Hoppa yfir valmynd
18. september 2001 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Hreinsun olíu úr El Grillo lokið.


Aðgerðum við El-Grillo í Seyðisfirði er lokið. Kannaðir voru allir 36 tankar skipsins og fannst olía í 13 þeirra. Magn olíunnar reyndist vera 91 tonn sem er minna en það sem menn óttuðust að gæti verið í flakinu. Líklegt má telja að annað hvort hafi El-Grillo ekki verið fulllestað þegar því var grandað í síðari heimsstyrjöldinni eins og talið hefur verið eða að verulegt magn olíu hafi borist út í umhverfið skömmu eftir að skipinu var sökkt.

Þessi hreinsunaraðgerð er sú umfangsmesta á þessu sviði sem ráðist hefur verið í hér við land. Hættu á bráðri olíumengun í Seyðisfirði hefur því verið afstýrt, en næstu árin er þó ekki hægt að útiloka minniháttar leka frá skipinu frá þeim innansleikjum sem enn gætu leynst undir bitum tankanna.

Verkið gekk mjög vel og hefur norski verktakinn Riise Underwater Engineering staðið faglega og vel að verki. Allar áætlanir um kostnað hafa staðist sem og um framkvæmdatíma.

Nú þegar lokið er við að fjarlægja sprengjur og skotfæri ásamt því að fjarlægja olíu úr tönkum skipsins, mun El-Grillo njóta aukins aðdráttarafls sportkafara þar sem 134 metra langt flakið liggur á 50 metra dýpi í miðjum Seyðisfirði rétt utan hafnarinnar. Mestu skiptir að með hreinsun skipsins hefur verið komið í veg fyrir hættu á bráðri mengun í Seyðisfirði.

Nánari upplýsingar gefur Davíð Egilson forstjóri Hollustuverndar ríkisins en á heimasíðu Hollustuverndar (hollver.is) getur að líta ýmsan fróðleik tengdan olíuhreinsuninni.

Eldri frétt um El Grillo.

Fréttatilkynning nr. 16/2001
Umhverfisráðuneytið

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum