Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Frá ársfundi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga

Frá ársfundi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga - mynd

Ársfundur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga fór fram í dag. Sóttu hann fulltrúar sveitarstjórna landsins, fulltrúar Jöfnunarsjóðs og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins auk gesta.

Kynnt var skýrsla sjóðsins fyrir liðið ár, ársreikningar, tillögur nefndar um endurskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðs og fjallað var um gögn á ytri vef Jöfnunarsjóðs.

Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, ávarpaði fundinn í upphafi og sagði umfang sjóðsins mikið, framlög hefðu á síðasta ári numið 44 milljörðum króna sem rynnu til hinna fjölbreyttu verkefna sem sveitarstjórnarstigið annast. Ráðherra sagði Jöfnunarsjóð hafa starfað óslitið síðan 1937 og að hann kæmi við sögu á fjölbreytilegan hátt, t.d. þegar vatnsveitur á lögbýlum væru annars vegar, þegar ungmenni sækja tónlistarnám, þegar aka þarf börnum í skóla, þegar tekjur af fasteignaskatti sveitarfélaga snöggminnka og þannig mætti lengi telja.

Ráðherra sagði regluverk sjóðsins hafa breyst í gegnum árin og honum hefðu verið falin sífellt aukin verkefni. Hann sagði kynntar verða á fundinum tillögur um breytingar á jöfnunarframlögum Jöfnunarsjóðs sem nefnd undir forystu Kristins Jónassonar, bæjarstjóra Snæfellsbæjar, hefði unnið að. Ráðherra sagði mikilvægt að stíga varlega til jarðar í breytingum og að tillögurnar yrðu eflaust umdeildar en nauðsynlegt væri að fjalla ítarlega um þær og fá niðurstöðu.

Einnig minntist ráðherra á nýlega útkomna skýrslu nefndar um stöðu og framtíð sveitarfélaga. Nefndarmenn hefðu lagt mikla vinnu í fundahöld, samráð, heimsóknir og könnun og skilað áhugaverðum tillögum – meðal annars um hvort setja ætti ákvæði um lágmarksfjölda íbúa sveitarfélaga. Hann kvaðst hafa falið Gunnari Einarssyni, bæjarstjóra Garðabæjar, að taka þessa umræðu áfram en með honum í því verkefni verða Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir sem var formaður nefndarinnar um stöðu og framtíð sveitarfélaga, og Steinunn María Sveinsdóttir, bæjarfulltrúi á Siglufirði. Þeim til ráðgjafar verður Magnús Karel Hannesson, fyrrverandi sviðsstjóri hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Guðni Geir Einarsson, sérfræðingur hjá Jöfnunarsjóði greindi frá helstu atriðum í starfsemi sjóðsins á liðnu ári og fór yfir ársreikninginn. Kom þar fram að framlög á síðasta ári námu alls 44 milljörðum króna en meðal helstu framlaga eru framlög til málefna fatlaðs fólks sem námu rúmlega 14 milljörðum, jöfnunarframlög voru um 10 milljarðar, sérstök framlög rúmlega 9 milljarðar og framlög til reksturs grunnskóla námu rúmlega 9 milljörðum.

Kristinn Jónasson, bæjarstjóri í Snæfellsbæ, kynnti áfangaskýrslu nefndar um endurskoðun á jöfnunarframlögum Jöfnunarsjóðsins. Ásamt honum sátu í nefndinni Guðný Sverrisdóttir, formaður ráðgjafarnefndar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar, Sigurður Á. Snævarr, sviðsstjóri hag- og upplýsingasviðs hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Stefán Eiríksson borgarritari, Guðrún Ögmundsdóttir sérfræðingur og Sigurður Guðmundsson sérfræðingur, bæði frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

Nefndin leggur til að tilteknar breytingar verði strax gerðar á regluverki sjóðsins en að umfangsmeiri breytingar þurfi lengri aðdraganda en þær snúast meðal annars um að öll helstu jöfnunarframlög verði sameinuð í eitt jöfnunarkerfi. Lagði Kristinn áherslu á í framsögu sinni að þetta væru tillögur nefndarinnar sem ráðherra fengi nú til umfjöllunar.

Að loknu erindi Kristins fjallaði Þröstur Sigurðsson, fulltrúi Capacent, um framsetningu gagna á ytri vef Jöfnunarsjóðsins sem snúast meðal annars um framlög sjóðsins til sveitarfélaganna og hvernig hægt er að eiga gagnvirk samskipti varðandi slík gögn.

 

 

  • Kristinn Jónasson kynnti tillögur um breytingar á jöfnunarframlögum Jöfnunarsjóðs.
  • Jón Gunnarsson flytur ávarp í upphafi ársfundar Jöfnunarsjóðs.
  • Frá ársfundinum í dag.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn