Hoppa yfir valmynd
StjórnunarstörfHöfuðborgarsvæðiðLandlæknir

Starf sóttvarnalæknis hjá embætti landlæknis

Starf sóttvarnalæknis hjá embætti landlæknis

Embætti landlæknis auglýsir starf sóttvarnalæknis laust til umsóknar. Um starf sóttvarnalæknis fer samkvæmt sóttvarnalögum nr. 19/1997 með síðari breytingum, reglugerðum sem og öðrum lögum eftir því sem við á. Í sóttvarnalögum segir að embætti landlæknis beri ábyrgð á framkvæmd sóttvarna undir yfirstjórn ráðherra. Enn fremur að við embætti landlæknis skuli starfa sóttvarnalæknir sem ber ábyrgð á sóttvörnum.  Sóttvarnalæknir er jafnframt sviðsstjóri sóttvarnarsviðs og situr í framkvæmdastjórn embættisins. 

Helstu verkefni og ábyrgð

 • Að bera ábyrgð á framkvæmd sóttvarna og almennum og opinberum sóttvarnaráðstöfunum, þar með talið ráðstöfunum vegna heilsufarslegra afleiðinga sýkla. Starf sóttvarnalæknis tekur einnig til eiturefna, geislavirkra efna og óvenjulegra og óvæntra atburða sem geta haft alvarlegar heilsufarslegar afleiðingar.
 • Skv. 5. gr. sóttvarnalaga er verksvið sóttvarnalæknis aðallega eftirfarandi (vakin er athygli á að endurskoðun sóttvarnalaga er hafin og því kann að verða einhver breyting á):


    1. Að skipuleggja og samræma sóttvarnir og ónæmisaðgerðir um land allt, m.a. með útgáfu leiðbeininga um viðbrögð við farsóttum.
    2. Að halda smitsjúkdómaskrá til að fylgjast með útbreiðslu smitsjúkdóma með öflun nákvæmra upplýsinga um greiningu þeirra frá rannsóknastofum, sjúkrahúsum og læknum.
    3. Að halda skrá um notkun manna á sýklalyfjum sem valdið geta ónæmi sýkla gegn sýklalyfjum.
    4. Að koma upplýsingum um útbreiðslu smitsjúkdóma, innan lands sem utan, með reglubundnum hætti og eftir þörfum til lækna og annarra heilbrigðisstarfsmanna.
    5. Að vera læknum og öðrum, sem við sóttvarnir fást, til ráðgjafar.
    6. Að hafa umsjón með forvörnum gegn smitsjúkdómum, m.a. upplýsingum og fræðslu til almennings um þessi efni.
    7. Að vera tengiliður Íslands við samsvarandi tengilið Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar í samræmi við ákvæði alþjóðaheilbrigðisreglugerðarinnar.
    8. Að gera faraldsfræðilega rannsókn á uppruna smits, og eftir atvikum hefja smitrakningu, þegar brotist hefur út hópsýking eða farsótt sem ógnað getur heilsu manna.
    9. Að gera tillögur til ráðherra um hvort gripið skuli til sóttvarnaráðstafana skv. 2. mgr. 12. gr., 13. og  14. gr.
    10. Að taka ákvörðun í tilefni af hættu á útbreiðslu smits frá tilteknum einstaklingi, svo sem um     heilbrigðisskoðun, sóttkví, einangrun eða aðrar nauðsynlegar ráðstafanir, sbr. 14. gr., og eftir atvikum fara með mál fyrir dóm, sbr. 15. gr.
    11. Að opna sóttvarnahús á vegum stjórnvalda, eftir því sem þörf þykir vegna farsótta.

 • Stjórn sóttvarnasviðs.
 • Gerð viðeigandi viðbragðsáætlana í samvinnu við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.
 • Önnur tilfallandi verkefni í samráði og samstarfi við landlækni og aðra sviðsstjóra embættisins.

Hæfniskröfur

 • Íslenskt lækningaleyfi ásamt sérfræðimenntun í læknisfræði.
 • Þekking á smitsjúkdómum og faraldsfræði þeirra er skilyrði.
 • Þekking og reynsla á sviði stjórnunar er æskileg.
 • Þekking á sviði stjórnsýslu er æskileg.
 • Reynsla af vísindarannsóknum er æskileg.
 • Góð kunnátta í íslensku og ensku er skilyrði,  vald á einu norðurlandamáli er kostur.
 • Góð færni til að tjá sig í ræðu og riti.
 • Jákvæðni og lipurð í mannlegum samskiptum.
 • Framúrskarandi samstarfshæfni og geta til að starfa undir álagi.

Frekari upplýsingar um starfið

Laun samkvæmt gildandi kjarasamningi sem fjármála- og efnahagsráðherra og Læknafélag Íslands hafa gert.

Við ráðningu er tekið mið af jafnréttisstefnu embættisins og hvetur embættið einstaklinga af öllum kynjum til að sækja um starfið. Umsóknin gildir í 6 mánuði eftir að umsóknarfrestur rennur út nema umsækjandi ákveði annað. Embætti landlæknis áskilur sér rétt til að hafna öllum umsóknum. Öllum umsóknum verður svarað að ráðningu lokinni. 

Umsókn skal fylgja ítarleg náms- og starfsferilskrá, auk kynningarbréfs (2-3 bls.) þar sem gerð er grein fyrir ástæðu umsóknar, sýn á starfið og rökstuðningi fyrir hæfi viðkomandi í starf sóttvarnalæknis. Landlæknir, ásamt þriggja manna nefnd sem landlæknir skipar, mun meta hæfi umsækjenda en mat á hæfi byggir á innsendum gögnum og viðtölum við umsækjendur.  

Embætti landlæknis starfar í samræmi við lög um landlækni og lýðheilsu. Hlutverk embættisins í hnotskurn er að stuðla að góðri og öruggri heilbrigðisþjónustu, heilsueflingu og forvörnum. Embættið hefur sett sér gildi sem starfsfólki ber að hafa að leiðarljósi þ.e. ábyrgð, virðing og traust. Við erum heilsueflandi vinnustaður sem leggur áherslu á að efla mannauð og stuðla að góðri heilsu og líðan starfsfólks.

Æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf 1. september 2022.

Starfshlutfall er 100%

Umsóknarfrestur er til og með 13.06.2022

Nánari upplýsingar veitir

Alma Dagbjört Möller, Landlæknir - [email protected] - 510 1900

Smelltu hér til að sækja um starfið

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira