Hoppa yfir valmynd
29. júní 2017 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Álagning opinberra gjalda á einstaklinga 2017

Við Njálsgötu - myndHugi Ólafsson

Ríkisskattstjóri hefur lokið álagningu opinberra gjalda á einstaklinga. Álagningin 2017 tekur mið af tekjum einstaklinga árið 2016 og eignastöðu þeirra 31. desember 2016.
Helstu niðurstöður álagningarinnar eru eftirfarandi:

  • Framteljendum fjölgar um 3,3% á milli ára og eru samtals 286.728. Alls fá 199.636 einstaklingar álagðan almennan tekjuskatt og 276.097 fá álagt útsvar.
  • Tekjuskatts- og útsvarsstofn landsmanna árið 2017 vegna tekna árið 2016 nemur 1.265 ma.kr. og hefur aukist um 11,2% frá fyrra ári. Til samanburðar hækkaði launavísitala Hagstofunnar að meðaltali um 11,4% milli áranna 2015 og 2016.
  • Samanlögð álagning almenns tekjuskatts og útsvars nemur 345 ma.kr. og hækkar um 12,5% frá fyrra ári. Álagður almennur tekjuskattur nemur 44,1% af heildarfjárhæðinni og álagt útsvar 55,9%.
  • Almennur tekjuskattur nemur 152,3 ma.kr. og er lagður á 199.636 framteljendur. Gjaldendum fjölgar um 9,9% en álagningin eykst um 13,3% milli ára.
  • Álagt útsvar til sveitarfélaga nemur 192,7 ma.kr. og er það 11,9% aukning á milli ára. Útsvar reiknast af öllum skattstofninum en ónýttur persónuafsláttur nýtist upp í útsvarið. Ríkissjóður greiðir þannig að hluta eða öllu leyti útsvar þeirra sem hafa tekjur undir skattleysismörkum í formi ónýtts persónuafsláttar. Sú fjárhæð nemur 9,2 ma.kr. fyrir tekjuárið 2016, sem er heldur minna en á síðasta ári. Útsvar greitt af ríkissjóði fyrir hönd einstaklinga með tekjur undir skattleysismörkum nemur nú 4,8% af heildarútsvarstekjum sveitarfélaga.
  • Samkvæmt lögum nr. 79/2016, um fjármögnun og rekstur nýsköpunarfyrirtækja og smærri fyrirtækja í vexti, sem tóku gildi á síðasta ári, er nú veittur skattafsláttur til einstaklinga vegna kaupa á hlutabréfum. 30 einstaklingar hlutu slíkan skattafslátt vegna tekjuársins 2016 og lækkaði það tekjuskattstofn þeirra um alls 18 m.kr.
  • Hlutfall áætlaðs tekjuskattsstofns jókst lítillega á síðasta ári og nemur nú 3,7% af heildartekjuskatts- og útsvarsstofni.
  • Álagður fjármagnstekjuskattur einstaklinga nemur 22,4 ma.kr. og er það hækkun um 24,8% milli ára. Gjaldendum fjármagnstekjuskatts fjölgar um 9,6%, eða í tæplega 43 þúsund. Gjaldendum hefur fækkað mikið síðan frítekjumarki vaxtatekna var komið á 2011 en við álagningu 2010 voru gjaldendur skattsins tæplega 183 þúsund.
  • Tekjur einstaklinga af arði nema 43,3 ma.kr. sem er 24,6% aukning frá fyrra ári og er arður stærsti einstaki liður fjármagnstekna að þessu sinni. Fjöldi þeirra sem töldu fram arð vegna ársins 2016 var 14.545 og fjölgaði um 685 milli ára. Söluhagnaður eykst um 39,1% á milli ára, þó fjölskyldum sem telja fram söluhagnað fjölgi einungis um 5,4% í 4.345. Söluhagnaður nemur nú 32,3 ma.kr. en þar af nemur hagnaður af sölu hlutabréfa 28,7 ma.kr. og hækkar um 38,3% milli ára meðan fjölskyldum sem telja fram söluhagnað vegna hlutabréfa fjölgar um 3,7% í 3.682. Vextir nema 30,2 ma.kr. og aukast um 9,7% frá árinu áður, en 184.256 fjölskyldur telja fram vaxtatekjur og fjölgar þeim um 1,7% á milli ára. Stærstur hluti þess hóps greiðir þó ekki fjármagnstekjuskatt af vaxtatekjum vegna frítekjumarks vaxtatekna. Leigutekjur nema 11,2 ma.kr. og aukast um 14,3% á milli ára. Alls 7.283 fjölskyldur telja fram leigutekjur og þeim fjölgar lítillega á milli ára, eða um 2,1%.
  • Framtaldar eignir heimilanna námu 4.969 ma.kr. í lok síðasta árs og jukust um 9,6% frá fyrra ári. Fasteignir töldust 3.597 ma.kr. að verðmæti, eða um 72% af eignum, og jókst verðmæti þeirra um 9,8% á milli ára. Íbúðareigendum fjölgaði um 1.465 á milli ára eða um 1,5%.
  • Framtaldar skuldir heimilanna námu um 1.775 ma.kr. í árslok 2016 og jukust um 3,2% milli ára. Framtaldar skuldir vegna íbúðarkaupa námu 1.196 ma.kr. og hækkuðu um 4,4% milli ára. Eigið fé heimila í fasteign sinni samsvarar nú 67% af verðmæti þeirra samanborið við 65% árið áður. Tæplega 27 þúsund af um 97 þúsund fjölskyldum sem eiga íbúðarhúsnæði telja ekki fram neinar skuldir vegna þess.
  • Nettóeign heimila, skilgreind sem heildareignir að frádregnum heildarskuldum, jókst um 13,4% á árinu 2016 og nam samtals 3.194 ma.kr. Áfram fækkar í hópi þeirra sem eru með skuldir umfram eignir og hefur sú þróun nú verið samfelld í sex ár. Um 16,5% fjölskyldna, eða tæplega 33 þúsund fjölskyldur af um 197 þúsund, eru nú með skuldir umfram eignir en á síðasta ári var það hlutfall 18,2%.
  • Útvarpsgjald nemur 3,5 ma.kr. og hækkar sú fjárhæð um 7,8% frá fyrra ári. Útvarpsgjaldið nemur 16.800 kr. á hvern framteljanda á aldrinum 16-69 ára sem hefur tekjur yfir skattleysismörkum. Greiðendum útvarpsgjalds fjölgar um 10.185 milli ára, eða 5,2%. Gjald í framkvæmdasjóð aldraðra nemur 2,3 ma.kr. en það er 10.956 krónur á hvern framteljanda yfir skattleysismörkum.
  • Heildargreiðslur ríkissjóðs vegna barnabóta lækka lítillega, um 0,5%, á milli ára og nema þær 9,3 ma.kr. Sú niðurstaða endurspeglar að tekjur barnafjölskyldna hafa hækkað meira en viðmiðunarfjárhæðir barnabóta. Tæplega 44 þúsund einstaklingar fá barnabætur sem er 2,9% fækkun á milli ára. Fjárhæð meðalbóta hækkar um 2,4% á milli ára en allar fjárhæðir barnabótakerfisins voru hækkaðar um 3% frá fyrra ári. 
  • Almennar vaxtabætur vegna vaxtagjalda af lánum til kaupa á íbúðarhúsnæði, sem einstaklingar greiddu af á árinu 2016, nema 4,3 ma.kr. sem er 16,8% lækkun á milli ára. Almennar vaxtabætur fá 26.107 einstaklingar og fækkar þeim um 12,1% á milli ára, en fjárhæðir vaxtabóta voru óbreyttar frá fyrra ári. Lækkun vaxtabóta nú eins og fyrri ár skýrist fyrst og fremst af betri eiginfjárstöðu heimila sem batnaði sem fyrr segir um 13,4% á síðasta ári samanborið við árið 2015. Nýting iðgjalda af séreignarsparnaði til greiðslu íbúðarskulda skiptir þar máli og sömuleiðis lækkun vaxta og auknar tekjur og þar með lækkandi vaxtabyrði.
  • Inneign framteljenda að lokinni álagningu er alls 21,4 ma.kr. en 3,5 ma.kr. af henni verður ráðstafað upp í kröfur vegna vangoldinna gjalda. Eftir standa því alls 17,9 ma.kr. sem liðlega 160 þúsund manns eiga í inneign hjá ríkissjóði nú um mánaðarmótin. Þar er um að ræða endurgreiðslu á ofgreiddum sköttum, barnabætur og vaxtabætur. Þar af eru 16,5 ma. lagðir beint inn á bankareikninga. Fjöldi þeirra sem ríkið á kröfu á, svo sem vegna vangreiddra staðgreiðsluskyldra skatta eða eftirágreiddra skatta sem verða á gjalddaga á síðari hluta ársins, er um 130 þúsund manns. Sú fjárhæð nemur alls 46 ma.kr. en hjá hluta þessa hóps koma barnabætur á móti.



  • Heildarfjárhæðin sem greidd er út við álagninguna hækkar úr 17,3 ma.kr. í 17,9 ma.kr. milli ára. Hækkunin skýrist einkum af ofgreiddri staðgreiðslu tekjuskatts og útsvars. Þá mun ríkissjóður auk þess greiða 2,5 ma.kr. í barnabætur við fjórðu útborgun þeirra þann 1. október nk.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum