Hoppa yfir valmynd

Stjórnarskrárendurskoðun 2018-2025

Í sáttmála Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar—græns framboðs um ríkisstjórnarsamstarf og eflingu Alþingis frá desember 2017 kom fram að halda ætti áfram þeirri heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar sem unnið hefði verið að árin á undan í þverpólitísku samstarfi með aðkomu þjóðarinnar.

Forsætisráðherra lagði til í upphafi síðasta kjörtímabils að stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, yrði endurskoðuð í heild á tveimur kjörtímabilum og að vinnan yrði áfangaskipt. Höfð yrði hliðsjón af þeirri miklu vinnu sem lögð hefði verið í endurskoðun árin á undan, t.d. með þjóðfundi, stjórnlaganefnd og stjórnlagaráði auk starfa stjórnarskrárnefnda 2005–2007 og 2013–2016, þeirri miklu samfélagslegu umræðu sem átt hefur sér stað, umræðu og nefndavinnu á Alþingi auk afstöðu kjósenda að því marki sem hún hefði þegar komið fram. Miðað var við eftirfarandi skiptingu málefna:

  1. Á tímabilinu 2018-2021 skyldu tekin fyrir: Þjóðareign á náttúruauðlindum, umhverfis- og náttúruvernd, þjóðaratkvæðagreiðslur að frumkvæði hluta kjósenda eða minnihluta þings, framsal valdheimilda í þágu alþjóðasamvinnu, II. kafli stjórnarskrárinnar um forseta lýðveldisins og meðferð framkvæmdarvalds og loks ákvæði um hvernig stjórnarskránni verði breytt.
  2. Á tímabilinu 2021-2025 skyldu tekin fyrir: Kaflar stjórnarskrár um Alþingi, m.a. um fjárstjórnarvald þess, Alþingiskosningar og dómstóla, þ.e. III. IV. og V. kafli, ákvæði um þjóðkirkjuna, mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar, og inngangsákvæði, þ.e. I. VI. og VII. kafli og önnur efni sem ekki hafa þegar verið nefnd.
Árin 2018–2021 hélt forsætisráðherra fundi með formönnum og fulltrúum stjórnmálaflokka sem sæti áttu á Alþingi, þar sem fjallað var um þau atriði sem talin eru upp í fyrri tölulið hér að framan. Ekki náðist að ljúka umfjöllun um öll þau efni sem áætlað hafði verið að ræða á kjörtímabilinu. Mikil áhersla var lögð á samráð við almenning við stjórnarskrárvinnuna. Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands var fengin til að framkvæma skoðanakönnun um viðhorf almennings til stjórnarskrár og tiltekinna atriða í stjórnarskrá. Í kjölfarið annaðist stofnunin umsjón rökræðukönnunar.

Stjórnarskrárvinnu kjörtímabilsins lauk með framlagningu forsætisráðherra á frumvarpi á 151. löggjafarþingi 2020–2021, þar sem mælt var fyrir breytingum á ákvæðum stjórnarskrárinnar sem varða forseta Íslands, ríkisstjórn, verkefni framkvæmdarvalds, umhverfisvernd, auðlindir náttúru Íslands og íslenska tungu. Frumvarpið náði ekki fram að ganga.

Á yfirstandandi kjörtímabili verður haldið áfram heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar í samræmi við það sem fram kemur í sáttmála um ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar–græns framboðs frá nóvember 2021. Ríkisstjórnin hefur sett af stað vinnu sérfræðinga um ákvæði stjórnarskrár um Alþingi,  dómstóla og mannréttindaákvæði. Í vinnu sérfræðinganna verður tekið mið af þeirri stjórnarskrárvinnu sem fram hefur farið hér á landi, sbr. framangreint. Vinnan mun nýtast sem grundvöllur fyrir alþingismenn og almenning í umræðum um hugsanlegar breytingar á þessum köflum stjórnarskrárinnar.

Greinargerðir sérfræðinga um tiltekna kafla stjórnarskrárinnar

Forsætisráðherra fól í desember 2022 sérfræðingum að vinna greinargerðir um kafla stjórnarskrárinnar sem fjalla um Alþingi, dómstóla og mannréttindi. Greinargerðunum var skilað í september 2023.

Málþing um greinargerðir sérfræðinga um tiltekna kafla stjórnarskrárinnar

Gögn sem urðu til við stjórnarskrárvinnu 2018-2021

Tilhögun og verklag vinnu

Almenningssamráð

Gögn um málefni sem ekki tókst að ljúka umfjöllun um

Síðast uppfært: 27.2.2024
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum