Velferðarráðuneytið

Fjárlagafrumvarpið: Aukin áhersla á atvinnutengda starfsendurhæfingu

Tæpum 270 milljónum króna verður varið til aukinna verkefna á næsta ári sem eiga að styðja við atvinnuþátttöku fólks sem stendur höllum fæti á vinnumarkaði, líkt og fram kemur í fjárlagafrumvarpinu. 

Rúmum 80 milljónum króna verður varið í að fjölga vinnusamningum öryrkja, 20 milljónir króna eru merktar Vinnumálasatofnun til að efla þjónustu við fatlaða atvinnuleitendur og 75 milljónum króna verður varið til þess að lengja það tímabil sem heimilt er að greiða fólki endurhæfingarlífeyri. Um 90 milljónum króna verður varið til þess að undirbúa innleiðingu starfsgetumats eftir því sem það á við.

Fjölgun vinnusamninga

Í ríkisfjármálaáætlun er gert ráð fyrir að vinnusamningum öryrkja verði fjölgað úr 750 á árinu 2017 í 1.150 árið 2020. Fyrsta skrefið að því markmiði verður tekið á næsta ári en horft er til mikilvægi þess að öryrkjum og fötluðu fólki gefist kostur á vinnusamingum í samræmi við getu og þarfir.

Almenn þátttaka á vinnumarkaði er talin ein þýðingarmesta leiðin til að koma í veg fyrir félagslega einangrun og fátækt. Mikilvægt er því að sem flestir geti verið virkir þátttakendur á vinnumarkaði án tillits til fötlunar eða skertrar starfsgetu en virkni í samfélaginu, þar með talið á vinnumarkaði, er einnig liður í auknum lífsgæðum. Af hálfu félags- og jafnréttismálaráðherra er því lögð þung áhersla á að tryggja nægjanlegt fjármagn til að unnt sé að veita þeim sem heltast úr lestinni af vinnumarkaði snemmbæra aðstoð til að koma í veg fyrir langvarandi fjarveru á vinnumarkaði. Áfram er ráðgert að veita fólki svigrúm til að leita sér að vinnu í þrjá til sex mánuði áður en við tekur einstaklingsmiðuð ráðgjöf starfs- og námsráðgjafa hjá Vinnumálastofnun. Að þeim tíma liðnum er gert ráð fyrir öflugri ráðgjöf þannig að fólk verði komið með starf við hæfi, í nám eða með starfsþjálfunarsamning innan við níu mánuði frá því það leitaði fyrst til Vinnumálstofnunar. Áhersla er jafnframt lögð á mikilvægi þess að atvinnutengd starfsendurhæfing skili þeim árangri að einstaklingar geti aftur orðið virkir á vinnumarkaði eða hafið nám að henni lokinni. Aukið fé í ráðgjöf Vinnumálastofnunar og fjölgun vinnusamninga öryrkja miða að þessu marki.

„Við eigum að leggja kapp á að skapa fötluðu fólki og öllum þeim sem af einhverjum ástæðum eru með skerta starfsgetu fleiri tækifæri til virkni í samfélaginu. Það er einnig mikilvægt að atvinnurekendur leggi sitt af mörkum í þessu skyni og sýni sveigjanleika hvað þetta varðar eins og kostur er“ segir Þorsteinn Víglundsson félags- og jafnréttismálaráðherra

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn