Hoppa yfir valmynd

Gerð kjörskrár

Sveitarstjórnir leggja fram kjörskrár á grundvelli kjörskrárstofna frá Þjóðskrá Íslands. Á kjörskrá skal taka alla þá sem kosningarrétt eiga í viðkomandi kosningum og er skráning á kjörskrá skilyrði þess að fá að greiða atkvæði.

Þjóðskrá Íslands sendir sveitarstjórnum kjörskrárstofn fljótlega eftir viðmiðunardag kjörskrár sem er 6. júní 2020. Kjörskrár skulu lagðar fram eigi síðar en tíu dögum fyrir kjördag, þ.e. miðvikudaginn 17. júní 2020. Skulu þær liggja frammi á skrifstofum sveitarfélaga eða öðrum hentugum stað á almennum skrifstofutíma til kjördags. Sveitarstjórn skal auglýsa hvar kjörskrá liggur frammi á þann hátt á hverjum stað sem venja er þar að birta opinberar auglýsingar. Kjörskrá skal undirrituð af oddvita sveitarstjórnar eða framkvæmdastjóra hennar.

Á kjörskrá skal taka þá sem uppfylla öll kosningaréttarskilyrði á viðmiðunardegi kjörskrár. Kosningarrétt við forsetakosningarnar eiga allir íslenskir ríkisborgarar sem náð hafa 18 ára aldri á kjördag og með lögheimili á Íslandi. Jafnframt eiga kosningarrétt þeir íslenskir ríkisborgarar sem flutt hafa lögheimili sitt til útlanda eftir 1. desember 2011 og náð hafa 18 ára aldri á kjördag. Þá eiga kosningarrétt þeir íslenskir ríkisborgarar, sem flutt hafa lögheimili sitt til útlanda fyrir 1. desember 2011, enda hafi þeir sótt um það til Þjóðskrár Íslands fyrir 1. desember 2019. Erlendir ríkisborgarar eiga ekki kosningarrétt við forsetakosningar og eru því ekki á kjörskrá. Eina undantekningin eru danskir ríkisborgarar, sem eiga kosningarétt samkvæmt lögum nr. 85/1946, þ.e. þeir sem voru búsettir á Íslandi 6. mars 1946 eða á síðustu 10 árum fyrir þann tíma.

Sveitarstjórn ber að gæta þess að taka ekki aðra einstaklinga á kjörskrá en ótvírætt eiga kosningarétt samkvæmt ákvæðum laga. Rétt er að ítreka að ávallt skal miða við skráð lögheimili samkvæmt íbúaskrá Þjóðskrár Íslands, þremur vikum fyrir kjördag þ.e. 6. júní 2020. Ekki er því um huglægt mat að ræða og því er til dæmis ekki heimilt að taka einstakling inn á kjörskrá sem gleymt hefur að flytja lögheimili sitt til sveitarfélagsins í tæka tíð fyrir viðmiðunardag kjörskrár.

Hver sem er getur gert athugasemdir til sveitarstjórnar um að nafn eða nöfn einhverra kjósenda vanti á kjörskrá eða þeim sé þar ofaukið. Heimilt er að gera slíkar athugasemdir til sveitarstjórnar fram á kjördag.

Sveitarstjórn skal þegar taka til meðferðar athugasemdir er henni berast vegna kjörskrár og gera viðeigandi leiðréttingar á henni. Þar sem skilyrði skráningar á kjörskrá eru skýr eiga sveitarstjórnir ekki að þurfa að gera margar leiðréttingar á þeim kjörskrárstofni sem Þjóðskrá Íslands lætur þeim í té. Tilefni slíkra leiðréttinga er einkum öflun eða missir íslensks ríkisfangs eða andlát á tímabilinu frá viðmiðunardegi kjörskrár til kjördags. Slíkar leiðréttingar má gera fram á kjördag. Óheimilt er að breyta kjörskrá vegna breytts lögheimilis hafi tilkynning um nýtt lögheimili ekki borist Þjóðskrá Íslands fyrir viðmiðunardag kjörskrár 6. júní 2020.

Sveitarstjórn skal þegar tilkynna hlutaðeigandi einstaklingum um leiðréttingar á kjörskrá, svo og þeirri sveitarstjórn er málið getur varðað. Sveitarstjórn skal jafnframt tilkynna hlutaðeigandi kjörstjórn um leiðréttingar á kjörskrá, svo og oddvita yfirkjörstjórnar.

Ef sveitarstjórn vanrækir hlutverk sitt varðandi samningu eða framlagningu kjörskrár er það hlutverk viðkomandi sýslumanns að bregðast við. Skal sýslumaður þá þegar gera nauðsynlegar ráðstafanir til að bæta úr því sem á vantar.

Síðast uppfært: 22.6.2020
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum