal annars undir eftirfarandi málefnasvið í gildandi fjármálaáætlun: Hagskýrslugerð, grunnskrár og upplýsingamál

Sjálfbært Ísland

Samstarfsvettvangur um sjálfbæra þróun

Í samræmi við áherslu ríkisstjórnarflokkanna á sjálfbæra þróun, velsæld og réttlát umskipti hefur verið settur á fót samstarfsvettvangurinn Sjálfbært Ísland. Þar koma saman fulltrúar ríkisvaldsins, sveitarfélaga, Alþingis, aðila vinnumarkaðarins og frjálsra félagasamtaka enda krefjast þessi mikilvægu viðfangsefni víðtækrar samvinnu í samfélaginu.

Hlutverk Sjálfbærs Íslands er að hraða aðgerðum til að ná markmiðum um sjálfbæra þróun eins og þau birtast í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og velsældaráherslum ríkisstjórnarinnar. Sjálfbært Ísland mun einnig vinna að því að réttlát umskipti á öllum sviðum samfélagsins séu leiðarljós í allri stefnumótun og aðgerðum.

Meðal annarra verkefna Sjálfbærs Íslands eru að:

  • Móta stefnu Íslands um sjálfbæra þróun.
  • Þróa, samræma og rýna mælikvarða um sjálfbærni, þ.á m. heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og velsældarvísa.
  • Efla þátttöku í fjölþjóðlegu samstarfi um sjálfbæra þróun, þ.á.m. á norrænum vettvangi, í Evrópusamstarfi og meðal Sameinuðu þjóðanna.
  • Efla samráð og samhæfingu hins opinbera við sveitarfélögin, atvinnulífið, aðila vinnumarkaðarins og frjáls félagasamtök.
  • Kynna framgang og árangur í sjálfbærri þróun til stjórnvalda, samstarfsaðila og almennings.

Sjálfbærniráð

Sjálfbærniráð er skipað forsætisráðherra sem er formaður, öðrum ráðherrum í ríkisstjórn, auk fulltrúa frá sveitarfélögum, Alþingi, aðilum vinnumarkaðar og frjálsum félagasamtökum.

Meðlimir Sjálfbærniráðs

Gestir á stofnfundi Sjálfbærniráðs í Safnahúsinu

Stýrihópur Sjálfbærs Íslands

Til að samhæfa vinnu hins opinbera hefur verið skipaður stýrihópur Sjálfbærs Íslands. Í stýrihópnum eiga sæti fulltrúar allra tólf ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands auk fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga. Fulltrúi forsætisráðuneytisins er formaður stýrihópsins.

Framkvæmdahópur Sjálfbærs Íslands

Í framkvæmdahópi Sjálfbærs Íslands situr teymi sérfræðinga frá forsætisráðuneytinu, utanríkisráðuneytinu og Hagstofunni. Framkvæmdahópurinn starfar að þeim verkefnum sem Sjálfbæru Íslandi eru falin. Leiðtogi um sjálfbæra þróun sem er starfsmaður forsætisráðuneytisins leiðir hópinn.

 
 

Sjá einnig:

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum