Hoppa yfir valmynd
12. nóvember 2021 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Vernd og endurheimt votlendis verði liður í loftslagsáætlunum ríkja

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, ásamt öðrum þátttakendum í hringborðsviðræðum um aukið samstarf Evrópuþjóða um votlendi.  - mynd

Það verður að gera endurheimt votlendis að lið í aðgerða- og aðlögunaráætlunum þjóða vegna loftslagsbreytinga og koma í veg fyrir að hvatar til eyðileggingar votlendis séu til staðar. Þetta sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, í ávarpi sínu á votlendisviðburði Landgræðslunnar á Loftslagsráðstefnunni í Glasgow í dag.

Guðmundur Ingi sagði íslensk stjórnvöld um langt skeið hafa nýtt sér náttúrulegar lausnir til að stöðva gróðureyðingu og að núverandi stjórnvöld hafi lagt aukna áherslu á þessi mál í aðgerðaáætlun sinni í loftslagsmálum.

Ráðherra fagnaði því að á loftslagsráðstefnunni hafi verið skrifað undir yfirlýsingu um að stöðva eyðingu skóga fyrir árið 2030. Það sé mikilvægt skref fram á við, en votlendi sé ekki síður mikilvægt en skógar varðandi kolefnisbúskap á landi. Ráðherra benti einnig á mikilvægi verndar og endurheimtar votlendis með tilliti til líffræðilegrar fjölbreytni.

Viðburðinum var stýrt af Þórunni Wolfram Pétursdóttur, sviðsstjóra hjá Landgræðslunni. Auk Guðmundar Inga tóku þátt í viðburðinum þátttakendur frá Írlandi, Mongólíu, Perú og Skotlandi, auk Sunnu Áskelsdóttur frá Landgræðslunni.

Samstarf þjóða í málefnum votlenda heillavænlegt

Þá tók ráðherra þátt í hringborðsumræðum um aukið samstarf Evrópuþjóða um votlendi, sem írsk stjórnvöld stóðu að. Viðburðinum var stýrt af írsku ráðherrunum Malcolm Noonan, ráðherra menningararfs og Pippu Hackett, ráðherra landnotkunar og líffræðilegrar fjölbreytni.

Sagðist Guðmundur Ingi telja samstarf þjóða í málefnum er varða votlendi heillavænlegt og lýsti yfir vilja til þess að Ísland tæki þátt í því. Vakti hann athygli á aðgerðum íslenskra stjórnvalda varðandi endurheimt votlendis, sem og starfi Votlendissjóðs.

Þá rifjaði ráðherra  upp að það hefðu verið íslensk stjórnvöld sem, í kjölfar rannsókna íslenskra vísindamanna, upphaflega vöktu athygli alþjóðasamfélagsins á þeirri losun koldíoxíðs sem fylgi þurrkun votlendis. Það hafi svo orðið til þess að endurheimt og vernd votlendis var skrifuð inn í ákvæði Kýótó-bókunarinnar á seinna skuldbindingartímabili hennar (2013-2020).

Viðburðirnir fóru fram í sérstökum Votlendisskála á sýningar- og viðburðasvæði ráðstefnunnar í Glasgow. Þetta er í fyrsta sinn sem slíkur skáli er settur upp á aðildarríkjaþingi Loftslagssamningsins og nefndu umhverfis- og auðlindaráðherra og fleiri að það væri til marks um að vernd og endurheimt mómýra og annars votlendis væri tekin alvarlegar en áður í loftslagsmálum.

 
  • Ráðherra flytur ávarp á votlendisviðburði Landgræðslunnar. - mynd
  • Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum