Samningurinn um alþjóðaverslun með tegundir í útrýmingarhættu (CITES)
Heiti: Samningur um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu.
(Convention on International Trade in Endangered Species of Wild Fauna and Flora). (CITES).
Markmið: Markmið samningsins er að vernda tegundir dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu. Hann nær til milliríkjaverslunar með lifandi og dauð dýr, plöntur og afurðir þeirra. Í honum eru reglur um inn- og útflutning og endurútflutning. Þær tegundir sem um ræðir eru skráðar í sérstakan viðauka sem má breyta á aðildarríkjaþingum samningsins. Viðaukarnir eru þrír og um þá gilda mismunandi strangar reglur.
Eðli samnings og vörsluaðili: Alþjóðlegur samningur í vörslu Sviss. 154 aðildarríki í júní 2001.
Dagsetning: Gerður í Washington 3. mars 1973 og öðlaðist gildi 1. júlí 1975.
Aðild Íslands: Aðild 3. janúar 2000 sem öðlaðist gildi 2. apríl 2000.
Bókanir: Engar.
Breytingar:
- Breyting gerð í Bonn 22. júní 1979; öðluðust gildi 13. apríl 1987. Aðild Íslands: 3. janúar 2000, öðlaðist gildi 2. apríl 2000.
- Breyting gerð í Garborone 30. apríl 1983; hafa ekki öðlast gildi. Aðild Íslands: 3. janúar 2000
Stjórn: Ákvarðanir eru teknar á aðildarríkjaþingum sem haldin eru annað hvert ár. Skrifstofa samningsins sér um eftirlit með framkvæmd samningsins. Hún er í tengslum við UNEP.
Stefnumörkun: Utanríkisráðuneyti í samráði við umhverfis- og sjávarútvegsráðuneyti.
Framkvæmd: Umhverfisstofnun og Fiskistofa (stjórnvaldsþáttur); Náttúrufræðistofnun Íslands og Hafrannsóknastofnun (vísindaþáttur).
Þátttaka í fundum: Utanríkis-, umhverfis- og sjávarútvegsráðuneyti auk Náttúrufræðistofnunar Íslands og Umhverfisstofnunar.
Upplýsingagjöf: Utanríkisráðuneytið.
Ákvæði:
- Í samningnum eru reglur um inn- og útflutning dýra og plantna í útrýmingarhættu og eru á skrá samningsins.
- Dýr og plöntur sem falla undir samninginn eru talin upp og flokkuð í þrjá viðauka eftir því hversu strangar reglur gilda um alþjóðlega verslun með þau:
Viðauki I: Í þessum viðauka eru tegundir sem eru í útrýmingarhættu. Alþjóðleg verslun með þessar tegundir er háð mjög ströngum reglum og er heimiluð aðeins í undantekningartilvikum og með því skilyrði að inn- og útflutningsleyfi sé fyrir hendi.
Viðauki II: Í þessum viðauka eru tegundir sem kunna að verða í útrýmingarhættu ef alþjóðlegri verslun með þær er ekki stjórnað. Alþjóðleg verslun með þessar tegundir er heimiluð með því skilyrði að útflutningsleyfi sé fyrir hendi. Nokkur aðildarríki krefjast þess einnig að fengið sé innflutningsleyfi.
Viðauki III: Í þessum viðauka eru tegundir sem verndaðar eru í einstökum aðildarríkjum samningsins og
þau tilnefna í þeim tilgangi að önnur aðildarríki aðstoði þau við að koma í veg fyrir ólöglega verslun með þær. Alþjóðleg verslun með þessar tegundir er háð leyfi frá upprunalandi þeirra.
Heimasíða: UNEP/CITES Secretariat