Hoppa yfir valmynd
20. október 2017 Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Sviðsmynd um aðgerðir til að draga úr losun kynnt á Umhverfisþingi

Sigurður Ingi Friðleifsson kynnti samantekt sína og framtíðarsýn á Umhverfisþingi í dag - mynd

Áætla má að Ísland þurfi að minnka árlegan útblástur gróðurhúsalofttegunda um allt að milljón tonn koldíoxíðs fyrir 2030. Hægt væri að ná um helmingi þessa samdráttar með aðgerðum í samgöngum. Þetta kemur fram í nýrri samantekt Sigurðar Inga Friðleifssonar, sem hann vann fyrir umhverfis- og auðlindaráðherra og kynnti á Umhverfisþingi í dag.

Sigurður Ingi starfaði sem sérfræðingur með verkefnisstjórn um aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, sem ríkisstjórnin skipaði fyrr á árinu. Hlé varð á starfi verkefnisstjórnar við ríkisstjórnarslitin í síðasta mánuði, en samantektina byggir Sigurður á megináherslum aðgerðaáætlunarinnar og vinnu faghópa. Um er að ræða eina sviðsmynd af mörgum sem gætu náð markmiðum um 35-40% minni losun 2030 en var árið 1990.

Auk aðgerða á sviði samgangna er í samantektinni bent á aðgerðir til að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis, sér í lagi í sjávarútvegi, sem skilað gætu samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda um allt að 175 þúsund tonn. Þá er bent á aðgerðir í landbúnaði, vegna rafmagns og húshitunar sem og á sviði úrgangsmála sem samtals gætu skilað samdrætti upp á 325 þúsund tonn. Þannig er brugðið upp sviðsmynd með aðgerðum til að mæta þeim 1000 tonna árlega samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda, sem skuldbindingar Íslands kveða á um.

Í samantektinni er bent á tilteknar aðgerðir sem ráðast má í til að ná þessum markmiðum, auk þess sem rætt er um nauðsynlegar kerfisbreytingar sem höfundur telur nauðsynlegar til að ná markmiðum um samdrátt í losun, í samræmi við þá sviðsmynd sem fjallað er um. 

Milljón tonn – sviðsmynd til 2030, samantekt Sigurðar Inga Friðleifssonar (pdf-skjal)

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira