Hoppa yfir valmynd
Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Kynjuð fjárlagagerð hefur sannað gildi sitt

Fjármála- og efnahagsráðherra á stofnfundi sérfræðihóps OECD. - mynd

Kynjuð fjárlagagerð hefur sannað gildi sitt sem mikilvægt tæki til að vinna að jafnrétti kynjanna. Þetta kom fram í máli Benedikts Jóhannessonar fjármála- og efnahagsráðherra á stofnfundi sérfræðihóps aðildarríkja Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um kynjaða fjárlagagerð, sem hófst í Reykjavík í dag. Að frumkvæði OECD var ákveðið að stofnfundurinn yrði haldinn á Íslandi vegna stöðu landsins sem leiðandi ríkis í jafnréttismálum. Þá mun Ísland gegna leiðandi hlutverki í sérfræðihópnum.

Ráðherra rakti í ávarpi sínu þróun verkefnisins um kynjaða fjárlagagerð, sem unnið hefur verið að hér á landi frá árinu 2009. „Það er ekki langt síðan við hófum að feta þá braut að hafa kynjasjónarmið að leiðarljósi við útdeilingu sameiginlegra fjármuna, en það munar um hvert ár,“ sagði ráðherra. Hann sagði að á Íslandi væri sátt þvert á stjórnmálaflokka um að vinna að auknu jafnfrétti með því að hafa kynjasjónarmið að leiðarljósi við fjárlagagerð.

Á fundinum er unnið að því að móta verkefni sérfræðihópsins. Fundurinn er haldinn samhliða fundi OECD og þriggja ráðuneyta um umbætur á sviði stjórnsýslu jafnréttismála. Það hefur þótt vera styrkleiki íslenskrar stjórnsýslu að unnið er að kynjaðri áætlanagerð á ólíkum stöðum innan hins opinbera og koma því fleiri innlendir aðilar að borðinu.

Fundurinn er haldinn að beiðni OECD en fulltrúar OECD hafa fundið fyrir aukinni þörf aðildarríkja á leiðarljósi og aðhaldi við innleiðingu á þessu stjórntæki. Fundinum lýkur á morgun og er ráðgert að þá verði lagðar línur fyrir næstu skref.

Ávarp Benedikts Jóhannessonar fjármála- og efnahagsráðherra á stofnfundinum

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira