Hoppa yfir valmynd

Stjórnarskrárendurskoðun 2018-2025

Formenn allra flokka sem sæti eiga á Alþingi funda að minnsta kosti ársfjórðungslega til að leggja stærstu línur um framgang verkefnis. Forsætisráðherra boðar fundina og stýrir þeim. Forsætisráðherra velur verkefnisstjóra. Verkefnisstjórinn hefur heildaryfirsýn yfir verkefnið og tengir saman helstu aðila sem að því koma. Hann er málsvari verkefnisins og leitast við að tryggja skilvirkan framgang þess. Hann starfar í umboði forsætisráðherra, er tengiliður milli ráðherra og sérfræðinganefndar og nýtur aðstoðar skrifstofu löggjafarmála í forsætisráðuneytinu. Forsætisráðherra skipar nefnd fimm sérfræðinga að höfðu samráði við formenn annarra flokka sem aðstoðar við samningu umræðuskjala og frumvarpa og tekur þátt í samráði og kynningu. Reglulegt samráð verður haft við stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis. Allt kapp verður lagt á að starfið verði gagnsætt og haft verði víðtækt samráð við almenning. Nánar verður fjallað um það í upphafi starfsins. Leitað verði leiða til að virkja almenning til þátttöku, meðal annars með rökræðukönnunum. Lagt er til að vinnulag verði í stórum dráttum þannig að útbúið verði umræðuskjal um hvert viðfangsefni þar sem það er greint, farið í gegnum fyrirliggjandi tillögur (stjórnlagaráð, stjórnlaganefnd, stjórnarskrárnefndir o.fl.), þær metnar, bornar saman við alþjóðlega reynslu og valkostir settir fram ef ástæða þykir til. Síðan verði efnt til opins samráðs um viðkomandi skjal (t.d. með því að skipuleggja markvissa umræðufundi). Því næst leggi forsætisráðherra, að höfðu samráði við aðra formenn flokkanna, erindisbréf fyrir sérfræðinganefnd um útfærslu á viðkomandi málefni. Sérfræðinganefndin semji frumvarp á þeim grunni. Ef formannahópurinn fellst á frumvarp verði það kynnt opinberlega, umsögn fengin frá Feneyjanefndinni og eftir atvikum lagfæringar gerðar í kjölfar samráðs. Frumvarp/frumvörp verði svo lagt fram á Alþingi á síðasta haustþingi kjörtímabils. Eftir eðli málsins hverju sinni verður skoðað hvort efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um einstök frumvörp, annað hvort í formi ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða alþingiskosningum eða í formi bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu í lok ferlis (gildistaka frumvarps væri þá háð því að það hlyti samþykki í þjóðaratkvæðagreiðslu).

Forsætisráðherra hefur falið Unni Brá Konráðsdóttur að vera verkefnisstjóri vinnu við endurskoðun stjórnarskrárinnar. Unnur Brá hóf störf í forsætisráðuneytinu 1. apríl 2018.

Stjórnarskrárendurskoðun 2018

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira