Hoppa yfir valmynd
Dómsmálaráðuneytið

Reglugerð um útlendinga breytt

Breyting á reglugerð um útlendinga, nr. 540/2017, tók gildi 30. ágúst sl. Breytingin felur m.a. í sér nánari útfærslu á meðferð forgangsmála hjá Útlendingastofnun. Þau varða umsóknir einstaklinga frá ríkjum sem stofnunin metur sem örugg upprunaríki auk annarra bersýnilega tilhæfulausra umsókna.

Með breytingunni er Útlendingastofnun veitt heimild til að hraða málsmeðferð eins og unnt er. Þannig fær stofnunin skýra heimild til að taka ákvarðanir í forgangsmálum strax að fyrsta viðtali loknu og án skriflegs rökstuðnings. Þá er með breytingunni áréttuð sú stefna stjórnvalda að brottvísa þeim einstaklingum sem leggja fram tilhæfulausar umsóknir um alþjóðlega vernd hér á landi en brottvísun felur í sér endurkomubann á Schengen-svæðið í ákveðinn tíma.

Þá er einnig að finna heimild fyrir Útlendingastofnun til að fella niður þjónustu við þá sem koma frá öruggum upprunaríkjum og þá sem teljast vera með bersýnilega tilhæfulausa umsókn um leið og ákvörðun liggur fyrir. Auk þess sem heimilt er að veita ekki framfærslufé eftir að umsókn er dregin til baka eða ákvörðun liggur fyrir. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira