Velferðarráðuneytið

Fjárlagafrumvarpið: Aukin framlög til heilbrigðismála

Aðgerð í undirbúningi - myndvelferðarráðuneytið

Framlög til heilbrigðismála verða aukin um 21,5 milljarð króna samkvæmt fjárlagafrumvarpinu. Heilbrigðisráðherra leggur áherslu á jafnt aðgengi allra að heilbrigðisþjónustu, óháð efnahag og búsetu, og fjárlagafrumvarpið ber þess merki. Sjúkrahúsþjónustan verður styrkt, geðheilbrigðisþjónusta sömuleiðis, þverfaglegt starf í heilsugæslu verður eflt og áhersla er lögð á að bregðast við útskriftarvanda Landspítalans með ýmsum aðgerðum.

Nýr Landspítali

Framlög vegna uppbyggingar Nýs Landspítala verða aukin um 1,27 milljarða króna. Unnið er að fullnaðarhönnun meðferðarkjarna, auk þess sem útboð á fullnaðarhönnun rannsóknarhúss er í undirbúningi.

Þjónusta stóru sjúkrahúsanna efld og aukið fé til viðhalds

Aukin framlög til sjúkrahúsþjónustu Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri nema um 8,56 milljörðum króna í fjárlagafrumvarpi næsta árs. Þar af eru 200 milljónir króna sem eru sérstaklega ætlaðar til að efla geðheilbrigðisþjónustu sjúkrahúsanna. Barna- og unglingageðdeild Landspítalans fær að auki 45 milljóna króna framlag til að efla þjónustu sína og er það liður í því að framfylgja aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum.

Landspítalinn fær 340 milljóna króna framlag sem ætlað er til reksturs jáeindaskanna sem hefst á næsta ári. Landspítalinn fékk á þessu ári 1,0 milljarð króna til að sinna viðhaldi og viðgerðum á húsnæði sínu. Fjármunir til þessara verkefna verða auknir á næsta ári og er gert ráð fyrir að sjúkrahúsið fái þá 1,4 milljarða króna til viðhalds. Í þessu felst að sjúkrahúsið fær 1,6 milljarð króna í viðhaldsverkefni til viðbótar þeim 723 milljónum króna sem fyrir eru í rekstrargrunni spítalans.

Til að bregðast við útskriftarvanda á Landspítala verður sérstök útskriftardeild á Landakoti fest í sessi með 330 milljóna króna framlagi. Enn fremur verða 50 milljónir króna veittar til að efla göngudeildarþjónusta spítalans. Nýja sjúkrahótelið á lóð Landspítalans við Hringbraut verður opnað á næsta ári og er fyrirsjáanlegt að með tilkomu þess styttist meðallegutími sjúklinga á spítalanum sem dragi úr álagi og þar með þeim útskriftarvanda sem við er að etja. Framlög til Vífilsstaða verða hækkuð um 170 milljónir króna til að styrkja rekstur deildarinnar og fjölga hjúkrunarrýmum fyrir aldraða sem bíða eftir útskrift af Landspítala.

Til tækjakaupa á sjúkrahúsum og heilbrigðisstofnunum verða veittar 517 milljónir króna, þar af 200 milljónir króna til heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni. Landspítalinn fær jafnframt af þessari fjárhæð 225 milljóna króna tímabundna fjárveitingu til tækjakaupa fyrir brjóstamiðstöð á Landspítala. 

Þjónusta við þolendur kynferðisofbeldis á landsbyggðinni verður efld með 20 milljóna króna auknu framlagi til neyðarmóttökunnar á Landspítalanum sem er merkt sérstaklega í þessu skyni.

Heilsugæsla og þjónusta utan sjúkrahúsa

Aukin framlög til heilsugæslu og annarrar þjónustu utan sjúkrahúsa nema 5,86 milljörðum króna samkvæmt fjárlagafrumvarpinu. Þar af verða framlög til heilsugæslunnar aukin um hálfan milljarð króna, meðal annars til að styrkja þverfaglega grunnþjónustu með aðkomu fleiri heilbrigðisstétta.

Geðheilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa: Um 60 milljónir króna verða veittar heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu til að fjölga sálfræðingum í samræmi við markmið geðheilbrigðisstefnu um að 9.000 íbúar séu að baki hverju stöðugildi sálfræðings í heilsugæslu. Þessu markmiði hefur þegar verið náð á landsbyggðinni. Sett verður á fót nýtt geðheilsuteymi á höfuðborgarsvæðinu og verða þau þar með tvö á höfuðborgarsvæðinu á næsta ári.

Skimun fyrir ristilkrabbameini hefst á næsta ári og renna til þess verkefnis um 70 milljónir króna. Byrjað verður að skima hjá aldurshópnum 60 – 69 ára en samkvæmt áætlun verður bætt við við nýjum aldurshópnum ár frá ári með auknum framlögum.

Tannlæknakostnaður aldraðra og öryrkja lækkar á næsta ári þar sem í fjárlagafrumvarpinu er ráðgert að verja um hálfum milljarði króna til að draga úr greiðsluþátttöku þeirra. Lækkun tannlæknakostnaðar hjá þessum hópum tekur gildi 1. júlí 2018.

Útgjöld til lyfjamála og innleiðing nýrra lyfja

Útgjöld til lyfjamála verða aukin um tæplega 5,4 milljarða króna. Þessi aukning er að mestu leyti til þess að mæta kerfislægum vexti og bregðast við vanáætlun útgjalda til málaflokksins í fjárlögum þessa árs. Jafnframt er skapað svigrúm til innleiðingar nýrra S-merktra lyfja og er áætlað að til þess renni um 700 milljónir króna.

Stefnumótun og stjórnsýsluumbætur

Mótun heilbrigðisstefnu verður sett í forgang og eru 40 milljónir merktar þeirri vinnu í fjárlagafrumvarpinu. Embætti landlæknis fær 250 milljónir króna í aukin framlög til að hraða vinnu við þróun rafrænnar sjúkraskrár á landsvísu til að auka gæði, öryggi og hagkvæmni innan heilbrigðiskerfisins.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn