Hoppa yfir valmynd
28. október 2015 Forsætisráðuneytið

Tvíhliðafundur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Davids Cameron

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og David Cameron forsætisráðherra Bretlands ræðast við - mynd

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra átti í dag tvíhliða fund með David Cameron forsætisráðherra Bretlands.

Forsætisráðherrarnir ræddu öryggis og varnarmál, þ.m.t. stöðu mála í Sýrlandi, baráttuna gegn ISIS, fólksflutninga og flóttamannavandann, mál er varða NATO, endurskoðun ESB, jafnréttismál, hvalveiðar og skólagjaldamál íslenskra námsmanna í Bretlandi. Þeir sammæltust um að efla umræðu á milli ríkjanna í þessum málaflokkum. Þá kom forsætisráðherra á framfæri óánægju með beitingu hryðjuverkalaga þáverandi ríkisstjórnar Gordons Brown gegn Íslandi árið 2008. Á fundi ráðherranna sammæltust þeir um að nú væri tíminn til þess að horfa fram á veginn í samskiptum ríkjanna.

Ráðherrarnir ræddu einnig samstarf í orkumálum og var ákveðið að setja á laggirnar vinnuhóp til að kanna mögulega tengingu landanna í gegnum sæstreng. Sigmundur Davíð sagðist hafa fyrirvara um lagningu sæstrengs. Forsenda fyrir mögulegri lagningu sæstrengs í framtíðinni væri að raforkuverð til heimila og fyrirtækja hækki ekki. Eðlilegt er þó að eiga viðræður við Breta um þau efnahagslegu og félagslegu áhrif sem lagning sæstrengs á milli landanna gæti haft í för með sér. Miðað er við að umræddur vinnuhópur skili niðurstöðu innan sex mánaða.

Á morgun munu forsætisráðherrar Norðurlanda, Eystrasaltsríkja og forsætisráðherra Bretlands ræða um áhrif skapandi greina og nýsköpun í opinberri þjónustu á ráðstefnunni Northern Future Forum sem haldin er í Reykjavík.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og David Cameron forsætisráðherra Bretlands

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum