Hoppa yfir valmynd
7. júlí 2010 Forsætisráðuneytið

Hvatningarátakinu „Allir vinna“ hrundið af stað

Hvatningarátakinu
Hvatningarátakinu "Allir vinna" hrundið af stað

Í dag, 7. júlí verður formlega hrundið af stað hvatningarátaki  sem stjórnvöld, í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins, efna til í sumar. Átakið byggir m.a. á teikningum hins landsþekkta teiknara Halldórs Baldurssonar, sem fær það verkefni að túlka skilaboðin á jákvæðan og uppbyggilegan hátt, en þau fela í sér;

  • hækkun á endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu við eigið íbúðarhúsnæði og sumarhúsa í 100% úr 60%
  • skattafrádráttur til einstaklinga sem fjárfesta í viðhaldi á eigin húsnæði sem nema allt að 200 þúsund króna lækkun á tekjuskattsstofni hjá einstaklingum og 300 þúsund krónum hjá hjónum og samsköttuðum.
  • Áherslu á mikilvægi þess að öll viðskipti almennings og fagmanna séu uppi á borðum en með því að útrýma svartri vinnu mætti auka skatttekjur ríkisins og þar með fjárveitingar til almannaþjónustu um 40 milljarða króna á ári, skv. mati Samtaka iðnaðarins.

Með átakinu eru landsmenn hvattir til þátttöku í stórum sem smáum verkum – að þeir beini viðskiptum sínum að innlendri vöru og þjónustu, fjárfesti í viðhaldi íbúðarhúsnæðis/sumarhúsa og leggi þar með sitt af mörkum til sköpunar atvinnu á Íslandi.  100% endurgreiðsla á virðisaukaskatti og skattafrádráttur vegna vinnu við eigið húsnæði ýta undir að viðhaldsverkefni af þessu tagi séu uppi á borðum en átak til að stemma stigu við svartri vinnu er eitt af sameiginlegum hagsmunamálum stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins.  Þá felur átakið einnig í sér persónulega ráðgjöf fagmanna um handbragð við viðhaldsframkvæmdir undir leiðsögn byggingadeildar Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.

Hagstæð framkvæmdalán og þátttaka fyrirtækja

Leitað hefur verið til fjármálastofnanna varðandi framkvæmdalán til almennings á hagstæðum kjörum og þá mun Byggðastofnun bjóða fyrirtækjum á landsbyggðinni verðtryggð lán til viðhaldsverkefna til 12 ára á 7% vöxtum.  Sömuleiðis munu íslensk fyrirtæki verða með vikuleg tilboð á viðeigandi vörum og þjónustu.

Eftirtaldir standa að átakinu ásamt stjórnvöldum:
Alþýðusamband Íslands og aðildarfélög, Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samtök verslunar og þjónustu og Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

Reykjavík 7. júlí 2010

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum