Hoppa yfir valmynd
27. febrúar 2024 Forsætisráðuneytið

Drög að stefnu Íslands um sjálfbæra þróun birt í Samráðsgátt

Hvítbók um sjálfbært Ísland sem felur í sér drög að stefnu Íslands um sjálfbæra þróun til 2030 hefur verið birt í Samráðsgátt stjórnvalda. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kynnti drögin á fundi ríkisstjórnar sl. föstudag.

Í hvítbókinni er m.a. fjallað um leiðarljós vinnunnar við mótun stefnu Íslands um sjálfbæra þróun en þau byggja á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og velsældaráherslum ríkisstjórnarinnar.

Einnig er lögð fram tillaga að framtíðarsýn um sjálfbæra þróun og lykilviðfangsefni dregin fram sem vinna þarf að innan stjórnkerfisins og í samfélaginu öllu í þágu sjálfbærrar þróunar. Viðfangsefnin snúa að réttlátum umskiptum, efnahagslega sjálfbæru samfélagi, umhverfis- og loftslagsmálum, ábyrgri neyslu og framleiðslu og hnattrænni ábyrgð.

Þá eru lögð til fjögur markmið viðfangsefna stjórnvalda á sviði sjálfbærrar þróunar sem eru:

  • Að auka þekkingu, fræðslu og samfélagslega þátttöku.
  • Að efla samvinnu og samhæfingu.
  • Að þróa heildstætt áhrifamat stefnumótunar og innleiða velsældaráherslur í alla áætlanagerð.
  • Að stuðla að hnattrænni ábyrgð og draga úr neikvæðum smitáhrifum.

Vinna við mótun stefnu Íslands um sjálfbæra þróun hefur staðið yfir frá desember 2022 en þá var samstarfsvettvangurinn Sjálfbært Ísland stofnaður. Þar koma saman fulltrúar ríkisvaldsins, sveitarfélaga, Alþingis, aðila vinnumarkaðarins og frjálsra félagasamtaka.

Á vegum Sjálfbærs Íslands var á síðasta ári unnin grænbók um sjálfbært Ísland sem fól í sér kortlagningu á stöðumati og valkostum. Hvítbókin byggir á efni grænbókarinnar og víðtæku samráði stjórnvalda við fjölmarga haghafa.

Hægt er að senda inn ábendingar og athugasemdir við hvítbók um sjálfbært Ísland til 26. mars nk.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum