Hoppa yfir valmynd
21. febrúar 2017 Heilbrigðisráðuneytið

Áskorun um að sálfræðiþjónusta verði felld undir greiðsluþátttöku sjúkratrygginga

Elín H. Hinriksdóttir, Þröstur Emilsson og Óttarr Proppé - mynd

Óttar Proppé heilbrigðisráðherra tók í dag við undirskriftalista þar sem skorað er á stjórnvöld að fella sálfræðiþjónustu undir greiðsluþátttökukerfi Sjúkratrygginga Íslands. Átta félagasamtök standa að baki áskoruninni sem tæplega 11.400 manns undirrituðu.

Elín H. Hinriksdóttir formaður ADHD samtakanna og Þröstur Emilsson framkvæmdastjóri þeirra afhentu ráðherra lista með nöfnum þeirra 11.355 einstaklinga sem undirrituðu áskorunina. Félagasamtökin sem standa að baki henni eru ADHD samtökin, Barnaheill, Einhverfusamtökin, Einstök börn, Landssamtökin Þroskahjálp, Sjónarhóll – ráðgjafarmiðstö, Tourette-samtökin á Íslandi og Umhyggja, félag langveikra barna.

Eins og m.a. kemur fram í áskoruninni sem ber yfirskriftina; Sálfræðiþjónusta er líka heilbrigðisþjónusta, er sálfræðiþjónusta veitt af sálfræðingum sem starfa sjálfstætt, á sjúkrahúsum og í heilsugæslunni, auk þess sem sálfræðingar starfa á vegum skóla og fleiri aðila. Áskorendur segja að þar sem aðgengi að sálfræðingum sem starfa innan opinbera heilbrigðiskerfisins sé takmarkað og biðtími eftir þjónustu nokkuð langur þurfi þeir sem þarfnast þjónustu sálfræðinga oftast að leita til sjálfstætt starfandi sálfræðinga og standa straum af þeim kostnaði sjálfir. Takmarkað aðgengi fólks með geðraskanir og önnur andleg veikindi að þjónustu sálfræðinga og kostnaður vegna þjónustunnar sem sé mörgum ofviða hafi margvíslegar alvarlegar afleiðingar fyrir einstaklinga og samfélagið allt. Er í ljósi þessa skorað á stjórnvöld að fella sálfræðiþjónustu undir greiðsluþátttöku sjúkratrygginga.

Fellur að stefnu stjórnvalda

Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra tekur undir nauðsyn þess að bæta aðgengi að sálfræðiþjónustu. Um þetta sé fjallað í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem m.a. sé lögð áhersla á að aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu verði aukið, m.a. með sálfræðiþjónustu á heilsugæslu og í framhaldsskólum, með auknum stuðningi við börn foreldra með geðvanda og með því að fella sálfræðiþjónustu undir tryggingakerfið í áföngum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum