Hoppa yfir valmynd

Löggjafarvald, dómsvald og framkvæmdarvald

Eitt höfuðeinkenni íslenskrar stjórnskipunar er greining ríkisvaldsins í þrjá þætti, það er löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald. Um þrígreiningu ríkisvalds er kveðið á um í 2. grein stjórnarskrárinnar. Samkvæmt ákvæðinu fara Alþingi og forseti Íslands saman með löggjafarvaldið, forseti og önnur stjórnvöld með framkvæmdarvaldið og dómendur með dómsvaldið.

Handhafar löggjafarvalds

Löggjafarvaldið er einn af þremur þáttum ríkisvaldsins. Samkvæmt 2. gr. stjórnarskrárinnar fara Alþingi og forseti Íslands saman með löggjafarvaldið. Af öðrum ákvæðum stjórnarskrárinnar leiðir þó að Alþingi er aðalhandhafi þess valds og er þáttur forseta einkum fólginn í því að staðfesta lagafrumvörp sem þingið hefur samþykkt til þess að þau öðlist gildi sem lög.

Í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og lögum um þingsköp Alþingis nr. 55/1991 er nánar kveðið á um hlutverk Alþingis og starfshætti þess. Hlutverki Alþingis má að meginstefnu skipta í þrennt:

  • Alþingi fer með löggjafarvaldið ásamt forseta Íslands
  • Alþingi hefur eftirlit með framkvæmdarvaldinu og veitir því aðhald
  • Alþingi fer með fjárstjórnarvald

Bæði alþingismenn og ráðherrar hafa rétt til að flytja frumvörp til laga. Þá hafa fastanefndir Alþingis lagt fram frumvörp í sínu nafni. Stærstur hluti samþykktra laga á hins vegar rætur að rekja til frumvarpa sem ráðherrar flytja, svokallaðra stjórnarfrumvarpa.

Ekkert lagafrumvarp má samþykkja fyrr en það hefur verið rætt við þrjár umræður á Alþingi, sbr. 44. gr. stjórnarskrárinnar. Sé frumvarp samþykkt er það sent ríkisstjórn sem lög frá Alþingi. Lögin taka þó ekki gildi fyrr en þau hafa verið undirrituð af forseta Íslands og ráðherra og birt í Stjórnartíðindum.

Eftirlitshlutverk Alþingis

Auk löggjafarstarfs gegnir Alþingi viðamiklu eftirlitshlutverki gagnvart framkvæmdarvaldinu. Samkvæmt þingræðisreglunni er forsætisráðherra skylt að biðjast lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt ef tillögu um vantraust á ríkisstjórn er samþykkt á Alþingi. Í henni felst jafnframt að samþykki Alþingi tillögu um vantraust á einstakan ráðherra í ríkisstjórn er forsætisráðherra skylt að leggja fyrir forseta tillögu um að viðkomandi ráðherra verði leystur frá embætti. Þingræðisreglan er ekki orðuð með beinum hætti í stjórnarskránni en byggir hins vegar á stjórnskipunarvenju.

Í eftirlitshlutverki Alþingis felst jafnframt að veita framkvæmdarvaldinu aðhald, bæði ríkisstjórninni og allri stjórnsýslunni. Leiðir þetta meðal annars af ýmsum ákvæðum stjórnarskrárinnar, svo sem ákvæði um heimild þingmanna til að bera fram fyrirspurnir til ráðherra um opinbert málefni eða beiðast um það skýrslu, ákvörðun Alþingis um að skipa nefnd alþingismanna til að rannsaka mikilvægt mál er almenning varðar, og ákvörðun um útgáfu ákæru á hendur ráðherra fyrir embættisbrot. Þá getur tiltekinn meiri hluti alþingismanna veitt forseta Íslands lausn um stundarsakir og fyrir fullt og allt, eftir að ályktun þess efnis er samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu, sbr. 3. mgr. 11. gr. stjórnarskrárinnar.

Loks má nefna tvær stofnanir sem starfa á vegum Alþingis og gegna veigamiklu hlutverki í eftirliti þingsins með framkvæmdarvaldinu, þ.e. annars vegar Ríkisendurskoðun sem annast endurskoðun ríkisreiknings og reikninga stofnana, sjóða og annarra aðila sem kostaðir eru af eða reknir á ábyrgð ríkissjóðs, og hins vegar embætti Umboðsmanns Alþingis sem hefur eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og tryggir rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum.

Fjárstjórnarvald Alþingis

Fjárstjórnarvald Alþingis birtist einkum í 40.-43. gr. stjórnarskrárinnar og felur í sér heimild þingsins til að leggja á skatta, taka ákvarðanir um útgjöld ríkisins og skyldu til að afgreiða fjárlög fyrir hvert nýtt fjárhagsár.

Dómsvaldið er einn af þremur þáttum ríkisvaldsins. Í stjórnarskránni er kveðið á um að dómarar fari með dómsvaldið og að þeir séu sjálfstæðir í störfum sínum. Á Íslandi er þriggja þrepa dómskerfi. Æðsti dómstóll ríkisins er Hæstiréttur Íslands. Þangað er unnt að skjóta úrlausnum héraðsdómstólanna sem eru átta. Með stjórnsýslu héraðsdómstólanna fer dómstólaráð en Hæstiréttur fer sjálfur með eigin stjórnsýslu. Þá eru tveir sérdómstólar, Félagsdómur sem dæmir í réttarágreiningi aðila vinnumarkaðarins og Landsdómur sem dæmir í málum er Alþingi ákveður að höfða gegn ráðherrum út af embættisrekstri þeirra.

Hinn 1. janúar 2018 tóku í gildi ný lög um dómstóla. Með þeim varð sú breyting að dómskerfið varð þriggja þrepa. Nýr dómstóll, Landsréttur, var settur á fót. Til hins nýja dómstóls er unnt að skjóta úrlausnum héraðsdómstólanna átta og verða úrlausnir hans endanlegar í flestum málum. Í sérstökum tilvikum og að fengnu leyfi Hæstaréttar Íslands má skjóta niðurstöðum Landsréttar til Hæstaréttar.

Sjá um dómstóla

Handhafar framkvæmdarvaldsins

Framkvæmdarvaldið er einn af þremur þáttum ríkisvaldsins. Forseti Íslands er formlega æðsti handhafi framkvæmdarvalds samkvæmt stjórnarskránni en í reynd eru það ráðherrar í ríkisstjórn, hver á sínu sviði, sem fara með æðsta framkvæmdarvaldið. Leiðir þetta af eftirtöldum ákvæðum stjórnarskrárinnar. 

  • 11. gr. þar sem kveðið er á um að forsetinn sé ábyrgðarlaus af stjórnarathöfnum.
  • 13. gr. þar sem kveðið er á um að forsetinn láti ráðherra framkvæma vald sitt.
  • 14. gr. þar sem kveðið er á um að ráðherrar beri ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum.
  • 19. gr. þar sem kveðið er á um að undirskrift forseta lýðveldisins undir löggjafarmál og stjórnarerindi veiti þeim gildi, er ráðherra ritar undir þau með honum.

Framangreind fjögur ákvæði færa vald forseta Íslands til ráðherra og marka stöðu þeirra sem æðstu handhafa framkvæmdarvalds.

Aðrir handhafar framkvæmdarvalds eru sérstök stjórnvöld, stofnanir þar með talin sjálfstæðar stofnanir, sem sett eru á fót með lögum, auk sveitarfélaga, sbr. 78. gr. stjórnarskrárinnar.

Sérstakar valdheimildir forsætisráðherra

Forsætisráðherra fer með valdheimildir forseta Íslands skv. 15. gr. stjórnarskrárinnar. Greina má þessar valdheimildir í þrennt:

  1. Skipunarvaldið – felur í sér að ráðherrar í ríkisstjórn eru skipaðir samkvæmt tillögu forsætisráðherra.
  2. Skipulagsvaldið – felur í sér að heiti og fjöldi ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands er ákveðin með forsetaúrskurði samkvæmt tillögu forsætisráðherra. Samkvæmt lögum um Stjórnarráð Íslands er þó nauðsynlegt áður en gerð er breyting á skipan ráðuneyta að fá fram afstöðu Alþingis til fyrirhugaðrar breytingar. Er það gert með því að forsætisráðherra leggur fram tillögu til þingsályktunar þar sem gerð er grein fyrir breytingunni.
  3. Verkaskiptingarvaldið – felur í sér að stjórnarmálefnum er skipt á milli ráðuneyta og ráðherra með forsetaúrskurðum samkvæmt tillögu forsætisráðherra.

Verkefni framkvæmdarvaldsins

Verkefni framkvæmdarvaldsins eru fjölbreytt og geta komið inn á öll svið samfélagsins. Af þessum sökum eru verkefni framkvæmdarvaldsins gjarnan skilgreind með neikvæðum hætti sem öll starfsemi almannavaldsins sem hvorki verður talin til löggjafar eða dómgæslu. Hefðbundin merking er hins vegar sú að í framkvæmdarvaldi felist vald til að halda uppi lögum og allsherjarreglu. Löggjafinn ákvarðar að meginstefnu verksvið og verkefni framkvæmdarvaldsins en kveðið er á um það hvernig þau verkefni skiptast á milli ráðuneyta í forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Í forsetaúrskurðinum eru með öðrum orðum talin upp öll lögbundin verkefni framkvæmdarvaldsins og tilgreint undir hvaða ráðuneyti þau falla. Í forsetaúrskurði um skiptingu starfa ráðherra er síðan tilgreint hvaða ráðherra fari með hvert verkefni.

Sjá einnig:

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum