Hoppa yfir valmynd
14. desember 2009 Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið

Sendinefnd AGS lýkur heimsókn vegna annarrar endurskoðunar efnahagsáætlunar

Sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) hefur lokið heimsókn sinni til Íslands, en hún var liður í annarri endurskoðun sjóðsins á framkvæmd efnahagsáætlunar ríkisstjórnarinnar og AGS.  Fulltrúar ráðuneyta, ríkisstofnana, þings, samtaka atvinnulífisins, háskóla og fjöldi einkaaðila hafa fundað með sendinefndinni undanfarnar tvær vikur.  Formaður sendinefndarinnar er Mark Flanagan.

Af hálfu stjórnvalda hefur efnahags- og viðskiptaráðuneytið yfirumsjón með viðræðum og samstarfsáætluninni í heild.  Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra kveðst ánægður með árangur heimsóknarinnar. „Það er sameiginleg niðurstaða AGS og stjórnvalda að efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar hafi leitt til þess að efnahagssamdráttur og atvinnuleysi er minna en gert var ráð fyrir í upphafi.  Ástæða er einnig til að fagna mikilvægum áfanga sem náðst hefur við endurreisn bankakerfisins.  Við vinnum nú ötullega að því að ná tökum á ríkisfjármálunum og leggjum þar með traustari grunn að viðreisn efnahagskerfisins.  Framundan er vissulega erfiður hjalli en allt bendir til þess að fyrir lok næsta árs verði viðsnúningi náð.“

Sendinefnd AGS mun að þessari heimsókn lokinni skila skýrslu (e. staff report) til framkvæmdastjórnar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem lögð verður til grundvallar ákvörðun um afgreiðslu á næsta áfanga í fjármögnun sjóðsins, um 167,5 m. USD.  Samkvæmt samkomulagi þjóðanna er einnig gert ráð fyrir að Norðurlöndin og Pólland afgreiði lán að fjárhæð um 690 m. USD í þessum áfanga áætlunarinnar.  Búast má við ákvörðun framkvæmdastjórnar AGS seinni hluta janúar.  Þá mun ríkisstjórnin birta uppfærða viljayfirlýsingu (e. letter of intent) þar sem lýst er helstu markmiðum í næsta áfanga efnahagsáætlunarinnar.Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira