Hoppa yfir valmynd
2. desember 2004 Forsætisráðuneytið

Dómur MDE í máli Sigurþórs Arnarssonar gegn Íslandi

 

 

ÖNNUR YFIRDEILD

 (Kæra nr. 44671/98)

 

DÓMUR
STRASBOURG

15. júlí 2003

 

ENDANLEG GERÐ

 

15/10/2003

 

Dómur þessi verður endanlegur með þeim hætti sem kveðið er á um í 2. mgr. 44. gr. samningsins. Texti hans kann að sæta breytingum ritstjóra.

 

Í máli Sigurþórs Arnarssonar gegn Íslandi, kveður Mannréttindadómstóll Evrópu (önnur yfirdeild), skipaður

          hr.      J.-P. Costa, forseta,
          hr.      A.B. Baka,
          hr.      Gauki Jörundssyni,
          hr.      L. Loucaides,
          hr.      C. Bîrsan,
          hr.      M. Ugrekhelidze, og
          frú      A. Mularoni, dómurum,
og frú S. Dollé, ritara yfirdeildar,

eftir að hafa fjallað um málið á lokuðum fundum 21. maí og 24. júní 2003, upp eftirfarandi dóm, sem samþykktur hafði verið á þeim degi.

MÁLSMEÐFERÐ

1.  Upphaf málsins er kæra (nr. 44671/98) gegn íslenska ríkinu, sem Sigurþór Arnarsson, íslenskur rískisborgari („kærandi“), lagði fram við Mannréttindanefnd Evrópu samkvæmt 34. gr. samnings um vernd mannréttinda og mannfrelsis („samningsins“) hinn 10. nóvember 1998.

2. Hr. Magnús Thoroddsen lögmaður í Reykjavík fór með fyrirsvar fyrir kæranda. Fulltrúi íslenska ríkisins var fr. Björg Thorarensen, skrifstofustjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu.

3. Kærandi hélt því fram að er Hæstiréttur fann hann sekan og dæmdi – og hratt þar með niðurstöðu héraðsdóms – hefði rétturinn, andstætt 1. mgr. 6. gr. samningsins, byggt á endurmati á munnlegum yfirheyrslum í héraðsdómi, án þess að hafa sjálfur yfirheyrt vitni eða ákærða sjálfan.

4.  Kærunni var úthlutað til fyrstu yfirdeildar dómstólsins (skv. 1. mgr. 52. gr. réttarfarsreglna hans). Innan þeirrar yfirdeildar var sú deild sem fjalla skyldi um málið (sbr. 1. mgr. 27. gr. samningsins) skipuð eins og kveðið er á um í 1. mgr. 26. gr. réttarfarsreglna.

5. Hinn 1. nóvember 2001 breytti dómstóllinn skipan yfirdeilda sinna (1. mgr. 25. gr. réttarfarsreglna).  Var þessu máli úthlutað til hinnar nýstofnuðu annarrar yfirdeildar (1. mgr. 52. gr. réttarfarsreglna).

6. Með ákvörðun sinni hinn 21. maí 2002 lýsti dómstóllinn kæruna tæka.

7. Bæði kærandi og ríkið lögðu fram athugasemdir um efnishlið málsins (1. mgr. 59. gr. réttarfarsreglna) eftir að deildin ákvað að höfðu samráði við aðilana að ekki væri þörf á málflutningi um efnisatriði (sbr. lokaákvæði 3. mgr. 59. gr. réttarfarsreglna). Aðilar svöruðu athugasemdum hvers annars skriflega.

MÁLSATVIK

I. AÐDRAGANDI OG AÐSTÆÐUR

8.   Kærandi er íslenskur ríkisborgari, fæddur 1971, og búsettur á Íslandi.

9. Að sögn kæranda fór hann í fylgd fjögurra, þar á meðal S.Þ.E. nokkurs, á skemmtistað í Reykjavík, er ber nafnið Vegas, um kl. 1 aðfararnótt 13. maí 1997. Hann lenti brátt í deilu við mann nokkurn, S.S., og tók sá kæranda hálstaki og báðir féllu á gólfið. Kom til slagsmála milli S.Þ.E. og tveggja vina S.S. Dyraverðir reyndu að stöðva slagsmálin, en S.Þ.E. laust S.S. svo að hann missti meðvitund, og féll hann síðan á bakið þannig að hnakki hans slóst í gólfið. Kærandi og fylgifólk hans yfirgaf skemmtistaðinn í skyndi, og fóru þau heim til S.Þ.E.

10.  Þegar lögreglumenn komu á staðinn skömmu síðar lá meðvitudarlaus maður á sófa innst í húsnæðinu. Samkvæmt samantekt á málsatvikum í þeim dómum heimalandsins sem fjallað er um hér að neðan hafði lögreglumönnunum verið sagt að maðurinn hefði verið sleginn í höfuðið og að þrír karlmenn og ein kona hefðu ráðist á hann, slegið hann, tuskað hann til og sparkað í höfuð honum.  Sá sem helst hefði gengið fram í þessu væri kallaður Silli, en með því er átt við kæranda. Fólk þetta hefði einnig barið tvo vini S.S. svo að séð hefði á þeim. Þau hefðu síðan farið af staðnum. Lögregluskýrslur þær sem skráðu frásagnir vitna voru ekki með öllu skýrar. Rannsóknarmenn frá Rannsóknarlögreglu ríkisins voru ekki kallaðir til strax, og komu þeir á staðinn eftir að vitnin voru farin.

11.  Meðan farið var með S.S. á slysadeild Borgarspítalans í Reykjavík í sjúkrabifreið stöðvaðist hjartsláttur hans og andardráttur. Við lífgunartilraunir í bílnum fór hjartað að slá að nýju, en við komu á deildina voru sjáöldur hans enn víð og ljósstíf. Við fyrstu skoðun var ekki að sjá aðra áverka en lítið blóðkýli aftan á hnakka, Við skoðun í sneiðmyndatæki sást hins vegar útbreidd heilaskúmsblæðing. Var þegar gerð á honum heilaaðgerð, en ekki tókst að bjarga lífi hans, og lést S.S. daginn eftir.

12.  Niðurstaða krufningar, sem fram fór 15. maí 1997 var sú, að dánarorsök hefði verið útbreidd heilablæðing. Enn fremur var samkvæmt krufningarskýrslunni unnt að álykta af mari á hársverði í hnakka og blóðgúl undir höfuðleðri að ákoma (þ.e. högg, spark eða fall) hefði getað valdið hnykk á heila, er leitt hefði til rofs á slagæð og blæðingar.  Ekki var unnt að finna þess nein merki, að blæðingin kynni að stafa af sjúkleika. Hefði S.S. verið undir miklum áfengisáhrifum þegar hann hlaut höfuðáverkann.

13.  Er kærandi fékk veður af því daginn eftir að S.S. hefði verið fluttur á sjúkrahús og væri illa farinn gaf hann sig fram við Rannsóknarlögreglu ríkisins. Við yfirheyrslu viðurkenndi hann að hafa lent í átökum við hinn látna, en neitaði að hafa sparkað í höfuð hans. Nokkrum dögum eftir atburðinn var gerð rannsókn á skóm kæranda, en ekkert fannst er renndi stoðum undir þá ætlan.

14.  Hinn 15. júlí 1997 var S.Þ.E. ákærður fyrir að hafa ráðist að S.S. og grett honum þungt högg aftanvert á höfuð, svo að hann féll á gólfið meðvitundarlaus. Kæranda var gefið að sök að hafa síðan sparkað í höfuð S.S. þar sem hann lá á gólfinu, er leitt hefði til stórfelldrar heilablæðingar sem valdið hefði honum bana. Ákært var fyrir brot á 218. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, eins og henni var breytt með 11. gr. l. nr. 20/1981.

15.  Báðir hinir ákærðu voru yfirheyrðir í Héraðsdómi Reykjavíkur við meðferð málsins, ásamt 20 vitnum. Vitnaskýrslur um atburðinn voru mjög mismunandi, og nokkur vitni báru með öðrum hætti en þau hefðu gert hjá lögreglu.

16.  Í dómi sínum hinn 19. september 1997 fann héraðsdómur S.Þ.E sekan og dæmdi hann í tveggja ára fangelsi, en sýknaði kæranda vegna sönnunarskorts. Í rökstuðningi sínum tók dómurinn eftirfarandi fram:

„Mjög mikið ber á milli manna í skýrslum um átökin á Vegas. Upplýst er þó, að þau tóku mjög stuttan tíma og voru ekki einungis á milli ákærðu og S.S.... . Húsnæðið er fremur illa lýst með lituðum og tifandi ljósum. Þá er á það að líta, að fólk það, sem borið hefur vitni í málinu, var margt undir áhrifum áfengis og sumt mjög ölvað. Einnig liggur það fyrir að hinn látni var ofurölvi.

Kærandi hefur staðfastlega neitað því að hafa sparkað í höfuð S.S.  S.Þ.E. hefur sagt hann hafa sparkað fast með tánni í hnakka S.S., þar sem hann var á fjórum fótum að reyna að rísa á fætur. Er þessi frásögn ekki í samræmi við neitt annað í málinu, og ber að hafna henni. Vitni hefur borið, að ákærði hafi sparkað með tánni aftan í höfuð S.S., þar sem hann lá á hliðinni. Aðrir hafa ekki borið þetta á [kæranda], og við rannsókn á klossum hans hefur ekkert fundist, sem styður þessa frásögn vitnisins. Þá verður að telja, að áverkinn á hnakka S.S. og það, sem sem leitt er í ljós um gerð klossanna, styðji hana ekki heldur. Að þessu athuguðu og gegn staðfastri neitun ákærða verður að telja ósannað að hann hafi sparkað í höfuð S.S.. Ber því að sýkna hann.

Ákærði S.Þ.E. hefur einnig staðfastlega neitað að hafa slegið S.S. Aftur á móti hefur V.R.T. sagt stóran, þreklegan mann á þrítugsaldri og í ... röndóttri eða skræpóttri flík hafa hafa slegið mann í blárri skyrtu högg aftan við hægra eyra, svo að maðurinn féll fram yfir sig. S.L. hefur sagst hafa séð S.Þ.E. slá  S.S. ofarlega í höfuðið. Ó.R.J. hefur sagst hafa séð mann ... slá S.S. í höfuðið, aftanvert eða á hlið. B.P. hefur lýst því hvernig maður í ljósri skyrtu og gallabuxum sló annan mann á vinstra gagnauga svo að glumdi í, og maðurinn féll á gólfið á hnakkann, svo að glumdí í aftur. Enda þótt þessar skýrslur séu ekki samhljóða í öllum atriðum, ber þeim öllum saman um, að sá, sem sleginn var, hafi ekki staðið upp aftur. Telur dómurinn sannað, að ... ákærði S.Þ.E. hafi slegið S.S. heitinn eitt högg í höfuðið í þessum átökum, svo að hann skall í gólfið og lá eftir meðvitundarlaus. Ekkert verður um það fullyrt, hvort heilablæðingin hlaust af hnefahögginu eða skellinum eða hvoru tveggja, en þessar hörmulegu afleiðingar verður að telja ákærða til sakar. Hefur hann orðið sekur við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.

17.  Hinn 23 september 1997 áfrýjaði ríkissaksóknari sýknudómi kæranda til Hæstaréttar og krafðist sakfellingar samkvæmt ákæru og refsingar, og einnig að refsing S.Þ.E. yrði þyngd. Ríkissaksóknari tók enn fremur fram: „[Ákærðu var því stefnt] til þess að mæta fyrir Hæstarétti þegar málið verður tekið þar fyrir, til að hlýða á ákæru, til sakar að svara og dóm að þola og mega þeir ekki vænta frekara fyrirkalls eða stefnu í málinu.

Í framhaldsgreinargerð sinni frá 30. apríl 1998 ítrekaði ríkissaksóknari þá niðurstöðu héraðsdóms að meðákærði S.Þ.E hefði lostið árásarþola, S.S., einu höfuðhöggi meðan á átökunum stóð, svo að hann féll á gólfið og lá þar meðvitundarlaus, og að ekkert væri unnt að ákvarða um hvort heilablæðingin hefði stafað af högginu eða fallinu, eða hvoru tveggja. Hann benti á að ákærði S.Þ.E. hefði sagt kæranda hafa sparkað í höfuð S.S. þegar hann var að reyna að standa upp, og að vitnið E.P. hefði haldið því ákveðið fram að kærandi hefði sparkað í hnakka S.S. þar sem hann lá á gólfinu. Lytu skýrslur þeirra að sama sparkinu í höfuð S.S. Sá mismunur sem á þeim væri gæti ekki réttlætt að skýrslu S.Þ.E. um þetta atriði yrði hafnað. Hin alvarlega og áframhaldandi líkamsárás beggja ákærðu hefði leitt til blæðingarinnar og valdið árásarþola bráðum bana.

18.  Í greinargerð hinn 5. maí 1998 svaraði verjandi kæranda því til að ekki yrði séð af röksemdafærslu ríkissaksóknara að hann teldi héraðsdóm hafa metið sönnunargögn ranglega, þar sem hann hefði ekki gert þá kröfu að Hæstiréttur ómerkti héraðsdóminn og vísaði málinu heim. Af hálfu varnarinnar voru enn fremur lögð fram ítarleg rök gegn því sem ríkissaksóknari hafði fært fram varðandi vitnaskýrslur, og lögð áhersla á að skýrsla meðákærða S.Þ.E. væri óáreiðanleg, þar sem hann hefði augljóslega sjálfur hag af því að kærandi yrði fundinn sekur.

19.  Eftir að hafa hlýtt á sókn sakar og vörn, en án þess að hafa yfirheyrt kæranda sjálfan eða vitni í málinu, kvað Hæstriréttur upp dóm hinn 22. maí 1998, fann kæranda sekan um það sem honum hafði upphaflega verið gefið að sök, og dæmdi hann til fangelsisvistar í 2 ár og 3 mánuði. Einnig staðfesti rétturinn dóm héraðsdóms yfir S.Þ.E. Meðal málsskjala Hæstaréttar voru endurrit þeirra skýrslna sem veittar höfðu verið munnlega í héraðsdómi og öll skjöl sem þar höfðu verið lögð fram, svo sem lögrelguskýrslur um atvikin á skemmtistaðnum Vegas, skýrslur vitna sem lögregla hafði tekið við rannsókn málsins, krufningarskýrslur og önnur gögn um læknisrannsóknina á hinum látna, enn fremur læknisskýrsla um kæranda, og ljósmyndir af honum, meðákærða og þeim fimm öðrum sem tóku þátt í slagsmálunum og síðar urðu vitni í málinu. Þar voru einnig ljósmyndir af þeim skóm sem kærandi var í umrætt kvöld, og ljósmyndir og teikningar af þeim húsakynnum þar sem átökin á Vegas áttu sér stað. Að auki voru meðal málsgagna allmörg önnur skjöl, svo sem sakavottorð kæranda.

20.  Í dómi Hæstaréttar sagði:

„... ber að fallast á það með héraðsdómi, að sannað sé, að hinn látni hafi látist af heilaskúmsblæðingu, sem hafi hlotist af höggi eða höggum á höfuð. Á höfði mannsins hafi ekki verið aðra áverka að sjá en mar á hársverði á hnakka og blóðgúl undir höfuðleðri. Ekki hafi verið sýnt fram á að ákverkinn hafi hlotist af þungu höggi eða höggum á hnakkann, og nægjanlega sé fram komið, að slíkur áverki geti hlotist af tiltölulega vægu höggi. Þá skiptir máli, að hinn látni var mjög ölvaður.

Þótt sá [vitna]framburður, sem rakinn hefur verið, sé ekki að öllu leyti markviss, þykir ekki varhugavert að telja fram komið, að báðir ákærðu hafi ásamt S.L. ráðist á manninn. Þetta síðastgreinda vitni bar fyrir lögreglu og staðfesti í raun fyrir dómi, að ákærði S.Þ.E. hefði slegið manninn í höfuðið, og er það stutt af framburði vitnanna V.R.T. og Ó.R.J. Fær þetta stuðning af þeim framburði S.Þ.E. sjálfs, að hann hafi slegið einn félaganna, en þá ber til þess að líta, að E. kennir kæranda um áverka á sér, og E.P. kennir S.L. um sína. Verður samkvæmt framansögðu að telja sannað, að ákærði S.Þ.E. hafi greitt manninum höfuðhögg, svo að hann féll í gólfið. Með framburði vitnisins E.P., sem hefur nokkurn stuðning af framburði vitnisins G.Ó. dyravarðar, og þeirri fyrstu frásögn manna á staðnum, að sparkað hefði verið í höfuð hins látna, þykir einnig nægjanlega fram komið, að kærandi hafi síðan sparkað i höfuð mannsins, þar sem hann lá í gólfinu.

Af öllu framangrreindu leiðir, að sannað telst, að ákærðu hafi báðir ráðist á þann, er lést, sem var svo ölvaður, að hann var ófær um að standa í átökum og verjast falli. Verður ekki talið öðrum til að dreifa, sem hafi getað valdið honum þeim áverka, sem leiddi hann til dauða. Ákærðu máttu búast við, að veruleg meiðsl gætu hlotist af árás þeirra. Þegar litið er til atlögu ákærðu og afleiðinga hennar, sem virða verður þeim til gáleysis, þykir atferli þeirra beggja varða við 2.mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Samkvæmt krufningarskýrslu og framburði krufningarlæknis … urðu afleiðingarnar afdrifaríkari en við mátti búast. Ber að líta til þess við ákvörðun refsingar.“

Minni hluti réttarins (einn dómari) sagði:

„Í niðurstöðu meiri hluta dómenda svo og í héraðsdómi eru raktar skýrslur vitna um atvik á skemmtistaðnum Vegas 13. maí 1997 … . Þar er meðal annars lýst þætti ákærða S.Þ.E. í átökunum, en hann neitar sök í málinu. Þrátt fyrir það tel ég sannað, að hann hafi veitt þeim, er síðar lést, hnefahögg í höfuðið aftanvert, sem felldi hann í gólfið þar sem hann lá hreyfingarlaus eftir það. Ákoma var ofarlega á hnakka mannsins. Tel ég, að leggja beri til grundvallar dómi, að þessi atlaga ákærða S.Þ.E. hafi leitt til dauða mannsins.  … Er ég sammála öðrum dómendum um, að refsing þessa ákærða skuli vera fangelsi í tvö ár.

[Kærandi] neitar einnig sök. Eitt vitni ber staðfastlega að það hafi séð þennan ákærða sparka í höfuð þess sem lést, þar sem hann lá á gólfinu. Annað vitni, dyravörður á Vegas, bar fyrir dómi að þaðhefði séð einhvern sparka í manninn, þar sem hann lá á gólfinu. Lýsti vitnið þessu svo, að því hefði fundist þetta vera spark, en gat hvortki tjáð sig um, hver sparkaði né hvar höggið hefði lent á líkama hans. Við skýrslugjöf hjá lögreglu 14. maí 1997 gat vitnið þessa atriðis ekki. Við aðra skýrslutöku lögreglu tveim dögum síðar er skráð eftir vitninu: „Þetta voru slagsmál, þar sem hann sá hendur að berja og fætur að sparka, en hann getur ekki greint á milli hver barði hvern eða hvort einhver sparkaði í einhvern.“ Að öllu virtu geta sakargiftir í málinu ekki fengið stoð í framburði þessa vitnis. Ég tel, að ákæruvaldinu hafi ekki tekist að sanna með fullnægjandi hætti sök [kæranda] og beri því að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms um sýknu hans í málinu.“

II. VIÐEIGANDI LANDSLÖG OG RÉTTARFRAMKVÆMD

21. 1. og 3. mgr. 157. gr. laga um meðferð opinberra mála frá 1991 (eins og þeim var breytt með l. 37/1994) eru svohljóðandi:

„1. Mál skal að jafnaði flutt munnlega fyrir Hæstarétti. Hæstiréttur getur þó ákveðið að mál verði skriflega flutt ef sérstakar ástæður mæla með því. Hæstiréttur getur einnig ákveðið að mál verði dómtekið án sérstaks málflutnings ef samhljóða óskir koma fram um það frá aðilum eða dómi er aðeins áfrýjað um ákvörðun viðurlaga.  ...

3. Hæstiréttur getur ákveðið að munnleg sönnunarfærsla fari þar fram í þeim mæli sem hann telur þörf, enda þyki honum í ljósi atvika ástæða til að ætla að sú sönnunarfærsla geti haft áhrif á úrslit máls.“

22.  159. gr. hljóðar svo:

„1. Refsing og önnur viðurlög á hendur ákærða verða ekki þyngd með dómi Hæstaréttar nema dómi hafi verið áfrýjað í því skyni af hálfu ákæruvalds.

2. Nú hefur dómi verið áfrýjað af hálfu ákæruvalds en ekki af hálfu ákærða og getur þá Hæstiréttur allt að einu breytt dómi ákærða til hagsbóta.

3. Við áfrýjun til endurskoðunar á dómi að efni til breytir Hæstiréttur ekki viðurlögum samkvæmt honum nema þau séu utan marka viðkomandi refsilagaákvæða eða í verulegu ósamræmi við brot ákærða.

4. Hæstiréttur getur ekki endurmetið niðurstöðu héraðsdómara um sönnunargildi munnlegs framburðar nema hlutaðeigandi vitni eða ákærði hafi gefið skýrslu þar fyrir dómi.

5. Nú telur Hæstiréttur líkur fyrir að niðurstaða héraðsdómara um sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi kunni að vera röng svo að einhverju skipti um úrslit máls og vitni eða ákærði sem eiga í hlut hafa ekki gefið munnlega skýrslu fyrir Hæstarétti og getur þá Hæstiréttur fellt úr gildi héraðsdóm og meðferð málsins í héraði í þeim mæli að munnleg sönnunarfærsla geti farið þar fram eftir þörfum og leyst verði úr máli á ný.“

Ríkisvaldið hélt því fram að samkvæmt réttarframkvæmd hefðu orðin „sönnunargildi munnlegs framburðar“ í 4. mgr. 159. gr. tvenna merkingu. Í fyrsta lagi lytu þau að því, að trúverðugleiki vitnis og skýrslu þess væri metinn sjálfstætt. Til að slíkt mat megi fram fara sé nauðsynlegt að vitni komi fyrir dóm og að dómari spyrji það milliliðalaust. Í öðru lagi fjallaði ákvæði 4. mgr. 159. gr. um vægi vitnisburðarins í samanburði við aðra sönnunarfærslu í máli þar sem Hæstiréttur hefði fallist á mat héraðsdóms á trúverðugleika vitna. Aðaltilgangur ákvæðisins sé að tryggja að Hæstiréttur muni ekki endurmeta trúverðugleika vitnis sem veitt hefur munnlega skýrslu fyrir héraðsdómi. Að áliti ríkisvaldsins er skilningur þessi studdur greinargerð með frumvarpi til laga nr. 37/1994, er breyttu reglunum um málsmeðferð í Hæstarétti. Teldi Hæstiréttur að héraðsdómur hefði ekki metið trúverðugleika vitnaframburðar réttilega myndi hann ómerkja dóm hins lægra dómstigs og, að því marki sem nauðsynlegt væri, leggja fyrir héraðsdóminn að yfirheyra vitni munnlega að nýju og kveða upp nýjan dóm. Dæmi um að Hæstiréttur hefði tekið við sönnunarfærslu samkvæmt 4. mgr. 159. gr. væri mál nr. 11/2001, sem dæmt var í 21. febrúar 2002, þar sem rétturinn taldi nauðsynlegt, eftir að hafa þegar einu sinni ómerkt mat héraðsdóms, að kynna sér trúverðugleika varnar ákærða af eigin raun.

LAGAATRIÐI

I. MEINT BROT GEGN 1. MGR. 6. GR. SAMNINGSINS

23. Kærandi hélt því fram að hann hefði orðið fyrir broti á 1. mgr. 6. gr. samningsins, sem að því leyti sem máli skiptir er svohljóðandi:

„Þegar kveða skal á um ... sök, sem [maður] er borinn um refsivert brot, skal hann eiga rétt til réttlátrar málsmeðferðar ... fyrir ... dómstóli.“

24. Ríkisvaldið vefengdi þetta og gerði þá kröfu að dómstóllinn kvæði svo á ekki hefði verið brotið gegn sammningnum í máli þessu.

A. Sjónarmið aðilanna

1. Sjónarmið kæranda

25. Kærandi hélt því fram að Hæstiréttur hefði byggt sakfellingu hans og refsingu – andstætt sýknudómi hans í héraði – á endurmati á munnlegum framburði fyrir héraðsdómi, án þess að hafa hlýtt á framburð vitna eða ákærða sjálfs. Þetta hafi ekki einungins verið andstætt íslenskum lögum, heldur einnig andstætt 1. mgr. 6. gr. samningsins.

Kærandi hefði alls ekki, eins og ríkisvaldið hefði gefið í skyn, afsalað sér neinum réttarfarslegum réttindum fyrir Hæstarétti. Krafa ákæruvaldsins um sakfellingu samkvæmt ákæru og skriflegar greinargerðir verjanda hans er lagðar voru fram til andsvara við greinargerðir ákæruvaldsins veittu Hæstarétti fulla ástæðu til að hlýða á framburð ákærða og vitna áður en niðurstöðu hins lægra dómstigs um sýknu var snúið við.

Þar sem atvik varðandi spurninguna um refsiábyrgð voru umdeild taldi kærandi að málstaður sinn samkvæmt 1. mgr. 6. gr. samningsins væri jafnvel enn traustari en kæranda í málinu Botten gegn Noregi (dómur 19. febrúar 1996, Reports of Judgments and Decisions, 1996-I, 49. tölul.). Samkvæmt 4. mgr. 159. gr. laga um meðferð opinberra mála hefði Hæstarétti borið að kalla hann og vitnin fyrir og hlýða milliliðalaust á það þau höfðu fram að færa áður en dæmt var í málinu. Kærandi var þeirri skoðun ríkisvaldsins ósammála að það skipti máli hvort sömu skýrslugjafar hefðu veitt upplýsingar sem ekki lágu þegar fyrir.

2. Sjónarmið ríkisvaldsins

26.  Ríkisvaldið taldi að enda þótt réttlætisviðmið 1. mgr. 6. gr. bæri að skoða í ljósi málsmeðferðarinnar í heild gæfi ekkert til kynna að málsmeðferðinni í héraði hefði verið ábótavant að því leyti. Enn fremur hefði það verið liður í málsmeðferð Hæstiréttar að dómþing var háð fyrir opnum dyrum og munnlega, þar sem báðum aðilum, saksóknara og lögmanni ákærða, var leyft að taka tvisvar til máls. Í samræmi við hina föstu framkvæmdarvenju sína hefði Hæstiréttur treyst á endurrit héraðsdóms, gerð eftir hljóupptökum úr réttarhaldi, þar sem skýrslur ákærðu og allra vitna hefðu meðal annars komið fram í heild sinni. Að þessu leyti væri augljós munur á máli kæranda og hinu fyrrnefnda máli Bottens gegn Noregi, sem kærandi vísaði til. Að þessu viðbættu væru meðal málsgagna Hæstaréttar öll önnur gögn, sem lögð hefðu verið fram við málsmeðferðina í héraði.

27. Ríkisvaldið lagði enn fremur áherslu á að hefði Hæstiréttur talið þörf á yfirheyrslum hefði réttinum borið, samkvæmt 3. mgr. 157. gr. almennra hegningarlaga, að sjá til þess að þær færu fram. Engu að síður hefði kærandi ekki nýtt sér þá heimild sína samkvæmt íslenskum lögum, að krefjast þess að yfirheyrslur færu fram í réttinum. Ekki hefði hann heldur nýtt sér þann rétt sinn samkvæmt íslenskum lögum að vera viðstaddur hina opinberu málsmeðferð, en á meðan á henni stóð hefði hann getað fengið að ávarpa réttinn sjálfur. Umkvörtunarefni hans samkvæmt samningnum hefði aldrei verið borið upp við Hæstarétt, hvorki að efni til né með beinni tilvísun í 1. mgr. 6.  gr. samningsins. Lögmaður kæranda hefði með þögninni fallist á það fyrir hönd umbjóðanda síns að ekki væri nein ástæða fyrir kæranda eða vitni til að gefa munnlega skýrslu fyrir Hæstarétti.

28. Ríkisvaldið taldi afar hæpið að ætla að ný yfirheyrsla yfir sömu skýrslugjöfum í Hæstarétti hefði varpað nýju ljósi á atburðina eða veitt um þá nýjar upplýsingar. Hefði rétturinn talið nýjar yfirheyrslur nauðsynlegar hefði hann ómerkt málsmeðferð héraðsdóms og dóm hans, og lagt fyrir hann að taka nýjar munnlegar skýrslur. Hins vegar væri trúverðugleiki skýrslna fyrir héraðsdómi atriði sem Hæstiréttur gæti réttilega metið á grundvelli endurrita frá héraðsdóminum. Hvað sem því liði væri það kæranda að sýna fram á með hverjum hætti nýjar skýrslur hans og vitna í Hæstarétti hefðu getað leitt til annarrar niðurstöðu þar.

Enda þótt Hæstiréttur gæti ekki breytt mati héraðsdóms á túverðugleika vitnisburðar um málsatvik án þess að hlýða milliliðalaust á vitnið, gæti hann endurskoðað mat héraðsdóms á sönnunargildi vitnisburðarins að öðru leyti og ákvarðað hvort sönnunarbyrði hefði verið uppfyllt að því marki sem sakfelling krefðist. Hæstiréttur dró ekki í efa trúverðugleika viðkomandi vitna, en taldi að hinn munnlegi framburður vitnisins E.P., sem var að vissu marki studdur framburði dyravarðarins G.Ó., sýndi nægilega fram á að kærandi hefði sparkað í höfuð S.S. heitins þar sem hann lá á gólfinu. Rétturinn hafði einnig hliðsjón af ummælum í frumskýrslum lögreglu, höfðum eftir fólki sem statt var á vettvangi.

Sakfelling kæranda í Hæstarétti var augljóslega byggð á því áliti dómsins að hinn munnlegi framburður fyrir héraðsdómi nægði til að sanna, að kærandi hefði sparkað í höfuð hins látna. Kærandi hefði ekki sýnt fram á að frekari yfirheyrslur í Hæstarétti hefðu leitt eða hefðu verið líklegar til að leiða til annarrar niðurstöðu. Það, að Hæstiréttur hefði hrundið sýknudómi héraðsdóms án þess að yfirheyra sjálfur kæranda eða viðkomandi vitni bryti ekki í sjálfu sér í bága við ákvæðið um réttláta málsmeðferð í 1. mgr. 6. gr. samningsins.

B. Álit dómstólsins

1.  Meginreglur samkvæmt réttarframkvæmd dómstólsins

29.  Dómstóllin veitir því strax athygli að kærandi kvartaði undan því, með vísun til hins almenna réttar til réttlátrar og opinberrar málsmeðferðar samkvæmt 1. mgr. 6. gr. samningsins, að Hæstiréttur hefði hvorki yfirheyrt ákærða sjálfan né vitnin. Hvað hið síðarnefnda snertir var engin tilvísun gerð til réttar til að spyrja vitni samkvæmt d-lið 3. mgr. 6. gr. samningsins.

Röksemdir ríkisvaldsins lutu einnig að 1. mgr. 6. gr.

Dómstóllinn sér fyrir sitt leyti enga ástæðu til að athuga umkvörtunarefni varðandi vitnin með tilliti til d-liðs 3. mgr. 6. gr. að eigin frumkvæði, þar sem það varðar ekki rétt til að spyrja vitni „á sama hátt“ og ákæruvaldið  (sjá Engel o. fl. gegn Niðurlöndum, dómur 8. júní 1976, útgáfa A nr. 22, 91 tölul.) heldur öllu fremur, eins og umkvörtunarefnið varðandi kæranda sjálfan, umfang hins almenna réttar til „réttlátrar og opinberrar málsmeðferðar“ samkvæmt 1. mgr. 6. gr. Dómstóllinn telur að bæði umkvörtunarefnin megi réttilega athuga með tilliti til þess ákvæðis.

30.  Rétt er að endurtaka að hvað málsmeðferð fyrir áfrýjunardómstólum snertir fer beiting 1. mgr. 6. gr. eftir einkennum þeirrar málsmeðferðar sem um er að ræða, og taka verður tillit til málsmeðferðarinnar í heild sinni í réttarkerfi viðkomandi lands og þess hlutverks sem áfrýjunardómstóllinn gegnir í því samhengi. Þar sem dómstóll á fyrsta dómstigi hefur hlýtt á aðalmeðferð máls fyrir opnum dyrum kunna ákveðin atriði í umdeildri málsmeðferð á áfrýjunarstigi að réttlæta að það skuli ekki hafa verið gert þar, með hliðsjón af eðli áfrýjunarkerfis viðkomandi lands, valdsviði áfrýjunardómstóls og þess hvernig hagsmuna kæranda hefur í raun verið gætt og þeim veitt vernd fyrir þeim dómstól, sérstaklega í ljósi þess, hvers konar álitaefnum honum er ætlað að skera úr (sjá Botten-dóminn, sem vitnað er til hér á undan, 39. tölul.).

Samkvæmt fordæmisrétti þessa dómstóls kann málsmeðferð um áfrýjunarleyfi og málsmeðferð sem varðar aðeins lagaatriði en ekki atvik máls að uppfylla kröfur 1. mgr. 6. gr., enda þótt áfrýjanda hafi ekki verið veitt færi á að veita áfrýjunardómstólnum munnlega skýrslu. Jafnvel þó að áfrýjunardómstóll hafi fullt vald til að dæma bæði um lagaatriði og málsatvik er þar að auki ekki víst að 1. mgr. 6. gr. mæli ávallt fyrir um rétt til opinberrar málsmeðferðar, eða, ef svo er, um rétt aðila til að sækja dómþing sjálfur (sami dómur).

2.  Beiting ofangreindra meginreglna í þessu máli

31. Dómstóllinn tekur fram að fyrir héraðsdómi fór fram aðalmeðferð þar sem hlýtt var á málsvörn lögmanns og skýrslu kæranda sjálfs og yfir tuttugu vitna, og að ekki er deilt um að sú málsmeðferð hafi verið réttlát. Munnlegur málflutningur fór einnig fram fyrir Hæstarétti, þar sem verjandi og sækjandi tóku hver tvisvar til máls til. Meðal málsgagna Hæstaréttar voru endurrit þess sem fram hafði farið í héraði, og öll skjöl sem lögð höfðu verið fram meðan á meðferð málsins þar stóð.  Hið fyrirliggjandi úrlausnarefni er hvort það, að Hæstiréttur hafi ekki tekið munnlegar skýrslur af kæranda og vitnum áður en hann hratt sýknudómi héraðsdóms, fann kæranda sekan af upphaflegri ákæru og dæmdi hann til tveggja ára og þriggja mánaða fangelsisvistar, sé ósamrýmanlegt rétti hans til réttlátrar og opinberrar másmeðferðar samkvæmt 1. mgr. 6. gr. samningsins.

32. Í þessu sambandi er rétt að taka fram að heimild Hæstaréttar til að hrinda sýknudómi héraðsdóms án þess að kalla ákærða og vitni fyrir og hlýða á skýrslur þeirra sjálfra fól út af fyrir sig ekki í sér að brotið væri gegn ákvæði 1. mgr. 6. gr. um réttláta málsmeðferð. Engu að síður verður hér að athuga, í ljósi hlutverks Hæstaréttar og eðlis þeirra álitaefna sem honum er ætlað að dæma um, hvort hér hafi brot átt sér stað með tilliti til hinna sérstöku kringumstæðna í málinu. Sú athugun mun ekki beinast að því hvort Hæstiréttur hafi réttilega metið þau álitaefni um máslatvik og lög sem fyrri réttinum lágu, heldur takmarkast við hvort málsmeðferðin hafi verið réttlát (sjá fyrrgreindan Botten-dóm,  48. tölul.).

33. Í þessu samhengi veitir dómstóllinn því athygli að Hæstiréttur hafði fullt dómsvald um lagaatriði, og einnig um málsatvik, bæði hvað snertir refsiábyrgð og refsiákvörðun.

Með áfrýjun saksóknara til Hæstaréttar var gerð krafa um að ákærði yrði sakfelldur samkvæmt ákæru og dæmdur til refsingar, og var þannig vefengt mat héraðsdóms á ákveðnu ósamræmi milli skýrslna ákærða S.Þ.E. og vitnisins E.P. varðandi sparkið í hnakka hins látna árásarþola.

34.  Dómstóllinn telur því að ekki verði annað séð en að álitaefni þau, sem Hæstaréttur Íslands varð að kveða upp úr um við ákvörðun sína á sekt eða sýknu kæranda hafi aðallega lotið að atvikum málsins. Varla er unnt að halda því fram að þau álitaefni hafi verið einföld í sniðum. Það virðist jafnvel meiri hluti Hæstaréttar hafa viðurkennt, þar sem hann tók fram í dómi sínum að framburður vitna hefði ekki verið markviss. Þegar litið er til eðlis og kringumstæðna hins refsiverða verknaðar, hins mikla fjölda vitna sem gáfu skýrslur á lægra dómstigi, mótsagna og ósamræmis í framburði þeirra, hinnar réttarlæknisfræðilegu rannsóknar og mismunandi mats hinna innlendu dómstóla á atvikum málsins, verður að telja að álitaefnin, sem Hæstiréttur þurfti að leysa úr varðandi málsatvikin, hafi verið flókin.

35.  Við þetta bætist að við refsiákvörðun sína naut Hæstiréttur ekki góðs af hinu fyrra mati héraðsdóms, sem hlýtt hafði milliliðalaust á kæranda.

36. Með tilliti til þess hversu mikið var í húfi fyrir kæranda telur dómstóllinn að við réttláta málsmeðferð hafi ekki verið unnt að athuga þau álitaefni, sem Hæstiréttur þurfti að taka afstöðu til þegar kærandi var fundinn sekur og mælt fyrir um refsingu hans - og sýknudómi í héraði þar með hnekkt - nema með milliliðalausu mati á skýrslu kæranda sjálfs og ákveðinna vitna.

Í þessu efni fellst dómstóllinn ekki á þá röksemdafærslu ríkisvaldsins að Hæstiréttur Íslands hafi, ólíkt hinni norsku systurstofnun hans í Botten-málinu, notið þess að hafa í höndum endurrit af munnlegum skýrslum fyrir héraðsdómi. Dómstóllinn studdi úrlausn sína í Botten-málinu ekki við það atriði, heldur öllu fremur við „hlutverk Hæstaréttar og eðli þeirra álitaefna sem til úrlausnar voru“.

37. Að lokum telur dómstóllinn að í ljósi orðalags 4. mgr. 159. gr. laga um meðferð opinberra mála hefði kærandi mátt búast við að Hæstiréttur kallaði hann og vitni fyrir til að gefa munnlegar skýrslur, ef rétturinn hafði í huga að hnekkja sýknudómi í héraði á grundvelli breytts sönnunarmats. Sú réttarfarsframkvæmd sem ríkisvaldið ber fyrir sig í þessu sambandi, að Hæstiréttur myndi einungis gera svo áður en hann kæmist að andstæðri niðurstöðu við héraðsdóm hvað snertir trúverðugleika vitnis, laut aðeins að einu dæmi, sem reyndar kom upp síðar en atvik þessa máls, og kærandi gat ekki treyst á.

38.  Þegar málaferlin fyrir hinum íslensku dómstólum, hlutverk Hæstaréttar og eðli þeirra álitaefna sem dæmt var um eru virt í heild, telur dómstóllinn að ekki hafi verið fyrir hendi nein sérstök atriði sem réttlættu að Hæstiréttur kallaði ekki kærandann og ákveðin vitni fyrir sig til að hlýða milliliðalaust á skýrslur þeirra áður en hann kvað upp dóm sinn samkvæmt 159. gr. laga um meðferð opinberra mála. Hæstarétti var skylt að gera beinar ráðstafanir í þessu skyni, þrátt fyrir að kærandi sótti ekki dómþing eða bað um að fá að ávarpa dóminn, og lögmaður hans mótmælti því ekki að Hæstiréttur legði nýjan dóm á málið (sjá hinn ofangreinda Botten-dóm, § 53).

Dómstóllinn telur því að brotið hafi verið gegn 6. gr. 1. mgr. samningsins.

II. BEITING 41. GR. SAMNINGSINS

39. 41. gr. samningsins er svohljóðandi:

 

 „Dómstóllinn skal ef nauðsyn krefur veita sanngjarnar bætur til þess aðila sem orðið hefur fyrir tjóni ef hann kemst að þeirri niðurstöðu að um brot á samningnum eða samningsviðaukum við hann hafi verið að ræða og ef löggjöf viðkomandi samningsaðila heimilar aðeins að veittar séu bætur að hluta.“

A.  Tjón

40. Kærandi krafðist kr. 29.622.338 (um 352.000 evra) í bætur fyrir ófjárhagslegt tjón vegna 571 dags í gæsluvarðhaldi. Krafa hans var byggð á tveimur „fordæmum“, þ.e. dómi Hæstaréttar frá 3. mars 1983 um skaðabætur í máli vegna ólöglegs gæsluvarðhalds, og sátt þeirri sem gerð var í málinu Vilborg Yrsa Sigurðardóttir gegn Íslandi (dómur 30. maí 2000, nr. 32451/96, óbirt).

41.  Ríkisvaldið andmælti þessari kröfu og fór þess á leit að dómstóllinn hafnaði henni. Að áliti ríkisvaldisins myndi niðurstaða um brot fela í sér nægilega uppreisn til handa kæranda í þessu máli.

42.  Dómstóllinn telur ekki að sú dómaframkvæmd sem kærandi vísar til skipti máli hér, og getur ekki haft uppi getgátur um hverjar hefðu orðið lyktir málaferlanna í Hæstarétti ef rétturinn hefði tekið munnlegar skýrslur af kæranda og ákveðnum vitnum. Með hliðsjón af eðli þeirra galla sem á málsmeðferðinni voru og hversu miklu máli úrslitin skiptu fyrir kæranda telur dómstóllinn þó sýnt að hann hafi orðið fyrir miska sem ekki verður nægilega bættur með þeirri ákvörðun að brot hafi átt sér stað gegn samningnum. Ákvarðar dómstóllinn kæranda bætur að álitum samkvæmt þessum lið að fjárhæð 8.000 evrur.

B. Kostnaður og útgjöld

43.  Kærandi krafðist enn fremur greiðslu á lögfræðikostnaði og útgjöldum í eftirfarandi liðum:

(a)   Kr. 155.625 (um 1.800 evrur) í þýðingakostnað,

(b)   kr. 2.370.480 (að inniföldum 24% virðisaukaskatti, um 28.000 evrur) í lögmannsþóknun (137½ klst. á kr. 14.000 hver, án virðisaukaskatts) vegna málaferlanna í Strasbourg. Við þetta skyldi bæta 4½ klst, sem lokaþáttur málaferlanna tók.

44.  Ríkisvaldið hafði engin mótmæli fram að færa við a-lið, enda legði kærandi þá fram fylgiskjöl um þann kostnað. Ríkisvaldið taldi hins vegar b-lið óhóflega háan.

45.  Dómstóllinn telur að fallast beri á a-lið í heild sinni. Hvað b-lið snertir er dómstóllinn ekki sannfærður um að allur sá kostnaður hafi verið óhjákvæmilegur til að kærandi næði rétti sínum vegna þess brots sem talið er hafa átt sér stað á samningnum. Ákvarðar dómstóllinn kæranda að álitum heildarfjárhæðina 13.500 evrur í kostnað og útgjöld.

C. Dráttarvextir

46. Dómstóllinn telur að dráttarvextir skuli miðast við almenna útlánsvexti Seðlabanka Evrópu, og að við þá skuli bæta 3%.

 

ÞVÍ ÁKVEÐUR DÓMSTÓLLINN SAMHLJÓÐA

1. brotið hafi verið gegn 1. mgr. 6. gr. samningsins;

 

2.   

(a) ríkið skuli greiða kæranda eftirfarandi innan þriggja mánaða frá þeim degi er dómur þessi verður endanlegur samkvæmt 2. mgr. 66. gr. samningsins:

(i) Miskabætur að fjárhæð 8,000 (átta þúsund) evrur;

(ii) Kostnað og útgjöld að fjárhæð 13.500 (þrettán þúsund og fimm hundruð) evrur;

(iii) skatta þá, sem kunna að leggjast á ofangreindar fjárhæðir;

(b) að frá lokum hins ofangreinda þriggja mánaða frests og til greiðsludags skuli greiða vexti á ofangreindar fjárhæðir, jafnháa almennum útlánsvöxtum Seðlabanka Evrópu að viðbættum 3%;

 

3. vísa frá öðrum bótakröfum kæranda.

Gert á ensku og tilkynnt skriflega hinn 15. júlí 2003 samkvæmt 2. mgr. 77. gr. réttarfarsreglna dómstólsins.

       S. Dollé                                                                              J.-P. Costa
          Ritari                                                                                  Dómsforseti

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum