Velferðarráðuneytið

Heilbrigðismál: Bætt aðgengi að þjónustu forgangsverkefni

Fjárlagafrumvarp næsta árs endurspeglar stefnu stjórnvalda í heilbrigðismálum með áherslu á uppbyggingu Nýs Landspítala, eflingu geðheilbrigðisþjónustu, bætt aðgengi að grunnþjónustunni og verkefni sem miða að því að styrkja lýðheilsu segir Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra.

Nýmæli er að fjárlagafrumvarpinu fylgir áætlun um frekari útgjöld til einstakra málaflokka á næstu þremur árum: „Með þessu móti er unnt að draga upp skýrari mynd af því hvert er inntakið í stefnu okkar á sviði heilbrigðismála og hvernig hún mun raungerast með markvissri áætlun um fyrirhuguð útgjöld til næstu ára“ segir heilbrigðisráðherra. Þá sýni ríkisfjármálaáætlunin þetta enn frekar þar sem hún geri grein fyrir áformuðum útgjöldum til einstakra málaflokka allt til ársins 2022.

Heildarútgjöld til heilbrigðismála árið 2018 verða tæpir 208 milljarðar króna sem er 13,5 milljarða króna aukning frá fyrra ári eða 6,9%. Þegar tekið hefur verið tillit til launa- og verðlagsbreytinga nemur aukningin 4,4%.

Nýr Landspítali er forgangsverkefni og verða framlög til nýframkvæmda aukin um 1,5 milljarða króna á næsta ári umfram það sem ráðgert var í fjármálaáætlun ríkisins. Um 400 milljónir króna verða veittar til viðhalds á eldra húsnæði spítalans. Rekstur jáeindaskanna hefst á næsta ári og eru 200 milljónir króna merktar rekstri hans. 

Til sjúkrahúsþjónustu renna tæpir 90 milljarðar króna samkvæmt fjárlagafrumvarpinu, til heilsugæslu 23,4 milljarðar og til lyfjamála 15,2 milljarðar króna. Framlög til hjálpartækja nema um 4,2 milljörðum, framlög til lækniskostnaðar sem sjúkratryggingar greiða nema 11,6 milljörðum, til tannlækninga renna tæpir 3,6 milljarðar króna og til þjálfunar tæpir 4 milljarðar króna.

Framlög til geðheilbrigðismála aukin og heilsugæslan efld

Á sviði geðheilbrigðismála verða framlög til þjónustu aukin um 105 milljónir króna á næsta ári samkvæmt fjárlagafrumvarpinu með framlögum til heilsugæslunnar og barna- og unglingageðdeildar Landspítala (BUGL). Samkvæmt ríkisfjármálaáætlun er gert ráð fyrir að árið 2022 verði búið að auka framlög til geðheilbrigðisþjónustu um rúman einn milljarð króna. Aukin framlög verða veitt á grundvelli stefnu og aðgerðaáætlunar í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára sem samþykkt var á Alþingi 29.apríl 2014.

Efling heilsugæslunnar á næsta ári lýtur meðal annars að því að fjölga sálfræðingum, setja á fót fleiri geðheilbrigðisteymi og efla hugræna atferlismeðferð. Samkvæmt ríkisfjármálaáætlun verður áfram unnið að því að efla heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað sjúklinga í heilbrigðiskerfinu með því að styrkja þverfaglega þjónustu hennar. Við lok tímabilsins sem ríkisfjármálaáætlunin tekur til eiga framlög til heilsugæslunnar að hafa aukist um 910 milljónir króna í þessu skyni.

Lækkun á greiðsluþátttöku sjúklinga fyrir heilbrigðisþjónustu var meginmarkmiðið með upptöku nýs greiðsluþátttökukerfis 1. maí síðastliðinn. Til næstu ára er horft til þess að greiðsluþátttakan lækki enn frekar og verði sambærileg og hjá nágrannaþjóðum á Norðurlöndunum. Við innleiðingu kerfisins var ákveðið að auka framlög hins opinbera til lækkunar á hlut sjúklinga sem svarar 1,5 milljörðum króna á ársgrundvelli og miðast framlög fjárlagafrumvarps næsta árs við það. Í ríkisfjármálaáætluninni er miðað við að árlegt heildarframlag til lækkunar á greiðsluþátttöku sjúklinga nemi rúmum 3,1 milljarði króna árið 2022.

Skilvirkari sjúkrahúsþjónusta, aukin teymisvinna og stytting biðlista eftir völdum aðgerðum eru áhersluþættir sem birtast í fjárlagafrumvarpinu og ríkisfjármálaáætluninni. Framlag til átaks um styttingu biðlista sem hófst árið 2016 verður 840 milljónir króna á næsta ári. Með hliðsjón af skýrslu McKinsey um fullnýtingu tækifæra Landspítala verður veitt auknu fé til að efla teymisvinnu og samvinnu stofnana og auka með því gæði þjónustunnar. Framlag til þessa verkefnis verður 70 milljónir á næsta ári og eykst ár frá ári til ársins 2022 þegar miðað er við að árleg viðbótaraukning nemi tæpum einum milljarði króna. 

Forvarnir efldar og gagnvirk heilsugátt fyrir sjúklinga opnuð

Forvarnir verða efldar, m.a. með reglubundinni skimun fyrir ristilkrabbameini sem hefst á næsta ári. Framlög til verkefnisins verða 70 milljónir króna á næsta ári en verða auknar upp í 260 milljónir króna á ársgrundvelli árið 2021 þegar verkefnið hefur verið innleitt að fullu. Framhald verður á stuðningi við heilsueflandi samfélög með innleiðingu lýðheilsuáherslna í stefnumótun á öllum sviðum.

Gagnvirk heilsugátt og þjónustusími fyrir sjúklinga eru meðal verkefna sem fá framlög samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs. Markmiðið er að gera fólki mögulegt að sækja sér fræðslu, ráðgjöf og þjónustu í auknum mæli með gagnvirkri þjónustu á vefnum. Þjónustusíminn er einnig ætlaður til að bæta aðgengi fólks að þjónustu heilbrigðiskerfisins og ráðgjöf fagfólks. Alls verða veittar 90 milljónir króna til þessara verkefna á næsta ári.

Rafræn sjúkraskrá er mikilvæg m.a. til þess að meta árangur heilbrigðisþjónustu, til gæðaþróunar og gæðaeftirlits. Undanfarin ár hefur verið lögð áhersla á að auka aðgengi einstaklinga að eigin heilbrigðisupplýsingum, m.a. til að notendur heilbrigðisþjónustu séu í auknum mæli upplýstir og virkir þátttakendur í eigin meðferð. Þróun rafrænnar sjúkraskrár heldur áfram hjá Embætti landlæknis og verður 50 milljónum króna varið til þeirrar vinnu samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn