Hoppa yfir valmynd

Umboðsmenn

Hverjum framboðslista skal fylgja til yfirkjörstjórnar skrifleg tilkynning um hverjir tveir menn séu umboðsmenn listans ásamt samþykki þeirra.

Ef umboðsmenn listans eru ekki tilgreindir eða umboðsmaður er af einhverjum ástæðum forfallaður eru frambjóðendur í aðalsætum hver um sig réttir umboðsmenn listans.

Umboðsmenn lista eiga rétt á að vera viðstaddir fundi yfirkjörstjórnar sveitarfélags um framboðslista eftir að framboðsfrestur rennur út. Umboðsmenn veita upplýsingar um listana sé þess óskað og þeir gæta réttar listans við skoðun yfirkjörstjórnar. Finnist gallar á framboðslista skal umboðsmönnum gefinn kostur á að leiðrétta þá áður en þeir koma til úrskurðar yfirkjörstjórnar.

Yfirkjörstjórn sveitarfélags útbýr sérstök skilríki fyrir umboðsmenn samkvæmt nánari fyrirmælum landskjörstjórnar. Skilríki þessi skulu umboðsmenn bera við athafnir sínar samkvæmt lögum þessum.

Umboðsmönnum er skylt að hlíta þeim fundarreglum sem kjörstjórn setur, þ.m.t. á kjörfundi og við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar. 

Umboðsmenn lista eiga rétt á að tilnefna aðstoðarmenn sem koma fram fyrir hönd þeirra við framkvæmd kosninga. Tilnefningar skulu berast yfirkjörstjórn sveitarfélags tímanlega fyrir kjördag og skal yfirkjörstjórn útbúa sérstök skilríki fyrir aðstoðarmenn sem þeir skulu bera við athafnir sínar. Réttindi og skyldur aðstoðarmanna gagnvart kjörstjórnum eru hinar sömu og umboðsmanna.

Umboðsmenn lista eiga rétt á að vera viðstaddir fundi landskjörstjórnar og yfirkjörstjórnar sveitarfélags um framboðslista, sbr. 45. og 46. gr.

Úrskurði yfirkjörstjórn sveitarfélags framboðslista ógildan skal umboðsmönnum lista, eins fljótt og verða má, afhent afrit úrskurðarins, ásamt afriti listans og vottorði um afhendingartíma.

Umboðsmenn lista og umboðsmenn stjórnmálasamtaka mega skjóta ákvörðunum yfirkjörstjórna sveitarfélaga til úrskurðarnefndar kosningamála innan 20 stunda frá uppkvaðningu, sbr. 2. mgr. 45. gr. og 2. mgr. 46. gr.

Umboðsmenn lista eiga rétt á að vera viðstaddir atkvæðagreiðslu á kjörfundi og að sitja við borð í kjörfundarstofunni og fá afhentar kosningaleiðbeiningar. Umboðsmenn lista eiga enn fremur rétt á að vera viðstaddir atkvæðagreiðslu utan kjörfundar, þó ekki ef atkvæðagreiðsla fer fram í heimahúsi. 

Umboðsmenn skulu hafa aðgang að kjörskrám í kjörfundarstofu og að skrám kjörstjóra sem þeir halda vegna atkvæðagreiðslu utan kjörfunda, sbr. 5. mgr. 77. gr. Umboðsmönnum er óheimilt að bera í kjörfundarstofu eða hafa á brott með sér gögn er varða kosninguna og óheimilt er að taka upp, mynda eða miðla með öðrum hætti upplýsingum um það sem fram fer í kjörfundarstofu. Sama gildir um kosningarathöfn utan kjörfundar.

Umboðsmenn lista eiga rétt á að vera viðstaddir þegar kjörstjórn gætir laga- og stjórnvaldsfyrirmæla við meðhöndlun atkvæðakassa og annarra kjörgagna áður en atkvæðagreiðsla hefst og þegar henni er slitið. Umboðsmönnum er heimilt að undirrita með kjörstjórn það sem hún ritar í gerðabókina vegna þessara starfa og setja innsigli sín á þá atkvæðakassa og kjörgögn sem kjörstjórn innsiglar samkvæmt lögum. Sama gildir um rétt umboðsmanna lista hvað varðar störf kjörstjóra.

Telji umboðsmenn lista að kjörstjórn, kjörstjóri eða kjósendur hegði sér ekki samkvæmt lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum við kosningarathöfnina mega þeir finna að því við kjörstjórnina eða kjörstjórann. Telji þeir eitthvað ólöglegt við kosningarathöfnina og fá það ekki leiðrétt hjá kjörstjórn eða kjörstjóra eiga umboðsmenn rétt á að fá ágreiningsefnið bókað þegar í stað í gerðabók kjörstjórnar eða skrá kjörstjóra. Neiti kjörstjórn eða kjörstjóri að bóka eitthvað vegna kosningarathafnarinnar á umboðsmaður rétt á að bóka það sjálfur og undirrita.

Umboðsmenn lista eiga rétt á að vera viðstaddir undirbúning talningar, svo sem þegar tekið er á móti atkvæðakössum og þeir opnaðir, þegar tekið er á móti öðrum kjörgögnum eða við flokkun atkvæða. Þá eiga umboðsmenn rétt á að vera viðstaddir talningu atkvæða og fylgjast með framkvæmd hennar og uppgjöri.

Séu umboðsmenn lista ekki viðstaddir talningu eða undirbúning hennar skal yfirkjörstjórn kjördæmis eða yfirkjörstjórn sveitarfélags kalla til fólk úr sama framboði, ef unnt er, til að gæta réttar listans.

Sérhver stjórnmálasamtök sem boðið hafa fram eiga rétt á að hafa tvo umboðsmenn viðstadda við öll störf yfirkjörstjórnar sveitarfélags við staðfestingu kosningaúrslita sveitarstjórnarkosninga skv. XVII. kafla.

Síðast uppfært: 8.12.2022
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum