Hoppa yfir valmynd
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Kuðungurinn veittur og Varðliðar umhverfisins útnefndir

Umhverfis- og auðlindaráðherra ásamt varðliðum umhverfisins úr Ártúnsskóla og Lýsuhólsskóla. - mynd

Umhverfis- og auðlindaráðherra, Björt Ólafsdóttir, veitti Endurvinnslunni í dag Kuðunginn, umhverfisviðurkenningu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, fyrir framúrskarandi starf að umhverfismálum á síðasta ári. Við sama tækifæri voru nemendur í Ártúnsskóla og Lýsuhólsskóla, Grunnskóla Snæfellsbæjar útnefndir Varðliðar umhverfisins.

Ráðherra sagði meðal annars í ávarpi sínu að þótt vistspor Íslands væri stórt hefði landið mikil tækifæri til að bæta sig í umhverfismálum og sýna gott fordæmi: „Það sem er ánægjulegt varðandi umhverfismálin í dag er sú mikla vitundarvakning sem  nú er í þjóðfélaginu um þessi brýnustu mál samtímans; loftlagsbreytingarnar, mengunina og sóunina sem ógna tilvist okkar hér á jörðinni. Sífellt fleiri átta sig á því að við getum ekki haldið áfram á þeirri vegferð og vilja leggja sitt af mörkum til þess að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif og hámarka jákvæð áhrif. Og það er svo sannarlega hægt.“

Kuðungurinn

Helgi Lárusson, framkvæmdastjóri Endurvinnslunnar tekur við Kuðungnum úr hendi Bjartar Ólafsdóttur, umhverfis- og auðlindaráðherra.

Í rökstuðningi dómnefndar fyrir valinu á Endurvinnslunni sem handhafa Kuðungsins segir að umhverfismálin hafi verið samofin starfsemi fyrirtækisins frá upphafi enda til þess stofnað til að taka á því umhverfisvandamáli sem fylgdi auknu magni umbúða í umhverfi okkar. Fyrirtækið hefur hins vegar ekki látið þar við sitja heldur einnig tekið eigin umhverfismál föstum tökum og hlaut meðal annars nýverið ISO14001 umhverfisvottun þar sem markvisst er reynt að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum starfsemi fyrirtækisins. Ætla má að kolefnisávinningur af starfsemi fyrirtækisins sé á við það að um 3000 bifreiðar væru fjarlægðar af götum landsins. Auk þess hvetur fyrirtækið eigin starfsmenn til að nýta sér vistvæna samgöngumáta. Þá hefur fyrirtækið sett upp endurvinnslugáma fyrir almenning við sumar starfsstöðvar sínar fyrir ýmsar aðrar tegundir flokkaðs sorps en þær umbúðir sem fyrirtækið tekur sjálft við. Nýsköpun hefur einnig sett svip sinn á Endurvinnsluna en þar á bæ hafa m.a. verið þróaðar aðferðir til að taka á móti beygluðum umbúðum sem sambærileg fyrirtæki víða erlendis hafna vegna vandræða við talninga, en með því að taka við slíkum umbúðum er stuðlað að því að þær endi ekki í urðun eða þær skildar eftir á víðavangi. Þá hefur fyrirtækið tekið samfélagslega ábyrgð sína alvarlega og lagt metnað í að styðja við góð málefni með fjölbreyttum hætti, s.s. íþróttafélög, björgunarsveitir, skátahreyfinguna auk þess að vera í samstarfi við verndaða vinnustaði víða um land.

Verðlaunagripurinn, Kuðungurinn, sem Endurvinnslan hlaut, er að þessu sinni eftir listakonuna Lóu Hjálmtýs. Þá öðlast fyrirtækið rétt til að nýta merki verðlaunanna í kynningu á starfsemi sinni.

Varðliðar umhverfisins

Verkefni nemenda 6. bekkjar í Ártúnsskóla kallast Minna plast! en þeir réðust í samstarfsverkefni við Krónuna um að hvetja neytendur til að velja fjölnota poka undir matvörur í stað plastpoka. Nemendur útbjuggu spjöld með hvatningu um að nota fjölnota poka sem hengd voru á innkaupakörfur verslunarinnar auk þess sem nemendur hafa unnið spurningalista í því skyni að spyrja viðskiptavini Krónunnar um plastpokanotkun þeirra og þannig fá betri upplýsingar um umfang vandans. Í rökstuðningi valnefndar segir að verkefnið sé metnaðarfullt, lærdómsríkt og hafi áhrif langt út fyrir skólann með aðferðum barnanna sjálfra. „Með verkefninu hafa krakkarnir áhrif á íbúa í nærsamfélaginu til að breyta hegðun sinni umhverfinu til góða um leið og þau beita viðurkenndum rannsóknaraðferðum til að fá fram upplýsingar um raunverulega plastpokanotkun íbúa hverfisins.“

Nemendur í Lýsuhólsskóla, Grunnskóla Snæfellsbæjar, settu upp sýningu í Salthúsinu á sjávarbakkanum á Malarrifi í samvinnu við þjóðgarðinn Snæfellsjökul. Þeir öfluðu upplýsinga um staðinn með viðtölum og settu þær fram á fjölbreyttan hátt, s.s. á sérbúnum flettispjöldum, á skiltum úr dagblaðapappa í formi saltfisks og í sérstöku fugla-minnisspili fyrir yngstu sýningargestina. Fróðleikur um Lóndranga, álfa og tröll var útlistaður með myndrænum hætti og náttúruleg efni nýtt eins og hægt var, efni endurunnið og endurnýtt og t.a.m. voru hillur undir sýningargripi smíðaðar úr flutningsbrettum. Í sérstöku framhaldsverkefni greindu nemendur gestabók sýningarinnar út frá heimalöndum gesta og settu fram niðurstöðurnar í súluriti og á heimskorti með ferðaleiðum gestanna auk þess sem unnin voru kynningarspjöld um lönd og menningu gestanna. Segir í umsögn valnefndar að um sé að ræða „framúrskarandi verkefni þar sem börnin rannsökuðu eigin átthaga út frá umhverfi, sögu og menningu og komu sinni sýn á umhverfið á framfæri við gesti frá öllum heimshornum með skapandi hætti.“ 

Viðurkenningarnar voru afhentar á hátíðarathöfn sem haldin var í dag í Hannesarholti. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið óskar viðurkenningarhöfum innilega til hamingju.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira