Hoppa yfir valmynd
Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Samningur undirritaður um menningarsamstarf Íslands, Færeyja og Grænlands

Doris J. Jensen menntamálaráðherra Grænlands, Kristján Þór Júlíusson og Rigmor Dam menntamálaráðherra Færeyja - mynd
Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra, Rigmor Dam menntamálaráðherra Færeyja og Doris J. Jensen menntamálaráðherra Grænlands undirrituðu í dag, 1. nóvember 2017, samstarfssamning milli landanna um menningarmál.

Markmiðið með samningnum er að auka og efla samstarf landanna þriggja á sviði menningar og þróa sköpunarkraft og gæði samstarfsins til hagsbóta og ávinnings fyrir öll löndin þrjú. Leitast verður við að efla og auka samstarfið með notkun upplýsingatækni.

Löng hefð er fyrir samstarfi Færeyja, Grænlands og Íslands á sviði menningar en fyrsti samstarfssamningurinn á sviði menningar, rannsókna og menntunar var gerður árið 1996.

Í samningnum er aðeins minnst á eitt verkefni, Vestnorræna daginn. Honum var hleypt af stokkunum í framhaldi af tilmælum Vestnorræna ráðsins árið 2008 og hefur hann allt frá því verið haldinn á hverju ári samtímis í öllum þremur löndunum. Um önnur verkefni er samið á fjögurra ára fresti og skiptast löndin á að bera ábyrgð á framkvæmd þeirra.
Næstu fjögur árin munu löndin vinna saman á sviði kvikmynda, tölvuleikja, frjálsra félagasamtaka og tungumála.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira