Hoppa yfir valmynd
Forsætisráðuneytið

Erlendir sérfræðingar veita ráðgjöf um mótun íslenskrar peninga- og gengisstefnu til framtíðar

Í mars sl. skipaði forsætisráðherra þriggja manna verkefnisstjórn til að leggja mat á peninga- og gengisstefnu Íslands eftir losun fjármagnshafta. Í verkefnisstjórninni sitja Ásgeir Jónsson, Ásdís Kristjánsdóttir og Illugi Gunnarsson. Markmið endurskoðunarinnar er að finna þann ramma peningastefnu sem til lengri tíma litið er heppilegastur til að styðja við efnahagslegan og fjármálalegan stöðugleika hérlendis. 

Verkefnisstjórnin hefur frá þessum tíma átt fjölmarga fundi með fulltrúum úr fræðasamfélaginu, frá þeim  stofnunum sem koma að framfylgd peningastefnunnar og hagsmunaaðilum, auk þess að funda með þingflokkum. Þá hefur nefndin átt fundi með fulltrúum frá seðlabönkum og fjármálaráðuneytum í Danmörku, Noregi og Svíþjóð, og öðrum erlendum sérfræðingum.

Nokkrir erlendir sérfræðingar hafa nú þegar þegið boð verkefnisstjórnarinnar um að veita stjórnvöldum ráðgjöf um peninga- og gengisstefnu til framtíðar. Þar ber fyrst til að telja Patrick Honohan, fyrrum seðlabankastjóra Írlands, og Athanasios Orphanides, prófessor við MIT-háskóla og fyrrum seðlabankastjóra Kýpur, sem munu meta reynsluna af verðbólgumarkmiði fyrir Ísland og reifa hugsanlegar umbætur. Sebastian Edwards, prófessor við UCLA-háskóla mun sérstaklega meta aðra valmöguleika peningastefnu fyrir Ísland en núverandi verðbólgumarkmið. Þá mun Lars Jonung, prófessor við Háskólann í Lundi og Fredrik N. G. Andersson dósent við sama skóla fjalla um íslenska peningastefnu í norrænum samanburði. 

Viðfangsefni verkefnisstjórnarinnar eru samkvæmt verklýsingu:

  1. Meta skal peningastefnuna síðustu áratugi að því marki sem það hefur ekki verið gert í fyrri vinnu, til dæmis í skýrslu Seðlabankans frá 2012, „Valkostir Íslands í gjaldmiðils og gengismálum“.
  2. Greint verði hvaða umbætur hægt væri að gera, að því gefnu að halda skuli í megineinkenni núverandi peningastefnu sem byggir á verðbólgumarkmiði. Hér mætti nefna breytingar á viðmiði verðbólgumarkmiðs, sveigjanleika og tímaviðmið, beitingu tækja Seðlabankans og öðrum þáttum sem lúta að framkvæmd Seðlabankans sjálfs (sbr. yfirlýsingu um verðbólgumarkmið frá árinu 2001). Þær gætu líka falist í breytingum á samspili við aðra þætti eins og efnahagsstefnu opinberra aðila eða bættum starfsháttum hjá aðilum vinnumarkaðarins.
  3. Aðrir valkostir við peningamálastjórnun skulu greindir og metnir. Þar með teljast útfærslur á gengismarkmiði, til dæmis með hefðbundnu fastgengi eða fastgengi í formi myntráðs. Litið verði til reynslu annarra landa af svipuðu fyrirkomulagi hvað það varðar og tilhögunin útfærð að því marki sem þarf til að bera hana saman við niðurstöðuna samkvæmt lið 2.
  4. Kostir og gallar peningastefnu skv. liðum 2 og 3 verði bornir ítarlega saman með tilliti til framlags peningastefnunnar, í samspili við aðra hagstjórn til efnahagslegs og fjármálalegs stöðugleika.

 

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira