Hoppa yfir valmynd
20. júlí 2009 Innviðaráðuneytið

Ýmsar breytingar í frumvarpsdrögum til nýrra umferðarlaga

Ökuhraði verður samræmdur í 90 km á klukkustund, bílprófsaldur hækkaður í 18 ár og ökuskólar verða þungamiðja ökukennslu er meðal tillagna í frumvarpsdrögum til nýrra umferðarlaga. Unnt er að gera athugasemdir við frumvarpið til 15. september á netfangið [email protected].

Kristján L. Möller samgönguráðherra skipaði 1. nóvember 2007 nefnd til að vinna að endurskoðun umferðarlaga. Nefndin hefur nú skilað drögum að frumvarpi sem ráðherra hefur til skoðunar og er frumvarpið birt hér eins og nefndin skilaði því. Unnt er að senda ráðuneytinu umsagnir til 15. september og mun ráðherra hafa umsagnirnar til hliðsjónar við gerð endanlegs frumvarps.

Í nefndina voru skipuð Róbert R. Spanó, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, sem jafnframt var formaður nefndarinnar, Birna Hreiðarsdóttir, lögfræðingur í samgönguráðuneyti, Gunnar Narfi Gunnarsson, lögfræðingur í dómsmálaráðuneyti, Jón Haukur Edwald, formaður Ökukennarafélags Íslands, Karl Ragnars, forstjóri Umferðarstofu, Kolbrún Sævarsdóttir, saksóknari hjá embætti ríkissaksóknara, Ólafur Kr. Guðmundsson, Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, og Signý Sigurðardóttir, Samtökum verslunar og þjónustu. Þá hefur Dagbjört Hákonardóttir, laganemi, aðstoðað nefndina við störf sín.

Samkvæmt erindisbréfi nefndarinnar var henni falið að taka gildandi umferðarlög nr. 50/1987, með síðari breytingum, til heildarendurskoðunar og semja frumvarp til nýrra umferðarlaga á grundvelli tillagna nefndarinnar. Eins og fram kemur í almennum athugasemdum meðfylgjandi draga, sem nefndin hefur nú unnið af þessu tilefni, hefur í ofangreindu augnamiði og með hliðsjón af erindisbréfi nefndarinnar verið við endurskoðunina og gerð frumvarpsins lagt til grundvallar að stefna bæri að eftirfarandi markmiðum:

Ákvæði færð til nútímalegra horfs

Í fyrsta lagi að færa gildandi ákvæði til nútímalegra horfs með því að taka mið af reynslu síðastliðinna tveggja áratuga og þróun í umferðarmálum.

Í öðru lagi að lagfærð yrðu þau ákvæði í gildandi ákvæðum sem eru óskýr eða haldin annmörkum, einkum að teknu tilliti til breytinga á mannvirkjagerð í umferðinni og á umferðarmenningunni.

Í þriðja lagi að stuðla að frekari samræmingu umferðarlöggjafar að alþjóðlegum samningum um umferðarmál, m.a. með hliðsjón af þeirri þróun sem hefur átt sér stað á alþjóðavettvangi frá samningu gildandi laga.

Í fjórða lagi að taka til athugunar hvort og þá að hvaða marki gera skuli breytingar á þeirri almennu framsetningu gildandi laga að ráðherra sé veitt víðtækt vald til að setja nánari fyrirmæli um einstök atriði í stjórnvaldsfyrirmæli, og þá að leitast verði við að lögfesta í ríkari mæli í umferðarlögin sjálf grundvallarefnisreglur á einstökum sviðum. Samhliða því verði leitast við að útfæra reglugerðarheimildir ráðherra, sem eftir standa, með heildstæðari og skýrari hætti.

Í fimmta lagi að taka til skoðunar og gera tillögur um tilteknar efnisbreytingar á ákvæðum gildandi laga, einkum um viðurlög við brotum á umferðarlögum, með það í huga að gera þær hátternisreglur sem gilda í umferðinni skilvirkari og að auka varnaðaráhrif þeirra.

Við endurskoðunina og gerð frumvarpsdraganna aflaði nefndin umfangsmikilla gagna um stöðu umferðarmála á Íslandi, á Norðurlöndum og í öðrum ríkjum Evrópu. Þá átti nefndin fjölmarga fundi með fulltrúum ýmissa hagsmunaaðila á sviði umferðarmála hér á landi og tók á móti helstu sérfræðingum þjóðarinnar á þessu sviði til að veita nefndinni upplýsingar og til að setja fram ábendingar.

Ýmsar nýjar skilgreiningar

Helstu stefnumið frumvarpsdraganna og þær meginbreytingar frá gildandi umferðarlögum, sem lagðar eru til, eru eftirfarandi:

1. Gildissvið umferðarlaga verður gert skýrara og byggt á þeirri grundvallarstefnumörkun að meginákvæði laganna eigi aðeins við um umferð á vegum, sem ætluð eru ökutækjum sem eru skráningarskyld (1. gr.).

2.   Ýmsar nýjar skilgreiningar eru lagðar til í frumvarpinu, svo sem hugtakið „almenningsvagn”, „aðrein”, „sérrein”, „breytt bifreið” „hringtorg" og „sérsmíðað ökutæki” (2. gr.).

3.   Reglur um forgangsakstur (sem nú kallast neyðarakstur) eru gerðar fyllri í því skyni að tryggja öryggi vegfarenda og ökutækja þegar slíkur akstur á sér stað (8. gr.)

4.   Lagt er til að lögfest verði nýmæli um akstur í hringtorgum sem til þessa hefur ekki verið í gildandi lögum (6. mgr. 16. gr.).

5.   Nýmæli er í drögunum að skerpt er á reglum um framúrakstur og meðal annars lagt bann við því að fara fram úr ökutæki þegar óbrotin merkjalína (hindrunarlína) er langsum á milli akbrauta þar sem ekið er í gagnstæðar áttir (21.-24. gr.).

6.   Gerð er tillaga um að ökuhraði verði samræmdur í 90 km á klst. í stað þess eins og nú er að ökutæki yfir 3.500 kg (að undandskildum hópbifreiðum) og ökutæki með eftirvagna mega aka að hámarki á 80 km hraða á klst. (35. gr.).

7.   Reglur um akstursíþróttir og aksturskeppni eru gerðar fyllri en nú er samkvæmt gildandi lögum, sbr. VI. kafla frumvarpsins.

8.   Gildissvið ákvæða umferðarlaga um bann við ölvunarakstri og akstri undir áhrifum ávana- og fíkniefna eru annars vegar rýmkuð og hins vegar gerð skýrari. Þannig er leyfilegt áfengismagn í blóði ökumanns lækkað úr 0,5? í 0,2?. Tekið skal fram að ekki er gert ráð fyrir að ökumaður verði sviptur ökuleyfi ef áfengismagn mælist 0,2?-0,49? í fyrsta sinn (45. gr.).

9.   Lagt er til að gerð verði sú breyting frá gildandi ákvæðum umferðarlaga að einstaklingur þurfi að vera fullra 18 ára til að heimilt sé að veita honum ökuskírteini, en samkvæmt gildandi lögum er lágmarksaldurinn 17 ár. Aldurstakmörk verði hækkuð í áföngum til ársins 2014 þannig að veita megi þeim ökuréttindi í fyrsta sinn sem verða 17 ára á árinu 2011,17 ára og þriggja mánaða á árinu 2012, 17 ára og sex mánaða á árinu 2013 og 17 ára og níu mánaða á árinu 2014. Á árinu 2015 verði síðan 18 ára aldursmarkið að fullu komið til framkvæmda.

10. Ákvæðum gildandi umferðarlaga um skilyrði til að viðhalda fullnaðarskírteini er breytt með það í huga að setja á laggirnar raunhæfara og skilvirkara kerfi við mat á aksturshæfni ökumanna,  meðal annars með því að trúnaðarlæknir starfi hjá Umferðarstofu sem annist  mat á aksturshæfni ökumanna (59. gr. og 61. gr.).

11. Tilhögun ökunáms og ökukennslu verði breytt þannig að ökuskólar munu verða þungamiðjan í kennslu til ökuréttinda (62. gr.).

12. Lagt er til að kröfur sem gerðar eru til starfsleyfis ökukennara verði hertar, meðal annars  að aldursmörk verði hækkuð í 24 ár úr 21 ári (63. gr.).

13. Lagt er til að stofnuð verði ökunámsnefnd sem skal vera ráðherra og Umferðarstofu til ráðgjafar um stefnumótun og framþróun á sviði ökunáms og ökukennslu (121. gr.).

14. Frumvarpið byggir á því að nú verði öll ökutæki sem ætluð er til notkunar í almennri umferð skráningarskyld. Hér undir falla því meðal annars allir eftirvagnar (ekki eingöngu þeir sem eru yfir 750 kg. eins og nú er kveðið á um í lögum) og vinnuvélar sem ekið er í almennri umferð (70. gr.).

15. Ákvæði XIII. kafla gildandi laga um fébætur og vátryggingu eru afnumin með það í huga að sett verði sérlög um ökutækjatryggingar. Frumvarp þess efnis mun verða lagt fram samhliða frumvarpi þessu af hálfu viðskiptaráðuneytisins.

16. Lagt er til að efnisreglur XIV. kafli frumvarpsins um flutning, hleðslu, þyngd og stærð ökutækja verði mun ítarlegri en í núgildandi lögum um þetta efni, þó svo að eftir sem áður sé til staðar heimild ráðherra til reglugerðarsetningar (77.-79. gr.).

17. XVII. kafli fjallar um eftirlit lögreglu og Vegagerðarinnar með ástandi og hleðslu ökutækja ofl. Þar er það nýmæli að finna að lagt er til að þáttur Vegagerðarinnar í sérhæfðu eftirliti með akstri ökutækja yfir 3.500 kg. af leyfðri heildarþyngd verði aukinn. Þannig verði eftirlitsmönnum Vegagerðarinnar falið að hafa eftirlit með því að farið sé að ákvæðum IX. kafla frumvarpsins um aksturs- og hvíldartíma ökumanna, um búnað slíkra ökutækja (68. gr) og hleðslu (77. gr.), flutning farms og öryggisráðstafanir við flutninga á farþegum og um akstur breiðra, þungra, langra eða hárra ökutækja (79. gr.) eða reglugerða settra á grundvelli slíkra ákvæða (91. gr.).

18. Í XVIII. kafla frumvarpsins er nánar tilgreind þau brot sem varða stjórnvaldssektum af hálfu Vegagerðarinnar, sbr. liður 17 hér að ofan, en slík brot verða kæranleg til ráðuneytisins. Með þessu fyrirkomulagi er leitast við að færa ákveðna brotaflokka frá því að vera andlag eiginlegra fjársektarrefsinga yfir í að vera grundvöllur stjórnvaldssekta sem ákvarðaðar eru af Vegagerðinni (94. gr.).

19. Í XIX. kafla frumvarpins er fjallað um refsingar vegna brota á lögunum. Almenn refsiregla gildandi laga er afnumin og kveðið á um með skýrum hætti með sérstöku tilvísunarkerfi hvaða hátternisreglur laganna varða refsingu. Er þannig lagt til grundvallar að sumar hátternisreglur laganna séu þess eðlis að ekki standi til þess rök að til refsiábyrgðar stofnist ef út af þeim er brugðið. Jafnframt er gert er ráð fyrir því að heimilt verði undir ákveðnum kringumstæðum (brot numið í löggæslumyndavél) að láta eiganda eða umráðamann ökutækis sæta refsiábyrgð á hlutlægum grundvell að vissum skilyrðum uppfylltumi, þ.e. án þess að sýnt sé fram á sök hlutaðeigandi (96. gr.).

20. Lagt er til að í ríkari mæli verði gripið til fangelsisrefsingar (allt að tveim árum) vegna alvarlegra brota á umferðarlögum (97. gr.).

21. Skerpt er á ákvæði um punktakerfi vegna umferðarlagabrota, en það kerfi hefur reynst vel í framkvæmd (102. gr.).

22. Lagt er til að sviptingartími vegna alvarlegra eða stórfelldra brota gegn ölvunarakstursákvæðum umferðarlaga verði að jafnaði lengdur (sjá til samanburðar ákvæði 102. gr. núgildandi umferðarlaga (104. gr.)

23. Gerðar eru breytingar á gildandi ákvæðum er varða stjórnarfarslega ábyrgð á fræðslu og kynningu á umferðarmálum (122. gr.).

 

Við gerð frumvarpsdraganna var skoðað hvort fara ætti þá leið að taka upp tekjutengingu sekta vegna brota á umferðarlögum. Er sú leið rædd efnislega í kafla VI. í almennum athugasemdum frumvarpsdraganna og þar rökstutt að ekki séu forsendur að mati nefndarinnar til að fara þá leið hér á landi.

Með frumvarpsdrögunum er leitast við að gera valdmörk á milli stjórnvalda, einkum ráðherra, lögreglustjóra og sveitarstjórna skýrari og einfaldari.

Að öðru leyti vísast til hjálagðra draga að frumvarpi til umferðarlaga um nýmæli sem þar koma fram. Þeir sem vilja senda athugasemdir eru beðnir að vísa til númeruðu liðanna um nýmæli hér að ofan.

Óskað er eftir því að athugasemdir við frumvarpsdrögin berist ráðuneytinu eigi síðar en 15. september næstkomandi á netfangið [email protected]. Vinsamlegast tilgreinið númer þeirra liða og lagagreina sem athugasemdir eru gerðar við.

 

 

 

 

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum