Hoppa yfir valmynd
21. september 2017 Heilbrigðisráðuneytið

WHO: Varað við sýklalyfjaþurrð á heimsvísu

Varað er við því í nýrri skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) að heimurinn geti orðið uppiskroppa með sýklalyf þar sem allt of litlum fjármunum sé varið í rannsóknir og þróun á nýjum sýklalyfjum til að mæta vaxandi vanda vegna sýklalyfjaónæmra baktería.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur skilgreint sýklalyfjaónæmi sem eina af stærstu heilbrigðisógnum heimsins. 

Í tilkynningu með útgáfu skýrslunnar í gær er haft eftir Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóra WHO, að verði fjárfestingar í rannsóknum og þróun nýrra sýklalyfja ekki stórauknar geti það leitt til slíks bakslags að fólki muni stafa ógn af venjulegum sýkingum og einföldum skurðaðgerðum líkt og fyrr á árum.

Í skýrslunni kemur fram að stærstur hluti þeirra sýklalyfja sem nú eru í þróun séu ekki ný, heldur tilbrigði við þau sýklalyf sem þegar eru í notkun og feli því aðeins í sér skammtímalausnir. Fá meðferðarúrræði séu fyrir hendi gagnvart sýklalyfjaónæmum sýkingum sem WHO hefur tilgreint að mest ógn stafi af, svo sem fjölónæmum berklum sem árlega verða um 250.000 manns að aldurtila.

Þann 4. september síðastliðinn skuldbundu Þýskaland, Lúxemborg, Holland, Suður-Afríka, Sviss, Bretland og Norður-Írland sig til að leggja rúmlega 56 milljónir evra til samstarfs um rannsóknir og þróun sýklalyfa (Global Antibiotic Research and Development Partnership).

Haft er eftir yfirmanni alþjóðlegs verkefnis WHO gegn berklum að ef takast eigi að útrýma berklum þurfi að leggja meira en 800 milljónir bandaríkjadala árlega í þróun nýrra lyfja.

Í tilkynningu WHO er bent á að þeirri ógn sem stafar af sýklalyfjaónæmum bakteríum verði ekki einungis mætt með nýjum lyfjum. Af hálfu stofnunarinnar sé unnið að því með aðildarþjóðunum og ýmsum samstarfsaðilum að bæta sýkingavarnir og eftirlit og stuðla að skynsamlegri notkun sýklalyfja. Þá kemur einnig fram að WHO vinni að þróun leiðbeininga um ábyrga notkun sýklalyfja í mönnum og dýrum og til notkunar í landbúnaði.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum