Hoppa yfir valmynd

Stjórnarskráin

Almennt um stjórnarskrána

Stjórnarskrá hefur að geyma helstu meginreglur um stjórnskipulag ríkis. Þar er að jafnaði að finna ákvæði um meðferð ríkisvalds, hlutverk helstu handhafa þess og samspil þeirra á milli, auk ákvæða um ýmis grundvallarréttindi borgaranna í samskiptum við ríkisvaldið og hömlur sem lagðar eru við því að á þessi réttindi sé gengið.

Allt frá síðari hluta 19. aldar hafa þrjár stjórnarskrár tekið gildi á Íslandi. Sú fyrsta, stjórnarskrá um hin sérstaklegu málefni Íslands, fengu Íslendingar að gjöf árið 1874 frá Danakonungi í kjölfar stöðulaganna 1871. Með henni var Alþingi veitt löggjafarvald í sérmálum hér á landi sem þó takmarkaðist af neitunarvaldi konungs. Í kjölfar þess að Íslands varð fullvalda ríki með sambandslagasamningnum 1918 fengu Íslendingar sína aðra stjórnarskrá árið 1920 sem bar heitið stjórnarskrá konungsríkisins Íslands. Með fullveldinu varð sjálfstæði Íslendinga að alþjóðalögum staðreynd þótt Ísland hafi áfram verið í konungssambandi við Danmörk. Núgildandi stjórnarskrá, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, var samþykkt af Alþingi með lögum nr. 33/1944 og gekk í gildi við stofnun lýðveldisins á Þingvöllum 17. júní 1944.

Stjórnarskráin skiptist í sjö kafla. Í I. kafla er að finna inngangsákvæði um lýðveldisskipanina sem núverandi stjórnarform íslenska ríkisins og ákvæði um handhöfn þriggja þátta ríkisvalds, II. kafli fjallar um framkvæmdarvaldið, það er forseta Íslands og ráðherra og helstu verkefni þeirra, og III. kafli hefur að geyma ákvæði um skipan Alþingis og alþingiskosningar. Um störf Alþingis er fjallað í IV. kafla. V. kafli er um dómsvaldið, VI. kafli um trúfrelsi og skipan kirkjumála og VII. kaflinn hefur að geyma mannréttindaákvæði auk ákvæða um sjálfsstjórn sveitarfélaga og stjórnarskrárbreytingar. Stjórnarskráin er æðst íslenskra laga. Almenn lög mega ekki brjóta í bága við stjórnarskrána og henni verður ekki breytt með almennum lögum.

Endurskoðun stjórnarskrárinnar og breytingar á henni

Ýmsar breytingar hafa verið gerðar á einstökum köflum stjórnarskrárinnar og afmörkuðum viðfangsefnum undanfarna áratugi, til að mynda breytingar á tilhögun kosninga og kjördæmaskipan, á reglum um starfshætti Alþingis svo og endurskoðun mannréttindakafla stjórnarskrárinnar árið 1995. Þá hafa nokkrar tilraunir verið gerðar til heildarendurskoðunar lýðveldisstjórnarskrárinnar frá gildistöku hennar 1944. Ber þar helst að nefna vinnu sem ráðist var í á tímabilinu 2010-2016 og fól í sér störf stjórnlaganefndar og þjóðfundar, störf og framlagningu tillögu stjórnlagaráðs og frumvarp stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis árið 2012, auk vinnu sérstakrar stjórnarskrárnefndar sem skipuð var á árinu 2013 og framlagningu frumvarps á grundvelli þeirrar vinnu í ágúst 2016.

Í sáttmála Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs um ríkisstjórnarsamstarf og eflingu Alþingis frá desember 2017 kom fram að halda ætti áfram heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar í þverpólitísku samstarfi með aðkomu þjóðarinnar. Endurskoðunin yrði áfangaskipt og byggðist á þeirri framtíðarsýn að gildandi stjórnarskrá yrði endurskoðuð í heild á næstu tveimur kjörtímabilum. Árin 2018–2021 hélt forsætisráðherra fundi með formönnum og fulltrúum stjórnmálaflokka sem sæti áttu á Alþingi, þar sem fjallað var um atriði sem birtust í frumvarpi sem forsætisráðherra lagði fram á 151. löggjafarþingi 2020–2021. Frumvarpið náði ekki fram að ganga. Á yfirstandandi kjörtímabili verður haldið áfram heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar í samræmi við það sem fram kemur í sáttmála um ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs frá nóvember 2021.

Nánari upplýsingar um málefni stjórnarskrárinnar, þar á meðal upplýsingar um þá heildarendurskoðun sem nú stendur yfir, endurskoðunarferlið 2010-2016, hugmynda- og þróunarsögu hennar að öðru leyti, tilvísun í eldri rétt og ítarefni má nálgast á neðangreindum síðum. Lögð er áhersla á að veita yfirsýn yfir þróun einstakra ákvæða og skýringu þeirra, meðal annars í dómum Hæstaréttar Íslands og álitum umboðsmanns Alþingis. Ítarlegar skrár yfir heimildir og vefslóðir leiðbeina um öflun frekari upplýsinga. Markmiðið er að helstu gögn um málefni stjórnarskrárinnar verði aðgengileg á einum stað og uppfærð jafnóðum.

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 27.10.2023
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum